138. löggjafarþing — 83. fundur
 1. mars 2010.
framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu.

[15:02]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að bera undir hæstv. forsætisráðherra spurningu sem snýr að framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem er ákveðin um næstu helgi á laugardaginn. Tilefnið er það að ráðherrar í ríkisstjórn hafa talað hver með sínum hætti um mikilvægi þjóðaratkvæðagreiðslunnar og jafnvel hver með sínu hætti um hvernig þeir hyggjast greiða þar atkvæði. Sumir ráðherrar í ríkisstjórninni segja sem svo að þeir sjái það fyrir sér að sleppa við að mæta, en mæti þeir muni þeir styðja lögin frá því í desember. Aðrir ráðherrar segja sem svo að það sé tilgangslaust að halda þessa þjóðaratkvæðagreiðslu og það sé augljóst að það muni engum detta það í hug nema þá þessum tiltekna ráðherra sem ég vísaði til, að styðja lögin frá því í desember.

Nú eru einungis fimm dagar þangað til þjóðaratkvæðagreiðslan á að fara fram og við höfum á undanförnum dögum fengið að sjá að ríkisstjórnin gerir ekki mjög mikið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni í orði og í verki. Það fer lítið fyrir kynningu á þjóðaratkvæðagreiðslu. Bæklingur sem berast átti almenningi kemur afskaplega seint, auglýsingar í blöðum helgarinnar eru litlar og er það varla að maður taki eftir þeim. Það vekur auðvitað upp spurningar um hvort það sé svona sem ríkisstjórnin almennt telur að eigi að standa að kynningu á þjóðaratkvæðagreiðslum, t.d. eins og þeirri sem verður þegar samningur næst um aðild að Evrópusambandinu, ef af því verður. Er það svona sem menn ætla að standa að kynningu og undirbúningi þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu?

Aðalatriðið er þetta: Er hæstv. forsætisráðherra að velta því fyrir sér að fella lögin frá því í desember úr gildi eða er ekki alveg ábyggilegt að þjóðaratkvæðagreiðslan (Forseti hringir.) fer fram á laugardaginn næstkomandi?



[15:05]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir þessa spurningu, þjóðaratkvæðagreiðslan á að fara fram næstkomandi laugardag og ríkisstjórnin hefur engin áform um annað. Hitt er annað mál að þegar fyrir liggur tilboð frá Bretum og Hollendingum um samning sem er með 70 milljarða lægri greiðslubyrði en sá samningur sem greiða á atkvæði um, veltir maður auðvitað fyrir sér um hvað á að greiða atkvæði ef þetta er raunverulega þjóðaratkvæðagreiðsla um samning sem enginn berst fyrir lengur. Maður veltir fyrir sér: Er þetta ekki hálfgerður hráskinnaleikur? Er þessi þjóðaratkvæðagreiðsla ekki marklaus þegar fyrir liggur annað tilboð á borðinu sem við gætum fengið? Maður veltir líka fyrir sér að ef svo færi að samningar tækjust í þessari viku, og eru bæði stjórn og stjórnarandstaða að vinna í því, er þá ástæða til að halda þessari þjóðaratkvæðagreiðslu til streitu ef það liggur allt annar og betri samningur á borðinu? Það er auðvitað margt sem kemur upp í hugann þegar maður veltir fyrir sér þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Er í raun og veru verið að kjósa um samning eða lög sem ekki eru lengur „aktúel“ og um samning sem ekki er lengur á borðinu vegna þess að annar og nýr samningur stendur í boði og hugsanlega gæti verið eitthvað meira í boði þegar líður á vikuna? En við skulum sjá hvað setur. Það eru engin áform um annað hjá ríkisstjórninni en að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Sá bæklingur sem hv. þingmaður talaði um fer væntanlega í dreifingu á morgun.



[15:07]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Hversu lengi eiga þingið og almenningur að bíða eftir því að fá skýr svör varðandi þessa þjóðaratkvæðagreiðslu? Hún er á næsta laugardag. Við í þinginu hljótum að fara fram á það af hæstv. forsætisráðherra, ef hún er þeirrar skoðunar að það sé tilgangslaust að fara í þjóðaratkvæðagreiðsluna, að hún taki þá af skarið varðandi það og lýsi yfir að það hafi verið mistök að fara með lögin sem afgreidd voru í lok síðasta árs í gegnum þingið. Það sé augljóst núna að hægt sé að fá mun betri niðurstöðu og hún svari því þá a.m.k. hvort hún er að velta því fyrir sér að fella þau lög úr gildi vegna þess að það hafi verið mistök að samþykkja þau á þinginu. Það er ekki bæði hægt að koma hingað upp og segja að menn séu að velta því fyrir sér að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og segja síðan í hinu orðinu að það sé tilgangslaust.

Ég á hér orðastað við forsætisráðherra Íslands, forustumann ríkisstjórnarinnar. Við þurfum að fá skýrar línur frá forustumönnum (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar um hvernig standa eigi að þessum málum.



[15:08]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég gæti eins spurt formann stærsta stjórnarandstöðuflokksins hvað hann telur að eigi að gera ef það liggur fyrir samningur í vikunni sem er miklu betri og ásættanlegur sem t.d. formaður Sjálfstæðisflokksins mundi geta staðið að ásamt öðrum stjórnmálaflokkum á landinu. Um hvað á þá að kjósa næstkomandi laugardag? Hv. þingmaður verður að svara því um hvað á að kjósa næstkomandi laugardag ef kominn er annar samningur á borðið. (Gripið fram í.) Ákvæði þess samnings sem á að fara að greiða atkvæði um eru þá orðin úrelt. Hv. þingmaður beinir þeirri fyrirspurn til mín hvort þau lög sem samþykkt voru og sem á að fara að greiða atkvæði um hafi verið mistök. Á sínum tíma voru það engin mistök en það er alveg ljóst að forsetinn setti málið í allt aðra stöðu með því að vísa málinu til þjóðarinnar.

Við höfum rætt það áður hvort ástæða væri til að fresta þessari atkvæðagreiðslu um eina, tvær eða þrjár vikur (Forseti hringir.) þar til niðurstaða fæst kannski í þessa samninga. Ég hef ekki heyrt að stjórnarandstaðan sé tilbúin til þess þannig að væntanlega fer þessi þjóðaratkvæðagreiðsla fram. En ég spyr: Um hvað á hún að vera?