138. löggjafarþing — 87. fundur
 8. mars 2010.
endurskoðun á samstarfsáætlun við AGS.

[16:11]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að ítrekað hefur verið frestað annarri endurskoðun á samstarfsáætlun okkar með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og áður hinni fyrstu endurskoðun þar á. Við hljótum auðvitað, íslensk stjórnvöld, að kalla eftir því að sú endurskoðun fari fram og líka eftir hreinum stuðningi okkar góðu frænda annars staðar á Norðurlöndunum. Um leið og við hljótum að vona hið besta verðum við auðvitað að vera viðbúin því versta.

Ég vil þess vegna inna hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra eftir því til hvaða ráðstafana í efnahagsáætlun hann sjái fyrir sér að hægt sé að grípa ef ekki leysist úr þessu. Hvaða breytingar hreint faglega má fyrst og fremst notast við til að vinna okkur út úr þeim vanda sem við erum í ef ekki nýtur við þessarar áætlunar? Auðvitað eru önnur úrræði til en áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, það eru tæki sem hægt er að grípa til við þær aðstæður, ýmiss konar efnahagsaðgerðir. Vegna þess hversu vel heima hæstv. ráðherra er á sviði efnahagsmála og fenginn að stjórn ríkisins sem fagmaður fyrst og fremst, sem við öll þekkjum hér að góðu einu, vildi ég biðja ráðherrann að reifa lauslega þau helstu úrræði og þær helstu leiðir sem til greina koma ef þetta frestast enn um langa hríð.



[16:12]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ágætu fyrirspurn sem vitaskuld snýst um afar mikilvægt málefni fyrir íslenskt efnahagslíf. Frestun á endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsáætlunarinnar hefur fyrst og fremst þau áhrif að, a.m.k. til skamms tíma, það fjármagn sem hefði fylgt kemur ekki. Það er raunar staða sem við þekkjum því miður vel á eigin skinni því að það gerðist í fyrra. Við því er að búast að jafnframt mundi það hafa þau áhrif að annað erlent fjármagn sem við hefðum getað fengið frá öðrum aðilum á almennum markaði kemur mun ólíklegar fyrir vikið eða ef það kemur kemur það með hærri eða verri vaxtakjörum en ella.

Áhrif þessa eru þá einfaldlega þau að okkur gengur verr að fjármagna íslenska hagkerfið og íslenska ríkið og þurfum að bregðast við því með því að nota minna fjármagn. Þarfirnar eru gríðarlegar, við vitum t.d. að áætlaður uppsafnaður halli á rekstri hins opinbera á fjórum árum er um 500 milljarðar kr. Auk þess þurfum við helst að hafa talsvert fé til hliðar til að leggja í ýmiss konar fjárfestingar, ekki bara orkufrekar fjárfestingar heldur einnig ýmsar smærri.

Síðan stöndum við frammi fyrir mjög erfiðum lánum á gjalddögum, opinberum lánum undir lok næsta árs og í upphafi þess þarnæsta. Einnig eru margvísleg önnur lán sem bæði opinberir aðilar og einkageirinn hafa tekið og þurfa að endurfjármagna. Ef við fáum ekki fjármagn með góðu móti til að endurfjármagna þetta allt saman þurfum við augljóslega að spara mjög það fé sem við höfum þannig að við þyrftum að vera með mun harkalegri niðurskurð (Gripið fram í: Hver er …?) í opinberum rekstri. Við þyrftum að draga mjög úr fjárfestingum og (Gripið fram í: Hver er …?) væntanlega þyrftum við að reyna að afla fjár þótt það væri mjög dýrt frá öllum þeim (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) sem við höfum kost á.



[16:14]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég held að það sé mikilvægt í þeirri stöðu sem við erum í að við horfum ekki aðeins á eina leið, heldur skoðum aðra kosti sem við eigum í stöðunni til að vinna með til framtíðar. Þess vegna er mikilvægt að við reynum nú að glöggva okkur á þeim valkostum sem fram undan eru. Það er að mínu viti nokkuð augljóst að ef ekki næst sú endurskoðun sem við vonumst til að ná og hljótum að krefja um í samstarfi okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þarf að grípa til annarra ráðstafana í efnahagsmálum.

Ég vildi kannski spyrja hæstv. ráðherra að lokum hversu lengi hann telji að við getum beðið eftir því að fá endurskoðun. Hvenær þyrftum við þá í síðasta lagi að taka ákvörðun um að gera nýja efnahagsáætlun á nýjum forsendum ef svo ólánlega vill til að okkur takist ekki að halda áfram samstarfsáætlun okkar með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (Forseti hringir.) sem við hljótum öll að vona að takist?



[16:16]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Ég tel alveg ljóst að sá dráttur sem þegar hefur orðið hefur þegar haft neikvæð áhrif, bæði á almenna hagþróun og sérstaklega á tekjur og útgjöld hins opinbera. Það er raunverulega þegar orðið tímabært að taka tillit til þess, en auðvitað versna áhrifin bara eftir því sem lengra líður á árið. Einhverjir dagar eða vikur til eða frá skipta kannski ekki höfuðmáli, en ef við höfum ekki neinn almennilegan aðgang að erlendu fjármagni langt fram eftir árinu er alveg augljóst að sú áætlun um efnahagsmál sem m.a. var lögð til grundvallar fjárlögum er algjörlega brostin og þá þyrfti að skoða fjárlögin upp á nýtt. Vitaskuld mundum við jafnframt leita allra leiða til að afla fjármagns annars staðar að. Það verður ekki undan því skotist að við þurfum að velta áfram lánum og fjármagna fjárfestingar með einhverjum hætti, en það verður miklu dýrara ef við höfum ekki aðgang að því fjármagni sem við höfðum tryggt okkur með áætlun AGS.