138. löggjafarþing — 84. fundur
 2. mars 2010.
störf þingsins.

[13:31]
Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Við sjálfstæðismenn vöruðum alvarlega við þeim skattahækkunum sem gengu í gegn í þinginu í desembermánuði. Við bentum á að það væri líklegt að þær mundu reynast hagkerfinu illa þegar upp væri staðið, það mundi jafnvel verða þess valdandi að drægi úr tekjum ríkissjóðs þegar upp væri staðið.

Við ræddum sérstaklega eina tegund skattheimtu á þessum vettvangi sem snýr að vaxtagreiðslum, svokölluðum afdráttarskatti á vaxtagreiðslu sem snýr að erlendum fjármögnunar- og eignarhaldsfélögum sem hér hafa starfað. Þau fyrirtæki hafa verið á meðal hæstu skattgreiðenda í Reykjavík í það minnsta og fjögur slík fyrirtæki voru á lista yfir tíu hæstu skattgreiðendur á höfuðborgarsvæðinu. Samanlagt skiluðu þau fyrirtæki um það bil milljarði kr. í skatttekjur.

Nú stefnir í það og hefur komið fram að þessi fyrirtæki munu líklega fara úr landi vegna þeirra skattbreytinga sem hafa verið gerðar og sérstaklega hafa menn áhyggjur af því hvaða skattbreytingar séu væntanlegar því að hæstv. fjármálaráðherra þjóðarinnar hefur lýst því yfir að menn hafi ekki séð allt hvað það varðar og reyndar hafi þeir ekki séð neitt af því að það eru svo miklar breytingar fram undan. Hér er fyrirsjáanlegt tekjutap fyrir ríkissjóð vegna skattahækkana sem getur hlaupið á hundruðum jafnvel milljörðum kr. Það gerir það að verkum að þeir peningar sem áður komu inn í ríkissjóð vegna þessarar starfsemi og var hægt að nota til að reka sjúkrahús og menntakerfi, fara úr landinu vegna þessara aðgerða ríkisstjórnarinnar sem gera það að verkum að fjárlagahallinn verður meiri en ella og niðurskurðurinn verður um leið meiri. Þetta sýnir í hnotskurn, frú forseti, hvaða áhrif það getur haft þegar menn fara hugsunarlaust og undirbúningslaust í skattahækkanir án þess að gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar verða þar af. Það skiptir öllu máli núna, frú forseti, að við snúum af þessari braut (Forseti hringir.) og förum að vinna af skynsemi fyrir íslenska þjóðarbúið og að því hvernig við ætlum að bjarga ríkissjóði Íslands.



[13:34]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er gífurlega mikilvægt núna þegar dregur saman í hagkerfinu að halda uppi háu framkvæmdastigi í samgöngumálum. Þess vegna voru það mjög jákvæðar fréttir sem bárust á dögunum að heildarframlög til samgöngumála á þessu ári væru 11,5 milljarðar kr., sem er meira að meðaltali, borið saman við verga landsframleiðslu, en árið 2007 svo dæmi sé tekið. Þetta er mikið fagnaðarefni og þarna eru mörg mikilvæg þjóðþrifaverkefni undir. Núna fyrir örfáum dögum var fyrsti áfangi að tvöföldun á Suðurlandsvegi, 6,5 kílómetra kafli, sendur í útboð inn á Evrópa efnahagssvæðið. Eftir 50 daga verða þau útboð opnuð og framkvæmdir hefjast í apríl eða maí. Það tókst að afstýra því slysi að málið yrði stoppað í bæjarstjórn Kópavogs út af ágreiningi um mislæg gatnamót við Bláfjallaafleggjarann. Bæjarstjórnin tók mjög skynsamlega ákvörðun þannig að verkið gat farið í útboð. Má nefna mörg önnur stórverkefni eins og endurbætur á Vesturlandsvegi, Héðinsfjarðargöng, göng við Bolungarvík og margt fleira. Þar að auki eru framkvæmdir í Bakkafjöru sem í heildina eru upp á 3,5 milljarða. Þetta er gífurlega hátt framkvæmdastig og mikilvægt að halda því úti þrátt fyrir samdrátt af því að áfallið var mest og meira en annars staðar í mannvirkjagerðinni og þeim geira. Þetta eru störf og framkvæmdir sem skila sér eins og vítamínsprauta inn í hagkerfið og efnahagslífið um allt Ísland um leið og það byggir upp sterka og öfluga innviði út um allt land. Þarna verða miklar umbætur sérstaklega í umferðaröryggismálum þar sem á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi er verið að stíga þau mikilvægu skref að skilja á milli akreina og ná þar fram miklu betri og öruggari samgöngum að öllu leyti.

Ég vildi því beina því til fulltrúa stjórnarandstöðunnar í samgöngunefnd, hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar, hvort hann taki ekki undir það að mikilvægt sé að halda uppi háu og öflugu framkvæmdastigi í samgöngumálum þrátt fyrir samdrátt, kannski til að koma í veg (Forseti hringir.) fyrir enn þá meiri og alvarlegri samdrátt.



[13:36]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Eins og honum er fullkunnugt um og flestöllum hér inni er ég mikill áhugamaður um hátt framkvæmdastig, en það er ekki hægt að segja það um blessaða ríkisstjórnina sem gerir ekkert annað en þvælast fyrir í því öllu. Ég deili ekki skoðunum með henni.

Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að vissulega hefur verið framkvæmt mikið á þessu ári í samgöngumálum. En ég vil samt minna á að það verða engar nýjar framkvæmdir boðnar út á þessu ári nema farið verði út í svokallaðar einkaframkvæmdir. Ég fagna að sjálfsögðu þessum nýja vegarkafla á Suðurlandsvegi þótt ég hefði öllu heldur viljað sjá þessar framkvæmdir fara á suðurhluta Vestfjarða þar sem er enn þá meiri þörf fyrir vegaframkvæmdir en á Suðurlandsvegi. Ég geri þó ekki lítið úr þeirri þörf í heild sinni.

Þegar við vorum að ræða fjárlögin sl. haust lögðum við sjálfstæðismenn til að Vegagerðinni yrði heimilt að nýta 4,4 milljarða við nýframkvæmdir og ný útboð á þessu ári. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að það mundi verða mikill virðisauki fyrir samfélagið, það er gríðarlega mikilvægt, það hefði líka bjargað mjög mörgum verktökum frá gjaldþroti. Við megum heldur ekki gleyma því að mikið af þeim kostnaði sem ríkið setur í vegaframkvæmdir skilar sér til baka. Það er því gríðarlega mikilvægt að halda uppi framkvæmdastigi í landinu. Eins og við vitum öll er mikil þörf fyrir að fara í framkvæmdir. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði til að farið yrði í mannaflsfrekar framkvæmdir um allt land vegna þess að annars, þegar við værum búnir að rétta úr kútnum eftir tvö, þrjú, fjögur ár og færum aftur í framkvæmdir, yrðu allir þessu litlu verktakar farnir, orðnir gjaldþrota. Þá eru hvorki verkþekkingin né tækin til staðar. Við deilum því þessari skoðun, ég og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, að það er mikilvægt að hafa hátt framkvæmdastig í vegagerð á landinu.



[13:38]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að stinga inn nokkrum orðum um atvinnuuppbyggingu í landinu sem er mikilvæg sem aldrei fyrr. Ég hvet þingmenn til að lesa þennan bækling frá Samtökum atvinnulífsins, Atvinna fyrir alla. Hann er gott innlegg í þá umræðu sem við þurfum að taka hér hvert í sínu lagi og hvert við annað. Nú um stundir held ég að það sé meira beðið um samstöðu þingheims en sundrungu, (Gripið fram í: Rétt.) sérstaklega þegar kemur að atvinnuuppbyggingu í landinu. Það er vitaskuld óþolandi að atvinnuleysi sé jafnmikið og raun ber vitni. Það er áfellisdómur yfir stjórnvöldum þessa lands að svo skuli vera (Gripið fram í: Rétt.) enda þótt afleiðingarnar af efnahagshruni fyrir hálfu öðru ári séu augljósar. En það getur ekki verið afsökun fyrir því að betur hafi ekki verið gert í þessum efnum á síðustu árum. Við þurfum að gera enn betur. Þess vegna hvet ég bæði ríkið og bæjarfélög til að draga ekki lappirnar í þessum málum, þvælast ekki fyrir áætluðum framkvæmdum eins og nýlegt dæmi frá Kópavogi sýnir okkur. (Gripið fram í: Á það við umhverfisráðherra líka?) Hér þurfum við að sækja fram, meira að segja hvað umhverfismálin varðar, til að koma eins mörgum framkvæmdum á framkvæmdastig og kostur er vegna þess að við verðum að bregðast við ákalli þjóðarinnar í atvinnumálum. Samtök atvinnulífsins segja frá því í bæklingi sínum að 11 þúsund störf hafi tapast 2008–2009 og að atvinnuleysi verði um 10% á þessu ári og því næsta. Það er óþolandi og ég hvet þingheim til að sýna nú samstöðu í þessum efnum og koma því fólki til hjálpar sem er án atvinnu, (Forseti hringir.) koma þeim verktökum til hjálpar sem eru án verka. (Gripið fram í: Farðu nú og talaðu við þingflokkinn um þetta.) Ég er alltaf að því.



[13:41]
Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég er sammála mörgu af því sem Samtök atvinnulífsins leggja til hvað varðar atvinnuuppbyggingu í landinu en alls ekki öllu, ekki því að hraða beri virkjana- og stóriðjuframkvæmdum. Eftir fall bankanna hafa orkufyrirtækin, ríkissjóður og fyrirtæki í landinu ekki aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum. Brýnar, atvinnuskapandi aðgerðir eru því við þessar aðstæður að setja skuldsett fyrirtæki fjárglæframanna í þrot, hraða fjárhagslegri endurskipulagningu lífvænlegra fyrirtækja til að þau geti fjárfest og ráðið nýtt fólk, bæta rekstrarskilyrði fyrirtækja með lækkun vaxta í 5%, afskrifa tapaðar kröfur og færa niður höfuðstól lána heimilanna til að örva eftirspurn í hagkerfinu.

Frú forseti. Hér á landi hafa fjárfestar fyrst og fremst áhuga á því að kaupa stórfyrirtæki og virðast hafa til þess nægilegt fjármagn. Velta má fyrir sér hvers vegna ákveðnir fjárfestar hafa svona mikið fjármagn á milli handanna. Líklegt er að þetta fé sé til komið í gegnum skuldsettar yfirtökur fjárfestingarfélaga á rekstrarfélögum sem nú eru tæmd að öllum eignum. Nauðsynlegt er að setja slík félög sem fyrst í þrot, þ.e. fjárfestingarfélögin og eignarhaldsfélögin, til að hægt verði að þjóðnýta illa fengið fé og til að tryggja að þeir sem best eru til fyrirtækjarekstrar fallnir eignist rekstrarfyrirtækin þegar þau fara í sölu.

Frú forseti. Við tryggjum ekki atvinnu og velferð í landinu nema við hættum að tipla á tánum í kringum kröfuhafa og útrásarvíkingana. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)



[13:43]
Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Á síðasta ári var boðið upp á sumarannir fyrir stúdenta Háskóla Íslands. Þúsund nemendur nýttu sér námið og náðu sér í dýrmætar einingar yfir sumartímann. Þessir stúdentar hefðu að öðrum kosti verið atvinnulausir, enda voru atvinnuhorfur í þjóðfélaginu heldur daprar þá og ekki í sjónmáli að þær batni í náinni framtíð.

Sumarannir voru svar við bágu atvinnuástandi þar sem gripið var til aðgerða til varnar stúdentum. Það var góð ákvörðun hjá menntamálaráðherra að bjóða upp á sumarannir. Nú er svo komið að ekki stendur til að bjóða upp á lánshæf námskeið í Háskóla Íslands í sumar. Jafnframt liggur fyrir að réttur námsmanna til atvinnuleysisbóta hefur verið afnuminn og horfur á atvinnu fyrir námsmenn eru mjög litlar. Aldurshópurinn 20–34 ára er einmitt langstærsti hópurinn á atvinnuleysisskrá og þetta er jafnframt það fólk sem flytur hvað mest úr landi.

Okkur þingmönnum barst bréf í morgun frá námsmanni sem sagði, með leyfi forseta:

„Þetta ástand vekur örvæntingu meðal námsmanna, sérstaklega þeirra sem ekki hafa bakland í fjármálum og þeirra sem þurfa að standa skil á húsnæðislánum og öðrum lánum.“

Mig langar til að spyrja hv. formann menntamálanefndar, Oddnýju G. Harðardóttur: Er það rétt að ekki verði boðið upp á sumarannir við Háskóla Íslands? Og ef svo er, hver er ástæðan að baki þeirri ákvörðun? Einnig langar mig að spyrja: Hvað eiga tekjulitlir námsmenn að gera í sumar sem ekki hafa rétt til atvinnuleysisbóta eða náms? Hver er lausn hv. þingmanns og formanns menntamálanefndar á því ástandi sem nú blasir við námsmönnum?



[13:45]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Í fyrravor var gerð athugun á áhuga námsmanna til að stunda sumarnám og samkvæmt þeirri könnun voru allmargir tilbúnir í slíkt. Aðsókn reyndist hins vegar mun minni en spáð var en Háskóli Íslands hefur þó ekki formlega gefið það út að lánshæf sumarnámskeið verði ekki haldin í ár.

Síðastliðið haust tóku gildi breytingar um LÍN og Atvinnuleysistryggingasjóð sem fól í sér hækkun mánaðargreiðslna námslána úr 100 þúsund í 120 þúsund samhliða því að réttur námsmanna til atvinnuleysisbóta var afnuminn. Samráð og sátt var um þetta málefni hjá menntamálaráðuneyti, félags- og tryggingamálaráðuneyti og námsmannahreyfinga. Breytingarnar byggðu m.a. á reynslu frá því í fyrra sem sýndi að nýting þeirra lánshæfu námsúrræða sem í boði voru reyndist langt undir væntingum (EÓÁ: Þúsund manns.) auk þess sem umtalsverður fjöldi sumarstarfa var ómannaður þrátt fyrir atvinnulausa námsmenn á bótum. Vegna þess hóps námsmanna sem ekki átti framfærsluúrræði vegna þessa var gert ráð fyrir að framfærsluskylda sveitarfélaga gæti mögulega aukist og því eru í undirbúningi reglur sem munu gera sveitarfélögum kleift að sækja um sérstaka styrki til átaksverkefna á þeirra vegum fyrir námsmenn. Reglur um slíkt eru væntanlegar á næstu vikum. Þetta er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar sem gengið hefur undir nafninu Ungt fólk til athafna og er ætlað að hvetja ungt fólk til virkni frekar en aðgerðaleysis.



[13:47]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir nánast hvert orð sem hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson sagði hér áðan, sérstaklega þar sem hann hvatti hæstv. ríkisstjórn til að lesa bæklinginn frá Samtökum atvinnulífsins til þess að gera sér grein fyrir því hvað þarf til þess að koma þessu þjóðfélagi aftur á lappirnar.

Það vill þannig til, virðulegur forseti, að við hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson sitjum saman í fjárlaganefnd og gerum okkur vel grein fyrir því sem fram undan er þar sem þarf að skera niður við næstu fjárlagagerð um 50 milljarða. Þetta er 10–15% niðurskurður. Við þekkjum öll núna hvernig ástandið er þegar búið er að skera niður um 4–8%, þannig að við sjáum alveg verkefnið sem í vændum er og gerum okkur fulla grein fyrir því að það verður að fara að spýta í lófana og skapa gjaldeyri, skapa störf til þess að koma þjóðfélaginu á lappirnar aftur. Ég hvet hv. þingmann til þess að lesa þetta a.m.k. fyrir stóran hluta af hæstv. ríkisstjórn til þess að hún geri sér grein fyrir því hvernig við eigum að reisa þetta þjóðfélag við.

Ástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs undir þessum lið er sú að nú eru fjölskyldurnar í landinu í mjög miklum vandræðum eins og við vitum flestöll nema sumir hæstv. ráðherrar sem stinga nú hausnum í steininn eins og strúturinn. [Hlátur í þingsal.] — Í sandinn, fyrirgefið þið. Já, það liggur við að þeir séu farnir að gera það, þeir eru komnir svo neðarlega með hausinn að þeir eru komnir niður úr sandlaginu, en hvað um það. Eitt af vandamálum heimilanna er að á þessu ári hafa skattahækkanir ríkisstjórnarinnar orðið til þess að hver bensínlítri hefur hækkað um 26 krónur — bara skattahækkanir ríkisstjórnarinnar, plús það að heimsmarkaðsverð á bensíni hefur hækkað um 37 kr. á einu ári. Kostnaðaraukinn fyrir meðalfjölskyldu í landinu á meðalfólksbíl, ekki neinum stórum jeppum eða þvílíku, er orðinn 52 þús. kr., (Forseti hringir.) sem þýðir að meðalfjölskyldan í landinu þarf að hafa rúmlega 100 þús. kr. meira í tekjur til að mæta eingöngu þessum kostnaði. Því vil ég beina þeirri spurningu til hv. þm. Magnúsar Orra Schrams hvort það komi að hans mati til greina að draga úr þessum hækkunum til þess að auðvelda fjölskyldunum í landinu lífið.



[13:49]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt að bensínverð á Íslandi hefur hækkað umtalsvert, en gætum að því að ef ekki hefði orðið hrun á íslenskum gjaldmiðli væri bensínlítrinn 15 kr. ódýrari en hann er í dag, einhvers staðar á bilinu 185–190 kr. Gætum að því að bensínverð á Íslandi er 40–50 kr. lægra en það er í samanburðarlöndunum vegna þess að skattar ytra á bensín eru hærri.

Kaupmáttur er vissulega lægri hjá Íslendingum og af hverju er það? Vegna þess að gengi krónunnar hefur hrunið sl. eitt og hálft ár. Næstum allt sem íslensk fjölskylda kaupir inn er dýrara og fjárhagur ríkisins er í rúst. Ég reyni að tala mildilega um þetta en eftir 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins er fjárhagur ríkisins í rúst og þess vegna þurfum við að hækka skatta í þessu landi. (Gripið fram í.)

Það sem ég segi er: Halli ríkissjóðs var 200 milljarðar þegar núverandi ríkisstjórn tók við, við erum búin að ná honum niður í 100 en við þurfum að gera enn betur. Krónan missti helming af verðgildi sínu og ég segi við Sjálfstæðisflokkinn: Ef þið viljið í raun og veru lækka kostnað heimilanna, lækka verð á bensíni, sykri eða cheeriosi, komið þá með okkur í þessa vegferð og skoðum það hvort við eigum ekki að taka upp nýjan gjaldmiðil í þessu landi. (Iðnrh.: Heyr, heyr.) Við getum orðað þetta svona: Þessi króna (Gripið fram í.) er ágæt nema fyrir þær fjölskyldur (Gripið fram í.) sem kaupa vörur frá útlöndum, nema fyrir þær fjölskyldur sem langar að ferðast og nema fyrir þær fjölskyldur sem skulda í þessu landi. Ég spyr Sjálfstæðisflokkinn: Fyrir hvaða fjölskyldur eruð þið að berjast? (SII: Heyr, heyr.)



[13:51]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Eins og alþjóð veit og rætt hefur verið um hér í dag erum við Íslendingar í aðildarferli að Evrópusambandinu í boði Samfylkingarinnar með dyggum stuðningi Vinstri grænna. (Gripið fram í.) Nú hefur framkvæmdastjórn ESB skilað inn viðamikilli skýrslu um Ísland. Mig langar að beina þeirri spurningu til hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, sem er formaður utanríkismálanefndar, hvort til standi að þýða þetta plagg þannig að almenningur og hv. þingmenn, sem virðast haldnir ýmsum misskilningi um Evrópusambandið, hvernig við förum þar inn og hvenær við getum tekið upp nýjan gjaldmiðil, geti lesið sér til um þetta. Ég tel að það sé full þörf á því. Skýrslan er auk þess skrifuð á hinu merka tungumáli sem hv. þm. Árni Johnsen kallar „brusselsku“ þannig að það væri ágætt að fá hana þýdda yfir á hið ástkæra ylhýra tungumál okkar.

Hér fer fram barátta á næstu missirum um það hvort þessi aðild sé æskileg fyrir okkur eða ekki. Ég óska eftir því að sú barátta verði drengileg og málefnaleg og verði byggð á réttum upplýsingum. Því tel ég brýnt að ráðist verði í þetta verkefni sem fyrst. Ég tel að þar sem þessi skýrsla kom út fyrir tæpri viku síðan hljóti að vera farin í gang vinna við að þýða þetta vegna þess að ekki getum við látið Íslendinga sitja við það borð að einu fréttirnar af þessari skýrslu komi í gegnum hæstv. utanríkisráðherra, sem virðist túlka skýrsluna, t.d. hvað varðar sjávarútvegskaflann, á mjög frjálslegan hátt.

Spurningin er sem sagt þessi: Hvenær á að þýða skýrsluna? Hvenær liggur sú þýðing frammi? Ég vil jafnframt nýta tækifærið og hvetja hv. þm. Árna Þór Sigurðsson til að beita sér fyrir því að það gerist sem fyrst.



[13:53]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Mig langar fyrst að taka undir það með þingmanninum að það er mikilvægt að umræðan um þessi mál verði drengileg og málefnaleg. Vil ég þá sérstaklega beina því til þingmannsins vegna þess að hún lýsti því yfir að þetta aðildarviðræðuferli væri nú komið af stað í boði Samfylkingar með dyggum stuðningi nokkurra þingmanna Vinstri grænna. Það vill þannig til að það var Alþingi Íslendinga sem samþykkti þingsályktun þar að lútandi og greiddu þingmenn úr a.m.k. fjórum stjórnmálaflokkum, ef ég man rétt, atkvæði með þessari tillögu, bara til að halda því til haga og reyna að halda þessu á málefnalegum forsendum. Það voru líka þingmenn úr sennilega fjórum flokkum sem greiddu atkvæði gegn þessari tillögu eins og við þekkjum.

Varðandi fyrirspurnir þingmannsins var sérstakur fundur boðaður í utanríkismálanefnd í gærmorgun til þess að ræða um álit framkvæmdastjórnarinnar vegna aðildarumsóknarinnar. Á þeim fundi vakti ég máls á því m.a. að það væri mikilvægt að þessi greinargerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins yrði þýdd á íslenska tungu og hæstv. utanríkisráðherra var boðaður á þann fund. Hann upplýsti þar að vinna við þýðingu væri þegar hafin þannig að svar mitt við þeirri spurningu er já, þetta álit verður þýtt og er reyndar þegar komið í þýðingu. Það er mikilvægt til þess að allir sem vilja kynna sér það geti gert það á sínu móðurmáli.

Ég vil líka taka það fram að það er mjög mikilvægt í þessari umræðu að átta sig á því að hér er fyrst og fremst um að ræða álit framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem byggist á þeim svörum sem íslensk stjórnvöld gáfu við þeim fyrirspurnum sem sendar voru hingað sl. haust. Útgangspunkturinn hjá framkvæmdastjórninni er að sjálfsögðu regluverk framkvæmdastjórnarinnar og Evrópusambandsins. Síðan á eftir að taka ákvörðun um hvort Ísland verður formlegt umsóknarríki. (Forseti hringir.) Það gerist væntanlega áður en mjög langt um líður af hálfu ráðherraráðsins. Þá fyrst hefjast formlegar aðildarviðræður og þá munu Íslendingar að sjálfsögðu setja fram sín meginmarkmið í þeim viðræðum.



[13:55]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Til að ná þeim hagvexti sem nauðsynlegur er til að endurreisa íslenskt samfélag á næstu árum er mikilvægt að skapa hér um 25–30 þúsund störf. Þetta er nauðsynlegt til þess að ná þeim aukna hagvexti sem við verðum að fá og til að skapa þau útflutningsverðmæti sem þurfa að vera til staðar. Það má segja að skattpeningastefna stjórnvalda virki alveg þveröfugt á þetta. Það kemur í ljós nú þegar á fyrstu vikum þessa árs að þessir auknu skattar skila sér ekki til ríkissjóðs heldur skila þeir sér í svartara hagkerfi og þverrandi skatttekjum.

Það er alveg sama hversu löngum tíma við eyðum í að ræða um allar þær nauðsynlegu, félagslegu aðgerðir sem þarf að grípa til, ef við náum ekki að efla hér atvinnustigið sitjum við áfram með það vandamál í fanginu. Það mun ekki gera annað en að aukast og endar í einhverjum spíral aukins atvinnuleysis og verri afkomu. Það eru nokkur atriði sem hægt er að grípa til strax til þess að efla íslenskt atvinnulíf og það er sorglegt að horfa á að ríkisstjórnarflokkarnir skuli ekki koma sér saman um að fara í þau verkefni. Það má nefna orkufrekan iðnað. Það er hægt að fara strax í Búðarhálsvirkjun og Hverahlíðarvirkjun, ekki með einhverjum smáskömmtum eins og þessi ríkisstjórn hefur nú boðað heldur af fullum krafti. Það er hægt að fara í samgöngumannvirki og það er áhugavert að heyra hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson tala um hversu mikilvægt það er að halda uppi háu framkvæmdastigi í samgöngumannvirkjum. Verkefni upp á 8,4 milljarða voru sett á ís þegar þessi ríkisstjórn tók við, það er hægt að setja þessi verkefni af stað aftur.

Ríkisstjórnin nefnir gjarnan að það sé ekki hægt að fjármagna þessi verkefni. Lífeyrissjóðirnir hafa lýst sig tilbúna til þess að fjármagna þessi verkefni, þetta eru verkefni upp á eina 60 milljarða, í lífeyrissjóðunum eru 1.800 milljarðar. Þeir fundir sem haldnir hafa verið með lífeyrissjóðunum af hálfu ríkisstjórnarinnar hafa valdið vonbrigðum fram að þessu og ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir hafa ekki gengið fram með þeirri (Forseti hringir.) sátt sem var að finna í stöðugleikasáttmálanum. Það er kominn tími til, hæstv. forseti, að þessi ríkisstjórn fari að taka til höndum. Ég held reyndar að hún sé ekki þess fær, (Forseti hringir.) það er komið í ljós, það verða aðrir sem geta sýnt meiri ábyrgð hér og ættu að taka við stjórn landsins.



[13:58]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það telst ekki til frétta í dag að heyra af miklum ágreiningi í herbúðum Vinstri grænna en nú ber nýrra við. Eldurinn sem þar logar stafna á milli virðist hafa tekið sér bólfestu í herbúðum Samfylkingarinnar því að hér kom hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson upp og kaghýddi ráðherra Samfylkingarinnar fyrir framan alþjóð vegna þess að hann er búinn að gefast upp á að tala yfir hæstv. ráðherrum í þingflokknum. Ég gat ekki annað séð en að hæstv. utanríkisráðherra Össuri Skarphéðinssyni og hæstv. iðnaðarráðherra Katrínu Júlíusdóttur liði ekkert sérlega vel undir mjög beittri ræðu hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar. (Gripið fram í.)

Sú málefnalega gagnrýni sem kemur úr herbúðum Samfylkingarinnar á sér því miður stoð í raunveruleikanum því að nú er eitt ár frá mjög frægum blaðamannafundi sem hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn héldu þar sem þeir lofuðu þingi og þjóð 4.000 nýjum störfum. Hvar eru þau störf? Ég spyr eins og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson. Það átti að skapa hvorki fleiri né færri en 2.000 ársverk með Búðarhálsvirkjun og orkufrekum iðnaði. Hvar eru þessi 2.000 störf? (Gripið fram í.) Það átti að setja hálfan milljarð í ofanflóðavarnir í Neskaupstað. Hvað varð um þær framkvæmdir? Þær voru slegnar af. Það átti að efla kvikmyndagerð í landinu og fjölga þar um 200–300 störf. Hvað varð af því? Þvert á móti var skorið þar niður.

Nú er tími til kominn að þessi ríkisstjórn fari að taka sig saman í andlitinu og fari að stunda einhverja raunverulega pólitík með framkvæmdum. Sú orðagleði og þeir blaðamannafundir sem haldnir eru með fallegum orðum duga einfaldlega ekki lengur. Þolinmæðin er ekki bara þrotin hjá almenningi og stjórnarandstöðunni, (Forseti hringir.) heldur líka hjá stjórnarliðum, eins og við sjáum hér í mjög óvæginni gagnrýni frá samfylkingarþingmanninum Sigmundi Erni Rúnarssyni. Hafi hann þökk fyrir.



[14:00]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir gagnrýni hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar á ríkisstjórnina og aðgerðaleysi í atvinnumálum og ég tek líka undir þakkir hans til hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar sem sagði áðan að þetta væri áfellisdómur yfir stjórnvöldum, svo ég noti hans orð. Hann talaði um að ríki og bæjarfélög eigi ekki að bregða fæti fyrir framkvæmdir og hvatti þing og þjóð til að standa saman og sýna samstöðu. Ég tek undir hvatningu hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar og þakka honum líka hreinskilnina vegna þess að þegar þingmaðurinn var á leið úr pontu var kallað til hans: Þú ættir að tala svona í þingflokknum. Þá sagði þingmaðurinn: Ég er alltaf að því. Það sýnir okkur hvað örvæntingin er orðin mikil og ég fagna því að það séu þingmenn innan Samfylkingarinnar sem hugsa á þennan hátt vegna þess að ég var farin að örvænta sjálf um að þá væri ekki að finna innan þessa þingflokks. Ég fagna því að þar séu þingmenn sem hafa áhuga á og áhyggjur af atvinnusköpun í landinu. Ég tek undir með þingmanninum að þessi ríkisstjórn er sífellt að bregða fæti fyrir öll þau endalausu tækifæri til atvinnusköpunar sem hér eru út um allt. Ég nefni síðasta dæmið sem snertir þó ekki stóriðju eða uppbyggingu orkufrekra mannvirkja og iðnaðar sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki getað komið sér saman um, það má ekki heldur koma með uppbyggingu í heilsutengdri starfsemi. Það er enn eitt tækifærið sem einstakir ráðherrar bregða fæti fyrir þannig að ég tek undir hvatningu og gagnrýni hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, ég hvet (Forseti hringir.) alla þingmenn, hvar í flokki sem þeir eru, til að tryggja að við nýtum tækifærið og sköpum (Forseti hringir.) atvinnu. Við þurfum á því að halda núna.