138. löggjafarþing — 83. fundur
 1. mars 2010.
ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2008 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn, fyrri umræða.
stjtill., 397. mál (aukning eignarhlutdeildar í fjármálageiranum). — Þskj. 706.

[15:41]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Með þessari tillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2008, um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins 2007/44/EB um breytingu á tilskipun ráðsins 92/49/EBE og sömuleiðis tilskipun 2002/83/EB, 2004/39/EB, 2005/68/EB og 2006/48/EB, að því er varðar reglur um málsmeðferð og viðmiðanir vegna varfærnismats við yfirtökur og aukningu eignarhlutdeildar í fjármálageiranum.

Tilskipun 2007/44/EB inniheldur ákvæði sem varðar virkan eignarhlut í lánastofnunum, vátryggingafélögum og fjármálafyrirtækjum með leyfi til verðbréfaviðskipta, en hér er um að ræða breytingar á fimm tilteknum gerðum á sviði fjármálaþjónustu. Þessar breytingar eru allar tæknilegs eðlis og fyrir þeim er gerð ítarleg grein í tillögunni sjálfri. Af þessari tilskipun leiðir að gera þarf breytingar á lögum um vátryggingastarfsemi og sömuleiðis lögum um fjármálafyrirtæki.

Frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi annars vegar og frumvarp til breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki hins vegar hafa þegar verið lögð fram á yfirstandandi þingi. 1. umr. um þau er lokið og þeim hefur báðum verið vísað til hv. viðskiptanefndar þar sem þau eru nú til efnislegrar umfjöllunar.

Meginbreytingin sem lögð er til í fyrrnefndum frumvörpum og tengist tilskipun 2007/44/EB sérstaklega er að ekki verður gert ráð fyrir umsókn til Fjármálaeftirlitsins um að mega fara með virkan eignarhlut í félögum sem falla undir viðkomandi löggjöf heldur aðeins tilkynningu. Sá sem tilkynnir getur þó ekki farið með eignarhlutinn fyrr en liðinn er sá tímafrestur sem Fjármálaeftirlitið hefur til að setja sig upp á móti kaupunum eða aukningunni. Að auki er líka um að ræða breytingu á þeim viðmiðum sem Fjármálaeftirlitinu verður heimilt að styðjast við við mat á hæfi tilkynnanda og jafnframt þeim tímafresti sem stofnunin skal vinna samkvæmt. Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi er hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað með þessari tillögu eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem felst í ályktuninni svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg svo til, frú forseti, að þegar þessari umræðu sleppir verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.



[15:44]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta en langar eiginlega frekar að spyrja hann en að fara í andsvar við hann um þau frumvörp sem liggja fyrir, annars vegar um vátryggingafélög og hins vegar um fjármálafyrirtæki. Eru þessi frumvörp ekki sambland af því að bregðast við því sem fram kemur í EES-samningum og reglugerðum og því að breyta gildandi lögum á Íslandi óháð því sem fram kemur í EES-samningnum?

Þá er önnur spurning til hæstv. utanríkisráðherra. Hún varðar meðferð EES-mála almennt í þinginu, kynningu þeirra, umræðu og afgreiðslu. Erum við ætíð að bregðast við einhverju sem þegar á að vera komið í gildi eða tökum við inn tilskipanir án þess að tímafresturinn sé liðinn, ef hæstv. utanríkisráðherra skilur hvað ég á við?



[15:46]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi fyrri spurningu hv. þingmanns hygg ég að það sé rétt hjá henni að að því er varðar annað frumvarpið þar sem fjallað er um vátryggingastarfsemina sé um að ræða þá blöndu sem hv. þingmaður talaði um. Þar byggi ég meira á vitneskju minni af þeim frumvörpum sem lögð voru fram á síðasta þingi en þá var klárlega um það að ræða.

Að öðru leyti er mér ekki fullkunnugt um hvort það gildir um hitt frumvarpið líka. Það er ekki ég sem legg frumvarpið fram. Ég legg einungis þessa þingsályktunartillögu fram til að staðfesta þessa ákvörðun og þar með að uppfylla skilyrði þings- og stjórnskipunarinnar um að aflétt verði stjórnskipulegum fyrirvara sem settur var í krafti 23. gr. stjórnarskrárinnar og verður að gera þegar breyta þarf lögum.

Að því er varðar síðari spurninguna, hafi ég skilið hana rétt, hefur nýlega komið fram í skýrslu framkvæmdastjórnarinnar um Ísland í tengslum við aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu að Ísland stendur sig ívið betur en flest ríki við að innleiða þær gerðir, tilskipanir og reglur sem nauðsynlegt er að gera. Ég hygg því að þó að í sumum tilvikum sé sá frestur liðinn sem settur er þá stöndum við okkur ekki verr en aðrir. Hins vegar nota ég tækifærið og lýsi þeirri skoðun minni sem ég hef margoft gert á Alþingi að ég tel að Alþingi eigi með miklu skipulegri hætti að fara í skoðun á þessum málum. Þegar við tökum ákvarðanir í sameiginlegu EES-nefndinni gerist það með því að lögð eru ákveðin drög fyrir ríkisstjórn. Þau eru samþykkt eftir atvikum og síðan er gerður við þau fyrirvari sem felur í sér lagabreytingar. En ég tel að þingið eigi miklu fyrr að koma að þessum málum og helst jafnvel áður en þessi mál fara í þennan farveg.



[15:48]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að koma stuttlega inn í umræðu um þau mál sem hér eru til umfjöllunar og ætla ekki að fara efnislega í þær á þessu stigi. Það gefst tækifæri til þess að gera það á vettvangi hv. utanríkismálanefndar og eftir atvikum annarra fagnefnda ef tilefni verður til að vísa þeim til frekari umfjöllunar þar. En í framhaldi af þeim sjónarmiðum og athugasemdum sem komu fram í máli hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um meðferð þessara mála, er sammerkt þeim öllum þremur þingsályktunartillögum á þskj. 705, 706 og 707 sem hér eru til umfjöllunar að þær fjalla um málsmeðferð EES-tilskipana. Hæstv. utanríkisráðherra lagði áherslu á að þingið kæmi fyrr að málum en það hefur gert. Tillaga hefur verið til meðferðar um nokkurra mánaða skeið, hugsanlega nokkurra missira skeið, mætti segja, um reglur um þinglega meðferð EES-mála. Á vettvangi forsætisnefndar hefur þetta mál verið rætt og ég vil upplýsa um að þar er gert ráð fyrir því í þeim drögum að reglum sem núna eru til umfjöllunar að þingið komi mun fyrr að þessum málum en verið hefur til þess að ekki sé hægt að líta svo á að efnisleg umfjöllun hafi ekki átt sér stað um þessi atriði sem hugsanlega kalla á lagabreytingar og að fallið sé frá stjórnskipulegum fyrirvara á vettvangi Alþingis þegar málið kemur þar inn.

Þetta tel ég vera mjög mikilvægt og ég ítreka það í forsætisnefnd að vinnu við þessar reglur verði hraðað. Það má segja að núna séu þær í lokabúningi og eru til umfjöllunar í samstarfi Alþingis og utanríkisráðuneytisins. Ég á von á því að á allra næstu dögum verði tilbúin tillaga að reglum sem forsætisnefnd setur um þinglega meðferð EES-mála og að hægt verði að ganga frá þeim af hálfu forsætisnefndar hið allra fyrsta. Það mun sem sagt þýða að þegar mál eru á vinnslustigi munu þau koma, eins og hæstv. utanríkisráðherra lýsti að gert verði gagnvart ríkisstjórn, til umfjöllunar hjá utanríkismálanefnd á Alþingi og eftir atvikum öðrum fagnefndum sem viðkomandi mál heyrir undir. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart þegar málin koma síðan með formlegum hætti til umfjöllunar Alþingis.

Stundum hefur þetta verið gert þannig þegar fallið er frá stjórnskipulegum fyrirvara að það kemur ekki einu sinni tillaga til þingsályktunar heldur kemur tillaga í lagafrumvarpinu sjálfu. Þetta höfum við margítrekað gagnrýnt, að ekki sé komið með tillögu um að falla frá stjórnskipulegum fyrirvara fyrr en í lagafrumvarpinu sem um ræðir. Það er að sjálfsögðu miklu betra að það gerist með þessum hætti, að fyrst komi þingsályktunartillaga eins og gert er í þeim málum sem hér eru til umræðu í dag. Fallist Alþingi á þá tillögu er að vænta lagafrumvarps á síðari stigum þar sem innleiðingin er fest í lög. Þetta er að mínum dómi betri nálgun en við höfum stundum séð. En eftir sem áður er að mínu mikilvægt að við klárum vinnu við reglur um þinglega meðferð EES-mála til að tryggja sem allra bestan undirbúning og sem allra besta umfjöllun af hálfu Alþingis um þau mál sem svona þarf að fara með samkvæmt reglum.



[15:52]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar, vegna orða hv. þm. og formanns utanríkismálanefndar Árna Þórs Sigurðssonar, að spyrja hann frekar út í þá vinnu sem utanríkismálanefnd hefur verið að vinna varðandi aðkomu þingsins að EES-gerðum. Ég fagna því að hv. þingmaður beitir sér fyrir því innan forsætisnefndar að ýta á eftir þessum reglum sem samþykktar voru í utanríkismálanefnd 2008, að mig minnir, þverpólitískt, með allri þáverandi utanríkismálanefnd. Að mínu mati sýndi þessi vinna okkar að hér er borð fyrir báru, við getum þá frekar komið að athugasemdum og haft áhrif á gerðir á frumstigi en við gerum núna. Við fullnýtum ekki EES-samninginn okkur til hagsbóta og mér hefði þótt ráð að gera þetta áður en við færum að brölta í það að sækja um, en það er önnur umræða. Mig langar til að spyrja hv. þingmann um þetta.

Í reglunum er gert ráð fyrir því að eftirlitsnefndin með þessu verði sameiginleg, utanríkismálanefnd og EFTA-nefndin. Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á því? Styður hann þá tillögu fyrrverandi utanríkismálanefndar, sem hann átti að vísu ekki sæti í, ef mig misminnir ekki? Síðan er eitt lykilatriði í þeim tillögum, það er að utanríkisráðherra verði gert skylt að kynna allar tillögur fyrir utanríkismálanefnd eða sameiginlegu nefndinni áður en þær verða lagðar fyrir ráðherranefndina, sameiginlegu EES-nefndina. Hvað þykir hv. þingmanni um þá framkvæmd?



[15:54]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv þm. Ragnheiði E. Árnadóttur fyrir þessa fyrirspurn. Ég er algerlega sammála þeim sjónarmiðum sem komu fram í máli hennar. Ég átti, eins og kom fram hjá þingmanninum, ekki sæti í utanríkismálanefnd 2008 þegar verið var að hefja þessa vinnu. Það var undir forustu þáverandi formanns nefndarinnar, hv. þm. Bjarna Benediktssonar. Ég átti hins vegar sæti þá eins og nú í þingmannanefnd EFTA. Í þeirri nefnd fengum við einnig þessar reglur eða drög að reglum til skoðunar og ég lýsti þar í öllum meginatriðum stuðningi við þær og styð þær. Þau drög sem verið hafa til umfjöllunar að undanförnu eru þau hin sömu og unnin voru á vegum þáverandi hv. utanríkismálanefndar.

Það sem aðallega hefur verið í skoðun undanfarið er að fara yfir þær hreint praktískt, þ.e. tæknilega með það fyrir augum að framkvæmdin verði samkvæmt reglunum í raun gerleg og framkvæmanleg praktískt séð þannig að það henti bæði þingi og framkvæmdarvaldinu sem þurfa síðan að vinna eftir þeim í framhaldinu. Ég tala fyrir þessum reglum og vil gjarnan að þær taki gildi sem allra fyrst. Ég hef, bæði sem formaður utanríkismálanefndar og núna upp á síðkastið sem fulltrúi í forsætisnefnd, lagt áherslu á það.

Varðandi það sem þingmaðurinn spyr um sérstaklega að því er varðar aðkomu þingsins þegar verið er að vinna málin á frumstigi, held ég að það megi almennt segja að því fyrr sem við komum að málum þeim mun meiri líkur eru á því að við getum haft áhrif á niðurstöðu málanna. Þess vegna held ég að það sé líka mikilvægt fyrir þingið að komast sem allra fyrst að umræðu um þau mál sem fara í þennan farveg. Ég undirstrika að það er mikilvægt að þingleg meðferð (Forseti hringir.) EES-mála fari í þann farveg alveg burt séð frá því hvað við gerum síðan varðandi aðildarumsóknina að Evrópusambandinu (Forseti hringir.) vegna þess að við erum enn þá í EFTA. Við erum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og sá samningur er í gildi.



[15:57]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég fagna sérstaklega síðustu orðum hv. þingmanns, það var einmitt það sem ég ætlaði að spyrja hann um í síðara andsvari mínu, hvenær hann telji að þessar reglur geti komið í framkvæmd, hvort þess sé langt að bíða, því að eins og hann er ég er orðin ansi óþreyjufull eftir að sjá þær í framkvæmd. Ég hvet hann og hæstv. utanríkisráðherra að láta þessa umsókn ekki breyta þessu verklagi vegna þess að ef það er eitthvað sem við þurfum er það að halda okkar hagsmunabaráttu áfram jafnvel þó að þessi umsókn sé komin í það ferli sem hún er nú í.

Ég tel að við eigum margt inni þarna og að við eigum að nýta öll þau tækifæri sem við höfum. Það var alltaf markmiðið að hafa reglurnar gerlegar praktískt séð þannig að það kemur ekki á óvart að verið sé að reyna að útfæra þessi sömu drög. Við lögðum okkur mikið fram um að hafa þetta þannig að við gætum gert þetta vegna þess að það kom í ljós að reglurnar höfðu verið til staðar alveg frá því að samningurinn var samþykktur, þær höfðu bara ekki verið framkvæmanlegar vegna þess að við erum svo fá og smá. Þess vegna lögðum við í það mikla vinnu í þáverandi utanríkismálanefnd að hafa reglurnar svona en okkur var þó fullljóst að þeim gæti fylgt einhver kostnaður. Því vildi ég spyrja hv. þingmann að því hvort það tefji kannski fyrir. Til að við getum uppfyllt okkar eftirlitsskyldu í rauninni, þingið, gerðum við ráð fyrir því að það voru aukin samskipti þingmanna við Evrópuþingið, við flokkahópana. Við töluðum um á einhverju stigi, ég held að það hafi verið í drögunum, að Alþingi hefði starfsmann inni á Evrópuþinginu o.s.frv. Það var kostnaður við þetta, (Forseti hringir.) jafnvel þegar þetta var sett fram fyrir þau áföll sem við höfum orðið fyrir, og því vildi ég spyrja um þetta atriði.



[15:59]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nei, mér er ekki kunnugt um að þessi kostnaðarþáttur hafi sérstaklega verið að þvælast fyrir í þessu samhengi, ég hef ekki heyrt þeim sjónarmiðum haldið til haga og kannast ekki við það. Það er alveg ljóst eins og þingmaðurinn nefnir að það kann að vera einhver kostnaðarauki vegna þessa en hann getur hins vegar líka hugsanlega skilað okkur, ef við getum á fyrstu stigum haft áhrif á það hvernig hlutirnir eru útfærðir, einhverjum sparnaði í framhaldinu. Ég tel því að þarna geti hlutirnir vegist á og þess vegna þurfi ekki að hafa sérstakar áhyggjur af því í þessu efni af því að ég held heldur ekki að um stórvægilegar fjárhæðir sé að ræða hvað þetta varðar.

Síðan nefndi þingmaðurinn líka hugmyndir um aukið samstarf beinlínis við Evrópuþingið, flokkahópana og annað slíkt. Það eru hugmyndir sem einnig voru sérstaklega reifaðar í skýrslu Evrópunefndar sem skilaði af sér á vormánuðum 2007, ef ég man rétt, undir forustu þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra Björns Bjarnasonar. Þá voru mjög ítarlegar tillögur einmitt um þetta sem ég er í öllum meginatriðum sammála. Ég tel mikilvægt að við styrkjum samstarf okkar við þingmenn á Evrópuþinginu, bæði við einstakar fagnefndir sem fjalla um mál sem geta varðað okkur og eiga eftir að fara inn í EES-samninginn og eins við flokkahópana. Ég tek undir það með þingmanninum og tel að við eigum að gera okkar besta til að styrkja slík tengsl. Á þessum tímum þegar við horfumst í augu við niðurskurð á mörgum sviðum í hinum opinbera rekstri eru tengsl af þessum toga mikilvæg og geta skilað okkur ávinningi og árangri til framtíðar.



[16:01]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa spunnist um nánari tengsl okkar við Evrópuþingið og sömuleiðis nánari eftirfylgni og rannsókn þingsins á gerðum sem við þurfum að taka upp. Þessar umræður hafa hins vegar spunnist undir þingsályktunartillögu um afnám stjórnskipulegs fyrirvara varðandi fjármálaþjónustu en ég þakka þær eigi að síður. Ég er algerlega sammála þeim tveimur þingmönnum sem hér hafa talað um þessi efni. Ég hef löngum verið sammála því viðhorfi sem hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir kom með fram áðan þótt ég sé eindreginn stuðningsmaður ESB-aðildar. Það fólst í því að hún telur að það sé töluvert sem við eigum inni í EES-samningnum. Ég er þeirrar skoðunar að hægt hefði verið á undanförnum árum að nýta hann betur.

Sú afstaða mín kom t.d. fram í þeirri nefnd sem ég átti sæti í og vann að Evrópumálum undir stjórn fyrrverandi dómsmálaráðherra Björns Bjarnasonar. Þar var nákvæmlega í þessi mál farið og þar var m.a. lagt til að Alþingi Íslendinga yndi bráðan bug að því að rækja sitt eftirlitshlutverk betur en hefði verið gert. Árum saman var þetta þannig að málin duttu inn í þingið og mætti litlum áhuga. Þau voru lítt rannsökuð, að mér þótti a.m.k. þegar ég sat í utanríkismálanefnd, og fóru þannig tiltölulega hratt í gegn. Ég er þeirrar skoðunar að hægt sé að benda á hluti á liðnum árum sem hefðu verið miklu ódýrari fyrir okkur ef þetta eftirlit hefði verið rækt með betri og ríkari hætti.

Ég rak mig á það meðan ég gegndi starfi umhverfisráðherra að þar höfðu bersýnilega flotið í gegn mál sem vörðuðu töluvert miklu sem íslenska þingið hefði betur skoðað út í hörgul áður en þau voru samþykkt. Ég nefni sérstaklega tilskipun um fráveitur sem kostuðu sveitarfélög mjög mikið. Ég sem umhverfisráðherra var sannfærður um að hægt hefði verið á fyrri stigum máls að hafa miklu ríkari áhrif á það mál en raunin varð, bæði með því að koma fyrr að því á sérfræðingastiginu, en ég taldi að ef þingið hefði rannsakað þetta mál rækilega á sínum tíma hefðu menn komist að því að það var ekki þörf á því að ráðast í þessar umfangsmiklu framkvæmdir eins og sveitarfélög þurftu að gera. Ég lagði að vísu mitt litla lóð á vogarskál sveitarfélaganna ásamt þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddssyni með því að flytja frumvarp fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um að endurgreiða virðisaukaskattinn á framkvæmdunum, en söm var gjörðin.

Sömuleiðis er ég þeirrar skoðunar og hef verið lengi að hrinda ætti hinni gömlu tillögu sem fyrst kom fram í ranni Framsóknarflokksins, að þingflokkarnir ættu að rækja með formlegum hætti tengsl sín við samsvarandi flokka á Evrópuþinginu, í framkvæmd. Ég tel að það sé nauðsynlegt, algerlega án tillits til þess hvort við göngum í Evrópusambandið eða ekki. Ég tel sem sagt að íslenska þingið geti varið hagsmuni Íslendinga með því að nota sér þær tengingar sem flokkarnir hér á Alþingi Íslendinga hafa við flokkahópana. Fulltrúar þeirra sem sætu þar inni gætu komið miklu sterkara að sameiginlegum hagsmunamálum Íslands ef þeir væru þar með sín fimm höfuð í hinum mismunandi flokkahópum. Ég tek því algerlega undir það sem kom fram hjá hv. þingmönnum áðan.

Ég fagna því sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði að nú væri að koma að því að settar yrðu í gang reglur sem fela það í sér að þingið kemur miklu fyrr að lögum, tillögum og drögum að sameiginlegum ákvörðunum innan sameiginlegu EES-nefndarinnar en gerist í dag. Ég tel að þetta þurfi að gera og ég tel að þingið þurfi að hafa ef ekki smásjá þá a.m.k. stækkunargler alveg frá því að þessi mál fæðast. Ég er þeirrar skoðunar, ég tel að í því felist mikil hagsmunavörn fyrir Íslendinga. Auðvitað kostar þetta peninga. En það kostar einfaldlega að taka þátt í hinu alþjóðlega samfélagi og í þessu tilviki er hreinlega um það að ræða að kosta peningum til að gera hlutina betur. Sú tillaga sem hv. þingmaður og formaður utanríkismálanefndar drap á áðan, um að Alþingi hefði fulltrúa eða starfsmann með einhverjum hætti hjá Evrópuþinginu, er mjög góðra gjalda verð. Ég tel að það eigi að gerast. Það kostar líka peninga að sjálfsögðu en eins og Evrópuþingið er orðið valdamikið er það alveg ljóst, hvort sem við erum innan eða utan Evrópusambandsins, að það skiptir máli að hafa fulltrúa sem fylgist með og veit hvernig vindar blása og þegar koma upp mál sem Íslendingar þurfa að láta til sín taka. Þetta veit ég að hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem ég ber alltaf hlýjan hug til og el í brjósti mér von um að muni að lokum sjá ljósið hvað varðar Evrópu, er sammála mér um því að í þessu efni skiptir ekki máli hvort Íslendingar standa utan eða innan ESB. Þetta er einfaldlega eitt af því sem tími er kominn til að við tökum ákvörðun um. Og sannarlega mundi t.d. hv. þm. Ögmundur Jónasson sóma sér vel sem fulltrúi Alþingis Íslendinga í störfum innan Evrópuþingsins. (Gripið fram í.)



[16:07]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég vissi ekki betur héldi ég að þessi ágæti hæstv. ráðherra sem talaði áðan væri þeirrar skoðunar innst inni að okkur væri betur borgið utan ESB. Ég fagna því að hæstv. ráðherra sagði hér beinum orðum að EES-samningurinn ætti margt inni, hann var sammála mér um það, og að við fullnýttum hann ekki. Í fyrsta lagi vil ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra einlæglega sem handhafa framkvæmdarvalds í utanríkismálum: Getur hæstv. ráðherra lofað mér því að þrátt fyrir miklar annir við aðildarumsóknina að hann passi upp á það að hans ágætu embættismenn sinni framkvæmd EES-samningsins eins vel og mögulega hægt er að gera og lofar hann mér því að forgangsraða þannig að okkar hagsmuna verði gætt í þeirri vinnu? Ég verð að segja að einmitt vegna þess að við höfum, eins og ég og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson voru að ræða hérna áðan, alltaf haft reglurnar til staðar um það hvernig við getum nýtt samninginn. En vegna smæðar okkar höfum við ekki komið því í framkvæmd, við höfum ekki forgangsraðað í þá veru. Þess vegna er ég svo hrædd um að núna þegar við erum byrjuð í þessu umsagnarferlið að EES-samningurinn gleymist. Þess vegna fagna ég sérstaklega orðum hæstv. ráðherra um að hann telji samninginn eiga meiri möguleika. Ég er þeirrar skoðunar að þetta umsagnarferlið muni taka nokkuð mörg ár vegna þess að það er yfir margt að fara og okkur liggur ekkert á. En mér finnst liggja mikið á að fá skýr svör frá ráðherranum um það hvort ég geti ekki sofið róleg á nóttunni yfir því að hagmuna okkar í EES-samningnum verði gætt.



[16:10]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að mér er umhugað um það að hún sofi vel og komi glöð í skapi til þingstarfa á hverjum morgni. En gamanlaust legg ég sem utanríkisráðherra mikla áherslu á að starfsmenn utanríkisráðuneytisins fylgist gaumgæfilega með framkvæmd samningsins. Þetta er vant fólk, það er á tánum og gerir hlutina vel. Ég tel ekki að sú vinna sem er í gangi vegna aðildarumsóknarinnar torveldi það neitt. Ég hef sagt það áður við hv. þingmann að við höfum í reynd breytt starfsfyrirkomulagi í ráðuneytinu þannig að við höfum sogað til þess fólk úr ýmsum öðrum deildum en ekki úr þessari, þvert á móti ef eitthvað er, hefur verið gefið í á þessu sviði. Ég fullvissa því hv. þingmann um að hún mun á næstu missirum eiga rólegar nætur, a.m.k. vegna þessa.

Hins vegar þarf afstaða mín í þessu efni ekki að koma hv. þingmanni á óvart. Ég hef bæði tjáð hana í ræðu og riti. Ég hef sagt það áður að EES-samningurinn hafi átt inni, það væri hægt t.d. af hálfu þingsins að nýta hann betur til að koma ár Íslands dýpra og betur fyrir borð. Að þessu leyti til vorum við, ég og fyrrverandi dómsmálaráðherra, algerlega sammála. Við vorum að vísu ósammála um hvort Ísland ætti síðan að stíga skrefið til fulls og sækja um aðild að Evrópusambandinu en við vorum sammála um þetta. Á sínum tíma sameinuðumst við í Evrópunefndinni um einar fjórar eða fimm tillögur. Þar tókst þó ekki að koma fram tillögunni um að flokkahóparnir yrðu styrktir til að hafa fulltrúa í viðkomandi flokkahópum á Evrópuþinginu en það voru margir í Evrópunefndinni sem voru þó þeirrar skoðunar, ekki allir. Ég tel að það væri hið besta mál og fagna því sem hér hefur komið fram í þessari umræðu um þær reglubreytingar sem nú eru á döfinni (Forseti hringir.) hjá forsætisnefnd Alþingis.



[16:12]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil beina því til okkar allra hérna, og þá sérstaklega fulltrúa í hv. forsætisnefnd, að koma þessum reglum sem fyrst í framkvæmd. Mér sýnist vera mikil samstaða um að þær séu til mikilla bóta. Þar er einmitt sú tillaga um að flokkarnir ræki betur samband sitt við kollega sína á Evrópuþinginu.

Varðandi forgangsröðun verkefna í utanríkisráðuneytinu efast ég ekki um að starfsfólk hæstv. ráðherra sé hæft fólk og vant, ég dreg það alls ekki í efa. Hæstv. ráðherra sagði að þetta væri vant fólk á tánum, það hefði tækifæri til að sinna öllum þessum málum en svo ég grípi aftur í líkinguna um svefnvenjurnar þarf vant fólk sem er á tánum líka að sofa á nóttunni. Það kemst ekki yfir nema svo og svo mikið. Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til að fara sér hægt í umsóknarferlinu og einbeita sér meira að því að passa upp á það sem skiptir mestu máli núna, það er að gæta hagsmuna okkar og að beita sér fyrir því að við komum fyrr inn í ákvarðanatökuferlið, þau tækifæri sem við höfum innan samningsins. Í því sambandi minnist ég á þessar reglur eina ferðina enn.

Við getum og eigum eftir að ræða Evrópusambandsaðildarumsóknina oft og mörgum sinnum en nú eru það EES-gerðir sem eru til umræðu. Ég verð að segja að þó ég sé ekki að ræða einmitt þessa umsókn hér, eru það alltaf sömu spurningarnar sem þetta snýst um, alltaf sama áhyggjuefnið: Aðkoma þingsins. — Ég sé hæstv. fjármálaráðherra sem sat með mér í utanríkismálanefnd, við skrifuðum þessar reglur í sameiningu, sátt og samlyndi. Við þurfum að fara að koma þessum málum í þann farveg (Forseti hringir.) að þinginu sé sómi að.



[16:14]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sýnir frjálslyndi og umburðarlyndi hæstv. fjármálaráðherra að hann skuli hafa verið aðili að þessum tillögum um að auka tengsl þingsins við Evrópuþingið. Ég vildi aðeins segja að þetta sem við erum að ræða höfum við talað um árum saman, sennilega töluvert áður en hv. þingmaður steig fyrst inn á þing. En það vekur athygli mína og skemmtan að það er fyrst núna þegar svo vill til að formaður utanríkismálanefndar er líka í forsætisnefndinni sem tekst að negla þetta saman þannig að það verði settar reglur og menn velta því fyrir sér í fullri alvöru að verja (Gripið fram í.) til þeirra fé til að sjá til þess að þær komist til framkvæmda, eða þannig skildi ég það. Ég hef alla vega fyrr í þessari umræðu tjáð mína einskæru ánægju yfir þeim upplýsingum sem formaður utanríkismálanefndar lagði fram um það sem á döfinni er vegna þess sem ég taldi vera nýlegar ákvarðanir innan forsætisnefndarinnar.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til utanrmn.