138. löggjafarþing — 86. fundur
 4. mars 2010.
undirbúningur og kynning þjóðaratkvæðagreiðslu.

[10:39]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er gott að nú skuli hafa verið tekin af öll tvímæli um að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla á laugardaginn fer fram og ekki seinna vænna. En það skiptir líka miklu máli hvernig staðið er að undirbúningi og kynningu og hvernig íslensk stjórnvöld tala um þennan merkisviðburð sem þessi þjóðaratkvæðagreiðsla verður. Mér skilst t.d. að lögbundnar auglýsingar um þessa atkvæðagreiðslu hafi verið dregnar til baka í fjölmiðlum. Ég vona að því hafi þá verið snúið við og menn séu byrjaðir nú á síðustu stundu að kynna þessa atkvæðagreiðslu.

En það skiptir einnig máli út á við gagnvart til að mynda öllum þeim fjölmiðlum sem þegar eru byrjaðir að streyma til landsins hvernig íslensk stjórnvöld tala. Þar hef ég verulegar áhyggjur af því hvernig ráðherrar í ríkisstjórninni hafa talað um þetta mál, síðast hæstv. fjármálaráðherra áðan sem lýsir því yfir að það sé besta tækifærið fyrr og síðar til að semja núna. Hvernig dettur nokkrum manni í hug að gefa út svona yfirlýsingu á meðan við stöndum í viðræðum að vera með ítrekaðar yfirlýsingar um að það verði að fara að semja og það verði að gerast núna. Ráðherrarnir koma hvað eftir annað í fjölmiðla og lýsa því yfir að það sé stutt í samninga. Við í stjórnarandstöðunni höfum nánast engar upplýsingar um á hvaða forsendum þeir samningar eru ef raunin er sú, eins og ráðherrarnir hafa sagt, að stutt sé í samninga í málinu. Hvernig væri nú að ráðherrar ríkisstjórnarinnar sameinuðust um það með þjóðinni að afstaðan í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu yrði sem afdráttarlausust og kynningin, það tækifæri sem gefst til að kynna málstað Íslands henni samhliða, verði sem best nýtt? Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hafinn sé undirbúningur að því að kynna málstað Íslands sem rækilegast fyrir erlendum fjölmiðlamönnum samhliða þessari þjóðaratkvæðagreiðslu.



[10:41]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hafði ekki þau orð sem hv. þingmaður lagði mér í munn um samningsstöðuna. Ég sagði bara að það væri alls ekki gefið að það væri auðveldara að eiga við þetta mál bak kosningunum, sérstaklega ekki ef það væri þá í fullkominni óvissu og ekki tækist að búa einhvern veginn um það eða að ganga þannig frá því að við hefðum þá a.m.k. eitthvað í hendi þegar þar að kæmi.

Það sem mun að lokum alltaf renna upp fyrir mönnum er að það þarf að leysa þetta mál. Það mun ekki gleymast. Það mun ekki hverfa af yfirborði jarðar, það gufar ekki upp jafnvel þó að menn segi nei í þjóðaratkvæðagreiðslu á laugardaginn við desemberlögunum. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður er mér sammála yfirleitt um þetta að einhvern veginn muni að lokum alltaf þurfa að útkljá þetta Icesave-mál. Ég er þeirrar skoðunar og hef verið það lengi að það sé okkur skaðlegt og dýrt hversu lengi hefur dregist að leysa það, um leið og við hljótum auðvitað öll að óska eftir því að niðurstaðan verði sú besta sem aðstæður bjóða upp á þegar hún næst.

Um erlenda fjölmiðla er ég auðvitað þakklátur fyrir leiðbeiningarnar varðandi hvernig maður á að haga sér í samskiptum við þá. Það kemur sér vel því að það er mikil ásókn af slíkum. Þeir hafa fyrst og fremst athygli á kosningunni sem slíkri og það gengur stundum erfiðlega að útskýra fyrir þeim um hvað nákvæmlega er verið að kjósa. Tæknilega er það út af fyrir sig dálítið flókið. Ég hef enga aðra betri leiðarhnoðu að styðjast við í þessum efnum en þá venjulegu, að ræða við erlenda fjölmiðla um hlutina eins og þeir eru, að segja bara satt í þeim viðtölum, ræða það bara hreinskilnislega að við erum stödd þar sem við erum stödd. Hlutirnir hafa þróast á ýmsan hátt öðruvísi en heppilegast hefði verið. Það er ekki gott að þetta skuli falla svona saman í tíma, hvorki að viðræðurnar hafi dregist svona á langinn né að rannsóknarskýrsla Alþingis komi væntanlega nokkrum dögum (Forseti hringir.) eftir kosningar.



[10:43]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Vissulega þarf að klára þetta mál. Sérstaklega held ég að Bretar og Hollendingar þurfi á því að halda ef þeir telja sig eiga hér eitthvað inni. Það er sjálfsagt mál að reyna að liðsinna þeim við það eins og við höfum gert en við verðum þá í þeirri liðveislu að gæta hagsmuna Íslands og tala þannig út á við því að hvað eftir annað á ögurstund í þessu máli hafa ráðherrar í íslensku ríkisstjórninni komið með vægast sagt óheppilegar yfirlýsingar eða jafnvel sent frá sér gögn, lekið gögnum í fjölmiðla sem eru stórskaðleg á meðan á viðræðum stendur.

Nú spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Er ekki nóg komið af þessum viðræðum sem virðast eingöngu til þess fallnar að skapa óvissu fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni? Er ekki rétt að samninganefndin komi heim og menn haldi svo áfram að ræða málin að þjóðaratkvæðagreiðslu lokinni? Auðvitað verða menn að undirbúa kynningu vel. Og af því að hæstv. fjármálaráðherra spyr: Um hvað er verið að kjósa? Það er verið að kjósa (Forseti hringir.) um það að fella úr gildi þessa gömlu Icesave-samninga vegna þess að þeir hanga saman og falla báðir þegar annar er felldur.



[10:45]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Ég held að við gerum réttast í því að treysta á það fólk sem við fólum það ábyrgðarmikla hlutverk að vera samninganefnd fyrir okkur, Lee Buchheit og þann góða hóp sem með honum hefur verið að vinna, að meta það hvernig þeir ná bestum árangri til að ganga eins vel frá málinu og hægt er á lokasprettinum. Ef ekki með fullburða samkomulagi þá a.m.k. að því sé á einhvern hátt pakkað þannig inn að við vitum eitthvað um hvar við stöndum bak kosningunum. Það held ég að sé eðlilegast þannig að ég mun ekki kalla samninganefndina heim meðan hún sjálf telur ástæðu til að vinna áfram að málinu.

Ég geri ráð fyrir því að stjórnarandstaðan, sem átti sinn þátt í því að velja ekki síst formann samninganefndarinnar, beri enn fullt traust til hans og nefndarinnar.