138. löggjafarþing — 106. fundur
 15. apríl 2010.
samstarfsyfirlýsing við AGS.

[10:38]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Mig langar að biðja hæstv. fjármálaráðherra að upplýsa þingheim um innihald yfirlýsingar sem gefin var Alþjóðagjaldeyrissjóðnum nú í aðdraganda þess að hugsanlega verði mál Íslands loksins tekin fyrir í stjórn sjóðsins. Það er mikilvægt að þingið og þjóðin sé upplýst um hverju hefur verið lofað, hafi einhverju verið lofað, í þessari yfirlýsingu og kannski ekki hvað síst er það mikilvægt nú, þegar gefin hafa verið fyrirheit um samstarf allra flokka og mikilvægi þess að viðhalda því og allir vinni að þessu saman, að menn séu þá a.m.k. upplýstir um það hverju er verið að lofa.



[10:39]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ef allt gengur að óskum verður mál Íslands tekið fyrir á morgun hjá stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og samkvæmt starfsreglum sjóðsins verða síðan gögn, starfsmannaskýrslan, samstarfsyfirlýsingin og fleiri tengd gögn gerð opinber og aðgengileg á heimasíðu sjóðsins eftir fyrirtökuna. Það er farið í einu og öllu að starfsreglum sem að samstarfi lýtur í þessum efnum. Skjölin eru trúnaðarmál á meðan þau eru til dreifingar og skoðunar hjá fulltrúum í stjórn sjóðsins. Þetta eru vinnureglur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem markað hafa þetta samstarf af okkar hálfu frá upphafi og nákvæmlega eins var farið með fyrstu samstarfsyfirlýsinguna og tengd gögn í nóvember 2008 og aftur í október 2009.

Samstarfsyfirlýsingin nú er fyrst og fremst uppfærsla á samstarfáætluninni, efnahagsáætluninni. Segja má að hakað sé við það sem þegar hefur náð fram að ganga og síðan eru sett viðmið varðandi önnur verkefni. Við getum tekið það sem dæmi að endurreisn eða endurfjármögnun stóru viðskiptabankanna þriggja er nú frágengin og þar með hverfur umfjöllun um hana út úr samstarfsyfirlýsingunni en því miður er ekki enn að fullu lokið endurskipulagningu sparisjóða og minni fjármálastofnana, þannig að inn í samstarfsyfirlýsinguna kemur orðalag um hvar það mál er á vegi statt og hvenær stefnt er að því að því sé lokið, svo dæmi séu tekin um að hér er á ferðinni tiltölulega einföld uppfærsla á fyrirliggjandi efnahagsáætlun og samstarfsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Það er vikið að hinu óleysta Icesave-máli í þessari samstarfsyfirlýsingu og ég get fullvissað menn um að það eru ekki á nokkurn hátt gefin þar fyrirheit eða lofað einu eða neinu sem gengur umfram það sameiginlega samningsumboð sem stjórnmálaflokkarnir í landinu komu sér saman um í janúarmánuði enda var lokatextinn (Forseti hringir.) á þeim hluta yfirlýsingarinnar, 20. lið hennar, frá honum var gengið í samráði við formann samninganefndar Íslands og fleiri samninganefndarmenn.



[10:41]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það hljómar dálítið sérkennilega að þingheimur og í rauninni aðrir flokkar en flokkur hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki fá að vita hverju er verið að lofa fyrir hönd þjóðarinnar gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra margoft lýst því yfir að uppfylla þyrfti einhverjar ákveðnar kröfur, til að mynda varðandi Icesave-málið sem hann nefndi. Þá hlýtur að vakna sú spurning hvort verið er að ganga að einhverjum slíkum kröfum og að hversu miklu leyti. Þó að vísað sé í það að hér séu menn að starfa í samræmi við samstarfsyfirlýsingu flokkanna eða það sem þeir höfðu náð saman um þá hefur það verið frekar óljóst fram að þessu.

Ég skal því einfalda spurninguna með því að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Felur yfirlýsingin í sér einhvern tiltekinn kostnað varðandi Icesave?



[10:42]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Svarið er að sjálfsögðu nei, enda er í viljayfirlýsingunni fyrst og fremst verið að árétta áframhaldandi einbeittan vilja Íslands til að leysa þetta mál með samningum. Það er inntak þessarar tiltölulega einföldu yfirlýsingar. Ég get alla vega fullvissað menn um eitt og það er það að mikil framför hefur orðið á orðalagi þessa einfalda ákvæðis í samstarfsyfirlýsingunni frá því sem þar var sett á blað í nóvembermánuði 2008 enda hefur auðvitað mikið gerst síðan. Menn þurfa ekki að kvíða því — samningsstaða Íslands tekur ekki breytingum til hins verra þrátt fyrir þessa viljayfirlýsingu, þvert á móti er það auðvitað mjög mikilvægt fyrir okkur ef við náum endurskoðuninni fram og í framhaldinu fæst aðgangur að þeim gjaldeyrislánum sem fylgja eiga með, því að þar með verður staða Íslands til muna sterkari og vænlegri og við þolum frekar bið á því að Icesave-málið leysist.

Að öðru leyti er efnahagsáætlunin fyrirliggjandi og það er verið að fylla inn í þann ramma sem þingmönnum er kunnur, var kynntur hér (Forseti hringir.) með ítarlegri skýrslu á Alþingi í júnímánuði sl. Þar eru meginmarkmiðin um að ná frumjöfnuði á árinu 2011 og heildarjöfnuði á árinu 2013 í ríkisbúskapnum sem eru leiðarhnoðan í þeirri áætlun.