138. löggjafarþing — 87. fundur
 8. mars 2010.
frumvarp um stjórn fiskveiða.

[16:17]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Allmargar fyrirspurnir hafa borist til forseta frá þingmönnum sem vilja spyrja hæstv. ráðherra spurninga. Í tilefni dagsins ætlar forseti að hleypa þeim tveimur konum að sem óskað hafa eftir að bera hér upp fyrirspurnir.



[16:17]
Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég óska að sjálfsögðu konum til hamingju með þennan merkisdag en vil þó meina að ég hafi óskað eftir því að bera fram fyrirspurn sem þingmaður en ekki að mér hafi verið sérstaklega hleypt að vegna þess að ég er kona. Hvað um það, mér finnst dálítið sérkennilegt af hæstv. forseta að kynna þingkonur svona til leiks. (Gripið fram í.)

Mig langar hins vegar að ræða dálítið um þann sáttatón sem hefur heyrst í talsmönnum ríkisstjórnarinnar, ekki síst í þeirri umræðu sem var hér í dag. Heldur fannst mér hæstv. forsætisráðherra missa sáttaandlit sitt í niðurlagi skýrslunnar áðan. Það er mikið talað um að ná þurfi samstöðu um margvísleg mál og að Icesave-málið sé þess eðlis að um það þurfi að ná samstöðu og fleiri mál séu þess eðlis að um þau þurfi að ná samstöðu. Ég minni á að það tók töluverðan tíma að ná þeirri samstöðu sem þurfti í Icesave-málinu og ég held að það hafi ekki síst verið vegna þess að ríkisstjórninni brást getan til að ljúka málinu þar sem eftir samstöðu var óskað.

Hvað um það, fram undan eru brýn verkefni í efnahagsmálum og ekki síst á sviði atvinnuuppbyggingar og efnahagsmála almennt. Í allan vetur hafa aðilar vinnumarkaðarins, t.d. Alþýðusamband Íslands, gert athugasemdir við það hvernig framfylgd svokallaðs stöðugleikasáttmála hefur verið. Sumir eru jafnframt farnir að tala um hann sem nokkuð í þátíð frekar en í framtíð.

Á fimmtudaginn var var afgreitt út úr hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd svokallað skötuselsfrumvarp og eftir fréttaflutningnum af því máli að dæma er gríðarleg andstaða á öllum sviðum sjávarútvegs um skötuselsfrumvarpið. Það vekur manni ugg í brjósti um það hvert framhald verður á þessum svokallaða stöðugleikasáttmála.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún telji skynsamlegt við þessar aðstæður að auka enn frekar á óróann með því að samþykkja það frumvarp og gera að lögum og valda (Forseti hringir.) enn frekara uppnámi hjá aðilum vinnumarkaðarins og hægja stórkostlega á efnahagsbatanum hér.



[16:20]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mjög skiptar skoðanir eru í þinginu um það mál sem hér er spurt um. Sjávarútvegsnefnd hefur haft þetta mál til meðferðar. Reynt hefur verið að leita sátta í því og a.m.k. tvær tillögur hafa verið settar fram í þeirri viðleitni að ná fram sátt í málinu. Það er alveg sama hvora tillöguna er komið fram með hjá þeim sem er leitað sátta við, þeir neita því alltaf að ná einhverri samstöðu um málið. Ef menn deila þurfa menn að leita sátta og slaka til hver hjá sér til þess að ná niðurstöðu, ég þarf ekki að segja það við hv. þm. Ólöfu Nordal. Tvær tillögur liggja fyrir í þessu efni. Það hefur sem sagt ekki enn náðst sátt í málinu og eftir því sem ég best veit kemur fram í því nefndaráliti sem var skilað inn að ef einhver lausn finnist í því máli sem er til sátta fallin er opið að setjast yfir hana og ræða það mál meðan það er í þinginu.

Það er ekki hægt að segja hér, virðulegi forseti, eins og mér fannst hv. þingmaður reyna að segja að þessi ríkisstjórn sé ekki tilbúin til að leita samstöðu og sátta í málinu. En það þarf tvo til þegar deilt er og Landssamband íslenskra útvegsmanna hefur ekki sýnt neina sáttaviðleitni í þessu máli með því að koma til móts við þær tillögur sem þegar hafa verið lagðar fram og eru a.m.k. tvær.



[16:21]
Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Ég hygg að það hafi verið almennt á vettvangi sjávarútvegsins sem menn hafa haft áhyggjur af þessu skötuselsfrumvarpi, ekki einungis á vettvangi LÍÚ. Af því að hæstv. forsætisráðherra nefndi LÍÚ sérstaklega hygg ég að það hafi verið Samtök fiskvinnslustöðva og fleiri.

Það er alveg rétt hjá hæstv. forsætisráðherra, menn þurfa að gefa eftir þá tveir deila. Það er akkúrat það sem þetta snýst um. Það þurfa báðir aðilar að gefa eftir. Það er nefnilega það sem þetta snýst um.

Það er algjör óþarfi að fara af stað með þetta skötuselsfrumvarp í því árferði sem nú er. Það er ekkert kallað eftir þessu máli. Þetta fer þvert ofan í þær sáttaumleitanir sem eiga sér stað á vettvangi sjávarútvegsins. Ég skil ekki af hverju hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsætisráðherra með þann vanda sem þetta stöðugleikasamkomulag er í — við þurfum ekki að fara yfir það hvernig ástandið er á Suðurlandi vegna orkufrekra framkvæmda og slíkt. Þurfum við að auka vandann? Þurfum við alltaf að bæta meira og meira í og gera ósættið enn þá meira? Það er enginn að kalla eftir þessu skötuselsfrumvarpi og það væri réttast fyrir hæstv. ríkisstjórn (Forseti hringir.) að leggja þetta mál til hliðar.



[16:23]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Er ekki of mikið sagt að enginn sé að kalla eftir þessu skötuselsfrumvarpi? Síðari tilraunin sem ríkisstjórnin gerði til að ná sátt í því máli var rædd við forustu Samtaka atvinnulífsins sem tók því ekkert fjarri að þar gæti verið lagður fram sáttagrundvöllur um að lögfesta þessi ákvæði í frumvarpinu um skötuselinn en þau tækju ekki gildi fyrr en á næsta fiskveiðiári. Sú tillaga var borin undir, að mér skildist, 15 manna stjórn hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og allir sögðu nei. Viðleitni þessara aðila til að ná sátt við ríkisstjórnina og þá aðila sem bera málið fram hefur nákvæmlega engin verið. Meðan málið er í þeirri stöðu er ekki von að við náum neinum árangri í þessu máli.

(Forseti hringir.) Ég veit að SA hefur lagt mikið á sig til að ná sátt í þessu máli, þau vildu horfa á þessa tillögu, en því miður lagðist Landssamband íslenskra útvegsmanna gegn henni. Ég ítreka að það er opin sáttaleið ef menn finna annan sáttagrundvöll til að fara yfir.