138. löggjafarþing — 82. fundur
 25. feb. 2010.
afgerandi lagaleg sérstaða Íslands varðandi tjáningar- og upplýsingafrelsi, fyrri umræða.
þáltill. BirgJ o.fl., 383. mál. — Þskj. 688.

[16:10]
Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (Hr):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Meðflytjendur að þessu máli eru Atli Gíslason, Árni Þór Sigurðsson, Ásmundur Einar Daðason, Erla Ósk Ásgeirsdóttir, Eygló Harðardóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Lilja Mósesdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Vigdís Hauksdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson, Þór Saari, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Ögmundur Jónasson.

Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda verði tryggð.

Í þessu skyni verði:

a. gerð úttekt á lagaumhverfinu svo að hægt sé að afmarka viðfangsefnið og undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar eða nýja löggjöf,

b. litið til löggjafar annarra ríkja með það að markmiði að sameina það besta til að skapa Íslandi sérstöðu á sviði tjáningar- og upplýsingafrelsis,

c. komið á fót fyrstu alþjóðaverðlaununum sem kennd yrðu við Ísland, Íslensku tjáningarfrelsisverðlaununum.

Við starfið verði leitað aðstoðar sérfróðra erlendra aðila.

Markmiðið verði lýðræðisumbætur þar sem traustum stoðum verði komið undir útgáfustarfsemi og ásýnd landsins í alþjóðasamfélaginu efld.

Mennta- og menningarmálaráðherra upplýsi Alþingi um framfylgd verkefna innan Stjórnarráðsins skv. 1.–4. mgr. á þriggja mánaða fresti frá samþykkt ályktunarinnar.

Í greinargerð segir: Þingsályktunartillaga þessi er samin með stuðningi frá þingmönnum allra flokka. Fjölmargir virtir sérfræðingar og samtök, bæði innlend og erlend, hafa veitt ráðgjöf við vinnuna að þingsályktunartillögunni og hafa heitið áframhaldandi ráðgjöf til handa íslenskum yfirvöldum ef hún nær fram að ganga.

Framtíðarsýn fyrir Ísland: „Tjáningarfrelsi — sér í lagi fjölmiðlafrelsi — tryggir þátttöku almennings í ákvörðunum og framkvæmd ríkisvaldsins, þátttaka almennings er kjarni lýðræðis.“ — Corazon Aquino, þjóðkjörinn forseti Filippseyja (1986–1992).

Þjóðin stendur nú á krossgötum og breytinga á lagaumhverfi er þörf. Á slíkum tímum er nauðsynlegt að uppgjörið gangi ekki aðeins út á að horfast í augu við fortíðina heldur jafnframt að móta skýra framtíðarstefnu fyrir land og þjóð.

Tillögurnar í greinargerðinni eru til þess fallnar að umbreyta landinu þannig að hér verði framsækið umhverfi fyrir skráningu og starfsemi alþjóðlegra fjölmiðla og útgáfufélaga, sprotafyrirtækja, mannréttindasamtaka og gagnaversfyrirtækja. Slíkar breytingar mundu treysta stoðir lýðræðis, verða hvati til nauðsynlegra umbóta hérlendis og auka gagnsæi og aðhald. Stefnumörkunin gæti gefið þjóðinni aukið vægi á erlendum vettvangi og orðið lyftistöng í atvinnu- og efnahagsmálum. Þá er einnig lagt til að fyrstu alþjóðaverðlaunin sem kennd yrðu við Ísland yrðu að veruleika, Íslensku tjáningarfrelsisverðlaunin.

Meginþorri heimspressunnar er í þann mund að hasla sér völl á netinu, og þar með er útgáfa ekki lengur háð staðsetningu. Lesandinn yrði þess t.d. ekki var ef efni á vefsíðu The Guardian væri gefið út í Reykjavík eða New York. Á sama tíma er viðurkennt að vandaðri blaðamennsku er hætta búin.

Ákvörðunin um hvaðan netútgáfa er rekin er byggð á skilyrðum eins og t.d. fjarlægð og fjarskiptagetu, kostnaði við netþjóna, svo sem kælingu, og lagaumhverfi. Fyrstu tvö skilyrðin eru Íslandi í hag. Öflugir sæstrengir milli sumra stærstu markaðanna fyrir upplýsingaþjónustu og hrein orka og svalt loftslag gera landið að raunhæfum valkosti fyrir þá sem halda úti og reka netþjónustu.

Mögulegt er að hrinda í framkvæmd heildrænni stefnu til að tryggja lagaumhverfi til verndar málfrelsinu sem er nauðsynlegt fyrir þá sem stunda rannsóknarblaðamennsku eða gefa út efni sem telst mikilvægt í pólitísku samhengi. Upplýsingasamfélagið má sín lítils ef stöðugt er vegið að leiðum til að koma á framfæri upplýsingum sem viðurkennt er að almenningur eigi rétt á. Þótt sum lönd hafi lögfest fyrirmyndir á þessu sviði hefur ekkert ríki enn sameinað allt það besta til að skapa sér sérstöðu svo sem hér er kynnt. Ísland hefur því einstakt tækifæri til að taka afgerandi forustu með því að búa til traustvekjandi lagaramma sem væri byggður á bestu löggjöf annarra ríkja.

Dæmi um velheppnuð lög í þessa veru eru t.d. nýleg löggjöf frá New York ríki sem hindrar að hinni illræmdu bresku meiðyrðamálaflakkslöggjöf sem skerðir fjölmiðlafrelsi og tjáningarfrelsi sé beitt þar, belgísk lög frá árinu 2005 sem vernda samskipti blaðamanna við heimildarmenn sína og fjölmiðlafrelsislögin í Svíþjóð sem sett voru með stoð í stjórnarskrá.

Lagarammi byggður á þessum fyrirmyndum á einstökum sviðum og öðrum verndarákvæðum mun laða til landsins öflug fjölmiðla- og mannréttindasamtök sem eiga undir högg að sækja í heimalöndum sínum. Bresk útgáfufyrirtæki neyðast t.d. í auknum mæli til að fjarlægja greinar og upplýsingar úr gagnagrunnum sínum til að reyna að losna undan síauknum lögsóknum stórfyrirtækja og komast hjá leynilegum tilraunum til þöggunar. Heimspressan mun hafa tilhneigingu til að vekja athygli á lagarammanum og standa vörð um hann. Til lengri tíma litið mundi það styrkja lýðræðið hérlendis. Ekki er langt síðan við fengum smjörþefinn af svívirðilegri tilraun til þöggunar þegar Kaupþing fékk það í gegn í ágúst 2009 að lögbann var sett á fréttaflutning RÚV af lánabókum bankans.

Vegna traustrar fjölmiðlalöggjafar í Svíþjóð hafa margar virtar og mikilvægar fréttaveitur sem og mannréttindasamtök flutt rafræn aðsetur sín til landsins. Einnig má nefna að netmiðillinn Malaysia Today flutti starfsemi sína til Bandaríkjanna eftir ofsóknir í heimalandinu. Þar sem lögfræði- og málskostnaður fyrir þátttakendur í upplýsingahagkerfinu hefur farið úr böndunum vegna gallaðrar lagasetningar víða um heim leita sífellt fleiri logandi ljósi að landi sem setur málaferlum gegn útgefendum skýr mörk. Að öðrum kosti er geta þeirra skert til að miðla óhlutdrægum fréttum og upplýsingum.

Ekki verður metinn til fjár sá óbeini ávinningur sem umbætur á þessu sviði gætu falið í sér, en áhrifunum af því að tvinna óbeint saman áhuga heimspressunnar og hagsmunum þjóðarinnar má líkja við leiðtogafund Reagans og Gorbatsjovs. Sú tillaga sem hér hefur verið reifuð mundi marka Íslandi sérstöðu á alþjóðavettvangi og ávinna okkur velvilja og virðingu meðal annarra þjóða.

Það er erfitt að ímynda sér magnaðri upprisu lands úr rústum víðtækrar fjármálaspillingar og leyndarhyggju en að bjóða upp á viðskiptalíkan gagnsæis og réttlætis.

Frú forseti. Hvað þýðir þessi tillaga á mannamáli og hverju mun hún breyta fyrir okkur? Það er jú allt í lagi með tjáningar- og upplýsingafrelsi á Íslandi — eða hvað? Allir sem fylgst hafa með því mikla skipbroti sem hér varð tóku eftir því að fjölmiðlar okkar stóðu sig ekki sem skyldi þegar kom að því að halda þjóðinni upplýstri um þá vá sem stefndi í. Upplýsingaskylda opinberra stofnana er óljós og óskilvirk. Miklar og víðtækar rannsóknir eiga sér stað í dag um hvað fór úrskeiðis fyrir hrunið mikla en það er ljóst að við verðum að hafa einhverja stefnu og byrja að sníða löggjöf sem rennir styrkum stoðum undir þau grundvallarlýðræðislegu réttindi sem tillagan felur í sér. Nú er þjóðin orðin vel upplýst um hvað aflandseyjar eru sem og skattaskjól. Hugmyndafræðin á bak við slíkar svikamyllur er að raka til sín löggjöf annarra landa til að koma á þéttum leyndarhjúp til að fyrirtæki geti svindlað á löglegan hátt.

Í skugga leyndarhyggju er gróðrarstía spillingar og fjármálaglæpa. Okkar tillaga er byggð á andstæðu slíkrar hugmyndafræði. Hér er lagt til að samhæfa löggjöf sem tryggir hið gagnstæða, að gagnsæi og upplýsingar sem almenningur á rétt á að hafa aðgang að verði tryggt með löggjöf sem þegar hefur sannað sig annars staðar í heiminum. Með því að styrkja núgildandi löggjöf að fyrirmynd laga frá öðrum löndum njótum við jafnframt verndar ef sótt er að löggjöf okkar vegna smæðar landsins.

Hérlendis hefur oft verið rætt um að hérlendis vanti mikið upp á að heildræn löggjöf í viðamiklum samfélagsþáttum sé til staðar. Það er áberandi hve gloppótt löggjöf okkar er á flestum sviðum og er þá löggjöf sem tengist tjáningar- og upplýsingafrelsi ekki undanskilin. Þessi ályktun felur í sér heildræna sýn um hvert skuli stefnt og hvernig best sé að ná markmiðum sem stefnt er að. Með því að taka löggjöf sem hefur sannað gildi sitt frá löndum sem við berum okkur gjarnan saman við og búa til heildræna löggjöf sem tekur á öllum þáttum nútímafjölmiðlunar og upplýsingafrelsis getum við markað okkur ákveðna sérstöðu í heiminum með því að vera fyrst til að taka góða löggjöf og samræma hana í takt við þá staðreynd að fjölmiðlar eru í síauknum mæli að flytja sig yfir í netheima og þeir sem best þekkja til telja að á innan við áratug verði öll útgáfa komin á netið. Með því að hafa sett í lög heildrænt regluverk sem skýtur traustum stoðum undir mál-, tjáningar- og upplýsingafrelsi erum við jafnframt að marka stefnu um hvar við viljum staðsetja okkur sem þjóð í alþjóðasamhenginu til frambúðar.

Frú forseti. Á þjóðfundinum voru mörkuð þau gildi sem þjóðin vildi efla og gera að höfuðmarkmiðum samfélagsgerðar okkar. Orðið heiðarleiki gnæfði upp úr lokaniðurstöðum og er þjóðinni greinilega hugleikið, kannski ekki furða eftir allan þann óheiðarleika sem komið hefur fram í kjölfar hrunsins. Önnur hugtök sem stóðu upp úr sem grunngildi þjóðarinnar voru virðing, réttlæti, jafnrétti og frelsi. Sú stefna til framtíðar sem hér er kynnt rúmar öll þessi hugtök því að í frelsi til tjáningar og með auknu gagnsæi þrífst heiðarleikinn og jafnréttið.

Margur Íslendingurinn fylltist stolti þegar við fyrst þjóða studdum við bakið á Eystrasaltsþjóðunum þegar þær fóru fram á sjálfstæði frá Rússum. Það sama má segja þegar talað er um Ísland í samhengi við að hafa verið landið þar sem upphafið að endalokum kalda stríðsins var. Við höfum verið þjóð sem vill kenna sig við mannréttindi, frið og frelsi. Innan þessarar framtíðarsýnar rúmast öll þessi hugtök og stefna. Nú þegar hefur verið eftir okkur tekið í alþjóðasamfélaginu fyrir að hafa lagt af stað í þessa vegferð og mun ég koma nánar að því í næstu umferð þessarar umræðu.

Það hefur því verið mjög ánægjulegt að finna þann stuðning sem þetta frekar flókna verkefni hefur notið meðal fjölmargra þingmanna. Við höfum farið ótroðnar slóðir í vinnslu og þróun á þessari þingsályktunartillögu vegna þess hve víðtækum breytingum hún kallar eftir. Við efndum því til tveggja kynningarfunda fyrir þingmenn þar sem þeim gafst kostur á að spyrja erlenda og íslenska sérfræðinga sem hafa aðstoðað og veitt ráðgjöf í tengslum við ályktunina. Við höfum jafnframt kynnt þetta fyrir fjölda aðila, fyrirtækja og stofnana sem þessar lagabreytingar munu hafa áhrif á og í hvívetna mætt miklum áhuga og jákvæðni. Okkur stendur jafnframt til boða að fá í heimsókn þrjá breska þingmenn sem hafa áhuga á að kynna fyrir okkur hve bág staða tjáningarfrelsis er þarlendis.

Frú forseti. Úti í samfélaginu er kallað eftir samstöðu þingmanna, sem og hér innan þingsins. Nú er kjörið tækifæri fyrir okkur til að sýna þjóðinni að við getum unnið saman að viðamiklum málum sem marka skýra stefnu til framtíðar, stefnu sem nú þegar hefur fært okkur velvild um heim allan. Virtir fjölmiðlar, eins og The Guardian , New York Times , BBC , TV2 , Al-Jazeera sem og óteljandi útvarpsstöðvar og prentmiðlar, hafa fjallað um málið. Þetta er mikilvæg landkynning og jafnframt mikilvægur áfangi í að efla styrk þingsins með samvinnu okkar sem hér störfum. Legg ég því til að við stofnum sérstakan þverpólitískan vinnuhóp sem muni halda áfram að vinna að því að gera þessa framtíðarsýn tjáningarfrelsis og mannréttinda að veruleika á meðan þetta er í vinnslu hér innan húss því að þó að ég mæli fyrir þessu lít ég ekki svo á að þessi sýn sé einkaréttarvarin heldur sameiginleg sýn á verkefni okkar sem að þessu stöndum.

Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands, hefur komið að þessu verkefni. Hann er erlendis á vegum þingsins og því ætla ég að leyfa mér að vitna í það sem haft var eftir honum um verkefnið við The Guardian , með leyfi forseta:

„Þetta er gott verkefni til að breyta stjórnmálum. Við höfum gengið í gegnum erfiða tíma og hér er á ferðinni frumkvöðlastarf sem hefur eiginleika til að sameina hið pólitíska svið í heild sinni.“

Svo langar mig að nota tækifærið og þakka öllum þeim sem hafa komið að vinnslu ályktunarinnar, sérstaklega starfsfólki þingsins á nefndasviði fyrir frábær og fagleg vinnubrögð.



[16:25]
Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Til umræðu er sú tillaga til þingsályktunar að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis.

Ég fagna þessari ályktun sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir á frumkvæði að og er nú hér til umfjöllunar en það er jafnframt fagnaðarefni að fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi séu meðflutningsmenn á þessari tillögu. Tillagan felur í sér framtíðarsýn fyrir íslenskt þjóðfélag þar sem lagt er upp með aukið gagnsæi starfa hins opinbera, aukið aðgengi almennings að upplýsingum og styrkingu fjölmiðla og tjáningarfrelsis. Við stöndum á tímamótum sem þjóð eftir hrun fjármálakerfisins. Áhrifa hrunsins gætir víða í samfélaginu og endurreisnarstarfið mun taka okkur talsverðan tíma. Ég tel mikilvægt í því samhengi að endurskoða í hvernig samfélagi við viljum búa og hverjar áherslur okkar eiga að vera. Kerfið sem við búum við er skapað af Alþingi og það er okkar að gera lagfæringar á því sem okkur finnst vera ábótavant eða úr sér gengið. Ég tel að nú sé réttur tímapunktur til að endurskoða þá þætti sem okkur finnst að betur mættu fara í okkar þjóðfélagi.

Núverandi ástand kallar á endurmat á flestum sviðum samfélagsins og nú er svigrúm fyrir hugarfarsbreytingu. Nú er unnið að rannsókn á hruni fjármálakerfisins sem er mikilvægur þáttur í endurreisnarstarfinu og einn liður í því að gera upp fortíðina. Á sama tíma má samt ekki gleyma mikilvægi þess að leysa þau vandamál sem við okkur blasa í dag hratt og vel þannig að við getum komist saman út úr þessum erfiðu aðstæðum en það verður einungis gert með frekari úrræðum fyrir heimilin og eflingu atvinnulífsins. Í mínum huga eru þetta tvö mikilvægustu málin sem við eigum að vera að fást við í dag.

Mér hefur hins vegar fundist skorta á umræðu um framtíðina, þ.e. í hvernig þjóðfélagi viljum við búa og hver er framtíðarsýn okkar fyrir íslenska þjóð. Það er mjög brýnt að rætt verði um þessi mál á Alþingi. Við verðum að horfast í augu við það að sístækkandi hópur sér ekki fyrir sér framtíðina á Íslandi. Aldrei hafa fleiri einstaklingar flutt af landi brott en á síðasta ári. Unga fólkið er að missa trúna á Íslandi sem framtíðarbúsetustað, enda ekkert skrýtið þar sem atvinnutækifærum fer sífækkandi, laun lækka, kaupmáttur rýrnar og skattar hækka. Þetta er ekki sú framtíðarsýn sem við viljum búa við eða bjóða íslenskri þjóð upp á, svo ekki sé minnst á trúverðugleika okkar þingmanna sem fer þverrandi.

Við verðum að sýna fram á að við getum unnið saman að heill íslenskrar þjóðar og bjartri framtíð og ég tel að þessi þingsályktunartillaga sé einn liður í því þar sem þingmenn allra flokka á Alþingi taka höndum saman. Þannig mætti það vera í fleiri málum á Alþingi.

Við sjálfstæðismenn erum með á ályktuninni en setjum þó fram nokkra fyrirvara við það sem sett er fram í greinargerðinni og ég mun stikla á þeim á eftir. Þar vil ég í tengslum við þetta minnast á að ábyrgð fjölmiðla er gríðarlega mikil og hún er lykilþátturinn í því fjölmiðlafrelsi sem við höfum á Íslandi og til þess að það geti ríkt. Við treystum fjölmiðlum til að fara með þessa ábyrgð.

Ég ætla að fara stuttlega yfir hvern lið fyrir sig í greinargerðinni. Í henni er talað um heimildavernd. Í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir að skoðað verði sérstaklega að styrkja vernd heimildarmanna fjölmiðla umfram það sem nú er gert í lögum þannig að dómarar geti ekki þvingað menn til að gefa upp heimildarmenn sína. Það er vel, enda styttist í að lög um fjölmiðla verði tekin upp að nýju og þar gefst tækifæri til að fjalla um þetta mál sérstaklega.

Hvað varðar vernd uppljóstrara er gríðarlega mikilvægt að ekki verði ýtt undir lögbrot með neinum hætti eða einstaklingar hvattir til þess. Hins vegar þarf að skoða vernd uppljóstrara sérstaklega. Ég sé aftur á móti enga ástæðu til að veita órjúfanlegan rétt til að afhenda þingmönnum upplýsingarnar. Hins vegar þarf að skoða hugsanlegar leiðir opinberra starfsmanna til að upplýsa um mál sem þeir verða varir við í störfum sínum er ganga gegn lögum og almannahagsmunum. Við megum samt ekki gleyma því að opinberir starfsmenn eru stundum að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar um venjulegt fólk úti í bæ. Uppljóstraravernd má aldrei verða skálkaskjól fyrir opinbera starfsmenn til að upplýsa að óþörfu um viðkvæm mál er varða friðhelgi einkalífs almennra borgara.

Ef fara á þessa leið er mikilvægt að ferli slíkra mála innan stjórnsýslunnar sé skýrt og að úrskurðarvald liggi fyrir um hvaða mál verði rannsökuð frekar eða skoðuð sérstaklega. Þar sæi ég fyrir mér að umboðsmaður Alþingis eða Ríkisendurskoðun mundi meta slík mál. Það er gríðarlega mikilvægt í mínum huga að vandað verði mjög til verka um útfærslu á þessu. Ef við ætlum að opna á það að opinberir starfsmenn geti tjáð sig um það sem þeir telja fara gegn almannaheill má það ekki vera matsatriði eins manns heldur verður það að fara eftir sérstöku ferli. Þar tel ég ekki henta vel að þeir geti leitað með þessar upplýsingar til þingmanna af því að þingmenn geta oft og tíðum haft pólitíska hagsmuni af því að hlutum sé lekið úr stjórnsýslunni. Eins og ég nefndi tel ég t.d. að umboðsmaður Alþingis eða Ríkisendurskoðun gæti verið sá aðili sem úrskurðaði um hvaða mál mætti fara áfram með. Ég tel að ekki megi heldur fara í hina áttina, þ.e. að opinberir starfsmenn geti afhent hverjum sem er þessar upplýsingar. Það þarf alltaf að fara fram mat á áhrifum á friðhelgi einkalífsins, mat á áhrifum á þriðja aðila o.s.frv. og þá væri ekki gott ef menn gætu farið með þessar upplýsingar beint í fjölmiðla. En það er mjög brýnt að þetta verði skoðað og mönnum gefið tækifæri til að koma slíkum upplýsingum fram. Eins og þessi tillaga gerir ráð fyrir erum við að reyna að bæta og koma í veg fyrir spillingu. Það á náttúrlega að vera markmiðið.

Hvað samskiptavernd varðar er þörf á að skilgreint sé nánar í hvaða undantekningartilfellum ábyrgð milligönguaðila í fjarskiptum eigi við og að skoðuð verði sérstaklega áhrif þriðja aðila sem oft og tíðum er sá sem hýsir samskiptin, eins og kemur fram í greinargerðinni.

Færum okkur þá yfir í tjáningarfrelsið. Þegar rætt er um að bæta tjáningarfrelsi verður ávallt að hafa í huga friðhelgi einkalífsins. Tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífsins tengjast órjúfanlegum böndum og vægið þar á milli verður ávallt að vera jafnt. Tjáningarfrelsi má aldrei verða það rúmt að það heimili óþarfar uppljóstranir á viðkvæmum persónuupplýsingum um almenna borgara, og friðhelgi einkalífs má ekki vera túlkuð það rúmt að hún gefi mönnum skálkaskjól til að leyna brotum gegn lögum og almannahagsmunum. Í þessu samhengi vil ég nefna að frelsi fylgir ábyrgð, og þá ábyrgð verður ávallt að hafa í huga í umræðunni um þetta mál. Það er hins vegar afar mikilvægt mál að tjáningarfrelsið sé ávallt virt.

Ég tek undir það sem kemur fram í ályktuninni um aðgengi að dómstólum og að réttlát málsmeðferð sé mikilvægur þáttur lýðræðis. Ég tel að við búum vel hvað það varðar á Íslandi. Ég tel hins vegar ekki hægt að bera saman kostnað við að sækja mál á Íslandi og það dæmi sem nefnt er í greinargerðinni með ályktuninni. Staðan er því að þessu leyti mun betri á Íslandi en víða annars staðar. Ég tel hins vegar sjálfsagt mál að skoða löggjöf annarra landa hvað þetta varðar.

Í kaflanum um vernd gagnagrunna og -safna kemur fram að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi túlkað það sem svo að útgefið efni á netinu skuli teljast útgefið í hvert sinn sem lesandi skoðar það. Jafnframt taldi dómstóllinn að meiðyrðamál sem eru höfðuð talsvert löngu eftir birtingu gætu heft tjáningarfrelsi fjölmiðla nema undir mjög ákveðnum kringumstæðum. Það er hægt að taka undir það að í einhverjum tilfellum kunni það að hefta tjáningarfrelsi en til að koma til móts við það sjónarmið er í ályktuninni gert ráð fyrir að stefnur á hendur útgefendum verka þurfi að vera birtar innan tveggja mánaða frá upphaflegri útgáfu verks. Í þessu samhengi megum við ekki gleyma rétti þeirra einstaklinga sem fjölmiðlar fjalla um og rétti þeirra einstaklinga til að verjast meiðyrðum. Í þessu samhengi er vert að hafa í huga að lög og reglur um meiðyrði voru að meginstefnu sett til að vernda almenna borgara fyrir óþarfauppljóstrunum um einkahagi, uppljóstrunum sem eiga ekkert erindi við almenning, ekki til að vernda brotamenn fyrir umfjöllun um háttsemi þeirra. Ég tel að sá tími sem gert er ráð fyrir í þingsályktunartillögunni sé helst til naumur, að rétt sé að gæta meðalhófs og að sanngjarnara væri að miða við eitt ár eins og víða er gert annars staðar.

Mér sýnist ég ekki ná að klára þetta þannig að ég ætla að láta (Forseti hringir.) staðar numið.



[16:35]
Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa punkta. Mig langaði aðeins að fara yfir að það er náttúrlega gríðarlega mikilvægt að við ætlum okkur að taka bestu löggjöfina frá öðrum löndum en ekki þessa almennu. Við viljum tryggja að hér sé besta lagalega umhverfið í þessum málum. Í Frakklandi er miðað við þrjá mánuði, það mætti kannski miða við það hér, en það er talin besta mögulega löggjöfin á þessu sviði. Þrír mánuðir eru feikilega nógur tími til að geta höfðað mál ef maður vill fara út í slíkt.

Það væri mjög gagnlegt að stofna þennan vinnuhóp sem fyrst þannig að við getum farið yfir þessi vafaatriði. Þetta er svo flókið að það væri gagnlegt fyrir þá sem láta sig þessa sýn varða að fara í gegnum málið lið fyrir lið. Ég held að okkur sé ekki til setunnar boðið. Þegar þetta verður komið í nefnd ættum við bara að stofna þennan þverpólitíska hóp. Ég hef tekið eftir því að á þessu þingi eru engir þverpólitískir hópar sem starfa að ákveðnum málefnum eða öðru slíku, en slíkt fyrirfinnst í flestum þingum heimsins. Þetta gæti kannski orðið upphafið að því að þingmenn starfi meira saman, óháð flokkum.

Varðandi samskiptavernd fer ég yfir hana í seinna andsvari, en það er gríðarlega mikilvægt að fólk skilji hvað það þýðir þegar hægt er að lögsækja þá sem hýsa gögn.



[16:37]
Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar athugasemdir. Ég tel einmitt réttu nálgunina þá að við setjumst niður, ræðum um þetta, förum í gegnum málið og finnum saman bestu leiðirnar. Ég held að það sé alveg klárt. Við erum sammála um markmiðið, að við ætlum að vera hér fremst hvað varðar tjáningarfrelsi og mannréttindi almennt. Ég tek gjarnan undir það.

Svo verða örugglega einhver ásteytingaratriði þar sem við munum þurfa að miðla málum. Ég er svo sannarlega tilbúin að setjast niður og hlakka bara til þess.



[16:38]
Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Maður fer nánast að verða væminn hérna. Ég hlakka til að fara út í svona vinnu. Þegar tvær manneskjur eiga í hlut væri óeðlilegt að þær væru sammála og sér í lagi fólk með ólíka pólitíska sýn, en aðalmarkmiðið er að finna þennan sársaukaþröskuld og það tilheyrir pólitík.

Varðandi vernd þeirra sem hýsa hefur verið sagt að þetta sé nánast eins og prentsmiðja. Ef það væri alltaf hægt að lögsækja prentsmiðjur fyrir blöðin sem þær prenta fengjum við kannski aldrei nein blöð. Þetta hefur ítrekað verið notað af þeim sem sækja að útgáfum, sér í lagi smærri útgáfum sem hafa þurft að fara kannski land úr landi. Það er alltaf gengið á hýsingaraðilann, hann er kærður og þá hættir hann að vilja hýsa. Mér finnst mjög mikilvægt að fara mjög vel yfir og styrkja þá löggjöf.

Eins og ég segi er þetta flókið og ég er alltaf að læra eitthvað nýtt um þessi mál. Netið er óræður heimur þó að maður sé búinn að dvelja í honum nánast samfleytt í allt of langan tíma, en þetta er þannig verkefni að manni líður alltaf eins og maður komi svolítið ríkari frá því. Það er alveg frábært hvað það er búið að fá rosalega mikla jákvæða umfjöllun úti um allan heim. Við erum komin með alveg ótrúlega mikinn fjölda af vinum úti í heimi fyrir vikið, nema kannski Kínverja.



[16:39]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Hér ræðum við þingsályktunartillögu frá þingmönnum allra flokka sem miðar að því að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi. Markmiðið er að gera lagaumhverfið á Íslandi í sérflokki þannig að fjölmiðlar, alþjóðlegir sem innlendir, eigi hér öruggt skjól og það sama á við um aðra, t.d. ýmis mannréttindasamtök, enda er mál- og tjáningarfrelsi ein meginstoð lýðræðisins.

Hér hefur 1. flutningsmaður, hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, farið yfir málið og þakka ég henni góða framsögu.

Ég á sæti í iðnaðarnefnd og þar ræðum við mikið um gagnaver þessa dagana. Ég hef mikinn áhuga á slíkri starfsemi hér á landi, enda kjöraðstæður í okkar kalda loftslagi og með ódýra orku. Auk þess mun gagnamagn sem þarf að geyma aðeins vaxa í fyrirsjáanlegri framtíð og eftirspurnin þar með. Þó verður að benda á eitt atriði og það er að okkur skortir tilfinnanlega skýra og sterka löggjöf sem mundi ekki aðeins tryggja samkeppnishæfni gagnavera á Íslandi heldur einnig veita þeim sérstöðu á heimsmarkaði og ákveðið forskot á aðra sem bjóða svipaða þjónustu.

Víða um heim eiga fjölmiðlar undir högg að sækja og umræða sem ekki er þeim sem valdið hafa eða eiga sand af seðlum þóknanleg er markvisst þögguð niður með lögbönnum á birtingu eða jafnvel ofbeldi. Með því að skapa hér sterkt lagaumhverfi til verndar mál- og tjáningarfrelsi skapast aukin tækifæri í þeirri nýju atvinnugrein sem gagnaver eru. Eins og margoft hefur verið bent á skortir okkur Íslendinga sárlega fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri.

Helsti ávinningur okkar Íslendinga af uppbyggingu gagnavera er störf fyrir þá sem þar vinna og sala á raforku, en orka til fyrirhugaðs gagnavers í Reykjanesbæ er seld á verði sem liggur mitt á milli raforkuverðs til álvera og ylræktar í þéttbýli.

Ávinningur heimspressunnar af því að nýta sér það skjól málfrelsis og tjáningarfrelsis sem við höfum áhuga á að skapa hér er hins vegar svo mikill að hún mun ekki gera kröfu um besta orkuverð í heimi eða miklar skattaívilnanir til að fá að hafa hér rafrænt aðsetur með rafræna útgáfu í huga, enda er hún ekki háð staðsetningu að neinu leyti. Hér eru því gífurleg tækifæri til erlendrar fjárfestingar án þess að orkan sé seld á spottprís eða fyrirtækjum ívilnað með skattafsláttum eða annarri fyrirgreiðslu. Beinn fjárhagslegur ávinningur okkar Íslendinga gæti því orðið verulegur þótt það sé í sjálfu sér ekki meginmarkmið tillögunnar. Auk þess eru flest aðföng í þessari atvinnugrein stafræn og þar með umhverfisvæn og kosta ekkert, ólíkt til að mynda í áliðnaði þar sem miklum gjaldeyri er varið í kaup á súráli.

Lagasetning af því tagi sem tillagan mælir með rímar vel við hugmyndir stjórnvalda í atvinnumálum og ef grannt er skoðað mætti jafnvel segja að hún væri mikilvægur og nauðsynlegur þáttur í að skapa fyrirhuguðum gagnaverum viðunandi lagaumhverfi.

Í frumvarpi því sem nú liggur fyrir þinginu um gagnaver í Reykjanesbæ kemur fram að fyrirhugaðir viðskiptavinir þess séu m.a. stórnotendur tölvukerfa á sviði fjármálaþjónustu, netmiðlunar og fjölmiðla, lífvísinda og genatækni, og olíu- og gasfélög, auk mennta- og rannsóknastofnana. Mikilvægt er, ekki síst í tilfelli netmiðlunar og fjölmiðla, að tryggja að lagaumhverfið sé eins og best verður á kosið, ekki bara vegna augljósra hagsmuna viðskiptavinanna, heldur einnig gagnaveranna sjálfra. Tryggja þarf að ekki sé hægt að stefna hýsingaraðila, t.d. fyrir ærumeiðandi ummæli sem koma fram í einhverjum þeirra gagna sem gagnaverið geymir, enda ógerningur fyrir stjórnendur þess að fylgjast með hverju einasta gagni í gagnaverinu.

Því ber að fagna þessari tillögu. Hún er okkur bráðnauðsynleg á umbóta- og endurreisnartímum okkar. Hún gefur okkur þingmönnum úr öllum áttum, sem og þjóðinni allri, tækifæri til að sameinast um þarft mál sem felur í sér aukin mannréttindi og miklar lýðræðisumbætur, ekki bara fyrir Ísland, heldur á heimsvísu.



[16:44]
Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Þá ætla ég að halda áfram þar sem ég hætti rétt áðan. Þar var ég komin að því að fjalla um vernd gegn meiðyrðamálsflakki, eins þjált og það orð er. Hún snertir jafnan rétt einstaklinga til að verja sig fyrir dómstólum en bresk meiðyrðalöggjöf, sem er mjög ströng, getur snert meiðyrðamál á Íslandi. Hægt er að kæra fyrir breskum dómstólum einstaklinga á Íslandi fyrir meiðyrði sem þeir hafa látið falla á Íslandi. Þar stýrir fjármagn mjög miklu um hvort einstaklingar geta varið sig með sómasamlegum hætti. Í slíkum tilfellum er kostnaðurinn orðinn aðalatriðið, þ.e. hvort viðkomandi hefur fjármagn til þess að halda úti málaferlum í lengri tíma. Slíkt brýtur gegn því sem ég áður hef nefnt um þann mikilvæga þátt lýðræðisins um réttláta málsmeðferð og því er afar brýnt að úr þessu verði bætt á Íslandi.

Þá ætla ég að fjalla um upplýsingafrelsið. Upplýsingalögin hafa verið endurskoðuð reglulega frá því að þau voru fyrst sett árið 1996. Ég tel nauðsynlegt að þau verði endurskoðuð að nýju. Stjórnsýslan starfar í þágu almennings og hið opinbera þarf að ganga á undan með góðu fordæmi hvað varðar gagnsæi og skilvirka stjórnsýsluhætti og leggja þannig sitt af mörkum til að auka traust í samfélaginu. Skortur og tafir á upplýsingum og vöntun á gagnsæi grefur undan trausti. Á sama hátt og ég minntist á áðan er mikilvægt að með endurskoðun þessara laga verði friðhelgi einkalífsins, hins almenna borgara sem leitar til stjórnsýslunnar, höfð að leiðarljósi þar sem lögin og reglurnar þurfa ávallt að vera fyrir samfélagið og gæta hagsmuna þeirra sem við þær búa.

Virðulegi forseti. Ég þekki það af eigin raun að búa í ríki þar sem útgáfu-, tjáningar- og málfrelsi er heft. Þá á ég ekki við Ísland, hér á ég við Kína, ég bjó þar skamma hríð. Það er afar skaðlegt fyrir þegna þess lands og samfélag. Ég hef verið talsmaður þess að við beitum okkur sem sjálfstætt ríki á erlendum vettvangi fyrir almennum mannréttindum á borð við þau sem ég áður hef nefnt. Ísland hefur alla burði til þess.

Að lokum vil ég segja að ég bind vonir mínar við að Íslensku tjáningarfrelsisverðlaunin sem getið er í þingsályktunartillögunni muni hafa jákvæð áhrif á ímynd Íslands og að við verðum öðrum fyrirtækjum fyrirmynd á sviði mannréttindamála.



[16:47]
Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu nýtt, stórt, flókið og mjög merkilegt mál sem hefur marga anga og kallar á flókna úrlausn við að gera það að heildstæðu frumvarpi og heildstæðu umhverfi. Þetta er samt til marks um hverju hægt er að ná fram ef fólk leggur sig fram við að skoða þennan geira sem fjallar um málfrelsi og mannréttindi og vernd heimildarmanna, geira hvers samfélags sem, ef við horfum yfir flóruna í heiminum, er nánast hvergi eins. Þessi þingsályktunartillaga, þegar hún fer í gegn, því að væntanlega mun hún fara í gegn þar sem á henni eru þingmenn allra flokka, mun gera Ísland í raun að einstökum stað í heiminum hvað þetta varðar og gera Ísland að fyrirmynd annarra landa í þessu tilliti og væntanlega brjóta í blað í fjölmiðlasögunni. Hér er verið að færa til veggi og þröskulda af meira afli en gert hefur verið áður hvað þessi mál varðar og ber að fagna því sérstaklega að þingmenn allra flokka hafi komið auga á mikilvægi þessa máls og tekið þátt í að flytja það.

Ég mun ekki hafa ýkja mörg orð um þetta mál, það er langt og flókið, en mig langar þó að tæpa á nokkrum atriðum sem ég tel mikilvæg. Það fyrsta er náttúrlega það sem blasir við öllum sem vilja horfa á, sú dapra staða fjölmiðlaumfjöllunar sem við búum við í dag og það óöryggi sem fréttamenn búa við í dag, staða sem er óásættanleg í lýðræðisríki þar sem upplýst umræða og virk fjölmiðlun er grunnundirstaða þess að lýðræðið sjálft virki. Þingsályktunartillagan og það sem kemur í framhaldi af henni mun styrkja mjög allt þetta umhverfi og efla umræðu um það og gera ljóst hversu nauðsynlegt er að hér séu til staðar eins og í öðrum lýðræðisríkjum öflugir fjölmiðlar sem geta sinnt hlutverki sínu vel.

Staðan á Íslandi hvað varðar frétta- og fjölmiðlaumhverfi er í rauninni einstök í dag í samanburði við þau vestrænu ríki sem eru með þroskað lýðræði og við viljum gjarnan bera okkur saman við. Þessi tillaga hefur fengið góðan hljómgrunn hjá blaðamannastéttinni og vakið mikla athygli. Það er fagnaðarefni að þetta verði e.t.v. til þess að hleypa nýju blóði í fréttaflutning og fjölmiðlun, ekki veitir af. Tillagan mun líka ýta undir opið samfélag, hún mun ýta undir opnari stjórnsýslu og opnara viðskiptalíf með vernd upplýsenda sjálfra sem og með vernd útgefenda fjölmiðla og vernd fyrir blaðamenn og fréttamenn gegn lögsóknum. Við höfum hrópandi dæmi um það hér á landi þar sem lögsókn gegn einstaklingi búsettum á Íslandi, sem skrifaði á Íslandi, gekk í gegn þó að hún væri tekin fyrir í erlendum dómsal. Einkennilegt fyrirbæri finnst mér og í rauninni svolítið sorglegt að það skuli vera hægt að hefta tjáningarfrelsi manna með þessum hætti á Vesturlöndum. Þessi tillaga mun taka á því og gera mönnum kleift að halda úti gagnrýni án þess að eiga það á hættu að verða hundeltir af lögfræðingum og dómstólum hvar svo í veröldinni sem þeir eru.

Þetta mál mun líka vekja mikla athygli vegna þeirra verðlauna sem tilgreind eru í tillögunni. Það mun setja Ísland í svolítið sérstaka stöðu, sérstaklega þegar haft er í huga það sem gengið hefur yfir þjóðina undanfarið eitt og hálft, bráðum tvö ár, þar sem leyndarhyggja og bankaleynd og yfirhylming á mjög mörgum sviðum gerði það að verkum að sú glæsta borg sem menn töldu að væri verið að byggja hér sem heitir Ísland, var í rauninni byggð á sandi og innihaldslaus og hefur hrunið til grunna.

Mjög mikilvægt er að kerfi eins og við búum við skapi vernd fyrir upplýsendur eða uppljóstrara sem kallaðir eru, þ.e. að því fylgi ákveðin kvöð í kerfinu að þeir sem vita um upplýsingar þar sem verið er að gera hluti sem eru á gráu lagalegu svæði, viti af því að þeir geti komið fram með þær upplýsingar og komið þeim á framfæri án þess að eiga á hættu að verða lögsóttir eða þeim verði refsað á annan hátt.

Eins og ég sagði áðan munu verðlaunin sem fylgja þessari tillögu — ég man nú ekki enska orðið á þeim en það skiptir ekki máli — vekja verðskuldaða athygli því að þau eru fyrst í sinni röð og þau eru fyrstu alþjóðlegu íslensku verðlaun sem verða veitt. Það verður fagnaðarefni að mæta á þá samkomu, vonandi innan ekki of margra ára, þegar þau verða veitt í fyrsta skipti. Ég fagna þessu máli eindregið.



[16:54]
Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (Hr):

Frú forseti. Ráðgjafar og stuðningsmenn ályktunarinnar eru aðilar sem hafa víðtæka reynslu og yfirsýn yfir ástand mála þegar kemur að skerðingu tjáningar- og upplýsingafrelsi í heiminum. Ber þar helst að nefna Evu Joly, Julian Assange, aðalritstjóra Wikileaks, hinn virta breska rannsóknarblaðamann, Martin Bright, Smára McCarthy frá Félagi um stafrænt frelsi á Íslandi og David Dadge, en hann veitir The International Press Institute forstöðu.

Eva Joly sagði um ályktunina eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ég er stolt af því að vera til ráðgjafar til að tryggja alþjóðlega vernd fyrir rannsóknarblaðamennsku. Í huga mér inniber þessi ályktun sterk skilaboð og hvatningu til eflingar heilinda og gagnsæis hjá ríkisstjórnum víðs vegar um heim, þar á meðal á Íslandi. Í starfi mínu við rannsóknir á spillingu hef ég orðið vitni að því hve mikilvægt það er að hafa öflugt regluverk til að tryggja aðgengi almennings að upplýsingum. Ísland getur með nýstárlegri sýn á samhengi tilverunnar og vegna tilhneigingar til að fara sínar eigin leiðir orðið hinn fullkomni staður til að hrinda af stað verkefni af þessu tagi sem yrði til þess að efla gagnsæi og réttlæti á heimsvísu.“

Frú forseti. Hrunið varð til þess að þjóðin vaknaði og þurfti að horfast í augu við að ekki var allt sem sýndist í samfélagi okkar, en með því að taka höndum saman náðum við að koma á sögulegum breytingum. Ríkisstjórnin var þvinguð til að segja af sér. Seðlabankastjórinn og stjórn Fjármálaeftirlitsins voru jafnframt neydd til afsagnar. Íslendingar áttuðu sig á því að með samtakamætti gætu raunverulegar breytingar orðið að veruleika. Fólk áttaði sig á því að innviðir samfélagsins sem það hafði reitt sig á höfðu brugðist. Akademíska stéttin, ríkisstjórnin, þingheimur, Seðlabankinn og fjölmiðlar brugðust öll hlutverki sínu. Almenningur áttaði sig á því að fjölmiðlar landsins voru máttlausir og veikir, að gagnsæi skorti, að spillingin væri víðtækari en menn óraði fyrir og til þess að geta lifað í heilbrigðu samfélagi yrði almenningur sjálfur að taka þátt í að móta það.

Fólkið í landinu hefur áttað sig á því að það þarf að gera grundvallarbreytingar sem lúta að lýðræðisumbótum og að ný löggjöf sem byggir á gagnsæi og pólitískri ábyrgð er nauðsynleg.

Vegna þess hve heimurinn er samofinn á flestum sviðum, sér í lagi þegar kemur að frjálsu flæði fjármála og upplýsinga, er deginum ljósara að þær tálmanir á birtingu upplýsinga sem almenningur á rétt á að hafa aðgang að er ekki aðeins okkar vandamál, heldur hnattrænt vandamál. Réttur almennings til að skilja hvað er að gerast í samfélögum þeirra þarf að vera styrktur. Með því að setja hér bestu mögulegu löggjöf sem völ er á til að tryggja öruggt starfsumhverfi fyrir þá hugrökku blaðamenn og rithöfunda sem margir hverjir hafa misst vinnu sína við að fjalla um efni þeirra sem eitthvað hafa að fela og vilja leggja allt í sölurnar til að halda huldu, með því stöndum við vörð um réttlæti, heiðarleika og mannréttindi.

Julian Assange, aðalritstjóri Wikileaks, hafði eftirfarandi að segja um þingsályktun þessa, með leyfi forseta:

„Wikileaks er álitið leiðandi afl þegar kemur að birtingu efnis sem oft er haldið frá almennri umræðu og varðar spillingu. Til að afhjúpa spillingu höfum við þurft að leggja mikið á okkur. Til að mynda höfum við þurft að dulkóða samskipti okkar, dreifa starfseminni um víða veröld og verja hærri fjárhæðum til málareksturs fyrir dómstólum en gagnaðilar okkar sem í einu tilfelli var stærsti svissneski einkabankinn. En það er ekki hægt að ætlast til að allir útgefendur og félagasamtök geti staðið undir slíku fjárhagslegu álagi. Jafnvel stórir fjölmiðlar á borð við BBC og mörg stærri dagblöð veigra sér reglulega við að birta fréttir af ótta við íþyngjandi kostnað við málarekstur. Smærri baráttuaðilar gegn spillingu, allt frá Global Witness til TCI Journal eru hundeltir heimshorna á milli til að koma í veg fyrir að þessir aðilar geti flutt fréttir eða komið upplýsingum til almennings. Það er kominn tími til að slíkum ofsóknum verði hætt. Það er kominn tími til að alþjóðasamfélagið spyrni við fótum og segi hingað og ekki lengra, sannleikurinn þarf að vega þyngra en fjárhagslegur styrkur, sagan verður að haldast varðveitt án tilrauna til að fjarlægja hana úr upplýsingasamfélaginu. Við sem stöndum að baki Wikileaks erum stolt af því að hafa verið til ráðgjafar við gerð þingsályktunartillögunnar sem hér er flutt. Íslendingar virðast hafa djúpstæðan skilning á mikilvægi gagnsæis og heiðarleika eftir hrunið, það þarf hugrekki til að standa með mannréttindum og sannleikanum og það er eitthvað sem Íslendinga virðist ekki skorta.“

Index on Censorship, leiðandi bresk samtök á sviði frjálsrar fjölmiðlunar, lýstu stuðningi á eftirfarandi máta, með leyfi forseta:

„Samhæfing og nútímavæðing upplýsinga og málfrelsislöggjafar sem þessi ályktun felur í sér tekur á lykilatriðum varðandi tjáningarfrelsi á stafrænum tímum og gæti reynst farvegur lagalegra umbóta sem eru öllum lýðræðisþjóðfélögum nauðsynleg á 21. öldinni.“

Í nýlegri grein í New York Times er haft eftir David Ardia, sem hefur umsjón með verkefnum um lagaumhverfi borgaralegrar fjölmiðlunar í Harvard, með leyfi forseta:

„Ef Ísland gerir þessa löggjöf að veruleika er líklegt að áhrifa hennar muni gæta til langframa. Hann lauk lofi á þá skynsemi sem lægi að baki þess að búa til heildræna löggjöf um öflun, dreifingu og lesningu frétta í hinu stafræna umhverfi. Hin heildræna sýn og löggjöf er dýrmætt verkfæri þegar kemur að því að skapa umhverfi til að hlúa að vandaðri blaðamennsku. Valdamiklar stofnanir hafa sýnt í verki vilja sinn til að notfæra sér völd sín til að hindra að fréttir sem þeim hugnast ekki séu fluttar. Allt það sem tryggir jafnræði í þeim ójafna leik er til hins góða.”

Frú forseti. Aldrei hefði mig órað fyrir þeim mikla stuðningi og athygli sem þetta verkefni hefur fengið um heiminn allan. Það sýnir svo ekki er um að villast að rík þörf er á að leggja fram heildræn lög, ekki bara um þennan málefnaflokk, heldur öllu jafna um allt sem þarf að endurskoða í ljósi þess hve ört heimurinn breytist. Ég vona að sú góða samvinna sem um þetta mál hefur mótast muni halda áfram innan þings sem utan. Það er ljóst að þessi löggjöf mun ekki leysa þann vanda sem íslenskir fréttamenn standa frammi fyrir þegar kemur að starfsöryggi, en þetta mun með sanni efla aðgengi þeirra að upplýsingum og verndun á samskiptum heimildarmanna og fréttamanna og er afar brýnt hérlendis vegna fámennis.

David Dadge, forstöðumaður International Press Institute, sendi frá sér eftirfarandi stuðningsyfirlýsingu, með leyfi forseta:

„Félagasamtök okkar hafa barist fyrir frelsi fjölmiðla í hartnær 60 ár, þess vegna fögnum við af fullri einurð ályktun sem fara mun fyrir íslenska þingið á næstunni. Með því að velja það besta frá núgildandi lögum víðs vegar um heim og setja þau saman í heildstæða mynd getur Ísland orðið að sterku leiðarljósi fjölmiðlafrelsis á heimsvísu. Þingsályktunin býður upp á trausta löggjöf til verndar málfrelsi, gagnsæi, vernd heimildarmanna, vernd innri samskipta fjölmiðla, vernd frá meiðyrðamálaflakki, vernd fyrir þá sem reka vefþjóna og hýsa efni fyrir fjölmiðla, sem og vernd gegn lögbannskröfum á efni áður en það er birt. Ísland hafði mjög gott orð á sér í alþjóðasamfélaginu þegar kom að frelsi fjölmiðla, þessi löggjöf mun renna styrkari stoðum undir fjölmiðla landsins og endurheimtur á þeim góða orðstír sem fór af landinu áður en til bankahrunsins kom.

Við hjá IPI vonum að restin af heimsbyggðinni, sér í lagi þau lönd sem hafa verið hve öflugust í að tryggja vernd fjölmiðlunar, muni taka sér Ísland til fyrirmyndar og skapa áþekka löggjöf, við bíðum spennt eftir að sjá hvernig þessu muni farnast á íslenska þinginu.“

Frú forseti. Við verðum að vera búin að koma okkur saman um það hvert við stefnum varðandi upplýsingar og gagnsæi áður en skýrslan kemur frá rannsóknarnefndinni. Það er mikilvægt að finna tón samstöðu til að fyrirbyggja að við stöndum aftur í sömu sporum og við gerum núna. Það er einlæg von mín að við getum risið upp úr rústum fjárglæfra, siðrofs og niðurlægingar með stefnu í farteskinu á eitthvað sem færir okkur aftur einskonar stolt yfir því að tilheyra þessu örsamfélagi okkar úti við jaðar heimsins á forsendum sem sýna hvað það er sem þjóðin vill hlúa að eins og kom fram á þjóðfundinum: Heiðarleiki, frelsi, jafnrétti og réttlæti.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allshn.