138. löggjafarþing — 86. fundur
 4. mars 2010.
ríkislán til VBS og Saga Capital.

[10:52]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra er mjög vinsæll í dag. Mig langar til þess að bera upp fyrirspurn varðandi VBS. Það bárust fréttir af því að VBS fjárfestingarbanki hefði farið þess á leit við FME að bankinn yrði tekinn yfir sem líklegast mun enda með beiðni um nauðasamninga.

Fyrir ári síðan ákvað hæstv. fjármálaráðherra að veita VBS og Saga Capital ríkisstyrk upp á 17 milljarða kr. Styrkurinn var í formi láns til sjö ára með neikvæðum raunvöxtum sem Saga Capital bókfærði strax sem hagnað upp á 7 milljarða kr. og VBS sem 10 milljarða hagnað. Forstjóri Saga Capital lýsti því reyndar yfir á þessum tíma að fyrirtækið þyrfti ekki á neinum ríkisstyrkjum að halda en fjármálaráðherra tók engu að síður þessa ákvörðun. Hún var umdeild á sínum tíma og fjölmargir, m.a. sú sem hér stendur, bentu á þá mismunun sem fólst í þessum aðgerðum.

Á sama tíma og gengið var hart fram gegn sparisjóðunum, þeir ýmist reknir í þrot eða lofað aðstoð gegn ströngum skilyrðum um niðurfærslu stofnfjár, aðkomu ríkisins að stjórn þeirra og ströngu eftirliti, átti ekkert slíkt við um VBS og Saga Capital. Saga Capital hafði meira að segja svigrúm til að afskrifa lán og ábyrgðir til tíu lykilstjórnenda um hálfan milljarð. (VigH: Rétt.)

Í umræðu um þennan gjörning fyrir ári síðan lýsti þáverandi formaður viðskiptanefndar, núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, því yfir að þessum lánum fylgdu ströng skilyrði. Þannig væri hægt að gjaldfella lánin innan 30 daga ef bankarnir stæðu ekki við þau. Nú kemur fram í fréttum að VBS hafi ekki greitt vexti sem voru á gjalddaga þann 27. desember. Því spyr ég: Var lánið til VBS gjaldfellt? Greip ríkið til einhverra aðgerða til að tryggja hag sinn? Var einhvern tíma útlit fyrir að VBS gæti greitt þetta lán til baka? Er hugsanlegt að þetta mjög svo sértæka úrræði sem fjármálaráðherra greip til í fyrra hafi hreinlega verið hugsað til að bjarga Saga Capital, sem vill svo skemmtilega til að er í kjördæmi ráðherrans? Ef það hefði ekki verið of augljóst hefði þurft að styrkja þarna annað fyrirtæki utan kjördæmisins í leiðinni svona til að dreifa athyglinni. Þyrfti þá ekki að bókfæra 26 milljarða tapaða kröfu ríkissjóðs á hendur VBS sem kostnað við þennan 7 milljarða kr. ríkisstyrk til Saga Capital?



[10:54]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Forseti. Það er mjög miður að VBS banka skyldi ekki takast að vinna þannig úr sínum málum að bankinn hafi nú orðið að biðja um að honum sé skipuð stjórn og hann þarf væntanlega að leita nauðasamninga. Það sem ríkið gerði á sínum tíma í tilviki þessara minni sjálfstæðu fjármálastofnana var tvennt: Annars vegar að reyna að tryggja gríðarlega hagsmuni ríkisins upp á um 26 milljarða hjá VBS og 16 milljarða hjá Saga Capital, sem annars færu forgörðum, og hins vegar að gefa þessum fjármálastofnunum tækifæri á að reyna að vinna úr sínum málum og komast í gegnum erfiðleikana. Það var að sjálfsögðu von okkar að það mundi gerast og að hvort tveggja næðist fram, að þessum miklu hagsmunum ríkisins væri eins vel borgið og hægt væri, því að væntanlega hafa hv. þingmenn skilning á því að menn láta ekki yfir 40 milljarða fara í vaskinn án þess að reyna að bjarga þeim, og hins vegar að stofnanirnar gætu svo í framhaldinu unnið úr sínum málum og vonandi komist á réttan kjöl.

Verið er að grípa til fjölþættra aðgerða víða í fjármálakerfinu með endurreisn stóru bankanna, með endurskipulagningu sparisjóðakerfisins og með aðgerðum af þessu tagi, einu tryggingafélagi hefur verið forðað frá falli o.s.frv. Það eru engar einhlítar leiðbeiningar til aðrar en þær að reyna að gera þetta á þann hátt sem best kemur út og forðar sem mestu tjóni og það hefur verið viðmiðunin allan tímann. Þegar kom síðan að því að ákveðnar stofnanir höfðu ekki lengur starfsgrundvöll var það að sjálfsögðu Fjármálaeftirlitið sem greip inn í, eins og kunnugt er, og ekki við fjármálaráðuneytið að deila í þeim efnum hvenær það er mat þeirra yfirvalda að starfsemi sé að komast í þrot eða að slík hætta sé orðin á ferðum að það verði að grípa inn í. Ég tel að þarna hafi menn verið að gera það besta og þær ákvarðanir sem teknar voru séu allar réttlætanlegar og hafi að hluta til skilað þeim (Forseti hringir.) árangri sem til stóð. Ég frábið mér heldur ómerkilegan málflutning af því tagi að það skipti máli hvar þessi starfsemi er stunduð í landinu.



[10:56]
Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra svarar ekki einni einustu af þeim spurningum sem ég bar fram. Hann svaraði því ekki hvort lánið hefði verið gjaldfellt þrátt fyrir að þeir hefðu ekki staðið í skilum.

Hv. þm. Pétur Blöndal kallaði hérna fram í: Hvað með SPRON? Það samkomulag sem hæstv. fjármálaráðherra gerði við VBS og Saga Capital var byggt á hugmyndum sem forsvarsmenn SPRON lögðu á borð ráðuneytisins í upphafi árs 2009. Tillögur SPRON voru reyndar byggðar á grunni samkomulags við kröfuhafa um endurfjármögnun bankans auk þess sem fyrir lá samkomulag um niðurfærslu hlutafjár og aðkomu ríkisins að endurskipulagningu sjóðsins. Þessi tillögum hafnaði fjármálaráðuneytið og hrakti þar með SPRON í gjaldþrot. Ráðuneytið sneri sér síðan við og endurnýtti þessar hugmyndir í þágu VBS og Saga Capital, að vísu án samninga um endurfjármögnun, án samkomulags um niðurfærslu hlutafjár og án aðkomu ríkisins að endurskipulagningunni.

VBS og Saga Capital (Forseti hringir.) fengu sem sagt fyrirgreiðsluna en sluppu við skuldbindingarnar.



[10:58]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Í vinnslu er skýrsla, reyndar seinna en til stóð, um endurskipulagningu í fjármálakerfinu sem ætlunin hefur verið að leggja fyrir þing. Vegna þess hversu torsótt það verkefni hefur reynst og vegna þess að ekki er að fullu lokið vinnunni gagnvart sparisjóðunum hefur verið beðið með að klára þá skýrslu en hún mun koma hér á borð þingmanna þar sem farið verður rækilega í gegnum þessa þætti og betri tími gefst til að ræða þá við hv. þingmann.

Varðandi stöðu þessara tilteknu stofnana er væntanlega ljóst að þær hafa starfað á grundvelli tiltekinna undanþága eins og því miður stór hluti fjármálakerfis okkar hefur gert allt frá hruni. Það er síðan í höndum Fjármálaeftirlitsins eftir atvikum að framlengja slíkar undanþágur ef verið er að vinna úr málum og þannig hefur þetta þróast.

Ég þekki ekki nákvæmlega til þess hvernig samskiptum út af gjaldfellingarákvæðum lánanna var háttað en ég geri ráð fyrir því að menn hafi kosið að grípa ekki til slíks á meðan einhver von var í tilviki (Forseti hringir.) VBS að bankinn kæmist í gegnum sína erfiðleika.