138. löggjafarþing — 85. fundur
 3. mars 2010.
matvæli og fæðuöryggi á Íslandi.
fsp. SSS, 379. mál. — Þskj. 682.

[15:41]
Fyrirspyrjandi (Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson) (F):

Virðulegi forseti. Árið 1996 stóð Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna að ríkjaþingi um fæðuöryggi. Þar var samþykkt svonefnd Rómaryfirlýsing sem hefur meðal annars að geyma hugtakaskilgreiningu um fæðuöryggi. Þar segir, með leyfi forseta:

„… að fæðuöryggi sé til staðar þegar allir menn, á öllum tímum, hafa raunverulegan og efnahagslegan aðgang að nægum, heilnæmum og næringarríkum mat sem fullnægir þörfum þeirra til að lifa virku og heilsusamlegu lífi.“

Þessu markmiði verði svo náð með skipulagningu á öllum stigum. Hver þjóð þarf þess vegna að gera áætlun á grundvelli möguleika sinna til að ná eigin markmiðum um fæðuöryggi og vinna um leið með öðrum þjóðum svæðisbundið og á alþjóðavísu við að skipuleggja sameiginlegar aðgerðir til að leysa úr viðfangsefnum sem ógna fæðuöryggi á heimsvísu.

Við Íslendingar vorum síðasta haust rækilega minntir á mikilvægi eigin matvælaframleiðslu. Við þurftum í fullri alvöru að takast á við spurningar um hve mikill gjaldeyrir væri til í landinu til ráðstöfunar og hvernig mætti verja honum. Þá var líka spurt um það hversu mikill matur væri til í landinu. Í ljósi alls þessa langar mig til að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra einfaldlega þessarar spurningar:

1. Er til einhver opinber stefna um fæðuöryggi í landinu?

2. Eru einhver viðmið til um það hversu mikið þarf að vera til af matvælum í landinu á hverjum tíma?



[15:43]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigurgeiri Sindra Sigurgeirssyni fyrir þessa spurningu varðandi fæðuöryggið og hver sé opinber stefna í þeim efnum. Ég vil fyrst vitna til samstarfsyfirlýsingar þessarar ríkisstjórnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun standa vörð um innlendan landbúnað og tryggja fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar“.

Það er hin opinbera stefna og mér sýnist hún án alls efa vera afdráttarlaus. Það er einnig sá grunntónn sem er nú þegar unnið eftir í landbúnaðarráðuneytinu. Í búvörulögum frá 1993, sem enn gilda, stendur, með leyfi forseta:

„að framleiðsla búvara til neyslu og iðnaðar verði í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og tryggi ávallt nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu.“

Í þessu felst í sjálfu sér stefnumörkun sem hefur verið útfærð með ýmsum hætti.

Þá má einnig nefna að rannsóknar- og nýsköpunarstarf beinist mjög að því að hámarka sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda til lands og sjávar og þróa hana til aukinnar framleiðslu sem vissulega stuðlar að auknu fæðuöryggi þjóðarinnar. Landbúnaðarráðuneytið hefur beitt sér í þessum málum og rétt er að nefna nýútkomna skýrslu í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu um notkun og varðveislu ræktaðs lands. Í nefndarálitinu er allítarlega fjallað um fæðuöryggi, bæði í heiminum og á Íslandi sérstaklega, og að mati nefndarinnar sem vann skýrsluna er það vert umhugsunarefni fyrir Íslendinga hvernig best verði staðið að því að tryggja stöðugt fæðuframboð fyrir þjóðina til lengri tíma. Einnig væri rétt að vinna að stefnumótun um hvernig fæðuframboð verði tryggt við þær aðstæður sem upp kynnu að koma t.d. vegna farsótta, ófriðar eða annarra atriða sem torveldað gætu matvæla- og aðfangaflutninga til landsins. Ég er sammála því að nauðsynlegt sé að öll þessi atriði séu nákvæmlega skilgreind og þannig sé einnig skilgreint fæðuöryggi þjóðarinnar sem ætti að vera tryggður grunnur.

Margs konar önnur verkefni í ráðuneytinu og stofnunum þess lúta að fæðuöryggi með beinum og óbeinum hætti. Við höfum nýlokið skýrslu um úttekt á því hvernig eigi að efla svínarækt í landinu, því eins og við vitum er svínakjötsframleiðsla ein af stærri neysluvöruframleiðslugreinum í landinu, og hvernig tryggja megi stöðu hennar og öryggi. Unnið er að svipuðum hlutum varðandi hænsnarækt. Búvörusamningur er á milli ríkisins og mjólkurframleiðenda og framleiðsla í sauðfjárrækt, sem er að hluta til líka og hefur það pólitíska markmið að tryggja ákveðið öryggi í framleiðslu á þessum vörum til neytenda og tryggja ákveðin gæði í þeim efnum. Þarna liggur því víða pólitískur grunnur til að tryggja fæðuöryggi. Hins vegar er ljóst að það þarf að vinna enn betur og þess vegna er unnið í ráðuneytinu að því að skilgreina enn betur fæðuöryggi þjóðarinnar og hvernig það verður tryggt með aðgangi að landi og þeim náttúruauðlindum sem þær byggja á.

Vert er að minna á hvað aðrar þjóðir eru að gera í þessum efnum og að þær geta hæglega sótt hingað. Barátta um ræktun á landi harðnar. Við þekkjum það erlendis frá að efnuð fyrirtæki og önnur ríki fjárfesta í ræktunarlandi og vatni, t.d. hafa olíuríkin við Persaflóa keypt upp ræktunarland í fátækum þróunarríkjum. Kína hefur keypt 2,8 milljónir hektara ræktaðs lands í Kongó, Suður-Kórea hefur keypt upp 600 þúsund hektara í Súdan og Úkraína, sem glímir við mikil efnahagsvandræði, var áður eitt af kornforðabúrum heimsins en gerði þau mistök að selja 40 þúsund hektara til bankans Morgans Stanleys til að bæta efnahag sinn. Það er ljóst að slagurinn um ræktaða landið, um fæðuöryggi, harðnar í heiminum og við þurfum svo sannarlega líka að gæta okkar og taka á í þeim efnum.

Sagt er að það sé skylda hverrar þjóðar að tryggja fæðuöryggi þegna sinna. Það er alveg ljóst að fæðuöryggið, það að vera sem mest sjálfbjarga um sínar nauðþurftir hvað fæðu varðar, sé hluti af sjálfstæði hverrar þjóðar. Þess vegna er ég alveg sammála því að við þurfum að setja okkur enn skýrari mörk um hvernig við ætlum að ná markmiðum t.d. í kornrækt sem nú er vaxandi hér á landi. Það er alveg hægt að setja sér mörk t.d. í kornframleiðslu sem menn hér á landi ætla sér að ná á næstu fimm árum og næstu tíu árum (Forseti hringir.) til innlendrar fóðuröflunar, til að fóðra íslenskan búpening, og einnig (Forseti hringir.) til manneldis. Ég tel (Forseti hringir.) mjög mikilvægt að við vinnum að þessum mörkum og setjum þau.



[15:49]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og ráðherra fyrir ágæt svör. Ráðherra velti því upp hvernig best sé að tryggja stöðugt fæðuöryggi eða fæðuöryggi í landinu sem er vitanlega stóra spurningin í fyrirspurn hans. Í sjálfu sér svaraði ráðherra því ágætlega, þ.e. með því að treysta og viðhalda helstu atvinnugreinum okkar í landbúnaði og sjávarútvegi, svo dæmi séu tekin, og eins þá væntanlega í garðyrkju. Því hljótum við að spyrja okkur hvernig við gerum það best.

Ráðherra kom aðeins inn á það hvernig stórfyrirtæki og jafnvel ríki eru að eignast landareignir og lönd, ræktarlönd. Því spyr maður sig hvort það sé sú framtíð sem við viljum búa við að stórfyrirtæki, jafnvel í matvælaframleiðslu líkt og gerist innan landa Evrópusambandsins þar sem stórfyrirtæki þiggja stærstan hluta af styrkjum sem þar eru veittir — hvort það sé hluti af því að tryggja fæðuöryggi og hafa slíka framtíðarsýn.

Ég þakka ráðherra fyrir orð hans. Ég held að hugsunarháttur okkar sé svipaður og að við séum á svipaðri leið með það hvernig eigi að tryggja fæðuöryggi.



[15:50]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigurgeiri Sindra Sigurgeirssyni fyrir þessa ágætu fyrirspurn. Eftir að við lentum í þessu bankahruni þá fór maður virkilega að hugsa um fæðuöryggið og því er þetta mjög til umhugsunar einmitt núna. Þá var svo mikið í umræðunni að við gætum kannski ekki greitt fyrir ýmsa vöru, bæði mat, olíu o.s.frv., þetta er því mjög brýn spurning.

Ég gat ekki heyrt betur en hæstv. ráðherra væri eiginlega að segja að það væri engin stefna hérna, það væri ekkert sem hægt er að segja frá, einhver pólitískur grunnur, að hafa góða landbúnaðarstefnu, mjög óljóst svar. Ég vil því elta hæstv. ráðherra svolítið meira. Við erum næstum því búin að upplifa það að lenda í matarskorti. Í ljósi þeirrar stöðu, þarf það þá ekki að vera kvitt og klárt að við þurfum að hafa einhver x kíló af hveiti, x kíló af ávöxtum o.s.frv., að það sé alltaf einhver grunnur til í landinu? Er það óþarfi, virðulegi forseti? Hvað segir hæstv. ráðherra um það?



[15:51]
Fyrirspyrjandi (Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir svör hans. Ég get þó tekið undir að spurningunum var kannski ekki svarað alveg en hins vegar fór hann ágætlega yfir ýmsa hluti í skipulagningu og pólitíkinni er varðar landbúnaðarmál og fleira innan lands sem að sjálfsögðu er að hluta til grunnur að fæðuöryggi. Ég hnaut um það í máli hans sem mér finnst athyglisvert að komi fram, að hann talaði um búvörusamningana, að þeir væru á ákveðinn hátt liður í því að viðhalda fæðuöryggi. Það er mjög gott að heyra það og mikilvægt, virðulegi forseti, að það sé haft með í umræðunni þegar verið er að tala um styrki til landbúnaðar að þeir gegna meðal annars því hlutverki að tryggja framboð af góðum og hollum mat. Þetta er gert með framleiðsluskyldu í mjólk og þetta er gert með ásetningskvöð í sauðfjársamningi og svo er samningur um framleiðslu á grænmeti. Ég vil því ítreka að mjög mikilvægt er að það komi fram að þessir búvörusamningar og þeir styrkir sem fara til bænda eru ekki einungis niðurgreiðsla á landbúnaðarvörum til neytenda heldur eru þeir einnig mikilvægur þáttur þess að gæta fæðuöryggis hér.

Varðandi orð ráðherrans um samstarfsyfirlýsingu, þetta heitir víst ekki sáttmáli heldur samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnarinnar, þá kom þar fram að standa ætti vörð um landbúnað og fæðuöryggi en ríkisstjórn sem hefur það að markmiði að ganga í Evrópusambandið og rústa íslenskum landbúnaði er greinilega ekki að standa við þetta ákvæði sitt.



[15:53]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég vil aftur vekja athygli á þeim samningum sem ríkisvaldið hefur gert við bændur, bæði mjólkurframleiðendur og sauðfjárframleiðendur, varðandi framleiðslu á kjöti og mjólk, samningum sem Alþingi hefur samþykkt. Ég vil segja það hér vegna þess að eitt það fyrsta sem þessir flokkar gerðu á sl. vori var að framlengja þessum búvörusamningum sem að vísu fólu í sér nokkra skerðingu á greiðslum til bænda en þó var það líka mikil áframhaldandi trygging að þeir skyldu vera endurnýjaðir og þá til viðbótar til ársins 2014 og 2015. Ríkisstjórnin er því að mínu mati virkilega að vinna samkvæmt því sem þarna er kveðið á um, m.a. til að tryggja framleiðslu og fæðuöryggi þjóðarinnar.

Þannig verður áfram unnið, eins og ég rakti í stuttu máli mínu áðan, á grundvelli þessara áherslna. Til áréttingar vil ég líka minna á það að við setningu búnaðarþings fyrir ári síðan lagði forseti Íslands áherslu á að móta þyrfti sáttmála sem tryggi í framtíðinni fæðuöryggi Íslendinga. Slíkur sáttmáli gæti orðið grundvöllur að skipulagi framleiðslunnar, nýjum reglum um nýtingu lands og skapað markaðsþróun raunhæfan farveg. Sameinast verði um að íslenskur landbúnaður geti um alla framtíð tryggt fæðuöryggi þjóðarinnar. Einmitt á grundvelli þessa og þeirrar stefnuyfirlýsingar sem ég lýsti áðan hef ég sett á fót starfshóp sem nú vinnur að því að skilgreina fæðuöryggi þjóðarinnar og hvernig hægt er að knýta enn þá fastar (Forseti hringir.) með lögum og reglum að þau landgæði sem við eigum geti verið varin og nýtt til landbúnaðarframleiðslu og fæðuöryggi þjóðarinnar (Forseti hringir.) þar með tryggt í bráð og lengd.