138. löggjafarþing — 105. fundur
 14. apríl 2010.
rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008, frh. umræðu.

[12:01]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem hefur skilað sínu umfangsmikla verki. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim sem að því verki stóðu. Ég held að það hafi verið afskaplega skynsamlegt að við fórum í þetta. Er ég þá sérstaklega að vísa í frumkvæði þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Geirs H. Haardes, og þáverandi forseta þingsins, Sturlu Böðvarssonar, sem höfðu forgöngu um það að setja þetta mál í þann farveg sem raun ber vitni. Sem betur fer náðist góð samstaða um það meðal allra flokka á Alþingi og það ber að þakka.

Það sem mér finnst vera gott við þessa skýrslu er að hér er komið gríðarlega mikið magn af upplýsingum, sett fram á skiljanlegan og góðan hátt, og ég tel að þetta geti verið grunnur að þeirri uppbyggingu sem þjóðin er nú að fara í. Ýmislegt sem verið hefur í gangi í munnmælasögum ætti að hreinsast að því leytinu til að allt liggur þetta fyrir. Þetta er allt komið fram skriflegt í opinberum gögnum. Ef eitthvað er rangt þar, sem örugglega er, því að það er útilokað að þetta stóra verk sé gallalaust, þá fá menn alla vega tækifæri til að leiðrétta það.

Eðli málsins samkvæmt er skýrslan ekki gallalaus, þó það nú væri. Við ættum kannski að skoða einn þátt en það er aðkoma erlendra aðila. Þegar við horfum á þessa veislu sem var þá var hún ekki gerleg nema vegna þess að erlendir aðilar lánuðu íslenskum fjármálastofnunum og fleirum ótæpilega. Það er um margt lítt skiljanlegt hvernig það gekk jafnlengi og raun ber vitni. Ég á líka erfitt með að skilja af hverju erlendu matsfyrirtækin höguðu sér með þeim hætti sem þau gerðu. Mér finnst það algjörlega furðulegt. Er kerfi þeirra gjörsamlega ónýtt? Er ekkert að marka þessi erlendu matsfyrirtæki? Eða hvaða skýringar liggja þarna á bak við?

Við vitum hins vegar og það kom t.d. fram í viðskiptanefnd — núverandi seðlabankastjóri útskýrði það — að um er að ræða kerfislægan vanda sem allar þjóðir glíma við og menn hafa ekki getað dregið nógu vel upp. Það á örugglega við hvað þennan þátt varðar en það getur ekki skýrt alla myndina.

Ég ætla ekki að endurtaka allt það sem sagt hefur verið um vonbrigði með þær upplýsingar sem hér hafa komið fram. Mér fannst hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson lýsa þessu ágætlega þegar hann talaði um að eigendur hefðu notað bankana eins og prívatsparibauka. Það sem kemur mér á óvart er hve mikil skammtímasjónarmið virðast hafa verið þar á ferðinni og þessi mikla áhættusækni og firring sem bæði kom fram í alls kyns gjörðum hjá fólki sem kom að þessu. Ekki síður kom hún á óvart þessi trú manna á að einhvern veginn mundi þetta alltaf bjargast og hvernig menn voru að reyna að ýta vandanum á undan sér án þess að taka á honum.

Við hv. þingmenn verðum hins vegar, virðulegi forseti, að líta í eigin barm. Við hljótum að spyrja: Hvaða mistök gerðum við? Það er alveg ljóst að við gerðum mistök. Mér fannst svolítið skrýtið að hlusta á margar ræður í gær — menn héldu því fram að þeir, og flokkar þeirra, hefðu alltaf sagt þetta og vitað þetta. Það stenst enga skoðun.

Að mínu mati er það tvennt sem stendur upp úr, tvennt sem okkur vantar — þetta er mjög einfalt en samt flókið. Okkur vantar annars vegar gagnrýna hugsun og hins vegar málefnalega umræðu. Umræðan á Íslandi er iðulega mjög persónugerð. Engum er vorkunn, hvort sem hann fer á þing eða í aðrar stöður, að persóna hans verði í umræðunni en umræðan er allt of bundin við persónur. Menn eru alltaf með hinum og þessum í liði og það hefur skaðað alveg gríðarlega hér á Íslandi. Þegar menn lesa skýrsluna með það í huga sjá menn að það á við alls staðar. Við erum svo fá að við megum svo illa við þessu.

Gagnrýnin hugsun, okkur vantaði hana. Það á við um okkur sjálfstæðismenn sem berum ábyrgð, við göngumst við henni og biðjumst afsökunar. Við höfum gert það áður og munum gera það áfram, og við munum nota þetta plagg til þess að læra af því. Það vantaði hjá okkur gagnrýna hugsun, við tókum ýmislegu sem gefnu. Við töldum að ýmis kerfi og skipulag sem komið var á væri þess eðlis að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af því. Það var öðru nær. Okkur vantaði alvöruumræðu, og þar gagnrýni ég peningamálastefnuna.

Einkavæðing bankanna er eitthvað sem við allt í einu, ja, hvað skal segja? — við héldum okkur ekki við það sem við lögðum upp með, og samþykktir okkar sögðu, um dreifða eignaraðild. Það var aldrei nein almennileg umræða tekin um það af hverju það var. En allt í einu stóðum við uppi með slíkt og þó að það eitt og sér skýri ekki allt var það óafsakanlegt.

Ríkisfjármálin, við áttum að halda okkur miklu harðar við sjónarmið okkar þar. Sannarlega vorum við eini stjórnmálaflokkurinn sem var með aðhald þar og allir sem hafa fylgst með þinginu vita af því. En við áttum hins vegar að halda okkur betur við okkar sjónarmið.

Við gáfumst t.d. upp í umræðum í borginni, um skuldsetningu þar, og tókum því miður rökum aðila sem sögðu að þetta væri svo leiðinleg umræða. Ég segi nú um sjálfan mig, maður var eins og hrópandinn í eyðimörkinni og fékk hvorki stuðning frá fjölmiðlum né akademíunni. Þetta voru dýrkeypt mistök, virðulegi forseti. Það sama má segja um hina flokkana. Ég held að það sé hollt að skoða Borgarnesræðu fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar. Ég held að hún hafi endurspeglað ágætlega tíðarandann sem þá var. Vandinn er þessi hjarðhegðun sem er yfir alla línuna. Þegar kom að Íbúðalánasjóði og þeim breytingum sem þar voru gerðar vildu bæði Samfylkingin og Vinstri grænir og aðrir flokkar á þingi ganga enn lengra en stjórnarflokkarnir fóru því miður þá.

Vinstri grænir geta ekki sagt að þeir hafi verið með fullkomlega hreinan skjöld í þessu. Þeir voru með öfluga menn í forustu fyrir helstu fjármálastofnanir landsins, eins og t.d. lífeyrissjóðina, stjórnir bankanna. Þegar kom að því sem við hefðum átt að taka á, fjölmiðlalögunum, hvernig brást þingið við þá? Við áttum að standa fast fyrir þar.

Virðulegi forseti. Það er margt sem hægt væri að fara yfir í þessari örstuttu ræðu en hún er að verða búin — mér fannst hún rétt vera að byrja því að það er svo margt sem maður getur sagt í þessari umræðu. En ég hlýt að spyrja: Höfum við lært eitthvað af þessu? Ef við skoðum síðustu daga í þinginu, er þetta að koma hjá okkur? Í síðustu viku hótar ráðherra að áminna forstöðumann ríkisstofnunar — mann sem m.a. er getið um í þessari skýrslu. Hann þykir einstaklega samviskusamur og heiðarlegur og það á að áminna hann fyrir nákvæmlega það. Ég bað um fund í heilbrigðisnefnd, virðulegi forseti, og ég vonast til þess að sá fundur verði haldinn, það hefur ekki enn þá orðið. En það vakti athygli mína þegar ég sá hvernig akademían brást við þessu, ég hvet menn til að skoða hvað hún sagði um þetta, hvort það var sérstaklega faglegt.

Virðulegi forseti. Við báðum hér, og ég er búinn að biðja um það frá áramótum, um upplýsingar um eignarhald bankanna. Við vorum fyrst núna að fá svar frá bönkunum sem er hreinn og klár útúrsnúningur. Ætlum við ekki, þingið, að fara fram á að fá þessar sjálfsögðu upplýsingar sem við erum búin að biðja um frá áramótum?

Virðulegi forseti. Ég er 1. flutningsmaður máls sem snýr að því að rannsaka hvað gerst hefur í bönkunum frá hruninu og fram að síðustu áramótum. Það mun reyna á okkur núna, virðulegi forseti, hvort við munum fara í það verkefni. Það mun líka reyna á okkur hvernig okkur mun ganga að hafa aðhald með framkvæmdarvaldinu. Það er ekki sjálfsagt og eðlilegt að einn ráðherra líti á þessa umræðu sem morfískeppni (Forseti hringir.) og sjái enga ástæðu til að svara spurningum okkar.

Virðulegur forseti. Þetta snýr að því að nota þessa skýrslu til að læra af henni. Við þurfum að gera upp mál og þeir sem bera ábyrgð þurfa að axla þá ábyrgð. Ef við lítum (Forseti hringir.) á stöðuna eins og hún er í dag held ég því miður að við séum ekki að læra jafnhratt og við ættum að gera.



[12:12]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við lestur skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir bankahrunsins, og hér skal skýrt tekið fram að þeim lestri mínum er fráleitt lokið, setur jafnt að manni óhug og kjánahroll. Þessi þróttmikla og vandaða skýrsla, skrifuð á mannamáli, er samfelldur áfellisdómur yfir ömurlegri og stórhættulegri hugmyndafræði, líklega stærstu hagstjórnarmistökum síðari ára, drambi og ófyrirleitni ofmetinna stjórnmálaforingja, úr sér gengnum stjórnmálavenjum, flokkshagsmunum sem voru ofar þjóðarhagsmunum, einsleitri og staðnaðri stjórnsýslu í vinasamfélagi Arnarhóls, lítilsvirtu og sljóu löggjafarvaldi, gjaldþrota siðferðisgildum atvinnulífsins svo að stappar nærri bilun, stórkostlegri veruleikafirringu og þeirri staðreynd að það tók einkaframtakið innan við þrjú ár að steypa bönkunum á gjafvirði í glötun.

Virðulegi forseti. Þetta er allnokkuð. Fyrst og síðast er skýrslan afhjúpandi og fyrst og síðast er hún lærdómsrit. Hún skal verða lærdómsrit í bráð og hún skal verða lærdómsrit í lengd. Hér þurfa að verða kaflaskil hvað snertir ábyrgðartilfinningu kjörinna fulltrúa þjóðarinnar, embættismanna hennar og stjórnenda atvinnulífsins.

Nei, Ísland skal aldrei verða frjálsasta land í heimi árið 2015 eins og Viðskiptaráð Íslands boðaði í miðri veislunni sem öll var tekin að láni með giska svívirðilegum hætti. Ísland skal miklu fremur verða ábyrgasta land í heimi eftir hálfan áratug – og það þjóðfélag sem býður upp á jöfnustu lífskjörin og kröftugustu velferðina. Frjálst vissulega, en ekki afskiptalaust.

Slysið, frú forseti, já, slysið í íslensku samfélagi, gerðist með þeim hætti að stjórnmálin létu viðskiptalífinu í hendur meginvaldið. Frelsið, þetta líka dásamlega frelsi, skyldi þýða afskiptaleysi hins opinbera, full yfirráð einkageirans yfir örlögum og kjörum almennings. Þetta var slysið sem líklega er vægt orð í þessu samhengi og væri nær að tala um hamfarir af manna völdum.

Við lestur skýrslunnar kemur skýrt fram að ein meginábyrgð bankahrunsins hvílir á herðum nýríkra eigenda og stjórnenda þriggja helstu banka landsmanna sem skófluðu virði þeirra ofan í eigin veski, réðu hóp nýgræðinga í kringum sig og hentu út bankareynslu og bankahefðum. Varla verður sjúklega vitfirrt græðgisvæðingin orðuð betur en í pósti fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings til undirmanns síns í Lúxemborg þann 9. júlí 2008, með leyfi forseta:

„Hæ Magnús, við gengum ekki frá bónus fyrir síðasta ár. Ég legg til 1 milljón evra. Hvað segir þú?“

Og svar undirmannsins, virðulegur forseti, er giska einfalt:

„Takk. Meira en nóg.“ — Svarinu fylgir svo broskarl.

Prinsippin voru einmitt þessi fram á síðasta dag. Og prinsipp þess sem tók upp undir þúsund milljarða að láni í íslensku bönkunum allt þar til yfir lauk var líka ósköp einfalt. Hans prinsipp var að vera ekki með persónulegar skuldir. Einmitt það. Hann og félög honum tengd tóku þúsund milljarða að láni en þetta var vitaskuld aldrei persónulegt. Allt heila bankaránið var auðvitað ekki persónulegt. — Þetta eru miklir broskarlar.

Hefur eitthvað breyst, virðulegur þingforseti? Nei, margar helstu persónur hrunskýrslunnar eru enn að, og það í meira lagi: Þær eiga enn þá stærstu fjölmiðlana, þær eiga enn þá eitt stærsta skipafélagið, þær eiga enn þá annað stærsta flugfélagið og Bakkavararbræður stjórna enn þá því fyrirtæki. Menn fá fyrirtækin aftur og aftur, en ekki skuldirnar. Viljum við það?

Virðulegur forseti. Þrátt fyrir gríðarlega ábyrgð þessara öfgafullu einstaklingshyggjumanna á bankahruninu, sem líklega var ekki hægt að koma í veg fyrir allt frá árinu 2006 — röskum tveimur árum fyrir sjálfa kollsteypuna — má aldrei gleyma undanfara þess að svona fór. Einkavæðing ríkisbankanna tveggja í upphafi aldarinnar er galnasta meðferð á eigum ríkisins í síðari tíma sögu íslenska ríkisins. Hún er vítaverð meðferð á opinberum fjármunum og heyrir til vanrækslu á öllum skyldum framkvæmdarvaldsins. Aldrei í síðari tíma þingsögu hefur framkvæmdarvaldið lítilsvirt löggjafann með jafnóforskömmuðum hætti og við einkavæðingu ríkisbankanna, nema ef vera kynni í Íraksmálinu. Aldrei í síðari tíma sögu Alþingis hefur Íslandi verið stjórnað af jafnmiklu ofríki örfárra manna.

Virðulegur forseti. Það er raunalegt, eiginlega grátlegt, að lesa lýsingu embættismannsins Steingríms Ara Arasonar í skýrslu rannsóknarnefndarinnar á sjálfu einkavæðingarferlinu við dagsbrún nýrrar aldar. Sala bankanna til útvalinna, já, kviknakin helmingaskiptin, fór fram á harðahlaupum á göngum ráðuneytanna og ákvörðunin var á endanum aðeins tekin af tveimur forustumönnum gamalla valdaflokka, að því er sýnist, sem sáu undir restina að þeir einir gátu tryggt ómenguð helmingaskiptin og áframhaldandi aðgang flokksklíkunnar að stjórnum bankanna og þar með fjárstuðningi þeim til handa.

Hin breiða eignaraðild breyttist með einu handapati og óðagoti í vel klædda kjölfestufjárfesta, sérvalda gæðinga sem buðu ekki einu sinni best og hæst — og sér var nú hver kjölfestan, virðulegur forseti, sér var nú hver kjölfestan. Hún var engin; fleyið var hriplekt frá byrjun af því enginn þessara karla kunni til verka, þeir kunnu það eitt að græða, skara eld að eigin köku. Hér var ríkið að afhenda mönnum innlán almennings; mönnum sem höfðu enga bankareynslu og — eins og síðar kom í ljós — enga ábyrgðartilfinningu.

Virðulegur forseti. Einkavæðing ríkisbankanna á sínum tíma er vítaverðasta meðferð á opinberu fé á seinni árum. Hún lýsir fullkomnu vanhæfi stjórnmálamanna og stjórnsýslu. Það er á þessum grunni sem einkageiranum var boðið til veislu á Íslandi. Og nú gengst enginn við ábyrgð, eins og lesa má úr skýrslunni. Ávísanakerfi kerfisins er samt við sig, þar vísar hver á annan.

Nú þarf að spyrja stórra spurninga. Þetta mikla og löngu þarfa lærdómsrit rannsóknarnefndarinnar kallar á ítarleg svör við grundvallarspurningum. Við þekkjum rót vandans, sem felst í óheftri frjálshyggju, klíkustjórnmálum og sérhagsmunagæslu, en vitum við hvernig beygt verður af þessari leið? Spurningarnar eru þessar:

Getum við treyst einkaframtakinu aftur til að geyma og ávaxta sparnað almennings með tryggum og ábyrgum hætti? Er íslenska einkaframtakið nógu agað, heiðarlegt og siðað til að geyma peninga annarra? Fer kraftur einkaframtaksins saman við eðlilega íhaldssemi í hefðum bankastofnana? Stenst hið frjálsa hagkerfi ef regluverkið á að vera ráðandi? Stenst í rauninni sú trúarskoðun frjálshyggjuaflanna að frelsi og ábyrgð séu tvær hliðar á sama peningi?

Þingheimur og þjóðin öll þarf að svara því eftir lestur skýrslunnar hvernig bankakerfi hún vill hafa í landinu. Kannski er við hæfi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um rekstrarform helstu fjármálastofnana á Íslandi.

Virðulegur forseti. Nokkur atriði eru hér ljós:

Stokka þarf stjórnsýsluna upp. Embættismannakerfið er vinafélag nokkuð einsleits hóps í sama póstnúmerinu í Reykjavík.

Auka þarf sjálfstæði eftirlitskerfisins sem er, sakir nálægðar, hliðhollt einsleitu embættismannakerfi.

Aðskilja verður löggjafarvald og framkvæmdarvald algerlega og endanlega og breyta nefndavinnu Alþingis svo að þingið fái frið fyrir ráðherraræðinu.

Tryggja þarf fræðimannasamfélaginu og fjölmiðlum lagalegt svigrúm til að upplýsa og veita aðhald með hvetjandi regluverki fremur en letjandi.

Virðulegi forseti. Af þingumræðum síðustu daga um hrunskýrsluna hefur mátt skynja nýjan blæ í orðræðu stjórnmálanna. Það er vel. Samstaða þingsins skilar meiru til samfélagsins en sundrungin og sú meginhugsun gamla stjórnmálavanans að aðrir flokkar hafi alltaf rangt fyrir sér. Við skulum hætta þeim leik.

Úr þessu púlti hefur verið boðin sátt af mörgum stjórnmálamönnum sem hér hafa talað. En sátt um hvað? Jú, það hlýtur að vera sátt um það að reyna aldrei aftur þá samfélagstilraun á Íslendingum sem setti þá í þrot. Sú sátt hlýtur að snúast um jöfnuð, ekki ójöfnuð.

Svo er hitt, síðast en ekki síst: Hin góða skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis á að kenna okkur mannasiði. Það var kannski kominn tími til. Hún sýnir okkur að margt er að afsaka og að margir þurfa að biðjast afsökunar. Samfylkingin er þar engin undantekning.



[12:21]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er kannski við hæfi að taka undir með þeim rúmlega 20 þingmönnum sem talað hafa um að auðvitað hefur ekki gefist tími til að fara yfir þessa skýrslu á þeim tveimur sólarhringum sem liðnir eru frá útgáfu hennar. Ég leyfi mér að taka undir þá gagnrýni sem komið hefur fram á vinnubrögð í þinginu, að þetta skuli vera svona. Eðli málsins samkvæmt verður umræðan auðvitað yfirborðskenndari og ómarkvissari þegar ekkert okkar hefur haft tök á því að fara yfir skýrsluna, skoða hverjar eru forsendur þeirra ályktana sem dregnar eru og átta sig almennilega á því sem þarna kemur fram. Auðvitað höfum við keppst við að kynna okkur efni þessarar skýrslu og það liggur alveg ljóst fyrir að hér er um mikilvægt plagg að ræða, enginn velkist í vafa um það. Hér er brotið blað, má segja, í störfum okkar á Alþingi að skýrsla af þessu tagi skuli vera gerð á vegum þingsins. Sú samstaða sem tókst haustið 2008 um að fara í þessa vinnu hefur greinilega skilað verulegum árangri.

Eins og hv. síðasti ræðumaður sagði er þetta lærdómsrit, þetta er rit sem við þurfum að kynna okkur til að læra af því. Við höfum þarna kannski í fyrsta sinn sæmilega heildstæða lýsingu á þeirri atburðarás sem leiddi til falls íslensku bankanna. Þarna kemur fram gríðarlega mikið af upplýsingum. Margt af því hafði komið fram með einhverjum hætti áður en hér er um að ræða frásögn í samhengi sem gefur okkur auðvitað gleggri mynd af þeirri atburðarás sem leiddi til bankahrunsins og þeirrar efnahagskreppu sem við stöndum í.

Við þurfum að nýta þessa skýrslu í störfum okkar. Það má auðvitað ekki verða svo að Alþingi setji af stað mikilvæga skýrsluvinnu þar sem gríðarlega mikið starf er unnið í sambandi við gagnaöflun og úrvinnslu upplýsinga ef ekki verður framhald á. Að einhverju leyti mun þingmannanefndin, sem hefur fengið það hlutverk að fara yfir efni skýrslunnar, gera tillögur á grundvelli hennar. Að hluta til fer málið í þann farveg. En skýrslan þarf auðvitað að nýtast okkur með víðtækari hætti en þar er gert ráð fyrir því að eðli málsins samkvæmt þurfti að skilgreina verkefni þeirrar nefndar með nokkuð þröngum og afmörkuðum hætti, en sá lærdómur sem við þurfum að draga af skýrslunni er auðvitað víðtækari.

Það er ljóst að þarna koma fram upplýsingar og hugsanlega niðurstöður sem gefa okkur tilefni til margvíslegra breytinga á laga- og regluumhverfi okkar og við þurfum að ganga til þess verks af skynsemi. Við þurfum að fara í íhugaðar breytingar vegna þess að sá lærdómur sem við getum dregið af þessari skýrslu sýnist mér vera að fljótræði sé ekki kostur í sambandi við lagasetningu og ákvarðanatöku heldur borgar sig í mörgum tilvikum frekar að anda með nefinu og taka yfirvegaðar ákvarðanir í staðinn fyrir að taka skjótar ákvarðanir. Ég held að það sé ákveðin lexía sem við getum lært af þessu.

Ég nefndi það að þarna er að finna nokkuð heildstæða lýsingu á atburðarás og í skýrslunni koma fram gríðarlega margar staðreyndir varðandi aðdraganda bankahrunsins sem við þurfum að kynna okkur og læra af. Í skýrslunni er líka að finna ályktanir eða mat þeirrar nefndar sem falið var þetta verkefni af hálfu þingsins og það er auðvitað mjög gagnlegt innlegg í umræðuna líka. Ég bendi þó á að við sem þingmenn hljótum að leggja sjálfstætt mat á það sem frá nefndinni kemur því að þó að hún hafi unnið gott verk og unnið það af dugnaði og heiðarleika þurfum við engu að síður að leggja mat á niðurstöður hennar eða ályktanir út frá okkar eigin forsendum og engin nefnd er svo vel skipuð eða vinnur svo vel að menn geti gagnrýnislaust tekið við öllu sem frá henni kemur. Það er heilbrigð skynsemi að meta hlutina þannig. Í köflum sem ég hef lesið er auðvitað um að ræða hluti sem eru matskenndir og kalla á frekari umræður áður en við drögum ályktanir. Við heyrðum í gær ákveðnar vangaveltur í sambandi við áhrif húsnæðislánabreytinganna á þær aðstæður sem ollu bankahruninu. Við höfum heyrt mismunandi skoðanir á vægi einkavæðingarinnar á ríkisbönkunum 2002. Það eru mismunandi sjónarmið uppi varðandi að hvaða leyti þessar ákvarðanir höfðu áhrif á þá atburðarás sem varð. Það er mikilvægt að staðreyndirnar í þessu máli liggi fyrir en við sem þingmenn getum ekki skorast undan þeirri ábyrgð að leggja sjálfstætt mat á þær niðurstöður sem þarna koma fram.

Ég nefndi áðan að hér væri um mikið verk að ræða og einstætt í sögu þingsins. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu er þetta einstakt plagg í miklu víðara samhengi vegna þess að mér er ekki kunnugt um að neins staðar annars staðar hafi á vegum nokkurs þings verið framkvæmd úttekt sem nær til jafnmargra og viðamikilla þátta og hér um ræðir. Við höfum litið til Norðurlandanna varðandi rannsóknarskýrslur þinga en þau dæmi sem ég þekki frá þeim löndum snúa fyrst og fremst að miklu afmarkaðri þáttum en hér eru undir þannig að þetta er einstakt í miklu víðara samhengi en í því íslenska. Það er auðvitað umhugsunarefni vegna þess að það hefur orðið fjármálahrun víðar en á Íslandi. Það er víðar en á Íslandi sem áhættusækni banka samhliða greiðum aðgangi að lánsfé hefur leitt til hruns. Ég held að á annað hundrað bankar í Bandaríkjunum hafi fallið, orðið gjaldþrota eða verið yfirteknir af hinu opinbera á síðustu tveimur árum. Í Bretlandi hafa stærstu bankarnir verið styrktir með gríðarlegum upphæðum úr ríkissjóði vegna þess að þeir voru komnir í ógöngur. En það er auðvitað rétt sem bent hefur verið á að aðstæður okkar hér á landi eru sérstakar að því leyti að fjármálakerfið hafði vaxið svo gríðarlega í samanburði við landsframleiðslu og aðrar hagstærðir að áhrif hins alþjóðlega bankahruns urðu miklu skelfilegri hér. Fjármálakerfið hafði vaxið okkur svo gríðarlega yfir höfuð og það sem þessi skýrsla leiðir í ljós, sem ýmsa grunaði kannski en sjá nú svart á hvítu, er að óábyrg hegðun leiddi til stórkostlegra veikleika í þessu fjármálakerfi. Það var ekki bara um að ræða mikla áhættusækni heldur óábyrga hegðun að ýmsu öðru leyti sem mun væntanlega reyna á fyrir dómstólum vegna sakamálarannsókna og málaferla í kjölfar þess. Það gerði það að verkum að hér voru innviðir fjármálakerfisins miklu veikari en sýndist og trúlega miklu veikari en í nágrannalöndunum þó að ákveðin tilhneiging ásamt áhættusækni, sækni í skjótan gróða og þess háttar hafi vissulega leitt vandræði yfir fjármálakerfi nágrannalandanna. Það er því alveg rétt sem hefur komið fram, grunnurinn að okkar vanda er innlendur. Þegar áföllin dynja yfir stöndum við svo rosalega illa að vígi þegar kemur að fjármálamarkaðinum. Það er eins og að menn sem fóru með stjórn bankamála hafi ekki áttað sig á því að (Forseti hringir.) styrkur banka þarf að koma fram bæði þegar vel árar en líka þegar herðir að.

Þetta er í mínum huga fyrst og fremst upphaf umræðu sem hlýtur að eiga sér stað í þinginu. (Forseti hringir.) Við erum rétt að byrja umfjöllun okkar. Umræðurnar í gær og í dag móta fyrstu viðbrögð en við eigum eftir að vinna mikið í þessum málum til að þetta plagg nýtist okkur með þeim hætti sem skyldi.



[12:32]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti hvetur þingmenn til þess að virða tímamörk.



[12:32]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir yfirvegaða ræðu. Það á að vera okkur leiðarstef í þeirri umræðu sem fram undan er að hafa ræður okkar úr þessu púlti yfirvegaðar og málefnalegar, ég held að það sé hollast fyrir framvindu málsins. Í ræðu minni staldraði ég aðeins við þann lærdóm sem við verðum að draga af þessari skýrslu og hann skal vera margur og mikill. Mig langar að deila með hv. þm. Birgi Ármannssyni þeim spurningum sem ég setti fram í ræðu minni, hvernig við eigum að taka á þeim vanda sem blasir við í skýrslunni, þeim stjórnkerfisvanda og stjórnsýsluvanda sem blasir við, og hvernig við eigum að taka hann til okkar. Hvernig sér hv. þingmaður, sem ég veit að er þingreyndur og þingreyndari en sá sem hér talar, fyrir sér breytingar á störfum þingsins? Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson talaði um það í ræðu sinni áðan að umræðuhefðin væri kannski ekki sem skyldi og hana þyrfti að laga.

Ég nefndi í ræðu minni að nefndastörf þingsins kynnu ef til vill að þurfa að breytast. Aukinheldur kom ég inn á það að embættismannakerfið er kannski að vissu leyti vinafélag nokkurra manna á einum og sama punktinum. Þar er nálægðin mikil, eftirlitið fyrir vikið kannski skakkt og tengslin allt of mikil á þessum eina punkti. Það er umhugsunarvert að öll stjórnsýslan og eftirlitskerfið sem á að fylgjast með henni eru þiggjendur nánast í sama mötuneytinu daginn út og daginn inn.

Mig langar að heyra viðbrögð hv. þingmanns við þessum hugleiðingum.



[12:34]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get sagt það fyrst að ég held að hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson sé með alveg réttar spurningar hérna. Ég ætla mér ekki þá dul að svara þeim öllum í þessu stutta andsvari, en ég get þó sagt að ég held að einn af þeim lærdómum, ef svo óhönduglega má að orði komast, sem við getum dregið af skýrslunni sé sá að við þurfum að efla þingið. Ég held að aðhald og eftirlit þingsins með framkvæmdarvaldinu sé mikilvægara en nokkru sinni. Ég held að við þurfum hér í þinginu að taka í meira mæli til okkar frumkvæði og virkt eftirlit með því sem er að gerast á vegum framkvæmdarvaldsins. Svoleiðis leysir aldrei allan vanda en ég held að það sé að hluta til lausnin á því að veita það aðhald sem öllum er nauðsynlegt að hafa í störfum sínum.

Við í þinginu erum í beinni tengslum við kjósendur og berum beinni ábyrgð gagnvart þeim en þeir sem eru á framkvæmdarvaldsvængnum. Þess vegna má segja að í þingræðisfyrirkomulagi sé mikilvægt að þingið sé sá milliliður milli kjósandans og handhafa framkvæmdarvaldsins sem nauðsynlegur er. Ég tek því fyllilega undir það sem hv. þingmaður segir í þeim efnum.

Varðandi stjórnsýsluna. Jú, við höfum gott af því að endurskoða stjórnsýsluna. Við höfum reyndar ágætislagaramma hvað hana varðar en spurningin er sú hvernig honum er fylgt eftir í framkvæmd. Það stendur upp á okkur að fylgja því eftir. (Forseti hringir.)

Varðandi aðra þætti, verð ég að geyma það til síðara andsvars.



[12:36]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka ágætt svar hv. þm. Birgis Ármannssonar við spurningum mínum og hugleiðingum að mestu. Hér þarf að taka það fram að hvorugur okkar hefur væntanlega lesið skýrsluna í þaula enda er það talsvert langt verk og spannar margar nætur og daga.

Mig langar líka að staldra við framtíðina sem blasir við okkur í regluverki og lagasetningu hvað varðar rekstrarform bankastofnana á Íslandi. Nú var það einu sinni svo að þessir ágætu bankar voru einkavæddir og margir kannast við mistök í þeim efnum. Vafalaust lærum við af þeim mistökum og verðum að gera, hvað varðar dreifða eignaraðild og síðari tíma krosseignatengsl og ég tala nú ekki um stjórn eigenda á þessum bankastofnunum eins og ítarlega er komið inn á í skýrslunni.

Hvaða lærdóm dregur hv. þm. Birgir Ármannsson af rekstri einkaaðila á bönkum? Getum við treyst einkaframtakinu aftur til að geyma og ávaxta sparnað almennings með tryggum og ábyrgum hætti eins og ég kom inn á í ræðu minni? Þurfum við að einhverju leyti að fara að horfa til annars konar rekstrarforms á bönkum þegar haft er í huga að þeir geyma viðkvæmustu eignir alls almennings? Er íslenska einkaframtakið nógu agað, heiðarlegt og siðað til þess að takast á við það gríðarlega erfiða hlutverk sem er að gæta fjármuna félaga, fyrirtækja og ekki síst alls almennings? Eigum við að hugsa einhverjar breytingar? Eigum við að draga stóran lærdóm af því sem varð í þessu kerfishruni hvað þetta varðar?



[12:38]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að við verðum að læra margt af því sem gerðist. Ég er þeirrar skoðunar að einkaaðilar geti og eigi að reka fjármálafyrirtæki en þeir eiga hins vegar að búa við öflugt regluverk vegna þeirrar viðkvæmu starfsemi sem þeir hafa með höndum. Það þarf líka að vera á hreinu að þeir einkaaðilar sem reka fjármálafyrirtæki beri þá ábyrgð sem því fylgir. Ég held því að bein eða óbein ríkisábyrgð á rekstri banka sé ekki af hinu góða vegna þess að ég held að það geti leitt til ábyrgðarleysis. Ef þeir sem eiga og reka banka geta með einhverjum hætti stólað á að þeim verði bjargað ef illa fer er hætta á því að það leiði til áhættusækni. Ég óttast að það hafi hugsanlega verið undirliggjandi í íslenska bankakerfinu fram til þessa að menn hafi stólað á það að ef illa færi mundi ríkið hlaupa undir bagga með þeim. Ég held að það geti leitt til óábyrgrar hegðunar.

Við höfðum ekkert sérstaklega góða reynslu af því að reka ríkisbanka, ég held að það sé ekki lausnin. Ég á líka bágt með að sjá fyrir mér fyrirkomulag þar sem við erum með ríkisbanka í samkeppni við einkabanka. Ég held að það sé ekki gott fyrirkomulag þegar ríkið er í virkri samkeppni við einkaaðila. Ég held að það skekki stöðuna mjög mikið.

Hitt er alveg á hreinu að við þurfum að tryggja að regluverkið sé skýrt og öflugt, eftirfylgni með því góð. Ég held að það sé alveg ótvírætt að við getum kannski ekki komið í veg fyrir óábyrga hegðun en við getum dregið úr hættunni á henni. Um leið þurfum við að velta fyrir okkur (Forseti hringir.) hlutafélagafyrirkomulaginu, hlutafélagalögum, m.a. til þess að tryggja stöðu minni hluthafa þannig að stórir hluthafar geti ekki skarað eld að eigin köku á kostnað hinna minni.



[12:40]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og aðrir hv. þingmenn á ég að sjálfsögðu erfitt með að ræða þessa skýrslu í heild sinni enda ekki búin að lesa hana í þaula. Þó vil ég segja að það sem ég hef lesið í henni gefur til kynna að við gerð hennar hafi verið vel að verki staðið. Ég veit það að margir, bæði almenningur, hv. þingmenn og fleiri, höfðu áhyggjur af því að hér mundi kannski verða einhvers konar „antiklímax“ þegar þessi skýrsla kæmi út, en ég held að við getum verið sátt við það að hér hefur verið vel að verki staðið. Sumir hafa sagt að hér sé ekkert nýtt á ferð. Ég er ekki sammála því. Þó að fjallað hafi verið um marga af þessum einstöku atburðum og einstöku staðreyndum má segja að það sé ákveðinn nýr sannleikur í því þegar allt er sett í samhengi, þegar heildarmyndin er dregin upp, sem er mjög lærdómsríkt, en líka kemur þar líka margt fram sem ekki hefur áður komið fram.

Mig langar sérstaklega að gera að umtalsefni í þessari stuttu ræðu 8. bindið þar sem er fjallað um siðferði og starfshætti í íslensku fjármálalífi, tengja það við umræðuna um gildi og gildismat, sem var áberandi fyrst eftir hrun en dofnaði kannski yfir þegar farið var að fást við efnahagsleg eftirköst hrunsins. Það er margt sem slær mann við lestur þessa rits sem var unnið af siðfræðinefndinni svokölluðu, Vilhjálmi Árnasyni, Salvöru Nordal og Kristínu Ástgeirsdóttur. Það sem kannski slær mann ekki minnst er það mat að reynsla skipti ekki máli því að við sjáum það að margir stjórnendur bankanna voru ungir menn, nýkomnir með háskólapróf, hugsanlega MBA-gráðu. Þeir höfðu svipaðan bakgrunn og ekki mikla reynslu af hefðbundnum bankastörfum. (Gripið fram í.) Þetta sýnir manni að það skiptir máli að meta reynslu, en í þessu hraða samfélagi og æskudýrkunarsamfélagi var kannski minna lagt upp úr reynslu en hefði mátt gera. Það vekur líka athygli manns að það sem áður voru taldir styrkleikar hins íslenska fjárhagskerfis, hin óformlegu samskipti, stuttar boðleiðir milli viðskipta og stjórnmála — þetta var talið upp sem styrkleikar íslensks fjármálakerfis, en um leið urðu þetta veikleikar þegar of langt var gengið. Það er því margt sem þarna situr eftir sem skiptir máli að ekki sé lokað inni í skýrslu sem þessari. Margt í allri skýrslunni tel ég að kalli á sérstakar umræður, ekki bara hér á þinginu heldur líka úti í samfélaginu.

Við uppsetningu á skýrslunni eru dregnir ýmsir lærdómar. Ég held að stjórnmálamenn geti þar dregið mikla lærdóma. Það þarf að draga skýrari mörk milli fjármálalífs og stjórnmála. Setja þarf skýrar reglur um styrki til stjórnmálamanna, gegnsæi í bókhaldi stjórnmálaflokka. Í þessu hefur auðvitað verið unnið á undanförnum árum í samvinnu flokka og það er vel. Það skiptir máli að við séum vakandi gagnvart þessu. Stjórnmálamenn og embættismenn þurfa að setja sér siðareglur sem draga fram og skerpa þá ábyrgð og þær skyldur sem felast í störfum þeirra. Efla þarf þá hugsun meðal stjórnmálamanna að starf þeirra er öðru fremur þjónusta við almannaheill. Skerpa þarf ákvæði um ráðherraábyrgð, svo sem með því að skýra upplýsingaskyldu ráðherra gagnvart Alþingi og ríkisstjórn. Enn fremur er rætt um að stórefla þurfi fagmennsku og vinnubrögð innan stjórnsýslu með vandaðri gagnafærslu og skýrari boðleiðum milli embættismanna og stjórnmálamanna.

Þetta eru auðvitað lykilatriði sem við stjórnmálamenn og embættismannakerfið þurfum að draga lærdóm af. Þegar hefur verið sett vinna í gang við að skoða starfshætti Stjórnarráðsins af hálfu hæstv. forsætisráðherra, en mér finnst líka mikilvægt að við ræðum um starfshætti Alþingis, starfshætti stjórnmálamanna og starfshætti stjórnmálaflokkanna. Eitt af því sem ég tók eftir í þessari skýrslu siðfræðinefndarinnar er að þar er kveðið á um að stjórnmálaflokkar þurfi að vanda betur til stefnumótunar svo að kjósendur átti sig betur á þeim valkostum sem þeir standa frammi fyrir, nokkuð sem manni finnst kannski að ætti að vera sjálfgefið en ætti þó að vekja mann til umhugsunar um umræðuna sem nú hefur verið áberandi um vantraust fólks almennt til stjórnmálamanna, stjórnmálastéttarinnar. Er þetta einn hópur eða eru hugmyndafræðileg mörk stjórnmálaflokka og hugmyndafræðileg staða hvers einstaks stjórnmálamanns, eru þau orðin óljós í hugum almennings? Það er a.m.k. niðurstaða skýrsluhöfunda sem mér finnst að við sem stjórnmálamenn þurfum að taka alvarlega og ræða og velta fyrir okkur.

Mig langar að nefna hér, því tíminn er skammur, sérstaklega það sem tengist málaflokkum sem varða mitt ráðuneyti. Ég nefni þátt fjölmiðla en þeir eru teknir sérstaklega fyrir í skýrslunni. Meðal annars er kveðið á um að styrkja þurfi sjálfstæði ritstjórna. Það eigi að vera skylt að upplýsa hverjir séu eigendur fjölmiðla á hverjum tíma svo að almenningur geti vitað hverjir eigi fjölmiðil og lagt mat á hvort þar sé fylgt fram sjónarmiðum eigenda og setja þurfi eignarhaldi á fjölmiðlum hófleg mörk. Koma þurfi á faglegu eftirliti með fjölmiðlum sem hafi það að markmiði að tryggja að þeir ræki af ábyrgð hlutverk sitt í lýðræðisríki og verndi almannahagsmuni. Flest þessi atriði koma fram í nýju frumvarpi um fjölmiðla. Það hefur nú svo sem verið gagnrýnt líka að fara eigi af stað með Fjölmiðlastofu en hún hefur þetta hlutverk m.a., að rækja eftirlit með því að fjölmiðlar sinni af ábyrgð hlutverki sínu í lýðræðisríki. Þar er líka kveðið á um ritstjórnarlegt sjálfstæði, að eignarhald verði upplýst og lagt til að farið verði í það að setja þverpólitískan hóp sem fari yfir takmarkanir á eignarhaldi.

Í skýrslunni er talað um háskólasamfélagið. Það er nokkuð sem við þurfum líka að taka til umræðu. Ég mun m.a. nýta næsta fund minn með rektorum íslenskra háskóla til að ræða þessar niðurstöður. Þar er m.a. rætt um þá hagsmunaárekstra sem geta falist í því að taka við styrkjum frá fyrirtækjum, kostunaraðilum, og vinna um leið að sjálfstæðum rannsóknum. Um þessa siðferðislegu klípu er fjallað í skýrslunni og ég held að það skipti miklu máli að ræða það opinskátt. Þó að fræðimenn þurfi ekki að láta kostunaraðila hafa áhrif á sig skapast auðvitað sú hætta nema skýrar siðareglur séu til staðar. Háskólar hafa tekið á þessu máli með ólíkum hætti. Ég held að það skipti miklu máli að draga það saman hvernig þeir hyggjast bregðast við þessari umræðu í skýrslunni.

Það er líka nefnt sérstaklega í skýrslunni að efla þurfi siðfræði eða menntun fagstétta á sviði viðskipta og hagfræði. Það tengist kannski þessari hugsun sem má ræða að við lifum í sérfræðingamiðuðu samfélagi. Það er ekki séríslenskt fyrirbæri, það er alþjóðlegt. Það er lögð áhersla á sérfræðikunnáttu en ekki hina breiðu, fjölfræðilegu þekkingu sem áður tíðkaðist. Höfum við kannski gengið of langt í sérfræðiþekkingunni? Höfum við misst af undirstöðunni sem hver og einn einstaklingur þarf að hafa, sama hvaða starfi hann sinnir, til að mynda hina siðfræðilegu þekkingu? Um þetta er líka rætt almennt hvað varðar skólakerfið. Ég held að það skipti miklu máli, þar sem við skoðum það í nýjum námskrám hvernig við getum eflt lýðræðisvitund, siðfræðilega vitund, gagnrýna hugsun — hvernig ætlum við að innleiða þessar hugmyndir? Ég þykist vita að flestir hér inni séu sammála um að það skipti máli að efla þessar hugmyndir í skólum landsins. Við sáum að í umfjöllun þjóðfundarins um menntamál stendur það upp úr að fólk kallaði eftir aukinni umræðu, þjálfun, rökfærniþjálfun eða rökræðuþjálfun og hinni gagnrýnu hugsun. En við þurfum að ræða það hvernig við ætlum að innleiða breytingar því að námskrá er góð svo langt sem hún nær. En til þess að innleiða þær breytingar sem þar standa þarf að fylgja þeim eftir. Þannig að við þurfum að læra margt, draga marga lærdóma af þessari skýrslu.

Mig langar að nota tækifærið að lokum að vitna í þann ágæta fræðimann Vilhjálm Árnason sem stýrði þessari siðfræðinefnd. Hann skrifaði ágæta grein sem birtist m.a. í Broddflugum, safnriti hans. Greinin heitir „Í leit að lýðræði“, af því þetta snýst mikið um það. Öll umræðan um skýrsluna hefur að mörgu leyti snúist um það fyrirkomulag sem við búum við. Við getum sagt: Við búum vissulega við lýðræðisfyrirkomulag. En höfum við ræktað lýðræðishugsjónina?

Eins og Vilhjálmur bendir á er lýðræði tvískipt. Það er annars vegar það fyrirkomulag sem við höfum á okkar stjórnarfyrirkomulagi, sem vissulega er lýðræðislegt, en höfum við ræktað hugsjónina sem er hinn þátturinn í því að gera lýðræðið að veruleika? „Því lýðræðið“, og nú vitna ég beint í Vilhjálm, með leyfi forseta, „hefur þá tilhneigingu að þróast í einangrað og fjarlægt vald fárra, atvinnustjórnmálamanna og embættismanna, sem stjórnast oft af allt öðrum hagsmunum en þeim sem kenna má við almannaheill og þjóðarvilja. Vinnubrögð í slíku lýðræði verða því ólýðræðisleg.“

Því velti ég fyrir mér hvort sé ekki fyrst og fremst hlutverk okkar sem hér sitjum, eða a.m.k. eitt af lykilhlutverkum okkar, að rækta hugsjónina um lýðræðið, ekki síður en fyrirkomulagið, hugsjónina um samfélagið sem vettvang frjálsra einstaklinga og samtaka þeirra sem skapa sér sameiginleg lífsskilyrði í samræmi við þekkingu sína, þarfir og möguleika á hverjum tíma. En sá skilningur kallar á (Forseti hringir.) látlausa leit að betri leiðum til að tryggja sjálfræði þegnanna um sameiginleg mál sín. Lýðræðið má aldrei leggja að jöfnu við tiltekin ferli og stofnanir, skapandi stjórnmál í lýðræðisríki eiga stöðugt að snúast um að efla lýðræðið, virkja vilja einstaklinga til að móta líf sitt og menningu.

Ég biðst afsökunar á að fara fram yfir tímamörk.



[12:51]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta ræðu. Hann talaði um háskólasamfélagið, í ljós hefur komið að allt þetta unga fólk sem kom út úr háskólunum hefur ekki haft nægilega mikla — hvað á ég að segja? — samfélagskennd eða siðferði til að vega og meta hvað er rétt og hvað er rangt. Spurning mín til hæstv. ráðherra er: Getur verið að háskólinn þurfi eins og Toyota að innkalla þessa gölluðu vöru þannig að þetta menntaða fólk fari í ákveðið siðfræðinám?

Ef ég tek dæmi. Þegar ég geng í Kringlunni er ég alltaf að hugsa um hvernig hitt fólkið gengur. Ég veð ekki beint áfram. Þetta heitir að taka tillit til annarra. Engar reglur eru um þetta. Það stendur hvergi í lögum eða reglum hvernig ég eigi að hegða mér í Kringlunni eða hvernig ég eigi að beygja svo ég velti ekki öllum um koll. Þetta geri ég alveg sjálfvirkt, þetta gera allir sjálfvirkt. En eitthvað virðist vanta upp á það að fyrirtækin sem störfuðu hér á Íslandi hafi tekið nægilega mikið tillit til umhverfisins. Eitthvað virðist vanta upp á menntunina. Menn virðast vera mjög góðir í því að reikna og meta áhættu og annað slíkt en ekki í þessu.

Svo vil ég benda á það að háskólasamfélagið þiggur gífurlega mikla styrki frá Evrópusambandinu og spurning hvort það hafi áhrif á aðild að Evrópusambandinu.

Svo vil ég spyrja hæstv. ráðherra, af því að hann tilheyrir nú Vinstri grænum. Hæstv. forsætisráðherra sagði fyrir nokkru, þetta er ekki grín, að það væri erfitt að stunda kattasmölun. Hvað var hæstv. forsætisráðherra að segja? Það er ekki nógu mikið flokksræði. Honum tekst ekki að beygja nógu marga ketti til að hlýða flokksaganum. Honum tókst að fá samþykkta aðildarumsókn að Evrópusambandinu þrátt fyrir að margir sem greiddu því atkvæði væru greinilega á móti því. Honum tókst einnig að samþykkja (Forseti hringir.) Icesave-samninginn.



[12:53]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta voru nokkrar spurningar. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal þessar spurningar.

Fyrst hvað varðar háskólasamfélagið þá efast ég um að hægt sé að innkalla prófin, ef svo má að orði komast, en hins vegar held ég að háskólasamfélagið verði að læra af þessu. Við höfum séð þróunina frá því sem var þegar allir tóku undirstöðuna í því sem var kallað heimspekileg forspjallsvísindi (PHB: Fílan.) eða fílan. Sú undirstaða hefur breyst. Að hluta til er það hluti af þeirri sérfræðivæðingu sem ég nefndi hér áðan, þ.e. fólk taldi sig ekki hafa þörf fyrir heimspekilega undirstöðu. Ég held að eitt af því sem við getum lært af þessari skýrslu sé að fólk hafi vissulega þörf fyrir slíka undirstöðu, þó ekki nema til að efla gagnrýna hugsun og siðferðisvitundina. Ég held hins vegar að það sé ekki nægilegt að við lærum þetta bara í háskólanum, við þurfum að læra þetta á fyrri stigum líka. Þar koma inn grunnskólarnir og leikskólarnir og framhaldsskólarnir, því þetta tengist náttúrlega öllu okkar daglega lífi.

Þó að fram hafi komið að mjög megi bæta lagaumhverfi um fjármálaumhverfi þá snýst vandinn líka um það að fólk hreinlega virti ekki lög og reglur og leit á þau sem hindranir sem væri sjálfsagt að reyna að finna leiðir fram hjá. Hvað segir það okkur um þetta samfélag?

Mér finnst þetta mál mjög alvarlegt, lagaramminn hefði þurft að vera skýrari og eftirlitsstofnanir öflugri til að sjá til þess að fólk fyndi þann lagaramma sem þó var og að ekki væri litið á þær sem óþolandi kvabb. Við þurfum líka að huga að þessu. Þetta tengist held ég almennri siðfræðikennslu langt niður úr.

Hvað varðar hins vegar styrkveitingar þá skiptir auðvitað máli á hvaða forsendum styrkir eru veittir. Þegar hv. þingmaður nefnir styrki frá Evrópusambandinu þá koma þeir yfirleitt úr rannsóknarsjóðum sem ekki er veitt úr á pólitískum forsendum eða af einstökum fyrirtækjum heldur (Forseti hringir.) samkvæmt jafningjamati. En ég kem nánar að því í seinna svari.



[12:56]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað gæti háskólinn innkallað prófin eins og Toyota gerði og sagt að menn þurfi að bæta sig á vissum sviðum. Hæstv. ráðherra svaraði ekki þessu síðasta um kattasmölunina, en hún talaði einmitt um að efla þurfi Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég held við höfum sjaldan upplifað annað eins og síðastliðin eitt eða tvö ár, eftir að þessi ríkisstjórn tók við, hvað mikið er um ólýðræðisleg vinnubrögð. Ég minni bara á skattalögin sem fóru hér í gegn gjörsamlega án umræðu, án samráðs við einn eða neinn. Ég minni á aðildarsamþykktina að Evrópusambandinu, eins og ég gerði hér áðan. Þetta er mjög hörð atlaga að lýðræðinu. Ef flokksræðið veldur því að lítill hluti í einhverjum flokki getur kúgað minni hlutann til að gera eitthvað, svo minni hlutinn í öðrum flokki geti kúgað meiri hlutann, þá getur verið að minni hluti Alþingis samþykki eitthvað sem meiri hlutinn er á móti.



[12:57]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég og hv. þm. Pétur Blöndal höfum verið sammála um eitthvað þá er það það að efla megi þingræðið, það á þó ekki bara við um síðasta eitt ár, að ég hygg, heldur hefur þetta verið langvarandi þróun hér á þingi. Ég vil minna á að síðastliðið ár hafa þó fleiri þingmannamál fengið brautargengi en allmörg ár þar á undan, þannig að við skulum nú ekki alveg (Gripið fram í.) horfa á þetta sem eitthvert svartnætti, heldur held ég að við öll, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, höfum mörg tækifæri til að efla þennan þátt.

Ég geri ekki mikið úr orðum um kattasmölun en hins vegar í þeirri grein eftir Vilhjálm Árnason, sem ég vísaði til áðan, liggur það fyrir að við þurfum alltaf að vera vakandi fyrir flokksræði sem og tækniræði eða tæknikratíu og fleiri tendensum eða tilhneigingum sem við sjáum almennt í lýðræðisfyrirkomulögum. Það á við um alla flokka, svo ég nefni það. Það á við um hvern þann flokk getum við sagt sem starfar lengi. Það er ávallt hætta (Forseti hringir.) á að flokkshagsmunir skipi of ríkan sess. Hins vegar held ég að þar beri hver og einn þingmaður auðvitað ábyrgð.



[12:58]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það voru örfá atriði í ágætri ræðu hæstv. menntamálaráðherra sem ég vildi staldra við.

Í fyrsta lagi vil ég velta því upp frekar en að spyrja, af því að ég las það úr orðum hæstv. menntamálaráðherra að hún hefði áhyggjur af því að það gæti skapað óeðlilega hagsmunaárekstra þegar háskóladeildir eða fræðimenn fá styrki frá fyrirtækjum. Ég hef velt því dálítið fyrir mér að undanförnu hvernig staðan er hjá óháðum fræðimönnum og hvort fræðimenn geta starfað óháð þegar þeir eiga hugsanlega mjög mikið undir viðamiklum störfum sem þeir vinna t.d. fyrir Stjórnarráðið. Við vitum að oft er leitað til háskólamanna til að vinna lagafrumvörp eða stýra nefndarstörfum eða annað þess háttar á vegum Stjórnarráðsins. Fyrir þetta fá þeir auðvitað borgað. Auðvitað er þetta yfirleitt þannig að verið er að leita eftir sérfræðiþekkingu þeirra. En hvaða áhrif hefur þetta á „óhæði“ þeirra, svo maður noti nú vont orð. Hvaða áhrif hefur það? Hefur það ekki sömu áhrif eins og þegar fyrirtæki styrkja fræðimenn, rannsóknir eða háskóladeildir?

Annað atriði sem ég vildi nefna vegna þess að hæstv. menntamálaráðherra nefndi siðareglur fyrir Stjórnarráð og stjórnmálamenn og annað þess háttar. Ég held að í bönkunum hafi til dæmis ekkert vantað siðareglur. Þær voru til, fínar siðareglur og litu mjög fallega út. Bankarnir störfuðu eftir alls konar háleitum markmiðum um samfélagslega ábyrgð. Þetta var allt til á prenti. Það var ekki það sem vantaði. Það er ekki það sem vantar í Stjórnarráðið að sett séu einhver háleit markmið. Það er viljinn til að fara eftir slíkum reglum sem skiptir máli.



[13:00]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég grípi seinni ábendingu hv. þm. Birgis Ármannssonar um siðareglur, það er alveg rétt að siðareglur eru náttúrlega til lítils ef þær eru bara orðin tóm eða orð á blaði. Eitt af því sem vakti athygli mína er að rætt hefur verið um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. Einn af þeim lærdómum sem lesa má um í þessari siðferðisskýrslu er að það stendur mjög lítið eftir af þeirri meintu samfélagslegu ábyrgð sem bankarnir sýndu. Samfélagslega ábyrgðin fólst í fjarstyrkjum til einstakra góðgerðarfélaga, íþróttafélaga, menningarstarfsemi en hún beindist ekki að samfélaginu sjálfu og það er hluti af þeim vanda sem nú er við að etja. Hins vegar held ég að siðareglur byggi á því að um þær fari fram umræða. Þær snúast ekki um að einhver setji öðrum reglur eða festar séu reglur á blaði eða þær pantaðar hjá siðfræðingum úti í bæ (Gripið fram í.) heldur snúast þær um að um þær fari fram umræða. Það er t.d. eitt af því sem ég held að megi ræða af því að í skýrslunni kemur líka fram að bankarnir voru mjög öflugir við að styrkja nemendafélög framhaldsskólanna. Styrkjunum fylgdi þá jafnan að t.d. samhliða miðasölu á böll sætu fulltrúar bankanna og seldu nemendum kreditkort. Er ekki ástæða til að framhaldsskólarnir, og þá er ég að vísa í nemendur, kennara og skólameistara, ræði þetta? Ég er ekki viss um að það sé endilega hæstv. menntamálaráðherra á hverjum tíma eða þingið sem eigi að setja einhverjar reglur heldur er mikilvægt að skólarnir ræði þetta, taki þetta til umræðu og setji sér reglur. Þó að reglunum sé ekki fylgt skapa þær ákveðin viðmið og um þær þarf að fara fram umræða. Að því leyti er ég ekki sammála hv. þingmanni. Ég tel að reglur geti skipt máli ef undan fylgir umræða.

Hvað varðar hagsmunaárekstrana liggur það alveg fyrir og ég hef velt því fyrir mér: Þurfum við að gera skýrari skil milli háskólasamfélags annars vegar og hins vegar stjórnsýslunnar og fyrirtækjamarkaðarins? Ég tel að það sé eitt af því sem þurfi að ræða.



[13:02]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. menntamálaráðherra má ekki skilja það svo að ég telji að það sé alveg þýðingarlaust að menn ræði og setji sér siðareglur. Hins vegar vara ég við oftrú á slíkum lausnum. Ég vara við oftrú á því að menn telji að með því að setja saman einhver háleit markmið og fögur orð, einhver „manifesto“ sem eiga að lýsa óskaplega lýðræðislegum hugsunarhætti, vinnubrögðum og faglegum þáttum, ég vara við því að menn láti sér það nægja að tala hástemmt um slíka hluti en praktísera svo eitthvað allt annað. Því miður, og þar verð ég að vega að hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórninni, finnst mér að núverandi ríkisstjórn hafi einmitt gert þetta. Það er mikið tal um háleit markmið, um lýðræði og um fagleg vinnubrögð og hvað það allt heitir, en í praxís er því í engu fylgt. Það er bara böðlast (Forseti hringir.) áfram með yfirgangi en hin háleitu markmið (Forseti hringir.) eru bara eitthvað til að skreyta sig með á tyllidögum.



[13:04]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki tekið undir það að ég sé að böðlast yfir hv. þingmann með nokkrum yfirgangi. Til að mynda í þeirri umræðu sem ég fór með og snerist m.a. um fjölmiðla liggur fyrir að þar hefur farið fram umræða og liggur líka frammi frumvarp sem núna er til umræðu í hv. menntamálanefnd. Ég sé hreinlega ekki yfirganginn í því að ræða hlutina og setja þá í sinn eðlilega, þinglega farveg og það er það sem ég held að þessi ríkisstjórn hafi reynt að gera og ég held að það skipti miklu einmitt í umræðu um svona mál að við reynum að láta hvert annað njóta sannmælis fyrir það sem við þó erum að gera.

Hvað varðar reglur er það alveg rétt að hástemmd orð duga ekki til en ég minni á að hugsjónin er samt það sem skapar praxísinn. Lýðræðislegt fyrirkomulag hefur verið haft hér og við getum öll verið sammála um það. En höfum við haft þessa hugsjón um lýðræðið að leiðarljósi í öllum okkar verkum? Ég er ekki viss um það og það á vafalaust við um ýmislegt í stjórnarháttum sem má laga. En ég lít svo á að hvert og eitt okkar geti (Forseti hringir.) aukið þessa lýðræðislegu stjórnunarhætti með framgöngu og það þýðir ekki annað en við þurfum að taka umræðu um það hér á þingi.



[13:05]
Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. menntamálaráðherra og lýsi yfir ánægju minni með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis en ég varð þó fyrir vonbrigðum þegar ég las einn undirkaflann í skýrslunni sem fjallar um þátt háskólasamfélagsins. Ástæðan er sú að fókus þess kafla er algerlega á Háskóla Íslands og lítið sem ekkert er fjallað um atvinnulífsskólana, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Bifröst sem lögðu sérstaka rækt við að afla fjár frá atvinnulífinu til þess að fjármagna m.a. innréttingar í kennslustofur, kennslunámskeið, kennslu starfsmanna lánastofnana við þessa háskóla og einstakar stöður í þessum skólum, svo ekki sé minnst á skýrslugerð um oft og tíðum þau sömu fyrirtæki sem veittu styrki.

Ég vil því hvetja hæstv. menntamálaráðherra til að láta skoða nánar þá starfshætti sem viðgengust í þessum tveimur háskólum á útrásartímabilinu til að tryggja að þessir skólar læri af þeim mistökum sem voru gerð á þessu tímabili og jafnframt til að tryggja það að þessir skólar ásamt Háskóla Íslands veiti bestu menntun sem völ er á.



[13:07]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa athugasemd. Hins vegar er farið yfir alla háskólana út frá styrkjum sem þeir þáðu frá fjármálastofnunum, þ.e. Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst og Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Aðrir virðast ekki koma fram í þessum tölum. Síðan má rökstyðja að það er kannski fjallað sérstaklega um Háskóla Íslands en þó koma aðrir háskólar við sögu. Ég tek undir það með hv. þingmanni að þetta þarf að ræða í öllu háskólasamfélaginu því að ef við eigum að skoða hagsmunatengsl snýst það ekki aðeins um styrkveitingar sem þessar heldur líka um eignarhald og hvaða áhrif það getur haft á starfsemi háskólans, eins og hv. þingmaður nefnir. En það þarf líka að skoða hvernig innra starf háskólanna rímar við hlutverk þeirra í samfélaginu. Eitt af því sem ég hjó eftir í þessari skýrslu er sá lærdómur sem nefndur er: „Hvetja þarf háskólamenn til að sýna samfélagslega ábyrgð svo sem með þátttöku í opinni umræðu á fræðasviði þeirra.“

Hér kemur fram af hálfu fjölmiðla sem hafa iðulega rekið sig á það, segir í skýrslunni, að „fræðimenn á sviði lögfræði, hagfræði og viðskiptafræði vildu ekki tjá sig um álit í viðskiptum, sumir af því að þeir voru í vinnu fyrir viðskiptablokkirnar, aðrir af því að þeir óttuðust neikvæð viðbrögð við gagnrýni“. Þetta hlýtur að vera eitthvað sem við hljótum að taka til skoðunar í öllum háskólum í framhaldinu og hvernig þessum málum er háttað og hvernig við getum hvatt til þess að háskólarnir sem eiga að vera hið gagnrýna afl samfélagsins sinni því hlutverki sínu og innri reglur þeirra og ytri umgjörð stuðli að því að þeir geti sinnt þessu hlutverki sínu.



[13:09]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, afskaplega merkilegt plagg sem hefur að geyma mjög mikið af upplýsingum. Þótt ég hafi ekki lesið nema pínulítið brot af öllu þessu magni sýnist mér og er farinn að trúa því að þetta sé mjög góð skýrsla, hún sé áhugaverð, hún sé áhugaverð til aflestrar og hún sé beitt. Þessi skýrsla er ekki til málamynda, eins og margir óttuðust. Þetta er mjög beitt skýrsla og hún hlífir ekki. En við þurfum að nota þessa skýrslu. Í fyrsta lagi þarf að nota hana til að sækja þá til saka sem brotið hafa lög, mjög mikilvægt, og það þarf að gerast hratt. Þetta má ekki dragast of lengi. Síðan þurfa menn að sjá hvar þeir gerðu mistök og þeir sem gerðu mistök þurfa að gangast við því eða verja sig og biðjast afsökunar þótt þeir hafi ekki brotið lög. Svo þurfa allir Íslendingar að læra af þessari skýrslu, læra hvernig við þurfum að breyta reglum og lögum þannig að þetta komi ekki fyrir aftur.

En það er meira, frú forseti. Þetta eru líka mjög mikilsverð gögn og skýrsla fyrir allan umheiminn, gífurlegur fróðleikur, undirliggjandi gögn eru mjög verðmæt vegna þess að á Íslandi gerðist það sem hrjáir nú allan heiminn. Það er nefnilega þannig. Segja má að mikil undiralda sé í heiminum, ill undiralda, og hún brotnaði á Íslandi. Þess vegna eru þessi gögn mjög verðmæt fyrir alþjóðasamfélagið. Ég vona að það muni uppgötva hversu mikil verðmæti liggja í þessari skýrslu vegna þess að um allan heim er í gangi ákveðin þöggun, ekki bara hér, þöggun um vandamál banka og fjármálakerfa.

Okkar ábyrgð er mikil, við erum með þrískiptingu valdsins; dómsvaldið, framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið, og allir þessir aðilar þurfa að horfa í eigin barm. Ég ætla að horfa á Alþingi þar sem ég er þátttakandi og ég ætla að biðja þjóðina afsökunar á óvandaðri lagasetningu hér á Alþingi og ég ætla að nefna dæmi um það.

Ég ætla að byrja á því að nefna ræðu sem ég hélt 30. október 2008, þ.e. þrem vikum eftir hrun. Þá segi ég, með leyfi frú forseta, að „það sem kannski olli mesta vandanum var krosseignarhald, áhættutaka banka og ríkissjóðs, fyrirtækja og einstaklinga. Áhættugleðin var höfð í öndvegi. Gamlar dyggðir eins og ráðdeild og sparsemi, öryggi og lítil áhætta voru sem sagt gleymdar“. Síðan áfram: „Ég ætla ekki að skorast undan ábyrgð. Ég sem þátttakandi í að semja þessi lög sem hafa brugðist ber vissulega ábyrgð á þessari stöðu. Ég ber líka ábyrgð á því að hafa ekki minnt nægilega mikið á þessar gömlu dyggðir og ekki staðið nógu ákveðið gegn því sem ég sá vera afleiðingar af gagnkvæmu eignarhaldi þannig að ég skorast ekki undan ábyrgð, alls ekki.“ Þetta sagði ég. Síðan segi ég stuttu seinna í andsvari: „Ég hygg að þegar öll kurl verða komin til grafar og rykið hefur sest sjái menn betur þau mistök sem gerð hafa verið.“ Og nú er sá tími kominn, frú forseti. Rykið hefur sest og ég minnti á að ég hélt fund sem formaður efnahags- og skattanefndar um gagnkvæm eignartengsl í fyrirtækjum og félögum, með fulltrúum Fjármálaeftirlitsins, Samtökum fjárfesta, Kauphöll Íslands og Indriða H. Þorlákssyni sem þá var ríkisskattstjóri, þann 1. mars 2005. Sem sagt, vel þrem árum fyrir hrun. En því miður áttaði ég mig ekki á því hversu mikil hætta var fólgin í þessu og það eru mín mistök.

Ég ætla að fara í gegnum ákveðið dæmi, sem eru lög nr. 35/1997, afskaplega ómerkileg, frú forseti. Í 8. gr. segir, tvær línur: „Ákvæði 1.–2. málsliðar eiga þó ekki við um kaup starfsmanna félagsins eða tengds félags á hlutum eða kaup á hlutum fyrir þá.“

Þarna var opnað fyrir krana sem olli því að Íslendingar fóru að tala um milljarða í staðinn fyrir milljónir og þúsund milljarða í staðinn fyrir þúsund milljónir. Um þessa grein stendur: „Hið nýja ákvæði er sett með hliðsjón af 2. mgr. 23. gr. 2. félagsréttartilskipunar“ — þ.e. Evrópusambandsins. Þannig var nú það. Síðan mælir hæstv. viðskiptaráðherra Finnur Ingólfsson fyrir þessu frumvarpi og nefnir það að þetta sé að kröfu Eftirlitsstofnunar EFTA.

Um þetta mál var engin umræða. Ráðherrann hélt þarna hálfrar síðu ræðu og enginn tók til máls. Frumvarpinu var vísað til nefndar, nefndin skilaði áliti og það voru sjö línur, sagt að gestir hefðu komið o.s.frv. og smáathugasemdir um allt aðra grein. Undir þetta nefndarálit rituðu hv. þm. Ágúst Einarsson, Valgerður Sverrisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Pétur H. Blöndal, Sólveig Pétursdóttir, Einar Oddur Kristjánsson og Þóra Sverrisdóttir. Það er á þessari undirskrift sem ég ætla að biðjast afsökunar, frú forseti, vegna þess að þetta var ekki unnið í nefndinni vegna þess að það kom frá EFTA. Síðan heldur framsögumaðurinn ræðu. Hún er jafnstutt og ekkert er rætt um þetta.

En hvað var að gerast þarna, frú forseti? Það var verið að opna heimild til þess að hægt sé að lána starfsmönnum til kaupa á hlutum í hlutabréfum, þ.e. peningarnir fóru í hring og ég ætla að undirstrika það: Það er stóra hættan. Það munaði ekkert um það hvort starfsmaður fékk 100 milljónir, 1.000 milljónir eða 2.000 milljónir, það breytti engu. Og það sem meira var, eiginfjárstaða bankans óx vegna þess að lánin taldi hann til eignar, en hlutabréfin teljast ekki til skuldar í hlutafélögum.

Frú forseti. Í Fréttablaðinu í gær kemur fram að enginn gekkst við ábyrgð. Þar er haft eftir Páli Hreinssyni, formanni rannsóknarnefndarinnar, á blaðamannafundi:

„Það gekkst enginn þeirra við ábyrgð“, spurður um þá stjórnendur sem komu fyrir nefndina. Í allt gáfu 147 manns skýrslu. Það gekkst enginn við ábyrgð. Það hrynur heilt kerfi, heilt þjóðfélag hrynur, og það er bara engum að kenna og það er ekkert að gerast. Það er enginn ákærður eða neitt. Mér finnst mjög mikilvægt að menn séu vakandi yfir því hvað er að gerast. Það er þetta hringstreymi fjár sem gerist með krosseignarhaldi, raðeignarhaldi og lánum fyrir kaupum á hlutabréfum sem geta verið mjög löng keðja og það er einmitt vandinn við þetta. Ég færði rök fyrir því í frumvarpi sem var dreift fyrir tveim vikum, í fylgiskjali I, að það er veila í hlutabréfaforminu sjálfu. Hlutabréfaformið, sem er svo flott til að takmarka áhættu einstaklinga í hlutafélögum, bregst þegar hlutafélög fara að kaupa í hlutafélögum eða stofna hlutafélög, að maður tali ekki um þegar þau stofna langa keðju. Ég nefni dæmi um hvernig hægt er að búa til risastóra keðju þar sem ekkert fjármagn er inni en hún sýnist hafa eigið fé og að vera óháð og þess háttar. Ég skora á hv. þingmenn að lesa þetta fylgirit I og fara í gegnum þau dæmi sem þar eru.

Ég las siðferðiskafla skýrslunnar eða byrjaði á því, frú forseti, og er nú ekki langt kominn. Þar er fjallað um siðferði og það er mjög gott. Það reyndar gleymast tveir stórir þættir á ábyrgð. Íslensku bankarnir fengu nefnilega matið AAA, kallað „triple A“ á ensku, sem er besta mat sem nokkur banki getur fengið. Hvernig í ósköpunum stóð á þessu? Þetta mat gilti þangað til vorsins 2007, þá voru íslensku bankarnir með langbesta mat í heiminum. Hvaða ábyrgð bera þessir aðilar? Ég spyr enn fremur: Hvað voru kjánarnir að hugsa sem lánuðu kjánunum 12.000 milljónir, 40 milljónir á hvern Íslending, tvöfalt allar eignir Íslendinga? Ég vil segja að þessir aðilar báru líka ábyrgð. Því miður kemst ég ekki lengra, frú forseti, ég ætlaði að tala um haghafa og hluthafa o.s.frv. en ég kemst ekki lengra að sinni og bið forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.



[13:19]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal kærlega fyrir ræðu hans, því að eins og oft áður erum við á svipuðum slóðum í málflutningi úr þessum ræðustól. Þingmaðurinn hefur setið hér í nokkur kjörtímabil og er þegar, eins og ég sem er búin að vera í ár, búinn að átta sig á að það brast margt í löggjöfinni sem Alþingi setti í aðdraganda bankahrunsins og árin á undan.

Ég fór í ræðu minni í gær aftur til ársins 1994, til að hafa einhvern byrjunarreit, þegar við gengumst undir EES-samninginn. Þar fór ég yfir það að Alþingi var ekki á nokkurn hátt styrkt, hvorki faglega né fjárhagslega, til að taka við öllum þeim reglugerðum sem Evrópusambandið sturtaði yfir löggjafann á Íslandi eftir að við gengumst undir þann samning og svo er ekki enn.

Þó nokkuð margir mánuðir eru liðnir frá hruni og það hefur ekki neitt breyst í lagasetningu á Alþingi. Það er eins og stjórnsýslan hafi gleymt því að Alþingi er þjóðkjörið og Alþingi setur lögin og svo kemur framkvæmdarvaldið og stjórnsýslan undir. Enn er það svo eftir hrun að framkvæmdarvaldið setur sig skör hærra en löggjafarvaldið og þess vegna fór sem fór. Daginn fyrir skírdag kom framkvæmdarvaldið með tæp 50 mál til afgreiðslu í þinginu sem á að afgreiða. Framkvæmdarvaldið er enn að segja löggjafarvaldinu fyrir verkum.

Mig langar að spyrja þingmanninn í framhaldi af þessum hugleiðingum mínum: Er hann ekki fyrir hönd síns flokks tilbúinn til að ganga þá leið með mér og Framsóknarflokknum að gera allt sem við getum til að bæta lagasetningu til að fá aukið fjármagn til Alþingis og til að styrkja lagasvið Alþingis til að við getum snúið af þeirri óheillabraut sem kom okkur þangað sem við erum?



[13:22]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Reyndar hnaut ég um eitt sem hún sagði, sem mér þótti slæmt, hvort ég sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins vildi ræða eitthvað. Ég tala hérna sem ég sjálfur. Ég er ekkert að skuldbinda einn flokk eða neitt slíkt. Ég hef nefnilega margoft varað við flokksræðinu, einmitt því hef ég varað við. Flokksræði þar sem einhverjir örfáir ákveða og hjörðin, sauðirnir, fylgja. Það eru of fáir „kettir“, svo maður taki þá líkingu. Þetta er stórhættulegt. Þá getur það gerst að eitthvað er samþykkt á Alþingi þó að í reynd sé stór meiri hluti á móti því. Ég minni aftur á umsóknina um Evrópusambandið og samþykkt Icesave-samningsins, þar björguðu reyndar nokkrir hugrakkir kettir því að þjóðin sæti uppi með Icesave núna — og hér gengur einn fram hjá.

Ég tel mjög brýnt að Alþingi taki til sín samningu laga. Ég er margbúinn að benda á það að þegar sérfræðingarnir úti í bæ, meira að segja aðilarnir sem framkvæma lögin, Samkeppnisstofnun og skatteftirlitið, eru að semja lög til að smíða vopn í hendurnar á sér er slíkt stórhættulegt. Alþingismenn eiga að semja lögin. Við erum núna eiginlega í einhvers konar endurskoðunarhlutverki, að kíkja á hvernig lögin virka, en hugmyndafræðin er úti í bæ. Þar eru lögin samin og við þurfum að rökstyðja allar breytingar sem við gerum á lagafrumvörpum en þeir ekki sem sömdu þau. Þess vegna verðum við að taka löggjafarvaldið til okkar inn í Alþingi, við erum með fjárveitingavaldið. Við getum ráðið þetta sama fólk hingað sem vinnur þá í okkar þágu en ekki í þágu þeirra sem framkvæma lögin. Ég tel að þetta væri mjög brýn breyting og ég skora á hv. þingmann, sem þingmann, að vinna með mér að því.



[13:24]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bið hv. þingmann afsökunar á þeim orðum ég sagði, að hann væri fulltrúi einhvers flokks á Alþingi, ég veit það fullvel sjálf að við erum fyrst og fremst fulltrúar þjóðarinnar. Ég tók svona til orða kannski vegna þess að þetta hefur verið svo lengi með þessum hætti. En svo sannarlega er ég sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal, við erum hér sem einstaklingar og við skulum akkúrat fylgja skoðun okkar, og hann fór yfir það í andsvari sínu hvað hjarðhegðun þingmanna og flokksræði undanfarinna ára hefur leitt yfir okkur.

Varðandi það að Alþingi taki aftur löggjafarvaldið til sín, það er löngu orðið tímabært, og raunverulega væri það skoðunarefni fyrir sagnfræðinga og lögfræðinema að skoða, kanna og rannsaka þá þróun sem hefur leitt til þess að löggjafarvald Íslendinga er komið út í bæ. Það er alveg hreint með ólíkindum, og ég áttaði mig hreinlega ekki á því fyrr en ég tók sæti sjálf sem þingmaður, hvað Alþingi er raunverulega orðin máttlaus stofnun gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég gerði það að gamni mínu í morgun að athuga með fjárveitingar annars vegar til löggjafans og hins vegar til reksturs ráðuneyta og þá er ég að tala um skrifstofur ráðuneytanna. Ég minni á að í tíð Samfylkingarinnar frá 2007 og fram að hruni uxu ráðuneytin um 32–40%, samfylkingarráðuneytin. Þetta eru óhuggulegar staðreyndir. Löggjafarvaldið hefur á fjárlögum tæpa 2 milljarða á meðan skrifstofur ráðuneytanna hafa 5 milljarða. Hvernig á svo óburðugt Alþingi að geta starfað og sett einhver lög af viti? Ég nefndi það í ræðu minni í gær að hér hefði verið stunduð kranalagasetning, þingmaðurinn talaði um það líka, því að það er engu líkara. Ég hef orðið vitni að því í vinnu minni á nefndasviði í þeim nefndum sem ég sit að það koma fullsmíðuð frumvörp inn í þingið og raunverulega hafa þingmenn ekkert um þau að segja út af þeirri ríku hefð að hér hafa um ómunatíð, með örfáum undantekningum, verið meirihlutastjórnir sem geta knúið frumvörp í gegnum þingið og gert að lögum, (Forseti hringir.) jafnvel þó að þau standist ekki stjórnarskrá eða fari í bága við alþjóðasamninga og önnur lög.



[13:26]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú kynni einhver að halda þar sem ég og hv. þingmaður erum bæði í stjórnarandstöðu að það sé eitthvert stjórnarandstöðumein að vilja semja lög. En þá vil ég benda á að þegar ég studdi ríkisstjórn, þau 18 ár sem Sjálfstæðisflokkurinn var þar og af þeim var ég í 14, var ég með sömu ræðuna og ég held núna, þannig að það hefur ekki breyst. Ég sá nefnilega sömu veiluna þegar ég var í stjórnarliði og ég sé núna sem stjórnarandstæðingur.

Við eigum að semja lög. Nefndirnar eiga að fá tilefni eða beiðni frá einstaklingum, fyrirtækjum, samtökum og ráðuneytum um að flytja breytingartillögur eða breyta lögum í þessa og þessa veruna. Síðan eiga nefndirnar að taka ákvörðun um hvort þær vilji semja um þetta frumvarp. Þegar nefnd hefur samið frumvarpið fer það til Alþingis í umræðu og er síðan sent til ráðuneyta og annarra til umsagnar hvernig gengur að framkvæma þetta. Núna er þetta öfugt, hv. þingmenn eru í nefndunum að kanna hvernig gengur að framkvæma lögin. Þeir eru ekki framkvæmdarvaldið, þeir eiga að semja lögin sem síðan á að senda til umsagnar til ráðuneyta og stofnana, eins og gert er í dag. Reyndar eru þau ekki send til ráðuneyta því að ráðuneytin semja frumvörpin sjálf og spyrja hvernig gengur að framkvæma þetta. Þá kæmi gagnrýni á það, að þetta sé ekki hægt að framkvæma svona eða að einhver segir, þetta brýtur stjórnarskrá o.s.frv. (Gripið fram í: Lagaskrifstofa?) Til dæmis lagaskrifstofa eða eitthvað slíkt, það er ekki spurning um nafn heldur bara spurning um framkvæmd. Svona sé ég þetta fyrir mér, að Alþingi færi virkilega að semja þau lög sem hér eru afgreidd þannig að þetta yrði alvörulagasetning, alvörulöggjafi en ekki einhver endurskoðunarstimplun á lögum sem samin eru í ráðuneytum og stofnunum sem eiga að framkvæma lögin.



[13:28]
Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Um miðjan febrúar 2008 birtist grein í Viðskiptablaðinu undir yfirskriftinni „Rógur um íslenska markaðinn“. Þar er gagnrýndur sá tónn sem á þeim tíma var í erlendum fjölmiðlum gagnvart íslensku bönkunum. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Öldurótið hefur einnig verið mikið á fjármálamörkuðum um allan heim. Íslenski markaðurinn hefur ekki farið varhluta af því. Undanfarið hafa neikvæðar væntingar einkennt markaðinn, það hefur verið spenna á lánamarkaði, aðgengi að fjármagni hefur versnað til muna og tryggingarálag íslensku bankanna hefur hækkað gríðarlega. En í ofanálag hafa bankarnir þurft að sæta því sem nærri má kalla róg um starfsemi sína. Tökum dæmi af Sunday Times á dögunum. Þar eru breskir sparifjáreigendur varaðir við því að leggja háar fjárhæðir á netsparireikninga Landsbankans og Kaupþings. Auðvitað hafa svona fréttir neikvæð áhrif á gengi fyrirtækja. Með þessu er ekki verið að kvarta undan réttmætri gagnrýni.“

Þegar þetta var skrifað voru 236 dagar þangað til bankarnir komust í þrot með skelfilegum afleiðingum. Allt fram á þennan dag höfum við staðið í óstjórnlegu stríði vegna afleiðinga netreikninga Landsbanka Íslands í Bretlandi og Hollandi. Áhrifin af áfalli bankanna hefur reynst íslensku þjóðarbúi gríðarlegt og þessi grein sem ég vitnaði til í Viðskiptablaðinu er dæmi um þá umræðu sem var í þjóðfélaginu á þessum tíma. Það var grunleysi um raunverulega stöðu bankanna, ófullnægjandi upplýsingar og almenn vissa fyrir því að allt væri með felldu í fjármálakerfinu. Umræður í stjórnkerfinu, fjölmiðlum og kaffistofum einkenndust af trú á því að allt færi vel. Höfundur þessarar greinar sem ég vitnaði til er ég sjálf og ég ætla að segja það alveg eins og er að það fór nokkuð um mig að lesa hana núna á umliðnum dögum vegna þess að ég hef í kjölfar rannsóknarskýrslunnar, auk þess að kynna mér yfirborð hennar rétt aðeins vegna þess að tímans vegna hefur ekki verið tækifæri til að lesa hana gaumgæfilega, ákveðið að skoða í leiðinni þær umræður sem höfðu verið á árunum 2007 og 2008 og jafnvel fyrr. Ég taldi ágætt að byrja á sjálfri mér og þess vegna las ég þessa grein.

Skýrslan sem nú liggur fyrir er auðvitað umfangsmikið verk og hana þarf að rýna og hana þurfum við að taka alvarlega. Af henni þurfum við að læra og við þurfum líka að skilja það sem í henni stendur. Við þurfum að skilja þá atburði sem áttu sér stað innan bankanna sem ég hygg að mörgum okkur hafi þótt mun ískyggilegri en við sjálf hugðum í aðdraganda skýrslunnar. Við þurfum líka að skilja hvernig íslenskt samfélag er vaxið og við þurfum að átta okkur á því af hverju þetta gerðist og draga af því lærdóm og við þurfum líka að gera okkur grein fyrir að því að því miður hefur ekkert endilega svo óskaplega margt gerst eftir hrunið þrátt fyrir allt. Skýrslan varpar nefnilega ljósi á veikleika fámenns samfélags þar sem nálægðin er svo mikil að hún getur jafnvel sannfært menn enn betur um að allt sé í betra lagi en annars staðar, þar sem orð eru tekin trúanleg þegar gögn vantar, þar sem kunningjasamfélag og vinátta getur haft bein áhrif á ákvarðanir manna. En hún varpar líka ljósi á átök manna í milli og þau áhrif sem slík átök geta haft á skoðanir manna sem geta þess vegna myndast á vettvangi heilu stofnananna eða fyrirtækjanna eða hvað þá heldur það er. Þetta er dálítið einkenni á íslensku samfélagi sem hefur verið um langa langa hríð og margt af þessu hefur okkur þótt það besta á Íslandi og hvað við erum fá en kannski hefur þarna, við þá atburði sem þarna urðu, birst fyrir okkur nokkuð sem er hin hliðin á þeim peningi.

En ekki síst varpar skýrslan ljósi á það ótrúlega ætlunarverk íslensku fjármálastofnananna að ætla sér að kenna erlendum fjármálamörkuðum, sem margir hverjir eru mörg hundruð ára gamlir, hvernig fara skuli að og á tímabili virtist það ganga ótrúlega vel á erlendri grund að sýna fram á þessa snilli. Við getum tekið dæmi af enska fjármálakerfinu sem er mörg hundruð ára gamalt og þar hafa tíðkast mjög öguð vinnubrögð. Ég er ekki frá því, og nú vil ég taka það fram að umræða af þessu tagi núna getur ekki verið annað en nokkuð á yfirborðinu þegar eftir er að rýna efni skýrslunnar, en það er a.m.k. alveg ljóst að sá agi sem þekkist á slíkum þróuðum mörkuðum var ekki fyrir hendi hér og á tímabili þótti það vera merki um þrótt íslenska kerfisins að það væri svo fljótt að bregðast við, það væri svo dínamískt, og þess vegna væru menn að ná þessum mikla árangri. En með sama hætti reyndist það verða það sem að lokum felldi íslensku bankana og sendi reikninginn hingað heim.

Alþingi Íslendinga hefur auðvitað, eins og fram kom hjá hv. þm. Pétri Blöndal, lagasetningarvaldið og hafði auðvitað lagasetningarvaldið á þessum tíma og samþykkti þau lög sem þarna er um að tefla. Ég hef verið nokkuð hugsi yfir því, ekki bara út af þessari skýrslu heldur einnig vegna þeirra atburða sem hér hafa verið á undangengnu ári, deilur vegna Icesave-mála og ýmissa slíkra hluta, að Alþingi verður auðvitað sjálft að fara að viðurkenna og taka sér það vald sem það hefur, það vægi sem það hefur í þrískiptingu ríkisvaldsins verða alþingismenn að gera sér grein fyrir og virða. Við þurfum að gera það sjálf. Við þurfum að átta okkur á að það erum við sem setjum þá umgjörð sem framkvæmdarvaldinu er ætlað að starfa eftir og það er líka okkar að fylgjast með því og hafa á því sjálfstæðar skoðanir og gera breytingar ef við teljum að sú umgjörð sé ekki fullnægjandi.

Í áranna rás, og e.t.v. er þetta mjög gamalt, hefur það verið svo að Alþingi hefur kannski verið um of á hliðarlínunni þegar til þessara hluta er horft og ég hygg að það sé mjög dýrmætt fyrir Alþingi núna að skoða stöðu sína, bæði gagnvart framkvæmdarvaldinu og eins gagnvart því þjóðfélagskerfi sem hér er uppi og grípa þá til viðeigandi ráðstafana þegar á þarf að halda. Ég get tekið dæmi um Evrópusambandsaðildarferlið í fyrrasumar. Þá var ákveðið af hálfu utanríkismálanefndar að Alþingi skyldi hafa mikið um það að segja hvernig því máli öllu yndi fram. Það er skrifað í nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar að Alþingi hafi miklu hlutverki að gegna þegar kemur að aðildarviðræðunum og að fylgjast með því. Spurning mín núna er sú: Höfum við alþingismenn verið að velta því sérstaklega fyrir okkur núna hvað stendur í því nefndaráliti og hvað við ætluðumst til að yrði gert þegar það nefndarálit var samþykkt af þeim meiri hluta sem það gerði? Ég held að í því efni t.d. hafi það skipt verulegu máli fyrir marga þá þingmenn sem studdu aðildarviðræðurnar að það var skrifað í nefndarálitið að Alþingi skyldi hafa eitthvað um málið að segja, en það þýðir líka að þeir hinir sömu alþingismenn og aðrir verða auðvitað að taka sér það vald sem þar var samþykkt og þar held ég að liggi nokkuð vandi Alþingis, ég held að hann liggi dálítið þar. Mér fyndist mjög athyglisvert, ef við alþingismenn gætum reynt að lesa þessa skýrslu dálítið með þeim augum, hvaða lærdóm við getum dregið af þessu eða ætlum við bara að lesa skýrsluna og segja: Já, ég er nú kannski á því að þetta hafi ekki mikið breyst — og gera síðan ekkert meira í málinu? Ég held að það muni ekki verða nokkuð sem við ættum að sætta okkur við við þær aðstæður sem hér eru.

Ég býst við að margir þættir muni síðan verða ræddir í framhaldi af útkomu þessarar skýrslu. Við skulum gera okkur grein fyrir því að þetta er aðeins einn liður í þessu stóra máli, það eru rannsóknir sem nú eiga sér stað á þætti forsvarsmanna bankanna og það mun ábyggilega taka langan tíma að leysa úr. En ég legg áherslu á að Alþingi þarf sjálft að huga að því hvaða stöðu það hefur og hvað það getur gert til að efla hlutina.



[13:38]
Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir ræðu sem mér þótti mjög merkileg. Ef ég skil ræðuna rétt rekur hún verulegan hluta af ábyrgðinni á því hruni sem hér hefur orðið til þess að Alþingi hafi á vissan hátt brugðist, að Alþingi hafi misst eða látið úr höndum sér það vald og þar með þá skyldu sem því er lögð á herðar. Það hafi framselt vald sitt til framkvæmdarvalds sem að mínu áliti einkenndist á síðustu árum og kannski áratugum af foringjastjórnmálum, foringjadýrkun, og að sama skapi skorti á lýðræði og lýðræðislegri hugsun.

Sé sá skilningur minn réttur, að hv. þingmaður telji að Alþingi hafi glatað því frumkvæði sem það á að hafa við stjórn landsins tek ég eindregið undir hennar mál. Mig langaði bara til að spyrja aðeins nánar út í hvort minn veikburða skilningur sé réttur að þessu leyti.



[13:40]
Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það stóra í þessu sem gerðist í bönkunum og það sem við erum að lesa um í skýrslunni, oft og tíðum reyfarakenndar frásagnir, sé að stórum hluta vegna þess að menn fóru ekki eftir settum reglum. Það er nokkuð sem þarf að rannsaka.

Sá lærdómur sem ég vil draga af þessu sem alþingismaður og er nokkuð sem hv. þingmaður kom aðeins inn á í andsvari sínu er að ég held að alþingismenn, kjörnir fulltrúar og þeir sem hér eru, þurfi að hafa miklu betri innsýn og upplýsingar um þau lög og reglur sem þau setja sjálf. Það er ekki nóg að setja lög og átta sig síðan ekkert almennilega á því hvaða afleiðingar löggjöfin hefur.

Það hefur verið talað um það hér að eftirlit hafi brostið og að menn hafi ekki fylgst nógu vel með, það hafi verið það sem hafi bilað í þessu öllu saman. Það er nákvæmlega það sama. Hefur Alþingi einhverja þýðingu þar, hefði það átt að bregðast eitthvað við? Það er þetta sem mér finnst skipta svo miklu máli. Hv. þingmaður spyr hvort Alþingi hafi glatað trausti. Ég held, eins og ég sagði í máli mínu, að Alþingi verði að taka sér það vald sem það hefur og hefur alltaf haft.

Við erum með hefð fyrir meirihlutastjórnum hér, það er ekkert nýtt. Það breytir því ekkert að Alþingi hefur gríðarlega mikið vald samkvæmt stjórnarskrá og jafnvel þótt við breyttum stjórnarskránni er það ekki nóg ef viðhorf Alþingis til verkefnisins breytist ekki líka. Það er þetta sem mér finnst skipta svo miklu máli.



[13:42]
Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Það er mitt mat eftir það sem ég hef lesið af skýrslunni, að hún renni mjög sterkum stoðum undir það að hin veika staða Alþingis núna, sem nýtur trausts aðeins 13% þjóðarinnar, stafi af því að Alþingi, sem er kraftbirtingarmynd lýðræðis í landinu, hafi ekki staðið sig í stykkinu. Mín upplifun hérna á Alþingi sem óháður þingmaður er að Alþingi sé meira og minna í gíslingu stjórnmálaflokka sem ekki er stýrt á lýðræðislegan hátt heldur með foringjavaldi. Ég tel að hluti af endurreisninni, og kannski mikilvægasti hluti hennar, sé að endurheimta virðingu og traust Alþingis meðal þjóðarinnar og það geri Alþingi sjálft með því að hver einasti fulltrúi sem á því situr endurskoði og rifji upp þá staðreynd að umboð hvers alþingismanns kemur frá þjóðinni. Hollusta hans á að vera við þjóðina fyrst og fremst en ekki við þann stjórnmálaflokk eða foringja sem viðkomandi fylgir í megindráttum.



[13:45]
Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt grundvallarhlutverk Alþingis er að setja stjórnlög og eitt mikilvægasta verkefni þingsins er að gera breytingar og átta sig á þeim breytingum sem þarf að gera á stjórnarskrá, koma þeim á og ræða þær hér á Alþingi. Í því umróti sem orðið hefur í kjölfar hrunsins hefur það verið skoðun margra að það þurfi að taka þetta hlutverk af Alþingi og setja á sérstakt þing til að fjalla um stjórnlög sem síðan eigi að koma með þá afurð til Alþingis og Alþingi eigi að ræða hana. Með vísun til þess sem ég hef áður sagt um stöðu Alþingis og mikilvægi þess að efla Alþingi er það eindregið mín skoðun að ef Alþingi ætlar sér að endurvinna það traust sem margir telja að það hafi tapað vegna þess hruns sem hér hefur orðið, og vegna ýmissa annarra hluta, t.d. þeirra atburða sem nú eru uppi í þjóðfélaginu — það er eindregið mín skoðun að Alþingi endurheimtir ekki traust í landinu ef það ætlar að afsala sér grundvallarhlutverki Alþingis sem er að breyta stjórnarskrá.

Ef það er skilningur hv. þm. Þráins Bertelssonar að þingmenn eigi núna að horfa í eigin barm og horfa til þess að vegur Alþingis sé sem mestur held ég að það sé upplagt fyrir hv. alþingismenn að velta einmitt þessu fyrir sér: Hvernig eigum við að bregðast við því þegar það er skoðun stórs hluta alþingismanna að aðrir en Alþingi eigi að setja stjórnlög? Mér finnst þetta ekki vera ásættanleg niðurstaða. Ég vil að alþingismenn finni út úr því að koma á breytingum (Forseti hringir.) á stjórnarskrá á vettvangi Alþingis sjálfs.



[13:47]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þegar á heildina er litið þykir mér rannsóknarskýrslan vera góð. Umfram allt er hún gagnleg, þrátt fyrir þær brotalamir sem á henni eru. Ég sakna margs í skýrslunni, ég vík að því síðar, og sumt í henni þykir mér orka tvímælis. Ég ætla að nefna tvö dæmi.

Annars vegar hvað varðar Íbúðalánasjóð. Ég tel að hann og stjórnvöld á þeim tíma séu höfð fyrir rangri sök og ekki sé farið rétt með staðreyndir þegar sagt er að Íbúðalánasjóður hafi farið offari í útlánastefnu sinni. Þegar því var lýst yfir að stefnt væri að því að fara með lánveitingar úr Íbúðalánasjóði upp í 90%, sem var reyndar aldrei gert vegna þess að það var ætíð þak á útlánunum þannig að það voru aðeins ódýrustu íbúðirnar sem fóru upp í þær hæðir — það sem raunverulega gerðist á þessum tíma var að viðskiptabankarnir fóru í stríð við Íbúðalánasjóð, stefndu honum fyrir dómstól suður í Brussel en höfðu ekki árangur af sínu erfiði þar og brugðu þá á það ráð að reyna að kaffæra sjóðinn með grimmri útlánastefnu. Þar er að finna þensluvaldinn, ekki hjá Íbúðalánasjóði. Ég sakna þess að fulltrúar Íbúðalánasjóðs hafi ekki verið kallaðir fyrir nefndina til að gera grein fyrir afstöðu sinni og leiðrétta þennan misskilning sem er að finna í skýrslunni.

Hitt sem ég vildi nefna og snýr að álitamálum er spurning um vexti og hvernig skýrsluhöfundar draga taum hávaxtasinna en gera lítið úr rökum annarra, sumra sem ekki hafa hagfræðipróf upp á vasann en vildu hugsa á samfélagslega vísu, ekki síst þegar hávaxtatækið hafði sýnt sig að duga illa og alls ekki sem hagstjórnartæki við þær aðstæður sem við bjuggum við á þessum tíma. Þetta eru atriði sem mig langaði til að víkja að hér í upphafi.

Það er margt í þessari skýrslu sem ég sakna. Þá horfi ég til þeirra þingmála sem flutt voru hér á Alþingi og hefðu að öllum líkindum beint þróuninni inn á aðrar brautir ef þau hefðu verið tekin alvarlega. Ég lofa að vitna ekki í mörg gögn í þessari stuttu ræðu minni en mig langar til að vitna í örfáar setningar úr minnihlutaáliti sem ég skrifaði undir sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs árið 2001 við einkavæðingu bankanna. Ég hafði sagt að ég legði ekki að jöfnu einkavæðingu innan velferðarkerfisins og í fjármálakerfinu en í okkar litla hagkerfi væri mikilvægt að hér væri traust fjármálastofnun. Því til stuðnings sagði ég eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ástæðan fyrir að mikilvægt kann að vera fyrir íslenskt efnahagslíf að hafa öflugan þjóðbanka er að sporna gegn varasömum afleiðingum þeirrar miklu samþjöppunar á valdi og peningum sem stefnir í nú í íslensku efnahagslífi. Líklegt má heita að sömu aðilar og komist hafa yfir miklar eignir í atvinnulífinu nái einnig tökum á fjármálakerfinu. Hætt er við því að eignist þessir aðilar bankanna kæmu þeir til með að lána sjálfum sér fé úr hirslum þeirra og þar með væri boðið heim hættunni á misbeitingu þessara mikilvægu undirstöðustofnana í efnahagslífi þjóðarinnar.“

Í álitinu segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Í umræðunni um sölu á ríkisbönkunum er ítrekað haft á orði að ríkið eigi ekki að vera að rekast í því „sem einkaaðilar geta stundað“ og reyndar er gengið lengra og fullyrt að einstaklingar geti starfað á hagkvæmari máta en stofnanir sem lúta almannastjórn. Sagan sýnir á hinn bóginn að varasamt er að alhæfa í þessu efni. Hitt er þó vitað að þegar einkabankar hafa lent í kröggum eins og gerðist víða um lönd á 9. áratug síðustu aldar, t.d. í Kanada, Bandaríkjunum, Svíþjóð og Noregi, hefur ríkið hlaupið undir bagga því að þar var það mat manna að ellegar hefði blasað við efnahagslegt hrun. Þannig veitti norska ríkið um 500 milljarða króna til að endurreisa banka sem höfðu verið einkavæddir en síðan hrunið. Sú spurning vaknaði í kjölfarið hvort ekki væri eðlilegt að fulltrúar þess almannavalds sem kemur til að stoðar á ögurstundu ættu rétt á að hafa einnig hönd í bagga þegar betur gengur.“

Þetta var í aðdraganda einkavæðingar á fjármálakerfinu. Ég vil vísa í fjölmörg þingmál sem hér voru flutt og hvergi er getið í skýrslunni. Ég vil nefna þingmál sem ég flutti um að auðvelda skattyfirvöldum innsæi inn í fjármálakerfið. Það fékkst ekki afgreitt. Ég vísa í umræður sem fram fóru um Seðlabanka Íslands, breytingar á lögum um hann árið 2000 en lögin tóku gildi 2001, þar sem varað var við því að þrengja verksvið Seðlabankans þannig að hann tæki ekki mið af samfélagslegum þáttum. Það var að sönnu hluti af þróun sem átti sér stað nánast alls staðar í heiminum, opnun og markaðsvæðing þessara kerfa. Á þessi rök var ekki hlustað. Ég nefni viðleitni stjórnvalda hér til að koma á skattaparadís á Íslandi. Það var ráðist í samstarfsverkefni Viðskiptaráðs, Verslunarráðsins, og ríkisstjórnarinnar upp á 50 milljónir til að finna leiðir til að örva þetta. Á þetta er ekkert minnst eða á tilraunir til að koma í veg fyrir þetta. Að ógleymdu hinu, sem kannski skiptir mestu máli, að oftsinnis fluttum við frumvörp um aðskilnað á viðskiptabönkum og fjárfestingarsjóðum. Síðast gerðum ég og hv. þm. Jón Bjarnason það haustið 2008, rétt áður en bankarnir hrundu. Það var síðasta skiptið sem við gerðum það og færðum rök fyrir því sem er mjög til umfjöllunar í þessari skýrslu.

Hvernig stendur á því að skýrsluhöfundar vitna ekki til þess sem reynt var að gera á Alþingi? Kem ég þá að því sem snýr að stjórnvöldum og andvaraleysinu þar og þeirri fullyrðingu sem ég tel vera rétta, að rökræðan hafi hopað fyrir hanaslagnum. Það er sagt í skýrslunni. En er þetta alveg rétt? Voru rökin ekki reidd fram? Jú, þau voru reidd fram, þau voru sett fram í ítarlegu máli í greinargerðum en það var ekki hlustað. Þar kem ég að ábyrgð fjölmiðla og ábyrgð stjórnvalda vegna þess að þegar samþykktar eru grundvallarbreytingar sem snúa að samfélagi okkar á að vera erfitt að fá þær í gegn. Það á að vera erfitt, menn eiga að þurfa að svitna yfir Kárahnjúkum, einkavæðingu bankanna, einkavæðingu Landssímans og einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Menn eiga að þurfa að svitna og sönnunarbyrðin á að hvíla hjá þeim sem breytir en ekki hinum sem gagnrýna. Hvað gerðist hér í þessum sal þegar ráðist var í þessar grundvallarbreytingar á okkar samfélagi? Menn gengu út.

Ég man eftir einu litlu dæmi. Ég hafði talað nánast alla nóttina um einkavæðingu á rafmagnseftirlitinu, frá fjögur til klukkan sjö. Það var komið með miða til mín hingað í ræðustólinn og sagt: Ríkisútvarpið vill ná tali af þér. Ég lauk máli mínu glaður í hjarta, kannski var ég að ná í gegn inn í fjölmiðlana. Ég fór í símann og þar var spurt: Ertu ekki þreyttur? Andvaraleysi. Andvaraleysi í fjölmiðlum, andvaraleysi í þessum sal. Þessu þurfum við að breyta, foringjaræðinu, hjarðmennskunni. Við eigum að spyrja: Hvað hefur breyst núna? Er leyndarhyggjan e.t.v. enn þá á sveimi í samskiptum við AGS? Við höfum rætt um Icesave-samningana og við höfum rætt um aðra þætti. Það sem er gott við þessa skýrslu er að hún er umræðugrundvöllur til þess að breyta vinnulagi í íslenskum stjórnmálum. Það vinnulag og sú umræða þarf að taka til fjölmiðlanna, hún þarf að taka til þjóðfélagsins alls og við eigum að sýna í verkum okkar, ekki bara í tali, ekki bara í orðum, heldur eigum við að sýna í verkum (Forseti hringir.) okkar að þar hafi orðið breyting á.



[13:57]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ræðuna. Reyndar var hún dálítið mikið í fortíðinni eins og svo margar aðrar. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann um hvernig hann sjái framtíðina fyrir sér, hvort það sé einhver sýn.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um lán bankanna sem gripu inn á verksvið Íbúðalánasjóðs, fóru í samkeppni við hann. Hann tengdi það ekki við að lánshæfismat bankanna var orðið svipað og ríkisins sem átti Íbúðalánasjóð, þannig að á þeim grundvelli gátu þeir fengið óheft fjármagn erlendis frá til þess að fara í samkeppni við Íbúðalánasjóðinn sem þeir hefðu ella ekki fengið.

Síðan er það einkavæðingin. Hv. þingmaður nefnir einkavæðinguna hina fyrri. Ég vildi gjarnan spyrja hv. þingmann um einkavæðinguna hina síðari sem gerðist ekki fyrir löngu undir ríkisstjórn sem hann styður og hefur farið ósköp hljótt um. Þar voru ríkisfyrirtæki seld og ég er ekki að segja, frú forseti, að ég hafi verið á móti því. Mér fannst þetta afskaplega snjöll lausn enda lagði ég hana til víða. Það er ekki vitað hverjir eigendurnir eru og lítið hefur verið talað um þetta. Hv. þingmaður sagði: Það eru gerendurnir sem eiga að svara. Hefur ríkisstjórnin svarað því af hverju hún fór út í þessa einkavæðingu þar sem hún seldi ríkisfyrirtæki til kröfuhafa, t.d. hverjir eigendurnir eru? Nú hefur borist svar frá viðskiptaráðuneytinu, hygg ég, um hverjir séu eigendur og þeir leyfa sér að svara að það sé einkafyrirtæki sem þeir stofnuðu sem kröfuhafarnir eiga. Ekkert meir. Þeir leyfa sér að segja: Það er einn aðili sem á bankana og það er fyrirtæki sem þeir stofnuðu sjálfir en kröfuhafarnir eiga.



[13:59]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að stytta mér leið vil ég reyna að svara þessum spurningum um framtíðina með tilvísun til nútíðarinnar og þá fyrst um einkavæðingu bankanna. Þetta var og er eitt af skilyrðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að koma hér öllu lifandi og dauðu á markað eins og við þekkjum og þar með fjármálastofnunum. Það er að finna í þeirra gögnum. Á hitt er einnig að líta að fjármálakerfið, hið hrunda fjármálakerfi á Íslandi, var skuldsett upp á stjarnfræðilegar tölur. Menn hafa talað um 9.000, 10.000, 11.000, 12.000 milljarða. Þessir bankar voru að sjálfsögðu löngu komnir úr íslenskri eign. Kröfuhafarnir voru búnir að læsa klóm sínum í þá.

Hitt er alveg rétt hjá hv. þingmanni að hér þarf að vera almannabanki. Það eru reyndar mín orð en ekki hans. Varðandi eignarhaldið — af því að ég man skyndilega hver það er sem ég á orðastað við, hv. þm. Pétur H. Blöndal sem hefur ekki verið sérstaklega gefinn fyrir þjóðbanka — en varðandi eignarhaldið tek ég undir með honum að það þarf að vera skýrt. Okkur hefur ekki tekist að tryggja það en það verðum við að gera. Sú krafa hlýtur að hvíla á okkur að við upplýsum um eignarhaldið og breytum lögum í þá veru að það verði upplýst. Undir það tek ég heils hugar.

Varðandi framtíðina almennt þurfum við að opna alla glugga. Við viljum hafa opið, gagnsætt þjóðfélag. Hvað varðar fjármálakerfið hefur reynslan sýnt að samfélagið er ábyrgt fyrir því, þó að það hafi verið svipt öllum völdum yfir því, en það á að sjálfsögðu þá kröfu að hafa innsýn í það sem þar gerist.



[14:01]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vænti þess þá að hv. þingmaður beiti áhrifum sínum í sínum þingflokki og spyrji yfir borðið: Hver á bankana? Það er hæstv. fjármálaráðherra sem fer með það og veit það, eða ætti að vita það, og viðskiptaráðherra sem er reyndar ekki í neinum flokki. Hann gæti beitt áhrifum sínum til að fá að vita hverjir eiga bankana.

Varðandi þjóðbanka og ekki þjóðbanka. Það vill svo til að Landsbankinn er þjóðbanki. Af hverju? Vegna þess að Bretar og Hollendingar eiga stærstu kröfuna á hann og eiginlega einu kröfurnar fyrir utan Íslendinga. Allir aðrir kröfuhafar misstu sinn rétt út af Icesave og Bretar og Hollendingar hafa ekki mikinn áhuga á að eiga banka á Íslandi. Hann er nauðugur viljugur í eigu ríkisins af því að það vill í rauninni enginn annar eiga hann. Það er ekki þar með sagt að menn gætu ekki selt hann nákvæmlega eins og hina. Ég sting upp á því við hv. þingmann að hann skoði þann möguleika að selja Landsbankann líka þannig að við séum með þrjá einkabanka á Íslandi aftur.



[14:03]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, takk, ekki annan sjúss. Nú erum við að fara inn á nýjar brautir og þau rök sem áðan voru nefnd til sögunnar um að það sé gott fyrir lítið hagkerfi eins og okkar að hafa traustan þjóðarbanka er nokkuð sem við eigum að íhuga en fara ekki aftur út í þetta fen.

Það er stefna okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að opna þessi kerfi eins og hægt er og ég nefndi þingmál sem við höfum flutt í þá veru á undanförnum árum. Við gerum það sem í okkar valdi stendur til að opna þarna alla glugga. Viðskiptanefnd Alþingis hefur haft slík mál til umfjöllunar og ég nefni viðleitni formanns þeirrar nefndar, hv. þm. Lilju Mósesdóttur, sem hefur haft sig mjög í frammi í þessa veru með tillögusmíð og hefur kallað bankana fyrir okkur. Hið sama er að gerast í efnahagsnefnd þingsins. Þar hefur verið ágæt og breið samstaða þar sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur einnig komið að málum. Þetta er sameiginlegt verkefni sem ég hygg að við deilum öll, við viljum opna þetta kerfi, opna á upplýsingar, en það er forsenda þess að við getum tekið skynsamlegar ákvarðanir að við vitum hvað þar er að gerast.



[14:04]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður mælti nokkur vel valin orð til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og sagði að hann vildi einkavæða allt kvikt og dautt. Af því tilefni vildi ég leyfa mér þann munað að minna hv. þingmann á að sú stefna sem ríkisstjórnin fylgir nýtur stuðnings tveggja stjórnarflokka.

Það var þó ekki tilgangur minn með því að koma hingað upp. Ég vildi þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og segja að hann reyndist að mörgu leyti framsýnni mjög mörgum. Ég minnist þess að hv. þingmaður olli uppnámi í þessum sölum þegar hann sagði að ef bankarnir yrðu of stórir ætti að flytja þá úr landi. Fyrir það var hann hæddur og spottaður af tveimur eða þremur flokkum. Það mætti kannski segja í dag að menn hefðu betur farið að þeim orðum sem hv. þingmaður lét þá flakka.

Hv. þingmaður sagði að hann væri að mörgu leyti ánægður með þessa skýrslu en sagði þó tvennt sem ég rak hnýflana í. Annars vegar sagði hann að það væru brotalamir á skýrslunni og hins vegar að ýmislegt þar orkaði tvímælis. Hv. þingmaður skýrði að hluta til út hverjar brotalamirnar væru. Ég vildi gjarnan fá hv. þingmann til að segja mér hvað honum finnst orka tvímælis í þessari skýrslu. Ef hv. þingmaður hefur tíma til hefði ég gaman af því að spyrja hann hvað af því sem gerst hefur á síðustu 10–12 árum sé líklegast til að hafa haft mest áhrif á þá stöðu sem við erum í núna. Hvaða einstaka stjórnvaldsákvörðun telur hann að hafi hugsanlega valdið því mikla tjóni sem við erum núna að reyna að bæta?



[14:06]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Brotalamirnar fyrst. Þar horfi ég fyrst og fremst til þess sem vantar upp á í skýrslunni og þar vísa ég í tillögur sem fram komu á Alþingi sem hefðu orðið mjög til bóta og beint þróuninni á annan veg ef þær hefðu verið teknar alvarlega. Mér finnst ekki gert nóg úr Alþingi að þessu leyti. Í þessu er fólgin gagnrýni á þáverandi stjórnvöld fyrir að hafa ekki hlustað á þau rök sem þarna voru reidd fram. Mér finnst vera ákveðin brotalöm að gera ekki betur grein fyrir þessu.

Síðan nefndi ég staðreyndavillur sem lúta að Íbúðalánasjóði. Það eru náttúrlega brotalamir sem mikilvægt er að leiðrétta. Margt orkar síðan tvímælis. Þar tók ég sem dæmi álitamál sem snúa að vöxtum. Það er ekkert algilt í þeim efnum. Það er álitamál en ég þó hef miklar efasemdir um afstöðu skýrsluhöfunda hvað það snertir. Ég vil þó segja að allt þetta er smávægilegt miðað við þau verðmæti sem eru fólgin í skýrslunni að því leyti að hún er umræðugrundvöllur til að ræða það sem þar kemur fram og líka hitt sem á skortir. Mér finnst mikilvægt að þessari umræðu verði haldið áfram og ábendingum komið á framfæri við þá nefnd sem tekur hana til umfjöllunar um það sem missagt er í skýrslunni.

Hvaða stjórnvaldsaðgerðir eru mikilvægastar? Ég held að þetta sé safn aðgerða. Þetta er röð aðgerða. Það sem skiptir fyrst og fremst máli held ég, ofar öllu öðru, er hugarfarið, afstaðan, (Forseti hringir.) doðinn, foringjaræðið og hjarðmennskan og (Forseti hringir.) viðfangsefni okkar er að breyta þessu.



[14:09]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki að öllu leyti sammála þeim ályktunum sem hv. þingmaður dregur. Hann telur þetta hafa verið safn margra ákvarðana sem leiddu til núverandi stöðu. Ég leyfi mér að halda því fram að ein einstök ákvörðun hafi valdið langmestu og þar á ég við einkavæðingu bankanna, hugsanlega ekki einkavæðinguna sjálfa heldur það fyrirkomulag sem á henni var haft. Ég tel að sú stefnubreyting sem tekin var rétt áður en ráðist var í afgreiðslu frumvarps um einkavæðinguna á hinu háa Alþingi, þar sem horfið var frá dreifðri eignaraðild og farið út í það fyrirkomulag sem síðar var raunin og hafði skipt mestu máli — ég held að sú ákvörðun að úthluta í raun ríkisbönkunum til pólitískra vildarmanna þáverandi stjórnarflokka hafi skipt langmestu þegar maður reynir að grafast fyrir um uppruna þessa.

Auðvitað má vel halda því fram, eins og gert var í Kastljósi í gær, að þáverandi ríkisstjórn hafi, eins og það var orðað, verið óheppin með eigendur. Ég held þó að það sé víðs fjarri því sem raunin er. Ég held að það að fara þessa leið að úthluta bönkunum til pólitískra vildarmanna hafi skipt langmestu. Upp úr því tóku að mínu viti að hrannast upp ýmiss konar vandamál í kerfinu. Á árunum 2004–2005 virðist sem þau hafi farið yfir ákveðinn punkt og þaðan varð ekki aftur snúið. Það kemur skýrt fram í skýrslunni að árið 2006 hefði ekki verið hægt að grípa til neinna aðgerða sem hefðu beinlínis komið í veg fyrir hrunið. Þetta held ég að sé hin raunverulega stærsta orsök en síðan eru ýmsar aðrar sem auðvitað skipta máli.

Mætti ég þá kannski trufla hv. þingmann með því að spyrja hvort hann telji að það sé eitthvað sem núverandi ríkisstjórn geti gert betur í sínum stjórnarháttum, m.a. til að læra af þessu og koma í veg fyrir (Forseti hringir.) að nokkuð slíkt geti gerst?



[14:11]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, t.d. að grennslast fyrir um það hvers vegna skúffufyrirtækinu Magma er hleypt undir jarðskorpuna á Suðurnesjum. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) Það má taka ýmis dæmi um afdrifaríkar ákvarðanir sem verið er að taka og snúa að auðlindum þjóðarinnar. Reyndar held ég að ef við ætlum að rekja okkur aftur í tímann og spyrja: Hvar voru fyrstu mistökin? — Ég horfi til framsals í kvótakerfinu. Ég horfi vissulega til einkavæðingarinnar á bönkunum og það er alveg rétt sem fram kemur hjá hæstv. utanríkisráðherra að við þurfum að taka til sérstakrar skoðunar það sem þar gerðist. Þar tel ég að alvarlegt misferli hafi átt sér stað og ekki séu öll kurl komin til grafar. Ég tek undir með honum hvað þetta snertir en ég tel að þetta sé röð ákvarðana og afstaða almennt í stjórnmálunum sem er að breytast.

Ég hef stundum vísað til þess að þegar hægri bylgjan reis í byrjun 9. áratugarins í kjölfar Reagans/Thatcher-áranna urðu hægri flokkar ekki stærri heldur urðu allir flokkar hægri sinnaðir og meira markaðsþenkjandi. Það er nefnilega þannig í stjórnmálum eins og í tískunni að það eru támjóir skórnir og þykkir sólarnir. Það var ekkert annað á boðstólum í hinum pólitískum hillum en frjálshyggja og henni var bara tekið þegjandi og gagnrýnislaust. Nú er pendúllinn að koma til baka yfir í félagshyggjustjórnmálin, yfir í að hyggja að samfélaginu og hagsmunum þess en ekki fjármagnsins. Ég var að blaða í gömlum ræðum frá þessum tíma um einkavæðingu bankanna og þá sagði ég í þessum sal við þáverandi viðskiptaráðherra, Finn Ingólfsson: „Þú hlustar bara á bankana.“ (Forseti hringir.) Þá kallaði hann fram í, það er í sviga: „Ég hlusta á þá, ég hlusta á þjóðarsálina.“ (Forseti hringir.) Það er þjóðarsálin sem hefur tekið breytingum og nú skulum við hlusta svolítið á hana, hlusta á rödd (Forseti hringir.) þjóðarinnar.



[14:13]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Skýrsla rannsóknarnefndar um bankahrunið er að líkindum sú mikilvægasta sem unnin hefur verið í sögu lýðveldisins. Meginniðurstaða hennar er sú að við þurfum endurmat, við þurfum endurskoðun og við þurfum kjark til að gangast við þeirri staðreynd að skortur á fagmennsku, fúsk og flumbrugangur hefur á seinni tímum einkennt íslenskt þjóðlíf í allt of miklum mæli. Aðdragandinn er rammpólitískur. Aðdragandinn snýst um hugmyndafræði og sýn í stjórnmálum, hugmyndafræði sem gerir ráð fyrir að rýra beri ríkið, rýra beri almannavaldið með öllum tiltækum ráðum og auka frelsi frekjunnar og fjármagnsins á kostnað frelsis fólksins, einstaklinganna, gagnstætt því sem látið var í veðri vaka. Fortakslaus einstaklingshyggja sem endurspeglaðist í fyrirlitningu á náttúrugæðum, samfélagseigum og almannahagsmunum og því hvernig gengið var um þau verðmæti og trúarbragðakennd afstaða til markaðarins og frelsisins réðu för. Predikað var í bókum, blaðagreinum, leiðurum og úr ræðustóli þingsins. Íslenska Framsókn sneri bakinu við samvinnuhugsjón og félagshyggju og íslenskir jafnaðarmenn, fyrst Alþýðuflokkurinn og síðar Samfylkingin, urðu samferða evrópskum jafnaðarmönnum sumum hverjum í þjónkun við markaðs- og peningahyggju. Hægrið varð norm.

Ástand samfélagsins var nánast vímukennt og það mátti ekkert segja. Það mátti ekki benda á augljósa hluti. Það átti ekkert að segja. Þessi hugmyndafræði, þessi víma, þessi fyrirlitning á samfélagi, almannavaldinu, ríkinu og heildarhagsmunum leiddi okkur af leið. Virðulegi forseti. Fólk vildi ekki hlusta. Séð og heyrt-væðingin, forsetinn, útrásarglamrið lék um allt samfélagið. Ungu mennirnir með kaupréttinn voru hetjurnar og allt var til sölu. Auðvaldið gamalt og nýtt kraumaði undir, völdin og rétturinn lágu í peningunum. Sjálfstæðisflokkurinn var í fararbroddi, bæði ljóst og leynt, peningavaldið og auðhyggjan gegnsýrðu allt samfélagið, pólitíkina, viðskiptalífið og fjölmiðlana. Þessi öfl eru enn að verki en hafa lent í kreppu og leita allra leiða aftur að valdinu, hvar sem því verður fyrir komið. Birtingarmynd af þessu er hvernig Morgunblaðið og formenn Sjálfstæðisflokksins, fyrrverandi og núverandi, reyna að vísa ábyrgðinni frá sér og sínum liðsmönnum í aðrar áttir. Valdabröltið birtist líka í orku- og stóriðjumálunum. Munum hvernig opnað var á einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja. Munum hverjir voru þar að verki og hvernig dansinn dunaði í fyrirætlunum um REI. Samfélagssáttmálinn rofnaði smám saman. Hagsmunir almennings voru fótumtroðnir og í raun má segja að það hafi molnað undan samfélagsbyggingunni allri. Traustið lét undan og lögmál samkeppni og einstaklingshyggju tóku yfir á kostnað samkenndar og samstöðu. Sjálftakan var dyggð.

Frú forseti. Allir þurfa að líta í eigin barm og lesa skýrsluna með sóknarfæri og endurbætur að leiðarljósi. Við þurfum að styrkja þingið sem löggjafarsamkomu og efla eftirlit þess með framkvæmdarvaldinu. Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn þurfa að gangast undir endurmat og ekki síður forsetaembættið. Siðareglur þarf að setja um starfshætti forseta með hliðsjón af því hvernig það embætti hefur þróast. Vigdís Finnbogadóttir stendur á gleðilegum tímamótum í þessari viku og það vekur okkur til umhugsunar um það hvaða breytingum embættið hefur tekið frá því að hún lauk sínum farsæla forsetaferli. Sú nefnd sem fjallaði sérstaklega um siðferðileg álitamál dregur fram hvernig forseti Íslands vék af braut forvera sinna með því að taka virkan þátt í yfirlæti og sýndarmennsku auðmanna sem, þegar allt kom til alls, skorti alla innstæðu fyrir upphefðinni.

Stjórnsýsluna og stjórnmálin þarf líka að skoða. Orð Páls Hreinssonar í sjónvarpinu á mánudaginn eru sláandi en hann segir: „Stjórnarráð síðustu aldar dugar okkur ekki inn í nýja öld.“ Það er Geir Haarde, fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, til minnkunar hvernig hann gerir lítið úr þeim sjónarmiðum sem fram koma að því er varðar mikilvægi þess að endurbætur eigi sér stað í stjórnsýslunni, aukning á formfestu og gagnsæi. Í stjórnsýslunni þarf gagngerar endurbætur, bætta formfestu, skýrari verkferla og að tryggt sé að unnt sé að rekja ákvarðanir, hvernig þær voru teknar og á hvaða forsendum. Við eigum að stefna að því að íslensk stjórnsýsla verði eins aðgengileg og lýðræðisleg og nokkur er kostur. Stjórnsýslan og embættismennirnir, kjörnir fulltrúar og pólitíkin öll, eru þjónar almennings, sitja í umboði hans og eiga að gæta hagsmuna heildarinnar í hvívetna. Ríkið er ekkert annað en félag okkar allra um heilbrigt og gott samfélag. Þetta umboð þurfum við að umgangast af auðmýkt og virðingu.

Kjörnum fulltrúum og stjórnsýslunni er búið aðhald m.a. í stjórnsýslulögum og upplýsingalögum. Neikvæð viðhorf til stjórnsýslulaganna ríktu á tímum græðgi og hömluleysis. Lögin voru jafnvel talin flækja mál og tefja þau. Stjórnmálamenn umgengust stjórnsýsluna með svipuðum hætti og bankarnir regluverðina. Stjórnsýslulögin eru sett fyrst og fremst til að tryggja réttarstöðu borgaranna í viðskiptum sínum við þá sem fara með opinbert vald, þ.e. stjórnvöld. Þau eru ekki sett til að skapa okkur kjörnum fulltrúum þægilegt starfsumhverfi. Skýrslan sýnir að stjórnsýslunni er ábótavant og hana þarf að bæta. Núna höfum við tækifæri til þess. Aldrei er mikilvægara en nú að skerpa línurnar, vinna að lýðræðisumbótum og gagnsæi í stjórnkerfinu. Kjörnum fulltrúum er treyst til að gæta hagsmuna almennings, þjóna almenningi.

Það er sérstök ástæða til að þakka rannsóknarnefnd Alþingis fyrir afar fagleg og yfirveguð vinnubrögð. Vinna nefndarinnar er afrek á hvaða mælikvarða sem er og okkur öllum til sóma, trúverðug, vönduð, aðgengileg og ekki síst á mannamáli. Það er líka ástæða til að þakka Ríkisútvarpinu fyrir sína fyrstu umfjöllun um skýrsluna, kannski verður 12. apríl fyrsti dagurinn í raunverulegri endurreisn landsins. Við sjáum svart á hvítu hvað gerðist en ekki síður fáum við leiðbeiningu um það hvernig við getum bætt ráð okkar. Það er gríðarlega mikilvægt að nýta skýrsluna sem tæki til að byggja upp betra og lýðræðislegra samfélag. Alþingi hefur markað mjög mikilvæg spor í sína sögu með því að stofna til nefndarinnar og setja lög um hlutverk hennar og markmið. Þjóðþingið hefur tækifæri til að reisa sig og taka skýrsluna til málefnalegrar og öflugrar úrvinnslu.

Frú forseti. Hvaða leiðir notum við til að mæla heilbrigt samfélag? Við þurfum aðra mælikvarða, aðra hagvísa til að mæla lífsgæði og heilbrigði samfélagsins. Skýrslan fjallar ekki sérstaklega um þessa staðreynd en sífellt fleiri þjóðir eru að átta sig á því að hagstjórn sem byggir á vexti án sjálfbærni er feigðarflan. Þar þarf að huga að menningu og samfélagsverðmætum en ekki síður þeim verðmætum sem náttúran leggur okkur til og geta verið grundvöllur velferðar um ókomna framtíð ef um þær er gengið af hófsemd og virðingu.

Virðulegi forseti. Í samfélaginu finn ég fyrir tilteknum létti við þessi tímamót, kannski fyrst og fremst vegna þeirrar fullvissu að núna loksins hafi verið vel unnið. Svona viljum við hafa Ísland. Við viljum að eftir okkur liggi skýr og aðgengileg verk. Við viljum gagnsæi og ábyrgð, við viljum að kjörnir fulltrúar sinni verkum sínum af trúmennsku gagnvart sínu umboði og í því efni þarf þingheimur allur að líta í eigin barm. Þegar hefur verið tekið á mörgum þeim úrlausnarefnum sem fram koma í skýrslunni, til að mynda á sviði efnahags- og umhverfismála, fjölmiðlaumhverfisins og fjölmargra annarra þátta. Að mörgu leyti hafa undanfarnir mánuðir og missiri einkennst af rústabjörgun og bráðaaðgerðum. Því verki er engan veginn lokið en skýrslan markar samt nýtt upphaf. Hún markar þáttaskil. Sérstaka athygli vekur umræðan um stjórnskipulega og lagalega ábyrgð annars vegar og pólitíska ábyrgð hins vegar. Það hlýtur að vera eitt meginhlutverk kjósenda á öllum tímum að halda slíkri ábyrgð til haga og tryggja að hún endurspeglist í því uppgjöri sem kosningar eiga að vera. Örfáar vikur eru í næstu kosningar og þar fá kjósendur dýrmætt tækifæri til að bregðast við þeirri mynd sem nú blasir við í kjölfar skýrslunnar.

Virðulegi forseti. Mig langar í fullri einlægni að biðja alla sem eiga þess kost að líta í eigin barm í kjölfar þessarar skýrslu, alla kjörna fulltrúa, alla ráðherra, þingmenn, sveitarstjórnarmenn, fjölmiðlamenn, háskólana, viðskiptalífið, þá sem hafa áhrif á opinbera umræðu og almenning allan. Við verðum beinlínis að nýta þetta stórkostlega tækifæri, þessi merku þáttaskil, til gæfu fyrir þjóðina alla og hefur þingnefndin undir forustu hv. þm. Atla Gíslasonar þar mikilvægu hlutverki að gegna. Við getum borið höfuðið hátt. Við eigum stórkostlega náttúru. Við eigum mikinn mannauð. Við eigum ráðagott fólk á öllum aldri um allt land. Við verðum öll að temja okkur að leggja við hlustir með velferð og hagsmuni komandi kynslóðar að leiðarljósi. Við getum það ef við berum gæfu til þess að vera auðmjúk og bjartsýn. Öll.



[14:22]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir innlegg hennar og get tekið undir hvatningu hennar um að við eigum öll að taka þessa skýrslu alvarlega. Ég verð hins vegar að leiðrétta það sem fram kom í máli hæstv. umhverfisráðherra þegar hún segir að formenn Sjálfstæðisflokksins, núverandi og fyrrverandi, hafi vikið sér undan ábyrgð sinni. Ég er algjörlega ósammála því. Formenn Sjálfstæðisflokksins, bæði núverandi og fyrrverandi, hafa þvert á móti algerlega viðurkennt ábyrgð sína á þeim hlutum sem þeir báru ábyrgð á og hafa tiltekið margvísleg mistök sem gerð hafa verið í ferlinu þannig að mér finnst ómaklegt að segja þetta.

Eins og ég sagði í ræðu minni í gær: Það víkur sér enginn undan ábyrgð á því sem gerst hefur í fortíðinni. Þegar hrunið sjálft er rannsakað, þegar bent er á hið augljósa, er ábyrgðina á því að sjálfsögðu helst að finna innan bankanna sjálfra og því framferði sem þar var, þeim viðskiptaháttum og þeim starfsháttum sem þar voru viðhafðir. Ég held að við öll hljótum í allri sanngirni að geta tekið undir það. Og ég ítreka að það víkur sér enginn undan ábyrgð á þeim þáttum sem snúa að stjórnsýslu, stjórnmálum, efnahagsmálum og því sem m.a. er fjallað vel um í skýrslunni.

Annað, ég hef ekki heyrt þau ummæli fyrrverandi forsætisráðherra, Geirs H. Haardes, sem lýstu honum til minnkunar að hann hafi sagt að stjórnsýslan mætti ekki batna. Þvert á móti, ég hef heyrt hann margoft tala um það að ýmislegt mætti betur fara og hann hefur lýst því í löngu máli.

En lærum endilega af þessu. Hvað með t.d. vinnubrögðin í Icesave-málinu? Eigum við að læra af því sem er að gerast einmitt núna? Hvað með það að við fáum ekki að vita skilmálana í viljayfirlýsingunni til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? (Forseti hringir.) Lærum einmitt af þessu og lærum öll, lærum með því að sýna núna (Forseti hringir.) að við tökum mark á því sem farið hefur úrskeiðis og við ætlum ekki að endurtaka það.



[14:25]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir andsvar hennar. Ég vék að því sérstaklega í ræðu minni að rótanna væri að leita í stjórnmálum, í pólitík. Það var pólitísk kennisetning sem boðin var fram kosningar eftir kosningar sem var grundvöllur einkavæðingar bankanna og þeirra viðhorfa og sýnar sem þar réðu ríkjum og urðu síðan grundvöllur hrunsins. Mér fyndist vera bragur á því að sjálfstæðismenn segðu það bara. Mér finnst eins og sjálfstæðismenn fjalli um þessi mál rétt eins og að foreldrar beri ekki ábyrgð á því þegar börnin fara sér að voða út af leikföngum sem eru þeim hættuleg. Regluverkið, utanumhaldið, forsendurnar, allt var þetta gert á hinu pólitíska borði. Sjálfstæðisflokkurinn bauð ítrekað fram þau sjónarmið, þær hugsjónir og þessa sýn í kosningum, hann gerði það.

Varðandi orð þingmannsins í lok andsvars síns um lærdóma í núinu en ekki bara í fortíðinni og framtíðinni, er ég sammála henni um það að við eigum að leitast við að opna alla ferla. Við eigum að leitast við að opna eins og við getum samskiptin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, við eigum að leitast við að sinna trausti þar sem það er til staðar og byggja það upp þar sem það er ekki fyrir hendi.



[14:27]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki að hlaupast undan pólitískri ábyrgð en ég er ósammála hæstv. ráðherra þegar hún segir að þetta sé viðhorf og sýn og ákveðin stjórnmálahugmyndafræði.

Ég sagði það hér í gær og ég segi það aftur og segi það enn: Ég ætla að berjast fyrir frelsi vegna þess að ég tel frelsi mjög mikilvægt. En frelsið má aldrei vera á kostnað ábyrgðar. Og fyrst hæstv. ráðherra nefndi barnauppeldi getum við aldrei treyst börnunum okkar ef við veitum þeim ekki frelsi. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherranum með það að við horfum ekki á börnin okkar fara sér að voða, en það kemur að því að við innprentum þeim guðsótta og góða siði en einhvern tíma verðum við að hleypa þeim af stað út í lífið. Við verðum, og það er það sem þetta snýst allt um, að hafa traust. Það brást, ábyrgðin brást, og þar er ég sammála.

En ég er (Forseti hringir.) ósammála því að hér hafi sérstaklega skort á regluverk. Það voru reglur og við erum að fara núna nákvæmlega (Forseti hringir.) yfir það hvaða reglur brugðust, hverjar voru of rúmar og hverjar voru brotnar. (Forseti hringir.) Áður en við gerum það held ég að við þurfum að skoða (Forseti hringir.) hvað það var sem brást (Forseti hringir.) áður en við förum að banna (Forseti hringir.) alla skapaða hluti, frú forseti.



[14:28]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Forseti minnir á að seinna andsvar er ein mínúta.



[14:28]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ein mínúta er stuttur tími og ég virði þingmanninum það til vorkunnar í lokin á andsvari sínu þegar hún kláraði ekki setningu sína varðandi það að einhver væri að banna allt mögulegt. Ég veit ekki alveg nákvæmlega hvað hv. þingmaður átti við í þeim efnum og við getum væntanlega átt orðastað um það sérstaklega við annað tækifæri og betra.

Ég er sammála þingmanninum um að frelsi skiptir máli, ég er sammála þingmanninum um það að frelsið skiptir gríðarlega miklu. En ég er þeirrar skoðunar að frelsi snúist um frelsi í félagi, frelsi sem ber í sér virðingu fyrir sínum meðbræðrum og -systrum og fyrir samfélagi sínu, ekki frelsi frekjunnar, frelsi yfirgangsins og frelsi þeirra sem eiga, geta og heimta. Það frelsi vil ég ekki.



[14:29]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil sérstaklega fagna þeim orðum hæstv. umhverfisráðherra sem lúta að Stjórnarráðinu og góðri stjórnsýslu. Það er kannski helst sá hluti rannsóknarskýrslunnar sem ég hef gefið mér tíma til að kynna mér og lesa almennilega og það er sá hluti sem gefur mér líka helst vonir um að í þessari skýrslu séu á hinu boltalega markaðsmáli gríðarleg sóknarfæri til að stokka upp íslenska stjórnkerfið, búa því nýjan ramma, nýja löggjöf og í raun regluverk, að koma á svokallaðri stjórnfestu, formfestu og lagafestu hér á landi.

Þess vegna fagna ég því og ég vil, eins og ég hef reyndar áður gert hér í þessum sal, brýna hæstv. umhverfisráðherra sem situr í ríkisstjórn Íslands og vinnur að samstarfsyfirlýsingu Samfylkingar og Vinstri grænna um að fækka ráðuneytum í Stjórnarráðinu, stækka þau og styrkja og vinna að því sem einn maður að gera ríkisstjórnina að slíku stjórntæki að þar séu allir upplýstir, þar taki menn helst sameiginlegar ákvarðanir en séu ekki eins og tíu eða tólf smábátasjómenn sem hittist stöku sinnum í kaffi.



[14:31]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni andsvar hennar. Ég má til með að segja stutta reynslusögu þó að hún rúmist tæpast innan þeirra tveggja mínútna sem ég hef hér til þess að svara andsvarinu. Það snýst um það menningarsjokk sem sú sem hér stendur varð fyrir við það að hætta að starfa í hreppsnefnd Reykjavíkurhrepps og taka að því loknu sæti við borð framkvæmdarvaldsins á Íslandi.

Af hverju var það? Það er fyrst og fremst vegna þess, sem þingmaðurinn víkur hér að í andsvari sínu, að ríkisstjórn Íslands er ekki fjölskipað stjórnvald. Sveitarstjórnir landsins eru þannig samsettar að þær setjast yfir mál, koma sér saman um niðurstöðu, greiða um það atkvæði og leiða mál til lykta með lýðræðislegum meiri hluta. Þar er framkvæmdarvaldið í þeim skilningi sett saman úr bæði meiri hluta og minni hluta. Staða minni hlutans hér í þinginu er líka umhugsunarefni. Þegar við erum að tala um lýðræðislega stöðu minni hlutans finnst mér t.d., og ég held að það sé allt í lagi við séum róttæk hér þegar við erum að ræða um svo róttæka hluti sem þessi skýrsla er, að staða minnihlutaþingmanna í þingnefndum sé umhugsunarefni. Geta minnihlutaþingmenn ekki leitt þingnefndir rétt eins og meirihlutaþingmenn? Er það ekki til þess að styrkja stöðu þingsins í heild og þá staðreynd að hver þingmaður hefur sína stöðu gagnvart framkvæmdarvaldinu, sama hvort það er að því er varðar lagasmíð eða hið bráðnauðsynlega aðhaldshlutverk? (Gripið fram í: Góð hugmynd.)

Ég tek því undir þau sjónarmið og mér finnst að við eigum að leyfa okkur að stíga þau róttæku skref sem þessi skýrsla gefur tilefni til þó að ég viðurkenni hér, og það er vonum seinna að ég viðurkenni það í ræðum mínum og andsvörum í þessari umræðu, að ég hef ekki náð að lesa síðurnar 2.600.



[14:33]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er brýnt að við hnikum til og ýtum þessum málum áfram. Við erum kannski stödd í því núna að gleðjast af feginleik yfir því að skýrslan skuli vera það stórmerka plagg sem hún er, það tímamótaverk í sögu íslensks lýðveldis og lýðræðis, að við horfumst kannski ekki í augu við það að víða er andstaða við breytingar þrátt fyrir allt og það þarf líka að hafa í huga.

Talandi um reynslusögur er það þannig að það trúir manni ekki nokkur maður þegar sagðar eru — ég segi nú ekki sögur, en þegar almennum kjósanda er gerð grein fyrir því hvernig ríkisstjórn Íslands starfar, hvernig það virkar. Ég hef stundum kallað það best geymda leyndarmál á Íslandi. Þannig einmitt verða valdakerfi stundum sem hugsa um það eitt (Forseti hringir.) að halda sjálfum sér við.



[14:34]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við þau þáttaskil sem skýrslan gefur tilefni til stöndum við hér, þingheimur, á tímamótum og við eigum að nýta þau tímamót. Óvenjulega mikil endurnýjun hefur orðið hér í þingsölum og það hefur, held ég, valdið okkur öllum ákveðnum vonbrigðum, ef við horfum í eigin barm, hve umræðan hefur verið hefðbundin, átakamiðuð og í skotgröfum.

Ég held því að við eigum öll að nýta nákvæmlega þetta tækifæri til þess að slá striki yfir þá umræðuhefð sem á sér rætur í valdapólitík þar sem meiri hlutinn drottnar yfir minni hlutanum og þar sem þeir sem tilheyra minni hlutanum hafa nánast ekki málfrelsi og tillögurétt. Þingið hefur nú tækifæri til þess að spyrna frá botni, liggur mér við að segja, og halda stolt á þessari flottu skýrslu í sókn til þess að endurmeta og endurmóta meðal annars stöðu framkvæmdarvaldsins.



[14:35]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er tvennt sem ég vil hafa orð á. Í fyrsta lagi segir hæstv. ráðherra að landslagið sé að sveiflast frá einstaklingshyggju til samhygðar og slíkrar hyggju, andstæðrar hyggju. Ég ætla að spyrja hann um öryrkjadóminn, sem var kórónan á einstaklingshyggjunni, hvort hún telji að öryrkjar sem eiga maka þurfi að óttast að farið verði að taka tillit til félagslegrar stöðu þeirra en ekki einstaklingshyggjunnar.

Ég vil líka spyrja hann um aðild að Evrópusambandinu. Þann 16. júlí var rædd aðildarumsókn að Evrópusambandinu og það var síðari umræða. Þar segir hæstv. ráðherra, með leyfi frú forseta:

„Ég hef þá sannfæringu að lýðræðið sé fyrir borð borið í Evrópusambandinu vegna þess að valdið er of langt frá fólkinu. Ég hef þá sannfæringu að markmið Evrópusambandsins sé að vera stórt og sterkt og hugsanlega sjálfstæður gerandi í stríði á forsendum valdbeitingar og yfirgangs eins og um hernaðarbandalag sé að ræða.“

Hæstv. ráðherra segir svo í lokin:

„Ég segi já.“

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Sér hún eftir þessu? Biðst hún afsökunar á þessu nú þegar við erum að sækja um aðild að Evrópusambandinu? Það er búið að sækja um fyrirvaralaust. Það er verið að breyta stofnunum landsins til þess að geta haldið áfram umsóknarferlinu og þetta kostar óhemjupeninga. Og hvað er með flokksræðið?



[14:37]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Fyrri spurningin varðaði stöðu öryrkja, hv. þingmaður segir að það snúist um einstaklingshyggju að öryrkjar geti notið tekna sinna óháð stöðu maka. Í mínum augum snýst þetta um réttinn til að lifa með reisn, sem sýnir okkur kannski að við nýtum hugmyndakerfi okkar og orðfæri eftir því hvaðan við komum úr stjórnmálum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar og þeirrar sannfæringar að samfélagið sé sem betur fer að leiðréttast frá því sem ég ræddi hér í ræðu minni áðan, hægrið var orðið norm og það gilti um miðjuflokkana líka. Þeir fóru að stíga allt of þungt í hægri fótinn og ég held að við finnum það öll sem hér erum.

Varðandi Evrópusambandið — og ég þakka þingmanninum fyrir að fara með mína ógleymanlegu atkvæðaskýringu þar — er ég þeirrar skoðunar, og það snýst ekkert um flokksaga í sjálfu sér, að það sé skynsamlegt að gefa þjóðinni möguleika á því að taka afstöðu til samnings um aðild að Evrópusambandinu. (Gripið fram í.) Ég er þeirrar skoðunar að það sé mikilvæg lýðræðisleg spurning sem almenningur á Íslandi eigi að fá að svara og sé tímabært að hann fái að svara. Þess vegna sagði ég já.

Ég er jafnmikið þeirrar skoðunar að það sé vond hugmynd að ganga í Evrópusambandið og sennilega verri hugmynd nú en oft áður. En varðandi umræðuna almennt um flokksaga — og ég hef orðið þess áskynja að þingmaðurinn hefur mikinn áhuga á þeirri umræðu, sem ég held að þyrfti meiri tíma hér — þá skulum ekki gleyma því að flokkur er hópur fólks sem sameinast um tiltekin sjónarmið og tilteknar hugmyndir. Flokkar hafa þann háttinn á að finna sér oft og einatt sínar leiðir til þess að koma þeim hugmyndum og þeirri skoðun (Forseti hringir.) áleiðis í gegnum meirihlutaákvarðanir í viðkomandi flokki. Mér finnst því svolítið á skjön við lýðræðishugsun að tala um að það snúist um einhverjar múlbindingar.



[14:39]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að einstaklingur skuli fá lífeyri óháð félagslegri stöðu sinni, hvort sem hann býr með moldríkum, tekjuháum maka eða ekki, er það í mínum huga einstaklingshyggja og mér finnst það bara ekkert slæmt. En það er spurning hvort menn ætli að hverfa frá þessu.

Svo er það þessi ótrúlega ræða sem hæstv. ráðherra flutti þann 16. júlí, og ætti að vera skyldulesning allra sem vilja kynna sér hvernig flokksræði virkar og hvernig menn snúa af braut sannfæringar sinnar, vegna þess að þetta verður ekkert borið undir þjóðina með afgerandi hætti. Hún verður spurð álits og síðan er kosið til þings. Það Alþingi mun taka þá ákvörðun eftir því sem sannfæring hvers og eins þingmanns býður honum. Það verður ekkert gert með þessa þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég sé suma hv. þingmenn, sem eru eindregið á móti Evrópusambandinu, greiða atkvæði með aðild ef 51% þjóðarinnar vilja ganga inn. Ég sé einnig sannfærða (Forseti hringir.) Evrópusinna greiða atkvæði á móti ef þjóðin skyldi segja nei.



[14:40]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvar sitt. Ég vil gera þá kröfu héðan úr ræðustól Alþingis að ég fái að tala sjálf fyrir mína sannfæringu. Ég afþakka aðstoð þingmannsins við það að túlka mína sannfæringu. Mín sannfæring er og var sú, sem kemur fram í atkvæðaskýringunni, að Evrópusambandið sé ekki gæfuspor fyrir Ísland. En það er jafnmikið mín sannfæring að það sé mikilvægt lýðræðislegt skref að íslenska þjóðin fái að taka afstöðu til þess. Ég ætla ekki að hafa vit fyrir henni eins og þingmaðurinn mundi væntanlega gera í mínum sporum.



[14:41]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við erum hér rétt að hefja umræðu um tímamótaverk sem er skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir bankahrunsins hér á landi. Þingmenn, sem velflestir hafa komið hingað upp, hafa fjallað um þetta merka rit af auðmýkt. Okkur hefur gefist mjög takmarkaður tími til að fara yfir þetta umfangsmikla verk og vonandi munum við halda áfram hér á vettvangi þingsins í þessum sal að ræða um það sem hefur gerst í íslensku samfélagi á undangengnum árum.

Þessi skýrsla er í fljótu bragði áfellisdómur yfir ráðherrum í ríkisstjórn, mörgum ríkisstjórnum, er áfellisdómur yfir störfum alþingismanna, er áfellisdómur yfir störfum Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitsins, íslenskra fjölmiðla og háskólasamfélagsins svo að fátt eitt sé nefnt. Innviðir íslensks samfélags hafa greinilega brugðist og það þurfa allir að líta í eigin barm, að við tölum ekki um þá aðila sem stýrðu fjármálastofnunum og stærstu fyrirtækjum íslensks samfélags á undangengnum árum, lýsingar á starfsháttum þeirra eru beinlínis ótrúlegar. Ég skal alveg viðurkenna það að þegar ég les um þau vinnubrögð fyllist ég reiði. Og ég er reiður. Og það eru margir sem eru reiðir yfir því hvernig fyrir okkur er komið og hvernig menn hafa hagað störfum sínum í íslensku samfélagi á undangengnum árum.

Þingmannanefndarinnar, sem á að fara yfir þessa skýrslu, bíður erfitt verk, umfangsmikið, og það er mikilvægt að reiðin verði ekki í forgangi í þeirri vinnu heldur að farið verði af yfirvegun yfir þetta mál, hvernig stóð á því að þetta gerðist allt saman og síðast en ekki síst hvernig við ætlum að byggja upp íslenskt samfélag á komandi árum. Atburðir sem þessir mega einfaldlega ekki endurtaka sig og ég óska þeim alþingismönnum sem eru í þessari mikilvægu nefnd góðs gengis í erfiðu viðfangsefni.

Það er líka eðlilegt að við spyrjum okkur að því, í ljósi þessarar skýrslu, á þeim litla tíma sem við höfum fengið til þess að lesa yfir hana, hvað hafi breyst. Hvað hefur breyst til að mynda hér á vettvangi þingsins, sem er harðlega gagnrýnt í þessari skýrslu? Sérstaklega er bent á foringjaræðið í þessari skýrslu, hvernig það hefur einkennt íslensk stjórnmál á undangengnum árum. Nú skulum við spyrja okkur að því, þingmenn: Hefur það eitthvað breyst? Nei, því miður horfum við upp á sömu gömlu vinnubrögðin á þessum vettvangi líkt og þau voru fyrir hrun, sem var ein af orsökunum fyrir því hvernig fyrir okkur er komið. Við þurfum öll að líta í eigin barm og þessu þurfum við að breyta, sama hvar í flokki við stöndum.

Þingmannanefndin þarf líka að skoða sérstaklega stöðu þingsins. Eftirlitshlutverk þingsins er mikilvægt, það brást. Við verðum að beita okkur fyrir því að Alþingi og þingmenn hafi aðstöðu til þess að veita framkvæmdarvaldinu nauðsynlegt aðhald, að hlutverk stjórnarandstöðunnar verði bætt hér í þingi. Stjórnarandstaðan gegnir mjög mikilvægu hlutverki og færa má fyrir því rök að stjórnarandstaðan hafi á undangengnum árum brugðist í aðhaldshlutverki sínu gagnvart viðkomandi valdhöfum. Hvernig stendur að því að stjórnarandstaðan hefur enga aðkomu að forustustörfum í nefndum þingsins, sem eiga að veita framkvæmdarvaldinu aðhald? Hvernig stendur á því að 34 manna meiri hluti hér í þinginu, gegn 29, skuli hafa alla formennsku og öll völd hér í þinginu? Þetta er ekkert lýðræði. Þetta er hugsun, þetta er villa í hugsun, eitthvað sem við þurfum að breyta að mínu viti.

Við þurfum líka að átta okkur á því hvert við stefnum. Færa má fyrir því rök að á sínum tíma, allt frá árinu 2003, hafi stjórnmálin færst fullmikið til hægri. Eftir á að hyggja er mér ljúft og skylt að játa það að þær skattalækkunartillögur sem þá var ráðist í voru einfaldlega of miklar á tímum mikillar þenslu, og ég játa það. Að sama skapi skulum við þá nota þá röksemd að á krepputímum megum við heldur ekki hækka skattana í þeim mæli að það komi atvinnulífinu í landinu og heimilunum mjög illa. Það er þessi gullni meðalvegur sem gildir. Þó að við höfum farið út af veginum hægra megin skulum við passa okkur á því að keyra ekki lóðbeint vinstra megin út af honum aftur í átt að endurreisninni. Það þarf raunsæishugmyndafræði. Við þurfum að hafna þeim öfgum sem sagan hefur sýnt okkur að ganga einfaldlega ekki upp.

Framsóknarflokkurinn hefur farið mjög ítarlega yfir sín mál á undangengnum árum og hann hafnar því ekki heldur samþykkir það að hann ber að hluta til ábyrgð á því hvernig fyrir okkur er komið. Ég skammast mín ekkert fyrir að segja það hér vegna þess að fjölmargir aðilar bera ábyrgð á því hvernig fyrir okkur er komið. Það sem þessir aðilar þurfa að gera er að líta í eigin barm, endurmeta sjálfa sig og horfa til framtíðar. Það höfum við á vettvangi Framsóknarflokksins gert allt frá því að við komum saman á flokksþingi okkar, eitt þúsund manns, fyrir rúmu ári. Það er mannlegt að gera mistök og menn skulu einfaldlega viðurkenna að það er margt í fortíðinni sem betur hefði mátt fara.

Mig langar líka í örstuttu máli að koma Íbúðalánasjóði til varnar í þeirri umræðu sem verið hefur uppi um það að svokölluð 90% lán þess sjóðs hafi sett samfélagið á annan endann. Staðreyndin er sú að árið 2004 var samþykkt löggjöf á Alþingi um að hækka lánshlutfall Íbúðalánasjóðs í áföngum í allt að 90% af hóflegu verði íbúðar, sem reyndar var tengt við brunabótamat. Í þeirri umræðu sem þá átti sér stað kvöddu sér hljóðs hæstv. núverandi forsætisráðherra og hæstv. núverandi fjármálaráðherra og hvöttu til þess að gengið yrði lengra í þeim lánveitingum, að svigrúm Íbúðalánasjóðs yrði aukið og að 90% húsnæðislán til þeirra sem væru að kaupa sér íbúð í fyrsta skipti yrði innleitt hið fyrsta. Það var fellt vegna þess að við sögðum: Það þarf að taka tillit til aðstæðna í íslensku efnahagslífi því að ef þenslan hefði verið það mikil hefðum við aldrei farið í það að hækka þetta prósentuhlutfall upp í 90%.

Hvað gerðist svo? Menn skulu ekkert gleyma því að áður en lögin tóku gildi kom stærsti einkabankinn inn á þennan markað og bauð lán á niðurgreiddum vöxtum, lán sem bankinn borgaði með, 100% lán, sem var ekki tengt neinu brunabótamati. Fólk þurfti ekki einu sinni að skulda neitt í sínu húsnæði. Það gat fengið 50 millj. kr. lán þó að það skuldaði ekki neitt gegn veði í húsnæði sínu. Það gat keypt sér sumarbústað, það gat keypt sér nýjan bíl og þar fram eftir götunum.

Hvað áttu stjórnmálamenn að gera þá sem vildu standa vörð um starfsemi Íbúðalánasjóðs? Átti að gera ekki neitt og láta lánshlutfall Íbúðalánasjóðs áfram vera 70% þannig að þessi mikilvæga stofnun yrði ekki samkeppnisfær og yrði lokað innan örfárra missira? Við framsóknarmenn sögðum nei við því. Og þó að ég hafi endurmetið margt í kjölfar hrunsins er afstaða mín gagnvart Íbúðalánasjóði og því samfélagslega hlutverki sem hann gegnir óbreytt. Við skulum ekki gleyma þeim röddum sem sögðu á Íslandi á þessum tímum að færa ætti íbúðalán Íbúðalánasjóðs yfir til bankanna, hann væri óþarfur. Ég hef ekki breytt um afstöðu í þessu og menn skulu ekki gleyma því í umræðunni að það var stærsti einkabankinn sem ruddist inn á þennan markað á niðurgreiddum vöxtum, hann borgaði með lánunum. Svo eru menn hissa á því hvernig fyrir þessum stofnunum er komið í dag.

Það gefst lítill tími, einungis tíu mínútur, til þess að ræða um þetta umfangsmikla verk og lítill tími hefur gefist til þess að lesa það. Ég fer fram á það, frú forseti, að innan nokkurra vikna fari önnur umræða um þessa skýrslu fram hér í þinginu. Hún þarf að vera opin og gegnsæ og fólk þarf að hlusta á skoðanaskipti okkar hér, það má ekki loka umræðuna inni í einhverjum nefndum. (Forseti hringir.) Tíu mínútur til þess að ræða um svona umfangsmikið mál er allt of skammur tími og tveir dagar til þess að lesa 2.300 bls. er einfaldlega allt of skammur tími. (Forseti hringir.) Það er krafa mín og margra annarra þingmanna að við fáum betri tíma og betra tóm (Forseti hringir.) til þess að ræða þetta tímamótaverk.



[14:52]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu, mér fannst hún karlmannleg. Hv. þingmaður sagði í fyrsta lagi að það væru margar ríkisstjórnir sem fengju áfellisdóm með þessari skýrslu. Ég ætla nú ekki að spyrja hann um hvaða ríkisstjórnir það eru. Mér fannst það mjög drenglynt hjá honum og í anda þeirrar nálgunar sem ég tel að við eigum að hafa í umræðum um þessa skýrslu, að hv. þingmaður, sem er varaformaður Framsóknarflokksins, sagði það undanbragðalaust að Framsóknarflokkurinn bæri að hluta til ábyrgð á þeirri þróun sem leiddi til þeirrar stöðu sem við erum núna í. Mér finnst rétt að menn nálgist þetta með þessum hætti og vil þakka hv. þingmanni fyrir það.

Mig langar að spyrja hann út í eitt atriði sem er einkavæðing bankanna. Ég er þeirrar skoðunar að einkavæðing bankanna eins og að henni var staðið sé frumorsök þessarar þróunar. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé mér og formanni Sjálfstæðisflokksins sammála um að sú stefnubreyting sem varð á síðasta metranum í aðdraganda lagasetningar um einkavæðingu bankanna, þegar horfið var frá dreifðri eignaraðild til þeirrar stefnu að selja stóra hluta í bönkunum, séu í raun hin stóru mistök á fyrsta skeiði þessarar þróunar.



[14:53]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hæstv. utanríkisráðherra um að æskilegast hefði verið og beinlínis nauðsynlegt að einkavæða þessa banka í þeim anda að dreifð eignaraðild yrði höfð til hliðsjónar. Við þyrftum kannski að læra af því hvernig mál þróuðust í framhaldi af því og hvernig m.a. eignarhaldi núverandi banka á markaði er háttað. Við vitum ekkert um hvort þar er um dreifða eignaraðild að ræða eða hvort einn eigandi verður þar allsráðandi. Þetta er spurning sem við þurfum að spyrja okkur og í raun og veru svara. Hvernig samfélag við viljum byggja upp til framtíðar? Ég hef spurt mig að því þegar maður horfir á samþjöppun í matvörugeiranum hvort það sé hollt ástand sem hefur verið á þeim markaði, hvort ekki þyrfti að vera dreifð eignaraðild í meira mæli á þeim markaði.

Við þurfum að velta fyrir okkur mörgum svona álitamálum í dag um það hvernig samfélag við viljum skapa. Mig langar þess vegna, í ljósi þess að við höfum einungis fengið tvo daga til að lesa yfir skýrsluna og einungis tíu mínútur til að ræða þetta umfangsmikla mál úr ræðupúlti Alþingis, að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann er mér ekki sammála um að það sé nauðsynlegt að við fáum lengri og meiri tíma, eftir að hafa gaumgæft skýrsluna, til að ræða hana á Alþingi fyrir opnum tjöldum, og ræða í framhaldinu hugmyndir okkar um það hvernig við viljum byggja upp Ísland í framtíðinni og hvað við getum lært af því tímamótariti sem þessi skýrsla er.



[14:55]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eitt af því sem við getum lært af þessari skýrslu er t.d. nauðsyn þess að innræta þeim sem skrifa skýrslur jafnleiftrandi stílbrögð og er að finna í skýrslunni.

Ég er alveg sammála því sem hv. þingmaður segir um nauðsyn þess að fá meiri tíma fyrir umræðuna. Ég var sammála hv. þingmönnum Hreyfingarinnar sem vildu fresta þessari umræðu. Ég reifaði sjálfur þau viðhorf vegna þess að ég taldi að það væri rétt að fara í þessa umræðu með þeim hætti að forustumenn flokkanna gæfu fyrstu viðbrögð og síðan gæfist mönnum tóm til þess að melta og meta innihald skýrslunnar. Ég er algjörlega sammála því og ég tel að það sé nauðsynlegt líka að framhaldsumræða verði hér þegar forsætisnefnd metur rétt.

Ég er þeirrar skoðunar að sú aðferð sem notuð var við einkavæðingu bankanna hafi ýtt mönnum inn á þessa þróun og hún sé stærsta orsökin. Ástæðan fyrir því er sú að það var ekki einungis farið inn á þá braut að láta stóra hluti í hendur sömu eigenda heldur var farið inn á þá braut, að mínu viti, að láta pólitíska vildarmenn fá þessa hluti. Ég held að það hafi verið eitt stærsta óheillasporið. Þess vegna er ég ekki algjörlega sammála hv. þingmanni um að það sé hægt að halda því fram — ég er ekki að segja að hann hafi gert það, en það mátti kannski lesa það úr orðum hans — að núna sé búið í reynd að einkavæða tvo bankanna bak kreppu. Og það er alveg hárrétt sem hér hefur komið fram, við vitum ekki algjörlega hverjir eru eigendurnir, en eitt vitum við þó alveg klárlega að þeir hlutar, sem eru aðallega í eigu útlendinga að ég held, voru ekki afhentir pólitískum vildarmönnum. Ég er með engu móti að sneiða að núverandi forustu eða núverandi þingflokki Framsóknarflokksins, ég er bara að segja að það að þetta var gert, að þetta var afhent með pólitísku boðvaldi pólitískum vildarhópum sem síðan voru inntengdir í forustu ráðandi flokka, (Forseti hringir.) ég held að það hafi verið stóra meinið í þessu, ég held það. (Gripið fram í: Hver var forsætisráðherra?)



[14:57]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ákvað að tala tæpitungulaust um það í ræðu minni hvernig atburðir síðustu ára hafa þróast og hafði allt sviðið undir í þeim efnum. Mér til mikilla vonbrigða horfir hæstv. utanríkisráðherra einungis á árin 2003–2007 í andsvörum sínum. Ég minni á að þrjár ríkisstjórnir hafa starfað frá því að Framsóknarflokkurinn var í ríkisstjórn og hæstv. utanríkisráðherra hefur setið í þeim öllum. Það er mikilvægt að allir horfi í eigin barm í þessum málum. Ég vil benda hæstv. ráðherra á það að við vitum ekki hverjir eiga bankana í dag. Við vitum ekki hvort þeir eru í dreifðri eignaraðild og við vitum ekki hvort jafnvel þeir sem stóðu að og stuðluðu að hruninu eigi einfaldlega bankana. Það er náttúrlega þessi skortur á upplýsingum sem skekur samfélagið og skapar tortryggni. Við eigum að leggjast öll á eitt að komast að því hverjir eiga þessa stóru banka í dag. Það er hluti af því uppgjöri og þeirri framtíðarsýn sem við þurfum að stuðla að á vettvangi þingsins.

Ég hvet alla sem hlut eiga að máli — ef hæstv. utanríkisráðherra tók ekki eftir því í ræðu minni minntist ég aldrei á það að eitthvað væri einhverjum sérstökum að kenna — ef við viljum hafa orðræðuna með þeim hætti að ég fari að kenna Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum um ákveðna hluti og Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn fari að kenna Framsóknarflokknum um ákveðna hluti komumst við ekki langt í þessari umræðu, við festumst í skotgröfum. Ég er að reyna að gera heiðarlega tilraun til þess að við náum saman á þinginu um að vinna úr þessum viðamiklu gögnum sem blasa við okkur og við náum saman um einhverja framtíðarsýn, hvernig við ætlum að byggja land okkar til framtíðar, (Forseti hringir.) því að við þurfum öll á því að halda í dag að til sé einhver framtíðarsýn, að við sjáum hvert við stefnum og að það sé ljós handan við hornið.



[15:00]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég get tekið undir margt af því sem kom fram í máli hans. Sérstaklega langar mig til að gera að umtalsefni það sem hann kom inn á í sambandi við vinnubrögðin í þinginu og ég held að það sé óhjákvæmilegt að þingið ræði þessa skýrslu frekar, taki sér einmitt ákveðið hlé núna en taki þetta mál upp aftur. Eitt af því sem er ekki síst mikilvægt að ræða í framhaldi af skýrslunni eru einmitt vinnubrögð okkar á þessum vinnustað.

Ég er ekki alveg viss um að bætt vinnubrögð felist endilega í því að stjórnarandstaðan fái aðkomu að formennsku í nefndum. Það segi ég ekki vegna þess að ég vilji ekki hleypa henni að sem stefnumótandi afli. Stjórnarandstaða á hverjum tíma hefur auðvitað mikilvægu hlutverki að gegna en veldur hver á heldur. Þá fáu mánuði sem ég hef starfað sem þingmaður hef ég verið mjög hugsi yfir starfsaðferðum bæði stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég held að stjórnarandstaðan eigi núna verulega möguleika á að bæta sínar samstarfsaðferðir og sín samskipti við þann meiri hluta sem er starfandi í þinginu. Ég held að samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu velti þar af leiðandi ekki síður á ábyrgri og agaðri aðkomu stjórnarandstöðunnar að þeim verkum sem vinna þarf hér og ég held að sú ábyrgð sé jafnmikilvæg og jafnrík hjá stjórnarandstöðu og hún er hjá meiri hluta þingsins og fulltrúum stjórnarflokkanna.

Síðan um skattalækkunar- og þensluhvetjandi hagstjórnina. Ég tek undir með þingmanninum að það þarf að gæta þess að keyra ekki út í skurðinn hinum megin. (Forseti hringir.) Þess vegna held ég að það sé fagnaðarefni hvernig sú ríkisstjórn sem nú situr hefur tekið á einmitt (Forseti hringir.) skattstefnumótun og vil gjarnan ræða það frekar við þingmanninn í seinna andsvari.



[15:02]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það var viðtekin venja fyrir einum 11–12 árum í starfsaðferðum á Alþingi að stjórnarandstaðan gegndi formennsku í ákveðnum nefndum. Það gafst ágætlega framan af og ég deili þess vegna ekki skoðunum með hv. þingmanni um að stjórnarandstaðan eigi ekki að vera í lykilhlutverki á vettvangi þingsins og jafnvel að stýra ákveðnum starfsaðferðum og starfsháttum sem náttúrlega er lykilatriði með formennsku í ákveðnum nefndum. Þetta geri ég ekki út af einhverri valdafíkn, vegna þess að ég vilji koma þingmönnum Hreyfingarinnar að eða Framsóknarflokksins eða Sjálfstæðisflokksins, heldur til að ná meira jafnvægi í störfum þingsins. Ég hef ekki upplifað það beint undanfarin ár á þingi að það sé mikið jafnvægi á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Við höfum kallað eftir meira samráði við ríkisstjórnina og ég vonast til þess að það samstarf muni bera einhvern árangur og menn fari að vinna meira saman. Við höfum m.a. átt fundi með forustumönnum ríkisstjórnarinnar um þær hugmyndir sem Framsóknarflokkurinn hefur teflt fram um þjóðarsáttarhugmyndir í 10 liðum. Þeim var ágætlega tekið og nú veltur á ríkisstjórninni hvernig framhaldið á því verður.

Ein af þeim hugmyndum sem við teflum þar fram er að takast á við kreppuna. Ég er einfaldlega ekki búinn að sjá að íslenskt samfélag þoli allar þessar skattahækkanir sem ganga yfir heimilin og fyrirtækin í landinu. Því miður er allt við frostmark á þeim bænum og það þarf að grípa til einhverra örvandi aðgerða.

Það þarf að setja meiri kraft í atvinnulífið og það gerum við m.a. með hófstilltri skattstefnu. Fyrir mína parta er þessi ríkisstjórn komin fulllangt til vinstri í þeim efnum.



[15:04]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er misskilningur hjá hv. þingmanni ef hann lítur svo á að ég sé á móti því að stjórnarandstaðan eigi aðkomu að nefndaformennsku í þinginu. Það sem ég á hins vegar við er að ég efast um að það sé lykilatriði. Ég held að lykilatriðið sé afstaða beggja málsaðila, bæði meiri hluta og minni hluta í þinginu, til þeirra verkefna sem vinna þarf og til verklagsins. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, mörg og knýjandi verkefni bíða, m.a. þurfum við að örva atvinnulífið úr tómum sjóðum núna. Eitt af því mikilvægasta sem við getum gert í því er að ganga frá t.d. Icesave-samningnum. Vinnubrögðin og umræðan um það mál eru t.d. til vitnis um það sem við erum að ræða hér um þessa óheillavænlegu umræðuhefð og þetta óheillavænlega verklag sem við höfum tileinkað okkur á þessum vinnustað (Gripið fram í.) sem stendur árangri og verkskilum hreinlega fyrir þrifum.

Sem betur fer finnst mér núverandi ríkisstjórn ástunda ábyrga skattstefnu. Hér var innleidd þrepaskipting í skattkerfinu sem ég held að sé mjög mikilvæg á þeim tímum sem við lifum núna þegar jafna þarf lífskjör og dreifa byrðum. En það er hins vegar alveg rétt að það þarf að vanda sig vel við slíka stefnumótun og í kreppustjórnun er mikilvægt að hægt sé að örva hagkerfið og auka útgjöld. Eins og ég sagði er vandi okkar náttúrlega sá núna að sjóðirnir eru tómir þannig að það sem við getum kannski treyst á núna og þurfum að geta treyst á er vilji okkar og heiðarleiki til að ganga sameiginlega til þeirra verka sem vinna þarf.



[15:07]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta andsvar. Ég held að það sé margt sem sameinar okkur frekar en sundrar þegar við tölum um breytt vinnubrögð á vettvangi þingsins. En það þarf líka að breyta hugarfarinu sem er hér inni og þá sérstaklega hjá þeim sem völdin hafa í landinu. Þá ætla ég að tala um yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra þegar hún ræddi um að samstarfið við Vinstri græna væri eins og að smala köttum sem er náttúrlega óvinnandi vegur. Þar erum við einmitt komin að hugsuninni um foringjastjórnmál. Af því að ákveðinn hluti Vinstri grænna vill ekki þóknast hæstv. forsætisráðherra er honum líkt við ketti. Þessi umræða er ekki þingmönnum bjóðandi.

Við erum akkúrat að upplifa þessi foringjastjórnmál hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra. Það er ekkert óeðlilegt, þau eru búin að vera á Alþingi Íslendinga samanlagt í yfir 60 ár, þau þekkja ekki önnur vinnubrögð. (VigH: Rétt.) Hvar er ferski andblærinn sem átti að fylgja nýjum þingmönnum sem komu inn árin 2007 og 2009? Hvað hugsa þeir stundum þegar þeir sitja á þingflokksfundum og hlusta á ræður þessara foringja sem ætlast til að þeim sé hlýtt í einu og öllu? Ég ætla bara að hæla Vinstri grænum eða þeirri deild innan Vinstri grænna sem hefur staðið í lappirnar í Icesave-málinu. (Gripið fram í.) Forustumenn ríkisstjórnarinnar fengu þar aðeins á baukinn og við erum með þessum vinnubrögðum búin að spara þjóðinni tugi eða hundruð milljarða króna. Við skulum halda áfram að vinna með þessum hætti þannig að lýðræðið hér virki, að tveir aðilar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, geti ekki bara gefið þingmönnum sínum einhverjar fyrirskipanir sem þeir hlýði í blindni. Við þurfum að yfirgefa þessa tíma. Það er kannski þessi hugsun og þessi vinnubrögð sem hafa leitt okkur á þann stað sem við erum á í dag. Þessu viljum við breyta og ég finn að það er viðtekin sátt um það hér inni. (Forseti hringir.) Við þurfum bara að vera óhrædd við það að breyta.



[15:09]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að umræðan um rannsóknarskýrsluna sem hér er á dagskrá verði að hluta til eins og eldhúsdagur og þó í útvíkkaðri merkingu þannig að farið sé yfir hið pólitíska svið, þá pólitísku hugmyndafræði sem hefur ráðið ríkjum, ekki aðeins á því tímabili sem skýrslan nær yfir heldur áratugarins þar á undan og einnig sé farið yfir vinnulag og hegðan framkvæmdarvaldsins, m.a. með hvaða hætti aðilar úti í samfélaginu, hvort sem þeir hafa meiri eða minni völd, meiri eða minni ítök, meira eða minna fjármagn, hafa komið að íslensku samfélagi á undanförnum tveim áratugum.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson lauk ræðu sinni á að tala um (BJJ: Ketti.) foringjadýrkunina og foringjaveldið (BJJ: Og ketti.) og gat nú verið að hann talaði þar af nokkuð biturri reynslu. Það er kannski líka hluti af því sem þessi skýrsla tæpir á, og ekki bara tæpir á heldur gerir að ákveðnu grunnstefi í því sem hefur gerst á undanförnum árum.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal er ekki hér inni en hann var mjög þekktur fyrir að innleiða hugtakið „fé án hirðis“. (Gripið fram í.) Já, svo sannarlega er núna hægt að velta fyrir sér, ekki bara hvar féð sé og hvar hirðirinn að fénu heldur líka hver sé hirðirinn að skuldunum. Hver er skuldahirðirinn í því samfélagi sem við erum að gera upp? Mikið var talað um fé án hirðis þegar ráðist var á sparisjóðina. Þeir voru eitthvert úrelt fyrirbrigði, félagsleg fjármálastofnun sem byggði ekki á arðsemi eigendanna eða ábyrgðarmannanna. Nei, það var félagsleg ábyrgð sem stóð að baki sparisjóðunum og þar var talað um fé án hirðis. Hvernig fór síðan með sparisjóðina á þessari vegferð? Jú, lögum var breytt, þ.e. lögin voru túlkuð með þeim hætti að það mætti fara að selja þessi stofnbréf, þessi bréf ábyrgðarmannanna sem stóðu að stofnun sparisjóðanna, maður mætti fara að selja þau á markaðsvirði. Sú þróun byrjaði ekki í litlu sparisjóðunum úti á landi. (Gripið fram í: Nei.) Nei, hún byrjaði hér. Ætli það hafi ekki fyrst verið Sparisjóður Hafnarfjarðar? Síðan kom SPRON og svo, hvort hann heitir BYR eða hvað þeir heita núna. Þetta eru allt saman sjóðir sem verða skráðir á spjöld sögunnar.

Fé án hirðis var breytt í skuldir án hirðis — en hver er hirðirinn þar? Hann er nefnilega ekki óþekktur. Hann er íslenska þjóðin sem axlar þessa stefnu sem byggði á þeirri hugmyndafræði að það væri hrikalegt að vera með fé án hirðis. (Gripið fram í: Gætirðu lesið þetta?) Það voru líka fleiri hirðar sem minnast þess að ef menn áttu óskuldsetta eign áttu þeir vannýtta auðlind. Öll þessi hugtök komu þarna fram og urðu drifkrafturinn að því sem var undanfari þess samfélags sem við erum að gera upp við.

Þessi skýrsla er nú hér til umræðu og það er mjög eðlilegt að við fjöllum um þá pólitík sem liggur henni að baki. Við höfum ekki lesið hana svo ítarlega að við getum farið að vitna í hana frá orði til orðs. Engu að síður er það styrkur Alþingis að hafa látið ráðast í þessa skýrslugerð og þessa samantekt og að henni skuli hafa verið fundinn farvegur þar sem farið verður yfir einstök atriði hennar, þau metin á einhvern veg, hvort grípa þurfi til einhverra sértækra aðgerða gagnvart einhverjum sem þar eiga hlutdeild að en ekki hvað síst var hlutverk nefndarinnar, að mig minnir, þegar hún var sett á stofn að gera ábendingar um hvernig við skyldum skipa málum til næstu ára, fjármálakerfinu, stjórnsýslunni, ráðuneytunum o.s.frv., sem sagt var það hennar að fara ofan í þessi mál og gera tillögur um hvernig þeim verði skipað framvegis.

Ég minnist margs frá þessum árum. Ég kom inn á þing 1999, inn í mitt upphaf hraðeinkavæðingarinnar. Mér fannst svolítið ósanngjarnt að heyra frá skýrsluhöfundum að nánast allir hefðu verið á sama báti í þessari vegferð. Að vísu er í einni bókinni gerð grein fyrir því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi haft þar vissa sérstöðu. En á Alþingi var svo rækilega varað við því sem var að gerast. Þó að hópurinn væri ekki fjölmennur, þó að við værum sex og síðan fimm þingmenn Vinstri grænna beittum við því sem við áttum, málfrelsinu, og samanlagt töluðum við á þeim tíma eins og allur annar þingheimur. Það var það baráttutæki sem við áttum. Við lögðum fram hvert þingmálið á fætur öðru og lögðum til allt aðra nálgun, allt aðra sýn, hvort heldur það var fyrir fjármálakerfið, atvinnulífið, fyrir grunnþjónustuna, heilbrigðisþjónustuna, fjarskiptin, símann eða póstþjónustuna, við lögðum fram þingmál og hvöttum til að farin yrði allt önnur leið en farin var, einkavæðingarleiðin.

Ég minnist baráttunnar um Íbúðalánasjóð. Öll árin var tekist á um Íbúðalánasjóð. Ég minnist þess í ræðu sem mig minnir að þáverandi forsætisráðherra hafi flutt á ársfundi Seðlabankans, líklega 2003 eða 2004, að brýnasta málið væri að koma Íbúðalánasjóði í hendur bankanna til að styrkja stöðu þeirra í sókn innan lands og utan. Þetta stríð stóð öll þessi ár. Okkur tókst að verja Íbúðalánasjóð sem betur fer. Ég sé að hér er hv. formaður Framsóknarflokksins, í þeim flokki voru líka menn sem lögðust gegn því að einkavæða og tortíma Íbúðalánasjóði þó að það væri hin opinbera stefna stjórnvalda á þeim tíma. Vinstri hreyfingin – grænt framboð var alveg einörð í þeim málflutningi og við getum m.a.s. séð hver staðan er svo seint sem í september 2008. Þá segja Samtök atvinnulífsins að brýnt sé að afhenda bönkunum Íbúðalánasjóð til að treysta eiginfjárstöðu þeirra á erfiðum tímum. Enn stöndum við frammi fyrir umræðum um hvort eigi að hlutafélagavæða hluta af Íbúðalánasjóði. Við erum enn í vörninni. Ég get nefnt markaðsvæðingu raforkukerfisins sem við tókum líka slaginn um. Í einkavæðingu Landssímans átti bara að vera formbreyting. Hver á núna Landssímann? Það var ekki einu sinni hægt að skipta honum þá upp í grunnnet og þjónustunet en innan árs eftir að hann hafði verið seldur var honum skipt upp í tvö fyrirtæki. Eitt sem landsmenn vissu var að um leið og búið yrði að selja Landssímann yrði þjónustustöðvunum á Blönduósi, Sauðárkróki, Siglufirði og víðar lokað. (Forseti hringir.) Þannig merktu menn þá breytingu sem var, frú forseti, þannig að ég held að það sé (Forseti hringir.) af mörgu sem við getum lært. Það er ekkert óeðlilegt og við verðum að fara í gegnum þá umræðu sem þessi mál fengu. Það var tekinn slagur um þau á (Forseti hringir.) þessum tíma og hann verður tekinn áfram.



[15:20]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir að fara yfir sýn sína á þróun þess hvernig þetta gerðist í aðdraganda bankahrunsins. Ráðherra var tíðrætt um í byrjun ræðunnar að hér ætti að ástunda vönduð og fagleg vinnubrögð og ég tek undir það með honum.

Sá ráðherra sem talaði hér stóð í lappirnar og fylgdi sannfæringu sinni þegar Evrópusambandsumsóknin var samþykkt, þvert á flokkslínur, og er ég honum þakklát fyrir það. En hæstv. ráðherra hefur það nú yfir höfði sér að verða jafnvel rekinn úr ríkisstjórn vegna þess að nú á að fækka ráðuneytum og hefur samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn lagt mikið kapp á að losna við þennan sjálfstæða ráðherra úr ríkisstjórninni, það dylst engum. Vinstri grænn ráðherra var rekinn úr ríkisstjórninni fyrir það að fylgja sannfæringu sinni í Icesave-málinu. Við framsóknarmenn erum líka ævarandi stoltir af þeim ráðherra, því að með því að Vinstri grænir létu ekki reka sig eins og ketti í þessum tveimur atkvæðagreiðslum sýndu þeir að þeir þora að standa á móti straumnum og ganga ekki í takt eins og Samfylkingin í Garðabæ vill að Vinstri grænir gangi.

Mér sýnist þetta ríkisstjórnarsamstarf vera komið nokkuð að fótum fram og verður nú kannski ekki langlíft eftir þetta. Mig langar því að spyrja ráðherrann í framhaldi af þessu hvort hann taki ekki undir þær tillögur sem hafa komið hér fram um að menn eigi að fylgja sannfæringu sinni í einu og öllu á Alþingi og ekki fylgja flokksaga eða flokksræði. Þá fyrst getur Alþingi farið að starfa með eðlilegum hætti og verið það löggjafarvald sem það á að vera til hagsbóta fyrir þjóðina alla. Er ekki ráðherrann sammála mér um þetta?



[15:22]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvorki í þingmennsku né í ráðherrastól á neinn neitt, við erum öll lýðræðislega kjörin á þing og síðan öxlum við ábyrgð. Ég er lánsamur og stoltur af því að axla þá ábyrgð að vera landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra eða sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, eftir því í hvaða röð við viljum segja þetta.

Þó að þessi ríkisstjórn sé alls ekki fullkomin og megi svo sannarlega taka sig á, þá tel ég engu að síður að hún sé sú besta sem við höfum haft um langt, langt árabil. (Gripið fram í: Nei, Jón.) Ég er hér með mynd af Viðeyjarstjórninni þegar Jón Baldvin Hannibalsson og Davíð Oddsson hlaupa í fangið hvor á öðrum og einkavæðingin hefst. Ég er með mynd af því þegar Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson mynduðu ríkisstjórn, foringjarnir. Viljum við endurtaka það? Nei.

Ég er líka með mynd af því þegar þáverandi formaður Samfylkingar og þáverandi formaður Sjálfstæðisflokks minntust við upphaf ríkisstjórnarferils síns og settu ríkisstjórnina í gang. Þó að ýmislegt megi að þessari ríkisstjórn finna og hún geti svo sannarlega gert betur þá er hún þegar ég horfi yfir þetta eina svið sú ríkisstjórn sem er sko lang-, lang-, langbest og mestar væntingar nú bundnar við. Ég hef enga trú á öðru en að hv. þingmaður beri í raun líka góðar væntingar til þessarar ríkisstjórnar og ég tala nú ekki um til mín sem ráðherra.



[15:24]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað ber ég miklar væntingar til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann vinni störf sín áfram vel til hagsbóta fyrir sjávarútveg og landbúnað í landinu, ekki veitir af þar sem nú liggur fyrir umsókn að Evrópusambandinu.

Það var gaman að ráðherrann skyldi minnast á Viðeyjarstjórnina svokölluðu því að sú ríkisstjórn lagði grunninn að því að hér var tekinn upp löggiltur samningur inn á Evrópska efnahagssvæðið sem lagði grunn að því gerræðislega og taumlausa fjármálakerfi sem þróaðist hér og í Evrópu, sem leiddi að lokum til falls íslensku bankanna og þess falls og hruns sem við stöndum frammi fyrir.

Því langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Er þetta það sem við Íslendingar þurfum nú, að fara á hnjánum til Evrópusambandsins og biðja um að vera teknir inn í sambandið? Er rétt að gera þetta á þessum tímapunkti? Hver er skoðun ráðherrans á því? Á að draga Evrópusambandsumsóknina til baka eða á að halda henni áfram?



[15:25]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Skoðun mín varðandi Evrópusambandið er óbreytt og ef eitthvað er þá er hún sterkari en hún var, sem er erfitt, að við eigum ekkert erindi þangað. Að draga umsóknina til baka er á valdi Alþingis, þannig að ef meiri hluti á Alþingi tekur ákvörðun um að draga umsóknina til baka þá verður hún dregin til baka. (Gripið fram í.) Það er enginn ráðherra sem ákveður (Gripið fram í.) hvort heldur er gert. Það er Alþingi sem ræður. Erum við ekki einmitt að tala um styrk Alþingis? Ég vísa líka til Alþingis.

Varðandi sjávarútveginn og landbúnaðinn er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta eru núna undirstöðugreinar íslensks atvinnulífs og þaðan sækjum við sérstaklega styrk við endurreisn íslensks atvinnulífs og þurfum að standa vörð um þær. Það er ekki svo sjálfgert að standa vörð um íslenskan landbúnað úti um allt land og standa vörð um fæðuöryggi þjóðarinnar. (Gripið fram í: Jú.) Það er ekki svo sjálfgert, (Forseti hringir.) en við skulum takast á við það saman og treysta það.



[15:27]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara út í það að spyrja hæstv. ráðherra um sannfæringu hans gagnvart Evrópusambandinu og hvernig hann vinnur dyggilega að því að koma Íslandi þangað inn. Ég ætla ekki að spyrja hann að því og hvernig hann ætlar að breyta heilu stofnununum til þess að geta sótt um, sem kostar óhemjufé. Hann ætlar að breyta íslenskri landbúnaðarstefnu til þess að geta sótt um og svo er hann á móti því að vera þarna inni. Þetta er dálítið skrýtin sannfæring.

Ég ætlaði að tala við hæstv. ráðherra um fé án hirðis, sem ég skrifaði grein um í Morgunblaðinu 1994, fyrir 16 árum. Í greininni varaði ég einmitt við því að fé sem enginn á er stýrt af einhverjum og ég nefndi þar lífeyrissjóðina, ríkissjóð og fleiri. Ég nefndi ekki sparisjóðina en hefði betur nefnt þá. Sá sem stýrir fénu er góður og gegn og hann kemur og fer. En svo kemur einn vondur sem stýrir fénu í eigin þágu. Það er hættan við fé án hirðis.

Þess vegna þurfa menn annaðhvort að hafa mjög sterkt eftirlitskerfi eða reyna að koma þessu fé án hirðis í hendur einhvers hirðis. Ég vil taka það fram að ég var á móti öllum breytingum á lögum um sparisjóðina, um hlutafjárvæðinguna, af því að ég vissi hvað menn voru að gera og afleiðingarnar sjáum við. Ég varaði einmitt við því sem gerðist 1994. Ég held að ég þurfi að birta þessa grein aftur, fá hana endurbirta, vegna þess að menn hafa leikið sér að því að misskilja hugtakið „fé án hirðis“.

Fé án hirðis er í hættu, það er málið. Það koma góðir menn og stýra því og þeir fara. Svo koma vondir menn einu sinni og þeir fara ekki, þeir sitja fastir á fénu og stýra því áfram eins lengi og þeir mögulega geta með alls konar annarleg sjónarmið í huga.



[15:29]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þarna skilur svo rækilega á milli hugmyndafræði og pólitískrar sannfæringar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í: Guði sé lof.) Fé sem er í eigu þjóðarinnar er ekki án hirðis. Fé sem er í eigu samfélagsins eða samfélagshópa er ekki án hirðis. Landssíminn var á meðan hann var í eigu þjóðarinnar ekki án hirðis. Raforkukerfið er að vísu í eigu þjóðarinnar að meginhluta til en þjóðin er besti hirðirinn og það að tala niður til þjóðarinnar með þeim hætti að ef hún eigi eignir séu þær án hirðis — hún situr að vísu núna uppi með skuldirnar sem eru afleiðing þeirrar stefnu sem hv. þm. Pétur Blöndal var að lýsa. Menn gripu til sín eignir og sögðu eins og hv. þingmaður: Þær eru án hirðis. Sem þær voru ekki. Af hverjum voru þeir að taka þessar eignir? Af íslensku samfélagi, af íslenskri þjóð. Hverju skila þeir nú til baka sem töldu sig vera að sækja fé án hirðis? Jú, hundruð milljarða króna skuldum og þær skuldir leita að hirði. Hver verður að vera hirðir þeirra? Jú, íslenska þjóðin geldur fyrir þessa hugsun hv. þingmanns.



[15:31]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er dapurlegt að verða var við þennan mikla misskilning vegna þess að skuldirnar sem þjóðin er að taka yfir eru einmitt Icesave, þar sem hæstv. ráðherra lúffaði fyrir erlendu valdi og samþykkti og mælti ekki eitt einasta orð, ég veit ekki enn þá hvaða afstöðu hann hefur til málsins. Hæstv. ráðherra talaði aldrei í umræðunni um Icesave. (Sjútvrh.: Víst.) Hann greiddi atkvæði með því að samþykkja það að taka yfir þessar gífurlegu skuldbindingar. Það var ekki fé án hirðis. Fé án hirðis er fé sem enginn á eins og í sparisjóðunum, það er allt annar handleggur og það fé er í góðum höndum á meðan þeir sem stýra því eru góðir menn. En um leið og einn skúrkur kemur þar inn þá er það ekki lengur í góðum höndum. Þess vegna þarf að vera mjög sterkt eftirlit með öllum sjálfseignarstofnunum og lífeyrissjóðum.

Hvernig er lýðræði í lífeyrissjóðunum háttað? Hverjir skyldu velja þá menn sem stýra því skipi, hverjir? Eru það sjóðfélagarnir? Ónei. Það er þetta sem ég talaði um sem fé án hirðis. En skuldir Íslendinga sem hv. þingmaður hefur tekið yfir og samþykkt, það (Forseti hringir.) er allt önnur Ella.



[15:32]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög sérstakt að heyra hv. þm. Pétur H. Blöndal sem líklega hefur verið í ríkisstjórn, var ekki hv. þingmaður í ríkisstjórninni 1991 þegar við (PHB: Ég var ekki í ríkisstjórn.) — hv. þingmaður var í þeim flokki sem myndaði ríkisstjórn og stóð hér að þeirri lagasetningu og (PHB: Ég var ekki ráðherra.) því eftirlitsumhverfi sem sett var. Það má vel vera að hv. þingmaður hafi — og ég virði það oft við hv. þingmann — fylgt sannfæringu sinni en ekki flokksaganum í sumum þeim málum sem hann vitnaði hér til þegar verið var að setja lög um eftirlitskerfið sem hv. þingmaður segir að hafi brugðist. En hann studdi engu að síður þá ríkisstjórn sem setti allt þetta vitlausa eftirlitskerfi sem brast og brást.

Það er voða þægilegt að koma svo hér inn. Og af því að hv. þingmaður var að vísa til Icesave og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, í tíð hvaða ríkisstjórnarflokka var í raun gengið frá þeim grunnsamningum? (Forseti hringir.) Í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar sem þá var.



[15:33]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna, þó að hann hafi ekki mikið rætt um framtíðina og hvernig hann vill sjá Ísland framtíðarinnar byggt upp. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra var að miklu leyti til bundinn í fortíðinni, sem er náttúrlega nauðsynlegt að vissu leyti en menn mega ekki eingöngu horfa í baksýnisspegilinn, við þurfum líka að horfa fram á veginn.

Hæstv. ráðherra kom hér upp og talaði um það að Framsóknarflokkurinn og viss öfl innan hans hefðu haft það að stefnu að einkavæða Íbúðalánasjóð. (Gripið fram í: Það er rugl.) Mér verður náttúrlega hugsað til virðingar Alþingis þegar hæstv. ráðherra kemur hér upp og fer með slíkar villur. Íbúðalánasjóður var á sínum tíma stofnaður undir forustu Páls Péturssonar félagsmálaráðherra, eins og hæstv. ráðherra veit, og Framsóknarflokkurinn hefur staðið vörð um Íbúðalánasjóð.

Það var í tísku á sínum tíma, sérstaklega hjá hægri öflunum í landinu, (Gripið fram í.) að tala fyrir því að leggja sjóðinn niður. Við framsóknarmenn sögðum nei við því og hafi ég haldið ræður um eitthvert málefni oft hér í ræðustól Alþingis er það trúlega um Íbúðalánasjóð. Þegar við ræddum áðan um það hvernig uppgjörið er við Íbúðalánasjóð í skýrslunni sagði ég og tók sérstaklega fram í ræðu minni að ég væri ekki sammála því og að þar væri að mínu viti réttu máli hallað. Við framsóknarmenn höfum alla tíð staðið vörð um Íbúðalánasjóð. Hæstv. ráðherra er að snúa sannleikanum á hvolf. Eins ágætur maður og hæstv. ráðherra er þá er þetta honum ekki til sóma og ég hafna því algjörlega að Framsóknarflokkurinn hafi ætlað að einkavæða Íbúðalánasjóð, þvert á móti, eins og margir af félögum hæstv. ráðherra í Vinstri grænum, þar á meðal Ögmundur Jónasson, (Forseti hringir.) geta staðfest þá höfum við staðið í lappirnar í þeim efnum.



[15:36]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alveg tekið undir það með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að í Framsóknarflokknum hefur oft verið margt ágætra manna, eins og t.d. Páll Pétursson sem er góður Húnvetningur og mikill (Gripið fram í.) félagshyggjumaður. Og eflaust má tína til fleiri eins og hv. þm. Birki Jón Jónsson, a.m.k. í sumum málum, (Gripið fram í.) þó ekki í ESB-málum. [Hlátur í þingsal.]

Hins vegar verð ég því miður að segja, til að halda þessu alveg til haga, að ég heyrði ræðu þáverandi hæstv. forsætisráðherra Halldórs Ásgrímssonar á aðalfundi Seðlabankans þar sem einmitt var sagt að það væri eitt brýnasta mál (Gripið fram í.) — hins vegar vissi ég jafnframt að í Framsóknarflokknum voru aðrir menn sem voru þessu andvígir. Þess vegna tókst sem betur fer að bjarga honum, en það var oft fyrir horn, það verður bara að segjast eins og er.

Ég vona að hinn nýi, endurreisti Framsóknarflokkur sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefur verið að lýsa velkist ekkert í vafa um hvorum megin hann liggur, (Gripið fram í.) hvorki varðandi Íbúðalánasjóð og framtíð hans og félagslega fjármögnun íbúðalána í landinu þar sem allir eru jafnir, (BJJ: Enginn vafi.) né varðandi þessa Evrópusambandsumsókn. Ég vona að Framsóknarflokkurinn þjappi sér saman og komi sér þar saman um eina stefnu, þá farsælu og einu réttu. [Kliður í þingsal.]



[15:38]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var athyglisverð ræða og kom úr hörðustu átt þegar við lítum til þess að margir Vinstri grænir, sem hafa lýst því yfir í ræðu og riti að þeir séu andvígir aðild að Evrópusambandinu, sögðu já við því að sækja um aðild. Ég held að það sé þó skárra að við í Framsóknarflokknum, sama hvaða skoðun við höfum, höfum farið eftir hugsjónum okkar og staðið við sannfæringu okkar og það er skylda alþingismanna að gera það.

Í tilfelli Vinstri grænna liggur það svo augljóslega fyrir að á þeim bænum voru menn að greiða atkvæði gegn eigin sannfæringu. Það eru þessi leiðtogastjórnmál sem þeir á hátíðisdögum tala um að yfirgefa. En staðreyndin er sú að þau vinnubrögð viðgangast enn á þeim bænum og það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra benti á að nýr Framsóknarflokkur hefur þessi gildi í heiðri og það eiga alþingismenn að gera. Það á ekki að múlbinda menn eins og var því miður gert við stóran hluta af þingflokki (Forseti hringir.) Vinstri grænna í þessu máli.

Við framsóknarmenn förum eftir sannfæringu okkar og það mun ekkert (Forseti hringir.) stöðva mig í þeim efnum. Svo þakka ég hlýleg orð í garð flokksins er snerta Íbúðalánasjóð. (Forseti hringir.) Það þarf ekki að velkjast í vafa um hver stefna flokksins er í þeim efnum og hefur aldrei þurft.



[15:39]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég var alls ekki að finna að því að hv. þingmaður fylgdi sannfæringu sinni, ég var að vísu að vona að hún yrði önnur. [Hlátur í þingsal.] En það var bara það sem ég vonaðist til og óskaði eftir og taldi vera frekar í takt við stefnu flokksins, (Gripið fram í: Hvaða flokks?) en ég virði alveg fullkomlega og ber mikla virðingu fyrir því þegar þingmenn, hvort sem þeir eru í Framsóknarflokknum eða öðrum flokkum, fylgja sannfæringu sinni, ekki síst þegar hún er í samræmi við stefnu flokks þeirra.



[15:40]Útbýting:

[15:40]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég veit ekki um neinn Íslending sem kominn er til vits og ára sem finnst samfélag okkar réttlátt. Ég veit ekki um neinn sem finnst að hlutirnir séu í lagi á Íslandi, stjórnmálaflokkar starfi í þágu almennings og að allir hafi jöfn tækifæri. Það er ekki bara vitlaust gefið, íslenskt samfélag er nánast óbærilegt vegna spillingar í viðskiptalífi og stjórnmálum. Þessi tilfinning hefur bærst með okkur lengi en nú höfum við fengið staðfestingu á því hvað það er nákvæmlega sem er að.

Okkar er að vinna úr því, sjá til þess að þeir sem bera ábyrgð axli hana með raunverulegum hætti og tryggja að svona lagað gerist ekki aftur. Ég vona að skýrslan verði til þess að græða þjóðfélagið. Þjóðin er ýmist dofin eða reið en nær ekki að vinna úr því áfalli og þeirri sorg sem við urðum fyrir við hrunið. Ég vona að skýrslan og úrvinnsla hennar verði til þess að við komum okkur upp úr hjólförunum, vinnum af æðruleysi að því að breyta því sem við getum breytt og sætta okkur við það sem við getum ekki breytt. En ef hér á einhvern tímann að skapast sátt þarf ýmislegt að gerast fyrst.

Ríkið ábyrgðist allar innstæður í bönkum hérlendis en lánþegum er gert að greiða stökkbreytt lán upp í topp. Við hljótum að krefjast leiðréttingar á skuldum heimilanna. Ég vil benda á að tíu skuldugustu menn landsins skulda samtals 607 milljarða króna. Hvað ætlum við að gera til að fá þá peninga til baka? Af hverju er ekki búið að frysta eigur þessara manna? Eru þeir enn ósnertanlegir? Ef svo er, hvað getum við gert til að breyta því? Löggjafarvaldið er okkar þingmanna.

Og hvað með stjórnvöld? Það er föst þingvenja að ávarpa þingmenn með orðunum „háttvirtur“ og ráðherra með „hæstvirtur“. Á sú venja rétt á sér nú þegar sannleikurinn liggur fyrir? Verðskulda þingmenn sem hafa tekið þátt í vafasömum fjármálagerningum, skulda jafnvel 1.700 milljónir króna sem þeir eru ekki borgunarmenn fyrir, að vera ávarpaðir með þessum hætti? Frú forseti, ég treysti mér ekki til þess að nota þessi ávarpsorð um suma þingmenn og ráðherra og biðst hér með undan því að nota þau hér í dag.

Á bls. 124 í 1. bindi skýrslunnar viðurkennir Geir H. Haarde að hafa gert þau mistök við myndun ríkisstjórnar árið 2003 að samþykkja kröfur samstarfsflokksins um breytingar á íbúðalánakerfinu, sem eru að mati skýrsluhöfunda ein alvarlegustu mistök í hagstjórn á Íslandi síðustu árin.

Hann vissi betur en, eins og segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Hann hafi metið það svo að væntanlegur skaði fyrir samfélagið væri ásættanlegur kostnaður við það að sitjandi flokkar héldu völdum.“

Ég endurtek:

„Hann hafi metið það svo að væntanlegur skaði fyrir samfélagið væri ásættanlegur kostnaður við það að sitjandi flokkar héldu völdum.“

Ég hef setið á þingi í tæpt ár. Á þeim tíma hef ég ótal sinnum orðið vitni að því að þingmenn og ráðherrar taki hagsmuni flokksins og valda fram yfir hagsmuni þjóðarinnar. Ég bið þá þingmenn sem þannig hugsa enn að víkja tafarlaust. Þeir sem taka sérhagsmuni fram yfir sameiginlegan hag allra Íslendinga verða að víkja undir eins. Þeirra tími er liðinn.

Frú forseti. Í gær var ég á opnum fundi um skýrsluna. Það var bæði magnað og ógnvekjandi að skynja þá reiði sem ólgar í samfélaginu. Í nótt hófst gos í Eyjafjallajökli. Heit kvikan spýttist úr iðrum jarðar upp í ísinn sem bráðnaði og þandist út þar til hann brast og rann með eyðileggjandi ógnarkrafti niður hlíðarnar. Ég vil leyfa mér að benda á að svipað á sér stað í þjóðarsálinni. Þjóðin hefur beðið, dofin og reið, eftir skýrslunni en nú er reiðin að ná yfirhöndinni og ég viðurkenni að ég óttast þá undiröldu sem ég skynja.

Mun almenningur sætta sig við sýndarafsögn Björgvins G. Sigurðssonar? Á hann að taka á sig syndir þess flokksræðis sem hann gekk á hönd? Mun almenningur sætta sig við áframhaldandi lausagöngu útrásarvíkinga? Mun almenningur sætta sig við að eiga að borga lán sem stökkbreyttust vegna vítaverðs gáleysis stjórnvalda og einbeitts brotavilja eigenda bankanna? Hvernig mun reiði almennings brjótast út í þetta sinn? Munu pottar og pönnur duga til að koma boðskapnum áleiðis eða verður gripið til annarra ráða?

Fyrir tæpu ári voru þingkosningar hér á landi. Aldrei hafa fleiri nýir þingmenn hafið störf samtímis. Hvar eru þeir nú og af hverju verja þeir flokksræðið? Hvar er hugrekkið? Hvar er sjálfstæðið? Af hverju verja þeir gamla kerfið, flokkana sína og leiðtogana?

Frú forseti. Ég vona að skýrslan hjálpi okkur að græða sár þjóðarinnar. Ég vil halda áfram að búa hér, ég vil að börnin mín verði Íslendingar. Við eigum að taka skýrsluna alvarlega og bregðast hratt og vel við boðskap hennar. Nú er tími afsagna og ákæra runninn upp. Við búum í réttarríki en réttarríkið verður að gera sér grein fyrir því að ef það grípur ekki í taumana strax mun almenningur gera það sjálfur.



[15:47]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það hefur verið töluverður samhljómur í því hvernig þingmenn hafa fjallað um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og niðurstöður hennar, sem er ágætt vegna þess að samhljómurinn er á þeim nótum að menn þurfi að læra af reynslunni og nálgast hlutina á þann hátt að það verði til þess að byggja upp betra samfélag. Það er hins vegar verra ef umræðan fer að verða sífelld endurtekning á sömu frösunum. Við þurfum því að leyfa okkur að kafa aðeins ofan í efni skýrslunnar og það hvernig við þurfum að ræða um hana, hvort það sé eitthvað sem betur megi fara, eitthvað sé að gleymast, stór atriði, eða hvort hugsanlega sé verið að slá ryki í augu fólks til þess að verja það sem svo margir hafa talað um, verja flokkshagsmuni og beina athyglinni frá einhverju sem tilteknir flokkar hafi hugsanlega staðið að.

Ég er ákaflega ánægður að sjá að hæstv. utanríkisráðherra er mættur hér vegna þess að ég ætla aðeins að fjalla um andsvar hans. Ég er reyndar líka í félagi áhugamanna um hæstv. ráðherra. Þetta er óformlegur félagsskapur sem hittist stundum hér frammi í mötuneytinu og við spjöllum um ráðherrann, sem er merkileg persóna. Við höfum einmitt velt því fyrir okkur hvernig hann mundi nálgast umræður um þetta mál og hvernig þessi mikli spunameistari, held ég mér sé óhætt að segja, mundi beina athyglinni frá Samfylkingunni og eitthvert annað, hugsanlega mörg ár aftur í tímann — þó að eðlilegt sé að skoða mörg ár aftur í tímann og aðkomu allra flokka.

Það reyndist rétt hjá okkur að reynt yrði að gera einkavæðingu bankanna að orsök alls sem gerðist að því er virðist. Nú ætla ég ekki að verja hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna, enda er ég hræddur um að þeir sem stóðu að kjöri mínu til formennsku í Framsóknarflokknum og þeirri miklu endurnýjun sem þar átti sér stað og endurskoðun á stefnu flokksins — má segja að menn hafi þar verið að hverfa aftur að grunngildum flokksins — yrðu ekki sáttir við það ef ég færi að segja að allt hefði verið í lagi með einkavæðinguna. Það er hins vegar hættulegt þegar menn ætla að reyna að finna eitthvert eitt atriði fyrir mörgum árum og segja að þar sé vandamálið og þá þurfi ekki að hafa eins miklar áhyggjur af öllu hinu. Vandinn liggur svo víða og vandinn liggur kannski ekki hvað síst í því hvers lags fyrirkomulag þróaðist, óháð því hverjir keyptu bankana til að byrja með. Nú ætla ég að taka nokkur dæmi.

Glitnir var til að mynda aldrei einkavæddur og féll þó fyrstur allra banka. Þar af leiðandi má vera ljóst að það er ekki eingöngu einkavæðingin sem slík sem skapar vandamálið, það er eitthvað við það hvernig menn komast upp með að reka banka á Íslandi. Svo er annað vafaatriði. Ég er reyndar sammála hæstv. ráðherra um að æskilegt hefði verið að einkavæða með því að eignarhald færi í dreifðari eignaraðild, helst sem allra dreifðasta. Það er hins vegar ekki lausn á vandanum eitt og sér. Við sjáum t.d. hvernig einkavæðingu var háttað í Rússlandi þar sem menn ákváðu að einkavæða með því að senda hlutabréf á alla íbúa eftir þjóðskrá. Ég held að yfirleitt hafi verið valið fólk sem var kannski í grennd við þau fyrirtæki sem var verið að einkavæða en reynt að skipta þessu jafnt á milli allra. Það leiddi til þess að menn fóru um og keyptu hlutabréf í verðmætustu fyrirtækjunum, oft jafnvel bara fyrir vodkaflösku eða eitthvað slíkt, og náðu þannig að safna tiltölulega litlum hluta af eignarhaldinu en náðu þannig algjörum völdum yfir fyrirtækinu vegna þess að eignarhaldið var svo dreift, svo að það eitt og sér leysir ekki vandann.

Svo er annað varðandi það hvernig umræðan hefur verið um einkavæðinguna þegar reynt er að tala bara um einn atburð í einkavæðingunni, sérstaklega kannski af hálfu flokks hæstv. utanríkisráðherra, og gleyma því þar með hvert viðhorfið var til einkavæðingarinnar. Ég man ekki betur en hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, hafi einmitt talað um það, þegar Framsóknarflokkurinn fór úr ríkisstjórn og Samfylkingin kom í staðinn, að nú væri loksins hægt að halda einkavæðingunni áfram og ráðast í einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Ég man ekki betur en Samfylkingin hafi samþykkt það — og þetta er ekki spurning um að muna, þetta er til skjalfest — með Sjálfstæðisflokki að einkavæða Íbúðalánasjóð. Hvernig ætli það væri nú ef Íbúðalánasjóður hefði verið einkavæddur til viðbótar við allt hitt? Það er því svolítið holur hljómur í því þegar fulltrúar Samfylkingarinnar ætla með slíkum hætti að gagnrýna einkavæðinguna og horfast þar með ekki í augu við það að þeir hafi farið út af brautinni hvað stefnumál sín varðar.

Svo er það nýja einkavæðingin, endureinkavæðing bankanna, hvað hefur eiginlega gerst þar? Það er lítið talað um seinni einkavæðinguna þar sem menn hafa þó leitt að því líkur að bankarnir séu nú að miklu leyti komnir í eigu stórra erlendra banka og vogunarsjóða, sem eru kannski ekki líklegir til þess að hafa mikla samúð með íslenskum lántakendum bankanna. Við þurfum að vera tilbúin til þess að skoða allt heila sviðið.

Af því að ég er nú kominn út í þessa umræðu, um nálgun hæstv. utanríkisráðherra og flokks hans á þetta mál, hef ég svolitlar áhyggjur af því, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni, að sá flokkur ætli einhvern veginn að leggja áherslu á spunann, sem hann er reyndar svo góður í, það verður að viðurkennast, í stað þess að horfa á staðreyndir. Tökum sem dæmi umræðuna um íbúðalánin, sem reyndar hefur komið fram að var að miklu leyti villa, staðreyndavilla — Marinó G. Njálsson hjá Hagsmunasamtökum heimilanna hefur m.a. bent á það — villa sem hugsanlega verður þá leiðrétt í skýrslunni, en allt í lagi með það. Samfylkingarþingmenn gripu þetta á lofti en áttuðu sig svo á því að þeir voru jú á sínum tíma ekki á móti þessu. Þeir vildu reyndar ganga enn lengra. Það var bara Sjálfstæðisflokkurinn sem vildi ekki rýmka til þó að hann hafi nú gert það af ástæðum sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir lýsti áðan, að sögn Geirs H. Haardes. Hvers vegna var sú afstaða hjá Sjálfstæðisflokknum? Jú, hann vildi Íbúðalánasjóð feigan, það var ekkert flóknara en það. Hjá hinum flokkunum snerist þetta þó um að standa vörð um Íbúðalánasjóð.

Svo eru það skattahækkanirnar. Menn tala um hagstjórnarmistök liðinna ára og ég er alveg sammála því sem þar hefur verið sagt, mikil hagstjórnarmistök hafa átt sér stað. En hvernig var þetta þegar þenslan var í hámarki hér 2007 og ný ríkisstjórn var mynduð? Það er rakið í stjórnarsáttmálanum að mikilvægt sé að halda áfram skattalækkunum, þá á versta tíma. Og hvað með þensluna sem flokksmenn hæstv. utanríkisráðherra tala nú um að hafi fyrst og fremst verið hér fyrir mörgum árum? Þenslan náði algjöru hámarki eftir að ný ríkisstjórn tók við, þá opnuðust allar gáttir og sett var sögulegt Íslandsmet í útgjaldaukningu hjá ráðuneytum Samfylkingarinnar. Var það ekki 38%, alla vega hátt í 40%, útgjaldaaukning? Annað eins hafði aldrei áður gerst í Íslandssögunni. Það opnuðust hreinlega allar flóðgáttir og peningarnir flæddu yfir allt á versta hugsanlega tíma.

Að lokum var það útrásin og umræða um hana. Nú verð ég eiginlega að spyrja hæstv. utanríkisráðherra, því að ég geri ráð fyrir að hann komi hér í andsvar, hvort það sé nokkuð ofsögum sagt hjá mér að enginn flokkur hafi verið jafnspenntur fyrir útrásinni og Samfylkingin. Fannst Samfylkingunni þetta ekki það frábærasta sem hefði nokkurn tíma gerst á Íslandi? Þetta var svo alþjóðlegt og þetta var svo mikið „Ísland að verða þátttakandi í umheiminum“ og allt það á forsendum hins nýja hagkerfis. Það var ekki lengur framleiðsla á landbúnaði og sjávarútvegur og eitthvað slíkt, þetta var allt þetta nýja og alþjóðlega. Þetta fannst Samfylkingunni stórkostlegt og benti á (Gripið fram í.) að það væri ekki vegna þess að ríkisstjórn þess tíma hefði náð þessum árangri sem útrásin var að þeirra mati og vöxtur fjármálakerfisins — og sérstaklega er getið um það í stjórnarsáttmála Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að fyrirtækin verði að fá að halda áfram í útlöndum, með höfuðstöðvar á Íslandi. Nei, það var ekki vegna þess að ríkisstjórn þess tíma hefði gert svo vel að veita þetta frelsi, það var EES-samningurinn. Þetta var allt EES-samningurinn. Það var Jón Baldvin sem hafði útvegað þessa miklu útrás að mati Samfylkingarinnar á þessum tíma.

Ég nefni bara þessi fáu atriði hér til þess að setja hlutina aðeins í samhengi og reyna að hvetja hæstv. utanríkisráðherra til að taka þátt í umræðu um allt sviðið, öll þau ár sem liðu fram að efnahagshruninu, í stað þess að reyna að beina sjónum manna eingöngu að afmörkuðum atriðum.



[15:57]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar fyrst að spyrja hv. þingmann hvar maður geti gengið í þetta áhugaverða félag sem hann nefndi í upphafi ræðu sinnar. Ég vil einnig benda þessu áhugamannafélagi á það sem utanríkisráðherra hefur verið að segja í fjölmiðlum síðustu daga.

Ég hef ekki skafið utan af því að ég tel að ég hafi gert ákveðin mistök í þeirri ríkisstjórn sem ég sat í. Ég hef sagt það. Ég tel að ég hafi verið allt of aðgæslulaus varðandi það að efnahagsmál væru tekin til umræðu í ríkisstjórninni. Þó kemur það fram í skýrslu rannsóknarnefndar að í þau skipti sem það var gert svo að einhverju næmi var það m.a. vegna óska minna og núverandi hæstv. samgönguráðherra, það kemur skýrt fram í skýrslunni.

Að öðru leyti hef ég líka sagt að minn flokkur getur ekki hvítþvegið sig af þessari þróun. Ég hef sagt það alveg umbúðalaust að ég tel að við höfum í allt of ríkum mæli líka látið heillast af markaðnum. Við dönsuðum allt of mikið með honum. Að þessu leyti til vorum við eins og helftin af samfélaginu. Þetta hef ég sagt í umræðum um þessi mál og hv. þingmaður ætti að benda sínu góða áhugamannafélagi á það.

Að því er varðar þá umræðu sem hefur orðið um einkavæðinguna má hv. þingmaður kannski virða utanríkisráðherra núverandi það til vorkunnar að fyrir kosningarnar 2003, sem skýrslan gerir að umræðuefni, sagði ég að þetta væri eiturblanda, þetta tvennt, að saman færi hækkun á húsnæðislánunum og skattalækkun. Ég kallaði það tifandi tímasprengju. Fyrir það var ég hæddur og spottaður hér í þinginu árum saman þannig að það er kannski í lagi þó að ég rifji þetta aðeins upp.

Ég kom hér upp fyrr í dag aðallega til þess að þakka hv. þingmanni og varaformanni Framsóknarflokksins fyrir að hafa sagt það sem hann sagði vegna þess að ég tel að menn eigi að nálgast umræðuna með þeim hætti. Ég er ekkert að draga eitt eða annað undan í fari (Forseti hringir.) míns flokks og gæti haldið áfram þessari upptalningu ef mér entist til þess tími.



[15:59]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið sem ég var býsna sáttur við, það var kannski eins og við var að búast frá hæstv. utanríkisráðherra. Það er gott að hann tók fram að hann hefði haft þessi varnaðarorð, það er sanngjarnt að halda því til haga að menn hafi þó reynt að vara við hlutum. Oft hef ég orðið var við svona takta hjá hæstv. utanríkisráðherra, svona takta sem benda til (Utanrrh.: Framsóknartakta.) — já, ég leyfi mér að hafa það eftir hæstv. utanríkisráðherra, framsóknartakta, enda ólst hann upp, að mér skilst, eitthvað framan af á framsóknarheimili. Það blundar í honum, kemur upp á yfirborðið annað slagið.

Ég hefði áhuga á að spyrja hæstv. ráðherra, af því að nú hefur töluvert verið rætt um mikilvægi dreifðs eignarhalds á bönkum, það var eiginlega upphafið að samskiptum okkar hér: Hvað finnst hæstv. ráðherra um mikilvægi þess að ná dreifðu eignarhaldi á fjölmiðlum? Getur hæstv. ráðherra viðurkennt að það hafi verið stórkostleg mistök hjá Samfylkingunni að beita sér af hörku gegn fjölmiðlafrumvarpinu á sínum tíma? Getur hann viðurkennt að það kunni að vera vegna þess að sú viðskiptablokk sem taldi helst að sér vegið með lögunum tengist hugsanlega einhverjum í Samfylkingunni, ekki þó hæstv. ráðherra sjálfum, og Samfylkingunni sem flokki?



[16:01]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki vil ég segja afdráttarlaust já við fyrri spurningu hv. þingmanns, ég vil ekki tala um að það hafi verið gríðarleg mistök að samþykkja ekki það fjölmiðlafrumvarp sem þá lá fyrir. Ég bendi hins vegar á það að menn vildu samþykkja ákveðnar takmarkanir á eignarhaldi á fjölmiðlum en ekki með þeim ofsafengna hætti sem birtist í því frumvarpi.

Að því er lýtur að seinni spurningu hv. þingmanns segi ég: Það er hugsanlegt. Mér hefur líka orðið tíðhugsað um þetta. Ég er þeirrar skoðunar t.d. að það hafi verið ýmislegt sem menn hefðu átt að gera á þessum árum. Í flokkum eins og Samfylkingunni, sem eru stórir, leitandi, eins og flokkurinn var þá, nýstofnaður á þessum árum, koma stundum upp mismunandi skoðanir á hlutunum. Það er alveg ljóst að innan Samfylkingarinnar vógust á mismunandi skoðanir, mismunandi hugmyndafræði. Annars vegar sú sem kannski má segja að hafi verið sótt til sigursælla jafnaðarmannaflokka á meginlandinu, og hv. þingmaður kannast líkast til við undir heitinu þriðja leiðin, blairisminn. Hins vegar önnur tegund jafnaðarstefnu, sem á þeim tíma var bent á að væri t.d. aðall franskra sósíalista, sem hefði í för með sér meiri ríkisafskipti.

Upp úr miðbiki þessa áratugar taldi ég, og ýmsir fleiri í mínum flokki, að nauðsynlegt væri að skoða mjög hugmyndir Styrmis Gunnarssonar, um að setja lög um eignatengsl og skorður við eignarhaldi og krosseignarhaldi á fyrirtækjum hér á landi. Ég tel að það hafi verið mistök af Samfylkingunni að fylgja því ekki eftir.



[16:03]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er að mestu leyti sammála greiningu hæstv. ráðherra og við munum eflaust fylgjast spenntir með þingkosningunum í Bretlandi eftir tæpan mánuð. Við vonumst líklega báðir til þess að hin ógurlega stjórn blairista, sem þar situr enn og hefur gert okkur Íslendingum gramt í geði, falli. (Utanrrh.: … líberalistana.) — Hér kallar hæstv. ráðherra fram í að við styðjum báðir miðjumennina í Bretlandi, líberalistana, og það er ánægjulegt að heyra það.

Að lokum, af því að við erum dálítið á svipuðum nótum, heyrist mér, hef ég áhuga á því að heyra hvort hæstv. ráðherra sé sammála mér um það að ef eitthvað eitt hafi vantað umfram annað á Íslandi á undanförnum árum, og það þá leitt til þeirrar niðurstöðu sem við horfum upp á, hafi það verið gagnrýnin hugsun, að menn þyrðu að hugsa á gagnrýninn hátt og út fyrir kassann, eins og stundum er sagt, og hefðu þá möguleika á að koma þeirri gagnrýnu hugsun á framfæri. Væri ekki ráð að við reyndum að efla gagnrýna hugsun í samfélaginu, í skólum og annars staðar þar sem því verður við komið? Við skulum líka vara okkur á því að þó að við endurtökum kannski ekki nákvæmlega sömu mistök með því að byggja upp sams konar fjármálakerfi gætum við endurtekið mistökin að því leyti að einhver annar tíðarandi verði allsráðandi og þá megi ekki lengur tala á gagnrýninn hátt um þá heimsmynd. Þá er ég til að mynda að tala um þá hættu sem við stöndum frammi fyrir, að við sveiflumst of langt til vinstri eftir hægri sveifluna, sem mér heyrist við hæstv. ráðherra báðir vera sammála um, að nú sé hættan sú að við sveiflumst of mikið til vinstri og þá megi ekki gagnrýna boð og bönn og annað sem því fylgir.



[16:05]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svigrúmið til að fá að klára umræðuna um ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, en ég verð ekki með langa ræðu hér. Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um — mér hefur fundist það vanta í ræðum þingmanna hér í dag og í gær og í ræðum formanna stjórnmálaflokkanna — er hver afstaða þeirra sé til siðferðislegrar ábyrgðar fyrrverandi ráðherra og þingmanna sem nú sitja á þingi í tengslum við hrunið. Uppi hafa verið alls konar sögur og fréttir í marga mánuði og á annað ár. Flestallar þær grunsemdir voru staðfestar í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Lagaleg og formleg ábyrgð á hruninu er mjög þröng og ítarlega skilgreind og það verða mjög fáir ef einhverjir sem þurfa að sæta ábyrgð á þeim vettvangi. Að mínu viti er hin siðferðislega ábyrgð ekki síður mikilvæg, að menn axli hana með einhverjum öðrum hætti en orðskrúði. Ég hef ekki heyrt mikið um það, hvorki frá þingmönnum Framsóknarflokksins né þingmönnum annarra flokka, hvaða afstöðu þeir hafa til hugsanlegrar siðferðislegrar ábyrgðar þingmanna, hverjir þeir þingmenn eru og á hvaða forsendum hún á að vera. Ég ræddi þetta svolítið í ræðu minni hér í gær og ég heyri þetta ákall um allt samfélagið.

Ef hv. þingmaður gæti tæpt á þessu í svari við andsvari mínu og jafnvel þá ef til vill velt þessu upp á þingflokksfundi flokksins á eftir ef þetta hefur ekki verið rætt í Framsóknarflokknum.



[16:07]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að byrja á því að biðja hæstv. utanríkisráðherra afsökunar á því að ég gleymdi að hann væri búinn með andsvörin sín þannig að við verðum að klára samræður okkar síðar.

Hvað varðar andsvar hv. þm. Þórs Saaris er það nú svo, eins og Hreyfingin hefur bent á, að ekki hefur gefist mikill tími til að fara yfir innihald þessarar skýrslu. Við erum að tala um hana á mjög almennum nótum eftir meginniðurstöðum þannig að ég held að það væri æskilegt, áður en menn fara að dæma menn, að svigrúm gefist til þess að lesa skýrsluna í heild og að sjálfsögðu verða menn líka að fá tækifæri til þess að svara fyrir sig, þeir sem þar er fjallað um.

Þá komum við kannski að því sem ég var að tala um áðan, að við megum ekki sveiflast úr einum öfgunum í aðrar, og segja nú að gagnrýnin umræða um það sem þarna kemur fram sé ekki við hæfi. Þeir sem þarna eru bornir þungum sökum verða að fá tækifæri til að svara fyrir sig og við verðum líka að hafa í huga, til að mynda með þá ráðherra úr Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki sem fjallað er um og embættismenn einnig, að þeir hafa þurft að sæta mjög ítarlegri rannsókn, skoðun, sem stjórnmálamenn almennt hafa ekki þurft að fara í gegnum. Fyrir vikið hafa þeir birt ýmislegt sem aðrir stjórnmálamenn, sem einhvern tímann kunna að hafa brotið af sér hér á landi eða annars staðar, hafa ekki setið uppi með. Fyrir vikið verða viðkomandi að minnsta kosti að fá tækifæri til þess að standa fyrir máli sínu og svara, og að því búnu getum við dæmt um sekt manna eða sakleysi.