138. löggjafarþing — 86. fundur
 4. mars 2010.
fæðingar- og foreldraorlof, 1. umræða.
frv. GLG o.fl., 163. mál (réttur einstæðra mæðra). — Þskj. 181.

[14:52]
Flm. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum. Ásamt þeirri sem hér stendur eru flutningsmenn þessa frumvarps hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, Eygló Harðardóttir, Atli Gíslason, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Birgitta Jónsdóttir og Ásbjörn Óttarsson.

Í frumvarpi þessu er mælt fyrir um þá breytingu að einstæðar mæður sem eignast barn sem getið er við tæknifrjóvgun og einhleypir sem ættleitt hafa barn skuli öðlast rétt til níu mánaða fæðingarorlofs. Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, er kveðið á um rétt foreldra til sjálfstæðs þriggja mánaða fæðingarorlofs og sameiginlegs réttar til annarra þriggja mánaða sem þeir deila á milli sín. Getur barn því notið umönnunar foreldris í allt að níu mánuði samkvæmt lögunum. Í tilfellum þeirra barna hins vegar sem eiga í lagalegum skilningi eitt foreldri njóta þau einungis sex mánaða umönnunar foreldris síns. Með þeirri breytingu sem frumvarpið mælir fyrir um er verið að jafna rétt barna til samvista við foreldri og koma í veg fyrir að börn njóti mismikillar umönnunar eftir fjölskyldugerð.

Í lögum nr. 130/1999, um ættleiðingar, var lögfest sú undantekningarregla að einhleypir einstaklingar gætu ættleitt barn að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Einnig er vert að geta þess að þeir sem óska eftir að taka barn í varanlegt fóstur þurfa ekki að vera í hjónabandi eða sambúð. Með lögum nr. 54/2008, um breytingu á lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, var einhleypum konum veitt heimild til að gangast undir tæknifrjóvgunarmeðferð hér á landi. Í sömu lögum var kveðið á um breytingu á barnalögum þess efnis að barn einhleyprar konu sem getið er við tæknifrjóvgun verði ekki feðrað. Hefur löggjafinn með setningu fyrrgreindra laga því viðurkennt einstæða foreldra sem ákveðið fjölskylduform og að barn geti einungis átt eitt foreldri. Það er því grundvallaratriði að löggjafinn tryggi jafnrétti barna óháð fjölskylduformi þeirra og veiti þessum foreldrum rétt til níu mánaða fæðingarorlofs. Í 4. mgr. 8. gr., 2. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 er að finna reglu í þessum anda þar sem barni er tryggð umönnun foreldris hafi hitt foreldrið andast á meðgöngu þess. Má hér sjá að barn sem á jafnframt einungis eitt skilgreint foreldri að lögum nýtur umönnunar þess í níu mánuði. Frumvarp þetta mælir fyrir um jafnræði ungbarna til að njóta samvista við foreldri án tillits til fjölskylduforms. Verði það að lögum er um að ræða mikla réttarbót þeim til handa sem verður að teljast sjálfsögð þar sem löggjafinn hefur þegar viðurkennt að börn geti átt eitt foreldri í lagalegum skilningi.

Herra forseti. Flutningsmenn frumvarpsins eru meðvitaðir um að til eru fleiri tilvik þar sem börn fá einungis notið samvista við annað foreldrið á fyrstu 18 mánuðum lífsins og það jafnvel þótt lagalega séu til staðar tveir foreldrar. Ekki er tekið á slíkum tilvikum í þessu frumvarpi enda eru þau margslungin og flókin og þarfnast ítarlegrar skoðunar við. Því er hins vegar beint til félagsmálanefndar Alþingis að nefndin taki þá hlið mála sérstaklega til skoðunar í framhaldinu. Það þarf að athuga hvernig unnt er að taka á slíkum undantekningartilfellum svo að hvort tveggja í senn séu ætíð tryggðir, óskoraður réttur allra barna til samveru við báða foreldra sína, þ.e. þeirra barna sem lagalega eiga tvo foreldra, sem og réttur allra barna til alls níu mánaða samveru við foreldri á fyrstu 18 mánuðum lífsins.

Ég læt þessari framsögu hér lokið, herra forseti, en mæli með því að málið verði sent áfram til nefndar.



[14:56]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Herra forseti. Hér er á ferðinni gott frumvarp sem ég styð eins langt og það nær. Mér finnst það nefnilega ekki ganga nægilega langt í því sem mér finnst að eigi að vera forgangsatriði og það eru réttindi barnsins. Að mínu viti ber okkur að tryggja rétt barna til umönnunar foreldra sinna fyrstu níu mánuði ársins.

Það er ekki auðvelt að vera einstætt foreldri og ef hitt foreldri barnsins er vanvirkt í uppeldinu, fjarverandi eða óhæft, og fyrir því geta verið margar ástæður, t.d. mikil vímuefnaneysla eða bara almennt áhugaleysi, fær barnið ekki fulla níu mánuði í fæðingarorlofi með foreldrum sínum. Núgildandi lög um fæðingarorlof voru stórt skref, ekki bara í umönnun ungbarna og aðbúnaði heldur einnig hvað jafnréttissjónarmið varðar. Það er mikilvægt jafnréttissjónarmið að tryggja feðrum jafnt sem mæðrum jafnan rétt til fæðingarorlofs. Í undantekningartilfellum er ekki hægt að koma því við, t.d. eins og í þessu frumvarpi þegar annað foreldrið er hreinlega ekki til. Mér finnst að kerfið þurfi að búa yfir ákveðnum sveigjanleika og mennsku sem tekur tillit til sérstakra aðstæðna. Ég vil líka vekja athygli á því að jafnrétti er ekki bara jafnrétti milli kynjanna heldur líka á milli barna.

Mig langar að draga hérna upp bara mynd af ákveðnu tilbúnu dæmi. Ímyndum okkur konu sem verður barnshafandi eftir nauðgun og ákveður að eiga barnið. Á nauðgarinn að eiga jafnan rétt til fæðingarorlofs? Á hún að skilja barnið sitt eftir eða barnið þeirra eftir hjá honum í þrjá mánuði?

Annað dæmi sem ég þekki til og kemur beint úr raunveruleikanum er um unga stúlku sem ég þekki sem eignaðist barn. Faðir barnsins er því miður djúpt sokkinn í vímuefnaneyslu og hefur þau tvö ár sem barnið hefur lifað hvorki sýnt áhuga né getu til að umgangast son sinn. Þetta barn fékk eingöngu að njóta fullra samvista við eina foreldrið sem það þekkir í sex mánuði.

Ég mundi vilja sjá faglega nefnd sem tæki að sér að meta sérstök tilfelli, hvort sem fjarvera foreldris er vegna tæknifrjóvgunar eða ættleiðinga einhleypra eða nánast algjörrar fjarvistar annars foreldris af öðrum sökum. Lítið barn er kraftaverk og okkur ber að þakka fyrir hvern einasta einstakling sem fæðist og hlúa að honum sem best. Ástríkt uppeldi beggja foreldra eru kjöraðstæður en eru því miður ekki alltaf fyrir hendi. Okkur ber að tryggja barninu umönnun foreldra sinna í fulla níu mánuði sé þess frekast kostur.

Því fylgir ekki mikill aukakostnaður en ávinningurinn fyrir barn og foreldri er ómetanlegur. Ég styð því þetta frumvarp og þakka hv. flutningsmönnum fyrir að leggja það fram. En ég mundi vilja ganga lengra og tryggja rétt allra barna sem fæðast á Íslandi til samvistar við foreldri í níu mánuði. Ég vil taka undir það sem stendur í greinargerðinni með frumvarpinu um að beina því til félagsmálanefndar að skoða þetta sérstaklega í framhaldinu og sjá hvernig hægt er að taka með sanngjörnum hætti á undantekningartilfellum.



[15:00]
Eygló Harðardóttir (F):

Herra forseti. Ég er meðflutningsmaður að þessu máli með hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og ég fagnaði því mjög þegar þingmaðurinn leitaði til mín um að flytja þetta mál með henni. Eins og kemur fram í lokaorðum greinargerðarinnar er bent á að við erum meðvituð um að til eru fleiri tilvik þar sem börn fá einungis notið samvista við annað foreldrið á fyrstu 18 mánuðum lífsins jafnvel þótt lagalega séu til staðar tveir foreldrar og ekki sé verið að taka á slíkum tilvikum að fullu leyti í þessu frumvarpi. En það er eitthvað sem ég tel að skipti mjög miklu máli. Við teljum að þetta sé hægt að lagfæra og beinum einmitt þeim eindregnu tilmælum til félags- og tryggingamálanefndar Alþingis að hún taki þá hlið mála sérstaklega til athugunar.

Ég var alin upp af einstæðri móður, ég átti ekki mikið samneyti við föður minn fyrstu ár ævi minnar. Ég er því svo innilega sammála þeirri hugsun sem er hér á bak við og fagnaði því mjög þegar þingmaðurinn leitaði til mín og að hún skyldi hafa tekið frumkvæðið að því að leggja fram þessa lagabreytingu. Ég vona svo sannarlega að við getum unnið að því á þinginu að jafna og bæta rétt barna til samvista við foreldra sína og aðra í öllum tegundum af fjölskyldum, að við séum ekki að mismuna börnum eftir því hvers konar fjölskyldu þau fæðast í heldur er þetta spurning um rétt barnanna, ekki bara rétt foreldranna.



[15:02]
Flm. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum Margréti Tryggvadóttur og Eygló Harðardóttur fyrir innlegg þeirra og tek heils hugar undir það að mikilvægt er að þessi önnur tilvik séu einmitt skoðuð og skoðuð mjög alvarlega. Hvers vegna var það ekki gert strax? Jú, þetta verður að taka í skrefum. Kosturinn við þetta frumvarp er sá að það er svo skýrt að í tilvikum einmitt þessara barna þá er bara eitt foreldri til staðar lagalega, og að þau lagalega eru klárlega beitt misrétti, þ.e. að njóta ekki jafnræðis hvað varðar samvistir eða fæðingarorlof foreldra í níu mánuði, samvistir á meðan þau eru ung.

Ég tek heils hugar undir þau sjónarmið að það verður einmitt að skoða fleiri tilvik því að þau eru sannarlega til og öll börn eiga rétt á samvistum við vonandi báða foreldra, ef þeir eru til staðar, en ef ekki þá við það foreldri sem annast þau. Við eigum ekki að beita misrétti gagnvart ólíkum fjölskyldugerðum og í samfélagi okkar eru náttúrlega svo mörg ólík fjölskylduform til og til þess verður að taka tillit.

Um leið viljum við auðvitað ekki heldur grafa undan því góða sem er í okkar kerfi, sem er einmitt það að reyna að fá báða foreldra til að koma að málum, bæði móður og föður. Þess vegna var þetta sett hér inn. Ég hugsaði mikið um það hvort taka ætti allan pakkann en það er miklu flóknara að gera það í einu og kannski ólíklegra að það færi í gegn. Þess vegna var þetta gert í samráði við flutningsmenn, að setja þetta svona hér og beina því sérstaklega til nefndarinnar að skoða það og taka til alvarlegrar umfjöllunar. Sumir eru hræddir við þetta og það er skiljanlegt en við verðum að hafa hug til þess að gera það vegna þess að þetta er alvörumál og við eigum að krefjast þess að öll ungabörn á fyrstu mánuðum lífsins fái þennan tíma með foreldri.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til fél.- og trn.