138. löggjafarþing — 85. fundur
 3. mars 2010.
umhverfismerki á fisk.
fsp. SF, 251. mál. — Þskj. 287.

[15:25]
Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég er með fimm fyrirspurnir til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þær ganga allar út á umhverfismerki á fisk. Ég vil vita hver staðan er á vinnu við íslensk umhverfismerki á fisk og hvort slíkt merki fær bráðum vottun þriðja aðila. Og ef ekki, hver er ástæða þess. Ég vil líka spyrja hvort ráðherra sé kunnugt um fyrirstöðu fyrir því að íslenskar fiskafurðir uppfylli umhverfisvottun og hvort þess séu dæmi að íslenskir fiskútflytjendur hafi misst markaðshlutdeild af því að þeir eru ekki með umhverfismerktar fiskafurðir eða eigi það á hættu. Ef svo er, hvaða þjóðir hafa aukið markaðshlutdeild á okkar kostnað? Ég spyr líka hvort hæstv. ráðherra hafi upplýsingar um að seljendur íslenskra fiskafurða verði í auknum mæli varir við óskir um umhverfismerkingar.

Þannig er, virðulegi forseti, að það eru tveir skólar í þessu máli. Það er annaðhvort að taka upp umhverfismerki, sem er þekkt á alþjóðavettvangi, eða taka upp séríslenskt umhverfismerki, sem við mundum þá merkja okkar fisk með, og menn deila um þessa tvo skóla. LÍÚ hefur frekar aðhyllst seinni skólann, þ.e. að við ættum að taka upp íslenskt umhverfismerki. Það er vegna þess að þeir hafa ákveðinn fyrirvara á þeim umhverfismerkjum sem nú þegar eru í gangi á fiskafurðum. Ég get nefnt sem dæmi að það umhverfismerki sem nágrannaríki okkar hafa tekið upp sem er MSC, Marin Stewardship Councel — hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hafa talsverðan fyrirvara á því og telja að það merki sé of nálægt umhverfissamtökum. Ég dreg það reyndar svolítið í efa, virðulegi forseti, og mig langar að spyrja hvar þessi mál standa.

Á sínum tíma misstum við markaðshlutdeild í Sviss af því að við vorum ekki með umhverfismerki. Það fyrirtæki sem þar var hafði beðið um að fá umhverfismerki til að geta merkt sína vöru en ekki var orðið við því á þeim tíma. Stjórnvöld tóku við sér og settu þetta í ferli en síðan hefur allt verið á alveg ótrúlega litlum hraða, hraða snigilsins, svo ég vitni í fleyg orð. Þetta átti allt að fara af stað í árslok 2007 og þá sagði hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, sem var þá sjávarútvegsráðherra, að þetta kæmist allt af stað fyrir árslok 2007. Síðan átti þetta allt að fara af stað ári síðar og þetta átti í síðasta lagi að fara af stað á síðasta ári en þetta er ekki komið af stað enn. Ég vil því spyrja: Hvernig standa þessi mál? Hefur hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af þessari stöðu?

Nú er ljóst að Færeyingar eru að taka upp vottun á fyrstu veiðum sínum í þessum mánuði sem eru, að mér skilst, síldveiðar í nót. Norðmenn eru að klára sína vottun og þetta er allt MSC-vottun sem ég er að vitna í af því að hin löndin hafa ákveðið að taka upp MSC-vottun, ekki sérnorska, sérfæreyska eða sérdanska vottun. Hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra ekki áhyggjur af þessu máli? Þurfum við ekki að fara að drífa í þessu?



[15:28]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir þessa spurningu og fyrir að vekja umræðu um stöðu merkinga á fiskafurðum okkar með tilliti til þess að við stundum sjálfbærar og ábyrgar fiskveiðar.

Ef ég svara þessum spurningum hv. þingmanns í heild sinni, því að þær spinna hver inn í aðra, þá er það alveg hárrétt að verið er að vinna að íslensku merki fyrir ábyrgar fiskveiðar og þetta merki lítur út eins og það sem ég er með á þessu blaði þar sem stendur „Iceland“ og síðan „Responsible fisheries“ á ensku sem þýðir þá Ísland og ábyrgar fiskveiðar. Það vísar til íslensks uppruna sjávarafurða og til yfirlýsingarinnar um ábyrgar veiðar sem smám saman eru einmitt að vinna sér sess á mörkuðum. Nálægt 50 aðilar hafa sótt um leyfi til notkunar þessa merkis, bæði innlendir framleiðendur, markaðs- og sölufyrirtæki ásamt erlendum kaupendum. Merkið er notað á umbúðir sjávarafurða, á heimasíðum og í auglýsingaskyni. Merkið ásamt vottunaráformum hefur verið kynnt á sjávarútvegssýningum, fundum og á ráðstefnum og hefur almennt verið vel tekið. Vinna vegna þessa hefur verið unnin af hagsmunaaðilum, Fiskifélagi Íslands, með stuðningi og velvilja ráðuneytisins. Undirbúningur að vottun óháðs þriðja aðila gengur vel og er samkvæmt áætlun og er einmitt verið að vinna að því að yfirfara drög að því. Vinna við kröfulýsingu ásamt nauðsynlegum fylgiskjölum er unnin á eins faglegan hátt og frekast er unnt.

Vottun sú sem unnið er að, og ég benti á, byggir á leiðbeiningarreglum FAO en í þeim reglum er kveðið á um að vottun ólíkra aðila skuli teljast jafngild ef hún samrýmist þeim leiðbeiningarreglum sem FAO leggur upp. Samið var við erlent vottunarfyrirtæki um ráðgjöf vegna lokaframgangs vottunarskjala til að tryggja vottunarhæfni þeirra. Sér nú fyrir enda þess ferlis og styttist í að unnt verði að gefa út tilkynningu um að vottunarferli verði hafið.

Erlendir kaupendur hafa verið upplýstir um vottunaráform Íslendinga og hefur þeim áformum verið tekið vel. Umhverfismerki og vottun þriðja aðila er eitt af mörgum markaðstækjum sem notuð eru á markaði með fiskafurðir. Kaupendur íslenskra sjávarafurða eru langflestir mjög vel upplýstir hvernig staðið er að stjórnun fiskveiða á Íslandi. Staðfesting óháðs þriðja aðila á ábyrgri nýtingu sjávarauðlinda mun mjög styrkja stöðu íslensks sjávarútvegs á mörkuðunum. Mestu máli skiptir í öllu þessu samhengi að Ísland geti sýnt fram á að hér séu stundaðar ábyrgar fiskveiðar og þannig tryggt að Ísland hafi góða og sannfærandi sögu að segja þegar til þess kemur að greina frá stjórn fiskveiða. Þessi ábyrgð liggur að sjálfsögðu hjá íslenskum stjórnvöldum sem fara með og munu áfram fara með stjórn fiskveiða, þ.e. laga- og reglugerðarsetningu sem að því lýtur og þá rannsókna- og gagnaöflun sem sú lagasetning byggist á. Merki og vottun eru tæki sem aðilar geta valið sér til að nota eftir efnum og ástæðum hverju sinni en ég tek alveg undir þær áherslur sem hv. þingmaður vakti athygli á en það er mjög mikilvægt fyrir þá sem eru að selja þessa íslensku vöru erlendis að þeir geti sýnt fram á að hún sé veidd og unnin á umhverfisvænan hátt og auðlindin sé nýtt með sjálfbærum hætti.

Sú merking sem hv. þingmaður minntist á, MSC-merki, er líka merki sem er í gangi. Það hefur ekki mér vitanlega verið lagt í að innleiða það hér þó svo að einstök fyrirtæki hafi þar um samstarf við þá vottunaraðila. Það sem ég þekki varðandi það merki sem hér er verið að vinna með er lögð áhersla á að farið sé að öllum þeim leikreglum og kröfum sem FAO leggur upp og í þeirri umfjöllun get ég bent á að í sumum atriðum er þar jafnvel gengið lengra en er í MSC-merkinu. En mikilvægt er að kynningin á þessu sé sem best og líka þá staðfesting á því að hér sé um íslenskar vörur að ræða því Ísland hefur í sjálfu sér, varðandi fiskveiðar og verslun með sjávarafurðir, á sér sérstakan gæðastimpil sem líka er mikilvægt að láta koma fram.



[15:34]Útbýting:

[15:34]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla mér ekki að gera sérstaka athugasemd við umhverfismerki á fiski. Ég tel að þetta skipti máli en það sem ég hins vegar ætlaði að gera athugasemd við er hvort hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi að einhverju leyti framfylgt umhverfisstefnu síns flokks síðan hann tók við ráðuneytinu. Hvað er að frétta af ýmsum tillögum sem komu fram í bæklingnum „Græn framtíð“ sem flokkurinn prentaði í lit og var ægilega fínn? Hvað er að frétta af t.d. starfshópnum um endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu? Er eitthvað verið að ræða umhverfismál þar innan dyra? Hvernig samrýmist t.d. ákvörðun eða frumvarp ráðherra um skötuselinn umhverfisáherslum ráðherrans og hans flokks? Er eitthvað að frétta af því hvernig ráðherra sér fyrir sér að gera íslenskan sjávarútveg enn þá umhverfisvænni?



[15:35]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál er tiltölulega einfalt. Við eigum auðvitað að taka upp íslenskt umhverfismerki, öll samtök í íslenskum sjávarútvegi vilja það og að því hefur verið unnið. Við eigum að hafna því að undirgangast MSC, Marine Stewardship Council. Það er margbúið að sýna fram á að það er ekki í þágu hagsmuna íslensks sjávarútvegs að taka upp þetta merki hér á landi.

Þetta umhverfismerki okkar, það er alveg rétt að vinnan við það hefur gengið of hægt. Það var þó engu að síður kynnt sérstaklega sem fullbúið merki á sjávarútvegssýningunni árið 2008. Nú er verið vinna að vottun þess eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra greindi frá. Það er mjög mikilvægt að þessi vinna haldi áfram og hún á að gerast á forsendum sjávarútvegsins. Það er sjávarútvegurinn sem á að draga vagninn með stuðningi íslenskra stjórnvalda. Aðalatriðið er að það verði vel að þessu staðið á íslenskum forsendum, að við tökum upp íslenskt umhverfismerki og hættum að daðra við þá hugmynd að taka upp MSC því það er ekki vilji íslensks sjávarútvegs.



[15:36]
Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Mér finnst alls ekki liggja í augum uppi að við eigum að vera með séríslenskt merki. Af hverju velja nágrannaþjóðir okkar MSC? (EKG: Ert þú að tala fyrir því?) Þær hafa tekið það upp á fjölmörgum vörum vegna þess að það merki er þekkt á mörkuðunum. Við höfum valið hina leiðina, alla vega hafa stjórnvöld hingað til valið hina leiðina, að aðstoða við gerð íslensks merkis. Fram kemur að það þurfi að kynna merkið og það er alveg rétt af því að þetta merki er ekki til. Enginn þekkir það, það þarf bara að kynna það. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra: Hver á að kynna merkið? Munu íslensk stjórnvöld bera þann kostnað og hvað mun það kosta? Það hlýtur að kosta talsvert mikið markaðsstarf að kynna íslenska merkið. Ég vil einnig spyrja: Af hverju heldur hæstv. sjávarútvegsráðherra að nágrannalönd okkar, sem við erum í samkeppni við á mörkuðunum, velji annað merki?

Ég vil líka segja að mér er kunnugt um að nú þegar væri hægt að taka upp MSC-merkið. Mér skilst að vottunarstofan Tún geti tekið það út. Þetta merki er tilbúið og það væri hægt að taka það upp með mjög skömmum fyrirvara á íslenskar sjávarafurðir. Það er aukin krafa í samfélagi þjóðanna að fólk vill vita hvað það er að borða, að veitt sé á sjálfbæran hátt og eðlilega sé staðið að málum. Því er mikilvægt að við merkjum fiskafurðir okkar. Merkið sem hæstv. sjávarútvegsráðherra veifaði var kynnt árið 2008 og núna er sagt að undirbúningur og vottun þriðja aðila sé á áætlun. Hvað þýðir það? Það styttist í að vottunarferlið hefjist. Ég vil fá að vita hvenær þetta vottunarferli eigi að vera búið, af því að mér finnst (Forseti hringir.) tíminn vera að hlaupa frá okkur, virðulegi forseti. Við höfum beðið svo lengi. Fyrst velja á þetta íslenska merki, (Forseti hringir.) sem ég reyndar efast um að sé rétt ákvörðun, (Forseti hringir.) hvenær sjáum við þá merkið í alvöru fara að virka?



[15:38]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Merkið er í sjálfu sér komið í virkni víða, á mörgum mörkuðum. (SF: Nei, það er óvottað.) Það er kynnt þar og er þegar (Gripið fram í.) til mikils stuðnings. Ég var í Þýskalandi fyrir nokkrum dögum síðan, á fiskmörkuðum þar. Þar var einn stærsti fiskkaupandinn þar, Peter Dill sem er yfirforstjóri Deutsche See, og hann sagði: Það sem ég legg áherslu á í þessum merkingum er að það standi á öllum pökkum „frá Íslandi“. Reyndar er hann líka með þetta merki á þeim en hann sagði að það væri líka gæðastimpill og á svona mörkuðum þar sem reynt væri að ná mjög háu verði á mjög samkeppnishörðum mörkuðum skiptu líka þessi atriði máli. Ef það væri bara ein allsherjarmerking sem ekki gerði greinarmun á þessum uppruna ættum við erfiðara með að keppa um hæsta verðið.

Hv. þingmaður spurði hvort eitthvað hefði valdið okkur vandræðum. Já, t.d. varðandi karfann, sem hefur farið aðallega á Þýskalandsmarkað, kom upp að vegna þess að skipt er í gullkarfa og djúpkarfa og önnur tegundin er talin ofveidd og hin ekki hafði það áhrif ef ekki var hægt sannanlega að greina á milli þess á mörkuðunum. Það hvernig við umgöngumst miðin okkar hefur áhrif. Línuveiddur þorskur, „line cod“, eða línuveiddur fiskur er líka vörumerki. Að öðru leyti hefur verið sú stefna að það samhæfða merki sem gildir fyrir íslenskar sjávarafurðir, Iceland Responsible Fisheries, er þegar komið og búið að hasla sér völl. Það er alveg hárrétt, lokavottun lýkur vonandi fljótlega (Forseti hringir.) og þá vona ég að það sé hægt af hálfu útvegarins því það er sjávarútvegurinn sjálfur sem hlýtur að standa undir (Forseti hringir.) markaðskynningu á merkinu sem slíku.