138. löggjafarþing — 90. fundur
 9. mars 2010.
brottfall laga nr. 16/1938, 1. umræða.
stjfrv., 436. mál (afkynjanir). — Þskj. 757.

[17:58]
heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um brottfellingu laga nr. 16/1938, um að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir, að það auki kyn sitt.

Þáverandi hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir skipaði nefnd í febrúar 2007 til að kanna hvort lög og reglugerðir hér á landi uppfylli kröfur sem lagðar eru á ríki er fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra. Vakti nefndin, sem er undir forustu hv. þm. Helga Hjörvars og hefur rétt lokið störfum, athygli á því að enn væri í gildi heimild til afkynjana samkvæmt þessum lögum frá 1938 sem heimila, eins og þar segir, með leyfi forseta:

„…í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir, að það auki kyn sitt.“

Meginefni fyrrgreindra laga var fellt úr gildi með lögum nr. 25/1975, um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, en samkvæmt gildistökuákvæði þeirra laga skyldu þó ákvæðin um afkynjanir halda gildi sínu. Þannig eru lög nr. 16/1938 birt í lagasafni með athugasemd um að þau séu „fallin úr gildi, nema að því er varðar afkynjanir“.

Hér er því um einfalda lagahreinsun að ræða, eftirhreytur lagabókstafs sem er úreltur og hefur í reynd ekki verið beitt um 39 ára skeið.

Ég vil þó víkja nokkrum orðum að þessu efni og vísa til þess að í upphaflegu lögunum voru, eins og ég nefndi áðan, með leyfi landlæknis og nefndar sem skipuð var, heimilaðar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir að fólk auki kyn sitt. Þar var átt við afkynjanir, ófrjósemisaðgerðir og fóstureyðingar. Skilgreining á afkynjun, því sem við erum að nema hér úr lögum, er brottnám á eistum karla og eggjastokkum kvenna.

Á 127. löggjafarþingi var lögð fram að beiðni Þórunnar Sveinbjarnardóttur og fleiri þingmanna skýrsla heilbrigðisráðherra um ófrjósemisaðgerðir sem gerðar voru á árunum 1938–1975, þ.e. á gildistíma laganna frá 1938. Þar kom fram að gerðar höfðu verið fjórar afkynjanir á körlum á þessu tímabili og sú síðasta árið 1971. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að nefnd sem átti að fjalla um leyfi til þessara aðgerða starfaði þar til um miðjan júní 1975 þegar ný lög tóku gildi. Nefndin hefur ekki verið endurskipuð og engar afkynjanir hafa verið gerðar hér á landi frá 1971.

Það er því löngu tímabært að fella að fullu niður þessi lög, herra forseti.

Mig langar að víkja nokkuð að efni skýrslunnar sem hér var lögð fram á 127. þingi. Skýrslan var tekin saman af Unni Birnu Karlsdóttur. Heilbrigðisráðherra lagði hana hér fyrir og um hana urðu nokkuð miklar umræður. Í skýrslunni kom fram að alls voru framkvæmdar 726 ófrjósemisaðgerðir á tímabilinu 1938–1975. Í 120 tilfellum var andlegur vanþroski eða geðveiki sögð meginástæða aðgerðar. Þar af voru 59 einstaklingar gerðir ófrjóir án þess að undirrita sjálfir beiðni um það. Síðan segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Í meiri hluta þeirra tilfella voru foreldrar umsækjendur eða í 42 tilvikum. Í 10 þeirra sótti foreldri um sem skipaður tilsjónarmaður barns síns þar sem það hafði náð 16 ára aldri. Fulltrúar barnaverndarnefnda undirrituðu alls fimm beiðnir um aðgerðir sem komu til framkvæmda og framfærslufulltrúi bæjarfélags undirritaði eina. Þess utan eru dæmi um að frumkvæði að því að fólk var gert ófrjótt hafi komið frá einhverjum utan fjölskyldunnar. Hér er átt við fulltrúa félagsmálastofnana, barnaverndarnefnda, bæjarstjórna eða lækna.“

Á árinu 1996 voru einstaklingi dæmdar bætur vegna þess að hann hafði verið gerður ófrjór án samþykkis og vitundar sinnar á gildistíma laga nr. 16/1938 og ekki hafði verið farið að ákvæðum laganna um heimild til slíkrar aðgerðar. Í framhaldi af því var samið við tvo einstaklinga, systkini hins fyrrnefnda, um bótagreiðslur.

Herra forseti. Ekki verður fullyrt hvort fleiri einstaklingar voru á fyrrgreindu tímabili gerðir ófrjóir án þess að fylgt væri ákvæðum laga nr. 16/1938. Hins vegar er ljóst að sú hugmyndafræði sem fyrrgreind lög byggðu á og nefnd voru mannkynbótastefna, samrýmist ekki nútímahugmyndum um virðingu fyrir einstaklingum og réttindum þeirra.

Ég vil því fyrir hönd stjórnvalda biðja þá einstaklinga sem kunna að eiga um sárt að binda vegna ófrjósemisaðgerða sem gerðar voru á grundvelli laga nr. 16/1938 afsökunar.

Að svo mæltu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðisnefndar og 2. umr.



[18:04]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þá framsögu sem hún flutti hér með frumvarpi til laga um brottfall laga nr. 16/1938, um að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir, að það auki kyn sitt, eins og það heitir.

Eins og kemur fram í athugasemdum við lagafrumvarpið skipaði í febrúar árið 2007 Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra, nú forsætisráðherra, nefnd til að kanna hvort lög og reglugerðir hér á landi uppfylltu kröfur sem lagðar eru á ríki sem fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk sem var undirritaður af hálfu Íslands 30. mars 2007.

Ég fagna því að í þeirri leit hafi þessi lög komið fram. Það ætti að vera okkur áminning um að það þarf oft að fara yfir lagabálkana eins og þessi lög sem hafa legið þarna og eru eðlilega orðin úrelt. Allt annar hugsunarháttur gildir í dag en gilti á árinu 1938. Ég tel að það þurfi í miklu fleiri tilfellum að fara algjörlega markvisst í gegnum lögin okkar með tilliti til lagahreinsana. Það væri óskandi að það gengi vel að fara í gegnum lagabálka allra ráðuneyta með tilliti til þess að skoða hvort þar sé eitthvað sem brýtur í bága við réttindi fólks með fötlun og að við náum þá að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Því fagna ég því að fá þetta frumvarp til heilbrigðisnefndar og tel að hún þurfi ekki mjög langan tíma til þess að afgreiða frumvarpið.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til heilbrn.