138. löggjafarþing — 91. fundur
 15. mars 2010.
staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur, 1. umræða.
stjfrv., 445. mál (forgangskröfur). — Þskj. 766.

[15:38]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Frumvarpið gengur út á það að leggja til að kröfur ríkissjóðs vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda verði betur tryggðar við gjaldþrotaskipti en nú er. Með vísan til þeirra breytinga sem orðið hafa í íslensku efnahagslífi á síðustu missirum, hafa stjórnvöld gripið til margþættra aðgerða til að koma til móts við aðila til að standa skil á skuldum við ríkissjóð. Frumvarp sem er hér næst á eftir er m.a. liður í því. Einnig hafa heimildir innheimtumanna verið rýmkaðar til að veita meira svigrúm við innheimtu. Verði sömuleiðis að lögum frumvarp það sem hér er á dagskrá á eftir um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, er verulega komið til móts við atvinnulífið að þessu leyti, að auðvelda því að gera upp ógreidd gjöld af þessu tagi.

Jafnframt þykir því eðlilegt að gera ráðstafanir til tryggja betur kröfur ríkissjóðs við gjaldþrotaskipti. Frumvarp þetta leggur til að lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatt verði breytt á þann veg að kröfur samkvæmt þeim njóti forgangs við skipti á þrotabúum og skuldafrágöngubúum og verði skipað í skuldaröð skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Þannig verður þetta fært til þess horfs sem það var, mun hafa verið hér á árum áður og fram á síðasta áratug síðustu aldar þegar þessu mun hafa verið breytt. Í ljósi aðstæðna er lagt til að þessi skipan komist á til að tryggja hagsmuni ríkisins í slíkum tilvikum.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu, frú forseti.



[15:41]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir ágæta ræðu. Ég vildi spyrja hann að einu. Hér er um að ræða vörslugjöld, þ.e. gjöld sem fyrirtæki hafa innheimt af öðrum aðila fyrir hönd ríkissjóðs og eiga að skila honum. Sumir hafa nefnt þetta „rimlagjöld“, með vísan í að það getur varðað við fangelsisvist að halda þessu eftir. Er það ekki rétt skilið að það sé í rauninni til hagsbóta fyrir skuldarann — það kemur ekki fram í greinargerðinni — að vörslugjöldin fari í forgangsröð í þrotabúið þannig að það er síður hætta á því að hann verði kærður fyrir fjársvik?



[15:42]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kemur nú að svolítið tómum kofanum hjá mér, ég er ekki sérfróður í hinum refsiréttarlega hluta þessa máls eða lagalega í þeim skilningi. Dómsmálaráðherra er hugsanlega betur stödd til að svara fyrir það. Ég hygg að það fari væntanlega eftir eðli máls, af hvaða ástæðum vanskilin liggja fyrir þegar bú er tekið til gjaldþrotaskipta. Hafi menn beinlínis haldið undan staðgreiðsluskilum þannig að það varði við hegningarlög, samanber ákvæði þar um, hverfur sá þáttur málsins augljóslega ekki þótt kröfuröðin í búinu breytist að þessu leyti og hagsmunir ríkisins séu tryggðir betur hvað það varðar. En það er að sjálfsögðu einnig mögulegt að óvæntar aðstæður valdi því að vangoldin gjöld af þessu tagi liggi fyrir þegar bú er tekið til skipta. Það þarf ekki endilega að þýða, ímynda ég mér, að um neitt refsivert athæfi hafi verið að ræða áður. Í hvoru tilvikinu fyrir sig er þetta því liður í því að tryggja betur hagsmuni ríkisins varðandi það að fá þessi gjöld greidd.



[15:43]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Því hefur margoft verið haldið fram í mín eyru af mönnum í rekstri að þetta séu þau gjöld sem þeir óttast mest vegna þess að þau fást stundum ekki greidd úr þrotabúinu. Þar af leiðandi eru þau ógreidd þegar skiptum er lokið og þá sitja þeir uppi með að skulda ríkissjóði eitthvað sem þeir höfðu innheimt af öðru fólki, launþegum sínum. Það er oft þannig, þótt menn þekki það kannski ekki hér á hinu háa Alþingi, að menn reyna að halda rekstri fyrirtækja gangandi löngu eftir að það er hætt að vera skynsamlegt, þá með því fororði að reyna að halda atvinnu starfsfólksins, að þeir þurfi ekki að segja því upp, og reyna að halda rekstrinum gangandi í von um betri tíð og blóm í haga. Það er því ákveðin freisting hjá mönnum að halda áfram og nota þessi vörslugjöld í reksturinn. Ef þau fást greidd vegna þess að þau breytast í forgangskröfur, eru þau náttúrlega greidd eftir lokauppgjör. Þá er viðkomandi rekstraraðili ekki lengur í neinum vandræðum, þannig að ég sé ekki annað en að þetta sé honum til töluverðra hagsbóta. Mér finnst þetta ósköp eðlilegt. Ég er ekkert að segja að ég sé á móti þessu.



[15:44]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að hv. þingmaður hafi alveg rétt fyrir sér í þeim skilningi að það eru minni líkur á því með þessari breytingu, að eftir standi ógreiddir vörsluskattar þegar búi hefur verið skipt og í þeim skilningi minnkandi líkur á því að menn skuldi enn vörsluskatta. Það er auðvitað alltaf mjög alvarlegt og eru um það ákvæði, eins og kunnugt er, í hegningarlögum ef slíkt er gert vísvitandi, ef menn hafa beinlínis haldið eftir fé sem þeir innheimta fyrir ríkissjóð og eiga að skila á tilteknum gjalddögum. Ef það hefur verið gert að yfirlögðu ráði er slíkt auðvitað mjög saknæmt og alvarlegt. En þær aðstæður geta verið fyrir hendi sem verða til þess að einhver slík gjöld eru ógreidd einmitt þegar fyrirtæki kemst í þrot, það þarf ekki endilega að vera af saknæmu tagi. Þetta er nú eitthvað fyrir sérfróða aðila á þessu sviði að skoða. Aðalatriðið er að ég er sammála hv. þingmanni, ég held það sé eðlilegt að vörslufé af þessu tagi sé með því allra fyrsta sem tryggt sé við greiðslur úr búi samhliða öðrum algerum forgangskröfum eins og launakröfum og slíku.



[15:46]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um staðgreiðslu opinberra gjalda og lög um virðisaukaskatt. Þetta eru svo sem ekki fyrstu málin sem við í efnahags- og skattanefnd fáum til umfjöllunar er snerta breytingar á skattkerfinu og eins og við fórum á mjög hröðum hlaupum yfir fyrir áramót hefðum við betur vandað til þeirrar lagasetningar, enda hefur það komið á daginn í framhaldinu að vegna þess hversu hratt þær breytingar voru gerðar hafa verið gerð mistök, m.a. er snerta birtingu á lögunum sem við þurftum síðar að leiðrétta hér í þinginu.

Þetta frumvarp er ætlað til þess að styrkja stöðu ríkissjóðs vegna krafna sem ríkissjóður hefur í þrotabú. Við fyrstu sýn get ég ekki séð annað en ég sé fylgjandi frumvarpinu enda veitir okkur svo sem ekki af því að standa vörð um alla tekjustofna ríkissjóðs í dag á erfiðum tímum. Þess vegna, við fyrstu umferð, lýsi ég mig fylgjandi þeim markmiðum sem hæstv. ráðherra hefur sett fram með frumvarpinu.

Það sem ég hef að athuga við frumvarpið er aðallega það fylgiskjal sem fylgir með frumvarpinu, þ.e. umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Ég hefði gjarnan viljað fá að vita við upphaf málsins um hversu umfangsmikið mál við erum að ræða, hversu mikla hagsmuni er verið að tryggja í þessu. Við vitum að gríðarlegur fjöldi fyrirtækja á því miður í miklum erfiðleikum og fyrirséð að muni lenda í greiðsluþroti eða gjaldþroti. Þess vegna hefði verið ágætt að sjá einhverja áætlun frá fjármálaráðuneytinu í umsögn þess um það hversu mikið við gætum ályktað að frumvarpið mundi tryggja ríkissjóði aukna fjármuni. Ég ætla svo sem ekki að endurtaka það hversu brýnt það er að við förum mjög vandlega ofan í skattalagabreytingar og umhverfi fyrirtækjanna og almennings í landinu en ég ætla hins vegar að koma fram með þá skoðun hér þannig að hæstv. ráðherra heyri hana, ég veit ekki hvort hann hefur heyrt hana áður, að ég tel að þær breytingar sem við gerðum á allt of stuttum tíma, grundvallarbreytingar á skattumhverfi fyrirtækjanna og reyndar almennings líka, hafi verið illa ígrundaðar og munu koma niður á tekjustofnum ríkissjóðs, því miður, strax á þessu ári.

Ég hef fundið það sem venjulegur borgari í landinu að fylgni við skattkerfið hið íslenska hefur ekki verið að aukast að undanförnu, þvert á móti. Ég hef áhyggjur af því vegna þess að við þurfum á öllum þeim fjármunum að halda sem ríkissjóður getur náð í, skuldugur ríkissjóður. Þess vegna væri jafnvel fróðlegt að heyra það frá hæstv. ráðherra hvort hann hyggist breyta skattkerfinu á þessu ári meira í grundvallaratriðum og ef svo er, hvort það væri þá ekki ráð að hleypa stjórnarandstöðunni að þeirri vinnu þannig að við getum náð meiri sátt í þinginu um þær breytingar sem hæstv. ráðherra ætlaði sér að gera. Og að við gætum kannski gert það með yfirvegaðri hætti en að ræða það til að mynda undir áramót á einu laugardagskvöldi um skattstefnu ríkisstjórnarinnar og þær breytingar sem við gerðum þá á frumvarpinu.

En þetta er í allri vinsemd sett fram og ég vil segja það að hv. efnahags- og skattanefnd mun taka þetta mál til gaumgæfilegrar skoðunar. Ég mun a.m.k. fara vel yfir þetta. Ef hæstv. ráðherra hefur ekki svör við því hvað við getum áætlað að mörg fyrirtæki lendi í þroti á þessu ári og hversu miklum fjármunum þetta frumvarp muni skila, sem sagt með breytingum á þessum lögum, hefði verið fróðlegt að heyra það vegna þess að á Íslandi í dag eru mjög erfiðir tímar. Mörg fyrirtæki og mörg heimili eru í mjög erfiðum málum og mikilvægt er fyrir okkur á þinginu að fá allar þær upplýsingar sem því tengjast til að kortleggja stöðuna. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að koma til móts við þessi skuldugu heimili og fyrirtæki með leiðréttingu á skuldavanda þeirra. Það veitir svo sannarlega ekki af. Við horfum upp á það að skuldir heimila og fyrirtækja eru því miður að vaxa dag frá degi og við köllum eftir aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Ég ætla að leyfa mér þann munað að verða ekki alveg úrkula vonar um að á einhvern hátt verði öll þessi mál leiðrétt og þar með verði staða íslensks atvinnulífs og heimila bætt því að veitir ekki veitir af eins og nú árar á Íslandi í dag.



[15:51]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Best væri náttúrlega ef við gætum bara leiðrétt efnahagshrunið og það hefði aldrei orðið, það væri best. En það er víst ekki í boði heldur verðum við að takast á við það.

Varðandi það að skattamál voru ekki rædd í þaula á þingi fyrir jólin þá hygg ég að það hafi verið í höndum Alþingis sjálfs hvernig það varði tíma sínum og Alþingi kaus að ræða annað mál talsvert mikið og ég er ekki viss um að það hafi verið meiri hlutinn sem hafði mest áhrif þar á.

Í öðru lagi um endurskoðun á skattamálum þá get ég glatt hv. þingmann með því að það er einmitt verið að hrinda úr vör núna viðamikilli heildstæðri úttekt á skattkerfinu og æskilegri þróun þess til frambúðar. Verkefnisstjórn er komin af stað og ætlunin er að óska eftir fulltrúum í breiðan samráðshóp um það mál, þar á meðal frá öllum þingflokkum. Stjórnarandstaðan getur því mjög tekið gleði sína í því að hið þverpólitíska samráð verður þá ástundað í þeim efnum, enda sjálfsagt mál þegar í hlut á verkefni af því tagi að fara yfir skattkerfið í heild sinni með langtímaþróun þess í huga.

Varðandi upplýsingar um hversu miklar skattskuldir eru vegna gjaldþrotameðferðar og eins og hún stendur núna verður að sjálfsögðu að hafa í huga að frumvarpinu er ekki ætlað að taka á því heldur framtíðinni og gagnvart því sem orðið er gildir hin almenna kröfuröð sem verið hefur. Í frumvarpinu sem er hér næst á eftir á dagskrá, ef hv. þingmaður vill hlusta, eru þær upplýsingar reiddar fram enda kemur fram í frumvörpunum að þau fylgjast að. Í þriðja dagskrármáli eru töflur um þetta og þar kemur fram að skattskuldir í atvinnurekstri miðað við 1. janúar 2010 eru samtals upp á tæpar 40 milljarðar kr. Hvað af því innheimtist er auðvitað ómögulegt að segja og þar gildir þá hin almenna kröfuröð sem verið hefur en ekki forgangurinn sem nú á að innleiða til að tryggja betur hagsmuni ríkisins á komandi árum. Til að upplýsa það brást minni mitt mér aðeins, þessu mun hafa verið breytt árið 1989 sem nú er verið að færa aftur til sama vegar.



[15:53]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með þau svör hæstv. ráðherra að hann ætli að kalla alla að því borði til að fara heildstætt yfir skattamál hér á landi og veitir ekki af því. En ég held að hæstv. ráðherra geti ekki kennt stjórnarandstöðunni á þingi um það að frumvörp er tengdust skattalagabreytingum komu ekki inn í sali þingsins fyrr en í byrjun desember. Þá áttum við í stjórnarandstöðu, og stjórnarliðinu reyndar líka, að gjöra svo vel að afgreiða grundvallarmál er snertu breytingar á skattumhverfi fyrirtækja, heimila og einnig á virðisaukaskattskerfinu á einungis örfáum virkum dögum fyrir áramót. Ef við gætum fullrar sanngirni, frú forseti, þá er einfaldlega ekki boðlegt fyrir okkur þingmenn að vinna í umhverfi sem þessu. Þess vegna ætla ég að fagna því sérstaklega að við munum fara ítarlega yfir skattkerfið núna í þverfaglegum og pólitískum hópi væntanlega á næstu vikum og mánuðum og taka okkur betri tíma en þennan tæpa mánuð sem Alþingi Íslendinga fékk til þess að breyta skattkerfinu í grundvallaratriðum.

Síðan vil ég gera örstutta athugasemd við — ekki kannski fundarstjórn frú forseta, en mér hefði fundist í lagi að ræða þessi mál saman vegna þess að þau tengjast. Ég ætlaði í raun að koma inn á fleiri þætti í seinna málinu er snerta ekki beint þetta mál og ég mun geyma ræðu mína þangað til en ég fagna því að hæstv. ráðherra talar orðið fyrir meiri samvinnu. Við höfum öll séð hverju aukin samvinna hefur skilað þingi og þjóð að undanförnu í hagstæðari samningum er snerta það hryllilega mál sem maður nennir varla orðið að nefna, sem er Icesave. Þar höfum við sparað ríkissjóði a.m.k. tugi milljarða kr. og við höfum líka náð ákveðinni samstöðu og náð að sameina þjóðina í andstöðu við þá ómögulegu samninga sem blöstu við okkur þá. Þetta er kannski nýtt upphaf hér á þingi, að við getum byrjað upp á nýtt og reynt að fara að vinna meira í anda samvinnu og samstöðu.



[15:56]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að vera langorður um þetta mál en má til með að nefna að það sem ég gat um í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra þá er þessi breyting óneitanlega til hagsbóta fyrir stjórnendur og stjórnir fyrirtækja þar sem hin svokölluðu rimlagjöld eða gjöld sem menn hafa innheimt fyrir hönd ríkissjóðs og eiga ekki, að þau fara í forgang í þrotabúið og þá eru meiri líkur og miklu meiri líkur á að það greiðist. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt vegna þess að laun, lífeyrisiðgjöld, félagsgjöld og sitthvað fleira, óinnheimt gjöld, eru í þessum sama forgangi og um er að ræða t.d. staðgreiðslu sem tekin hefur verið í tengslum við þessi laun. Það er því mjög eðlilegt að þetta hangi saman og fari hvort tveggja í forgang. Eins er með virðisaukaskatt sem menn hafa innheimt af fólki úti í bæ sem borgað er í vöruverði með virðisaukaskatti. Það er sama eðlis. Þetta eru gjöld sem fyrirtækið á ekki neitt, þannig að ég tel það mjög eðlilegt.

Hins vegar verðum við alltaf að líta til þess að þegar einn er að græða þá er yfirleitt alltaf — nei, það er reyndar ekki alveg rétt, en í þessu dæmi er það alltaf annar sem tapar þegar um er að ræða skatta til ríkissjóðs. Í atvinnulífinu er það þannig að þegar menn eiga samninga þá eru yfirleitt báðir að græða þannig að það er eðlilegt. En varðandi skatta, þegar einn fær meira úr þrotabúi er einhver annar sem fær minna og það er hinn almenni kröfuhafi og aðrir sem eru aftar í kröfuröð. Þetta kemur því niður á þeim. Ég hygg að þeir muni einhverjir vera óhressir með þessa breytingu. Hins vegar er um að ræða sanngirnismál, sem ég gat um áðan, fyrst laun og aðrar kröfur njóta forgangs.

Hæstv. fjármálaráðherra gaf okkur ljós í enda ganganna, nú á að fara að vinna saman. Menn hafa svo sem verið að vinna saman í ýmsum málum eins og t.d. Icesave og það er mjög ánægjulegt að menn séu að hverfa frá þessari einsmannsstefnu, eða hvað á að kalla það, um Icesave. Og ég er mjög glaður, frú forseti, að eiginlega sérhver dagur sem ekki er ríkisábyrgð á Icesave er góður dagur í mínum huga, virkilega góður dagur og þá hlusta ég ekki á þessar heimsendaspár um að frestunin kosti svo og svo mikið vegna þess að við erum að tala um gífurlega skuldbindingu og gífurlega vexti. Og það sem mest er um vert, frú forseti, óvissan er að breytast í vissu. Á hverjum einasta degi breytist smástykki af óvissu í vissu, t.d. það að gengi pundsins hefur fallið undanfarið sem er verulega gott fyrir Íslendinga, verulega ánægjulegt fyrir okkur, ekki Breta, það var ekki vitað en nú er það orðið vissa. Öfugt farið hefðum við orðið fyrir miklu tjóni.

Það er smáathugasemd, ég fór að kíkja í frumvarpið og mér sýnist að í 2. gr. eigi að standa, með leyfi frú forseta: Á eftir 1. málsl. 2. mgr. 28. gr. laganna kemur nýr málsliður. Þar á það eðlilega heima en ekki eftir 1. mgr. Ég legg því til að hv. nefndi skoði það sérstaklega.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og skattn.