138. löggjafarþing — 97. fundur
 22. mars 2010.
kjaramál flugvirkja, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 483. mál (bann við vinnustöðvunum). — Þskj. 834.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[17:02]

[16:58]
Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar. Við göngum hér til síðustu atkvæðagreiðslu um frumvarp til laga um að banna verkfall flugvirkja. Þessi lög eru ekki eingöngu lög á þetta eina verkfall, þetta eru lög á öll verkföll og allar kjaradeilur fram undan. Hér er verið að greiða launþegum landsins gríðarlegt högg. Með þessari lagasetningu er verið að svipta alla launþega landsins rétti sínum til að ná fram kjarabótum. Það er ekki eingöngu vegið að flugvirkjum.

Launþegasamtök landsins hljóta að íhuga það alvarlega að snúa nú bökum saman og segja sig úr þeim samtökum sem bera það skrýtna nafn í dag, Alþýðusamband Íslands, því að þau gæta ekki hagsmuna alþýðunnar lengur. Það er sorgardagur að verða vitni að þessu í þinginu, þetta er vont mál og þetta eru vond endalok á máli sem hefði getað fengið miklu betri endi.



[17:00]
Róbert Marshall (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það frumvarp sem nú er samþykkt er brýnt hagsmunamál. Það er rétt sem hér hefur komið fram að réttur stéttarfélaga til verkfalla er mikill, en afleiðingar þessa verkfalls fyrir fleiri stéttir en þær sem um ræðir í þessari kjaradeilu eru svo miklar að ekki verður við unað. Þetta bitnar á öllum stéttum ferðamennsku og fleiri og efnahagslífið þolir illa margfeldisáhrifin sem eru mikil. Ég vil líka tala um þau skilaboð sem þetta sendir á erlendan vettvang til þeirra sem hyggja á ferðalög á Íslandi í sumar, en atvinnulíf okkar horfir mjög til þess að það verði eitt það gjöfulasta í sögu lýðveldisins.



Frv.  samþ. með 38:2 atkv. og sögðu

  já:  ÁI,  ÁPÁ,  ÁJ,  ÁsbÓ,  ÁsmD,  ÁRJ,  BjörgvS,  BVG,  EKG,  GuðbH,  GLG,  GÞÞ,  HHj,  HöskÞ,  JóhS,  JBjarn,  JónG,  JRG,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LMós,  MSch,  OH,  ÓÞ,  ÓN,  PHB,  REÁ,  RM,  SER,  SII,  SkH,  SVÓ,  TÞH,  ÞKG,  ÞSveinb,  ÞrB,  ÖS.
nei:  MT,  ÞSa.
8 þm. (AtlG,  BJJ,  EyH,  GStein,  SDG,  SIJ,  SF,  VigH) greiddu ekki atkv.
15 þm. (ÁÞS,  BÁ,  BirgJ,  BjarnB,  GBS,  IllG,  KÞJ,  LRM,  RR,  SJS,  SSv,  UBK,  VBj,  ÞBack,  ÖJ) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[17:01]
Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Hér er einfaldlega gripið til allt of harðneskjulegra aðgerða gagnvart einni stétt í landinu sem á í kjaradeilu í ljósi þess hvað aðgerðaleysið hefur verið mikið hvað það varðar að reyna að skapa sátt á íslenskum vinnumarkaði við mjög óvenjulegar og dæmalausar aðstæður. (Gripið fram í: Akkúrat.) Við framsóknarmenn auglýsum eftir því, ekki síst af þessu tilefni, að farið verði í það af miklu meiri röggsemi en sýnd hefur verið að skapa sátt um það að ná niður vöxtum, ná niður verðlagi, en ekki bara einhliða aðgerðir til að halda niðri launum. Um það verður aldrei sátt. Við lögðum til hér í umræðunni að farin yrði mildari leið til að grípa inn í kjaradeilu flugvirkja, skipa gerðardóm og taka þó ekki samningsréttinn burt, heldur einfaldlega fara í að skipa þennan dóm sem hefði leitt til þess að málið yrði (Forseti hringir.) a.m.k. leyst. Sú tillaga var felld sem gerir það að verkum að við getum ekki stutt málið. Málið fer þá hér í gegnum þingið, sýnist mér, án atkvæða okkar framsóknarmanna.