138. löggjafarþing — 83. fundur
 1. mars 2010.
spilavíti.

[15:16]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að enn á ný hefur vaknað sú hugmynd að koma upp spilavíti á Íslandi. Samkvæmt skoðanakönnunum væri slíkt í óþökk meiri hluta þjóðarinnar og í óþökk stjórnvalda á Íslandi og vísa ég þar í álit heilbrigðisráðuneytisins sem hefur tekið mjög eindregna afstöðu gegn slíku.

Heilbrigðisráðuneytið vísar í greinargerð frá landlæknisembættinu sem segir að slíkt gæti haft neikvæð áhrif á heilsu landsmanna. Landlæknisembættið færir rök fyrir því og vísar í margvíslegar rannsóknir.

Í greinargerð landlæknisembættisins segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Spilafíkn er vaxandi vandamál á Vesturlöndum samhliða sífellt fleiri möguleikum til að stunda peningaspil, t.d. á veraldarvefnum.“

Hér er komið að tilefni þessarar fyrirspurnar. Ef farið er inn á vefmiðilinn visir.is í dag blasir þar við auglýsing sem er sérstaklega sniðin að því að lokka spilafíkla inn í spilavíti á netinu, nákvæmlega það sem landlæknisembættið varar hér við.

Samkvæmt hegningarlögum eru fjárhættuspil bönnuð á Íslandi. Þar vísa ég í 183. og 184 gr. almennra hegningarlaga.

Þar segir með leyfi forseta, í hinni 183. gr.:

„Sá, sem gerir sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða það að koma öðrum til þátttöku í þeim, skal sæta sektum …“

Síðan segir í 184. gr.: (Forseti hringir.)

„Hver, sem aflar sér tekna beint eða óbeint með því að láta fjárhættuspil eða veðmál fara fram í húsnæði, er hann hefur umráð yfir, skal sæta sektum …“

Hvar er visir.is til húsa? Er ekki hér verið að brjóta landslög?



[15:18]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Þrátt fyrir það ákvæði hegningarlaga sem vitnað var til í fyrirspurninni eru happdrættisstarfsemi hér á lendi settar ákveðnar skorður í löggjöf frá Alþingi. Þar er annars vegar um að ræða almenn lög um happdrætti og hins vegar sérlög þar sem ákveðnum félögum er heimiluð happdrættisstarfsemi í ákveðnum tilgangi.

Í happdrættislögunum er almennt bann við auglýsingum sem löggjafinn taldi að ætti einmitt við um slíkar auglýsingar sem nefndar voru hér áðan. Þá ber að nefna til sögunnar að Hæstiréttur dæmdi í slíku máli í júní sl. þar sem maður var sýknaður af ákæru um að hafa brotið gegn happdrættislöggjöfinni með því að birta svona auglýsingu. Þarna var að okkar mati ófyrirséð gat í löggjöfinni og það þarf að stoppa í það gat. Frumvarp þess efnis er í smíðum í ráðuneytinu til þess að breyta refsiákvæði happdrættislöggjafarinnar þannig að það skipti þá ekki máli hvort auglýsingin er fyrir starfsemi sem er hér á landi eða erlendis. Það má ekki auglýsa þá starfsemi sem ekki hefur verið fengið leyfi fyrir.



[15:20]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir þetta skilmerkilega svar og ég fagna því að á leiðinni sé löggjöf til þess að stoppa upp í umrætt gat í löggjöfinni. Ég legg áherslu á að hér erum við ekki einvörðungu að tala um auglýsingar á fjárhættuspili heldur beinan aðgang inn í spilavíti á vefnum, sem hlýtur að vera mjög varasamt og ámælisvert ef við erum sammála um að þetta sé starfsemi sem veldur mörgum einstaklingum og samfélaginu miklu tjóni. Við hljótum að taka alvarlega ábendingar sem fram koma hjá landlæknisembættinu og þeim aðilum sem kafað hafa ofan í þessi mál. Þá þarf að stoppa rækilega í það gat.

Ég ítreka þakkir mínar til hæstv. dómsmálaráðherra og fagna því að löggjöf sé á leiðinni.



[15:21]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-):

Virðulegi forseti. Ég ætla að nota tækifærið og bæta við fyrra svar mitt, vegna þess að það eru líka í undirbúningi lagabreytingar þess efnis sem gera það kleift að takmarka með skilvirkum hætti veðmál og happdrættisstarfsemi á netinu. Það er svolítið erfitt að gera það en þetta er viðfangsefni sem er líka til umfjöllunar í nágrannalöndum okkar sem hafa svipaðan hátt á og við hvað varðar löggjöf um happdrætti. Það er því spurning um hvort hægt sé að takmarka með einhverjum hætti þá viðbótar- eða stuðningsþjónustu sem gerir fólki þá kleift að fara inn á netið og spila í happdrætti. Þetta er dálítið snúið en er til athugunar.