138. löggjafarþing — 103. fundur
 12. apríl 2010.
skil á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, ein umræða.

[15:03]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis skuli hafa verið birt. Fyrir réttum 16 mánuðum var nefndinni falið að leita sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Skýrslan og sú yfirsýn sem hún miðlar mun hjálpa okkur sem þjóð til að vinna úr því áfalli sem hrun ofvaxinna banka hafði í för með sér. Það samhengi atburða, ákvarðana og þróunar sem hún birtir mun veita okkur fótfestu til að standa þannig að endurreisninni að slík glórulaus áhætta með þjóðarbúið að veði verði ekki tekin aftur.

Birting skýrslunnar boðar kaflaskil. Hún er þungur áfellisdómur yfir stjórnkerfi, stjórnmálum, eftirlitsaðilum og fjármálastofnunum en um leið áskorun um heiðarlegt uppgjör, breyttar leikreglur í stjórnmálum og nýja og skýrari starfshætti í stjórnkerfinu. Ég vil nota tækifærið og þakka sérstaklega rannsóknarnefndinni og þeim hópi fólks sem lagði nótt við dag til að ljúka þessu mikla verki. Ég tel að hér sé um að ræða fyrstu ítarlegu rannsóknarskýrsluna sem birt hefur verið um fjármála- og bankakreppuna sem valdið hefur miklum búsifjum í okkar heimshluta. Skýrsluhöfundar hafa fengið víðtækar heimildir til rannsókna og einstæða yfirsýn yfir bæði stjórnkerfið og fjármálaheiminn. Skýrslan er til sannindamerkis um að Ísland tekur á vandamálum sínum en lætur ekki reka á reiðanum. Ég er sannfærð um að bæði Alþingi og ríkisstjórn vilji af einlægni stuðla að nauðsynlegu uppgjöri og draga lærdóm af því sem úrskeiðis fór. Það eru mikilvæg skilaboð bæði inn á við og út á við. Nú er það Alþingis og stjórnvalda að gaumgæfa efni skýrslunnar hvað sig varðar og átta sig vel á meginatriðum hennar, kjarnaatriðunum í gagnrýninni sem fram kemur. Því sem varðar fjármálastofnanir og misgerðir einstaklinga sem þeim tengjast verður væntanlega vísað áfram til sérstaks saksóknara.

Þjóðin hefur beðið þessarar skýrslu og við eigum það öll sameiginlegt að vilja fá svör við þeirri spurningu hvernig þetta gat gerst. Fólk er fullt réttmætrar reiði enda hafa flestir orðið fyrir áföllum og tjóni. Heiðarlegt og sanngjarnt uppgjör er okkar sameiginlegi vilji. Rannsóknarskýrslan verður okkur vonandi það verkfæri sem við þurfum svo mjög á að halda til að geta beint orku samfélagsins af meiri krafti að endurmati, uppbyggingu og úrbótum. Til að fyrirbyggja að sagan endurtaki sig verðum við að axla þá ábyrgð og sýna þann kjark að horfast í augu við veruleikann og grafast fyrir um rætur hrunsins. Hér var gerð dýrkeypt samfélagstilraun þar sem græðgin var gerð að einu meginhreyfiafli þjóðfélagsins. Ljóst er af skýrslunni að pólitísk afskipti af einkavæðingu bankanna voru óheillaspor og að eigendur bankanna hugsuðu meira um eigin hag og sín krosseignatengsl en hagsmuni hluthafa, viðskiptavina og lánardrottna, sérstaklega eftir að blása fór á móti.

Íslendingar bjuggu um árabil við svokallað góðæri sem reyndist þegar að var gáð vera meira í ætt við óráðsíu í fjármálum. Neyslan var drifin áfram með skuldasöfnun fyrirtækja, einstaklinga, heimila og þjóðarbús á sama tíma og misskipting gæða í þjóðfélaginu óx hraðfara. Rannsóknarskýrslan lýsir því að stjórnkerfi okkar og eftirlitsstofnanir réðu ekki við það hlutverk sitt að verja almenning gegn hættunni af ofvöxnu fjármálakerfi. Afdrifarík mistök voru gerð þegar bankar landsins voru einkavæddir árið 2002 í hendur reynslulítilla en áhættusækinna aðila. Bankarnir fengu síðan óáreittir að vaxa stjórnkerfinu yfir höfuð á sama tíma og kynt var undir þenslu, eignabólu og frekara ójafnvægi með ítrekuðum mistökum við hagstjórn og stjórn peningamála. Með þessu var fótunum á endanum kippt undan fjármálastöðugleikanum og þar með atvinnulífinu og heimilunum í landinu. Kraftar markaðarins verða ekki nýttir samfélaginu til framfara nema þeim séu settar skorður. Reynslan af hruninu sýnir að þeir geta ekki verið á sjálfstýringu heldur þarf þjóðfélagið, lögin og eftirlitið með þeim að beina öflum markaðarins á uppbyggilegar brautir. Þau verða að vera undir faglegu, óháðu eftirliti sem stöðvar misbeitingu þeirra. Ekkert er samfélaginu óhollara en samþjöppun valda og hagsmuna sem spanna viðskipti, stjórnmál og stjórnsýslu. Hver þessara þátta hefur sínu hlutverki að gegna og þeir verða að starfa hver á sínum faglegu forsendum. Stjórnmálamenn sem hafa fyrst og fremst skyldum að gegna við almannahagsmuni mega aldrei leggja fjöregg þjóðarinnar í körfu sérhagsmuna og vænta þess að þar verði þeirra gætt án virks aðhalds og eftirlits.

Hrun bankakerfisins hefur kallað á grundvallarendurskoðun fjölmargra þátta í samfélagi okkar. Bankarnir brugðust, stjórnkerfið brást, stjórnmálin brugðust, eftirlitskerfið brást, fjölmiðlarnir brugðust, hugmyndakerfi hins frjálsa markaðar brást. Árum saman bjó þjóðin við óheilbrigt samkrull valda og hagsmuna í stjórnmálum, viðskiptum og stjórnsýslu og oft er ekki auðvelt að greina þar á milli. Ýmsir, þar á meðal sú sem hér stendur, vöruðu ítrekað við þessu meini og nú glímir þjóðin við afleiðingarnar. Af þessu verðum við að læra. Á okkur öllum hvílir nú sú skylda að búa svo um hnútana við endurreisnina að slíkt gerist ekki aftur. Á þessu sameiginlega skipbroti okkar hef ég áður sem forsætisráðherra beðið þjóðina afsökunar.

Frá því að ný ríkisstjórn tók við í febrúar 2009 hefur markvisst verið unnið að endurbótum á lagaumhverfi og vinnubrögðum í gangverki samfélagsins, hvort sem litið er til ráðuneyta, eftirlitsstofnana, fyrirtækja, fjármálastofnana, fjölmiðla, stjórnmálaflokka eða stjórnskipunarinnar í heild. Á vettvangi Stjórnarráðsins hefur því þegar verið tekið á ýmsu sem rannsóknarskýrslan finnur að. Í skýrslunni kemur fram að mikið hafi skort á að unnið hafi verið að viðbúnaðarmálum á skipulegan hátt. Kveðið er fast að orði og sagt að vinnubrögð yfirvalda að viðlagsundirbúningi á ögurstundu hafi verið ótæk og í engu samræmi við það hvernig þjóðir með þróaða fjármálamarkaði og stjórnsýslu skipuleggja almennt starfshætti sína. Þetta eru stór orð sem okkur ber skylda til að taka alvarlega, bregðast við og breyta vinnubrögðum.

Við höfum þegar stigið mörg mikilvæg skref. Við höfum unnið að uppgjöri vegna hruns bankanna, endurreisn fjármálastofnana og atvinnulífs, nýskipan ráðuneyta og gagngerri uppstokkun á skipulagi og vinnubrögðum í stjórnsýslunni. Ég hef þegar aukið á reglufestuna í forsætisráðuneytinu. Ég hef komið á formlegum ráðherranefndum að danskri fyrirmynd sem fjalla m.a. um efnahagsmál og ríkisfjármál á föstum fundum þar sem formleg gögn eru lögð fram og formlegar fundargerðir haldnar. Ég á von á tillögum nefndar sem mun m.a. fjalla sérstaklega um kosti þess að ríkisstjórnin hér á landi verði fjölskipað stjórnvald eða vinni sem slík. Jafnhliða hefur verið hafist handa við löngu tímabærar umbætur í lýðræðismálum og á vinnulagi í stjórnkerfinu. Stóraukinn kraftur var settur í uppgjörið. Framlag til rannsóknar sérstaks saksóknara var aukið, samið við Evu Joly, saksóknurum embættisins fjölgað um þrjá, tugir einstaklinga ráðnir til starfa og víðtækum rannsóknum á vegum fjármálaeftirlits, samkeppniseftirlits og skattyfirvalda hrundið af stað. Skipt hefur verið um stjórnendur eftirlitsstofnana, uppstokkun stofnana ríkisins hafin og fyrir Alþingi liggur tillaga um róttæka uppstokkun á löggjöf um fjármálamarkaði.

Rannsóknarskýrslan er 2.300 síður í níu bindum, auk fylgigagna sem birt eru á netinu. Hún mundi þykja ríflegt lesefni á heilli önn í háskóla. Það mun því taka tíma að melta efni hennar. Ég hef þegar haft forgöngu um skipun nefndar undir forustu dr. Gunnars Helga Kristinssonar sem mun á næstu vikum fara ofan í saumana á skýrslunni með það sérstaka verkefni í huga að skoða þörf fyrir frekari stjórnsýslu og umbætur en þegar eru ráðgerðar. Að fengnum tillögum hennar höfum við svigrúm á Alþingi til að ráðast tafarlaust í frekari breytingar strax á þessu vori eða í sumar.

Rannsóknarnefndin er hvorki dómstóll né stjórnsýslustofnun. Henni var falið með lögum að setja fram ábendingar um almennt andvaraleysi og vanrækslu eða mistök í starfi. Þessar ábendingar verður að taka alvarlega og Alþingi hefur nú það hlutverk að bregðast við þeim. Ég treysti því að það verði gert fumlaust og af öryggi. Í þessu sambandi finnst mér sérstaklega virðingarvert að Björgvin G. Sigurðsson hefur þegar brugðist við og tekið sína ákvörðun.

Ég tel mikilvægt í ljósi umfangs þessara mála að öllum hlutaðeigandi verði nú gefið andrými til að íhuga sína stöðu, skoða alla málavöxtu og taka ákvarðanir um framhaldið. Ég hvet til yfirvegunar og aðgátar í allri umfjöllun. Við höfum beðið í 16 mánuði eftir þessari skýrslu og nú skulum við síst af öllu hrapa að ákvörðunum. Á hitt vil ég benda að ríkisstjórnin hefur ekki hikað við að beita sér fyrir breytingu á lögum, skipta um forustu í stofnunum og bæta brotalamir í kerfinu ef það hefur verið talið óhjákvæmilegt til að ná fram umbótum og sanngjarnri leiðréttingu á því sem úrskeiðis hefur farið og ekki síður að endurreisa starfstraust í samfélaginu. Ég mun ekki skirrast við að beita mér fyrir því að tillögur rannsóknarnefndarinnar nái fram að ganga og mun fylgja ábendingum hennar eftir af festu.

Minn flokkur, Samfylkingin, átti aðild að ríkisstjórn þegar fjármálakerfið hrundi. Við höfðum gagnrýnt það um árabil hvernig að einkavæðingu bankanna var staðið og það ójafnvægi sem hagstjórn síðustu ára hafði valdið. Við trúðum hins vegar því almenna stöðumati sem fram kom hjá opinberum eftirlitsstofnunum og í hagspám að fjármálastöðugleika væri ekki ógnað og unnt væri að koma í veg fyrir brotlendingu í hagkerfinu eftir ofþenslu undangenginna ára. Samkvæmt rannsóknarskýrslunni hefði þurft að grípa til róttækra aðgerða þegar árið 2006 til að minnka fjármálakerfið, draga úr áhættu sem það skapaði þjóðarbúinu og forða falli bankanna. Þegar komið var fram á árin 2007 og 2008 var samkvæmt skýrslunni orðið um seinan að bjarga bönkunum en stjórnkerfið hefði getað dregið úr skaðanum með markvissari viðbúnaði, afdráttarlausum viðbrögðum við upplýsingum um bága stöðu fjármálakerfisins og samhæfðum aðgerðum. Sem stjórnmálaflokkur axlaði Samfylkingin ábyrgð með því að rjúfa óvirka ríkisstjórn og taka höndum saman við þá sem vilja svara kröfum um óvirka endurreisn. Síðan sóttum við umboð til kjósenda til að leiða endurreisnarstarfið á nýjum forsendum þar sem gert er upp við stefnu og mistök liðinna ára og byggt á grundvelli gilda sem löngum hafa verið kennd við norrænt velferðarsamfélag. Það er hvorki létt verk né líklegt til skyndivinsælda að taka til og byggja upp eftir hrunið en því þarf að sinna af festu og úthaldi og Íslendingar munu ná sér á strik að nýju fyrr en varir.

Við skulum nýta vel þau kaflaskil sem orðin eru með birtingu rannsóknarskýrslunnar. Við skulum bregðast við niðurstöðum hennar og ábendingum af auðmýkt. Við skulum ganga hreint til verks, knýja fram heiðarlegt uppgjör og gera það sem okkur ber að gera og það sem þarf að gera. Við skulum gera það heilt sem brotið er, hreinsa það sem sýkt er og nýta skýrsluna sem lækningatæki í samfélaginu. Við þurfum að halda áfram veginn og setja samfélaginu ný og raunsæ markmið. Látum vinnu rannsóknarnefndarinnar ekki verða unna fyrir gýg. Höldum okkur við aðalatriði og kjarna málsins og látum umræðu um skýrsluna leiða okkur til traustra og varanlegra umbóta.



[15:18]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis hefur nú verið lögð fram á Alþingi Íslendinga og leggur okkur þingmönnum ríkar skyldur á herðar. Það varðar miklu að íslenskir stjórnmálamenn rísi undir þeirri ábyrgð sem þjóðin gerir kröfu um, að umræður um niðurstöður skýrslunnar fari ekki fram í hinum hefðbundnu skotgröfum stjórnmálanna heldur að þingmenn séu reiðubúnir til að vinna saman með málefnalegum hætti að því mikilvæga verkefni sem fram undan er, að draga sameiginlegan lærdóm af efni skýrslunnar eftir því sem kostur er, nýta niðurstöðurnar á uppbyggilegan hátt með það að markmiði að endurreisa það samfélag sem við búum í og til þess að tryggja að slíkir atburðir endurtaki sig ekki.

Ég lýsi mig reiðubúinn fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins til að eiga slíkt samstarf við aðra flokka hér á þinginu, vinna að þeirri endurreisn sem nauðsynleg er og til þess að ráðast í þær úrbætur sem nauðsynlegar eru. Von mín er sú að fulltrúar annarra stjórnmálaflokka á Alþingi séu einnig reiðubúnir til þessa verks og til þess að axla þá ábyrgð. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka rannsóknarnefnd Alþingis fyrir sína miklu vinnu. Rannsókn af þessu tagi og umfangi er fordæmislaus í þingsögunni og ég hygg að jafnvel þótt við leituðum víðar en í þingsögu okkar Íslendinga séum við hér með á margan hátt fordæmislausa vinnu í höndunum.

Í greinargerð með frumvarpi til laganna var vikið að því að þrátt fyrir að ljóst væri að afleiðingar hrunsins væru mjög alvarlegar, bæði fyrir almenning og fyrirtæki, ættu þær eftir að koma nánar í ljós á næstu missirum. Í millitíðinni hefur ýmislegt skýrst og það er óhætt að segja að í engu var dregin upp of dökk mynd af áhrifum hrunsins þegar rannsóknin var ákveðin. Um það bera viðfangsefni þingsins undanfarið rúmt ár gott vitni, þau fjölmörgu erfiðu úrlausnarefni sem hafa ratað til okkar og verið til umfjöllunar.

Í greinargerð með frumvarpi til laganna var einnig nefnt hve mikilvægt það væri að greina að hve miklu leyti vandinn sem hér hefði skapast væri heimatilbúinn. Þessa var sérstaklega getið í greinargerð með frumvarpinu. Á þessum tímapunkti er að sjálfsögðu ómögulegt að úttala sig um efni skýrslunnar, til þess er umfangið of mikið, en öllum má vera ljóst eftir kynningu nefndarinnar á meginniðurstöðum skýrslunnar að orsakanna fyrir hruni bankanna er fyrst og fremst að leita á Íslandi. Skýringarnar liggja í allt of örum vexti bankanna sem byggði m.a. á gegndarlausri áhættusækni stjórnenda þeirra og að öðru leyti, að því er virðist, að stórum hluta til einfaldlega á sandi. Þessi öri vöxtur leiddi til þess að stærð bankanna var óviðráðanleg fyrir stjórnkerfið þegar hinar erfiðu aðstæður sköpuðust á haustmánuðum árið 2008.

Af þessu virðist mega slá því föstu að framtíð bankanna hafi fyrir löngu verið skrifuð í skýin. Jafnvel þótt hin alþjóðlega fjármálakrísa hefði ekki komið til var ljóst að bankarnir mundu rata í ógöngur. Af kynningu á efni skýrslunnar má jafnvel ráða að þetta hafi ekki eingöngu verið ljóst snemma á árinu 2008 heldur jafnvel löngu fyrr.

Mér, líkt og öllum þeim landsmönnum sem hlýddu á niðurstöður rannsóknarnefndarinnar á blaðamannafundi hennar í morgun, misbauð sú lýsing sem þar var borin á borð um framferði og framgöngu eigenda og stjórnenda stóru viðskiptabankanna. Það verður ekki fram hjá því litið að í skýrslunni koma fram sterkar vísbendingar um að eigendur þeirra hafi misnotað aðstöðu sína gróflega í eigin þágu og að sú framganga hafi fyrst og fremst leitt til þess að íslenska bankakerfið hrundi á endanum til grunna með öllum þeim alvarlegu afleiðingum fyrir íslenska efnahagslífið sem við höfum síðan fengið að kynnast.

Ég hef áður sagt að frelsi og ábyrgð eru tvær hliðar á sama peningnum og hvorugt getur staðist án hins. Svo virðist sem stjórnendur bankanna hafi umgengist það frelsi sem þeim var treyst fyrir án ábyrgðar og í raun á ábyrgð annarra, á ábyrgð íslensks almennings. Slíka framgöngu þarf að uppræta og hún verður að heyra sögunni til. Íslenska þjóðin gerir kröfu um að þeir aðilar sem í aðdraganda bankahrunsins fóru á svig við lög og reglur verði látnir sæta ábyrgð fyrir dómstólum og ég verð að segja að það eru mér ákveðin vonbrigði að framgangan í réttarvörslukerfinu sé ekki hraðari en raun ber vitni. Við á þinginu höfum gert það sem í okkar valdi stendur til þess bæði að koma á fót sérstökum rannsóknarembættum og að tryggja þeim fjármuni, en vonbrigði mín byggja á því að við erum ekki enn farin að sjá ákærur og lok einstakra rannsóknarmála þrátt fyrir að rúmlega eitt og hálft ár sé nú liðið frá hruni bankakerfisins. Ég veit að við þurfum að hafa raunhæfar væntingar í þessu efni en mér finnst þessi krafa ekki ósanngjörn.

Virðulegi forseti. Niðurstöður rannsóknarnefndarinnar benda því miður til þess að stjórnkerfi landsins hafi verið vanbúið til þess að veita bönkunum nauðsynlegt taumhald og eftirlit. Það leikur enginn vafi á því að á þinginu verða skiptar skoðanir á einstökum niðurstöðum nefndarinnar um framgöngu stjórnmála- og embættismanna, verk þeirra og gjörðir. Öllum má þó ljóst vera að nauðsynlegt er að endurskoða ýmis vinnubrögð í stjórnkerfinu, skýra ábyrgðarsvið og auka reglufestu. Alþingis Íslendinga bíður því gríðarlega mikið og ábyrgðarfullt verkefni sem felst í því að styrkja lagaumgjörð fjármálakerfisins og innviði stjórnsýslunnar og eftirlitsstofnana.

Virðulegi forseti. Næstu vikur og mánuði bíður okkar að fara nánar yfir niðurstöður rannsóknarnefndarinnar og gera tillögur um nauðsynleg viðbrögð. Í því tilliti skiptir miklu að góð sátt hefur tekist um að fela sérstakri þingnefnd það verkefni en í henni eiga sæti fulltrúar allra þingflokka. Í þeirri vinnu verður ekki undan því vikist að ræða um stöðu og hlutverk Alþingis. Það er hlutverk Alþingis að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Það er jafnframt hlutverk Alþingis að setja lög og reglur, Alþingi er löggjafarvaldið. Þegar við sjáum það gerast eins og kynnt var á fundi rannsóknarnefndarinnar í morgun að einstök fyrirtækjasamsteypa er með áhættu sem nemur u.þ.b. hálfu eigin fé alls bankakerfisins hefur eitthvað farið úrskeiðis. Það kann að vera að eftirlitinu hafi verið ábótavant, en það kann líka að vera að lögunum hafi verið ábótavant. En það er Alþingi sem ber ábyrgð á hvoru tveggja, á því að setja lögin, veita framkvæmdarvaldinu nægjanlegt aðhald og hafa með því fullnægjandi eftirlit. Hafi framkvæmdarvaldið brugðist og lagareglum verið ábótavant hlýtur það að verða okkur sem hér sitjum ríkt tilefni til að styrkja þingið í eftirlitshlutverki sínu og leggja grunn að vandaðri löggjafarstarfsemi til framtíðar.

Virðulegi forseti. Ég fagna því að skýrsla rannsóknarnefndar er komin fram. Ég tek undir með forsætisráðherra um að skýrslan er til vitnis um að við látum ekki reka á reiðanum á Íslandi. Við tökum á málunum og setjum þau í traustan farveg. Við ætlum okkur á þinginu að draga lærdóm af því sem gerst hefur og byggja hér upp á nýjum forsendum betra samfélag, hefja sókn til vaxandi lífskjara fyrir íslenskan almenning. Ég óska eftir góðu samstarfi allra flokka þannig að umfjöllun um skýrsluna verði með þeim hætti sem íslenska þjóðin gerir kröfu til, að við drögum lærdóm af reynslunni til að fyrirbyggja að sagan endurtaki sig.



[15:28]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingheimur, góðir tilheyrendur. Framan af árinu 1627 bjuggu, að talið er, um 500 manns í Vestmannaeyjum. Í Tyrkjaráninu illræmda drápu ræningjarnir með köldu blóði a.m.k. 36 manns og hnepptu í fjötra og fluttu nauðuga á brott rúmlega 240. Vel innan við helmingur íbúanna, sennilega um 200 manns, komst undan, gat leynst í Heimaey, var staddur í úteyjum eða uppi á landi. Þessi hrikalegi atburður lifir enn í minningu og sem hluti af sögu Vestmannaeyja og Íslands, en eyjarskeggjar gáfust ekki upp. Þó að ránið hafi markað sögu Eyjanna, ekki bara árum og áratugum heldur öldum saman, hélt lífið áfram og með vélvæðingu bátaflotans í Eyjum frá og með 1906 byrjaði nýtt ævintýri sem endaði í blómlegri 5.000 manna byggð þegar náttúran sjálf tók svo næst í taumana með eldgosi 1973 eins og sagan væri þá þegar ekki orðin nógu dramatísk. Eyjamenn urðu að yfirgefa heimabyggðina að nóttu, en þeir sneru flestir aftur, þeir gáfust ekki upp. Þeir hófu hreinsunar- og endurreisnarstarfið og á ný stendur blómleg byggð í Eyjum.

Látum stórbrotna sögu Vestmannaeyja verða okkur nú að lærdómi, hvatningu og fyrirmynd, góðir landsmenn. Ránið sem við erum að fjalla um í dag er annars eðlis. Ræningjarnir eru ekki frá fjarlægu barbaríi heldur úr okkar eigin röðum. Rán var það og rán skal það heita þegar okkar góða og farsæla, norræna velferðarsamfélagi var rænt í nafni innfluttrar, háskalegrar og mannfjandsamlegrar hugmyndafræði um einkagróðann sem drifhvöt allra hluta, þegar einkavæðing varð að vinsælla tískuorði en flest annað, þegar græðgin var gerð að dyggð og þegar oflátungshátturinn, snobbið, hrokinn og heimskan fengu nær öll völd í íslensku samfélagi.

Það er erfitt að tímasetja nákvæmlega hvenær þessi viðhorfsbreyting varð. Var það 1991, 1995? Sannarlega upp úr aldamótunum síðustu fara hlutirnir að fara verulega úrskeiðis. Eitt er ljóst og það er að einkavæðing bankanna og oftrú íslenskra stjórnmálamanna á skilvirkni og skynsemi hins frjálsa markaðar eru þar miðlæg. Það er sú hugmyndafræði sem hefur reynst okkur skelfilega dýr. Í nafni afskiptaleysis horfðu menn á skuldirnar hrannast upp og bankakerfið vaxa þjóðarbúinu algjörlega yfir höfuð.

Hreinar erlendar skuldir íslenska þjóðarbúsins fóru í fyrsta sinn í sögunni yfir 100% af vergri landsframleiðslu um eða upp úr aldamótunum. Ég ritaði þá grein í Morgunblaðið og vakti athygli á þeirri alvarlegu staðreynd. Einn maður hafði samband við mig og deildi með mér áhyggjum af því máli. Nokkrum árum síðar voru þessar tölur komnar í 450% af vergri landsframleiðslu. Skuldir heimila og fyrirtækja ruku upp og, það sem verra var, það komst í tísku að veita einstaklingum og fyrirtækjum með allar sínar tekjur í innlendri mynt lán í erlendum gjaldeyri. Hinn frjálsi markaður keyrði þjóðarbúið á kaf í skuldum og í nafni hugmyndafræðinnar mátti ekki og átti ekki að skipta sér af þeirri þróun. Frelsið fólst af hálfu stjórnvalda í eftirlits- og afskiptaleysi, hinir frjálsu litu svo á að frelsinu fylgdi engin samfélagsleg ábyrgð.

Meðan á þessari þróun stóð, frá og með aldamótunum, og tilheyrandi ójafnvægi geisaði í íslensku hagkerfi jók efnahagsstjórn ríkisstjórna á vandann með því að dæla stóriðjufjárfestingum inn í hagkerfið, með því að lækka skatta í þenslu og verðbólgu um tugi og aftur tugi milljarða, með því að hækka íbúðalán í 90% og hækka hámarksfjárhæðir. Þetta eru án nokkurs vafa mestu efnahagsafglöp síðari tíma á Íslandi — í boði Sjálfstæðisflokksins og ekki síður Framsóknarflokksins og undir lokin í boði Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.

Eða muna menn ekki eftir hnyttnum auglýsingum Framsóknarflokksins í aðdraganda alþingiskosninganna 2003 um 90% húsnæðislán mitt í þenslunni? Á sama tíma þakkaði flokkurinn sér dugnað í stóriðjumálum. „Árangur áfram – ekkert stopp“ var slagorðið. Og það er einmitt það, ekkert stopp. (Gripið fram í: Það er stopp núna.) Það kom fram í október 2008 og enginn hafði staldrað við og spurt sig á hvaða vegferð við værum. Þeim sem gagnrýndu vegferðina var ýtt til hliðar með háðsglósum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð gerði hvað hún gat með tillöguflutningi, ræðuhöldum, greinaskrifum og bókaskrifum til að vekja athygli manna á því sem var að gerast. En við vorum afgreidd þannig að við værum á móti og vildum helst að þjóðin dundaði sér við það eitt að tína fjallagrös.

Hér í þingsalnum eru enn menn sem tóku þátt í þeim málflutningi. Þeir vilja kannski rifja upp með okkur núna hvernig þarna var staðið að málum. Við fluttum tillögu á útmánuðum 2005 þar sem við lögðum það til að dregið yrði úr eða stöðvaðar þensluhvetjandi stóriðjuframkvæmdir, að Fjármálaeftirlitinu yrði gert að fara í raunverulega áhættugreiningu í bankakerfinu, að Seðlabankanum yrði falið að beita bindiskyldu og öðrum stýritækjum til að hemja ofvöxt bankakerfisins, að hætt yrði við frekari skattalækkanir í þenslunni.

Í greinargerð með þeirri tillögu, sem er vel að merkja sett saman á miðju ári 2005, stendur í framhaldi af umfjöllun um það hvort hægt sé að ná mjúkri lendingu í hagkerfinu:

„Hættan er hins vegar augljóslega sú að miklu verr fari, t.d. ef ytri skilyrði versna snögglega og/eða ríkisstjórnin sér ekki að sér. Harkalegt samdráttarskeið, verðbólguskot samfara snöggri og mikilli gengislækkun krónunnar, rýrnun kaupmáttar og greiðsluerfiðleikar heimila og fyrirtækja með tilheyrandi erfiðleikum í fjármálakerfinu gæti orðið útkoman, sem sagt brotlending en ekki mjúk.“

Það varð svo sannarlega það sem því miður gerðist að lokum, brotlending, hrun, og það var varað við því og bent á það svo snemma sem á árinu 2005. Enda segir rannsóknarnefndin hér að síðustu forvöð til að grípa í taumana ef ekki hefði átt illa að fara voru á árinu 2006. Þar í liggur að mínu mati mesta ábyrgðin, mesta vanrækslusyndin, mestu afglöpin að frátöldu því að bera sjálfa stefnuna fram, að aðhafast ekkert, gera ekkert og nota ekki tímann sem menn höfðu til að taka í taumana. Það er sárgrætilegt að standa frammi fyrir því núna að svona fóru menn að ráði sínu.

Þessi rannsóknarskýrsla dregur upp hrollvekjandi mynd af sambúð tiltekinna stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka og fjármagnseigenda, af sambúð og samskiptum bankanna og eigenda þeirra, af andvaraleysi og aðgerðaleysi og loks úrræðaleysi og lömun íslenska stjórnkerfisins þegar að hruninu kom. Yfir þetta þurfum við nú allt að fara. Heiðarlegt og einart uppgjör við það sem leiddi til hrunsins haustið 2008 er mikilvægt og óumflýjanlegt sem hluti af því að komast í gegnum og sigrast á erfiðleikum okkar. Það er óendanlega dapurlegt að lesa, og þó á hlaupum sé enn sem komið er, áfellisdóminn sem skýrslan birtir okkur. Hitt skiptir samt öllu máli, hvernig okkur gengur að vinna okkur í gegnum og út úr þessum erfiðleikum. Það er okkur þrátt fyrir allt að takast þó að ýmislegt sé enn mótdrægt. Við gerum hvað við getum í þeim efnum og vinnum að því dag og nótt, þau okkar sem hafa fengið það öfundsverða hlutskipti eða hitt þó heldur að taka við þrotabúi nýfrjálshyggjunnar og reyna að greiða úr þeim málum.

Það eru sem betur fer ýmis jákvæð teikn á lofti, 24% fjölgun farþega hjá stærsta flugfélagi landsins frá áramótum, 5% fleiri erlendir ferðamenn frá áramótum, innlend framleiðsla, útflutnings- og samkeppnisgreinar, afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd, með öðrum orðum raunhagkerfið íslenska spjarar sig að stórum hluta aðdáunarlega vel þegar gervihagkerfið er fallið, þegar froðan er fokin burt.

Nú verðum við hvert og eitt og öll saman að axla ábyrgð, ekki bara einstakir stjórnmálamenn heldur stjórnmálaflokkar og talsmenn hugmyndafræði, stjórnsýslan öll vissulega en líka fjölmiðlar, líka háskólasamfélagið. Hvað með heildarsamtök, hvað með Verslunarráð sem hældi sér af því að 90% af frjálshyggjuhugmyndum þess hefðu náð fram að ganga og lagði til að við hættum að kenna okkur við hin Norðurlöndin enda stæðum við þeim svo miklu framar? Forseti lýðveldisins var ferðafélagi útrásarvíkinganna, bæði efnislega og andlega. Okkar elskaða handboltalandslið missti heiðurstitilinn, drengirnir okkar, um sinn til útrásarvíkinganna. Svona var þetta, svona er þetta. Við verðum að horfast heiðarlega í augu við okkur sjálf. Annars komumst við aldrei yfir þennan kafla og frá honum í okkar sögu, það er ósköp einfalt mál. Verum stór, verum ekki lítil, viðurkennum mistökin. Þau eru okkar, alveg eins og afrekin sem við státum af á tyllidögum.

Íslensk þjóð hefur sem betur fer svo óendanlega mikið til að vera stolt af. Það gerir okkur ekkert nema gott, og er hollt að játa mistök á þessu skeiði í sögu okkar. Við getum eftir sem áður státað af ævintýralegu uppbyggingarskeiði nær samfellt alla 20. öldina sem reisti Ísland úr öskustó fátæktar og niðurlægingar á síðmiðöldum og til þess að komast í fremstu röð við lok aldarinnar sem leið. Foreldrar okkar, afar okkar og ömmur voru hetjur sem unnu ótrúlegt þrekvirki á æviskeiði sínu. Ísland er fullt af hvunndagshetjum. Þið sem glímið við erfiðleika dagsins, eruð án atvinnu eða verðið að leita tímabundið til hjálparstofnana, þið eruð hetjur. Biðraðirnar hjá mæðrastyrksnefnd eru þeim til skammar sem fóru svona með okkur en ekki ykkur sem þar standið. Berum höfuðið hátt. Íslendingar geta það þótt á bátinn hafi gefið. Við gefumst ekki upp þótt á móti blási. Við sigrumst á þessum erfiðleikum eins og öllum öðrum í okkar sögu.

Ég þakka rannsóknarnefndinni og ekki síður siðfræðihópnum fyrir vel unnin störf. Nú hefst annar kafli og hann er ekki síður mikilvægur, að vinna úr þessum miklu gögnum og gera allt það sem gera þarf og gera verður til að uppgjörið verði heiðarlegt, málefnalegt, yfirvegað — en þó eins vægðarlaust og sársaukafullt og það því miður sýnist þurfa að verða til að standa undir nafni.



[15:40]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Birting skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er fagnaðarefni af ýmsum ástæðum. Eflaust er hún ekki hafin yfir gagnrýni frekar en önnur mannanna verk en við eigum ekki að einblína á það núna heldur nýta þetta tækifæri til að læra af reynslunni. Ég held að flestir flokkar, líklega allir, séu sammála um það. Hins vegar varð ég fyrir dálitlum vonbrigðum með ræður formanna stjórnarflokkanna hérna áðan, annars vegar undarlega söguskýringu forsætisráðherra og hins vegar ræðu hæstv. fjármálaráðherra sem bar merki þess að þar færi maður sem talaði fyrir flokk sem virðist ætla að byggja pólitíska framtíð sína, ekki á því hver hann er eða hvað hann ætlar að gera, heldur hver hann er ekki og hvað hann hefur ekki gert.

Við þurfum að nota tækifærið núna til þess að fara að horfa til framtíðar en vissulega er alveg rétt að ef menn ætla að horfa til framtíðar og ná árangri til framtíðar þarf að læra af reynslunni. Mikil mistök hafa verið gerð á Íslandi, en það vissum við reyndar fyrir. Við vissum kannski ekki alveg hversu umfangsmikil mistökin hefðu verið en við eigum ekki að láta eins og þetta komi okkur allt saman á óvart. Við verðum þvert á móti að viðurkenna það að margt af þessu var vitað fyrir fram. Stórkostleg óábyrg útþensla bankanna og krosseignatengslin, um þetta var skrifað aftur og aftur og varað við þessu aftur og aftur. Þess vegna verðum við að spyrja okkur: Hvers vegna var ekki brugðist við viðvörununum?

Allir flokkar verða að líta í eigin barm, líka þeir flokkar sem aðhöfðust ekki neitt og ætla núna að byggja fyrst og fremst á því. Framsóknarflokkurinn mun svo sannarlega fara yfir sinn hlut í þessu máli. Ég hef reyndar þegar heyrt í nokkrum framsóknarmönnum sem tala á þeim nótum að þeim sé létt yfir niðurstöðunni, en okkur á ekkert sérstaklega að vera létt. Það á engum að vera létt. Við eigum að skoða þetta allt saman í þaula og halda áfram því uppgjöri sem Framsóknarflokkurinn er kominn lengst allra flokka með. Enginn flokkur í sögu íslenskra stjórnmála hefur farið í eins afdrifaríka og afgerandi endurnýjun og það er mikilvægt að hafa í huga að sú endurnýjun snerist ekki bara um að skipta út mönnum, hún snerist um að skoða stefnuna og viðurkenna það að menn hefðu farið út af sporinu, viðurkenna að menn hefðu sveigt of langt til hægri og viðurkenna að menn þyrftu aftur að ná inn á hinn gullna meðalveg. Einungis þannig komumst við áfram, út úr vandræðunum. Einungis þannig getum við byggt upp til framtíðar.

Þetta þurfa íslenskir stjórnmálaflokkar allir að hafa í huga og hugleiða það hvernig hin ýmsu mistök íslenskra fyrirtækja geta líka átt við í stjórnmálunum, hvernig það er ekki hægt að byggja til framtíðar á loftbólum, hvernig menn þurfa að huga að rökum, raunverulegum staðreyndum, plúsum og mínusum, í stað þess að reyna að kaupa ímynd, reyna að endurfjármagna eins lengi og hægt er í þeirri von að hlutirnir reddist einhvern veginn ef ímyndin bara skánar. Menn þurfa að líta til staðreynda. Ef við gerum það í auknum mæli og beitum fyrir okkur almennri skynsemi eru svo sannarlega mikil tækifæri á Íslandi.

Hvað fór úrskeiðis? Eitt af því sem fór úrskeiðis og er nefnt í skýrslunni var það að á þenslutíma brást ríkið ekki við með því að draga úr þenslunni. Þetta er grundvallaratriði í miðju skynsemishagfræði sem hefur verið þekkt um áratugaskeið. Þessu gleymdu menn. Það þýðir hins vegar ekki að menn eigi að bregðast við því með því að sveiflast yfir í hinar öfgarnar. Og núna er kreppa. Og hvernig á að bregðast við því samkvæmt þessum sömu kenningum og raunar má segja staðreyndum? Það á ekki að bregðast við því með því að hækka skatta út í hið óendanlega, með því að draga saman seglin. Nei, nú þurfum við að sýna að við höfum lært af reynslunni og getum horft líka á hina hliðina. Nú þurfum við að hefja sókn. Þessi skýrsla er tækifærið til þess að þjóðin geti sameinast um það að hefja sóknina og horfa til framtíðar.

Við þurfum líka að leita í auknum mæli til sérfræðinga, þeirra sem þekkja til á hverju sviði. Við sjáum að það hefur allt of oft gleymst í íslenskum stjórnmálum og því miður finnst mér menn enn þá vera fastir í því að fela fyrst og fremst traustum flokksmönnum erfið hlutverk, frekar en að þora að leita til þeirra sem munu segja þeim sannleikann.

Það eru ýmsar hættur fram undan, enda þó að við ætlum að sameinast um að læra af reynslunni og bæta að einhverju leyti eins og hægt er fyrir mistökin. Hætturnar eru kannski ekki hvað síst hugsanlegar innbyrðis deilur því að ef þjóðin festist í endalausum innbyrðis átökum til framtíðar verður skaðinn af því líklega miklu meiri en af efnahagshruninu sjálfu. Þess vegna verðum við að nota þetta tækifæri sem nú gefst til að hefja sókn saman.

Það er líka ákveðin hætta á því að við sveiflumst úr einum öfgunum yfir í aðrar eða að við verðum hnípin, förum að skammast okkar svo fyrir að vera Íslendingar að úr okkur fari allur kraftur. Þetta er raunveruleg hætta og því miður hafa jafnvel ráðherrar í ríkisstjórninni talað þannig, m.a. á blaðamannafundum erlendis, að Íslendingar sem þjóð beri ábyrgð á því hvernig fór, að þetta sé einhvers konar þjóðarskömm. Reyndar er ýmislegt sem íslenska þjóðin getur lært af því sem hér hefur átt sér stað á undanförnum árum. Það verður hver að horfa í eigin barm en það er algjörlega óásættanlegur málflutningur þegar menn halda því fram að íslenskur almenningur, íslenskir kennarar, sjómenn, hjúkrunarfræðingar, beri ábyrgð á því að stórir, erlendir áhættufjárfestar, stórir erlendir bankar, töpuðu hér þúsundum milljarða króna. Að halda því fram að íslenskur almenningur beri meiri ábyrgð á því að þessi fyrirtæki veittu peninga hingað, lán, en starfsmenn þessara banka sem höfðu aðgang að, vel að merkja, stórum hluta þeirra upplýsinga sem birtast í þessari skýrslu voru hámenntaðir doktorar í fjármálaverkfræði og guð má vita hvað en töldu sig geta grætt á Íslandi og lánuðu hingað peninga, til íslensku bankanna sem svo notuðu þá því miður ekki til að byggja upp íslenskt samfélag, heldur lánuðu áfram til annarra áhættufjárfesta sem veltu peningunum síðan áfram til útlanda. Að halda því fram að íslensk þjóð beri ábyrgð á þessu er algjörlega óásættanlegt.

Við verðum líka að setja hlutina í samhengi. Það reyndar þýðir ekki að við séum betri en aðrir en ef við berum stöðuna hér saman við það sem hefur gerst og er enn að gerast víða erlendis, t.d. í City í London eða Wall Street, hvernig er þá sá samanburður? Financial Times fjallar um þetta, þeir benda á að, jú, gírun hafi verið gríðarlega mikil hjá íslenskum bönkum, þ.e. óhófleg lántaka, en hún sé hlutfallslega enn meiri hjá bandarísku bönkunum og krosseignatengslin þar séu alveg gífurleg. Þess vegna eigum við ekki að líta á þetta sem eitthvert séríslenskt vandamál, þetta er vandamál um allan heim, vandamál fjármálakerfis sem fær ekki staðist, og þar höfum við Íslendingar tækifæri til að verða fyrirmynd annarra. Og við erum þegar að verða það með þessari skýrslu sem birtist hér í dag þar sem við, eins og Financial Times bendir á, fyrstir og einir þjóða höfum tekist á við þennan vanda og viðurkennt að þetta kerfi sem fjármálakerfi heimsins hefur byggt á undanfarin ár sé ekki sjálfbært, fái ekki staðist. Og að við ætlum að læra af því. Financial Times segir að Íslendingar hafi þó þetta fram yfir allar aðrar þjóðir.

Ef okkur tekst að læra af mistökunum höfum við tækifæri til að byggja upp sjálfbært hagkerfi sem framleiðir miklu meira en nóg af verðmætum fyrir rúmlega 300.000 íbúa þessa lands og byggja á því samfélag sem getur orðið fyrirmynd annarra samfélaga um allan heim.



[15:49]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Kæra þjóð. Undanfarin ár hafa verið þjóðinni þungbær. Þeirrar skýrslu sem nú lítur dagsljósið hefur verið beðið með kvíða og eftirvæntingu. Þær upplýsingar sem koma fram í dag eru áfellisdómur fyrir þingið og stjórnsýslu landsins. Tengslin á milli viðskiptalífs og þingheims eru svo þéttofin að skömm er að. Það kemur því miður fram í skýrslunni að enginn vill axla ábyrgð, fólk bendir hvert á annað og virðist fyrirmunað að sjá þátt sinn í hrunadansinum sem hefur leitt mikla og óbærilega ógæfu yfir þjóðina. Það hlýtur að vera þeim fjölmörgu þingmönnum sem sjá nöfn sín samofin skýrslunni hvatning til að axla ábyrgð.

Nú er sú stund runnin upp þar sem við fáum að sjá hverjir í samfélagi okkar eru mikilmenni og hverjir eru lítilmenni. Mikilmenni axla ábyrgð, viðurkenna mistök sín og stíga til hliðar. Lítilmenni með rofna siðferðiskennd láta sem ekkert hafi í skorist og horfast undan ábyrgð sinni, benda jafnvel á aðra. Órofa tengsl á milli viðskiptaheims og þingheims verður að rjúfa. Í gær sat ég á fundi með forustu fjórflokksins þar sem ákveðið var að halda áfram að þiggja peninga frá viðskiptalífinu inn í flokkana. Það skiptir meira að segja engu máli þó að við vitum hvað fyrirtækin heita því að þau eru svo miklir snillingar í að búa til spagettí, spagettí sem eru skúffufyrirtæki eftir skúffufyrirtæki eftir skúffufyrirtæki, eins og við höfum séð. Einn einstaklingur getur auðveldlega búið til tuttugu fyrirtæki sem eru grafin inni í einhverjum lauk og þar af leiðandi veitt flokkunum miklu meiri peninga en maður gæti haldið. Slíkt fólk mun án efa halda áfram að hafa ítök eða halda áfram að bera fé á flokkana.

Ég þarf vart að taka það fram að við í Hreyfingunni viljum ekki láta nafn okkar á frumvarp sem viðheldur gamla kerfinu þótt aðeins skárra sé. Hér dugar ekki kattarþvottur. Hér verður að fara fram alvöruuppstokkun. Hér varð hrun og það gengur ekki að byggja framtíð Íslands úr sömu fúaspýtunum og hrundu. Við þurfum almennilega uppstokkun í stjórnsýslunni allri. Það er ljóst að fundarform það sem viðgengst á æðstu stigum er nákvæmlega það sama og fyrir hrun, ekki eru haldnar neinar fundargerðir á fundum forustumanna, á því verður að gera bragarbót. En nú er tími uppgjörsins runninn upp. Til að við getum fyrirgefið og fundið einhverja ástæðu til að byggja upp það sem hrundi, til að við getum fundið hjá okkur hvatningu til að fórna einhverju þá er ljóst að þeir sem bera siðferðislega og beina ábyrgð verða að gera svo vel að horfast í augu við veruleikann og axla ábyrgð sína, ekki eftir ár heldur núna.

Það eru ekki margir sem koma að þessu hruni sem gerendur sem hafa sýnt merki um iðrun. Það eru ekki margir sem hafa af sjálfsdáðum sýnt það hugrekki sem til þarf til að viðurkenna misgerðir sínar. Núna er tími ykkar kominn. Verið menn, ekki mýs. Okkar sameiginlega verkefni er að nýta þær upplýsingar sem koma fram í þessari skýrslu til að tryggja að hér verði smíðuð lög til að koma í veg fyrir að svona stórkostleg vanhæfni og voðaverk geti átt sér stað að nýju. En lög eru ekki nóg. Samfélagið mun ekki gróa um heilt ef allir sem ábyrgir eru halda áfram í hollinn skollinn. Verið menn, ekki mýs. Axlið ábyrgð.

Þingið er enn veikburða gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er okkar þingmanna að endurheimta þau völd sem þinginu réttilega ber að hafa. En þó svo að þingmenn hafi gjarnan talað um að það sé mikilvægt þá vill svo til að viljinn nær ekki lengra en að vera aðeins í orði. Útrásarvíkingarnir svokölluðu sjá enga bresti í siðferði sínu og ljóst er að réttarríkið, sem gjarnan er talað um, er ekki smíðað til að koma réttlæti fram til fullnustu gagnvart þeim sem fremja landráð eða líta svo á að þeir séu vegna ríkidæmis og valda yfir réttarríkið hafnir. Nú hlýtur það að vera svo að allar eigur þessara einstaklinga verði frystar nú þegar og fyrirtækin tekin af þeim í stað þess að afskrifa skuldir þeirra undir því yfirskini að þau séu of stór til að rúlla. Þeir sem ryksuguðu bankana innan frá þurfa greinilega aðstoð við að skila ránsfengnum og það eiga að vera skýr skilaboð frá þingheimi að fela framkvæmdarvaldinu að endurheimta ránsfenginn, ef þeir skila honum ekki sjálfviljugir. Ég skora á útrásarvíkingana að sýna að þeir séu menn en ekki mýs og að þeir axli ábyrgð og skili ránsfengnum. En það eruð þið, þjóðin, sem verðið að senda skýr skilaboð um að hér axli fólk ábyrgð á gerðum sínum.

Ég ætla að leyfa mér að nota stórt orð í dag. Í mínum huga hafa verið framin landráð hér á landi. Við stöndum frammi fyrir gríðarlegri vá, eins og t.d. þeirri að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sýslar með ríkissjóð, vegna þess að allt sem við treystum á brást okkur. Blekkingin, hvort sem hún var meðvituð eður ei, var svo mögnuð að raddir þótt rómmiklar væru sem reyndu að vara við voru skjótt kæfðar með skrækum rómi Gróu á Leiti. Förum að kalla hlutina réttum nöfnum. Enn hef ég enga iðrun heyrt, enn hef ég ekkert séð sem gæti kæft þá miklu reiði sem ég finn brenna innra með mér vegna þess óréttlætis sem þjóðin hefur verið beitt. Ef það á að ríkja sátt hér er ekkert sem gæti verið réttlátara en að leiðrétta lán almennings, færa þau til baka til mars 2008 en þá var ljóst samkvæmt skýrslunni að þáverandi ríkisstjórn vissi nákvæmlega hvert stefndi. En hún kaus að halda áfram blekkingunni, hún kaus að halda frekar uppi ímyndinni en sannleikanum og nú búum við við þær hryllilegu afleiðingar sem ímyndin ofar sannleikanum býr til.

Ég vissi ekki við hverju var að búast í þessari skýrslu en mér sýnist á öllu að ekki sé um neinn hvítþvott eða kattarþvott að ræða, þó að ég hefði gjarnan viljað sjá meiri ábyrgð færða á hendur embættismönnum en ljóst er að ábyrgð þeirra er mikil í þessari sorgarsögu.

Ég vil nota tækifærið og þakka rannsóknarnefndinni fyrir störf hennar og vona að það sem ætlast er til með niðurstöðu skýrslunnar skili sér í bestu mögulegu löggjöf sem hægt er að smíða til að fyrirbyggja annað hrun. En það er ekki nóg. Við þurfum að finna viljann, þorið og heiðarleikann til að taka á þeim miklu meinbugum sem fyrirfinnast í samfélagi okkar með galopin augun og krefjast þess að sanngirni sé höfð að leiðarljósi og að sama réttlætið gangi yfir alla.



[15:58]
Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Aldrei í sögunni hefur nokkur þjóð beðið af jafnmikilli óþreyju eftir jafnvondum fréttum eins og íslenska þjóðin hefur beðið eftir þeirri skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem nú loksins hefur verið afhent þingi og þjóð. Ég hef ekki frekar en aðrir í þessum sal lesið þessa skýrslu, á því hef ég ekki haft nein tök. Hún er á þriðja þúsund blaðsíður að lengd svo ég ætla ekki að fjalla um hana í löngu máli vegna þess að á þessari stundu hef ég ekkert um hana að segja nema það sem almennt er og skiptir engu máli á þessari stundu.

Venjulega er það hlutverk fjölmiðla að skýra þjóðinni frá störfum þingsins. Að þessu sinni ætla ég að snúa dæminu við og segja þinginu frá störfum fjölmiðla. Ég ætla að segja í stuttu máli frá því sem fjölmiðlar hafa verið að fjalla um í morgun. Ég sagði að þjóðin hefði beðið lengi eftir vondum fréttum og vondar fréttir eru ær og kýr fjölmiðla og af vondum fréttum hefur ekki verið neinn skortur það sem af er þessum degi og með leyfi forseta ætla ég að vitna í örfáar fyrirsagnir:

„Skuldaði hálfan milljarð, fór í boðsferð og veiddi lax“, „Exista, Kjalar, Baugur og Jötunn ryksuguðu gjaldeyrismarkaðinn. Orsakaði hrun krónu“, „Ráðherrar og stjórnendur FME og Seðlabanka sýndu af sér vanrækslu“, „Seðlabanki braut eigin reglur“, „SUS: Vissu ekki um tugmilljónastyrk“, „Geir var skíthræddur við Davíð“, „Forsetinn gekk mjög langt — setja þarf siðareglur um forsetaembættið“, „Í golfferð með Glitnisþotu“, „Allsber í World Class þegar Glitnir féll“, „Lán til stjórnmálamanna: Sjö sjálfstæðismenn á topp 10“, „Fyrrverandi ráðherrar, forstjóri Fjármálaeftirlitsins og seðlabankastjórar sakaðir um vanrækslu“.

Svona heldur þetta áfram. Endalausar vísbendingar um siðleysi, heimsku, afglöp, græðgi og valdafíkn. Þessar vísbendingar eru fleiri en tölu verður á komið. Það sem er kannski sorglegast af þessu öllu er að fyrsta niðurstaða fjölmiðlanna er súmmeruð upp í einni frétt og hún er svona, með leyfi forseta:

„Enginn gekkst við ábyrgð. Enginn þeirra sem rannsóknarnefnd Alþingis telur að hafi gerst sekir um vanrækslu í starfi gekkst við ábyrgð sinni í andsvörum sínum til nefndarinnar.“

Enginn. Við þennan lestur á fréttum vefmiðla veit ég ekki hvort maður er nær því að hlæja eða gráta. Samt hef ég aðeins tæpt á fyrstu fréttum af skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Að fjalla um skýrsluna sjálfa er eftir og hún er mun lengri en fréttir dagsins. Hún er álíka löng og allar Íslendingasögurnar samanlagt.

Það er í verkahring okkar sem sitjum á Alþingi að láta þá sæta ábyrgð sem hana eiga að bera, burt séð frá því hvað þeim sjálfum finnst. Það þarf að endurreisa efnahags- og atvinnulífið á heilbrigðum grunni og það sem vandasamara er, það þarf að sýna þjóðinni fram á að við ætlum að búa við réttlæti. Þótt sakamenn flýi úr landi mun réttlætið áfram eiga lögheimili á Íslandi og vera þar að störfum. Hér er verk að vinna og til að vinna það verk þurfum við sterka og samhenta ríkisstjórn. Það er skylda okkar sem hér störfum að sjá landinu fyrir slíkri stjórn.



[16:03]Útbýting: