138. löggjafarþing — 83. fundur
 1. mars 2010.
landbúnaður og aðildarumsókn að ESB.

[15:29]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég var svo lánsöm að vera viðstödd í gær þegar búnaðarþing var sett. Haldin var merk ræða af formanni Bændasamtaka Íslands þar sem farið var yfir afstöðu samtakanna varðandi Evrópusambandið. Umfangsmikil vinna fer af stað núna á þinginu varðandi þessi mál.

Meðal annars kom fram í máli formannsins að gerð var ný Gallup-könnun varðandi Evrópusambandsmál. Þar kom m.a. fram að 95,7% svarenda telja að það skipti miklu máli að landbúnaður verði stundaður hér á landi um langa framtíð. 84,3% telja að það skipti miklu máli að Íslendingar séu ekki öðrum háðir um landbúnaðarafurðir. 55,9% aðspurðra eru andvíg aðild Íslands að Evrópusambandinu, 62,8% segja að framtíð íslensks landbúnaðar hafi mikil eða nokkur áhrif á afstöðu sína til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

Þetta eru afskaplega athyglisverðar tölur og væri gaman að fá það fram hjá hæstv. utanríkisráðherra hvaða framtíð hann sér varðandi landbúnaðinn og Evrópusambandið. Hæstv. ráðherra er þingmaður Samfylkingarinnar en sá flokkur hefur jafnan horft mikið til þess hvað skoðanakannanir segja.

Jafnframt væri gott að fá fram álit hæstv. ráðherra á þeim niðurstöðum sem fram komu í könnuninni, að 57,9% svarenda segjast treysta íslenskum stjórnvöldum illa eða alls ekki til að gæta hagsmuna þjóðarinnar í umsóknarferlinu. Er ráðgert af hálfu ríkisstjórnarinnar að gera eitthvað til þess að styrkja þetta traust eða er kannski rétt að stöðva þetta ferli allt saman og draga umsóknina til baka?



[15:31]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Varðandi síðustu spurningu hv. þingmanns hef ég þegar svarað henni. Þingið ræður sjálft hvað það gerir. Það var Alþingi Íslendinga sem samþykkti að í þetta ferli yrði farið. Það var Alþingi sem fól framkvæmdarvaldinu að sækja um á grundvelli ákveðins álits sem birtist í meiri hluta greinargerð utanríkismálanefndar (Gripið fram í.) og til að leggja síðan það sem út úr því ferli kæmi í dóm þjóðarinnar. Þjóðin mun að lokum ráða. Það er enginn sem bannar hv. þingmanni að leggja fram tillögu um að stöðva þetta ferli. Þingið ræður, það er ekkert flóknara en það. Á meðan þessi samþykkt er virk, og ég hef enga ástæðu til að ætla að hún verði það ekki þangað til ferlið rennur til enda, mun ég auðvitað reyna að vinna hag Íslands eins og hægt er í krafti hennar. (Gripið fram í.)

Að því er varðar síðan hag íslensks landbúnaðar í framtíðinni hef ég fulla trú á því að hann muni standa sig vel innan Evrópusambandsins. Ég held meira að segja að hægt sé að færa rök að því, eins og reyndar var gert af ýmsum sem töluðu fyrir bændur fyrir nokkrum árum, að það gæti verið ákveðið skjól af Evrópusambandinu fyrir landbúnaðinn miðað við þær breytingar sem hugsanlegt er að eigi sér stað á næstu árum vegna ákvarðana á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Ég tel að hefðbundinn landbúnaður eins og sauðfjárrækt muni koma ívið betur út innan en utan sambandsins. Ég geri mér vonir um að það náist samningar sem eru þannig að mjólkuriðnaðurinn standi ekki verr en hann gerir í dag. Ég tel sömuleiðis að það hafi komið fram að ýmiss konar ræktun grænmetis standist þá áraun sem þetta verður en auðvitað verður þetta erfitt. Þess vegna er það okkar skylda að reyna að ná samningum sem verja landbúnaðinn eins og hægt er.



[15:33]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svörin en það væri ágætt ef hann nýtti síðari mínútu sína til að útskýra það betur fyrir mér hvernig í ósköpunum hægt er að færa röksemdir fyrir því að íslenskum landbúnaði verði ágætlega borgið innan Evrópusambandsins ef þjóðin samþykkir það feigðarflan vegna þess að Evrópusambandið er eins og það er. Við vitum fyrir hvað það stendur og við vitum hvernig reglur þess eru.

Bændasamtök Íslands hafa farið í viðamikla vinnu til að afla sér upplýsinga um það hvernig þessum málum hefur verið háttað gagnvart þeim þjóðum sem gengið hafa í sambandið, og þá sérstaklega Norðurlandaþjóðunum. Það er að því er mér skilst einróma niðurstaða bænda að hagsmunum íslensks landbúnaðar sé ekki betur borgið innan Evrópusambandsins. Þess vegna skil ég ekki hvernig hæstv. utanríkisráðherra getur haldið því fram að þetta verði allt í lagi fyrir landbúnaðinn. Hver eru rökin og hver eru skilaboðin til þeirra (Forseti hringir.) fjölmörgu fulltrúa sem nú sitja á búnaðarþingi?



[15:35]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann, ég get fullvissað íslenska bændur um að við munum reyna eins og kostur er að ná fram samningi sem ver þeirra hagsmuni. Ég er vinur íslenskra bænda og íslensks landbúnaðar og að hluta til alinn upp af góðum framsóknarbændum á Mýrum. Það sér á mér að lengi býr að fyrstu gerð. Það er alveg ljóst að það skiptir miklu máli líka að bændur komi með inn í þetta ferli. Þeir hafa mesta reynslu, þeir hafa mesta þekkingu, eins og hv. þingmaður segir, og þeir hljóta auðvitað að gera ráð fyrir þeim möguleika, hvað sem skoðanakönnunum líður, að samningur komi og hann verði að lokum samþykktur. Þess vegna skiptir mestu máli að samningurinn verði sem bestur. Ef hv. þingmaður hefur trú á þessum könnunum sér hún að verulega stór hluti þjóðarinnar samsvarar hagsmuni sína íslensku bændahagsmununum. Þá þarf hún ekki að vera mjög hrædd við þetta. Ef samningur kemur sem er vondur dæmir þjóðin hann náttúrlega að verðleikum.