138. löggjafarþing — 87. fundur
 8. mars 2010.
tillögur starfshóps um kynbundinn launamun.

[16:24]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska þingheimi til hamingju með alþjóðlegan baráttudag kvenna sem er 100 ára í dag. Ein grófasta birtingarmynd kynjamisréttis er kynbundinn launamunur. Í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá árinu 2007 var lögð rík áhersla á að vinna gegn kynbundnum launamun. Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra, skipaði starfshóp um kynbundinn launamun og hann skilaði skýrslu í desember 2008 með ábendingum um leiðir til að vinna að launajafnrétti kynjanna á almennum markaði. Um svipað leyti skipaði þáverandi fjármálaráðherra, Árni Mathiesen, starfshóp sem átti að vinna að verkefnum tengdum opinberum vinnumarkaði. Meginverkefni þess hóps var að setja fram áætlun um að minnka óútskýrðan launamun kynjanna á opinberum vinnumarkaði, með það að markmiði að hann minnkaði um helming á kjörtímabilinu, og að endurmeta kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum stétta þar sem konur eru í miklum meiri hluta.

Samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér starfaði þessi hópur vorið 2008 og fram á árið 2009. Síðasti fundur nefndarinnar var haldinn í janúar það ár en svo var hópurinn lagður niður. Fram kemur að hópurinn hafi skilað skýrslu til hæstv. fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, en sú skýrsla hefur ekki verið birt.

Nú langar mig til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvaða tillögur hafi komið fram í þessari skýrslu og hvers vegna hún hafi ekki verið birt.



[16:26]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég tek undir árnaðaróskir í sambandi við alþjóðlegan baráttudag kvenna. Kynbundinn launamunur er vissulega einn allra ljótasti bletturinn á samfélagi okkar í þessum efnum að frátöldu kannski kynbundnu ofbeldi og öðru sem því tengist. Það er nú svo með glímuna við þennan kynbundna launamun að það rifjast upp fyrir mér að með 10 ára millibili voru gerðar stórar úttektir á þessu máli og ég tók þátt í umræðum um þær í bæði skiptin á Alþingi. Ætli það hafi ekki verið 1995 og aftur 2005? Þá hafði okkur nákvæmlega ekki miðað spönn frá rassi, við vorum á nákvæmlega sama stað þegar veginn kynbundinn launamunur var skoðaður og það var ákaflega dapurlegt, m.a. vegna þess að þrátt fyrir að dregið hefði nokkuð úr kynbundnum launamun í lok síðustu aldar fór hann vaxandi aftur í bólinu. Skýrar upplýsingar eru til staðar um það.

Það er ástæða til að ætla, og reyndar staðfest, að það hafði dregið nokkuð úr þessum mun aftur. Það gerist m.a. vegna þess að aðhaldsaðgerðir í sambandi við a.m.k. launakostnað hjá hinu opinbera, og jafnvel í fyrirtækjum líka, eru gjarnan látnar beinast að ýmsum fríðindum og óumsömdum greiðslum sem að hluta til skýra hinn kynbundna launamun. Það minnir okkur á að langbesta vörnin við þessu er gagnsæi, félagslegir kjarasamningar þar sem öll launakjör eru uppi á borði. Þá er ekkert hægt að fela mismunun, hvorki kynbundna né aðra.

Við höfum reynt að sinna þessum málum á ýmsan hátt þrátt fyrir ærin verkefni, t.d. með því að innleiða kynjaða hagstjórn og hafa þetta sem skýrt leiðarljós í sambandi við allar aðgerðir innan hins opinbera kerfis. Til dæmis er alveg skýrt tekið fram í leiðarljósum um það hvernig ná eigi sparnaði að það eigi að nota tækifærið og reyna að útrýma kynbundnum launamun.

Varðandi skýrsluna sem hv. þingmaður spyr um skal ég með mestu ánægju draga hana fram (Forseti hringir.) og upplýsa um inntak hennar. Það kemur mér á óvart ef hún hefur ekki verið birt, það er þá ekki seinna vænna að gera það.



[16:28]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið. Eftir þeim upplýsingum sem ég aflaði hafði þessi skýrsla ekki verið birt og ég verð að segja að þó að sú dapurlega staðreynd að hér sé mikill samdráttur í opinberum búskap leiði af sér meiri jöfnuð í launum kynjanna veit ég að hagur ríkisins þarf ekki mikið að aukast til þess að hann fari að vaxa aftur. Eins og hæstv. ráðherra sagði sjálfur hefur lítið þokast í þessum málum. Erindi hópsins var að endurmeta kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum stétta þar sem konur eru í miklum meiri hluta. Mér finnst mjög áhugavert og mikilvægt að fá fram hvað þessi starfshópur hafði um þetta efni að segja. Ég hvet því ráðherra til að birta þessa skýrslu hafi ég ekki rangt fyrir mér í því að hún hafi (Forseti hringir.) ekki verið birt.



[16:29]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það verður undinn bráður bugur að því að dusta rykið af þessari skýrslu og koma henni fram í dagsljósið ef svo er að hún hafi ekki verið birt beinlínis. Ég man að mér var kynnt inntak hennar og ég veit að það er unnið á grundvelli ýmislegs sem þar kom fram. Það hefur verið reynt að gera það og hafa þetta mál á dagskrá. Menn hafa sérstaklega beint sjónum að því að meta áhrif efnahagsþrenginganna í þessu tilliti eins og mörgum öðrum. Það er t.d. gert í starfi velferðarvaktarinnar. Með ýmsum fleiri úrræðum sem í gangi eru er reynt að hafa kynjagleraugun á nefinu þegar lesið er í þá hluti alla saman, enda rétt og skylt. Þó að í sjálfu sér sé kannski hægt að segja að það sé dapurlegt að það þurfi efnahagssamdrátt til og sparnað í launaútgjöldum til að draga úr launamun er þó í sjálfu sér jákvætt að kjörunum sé jafnar skipt. Það hlýtur síðan að vera markmiðið að verja þann ávinning þegar hlutirnir taka að breytast og helst að tryggja með öllum tilteknum ráðum (Forseti hringir.) að sú þróun endurtaki sig ekki að launaskrið eða annað því um líkt leiti út í kynbundinn launamun.