138. löggjafarþing — 85. fundur
 3. mars 2010.
einkaréttur á póstþjónustu.
fsp. ÞKG, 346. mál. — Þskj. 619.

[14:45]
Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Á sínum tíma var ákveðið að fresta gildistöku tilskipunar frá ESB um opnun póstmarkaða og einkaleyfi Íslandspósts á bréfum undir 50 g var framlengt til ársins 2011. Það var fyrst og fremst gert til þess að hægt væri að vinna að því að tryggð yrði alþjónusta fyrir alla þjóðina, þ.e. öll útnesin og landið í heild og að fólki, sama hvar á landinu það býr, yrði tryggð sú þjónusta sem það þarf á að halda. Þegar einkaleyfið verður afnumið þurfum við að tryggja að allir geti fengið póstinn sinn. Það er nokkurn veginn það sem þarf að gera.

Núna er liðinn nokkuð drjúgur tími síðan þessi ákvörðun var tekin og það líður að því að þetta afnám gangi í gildi, þ.e. 1. janúar 2011. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé ljóst að afnámið muni taka gildi, þ.e. að það verði samkeppni í allri póstþjónustu og einkaleyfi til Íslandspósts á bréfum 50 g og léttari verði þá afnumið. Mér skilst að alla vega til langs tíma hafi stjórnendur Íslandspósts verið byrjaðir að undirbúa sig og að þeir gerðu ráð fyrir því að þetta afnám mundi ganga í gildi, þ.e. einkaleyfið yrði afnumið. Auðvitað eru aðrir aðilar á markaði líka byrjaðir að undirbúa sig fyrir þessa dagsetningu, 1. janúar 2011. Ég held til að mynda að starfsfólki Íslandspósts sé enginn greiði gerður með því að vinna í tveimur kerfum, þ.e. annars vegar í einkaleyfiskerfi sem byggir algerlega á einkaleyfi og hins vegar inni á samkeppnismarkaði. Ég held að því fyrirtæki sé ekki greiði gerður með þessu og það torveldi frekar starfsemi þess heldur en hitt.

Ég tel að það skipti miklu máli að menn stefni áfram að því markmiði að afnema einkarétt á dreifingu bréfa undir 50 g 1. janúar 2011 og vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki alveg ljóst að ráðuneytið hafi á þessum tíma unnið að því að tryggja alþjónustuna. Það er rétt að draga fram að þetta er ráðuneyti fjarskiptamála sem á að hafa reynslu í að tryggja alþjónustu. Við þekkjum öll hvernig alþjónustan var tryggð í fjarskiptamálum og þá ættu að vera hæg heimatökin að tryggja líka þessa alþjónustu í bréfaburði. Því vil ég spyrja: Er ekki alveg ljóst að samfylkingarráðherrann tryggi samkeppni á þessum markaði frá og með 1. janúar 2011 (Forseti hringir.) þannig að það verði virk samkeppni í þágu allra sem nýta þennan markað?



[14:49]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspurn frá hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur sem snýst um einkarétt á póstþjónustu. Spurningin hljóðar einfaldlega svo: Hyggst ráðherra fresta afnámi einkaréttar á póstþjónustu en að öllu óbreyttu verður hann afnuminn 1. janúar 2011?

Tilskipun 2008/6 er sú þriðja og síðasta í röð tilskipana sem hafa tekið skref til að draga úr einkaleyfisrekstri og hafa þær m.a. opnað fyrir ýmiss konar aðkomu einkaaðila, svo sem að pósti yfir 50 g og að dreifikerfi einkaréttarhafans í heildsölu. Með tilskipun 2008/6 er einkaleyfi til póstdreifingar að fullu afnumið, þó með ráðstöfunum sem ætlað er að tryggja hag neytenda og varða aðgengi að póstþjónustu og gæðum hennar. Með innleiðingu tilskipunar 2008/6 frá EB verður einkaréttur fyrirtækja á EES-svæðinu til póstburðar á bréfum allt að 50 g afnuminn 31. desember næstkomandi. Ellefu ESB-ríki hafa fengið heimild til að fresta gildistökunni um tvö ár. Meðal annars segir í stefnuyfirlýsingu norsku ríkisstjórnarinnar frá 7. október 2009 að stjórnvöld þar muni sækja um frestun á afnámi einkaréttar og skoða málið nánar.

Það er mitt mat að rétt sé að fresta gildistöku tilskipunarinnar um tvö ár hér á landi svo meiri tími gefist m.a. til undirbúnings fyrir aðila á póstmarkaði, undirbúnings löggjafar og til að greina markaðinn. Í öðru lagi að skilgreina alþjónustu sem tekur mið af sérstöðu Íslands og hinum dreifðu byggðum landsins og í þriðja lagi að finna hagkvæmustu leiðir við fjármögnun alþjónustu úr ríkissjóði eða með jöfnunargjaldi. Í samræmi við þetta hefur ríkisstjórnin samþykkt að tillögu minni að leita eftir frestun á ákvæði tilskipunarinnar sem kveður á um afnám einkaréttar um allt að tvö ár. Ráðuneytið vinnur að málinu á vettvangi EFTA með fyrirvara um ákvörðun hinnar sameiginlegu nefndar EES/EFTA-ríkjanna og tekur ákvæði tilskipunarinnar um opnun póstmarkaða gildi í síðasta lagi 1. janúar 2013. Undirbúningur fyrir gildistöku tilskipunarinnar er hafinn og gert er ráð fyrir að hafa samráð við aðila á markaði þegar lengra er komið og undirbúningurinn er kominn á fullt skrið.



[14:51]
Arna Lára Jónsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir orð hæstv. samgönguráðherra Kristjáns L. Möllers af því að ég held að við höfum ekki markaðslegar forsendur til að fara í samkeppnisrekstur á póstþjónustu. Við þekkjum dæmi eins og hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir kom inn á varðandi fjarskiptin og það hefur að mínu mati algerlega brugðist. Við þekkjum það varðandi gagnaflutninga en mjög gott dæmi er frá mínu svæði á Vestfjörðum þar sem þetta hefur algerlega brugðist. Míla hefur ekki staðið við sitt þrátt fyrir að hafa átt að gera það.

Ég tel að einkaaðilar geti ekki sinnt stefnu stjórnvalda um alþjónustu. Það sem við stöndum frammi fyrir núna er að íbúar sumra landshluta borga sama verð fyrir minni þjónustu og við ættum að láta okkur það að kenningu verða áður en við förum út í annan einkarekstur á grunnþjónustu landsmanna.



[14:52]
Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Þannig að það sé alveg öruggt og klárt: Við viljum setja á alþjónustu allra á landinu og það eru til þess leiðir og það eru til þess tæki. Þess vegna spyr ég: Því í ósköpunum hefur hæstv. samgönguráðherra ekki unnið að þessu á undanförnum missirum og árum? Mér finnst það vera rétt sem menn tala um að síðan Sturla Böðvarsson hvarf úr stóli samgönguráðherra hafi ekkert gerst í því ráðuneyti — nema jú, loksins eftir langan tíma er farið í útboð til að tvöfalda Suðurlandsveginn. Ég óska ykkur til hamingju með það en annars gerist ekkert í þessu ráðuneyti.

Er það ekki einkennandi fyrir þessa ríkisstjórn vinstri manna, Samfylkingar og Vinstri grænna, að þegar þeir geta valið samkeppni velja þeir fákeppni? Það kemur ekkert á óvart í ljósi þess hver þróunin er núna á markaði, m.a. undir forustu ríkisbankans Landsbankans sem velur að ýta fyrirtækjum sem rétt hanga á horriminni út í samkeppni við ríkisrekið fyrirtæki. Það er hægt að tala um blómasölu. Það er hægt að tala um hugbúnaðarfyrirtæki og alls konar fyrirtæki sem núna eru með stuðningi ríkisins að fara út í harða samkeppni við þau fyrirtæki sem eru fyrir á markaði.

Það er rétt að draga fram að þetta er tilskipun frá ESB. Við munum þurfa að taka þessa tilskipun upp en núna ætlar vinstri stjórnin að fresta þessu enn og aftur af því að hún er hrædd við samkeppnina. Hún treystir ekki einstaklingum eða einkaaðilum á markaði. Það kemur auðvitað engum á óvart að hún skuli ekki treysta einkaaðilum á markaði en þetta eru sömu aðilar — ég er sannfærð um að Íslandspóstur er búinn að undirbúa sig mjög vel fyrir þessa breytingu. Því fyrirtæki stýrir fært fólk, þar vinnur gott starfsfólk og ég er sannfærð um að það er byrjað að undirbúa sig fyrir þessa breytingu og hefur gert það vel. En það eru líka aðrir aðilar á markaði sem hafa gert ráð fyrir því að afnám einkaréttar varðandi þessa póstþjónustu verði 1. janúar 2011. Þess vegna furða ég mig á því, en er um leið ekki mjög undrandi, að vinstri stjórnin er að minnka samkeppni. (Forseti hringir.) Hún kemur í veg fyrir samkeppni á þessum sviðum sem öðrum.



[14:55]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði í fyrri ræðu sinni að á sínum tíma hefði verið ákveðið að fresta gildistöku á afnámi einkaréttar póstsins. Það er alveg rétt. Sú ákvörðun var tekin af ríkisstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn sat í og af ráðherra Sjálfstæðisflokksins. (PHB: Var einn í stjórn!)

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort samfylkingarráðherrann muni ekki örugglega afnema einkaréttinn. Jú, hann mun gera það en það tekur þennan tíma. (Gripið fram í.) Í raun og veru er samfylkingarráðherrann, virðulegi forseti, að gera það sama og ráðherra Sjálfstæðisflokksins gerði, að fresta þessu til að fara í gegnum þá vinnu sem eftir er. Ég dreg ekki í efa (Gripið fram í.) að starfsmenn Íslandspósts hafi búið sig vel undir þetta en það er ekki nóg. Þetta snýst ekki bara um að Íslandspóstur sé undirbúinn. Þetta snýst að sjálfsögðu líka um það hvort kerfið er undirbúið og hvort við erum tilbúin. Til dæmis væri gaman að heyra álit hv. þingmanns á því hvernig við eigum að tryggja alþjónustuna. Eigum við að gera það með fjármunum úr ríkissjóði eða með hækkun gjalda með svokölluðu jöfnunargjaldi?

Virðulegi forseti. Um annað sem kom fram í ræðu hv. þingmanns (ÞKG: Þú hefur haft þrjú ár til þess að athuga það.) — um annað sem hv. þingmaður sagði varðandi að ekkert væri gert í ráðuneytinu þá vil ég aðeins segja að það er greinilegt að berin sem hv. þingmaður borðar um þessar mundir eru mjög súr. Ég skil það vel eftir þá sneypuför sem stefna Sjálfstæðisflokksins hefur fengið hér á landi sem annars staðar. Þetta er súrt og þetta er erfitt. Það er erfitt fyrir sjálfstæðismenn að átta sig á því að það geta aðrir stjórnað landinu en þeir. Það getur vel verið að þetta komi einhvern tíma aftur, að sjálfstæðismenn starfi, en það verður ábyggilega langt í það. (ÞKG: Hvað ertu búinn að gera í þrjú ár?)