138. löggjafarþing — 83. fundur
 1. mars 2010.
skuldavandi heimila og fyrirtækja.

[15:22]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Fyrir rúmlega mánuði síðan spurði ég hæstv. forsætisráðherra hvað liði frekari tillögum frá ríkissjórninni varðandi skuldavanda heimilanna og skuldavanda fyrirtækjanna. Þá svaraði hæstv. forsætisráðherra að það kæmi endurbætt frumvarp fljótlega að því er varðar greiðsluaðlögunina. Þá eigum við jafnframt eftir að sjá frekari úrræði varðandi hvernig haldið skal á málum þeirra sem komnir eru með eignir sínar í nauðungarsölu. Það er rúmlega mánuður síðan ég lagði þetta fram.

Við þekkjum öll hér inni að vika er mjög langur tími í pólitík, hvað þá mánuður, svo langur tími er erfiður fyrir fjölskyldurnar sem lifa núna í óvissu um framtíð sína og afkomu. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvað megum við bíða lengi eftir tillögum frá ríkisstjórninni?

Það er vissulega rétt að draga það fram og halda því til haga að þau undur og stórmerki gerðust hér að við samþykktum á þinginu frestun á nauðungarsölunni. En það er bara frestun, það er ekki úrlausn. Við erum búin að fá drög að dagskrá þingsins þar sem segir m.a. að það eru þingmannamál í dag, m.a. um virkjunarkosti og garðyrkjubændur, fín mál. Á morgun verða m.a. þingmannamál um transfitusýrur, transfólk, áfengisauglýsingar, eflaust allt fín mál. Það er ekki fyrr en á fimmtudaginn sem hugsanlega eru boðuð ný stjórnarfrumvörp.

Þá hljótum við sjálfstæðismenn að segja: Ef það vantar tillögur til úrbóta varðandi efnahagsmál og atvinnumál er hægt að afgreiða tillögur okkar sjálfstæðismanna sem eru í efnahags- og skattanefnd, það er hægt að draga þær hingað inn í þingið. Við skulum einfaldlega ræða þær tillögur. Ég hlýt líka að spyrja ráðherra að því í ljósi þess að það er rúmur mánuður síðan ég lagði fram fyrirspurn: (Forseti hringir.) Hvaða tillögur fáum við þingmenn tækifæri til að ræða á fimmtudaginn? Hvaða stjórnarfrumvörp koma fram í vikunni fyrir fjölskyldurnar og fyrirtækin?



[15:24]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það er auðvitað eðlilegt að þingmenn spyrji um hvort eitthvað meira eigi gera að því er varðar skuldavanda heimilanna. Það hefur margt verið gert eins og þingmenn þekkja, það eru komin á þriðja tug úrræða og við vitum að í bankakerfinu og hjá Íbúðalánasjóði hafa 50–70% af þeim sem eru í vanda nýtt sér þau úrræði sem þar eru fyrir hendi, eins og greiðslujöfnun.

Við erum vitaskuld að vinna áfram í þessum málum vegna þess að við höfum áhyggjur af hópnum sem verst er staddur, það er hópurinn sem er með minnstar tekjur. Síðasta föstudag fóru þeir ráðherrar sem hafa með þetta að gera yfir stöðuna ásamt seðlabankastjóra þar sem við reyndum að greina vandann og sjá hvað þetta er stór hópur. Ég held að það sé ljóst að það eru þeir sem eru með minnstar tekjurnar sem þarf að vinna betur fyrir.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, við vorum með frumvarpið um nauðungarsölur hér um daginn og frumvarpið um greiðsluaðlögun endurbætt sem víkkar út gildissvið laganna og tekur til fleiri sem eru í vanda. Það er í undirbúningi hjá dómsmálaráðherra og mér skilst að það verði tilbúið á næstu vikum, eins og hæstv. dómsmálaráðherra segir. Það tekur tíma að vinna úr þessu. Við verðum að afmarka aðgerðirnar við þá hópa sem helst þurfa á því að halda.

Það eru einstaklingar í miklum vanda, við vitum að það eru 19–20 þúsund einstaklingar sem eru á vanskilaskrá en það er líka fróðlegt að bera það saman við tímann þegar við vorum í miklu góðæri, þá voru 15 þúsund manns á vanskilaskrá. Þó að þessi hópur sé stór núna var líka mjög stór hópur á vanskilaskrá í góðærinu. (Gripið fram í.)

Ég fullvissa hv. þingmann (Forseti hringir.) um að það er verið að vinna að þessu af fullum krafti og við munum koma með þetta mál inn í þingið eins fljótt og við getum.



[15:27]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil bæta við einni spurningu. Kveðið er á um í lögum frá 2009 að nefnd skuli skila efnahags- og viðskiptaráðherra niðurstöðum um hvernig árangur hefur verið varðandi aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Samkvæmt lögunum á sú nefnd að skila af sér 1. mars, það er í dag. Hvað líður þeirri skýrslu og munum við hér í þinginu fá tækifæri til þess að fjalla um það hvernig framkvæmd hefur verið á lögunum sem eiga að vera í þágu einstaklinga og fyrirtækja?

Hitt ber að undirstrika og það er rétt að hafa það í huga að fyrir mánuði síðan kom fram skoðanakönnun sem ASÍ gerði. 91% landsmanna eru á þeirri skoðun að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þágu heimilanna og fyrirtækjanna gagnist ekki. Þær duga ekki til þess að hjálpa fyrirtækjunum og ekki heldur fjölskyldunum út úr þeim vanda sem þau standa frammi fyrir í dag. Það er rétt að undirstrika það að meðan frestur er á nauðungarsölum „tikka“ dráttarvextirnir. Vandinn eykst. (Forseti hringir.) Ég hvet því ríkisstjórnina og segi: Komið ykkur að verki, komið með ykkar tillögur. Við skulum nota vikuna í að ræða það.



[15:28]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Meðal þess sem við fórum yfir á fundi með seðlabankastjóra er það sem Seðlabankinn er að vinna að sem er greining á áhrifum úrræða sem þegar hefur verið gripið til. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að fá það fram hvernig þau hafa gagnast. Á síðasta ríkisstjórnarfundi setti ráðherra efnahags- og viðskiptamála fram gagnaöflun vegna greiðsluvanda heimilanna sem hann hefur verið að vinna að með því að safna upplýsingum hjá bönkum og sparisjóðum, eignamiðlunum, Íbúðalánasjóði, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna o.s.frv. Þetta sýnir, virðulegi forseti, að verið er að vinna að þessu af fullum krafti.

Nú er að greina þennan bráðavanda, eins og ég nefndi, og síðan viljum við fara út í það sem líka er verið að vinna að og tekur lengri tíma, þ.e. að skoða langtímavandann, skuldavanda heimila til lengri tíma, og reyna að gera okkur grein fyrir hvernig hann þróast. Ég segi því bara, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, að við erum að vinna að þessu á öllum vígstöðvum og ég held að þær tölur sem Neytendastofa kom fram með séu sem betur fer of háar. Það sé þá meira að marka þær tölur sem við höfum verið að tala um, að það séu um 15–20% sem eru í miklum vanda og ég ítreka að það er allt of há tala.