138. löggjafarþing — 99. fundur
 24. mars 2010.
lækkun dráttarvaxta og sparnaður heimila og fyrirtækja.
fsp. BjörgvS, 415. mál. — Þskj. 732.

[15:16]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Bráðaaðgerðir fyrir skulduga Íslendinga voru á meðal þess mikilvægasta sem Alþingi og ríkisstjórnir hafa þurft að grípa til í kjölfar á hruni fjármálakerfis og gjaldmiðils og hafa þó nokkuð margar þeirra gengið fram. Ein af þeim er breyting á lögum um vexti og verðtryggingu frá 18. desember 2008 þess efnis að lækka leyfilegt álag á dráttarvexti. Því var ætlað að koma til móts við fjölskyldur og heimili í landinu í kjölfar fjármálakreppunnar sem reið svo harkalega yfir land okkar, en í áætluninni kom m.a. fram hvernig lækka megi kostnað sem skuldug heimili þurfa að glíma við, af því að nógu himinháir eru vextirnir, verðbæturnar ofan á verðtryggðu lánin, svo ekki sé talað um hrun á gengistryggðum lánum til hækkunar og tvöföldunar og þreföldunar.

Í frumvarpinu sem var lögfest í desember 2008, fyrir einu og hálfu ári liðlega, var í fyrsta lagi lögfest að dráttarvextir miðuðust framvegis við 7% álag ofan á algengustu skammtímalán Seðlabanka til lánastofnana, en í gildandi lögum var kveðið á um að gildandi algengustu vextir á skammtímalán væri 11% álag. Því var verið að lækka álagið með þeim lögum sem þá voru samþykkt, úr 11% í 7% eða um 4%. Í öðru lagi var heimild Seðlabankans til að ákveða annað vanefndaálag ofan á viðmiðunarvexti felld á brott.

Þetta voru meginbreytingarnar á þeim lögum sem ég nefndi áðan að álag miðaðist framvegis við 7% í stað 11% ofan á þegar um dráttarvexti væri að ræða. Og það skiptir að sjálfsögðu mjög miklu máli þegar skuldabálið brennur hvað heitast á þeim sem eiga fullt í fangi með að standa í skilum. Það sem skiptir mestu máli er að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur að gera fólki kleift að standa í skilum með öllum tiltækum ráðum og þar koma sérstaklega inn úrræði eins og að lækka dráttarvexti eða hugsanlega að afnema þá tímabundið.

Þess vegna spyr ég hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra til að varpa ljósi á málið: Hver er talinn heildarsparnaður fyrirtækja annars vegar og heimila og einstaklinga hins vegar af lækkun dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 159/2008, um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, en þá lækkuðu vextirnir úr 11% í 7%?

Þetta var gert í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Nú er komið frumvarp sem gengur enn þá lengra og munum við kannski tæpa á því á eftir, en það væri mjög forvitnilegt og gagnlegt að heyra hverju þessi lækkun hefur skilað og hverju frekari lækkun gæti hugsanlega skilað til viðbótar.



[15:19]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ágætu fyrirspurn um einn af mörgum mikilvægum þáttum í áætlunum ríkisstjórnarinnar og reyndar fyrrverandi ríkisstjórnar líka um hvernig bregðast á við vanda skuldugra heimila og fyrirtækja. Það reyndist tiltölulega auðvelt að meta þessa tölu en það verður þó að hafa ákveðinn fyrirvara við matið sem ég mun koma að síðar.

Seðlabanki Íslands aflar talna um vanskil í tengslum við gerð lausafjárskýrslna. Þær tölur varða vanskil sem hafa varað lengur en 30 daga. Samkvæmt janúarlokatölum þessa árs, þ.e. 2010, námu vanskil í bankakerfinu þá 673 milljörðum kr. Lækkun dráttarvaxta um 4 prósentustig veldur því að kostnaður vegna dráttarvaxta reiknast þannig um 27 milljörðum kr. lægri á ári eða um 2,2 milljörðum kr. lægri á mánuði. Vísbendingar eru um að hlutur fyrirtækja í þessum vanskilum sé um 90% og heimila þar af leiðandi um 10% og er því ávinningur heimila annars vegar og fyrirtækja hins vegar væntanlega einnig í þessum hlutföllum.

Þetta eru þær tölur sem hægt er að áætla út frá vanskilatölunum og vitaskuld þeirri prósentutölu sem miðað er við. En rétt er að hafa í huga að þegar skuldir eru komnar í mikil vanskil leikur auðvitað vafi á því að þær verði nokkurn tímann greiddar að fullu, hvort heldur er höfuðstóll eða vextir, þannig að ógjörningur er að vita hversu mikið af þeim vöxtum sem ekki verða lagðir á vegna þessarar þörfu breytingar hefðu á endanum verið greiddir. Um það er nær ógjörningur að spá.

Því til viðbótar vil ég vekja athygli á því að þegar ríkisstjórnin kynnti í síðustu viku frekari aðgerðir til að bæta hag skuldsettra heimila var kynnt fyrirætlan um að lækka þetta álag á þá dráttarvexti sem leggjast á skuldir heimila enn frekar, úr 7% í 5%. Það mundi þýða enn frekari hagsauka fyrir heimili sem nemur svona u.þ.b. helmingi þess hagsauka sem gera má ráð fyrir að þau hafi notið vegna lækkunarinnar sem hér er sérstaklega gerð að umtalsefni.



[15:22]
Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Ég hef ásamt öðrum hv. þingmönnum úr öllum flokkum sem eiga sæti á þingi, lagt fram frumvarp sem kveður á um það, nái það fram að ganga og verða að lögum, að í ákveðinn tíma, þ.e. fram á mitt næsta ár, verði óheimilt að beita þessu vaxtaúrræði, þ.e. dráttarvöxtum, á skuldir einstaklinga. Ég tel að það sé alveg augljóst í kjölfar þess þegar öll lán hækkuðu gríðarlega, bæði vegna verðbólgu og vegna gengisbreytinga, og að í ljósi þeirra aðstæðna sem eru uppi í íslensku samfélagi sé bæði óréttlátt og óskynsamlegt að beita dráttarvaxtatækinu eins og hefur verið gert. Ég er vitanlega þeirrar skoðunar að rétt sé að það fyrirbæri sé til, þ.e. dráttarvextir, en við þessar aðstæður þar sem liggur fyrir að íslensk heimili voru þau skuldugustu í veröldinni fyrir hrun, er ekki skynsamlegt að beita því um of. Ég tel að það sé (Forseti hringir.) jafnframt skynsamlegt líka að gera það með þeim hætti sem ég hef lagt til, að afnema þá í ákveðinn tíma, enda er það svo að vextir á Íslandi eru mjög háir og fjármagnseigendur fá fyrir sinn snúð mjög háa vexti nú þegar, (Forseti hringir.) miklu hærri en þeir ættu í raun og veru að fá.



[15:23]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni að það væri skynsamlegt að fresta dráttarvaxtatöku um einhvern tíma, en ég vil jafnframt koma inn í þessa umræðu og geta þess að uppspretta lánveitinga er jú sparnaður. Sparnaður býr við þau kjör núna að verðbólga er 8,6% en fólk er að fá frá 2% og upp í 4 eða 5% og þegar best lætur 6,5% í bönkunum í vexti óverðtryggt, er sem sagt að tapa og verður að sætta sig við sívaxandi skattlagningu ríkisins á þetta tap sitt eða að reyna að binda fé sitt í lengri tíma á verðtryggðum reikningum sem ekki allir geta.

Ég vil bara benda á að enginn virðist gæta hagsmuna þessarar uppsprettu fjármuna sem er jú ætlað að standa undir öllum þessum lánum. Við fáum ekki lán erlendis heldur. Ég held að menn þurfi að fara að skoða hagsmuni þeirra sem neita sér um neyslu og leggja fyrir.



[15:24]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir mjög greinargóð og skýr svör og eins hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í umræðunni. Ég tek undir hvert einasta orð sem hv. þm. Illugi Gunnarsson sagði áðan, enda er ég meðflutningsmaður á frumvarpinu um að afnema tímabundið dráttarvexti á skuldir einstaklinga. Það mundi kosta fjármálafyrirtækin 2,3 milljarða að afnema þá tímabundið út frá þessum tölum hérna og dreifist sá kostnaður að sjálfsögðu á fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóði, Íbúðalánasjóð og alla þá sem hafa verið að lána fé og er meira en viðráðanlegt fyrir þá. Við erum að tala um þröngan hóp þeirra fjölskyldna sem eru skuldugastar í landinu, skuldugasta fólkið sem lenti í því að kaupa húsnæði, var að byggja húsnæði, situr uppi með tvær eignir, hálfbyggðar eignir o.s.frv. einmitt þegar fjármálahamfarirnar skullu yfir. Það eru því öll málefnaleg rök fyrir því að afnema tímabundið alveg dráttarvexti á skuldir einstaklinga.

Ég er mjög ánægður að heyra það að sú bráðaaðgerð sem þáverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks greip til um að lækka álagið strax í desember 2008 hafi skilað 27 milljörðum kr. lægri dráttarvaxtakostnaði á ári til bæði fyrirtækja og einstaklinga. Því tel ég að það sé mjög málefnalegt út frá þessum tölum og þessum rökum og þeirri stöðu sem þessi hópur, afmarkaði hópur þeirra sem skuldugastir eru og eru með hluta skulda sinna í vanskilum, að afnema tímabundið dráttarvextina á þá alveg. Hér er um að ræða, eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan, talsverðan hagsauka fyrir þau heimili sem eru í mestu erfiðleikunum, heimilum sem sum hver búa við fjármálalegt neyðarástand. Okkur ber að gera allt sem hægt er að gera til að létta þeim róðurinn. Þetta er eitt af því sem hægt er að gera án þess að það komi of harkalega niður á einhverjum einum aðila eða ríkinu.



[15:27]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið ágæt umræða og ber að þakka það. Við munum að sjálfsögðu fá tækifæri til þess í þinginu að ræða þessi mál síðar þegar það frumvarp sem hv. þm. Illugi Gunnarsson og fleiri hafa lagt fram um dráttarvexti kemur til umfjöllunar. Ekki gefst tími til að ræða það hér í þaula en ég vil þó segja þetta: Ég er í grundvallaratriðum sammála þeirri hugsun sem þar er sett fram um að við fortakslausar aðstæður eins og við búum nú við sé óeðlilegt að í dráttarvöxtum felist einhvers konar refsiþáttur sem kemur illa við fólk sem lendir ekki í vanskilum vegna þess að það vill ekki greiða heldur vegna þess að það getur ekki greitt. Ég er alveg hjartanlega sammála þessari hugsun, en ég hef ákveðnar efasemdir um þá útfærslu sem lögð er til í frumvarpinu og það er alveg sjálfsagt að fara yfir hana þegar málið kemur til afgreiðslu í þinginu. Ég óttast að sú útfærsla sem lögð er til í þessu tiltekna frumvarpi gæti beinlínis búið til hvata til þess að neita að greiða ákveðna reikninga og fá þess í stað mjög lága vexti á þær skuldir og nota það fé sam þannig sparast til að greiða niður skuldir sem eru á hærri vöxtum, t.d. yfirdrátt í bönkum. Ég held að það geti ekki verið eðlilegt fyrirkomulag. Það verður að vera eitthvert samhengi á milli þeirra vaxta sem eru á lánum í vanskilum og þeirra vaxta sem mönnum bjóðast á öðrum útlánum, t.d. yfirdrætti í bönkum. En yfir allt þetta munum við væntanlega fara þegar títtnefnt frumvarp kemur til umræðu í þinginu.