138. löggjafarþing — 87. fundur
 8. mars 2010.
efnahagsaðgerðir.

[15:57]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er sérstakur dagur í dag, dagur sem við sem höfum barist fyrir auknu lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslu fögnum. Þjóðin er sigurvegari, og þeir sem eru talsmenn lýðræðisins. Ég vil samt segja um leið að í mínum huga eru engir taparar. Við verðum núna öll sem eitt að leita leiða til að ráða bót á þeim vanda sem blasir við. Hann er að mörgu leyti óleystur. Í mínum huga er samt staðan gjörbreytt. Fólkið og þjóðin sættir sig ekki við hvað sem er og samningar við Breta og Hollendinga kunna að dragast á langinn og við verðum líka að horfast í augu við að það er ekki víst að við náum samningum í bráð. Það getur með öðrum orðum slitnað upp úr samningaviðræðunum, sérstaklega ef Bretar og Hollendingar sýna sömu óbilgirni og þeir hafa sýnt að undanförnu.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra í ljósi þessarar nýju stöðu: Hefur ríkisstjórnin sest niður og mótað aðgerðaáætlun um það hvernig eigi að bregðast við henni? Er ekki ljóst að við verðum með einum eða öðrum hætti að ráðast til að mynda í lækkun stýrivaxta? Verðum við ekki með einum eða öðrum hætti að koma til móts við heimilin í landinu? Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Er ekki akkúrat núna tími til að Alþingi Íslendinga (Forseti hringir.) setjist niður og móti sér framtíðarsýn?



[15:59]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu alltaf rétt og skylt að meta aðstæður hverju sinni og hvað hefur orðið til að breyta þeim. Ég held að í grófum dráttum séu vel þekkt þau verkefni sem við okkur blasa og við höfum verið að glíma við. Við vitum hver þau eru, að koma íslensku efnahagslífi og samfélaginu í gegnum og út úr þessum erfiðleikum. Væntanlega hefur engum dottið í hug að það yrði gert með einhverjum einskiptisaðgerðum og þar með væri málið leyst. Þetta er og verður viðvarandi glíma til einhvers tíma fyrir okkur Íslendinga að rétta okkur af, rétta skútuna af og koma henni út úr sjólokunum. Að því þarf að vinna markvisst og á öllum vígstöðvum.

Varðandi hluti eins og að lækka stýrivexti gerist það víst ekki með handafli miðað við núverandi lög og skipan en allir eru sammála um mikilvægi þess að það gerist engu að síður. Þar var í gangi þróun sem var jákvæð og stefndi í rétta átt og er vonandi enn þó að síðasta skrefið í þeim efnum hafi verið lítið og valdið vonbrigðum. Ég held að allir séu sammála um að vextir þurfi hér að lækka, og lækka umtalsvert. Það fé sem safnast fyrir í bankakerfinu þarf að komast í umferð og það er ekki gott fyrirkomulag að fjármunir staflist upp inni í Seðlabankanum á áhyggjulausri ávöxtun þegar þeir væru betur komnir í fjárfestingum eða í umferð.

Úrlausn skuldavanda heimila og atvinnulífs er í gangi, eitt af stærstu og mikilvægustu verkefnum sem unnið er að um þessar mundir. Það er sömuleiðis af þeim toga að það mun ekki leysast með einskiptisaðgerðum, heldur verða einhver glíma næstu missirin, þótt ekki væri annað en að það verkefni er af þvílíku umfangi, t.d. þegar kemur að fyrirtækjunum, að menn munu ekki afkasta því nema á einhverjum tíma.

Vonandi sér sem mest fyrir endann á slíkum hlutum (Forseti hringir.) innan þessa árs þannig að við höfum hreinna borð í þeim efnum þegar líður að áramótum.



[16:01]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svarið sem í rauninni var samt ekki svar vegna þess að það eina sem við fengum var að það ætti að halda áfram að vinna að því sem væri unnið að. (Gripið fram í.) Ég hef sagt að það væri einfaldlega ekki nóg, það þarf að grípa til aðgerða, það þarf að koma einhver markviss stefna um hvert við ætlum að halda.

Framsóknarmenn hafa lagt fram plan B, við höfum sagt að það sé hægt að ráðast í aðgerðir til að koma hjólum atvinnulífsins af stað til að mæta vanda heimilanna — óháð Icesave. Ríkisstjórnin hefur sagt: Þetta gerist ekki fyrr en við leysum Icesave. Þess vegna spyr ég aftur: Í ljósi þess að langur tími getur liðið þangað til að samningar nást, verður ríkisstjórnin ekki einhvern veginn að horfa út fyrir rammann, reyna að leita allra leiða til að koma hjólum atvinnulífsins af stað?

Við höfum hér gjaldeyrishöft. Við höfum samkvæmt færustu (Forseti hringir.) hagfræðingum fullt vald á því að fara að lækka stýrivexti, að fara að hjálpa heimilunum. Er ekki málið að koma þessari aðgerðaáætlun af stað? Það er stjórnvalda fyrst og fremst að hefja þá vinnu (Forseti hringir.) og við sem erum í stjórnarandstöðu munum leggja okkar af mörkum.



[16:03]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er ekki hægt um vik að svara á 1–2 mínútum 4–5 mismunandi spurningum um alls óskyld málefni eins og hv. þingmaður var með í máli sínu. Fyrst ræddi hann Icesave, svo stýrivexti, svo skuldavanda heimilanna, svo hjól atvinnulífsins og hvað þetta nú var. (Gripið fram í: Þetta hangir allt saman.)

Ég spyr hv. þingmann af því að hann talar aftur og aftur um að það kynni að taka mjög langan tíma að klára Icesave-málið: Er það afstaða Framsóknarflokksins að það sé ásættanlegt? Er það ekki sameiginlegur skilningur okkar allra að það sé mikilvægt að leiða þetta mál til lykta? (Gripið fram í: Ég get ekki svarað því.) Að það sé mikilvægt að gera það? (Gripið fram í: Þetta er ósanngjarnt.)

Varðandi aðstæðurnar að öðru leyti er auðvitað verið að meta þær á hverjum tíma. Það er t.d. verið að gera ákveðnar fráviksspár varðandi þjóðhagslega hagsmuni sem taka mið af því að tilteknir hlutir gerist eða gerist ekki til að búa okkur undir að takast á við það ef þannig fer. Við vonum auðvitað öll hið besta. Við vonum að viðsnúningur verði í hagkerfinu á þessu ári. Það eru allar forsendur til þess enn þá, en hann er ekki í hendi. Við þurfum að vinna að því að þannig verði það. Það er verkefnið. (Forseti hringir.)