138. löggjafarþing — 91. fundur
 15. mars 2010.
fundur utanríkisráðherra Norðurlanda.

[15:03]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því við utanríkisráðherra að hann greini þinginu nánar frá fundi sínum með utanríkisráðherrum Norðurlandanna sem átti sér stað í Kaupmannahöfn 11. mars sl. Nú er beðið endurskoðunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á lánafyrirgreiðslu til Íslands og það verður ekki skilið öðruvísi en svo að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé þeirrar skoðunar að það sé engin ástæða til að tengja það við Icesave-málið. Fáist fjármögnun frá Norðurlöndunum er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tilbúinn eins og sakir standa til að fara í gegnum þessa endurskoðun og greiða út næsta hluta lánanna eins og lánsfjárþörfin er metin. En afstaða Norðurlandanna til Alþjóðagjaldeyrissjóðsfyrirgreiðslunnar skiptir afar miklu því að ef Norðurlöndin hafa áfram tengingu við lausn Icesave-deilunnar gerist ekkert hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Það voru ánægjuleg tíðindi sem okkur bárust eftir fund hæstv. utanríkisráðherra frá norska utanríkisráðherranum sem sagðist ekki lengur gera nein tengsl milli þessara mála, en það er meira vafamál með aðra norræna ráðherra eða aðrar norrænar ríkisstjórnir. Ég vil inna hæstv. utanríkisráðherra eftir þeim sjónarmiðum sem fram komu á fundi hans með þessum utanríkisráðherrum. Hvað veldur því að norrænu ríkin, frændþjóðir okkar, vilja gera afgreiðslu Icesave-málsins að skilyrði þess að þær haldi áfram fjármögnun mála hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum?



[15:05]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka formanni Sjálfstæðisflokksins fyrir að taka þetta mál upp. Það skiptir okkur alveg gríðarlega miklu máli að í þessu fáist farsæl niðurstaða. Hv. þingmaður les stöðuna alveg rétt. Það er alveg rétt hjá honum að Dominique Strauss-Kahn hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur talað með þeim hætti, það er ekki hægt að skilja það öðruvísi, að ef fjármögnun á efnahagsáætlun fæst, og eins og við vitum er hún að helmingi til fjármögnuð frá Norðurlöndunum, sé okkur ekkert að vanbúnaði með að halda henni áfram.

Á þeim fundi sem hv. þingmaður spyr mig um og var að boði hins nýja utanríkisráðherra Danmerkur, var Icesave-málið fyrsta málið á dagskrá. Ég tók því boði og af öllum þeim atriðum sem voru á fundinum var Icesave-málið langmest rætt. Ég fór mjög nákvæmlega yfir stöðuna þar og sagði að þó að ég væri bjartsýnn á að við mundum ná lausn á Icesave hugsanlega innan skamms yrði að gera ráð fyrir öðru. Þess vegna skipti það öllu máli fyrir Ísland að Norðurlöndin stæðu nú með Íslendingum varðandi fjármögnun á AGS-áætluninni.

Í skemmstu máli kom það fram á þessum fundi og eftir fundinn að Norðmenn, sem við höfum átt í miklum samskiptum við, gera alveg skýran greinarmun á annars vegar AGS-áætlun og hins vegar Icesave. Þeir segja: Ef Íslendingar uppfylla þau tæknilegu skilyrði og þau skilyrði sem AGS setur, erum við reiðubúnir til að halda áfram þar sem frá var horfið. Sú afstaða sem kom fram hjá hinum Norðurlöndunum var enn sú að æskilegt væri að ganga frá Icesave áður. Það sem þau lögðu einkum fram sem rök fyrir afstöðu sinni eru þeir þinglegu textar sem samþykktir hafa verið í þingunum. Sumir eru þess eðlis að framkvæmdarvaldið (Forseti hringir.) telur sig ekki geta gengið lengra nema hugsanlega að þeim verði breytt.



[15:08]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju með þá viðhorfsbreytingu sem ég tel að hafi átt sér stað hjá Norðmönnum vegna þess að þeir hafa ekki talað svona skýrt fram til þessa. En að sama skapi hlýtur það að valda okkur öllum vonbrigðum að hin Norðurlöndin skuli ekki taka af skarið. Það var athyglisvert á sínum tíma að svo virtist t.d. að á sænska þinginu hefðu menn áhyggjur af því að lánafyrirgreiðsla til okkar yrði notuð til að greiða upp Icesave-lánin, sem er auðvitað reginmisskilningur. En ég held að það gæti farið vel á því að Norðurlöndunum yrði sent það tilboð sem við gerðum Bretum og Hollendingum vegna þess að staðreynd málsins er sú að við höfum fyrir löngu síðan boðið sanngjarnar lyktir Icesave-deilunnar. Við höfum boðist til að veita ríkisábyrgð fyrir þessari lágmarkstryggingu og Bretar og Hollendingar fara fram á hluti við okkur sem ganga svo langt fram úr því sem sanngjarnt er og eðlilegt að krefjast af okkur. Ef við kynnum þetta vel fyrir Norðurlöndunum hljóta augu þingmanna þar að opnast. Augu frændþjóða okkar hljóta að opnast fyrir því (Forseti hringir.) að það er ómálefnalegt og óskynsamlegt að tengja þessi mál saman. Það er líka óréttlátt og veldur íslenskum borgurum (Forseti hringir.) vanda og tjóni.



[15:09]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það gerist æ oftar á þessum síðustu og bestu dögum að ég er sammála formanni Sjálfstæðisflokksins. Ég er honum sammála um það sem hann sagði áðan að það er ósanngjarnt og óréttlátt að gera þessa tengingu.

Ég vil hins vegar segja það alveg skýrt að ég hef áður rætt þessa hluti við forustumenn á Norðurlöndunum og það er mitt mat að það sé sterkari skilningur á okkar stöðu en áður. Auðvitað skiptir það okkur alveg gríðarlega miklu máli að frændur okkar Norðmenn tóku þetta skref. Það er alveg ljóst hvað þeir sögðu. Hins vegar dugar það okkur ekki að þeir einir hafi þessa afstöðu. Norðurlöndin öll þyrftu, ef til stykkisins kæmi, að hafa svipaða afstöðu.

Þá ítreka ég aftur það sem við vitum sem höfum skoðað þessi mál, líka hv. þingmenn í utanríkismálanefnd, að sumir þingtextanna sem samþykktir hafa verið á Norðurlöndunum eru þess eðlis að það þyrfti þá hugsanlega að breyta þeim. En við höfum fundið að við höfum vaxandi skilning einmitt innan þjóðþinganna (Forseti hringir.) og að því er varðar þekkingu þeirra á tilboðinu hefur þeim verið gerð grein fyrir þessu tilboði, ekki bara af stjórnarliðinu heldur líka af einstökum þingmönnum stjórnarandstöðunnar.