138. löggjafarþing — 106. fundur
 15. apríl 2010.
rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008, frh. umræðu.

[11:28]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir alþingismenn færa þeim sem skipuðu rannsóknarnefnd Alþingis og starfshóp um siðferði og starfshætti, svo og starfsfólki þeirra, bestu þakkir fyrir gríðarlega mikið og erfitt starf undanfarna 16 mánuði. Ég tel að bæði nefndin og vinnuhópurinn, sem forsætisnefnd Alþingis skipaði samkvæmt lögum um rannsókn á falli íslensku bankanna, hafi sýnt í verkum sínum að þau voru fyllilega verð þess trausts sem forsætisnefnd bar til þeirra því hér er tímamótaverk á ferðinni sem mun marka spor í söguna og án efa í starfsemi Alþingis. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar eru nokkur atriði er snúa að Alþingi. Þannig er fundið að löggjöf á ýmsum sviðum og pólitískri stefnumörkun sem í þeim birtast. Hvað varðar störf og stöðu Alþingis er þó helstu athugasemdirnar að finna í niðurstöðum siðferðishópsins. Hópurinn setur þar fram ýmsar ábendingar og má greina þær í sex meginþætti:

1. Efla þarf sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu og styrkja almennt eftirlitshlutverk þess.

2. Skerpa þarf á ráðherraábyrgð svo sem með því að skýra upplýsingaskyldu ráðherra gagnvart Alþingi og ríkisstjórn.

3. Efla þarf góða rökræðusiði meðal kjörinna fulltrúa. — Ég ætla að endurtaka þetta atriði. Efla þarf góða rökræðusiði meðal kjörinna fulltrúa.

4. Taka þarf stjórnarskrána til skipulegrar endurskoðunar í því skyni að treysta grundvallarinnviði lýðræðissamfélagsins.

5. Setja þarf skýrar reglur um styrki til stjórnmálamanna og um gegnsæi í bókhaldi stjórnmálaflokkanna.

6. Setja þarf siðareglur fyrir alþingismenn, m.a. til að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála.

Ég get tekið undir öll þessi atriði í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og siðferðishópsins. Þessi atriði mun þingmannanefndin, sem Alþingi kom á fót til að fjalla um skýrsluna, taka til meðferðar á næstu vikum og mánuðum og móta tillögur að viðbrögðum þingsins. Ég tel reyndar eðlilegt að forsætisnefnd Alþingis fjalli einnig um þau atriði sem að Alþingi snúa.

Sumt af því sem nefnt er í skýrslu siðferðishópsins er reyndar þegar komið í ákveðinn farveg innan þingsins og eru það einkum þau atriði er varða eftirlitshlutverk Alþingis. Ég vil minna á að í september síðastliðnum skilaði vinnuhópur á vegum forsætisnefndar Alþingis skýrslu um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Í skýrslunni er staða þingsins í stjórnskipuninni skoðuð vandlega og settar fram skýrar ábendingar um hvernig efla megi möguleika Alþingis til að sinna eftirlitshlutverki sínu. Þar er að finna á þriðja tug tillagna um ýmis atriði sem hópurinn leggur til að ráðist verði í að endurskoða og bæta.

Forsætisnefnd tók fljótlega þá ákvörðun að láta vinna drög að frumvörpum um ýmsa þætti í tillögum eftirlitshópsins, m.a. um samningu almennra laga um rannsóknarnefndir, endurskoðun á þingsköpum Alþingis og breytingar á lögum um ráðherraábyrgð og landsdóm.

Vinna við að semja frumvarp til laga um rannsóknarnefndir hófst í ársbyrjun. Þá óskaði ég eftir því við formenn þingflokka í janúar að þingflokkarnir tilnefndu fulltrúa í nefnd til að vinna að endurskoðun laga um ráðherraábyrgð. Skipan þeirrar nefndar er enn ekki lokið en ég mun kalla eftir því við þingflokkana að þeir tilnefni sína fulltrúa þannig að sú nefnd geti hafið störf sem fyrst. Vinna við endurskoðun á þingsköpum er hins vegar langt komin og þar er gert ráð fyrir ýmsum breytingum sem miða að því að gera Alþingi betur kleift að veita stjórnvöldum aðhald og hafa eftirlit með starfsháttum framkvæmdarvaldsins. Í því skyni er m.a. lagt til að settar verði skýrari reglur um rétt Alþingis, einkum þingnefnda, til upplýsinga og gagna frá stjórnsýslunni; að lögð verði skylda á ráðherra að tryggja að Alþingi hafi þær upplýsingar sem hafa verulega þýðingu fyrir þau mál sem eru til meðferðar á Alþingi og að staða minni hlutans á Alþingi verði styrkt. Ég hyggst beita mér fyrir því að fyrstu frumvörp um þessi efni komi fram á haustþinginu.

Ég vil lýsa ánægju minni með hversu málefnaleg umræðan um skýrslu rannsóknarnefndarinnar hefur almennt verið síðustu daga. Ég verð þó að gera athugasemdir við mjög ómakleg orð hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur um Alþingi og starfsfólk þess. Þau ummæli sem hv. þingmaður lét falla í þessum sal eru henni ekki til sóma. Í siðferðishluta skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er kallað eftir því að þingmenn temji sér góða rökræðusiði. Hv. þingmaður féll á þessu prófi og mætti hafa í huga að ásýnd þingstarfanna er undir þingmönnum sjálfum komin. Þingmenn verða að gæta virðingar sinnar og þar með þessarar mikilvægu stofnunar.

Mér virðist það almennt viðhorf í þjóðfélaginu að rannsóknarnefndin hafi í störfum sínum staðið að fullu undir þeim væntingum sem þjóðin gerði til hennar. Ég skynja almenna ánægju með þessa vönduðu skýrslu sem nefndin hefur unnið fyrir þing og þjóð. Greining á vandanum liggur fyrir og hún er mikilvægt framlag til uppbyggingar þjóðfélagsins eftir þau miklu áföll sem við urðum fyrir haustið 2008. Nú er því tækifærið til að vinna hratt og örugglega úr þeim niðurstöðum sem þingheimur hefur fyrir framan sig. Þingmenn verða að þekkja sinn vitjunartíma og sýna vilja til samvinnu og samstöðu við úrvinnslu þessarar mikilvægu skýrslu. Ef hv. þingmenn sameinast ekki um skýr skilaboð til þjóðarinnar er hætt við að þjóðin glati trúnni á framtíðina og um leið trausti til Alþingis. Grundvöllur okkar lýðræðisskipunar er í húfi.



[11:35]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem aftur upp í umræðu um rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem ég náði ekki alveg að ljúka öllum efnisatriðum í fyrri ræðu minni. Þar ætlaði ég aðallega að ræða um skort á stefnumótun og stjórnfestu í stjórnkerfi Íslands og hinum pólitíska kúltúr á Íslandi. Ef niðurstöður rannsóknarskýrslunnar kenna okkur eitthvað þá er það að gott er að hafa markmið og vinna eftir stefnu sem er skýr og öllum kunn og bæði almenningur, embættismenn og stjórnmálamenn geta tileinkað sér og unnið eftir. Á Íslandi var aldrei til nein stefnumótun um fjármálamarkaði. Það voru í raun ekki annað en yfirlýsingar einstakra ráðherra og stjórnmálamanna um að gera Ísland að einhvers konar alþjóðlegri fjármálamiðstöð en hvernig það ætti að gerast og hvaða afleiðingar það gæti haft fyrir íslenskt samfélag lá aldrei fyrir að því ég best veit.

Stjórnfesta, sem á enskri tungu kallast „good governance“, er nokkuð sem íslenskt stjórnkerfi og stjórnmálamenn hafa ekki náð að tileinka sér heldur. Þar erum við því miður áratugum á eftir grannþjóðum okkar. Í raun eru vinnubrögð, sem mörg og líklega vel flest fyrirtæki á einkamarkaði hafa tileinkað sér fyrir löngu, nýnæmi í íslensku stjórnmálalífi og stjórnkerfi. Þessu þarf að breyta. Það þarf að taka upp formlegri vinnubrögð, hvort sem er við ríkisstjórnarborðið eða annars staðar, án þess að ég fari að tvítaka eða endurtaka það sem áður hefur verið sagt um það mál. Stefnumótunarvinna er nefnilega mikilvæg. Menn gera stundum grín að miklum fundahöldum og bera næstum því óttablandna virðingu fyrir þeim sem eru fljótir að taka ákvarðanir og óhræddir við það. Það hefur löngum þótt karlmannlegt og gott á Íslandi, burt séð frá því hvaða afleiðingar slík ákvarðanataka hefur. Nú held ég að það sé komið gott tækifæri til að taka upp eilítið varkárri og kannski kvenlegri vinnubrögð þar sem unnið er saman í hópum, menn komast að sameiginlegri niðurstöðu um markmið og leiðir og vinna eftir því. Það eru í raun þau lýðræðislegu og opnu vinnubrögð sem við þurfum að tíðka og tileinka okkur.

Hæstv. forseti. Þetta eru auðvitað ekkert annað en almennar hugleiðingar um þessa hlið mála. Hér þarf að vinna mikið stefnumótunarstarf. Sem betur fer er það farið af stað undir forustu hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur og nefnda sem hún hefur sett á fót og eru m.a. að endurrýna og skoða og koma með tillögur um uppbyggingu starfsemi lagaumhverfis Stjórnarráðsins og stjórnhætti almennt. Ég er ein þeirra sem hafa miklar væntingar til þeirrar niðurstöðu. Ég tel að slík vinna muni færa okkur fram á veginn og hún sé lykilatriði í því að búa til hið nýja Ísland sem svo oft er talað um.

Að síðustu, herra forseti, vil ég fá nýta þetta tækifæri til þess að svara því sem fram kom við umræðuna í gær eða fyrradag hvað varðar stuðning Samfylkingarinnar við 90% lánin — árið 2003 var það. Ég rifjaði upp hvernig þetta gerðist. Þáverandi krónprins Framsóknarflokksins, Árni Magnússon sem gerður hafði verið að félagsmálaráðherra minnir mig, tilkynnti um 90% lánin reyndar áður en hann varð ráðherra og það var kosningamál Framsóknar árið 2003. Með því að gera það með þessum hætti gáfu stjórnvöld náttúrlega bönkunum færi á að undirbúa sig. Það var einn þáttur málsins. Þegar kom að því að ræða þetta í þinginu snerist málið um 90% lán fyrir Íbúðalánasjóð fyrir fyrstu kaup. Málið snerist í raun um að halda Íbúðalánasjóði. Í því studdum við Framsóknarflokkinn af því að Sjálfstæðisflokkurinn í þeirri ríkisstjórn vildi leggja hann niður og senda öll íbúðalánin inn í bankana. Við getum nú ímyndað okkur hvernig það hefði farið. Það skýrir afstöðu Samfylkingarinnar á þeirri stundu. Þetta er afar (Forseti hringir.) stutt skýring, herra forseti, en ég vildi koma henni á framfæri.



[11:40]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Þetta gríðarviðamikla verk sem skýrsla rannsóknarnefndarinnar er felur í sér mikinn efnivið fyrir okkur alþingismenn, fyrir framkvæmdarvaldið og alla stjórnsýsluna, til að draga af lærdóm, vinna úr og gera margvíslegar betrumbætur sem lestur þessarar skýrslu dregur fram að gera þurfi. Ég held að meginniðurstaðan sem snýr að stjórnvöldum, og það varðar ekki síður Alþingi en framkvæmdarvaldið, sé að það er dregin fram sú aðgerðaskylda sem hvílir á stjórnvöldum hvers tíma. Þegar niðurstöður varðandi vanrækslu eru skoðaðar eru þær í yfirgnæfandi hluta tilfella tengdar þessum þætti málsins. Vanrækslan var fólgin í andvaraleysi og aðgerðaleysi, það sem hefði átt að gera, a.m.k. reyna að gera, var ekki gert og jafnvel ekki reynt. Þetta er kannski einna átakanlegast þegar maður les umfjöllunina um efnahagsmálin og hagstjórnina og þau glötuðu tækifæri áranna 2004–2006 sem fóru forgörðum vegna þess að menn gerðu ekki og jafnvel reyndu ekki að gera það sem þá hefði þurft að gera.

Almennt skiptir okkur miklu máli að skýrslan er jafnviðamikil og vel rökstudd og raun ber vitni og þar með gott gagn til að takast á við þessa hluti. Skilaboðin eru mikilvæg ef þau eru rétt fram sett. Meginskilaboðin eiga auðvitað að vera þau að Ísland ætlar ekki að horfa undan. Það eiga að vera skilaboðin bæði inn á við og út á við. Við ætlum að horfast í augu við það sem hér gerðist en ekki sópa því undir teppið og við ætlum að taka á því. Það eru ekki síður mikilvæg skilaboð út á við til alþjóðasamfélagsins og þau hafa þegar vakið athygli, jafnvel svo að menn spyrja nú í sumum nálægum löndum: Þurfum við ekki að gera það sem Íslendingarnir eru þegar búnir að gera, að fara í rækilega rannsókn á þeim atburðum sem urðu í efnahagslífinu, orsökum þeirra og afleiðingum? Ef við notum það rétt, Íslendingar, mun það hjálpa okkur við að öðlast trúverðugleika á nýjan leik, að við séum viðsemjandi og viðtalandi, bæði í pólitískum samskiptum, efnahagslegum samskiptum og viðskiptum.

Það er enginn tími til að fara hér með tæmandi hætti ofan í einstök efnisatriði eða einstaka málaflokka þessarar skýrslu. Ég ætla þó að nefna þrennt eða fernt. Í fyrsta lagi þá greiningu sem hér er á peningamarkaðssjóðunum. Tvennt stendur þar upp úr. Það er annars vegar starfræksla þeirra innan bankanna þar sem flestu var ábótavant sem ábótavant gat verið. Árið 2006 breytist t.d. fjárfestingarstefnan og farið var í fjárfestingarsjóði á kostnað verðbréfasjóða. Með öðrum orðum, almenningi var skipulega beint í áhættumeira sparnaðarform. Fjárfestingarstefna peningamarkaðssjóðanna varð að meginstefnu í verðbréfum og innlánum móðurfélaga, eigenda þeirra og annarra tengdra félaga. Áhættustýring fullnægði ekki kröfum. Sjálfstæði rekstrarfélaganna gagnvart móðurfélögunum var verulega ábótavant. Eftirliti Fjármálaeftirlitsins var verulega ábótavant. Með öðrum orðum: Það var eiginlega allt að. Það var eiginlega ekkert í lagi.

Í öðru lagi veðlánaviðskipti Seðlabankans við bankana og fjármálastofnanir. Það er hrollvekjandi lesning. Þar liggja góðar skýringar á því hvernig sá sorglegi atburður varð að Seðlabankinn varð gjaldþrota og þjóðarbúið tapaði hundruðum milljarða króna. Ég er ekki að segja að Seðlabankanum hafi ekki verið vandi á höndum að reyna að greiða fyrir því að bankarnir hefðu aðgang að lausafé þegar harðnaði á dalnum en að það skyldi gert með þeim hætti sem var gert og ekki teknar betri tryggingar fyrir lánunum er stórkostlega ámælisvert. Þennan þátt verður að rannsaka. Þarna verður m.a. Seðlabankinn að horfast mjög í augu við sjálfan sig, sínar aðferðir og sín vinnubrögð á þessum tíma.

Ég nefni í þriðja lagi Icesave-málið og þá rækilegu skoðun sem það mál fær, fyrst og fremst aðdragandi þess, í nokkrum köflum skýrslunnar. Þeir kaflar draga mjög skýrt fram það sorglega andvara- og aðgerðaleysi sem varð til þess að Icesave-málið varð að þeirri ófreskju sem raun ber vitni. Rót vandans liggur í að þessu var leyft að verða til og verða að því sem það varð. Það voru nánast engar varnir undirbyggðar, ekki einu sinni hugað að því hvernig íslensk stjórnvöld skyldu bregðast við eða hvernig þau skyldu svara væri að því spurt til hvaða ráða ætti að taka. Að það skyldi ekki takast að koma Icesave-reikningunum úr útibúum yfir í dótturfélög, jafnvel þótt það hefði þurft að borga myndarlega með því, er óskapleg sorgarsaga. Auðvitað hefði þetta aldrei átt að verða til með þeim hætti sem það varð, aldrei fá að ganga svona langt og sorglegast af öllu var að menn skyldu ekki einu sinni hafa meðvitund um það hvaða óskaplega hætta var að myndast þarna fyrir íslenskt efnahagslíf. Að það skyldu þurfa að vera erlend stjórnvöld sem reyndu ítrekað að vekja athygli íslenskra stjórnvalda á því sem þarna var í uppsiglingu og fengu litlar undirtektir og lítil viðbrögð, að tilboð um að aðstoða Ísland við að komast út úr þessu skyldi ekki vera þegið. Þetta er óendanlega sorglegt og um það þarf í raun og veru ekki að hafa fleiri orð.

Um stjórnsýsluna er að sjálfsögðu mikið fjallað. Hún fær áfellisdóm. Það þurfa allir að horfast í augu við. Alþingi Íslendinga þarf að horfast í augu við það. Af hverju var eftirlitshlutverk Alþingis ekki virkara á þessum tíma? Af hverju voru menn jafn sofandi á verðinum, jafnilla undirbúnir að takast á við áföll? Við ræddum hér náttúruhamfarirnar eystra. Sá munur er á að við fáum litlu um það ráðið hvenær gýs í Öræfajökli en við getum reynt að undirbúa okkur vel, hafa varnargarða og almannavarnaviðbúnað og það höfum við gert. Gagnvart því þegar hamfarir af mannavöldum eiga í hlut er þetta ekki afsökun því það eru ekki óviðráðanleg náttúruöfl heldur við sjálf. Við eigum að geta ráðið við okkur sjálf. Við mannskepnurnar eigum að geta sett okkur sjálfum skorður og búið okkur út leikreglur þannig að svona hamfarir verði ekki af völdum okkar sjálfra og á okkar eigin kostnað. Þar liggur munurinn á náttúruhamförunum og þeim sem eru af mannavöldum.

Við þurfum að fara mjög rækilega í gegnum þetta. Eitt vekur t.d. athygli, að aftur og aftur í skýrslunni er bent á þá staðreynd að íslenskar stjórnsýslueiningar eru fámennar og veikburða. Það leiðir að sjálfsögðu að hluta til af þeirri staðreynd að við erum ekki nema 320.000 manna þjóð. Það mætti komast að þeirri niðurstöðu aftur og aftur við lestur skýrslunnar að við þyrftum að vera a.m.k. ein og hálf milljón en það erum við ekki og verðum ekki í bráð. Við erum smáþjóð. Við verðum að móta okkar skipulag og verklag og stofnanauppbyggingu í samræmi við það. Ég kemst aftur og aftur að þeirri niðurstöðu að vænlegasta leiðin í þeim efnum sé að styrkja þessar einingar, sameina þær og gera þær stærri og burðugri þannig að innan þeirra verði nægjanlegur mannafli og sérþekking til þess að beita þegar á þarf að halda í aðstæðum sem þessum.

Það er margt sem varðar verkferla, skráningu upplýsinga og ákvarðanatökuferla, rekjanleika mála og annað í þeim dúr sem við þurfum að fara rækilega í gegnum. Stjórnarráðið allt, eftirlitsstofnanir og stjórnsýslustofnanir þurfa að lesa þessa skýrslu mjög vel. Ég mun mæla með því, að sjálfsögðu innan míns ráðuneytis og ég geri það almennt, að hvert einasta ráðuneyti og hver einasta stofnun setji á fót starfshóp til þess að fara vandlega yfir niðurstöður þessarar skýrslu, taka við tillögum sérstakrar nefndar um ábendingar og úrbætur og vinna þetta verk af alúð á næstu mánuðum og missirum. Það er algerlega í okkar höndum að bregðast við og vinna úr þessu eins og öðru. Það er okkar að nota þessa skýrslu þannig að hún verði okkur til gagns, hún verði mikilvægt undirlag að úrbótum og umbótum á komandi missirum þannig að tekist verði á við veikleikana. Það er í okkar höndum að bregðast ekki því sem nú snýr að okkur eftir að þessi skýrsla er komin út. Við skulum ekki bregðast íslensku þjóðinni öðru sinni með því að vinna ekki heiðarlega og einarðlega úr þeim gögnum sem við höfum nú á borðunum. Það er mikið verk og mun taka sinn tíma en það á að hefjast handa við það nú þegar. Nóg er samt tjónið, vonbrigðin og eðlileg reiði og óánægja meðal almennings yfir því sem gerðist en aldrei átti að gerast og aldrei þurfti að gerast þó að hitt bætist ekki við að menn klúðri því að takast vel og heiðarlega á við framhaldið. Það tel ég að hafi að þessu leyti verið mjög vel gert með skýrslunni. Hún er gríðarlega mikilvægur áfangi á þessari vegferð okkar, að því tilskildu að menn noti þær upplýsingar sem þar koma fram á uppbyggilegan hátt.



[11:51]
Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra tæpti á mörgum mjög áhugaverðum hlutum í þessari yfirgripsmiklu og góðu skýrslu. Ég hef áhuga á því að spyrja hæstv. ráðherra aðeins nánar út í stjórnsýsluþáttinn og viðhorf hans til þess þáttar. Alveg ljóst er að skýrslan dregur upp mynd af helsjúku samfélagi, helsjúku fjármálakerfi og stjórnmálum sem eru helsjúk. Við Íslendingar sáum þetta auðvitað margir á þessum tíma. Ég var pistlahöfundur á þessum árum upp úr aldamótum og oft reif maður hár sitt og skegg út af alls konar vitleysisgangi í stjórnmálunum. Það sáu það allir að ákvarðanir voru teknar bara einhvern veginn, einhvers staðar af einhverjum, flokksformönnum stjórnarflokkanna væntanlega og yfirleitt og iðulega. Menn sáu hvernig var farið í þjóðnýtingu Glitnis á sínum tíma. Það er staðfest í skýrslunni að það var náttúrlega alveg ótrúleg atburðarás.

Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, vegna þess að við verðum að horfa til framtíðar og nú er hann í þessari stöðu, hann er flokksformaður og leiðir annan flokkinn í ríkisstjórn: Hæstv. fjármálaráðherra, hafið þið flokksformennirnir í ríkisstjórninni farið yfir það hvernig verklag ykkar á að vera? Eru oft haldnir fundir inni í stofu ykkar flokksformannanna þar sem þið takið ákvarðanir sem síðan á einhvern veginn að keyra í gegnum þessa stofnun eða í gegnum ríkisstjórn?

Mig langar aðeins til að heyra hvernig hæstv. fjármálaráðherra lítur á þetta verklag, vegna þess að það er líka mjög alvarlegt að í skýrslunni er viðurkennt og rakið hvernig ákvarðanir voru oft teknar heima í stofu af flokksformönnunum, en það er ekki opinber formlegur vettvangur og ekki vettvangur fyrir fundargerðir, (Forseti hringir.) svo dæmi sé tekið. Þannig að það eru ekki rekjanlegar ákvarðanir. (Forseti hringir.) Mig langar til að heyra viðhorf hæstv. (Forseti hringir.) fjármálaráðherra til þess þáttar.



[11:53]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er fullgilt að spyrja að þessu. Nú vil ég að vísu mæla þau orð, bæði þeim til varnar sem um véluðu á löngu liðnum tímum og eins þeim sem það gera nú og munu gera það í framtíðinni, að menn mega náttúrlega ekki gefa sér að sú mynd sem dregin er upp í skýrslunni af stjórnlausu ástandi undir lok valdatíma síðustu ríkisstjórnar sé hin hefðbundna mynd af ástandinu í Stjórnarráði Íslands eða stjórnsýslunni. Sem betur fer tel ég að svo sé ekki. Þar er auðvitað dregin upp mynd af bæði mannlegum samskiptum og verklagi sem er með ólíkindum. Ég held að það helgist að einhverju leyti af því ástandi sem þá var að skapast og var orðið, því ráðleysi og þeim erfiðleikum sem menn stóðu frammi fyrir og vissu sig í raun og veru sigraða gagnvart, en gátu ekki játað það.

En það er rétt og skylt að fara yfir það hvernig t.d. ákvarðanatökum er háttað, hvernig rekjanleiki og undirbúningur ákvarðana er, hvort sem það eru flokksformenn sem hittast eða ráðherrar í ríkisstjórn eða aðrir. Þessi ríkisstjórn hefur tekið upp breytt verklag að ýmsu leyti, t.d. með formlegum ráðherranefndum, sem hafa erindisbréf eða verklagsreglur, færa fundargerðir og afrit af þeim fundargerðum ganga til annarra ráðherra. Þetta eru ráðherranefndir um efnahagsmál, ríkisfjármál, Evrópumál og jafnréttismál. Þetta er tvímælalaust framför hvað þessa málaflokka varðar.

Ég held að í samhengi við upplýsingalög þurfi að endurskoða algerlega meðferð og skráningu gagna, flokkun gagna, málaskrár ráðuneyta og undirbúning og rekjanleika ákvarðana, þannig að alltaf sé hægt að opna bókina ef eftir því er óskað. Að sjálfsögðu þarf jafnframt að vera hægt að hafa trúnað um viðkvæm mál á einhverju stigi, þannig að mörkin á milli upplýsingalaga og þess réttar sem menn hafa til að sækja upplýsingar inn í stjórnsýsluna á hverjum tíma þarf að draga upp með skýrum hætti. Upplýsingalög mega auðvitað ekki verða til þess að menn hætti að þora að setja hluti á blað, því það getur haft alveg þveröfug áhrif við það sem ætlað er, (Forseti hringir.) að þá fari menn einmitt að funda með óformlegum hætti án þess að færa fundargerðir (Forseti hringir.) og díla um málin þar.



[11:55]
Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svarið. Það er í rauninni fjölmargt sem mig langar til að eiga orðastað við hæstv. ráðherra um hvað þetta varðar, t.d. hvernig hann lítur á stöðu Alþingis í þessu. Alþingi fær mikinn áfellisdóm í skýrslunni. Ég ætla að halda mig við þennan punkt, samráð formanna stjórnarflokka. Það er öllum augljóst sem glugga í skýrsluna, lesa hana, að margar ákvarðanir eru reknar til þess batterís, sem er einhvers konar samráð formanna stjórnarflokka í nokkrum ríkisstjórnum. Þar eru ekki haldnar fundargerðir en þar eru jafnvel stærstu og örlagaríkustu ákvarðanirnar teknar, jafnvel oft án samráðs við fagráðherra, eins og rakið er í skýrslunni.

Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra og formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hvort nú hafi orðið breyting á, t.d. hvort nú séu haldnar fundargerðir þegar formenn stjórnarflokkanna núverandi funda. (Forseti hringir.)



[11:57]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hefðir skipta hér heilmiklu máli og hvernig þær þróast, það er án efa alltaf nokkuð einstaklingsbundið hvernig að þessum málum er staðið. Ég sem áhorfandi að því til lengri tíma upplifði þetta þannig að á langri valdatíð sterkra valdstjórna stjórnmálamanna eins og Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar þróaðist þetta með mjög sérstökum hætti yfir í meira og meira einræði flokksformannanna. Það náði hámarki í frægu máli þegar einn maður tilkynnti öðrum, eins og ég held að það hafi gerst, að Ísland ætlaði að styðja stríðið gegn Írak. Við forustumenn núverandi stjórnmálaflokka hittumst að sjálfsögðu iðulega til óformlegs pólitísks samráðs og þá eru ekki endilega færðar fundargerðir, við punktum hjá okkur, en við sitjum þar ein og ræðum málin. Ég held að sá háttur verði aldrei afnuminn að menn hittist og eigi óformleg samskipti um eitthvað sem í gangi er. En það sem skiptir öllu máli er að þar séu ekki teknar ákvarðanir, að menn sem upphefji góða stjórnsýsluhætti líti svo á að mál eigi eftir sem áður alltaf sinn eðlilega farveg í gegnum (Forseti hringir.) ríkisstjórn til þingflokka og Alþingis þegar eiginlegar ákvarðanir (Forseti hringir.) eru teknar. Þessu tvennu mega menn auðvitað ekki rugla saman.



[11:58]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra ræðu hans. Ég undrast oft hversu hófstilltur hæstv. ráðherra getur verið í þessu máli eftir öll þau ár sem hann stóð hér og talaði gegn þessum hrunfyrirboðum. En hvað um það. Mig langar til að inna hæstv. ráðherra eftir því sem hann minntist á um veðlán Seðlabankans og lánamál ríkisins og allt það gríðarlega tap sem Seðlabankinn varð fyrir í þessu hruni. Ég hef ítrekað óskað eftir því í fjárlaganefnd að nefndin biðji um ítarlega stjórnsýsluúttekt á starfsemi Seðlabankans, starfsemi Fjármálaeftirlitsins og samskiptum þessara stofnana sín á milli og samskiptum þeirra við fjármálaráðuneytið og viðskiptaráðuneytið í aðdraganda hrunsins og að sú stjórnsýsluúttekt taki á því með hvaða hætti búið er að breyta vinnulagi síðan. Þessi ósk mín hefur ekki fengið neinar undirtektir í fjárlaganefnd. Mér finnst þetta mjög óþægilegt og mjög einkennilegt, því það getur ekki verið æskilegt að sömu samskiptamátar séu enn í gangi og að sama fólkið og sagði ekki orð opinberlega um eitt eða neitt í aðdraganda þessa hruns sé e.t.v. enn að sinna sömu störfum. Ég er ekki að gera kröfu um að fólk verði látið víkja eða eitt eða annað, en það hlýtur að þurfa að upplýsa þing og þjóð um með hvaða hætti búið er að gera breytingar til batnaðar í þessum mikilvægu stofnunum til að þetta geti ekki gerst aftur.

Mig langar til að vita hvort hæstv. fjármálaráðherra hyggst kannski beita sér með okkur þingmönnum í því að það verði gerðar hér ítarlegri úttektir á þessum stofnunum heldur en koma fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.



[12:00]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er að mörgu að hyggja í þessum efnum og að mörgu leyti við gjörbreyttan veruleika að fást. Þannig er núna t.d. ljóst að eitt af viðamestu og vandasömustu verkefnum ríkisins á komandi árum er skuldastýringarmál. Menn höfðu ekki stórar áhyggjur af því þegar svo leit út, a.m.k. á yfirborðinu, að ríkissjóður væri því sem næst skuldlaus. Það má segja að sáralítil vinna hafi verið í gangi. Seðlabankinn sá um það litla sem gert var varðandi útgáfu skuldabréfaflokka, lánamál og annað í þeim dúr. Það er reyndar gert á grundvelli samnings sem gerður var fyrir allmörgum árum og Seðlabankanum var falið það verkefni í umboði fjármálaráðuneytisins. Við höfum þegar unnið mikla stefnumótunarvinnu að þessu leyti. Það er tilbúin skuldastýringarstefna og skuldastýringaráætlun fyrir ríkið sem var unnin undir forustu fjármálaráðuneytisins með aðkeyptu erlendu ráðgjafarfyrirtæki og sömuleiðis á grundvelli sérfræðiaðstoðar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það er verið að taka á þeim málum, m.a. til að tryggja að sambærilegt geti ekki endurtekið sig en ekki síður til að fara með hinn gríðarlega skuldastabba sem við stöndum núna frammi fyrir. Það er ærið verkefni að vinna að því.

Ég treysti því að sjálfsögðu að þær stofnanir sem í hlut eiga, hver og ein og allar saman, fari vandlega yfir sinn hlut í skýrslunni. Það verður að ætla þeim það. Það er ágætt að Alþingi veiti aðhald í þeim efnum, að Alþingi þrýsti á um það og fylgist með því að allir taki þetta alvarlega sem að þeim snýr.

Og ég tek undir það að bæði Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið þurfi, þrátt fyrir mannabreytingar sem þar hafa orðið og ýmsa aðra hluti, að fara mjög rækilega í gegnum starfsemi sína í ljósi ábendinga sem koma fram í skýrslunni en það þurfum við í sjálfu sér öll að gera sem og Alþingi.

Eitt að lokum um þetta, maður velti auðvitað fyrir sér og það kemur reyndar fram í skýrslunni hvaða skaðlegu afleiðingar það hafði að Þjóðhagsstofnun var lögð niður á sínum tíma. Í stað þess að byggja á nýjum vettvangi upp einhverja lágmarksgetu á þessu sviði, t.d. með lítilli efnahagsstofnun undir Alþingi, var ekkert gert. (Forseti hringir.)



[12:03]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Eins og öllum er augljóst er erfitt að tjá sig um skýrslu sem menn eru ekki búnir að lesa nema e.t.v. að litlu leyti. Það eru fjölmörg atriði í henni sem ég hef áhuga á að taka upp í þingsal og í framtíðinni við bæði ráðherra og aðra þingmenn. Mig langar að beina því til hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki eðlilegt að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar setjist niður og reyni að ákveða einhverja dagskrá á næstu vikum þannig að maður gæti þá tekið frá t.d. einn dag í viku þar sem ekki yrði gert annað en að ræða frekar það sem kemur fram í þessari skýrslu. Það eru fjölmörg atriði sem þarf að taka á mjög bráðlega. Svo eru einnig í henni fjölmörg atriði sem eru fóður fyrir framtíðina og sem þarf að ræða síðar meir. Mér finnst brýnt að meiri tími sé gefinn í þessa umræðu og velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra sé ekki sama sinnis.



[12:04]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu tel ég Alþingi þurfa að taka sér þann tíma sem það telur sig þurfa til umræðna um skýrsluna, en Alþingi þarf auðvitað líka að vinna mikla vinnu. Fleiri en ein og fleiri en tvær nefndir eru að störfum, í fyrsta lagi auðvitað sérnefnd Alþingis og í öðru lagi nefnd innan Stjórnarráðsins undir forustu Gunnars Helga, sem á innan 2–3 vikna að skila fyrstu tillögum og fyrstu greiningu á stjórnsýsluþáttunum og því sem snýr að Stjórnarráðinu. Ég tel að hvert einasta ráðuneyti eigi að setja starfshóp í gang á sínum vegum til að fara yfir þetta, hver einasta stofnun sem þarna á í hlut. Ég tel að sá möguleiki hljóti að koma til skoðunar að Alþingi skipti með einhverjum hætti með sér verkum og að t.d. fagnefndir þingsins taki sérstaklega til skoðunar þá kafla sem eru á þeirra sviði. Það þyrfti helst að halda vel utan um það verklag þannig að allir tækju þátt í þeirri vinnu. Það er ansi mikið af þessu sem mundi lenda á borði efnahags- og skattanefndar, viðskiptanefndar og fjárlaganefndar, en það getur að sjálfsögðu varðað fleiri fagnefndir, eins og allsherjarnefnd. Þetta þarf einhvern (Forseti hringir.) veginn að kortleggja og vinna skipulega.



[12:05]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna hinum nýja tón sem virðist koma frá hæstv. fjármálaráðherra. Hann hefur verið duglegur og vasast í mörgu. Ég set hins vegar spurningarmerki við það að hann einn skuli vera að vasast í hlutum sem eru á borðum annarra ráðherra. Mér finnst verkstjórnin hálfdapurleg, ef ég á að segja alveg eins og er.

Það sem mig langaði að ræða hér er flokksræðið. Ég held að það blasi við í þessari rannsóknarskýrslu að það einræði sem Halldór og Davíð höfðu, sem og Geir og Ingibjörg, var slæmt. Það er hluti af hinum stóra vanda. Nú erum við með tvo ráðherra, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon, sem í rauninni hafa tekið að sér sama hlutverk. Ég verð að segja fyrir mína parta að enn á ný, og allt síðasta þing, höfum við horft upp á sama flokksræðið og margir börðust svo hart gegn áður. Það endurspeglaðist kannski helst í Icesave-málinu, leyndin, undanskot gagna, blekkingarnar og það að einstakir þingmenn voru sveigðir og beygðir til að gefa frá sér eigin sannfæringu.

Nú spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Er hann reiðubúinn sem hluti af framkvæmdarvaldinu að gefa eftir það yfirgnæfandi óhóflega vald sem framkvæmdarvaldið hefur yfir Alþingi? Hann ræddi eftirlitshlutverkið og benti á að því væri ábótavant. Er því ekki ábótavant vegna þess að ráðherrar hafa tekið sér allt það vald sem Alþingi á að hafa? Hefur eitthvað breyst með nýrri ríkisstjórn? Það hefur ekkert breyst í mínum huga. (Forseti hringir.) Þess vegna bið ég hæstv. fjármálaráðherra að svara þessari spurningu.



[12:07]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Leiðtogavæðing stjórnmála er athyglisvert viðfangsefni út af fyrir sig. Ég tel mig ekki hafa verið í fararbroddi þess að það eigi að líta á formenn stjórnmálaflokka sem eitthvað öðruvísi en aðra stjórnmálamenn og vísa því nú frekar til annarra. Ég held að allir sem hafa fylgst með stjórnmálasögunni viti að einn flokkur umfram alla aðra hefur haft þá venju að gera formenn sína að guðum og ef þeir hafa ekki a.m.k. orðið hálfguðir hafa þeir yfirleitt ekki setið lengi í embætti þess flokks. Þetta er Sjálfstæðisflokkurinn. Það hefur verið algerlega sérstakur kúltúr þar á bæ varðandi það að borgarstjórinn í Reykjavík eigi að koma úr röðum íhaldsins, hann sé hálfguð, hann verði síðan gjarnan að formanni Sjálfstæðisflokksins og þá sé hann alguð. Ef menn ná ekki að verða einhverjar af hinum stóru stjörnum stjórnmálanna ganga þeir ekki í embætti. (Gripið fram í.) Það snýr að hverjum formanni og hverjum flokki fyrir sig að takast á við þessa hluti innanvert hjá sér.

Varðandi samskipti framkvæmdarvalds og löggjafarvalds er það að sjálfsögðu ekki þannig að ráðherrar eða framkvæmdarvaldið geti með einhverjum aðgerðum sínum bara tekið sér vald sem þeir ekki hafa samkvæmt stjórnskipun frá Alþingi. Það er í höndum Alþingis sjálfs að láta það ekki gerast. Það er að sjálfsögðu ekki þannig að menn geti bara tekið sér vald. Við erum hér með þingbundnar ríkisstjórnir og yfirleitt meirihlutaríkisstjórnir og þar með stendur sami meiri hlutinn á Alþingi að baki þeim sem fara með framkvæmdarvaldið hverju sinni. Menn geta rætt um kosti og galla þess fyrirkomulags í grunninn og spurt sig: Erum við komin með efasemdir um það yfir höfuð að þannig eigi þetta að vera? Það er ég í sjálfu sér ekki þó að ég viðurkenni vel að þróunin hafi verið mikið áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga á umliðnum tveimur áratugum eða svo.

Upp úr 1990 voru gerðar markvissar tilraunir til að styrkja Alþingi með því að setja það saman í eina málstofu, með því að styrkja þingnefndir, búa til þingnefndasvið og ráða starfsfólk til aðstoðar þingmönnum. Það var bryddað upp á þeirri nýjung að stjórnarandstæðingar væru formenn (Forseti hringir.) í þingnefndum í bland við stjórnarliða. Þetta var allt slegið af. Hvenær var það? Það var í valdatíð sömu foringja og hér (Forseti hringir.) voru nefndir áðan, Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar.



[12:10]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hæstv. fjármálaráðherra hefur áhuga á því að þingmenn stjórnarandstöðunnar gegni forustu í þingnefndum, af hverju kemur hann því þá ekki á? Af hverju horfum við upp á sömu vinnubrögð og við erum öll sammála um að þurfi að breyta?

Rifjum upp eitt dæmi. Af hverju sagði hv. þm. Ögmundur Jónasson af sér ráðherraembætti í ríkisstjórn Steingríms J. Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur? Af hverju var ekkert þingmannafrumvarp, eftir því sem ég man best, afgreitt fyrir jól? Örfá í stjórnartíð Jóhönnu og Steingríms. Erum við ekki bara að horfa upp á þann vanda að hér hefur ekkert breyst?

Formenn stjórnarflokkanna beita nákvæmlega sömu tækjum og tólum og fyrirrennarar þeirra í starfi gerðu. (Forseti hringir.) Þetta er eitt stærsta vandamálið sem Alþingi glímir við. Það verður að efla það og það á kostnað framkvæmdarvaldsins.



[12:11]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekkert skipt um skoðun í því að ef hér ríkir eðlilegt samstarfsandrúmsloft — og sú hefð getur þróast með farsælum hætti — geti stjórnarandstaðan átt meiri ítök í forustu þingsins og formennsku í þingnefndum í bland við stjórnarliða. (Gripið fram í: Þú … núna.) Ég hef á hverjum tíma alltaf verið tilbúinn til þess að upp á það væri boðið. Meðan ég var forustumaður í stjórnarandstöðu leitaði ég eftir því í hvert skipti sem samið var um slíkt, eftir að sá siður aflagðist upp úr 1999. Við buðum til að mynda Framsóknarflokknum bæði formennsku í þingnefndum og jafnvel forseta þingsins þegar minnihlutastjórnin var mynduð 1. febrúar 2009, en Framsókn hafði ekki áhuga á því og afþakkaði það. Stjórnarandstaðan hefur ekki endilega alltaf sjálf verið viljug til að hafa slíkt hlutverk með höndum. Veldur hver á heldur. Um þetta þurfa menn náttúrlega að ná saman. Það þurfa báðir aðilar að vilja stefna að því sem þar er unnið að.



[12:12]Útbýting:

[12:12]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Sú skýrsla sem við ræðum hér er mikið verk og þarft. Eiga skýrsluhöfundar hrós skilið fyrir vinnu sína. Öllum steinum er velt og engum hlíft — eða næstum engum. Skýrslan varpar heildstæðu ljósi á þá atburði sem áttu sér stað í aðdraganda bankahrunsins. Skýrslan er áfellisdómur yfir fjölmiðlamönnum, fræðasamfélaginu, stjórnsýslunni, atvinnulífinu, en þó alveg sérstaklega bankamönnum og okkur stjórnmálamönnum. Við eigum að nálgast umfjöllun um skýrsluna af auðmýkt, læra af því sem miður fór og bæta það sem bæta þarf. Það er gleðilegt að hið hefðbundna pólitíska karp hefur verið í lágmarki og að umfjöllun á Alþingi hefur að mestu verið á málefnalegum nótum. Í skýrslunni eru dregnar margar góðar ályktanir og bent á það sem betur má fara þótt ég sakni þess að atburðirnir skuli ekki hafa verið settir í alþjóðlegt samhengi.

Einn þátt sem ég tel vera einn af þeim mikilvægari í aðdragandanum sýnist mér skýrsluhöfundum þó sjást yfir. Fyrir allnokkrum árum var eftirlit með bönkum aðskilið starfsemi Seðlabanka Íslands. Hin nýja stofnun, Fjármálaeftirlitið, fékk í grófum dráttum það hlutskipti að hafa með höndum neytendavernd og eftirlit með einstökum fjármálastofnunum. Seðlabankinn fékk aftur á móti það hlutverk að fylgjast með kerfisáhættu á fjármálamörkuðum og tryggja fjármálalegan stöðugleika á Íslandi. Með öðrum orðum hafði Fjármálaeftirlitið eftirlit með trjánum en Seðlabankinn var skógarvörðurinn. Með nokkurri einföldun má segja að Fjármálaeftirlitið hafi farið inn í banka og haft eftirlit með því að þeir færu að lögum og reglum. Í dæmaskyni má ímynda sér að Fjármálaeftirlitið hafi farið inn í Glitni og skoðað stórar áhættuskuldbindingar og veðandlag í lánum til hlutabréfaviðskipta. Segjum að í ljós hafi komið að hlutabréf til trygginga lánum hafi verið í samræmi við lög og reglur en samt sem áður í hámarki. Segjum svo að áhættuskuldbindingarnar vegna fyrirtækis A og tengdra aðila hafi verið innan hámarks. Hér er farið að lögum og reglum og Fjármálaeftirlitið snýr ánægt frá.

Höldum nú áfram með söguna og gerum ráð fyrir að farið hafi verið inn í Kaupþing, Landsbankann og aðrar fjármálastofnanir. Myndin er sú sama innan allra fjármálafyrirtækja, fyrirtæki A hangir rétt fyrir neðan hámark um stórar áhættuskuldbindingar, farið er að lögum og reglum. FME hefur rækt hlutverk sitt og gefur út yfirlýsingu um að ekki sé hægt að gera athugasemdir við starfsemi bankanna og bankarnir standist álagspróf.

Víkur nú sögunni að Seðlabankanum sem á að fylgjast með kerfisáhættu. Hann hefur ekki þær upplýsingar sem FME hefur undir höndum. Eftir að hafa skoðað efnahagsreikninga bankanna, yfirlýsingar FME um að farið sé að lögum og reglum og aðrar upplýsingar gefur hann út að fjármálastöðugleiki í landinu sé tryggður.

Augljóst er að hér hafa fallið á milli skips og bryggju upplýsingar um samanlagða áhættu bankakerfisins. Þrátt fyrir að lán til fyrirtækis A í hverjum einstökum banka sé undir reglu um stóráhættu er kerfisáhættan gríðarleg.

Seðlabankinn vissi ekki að trén væru sýkt því að skógurinn virtist heilbrigður úr fjarlægð. FME vissi að einhver trjánna væru sýkt en taldi að skógurinn væri heilbrigður.

Eins og þetta dæmi sýnir er gjá milli Fjármálaeftirlits og Seðlabanka vegna mismunandi hlutverka stofnananna sem hefur leitt til þess að óæskileg kerfisáhætta getur byggst upp í kerfinu og það er viðkvæmara en ella.

Í skýrslu sem ég skrifaði vorið 2006 ásamt prófessor Frederic Mishkin, sem síðar varð einn af seðlabankastjórum Bandaríkjanna, varaði ég við þessu. Ein af þrem tillögum okkar Mishkins var að bæta eftirlit með fjármálakerfinu á Íslandi með því að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands. Eftir þessu var ekki farið, því miður. Á ársfundi Seðlabanka Íslands 31. mars 2006 kvað formaður bankastjórnar í ræðu sinni á um að þeir alþjóðlegu straumar sem leiddu til sundurgreiningar eftirlitsstofnananna á sínum tíma hafi nú snúist við. Það er skemmst frá því að segja að þessi ummæli voru túlkuð á þann veg að bankastjórinn væri að leggja til sameiningu Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands til að auka eftirlit með fjármálastofnunum. Bankastjórinn var þegar í stað sakaður um að vilja gína yfir öllu, að hann væri valdagráðugur og þetta væri afleit tillaga. Þingmenn Samfylkingarinnar gengu þar fremstir í flokki.

Þau sjónarmið sem ég hef fjallað hér um tel ég sýna að stofnanaumgjörð á Íslandi átti þátt í að eftirliti með fjármálakerfinu og kerfisáhættu var ekki sinnt sem skyldi með ákveðnum afleiðingum. Menn geta ekki haldið því fram að fræðasamfélagið hafi brugðist því að benda á augljósan annmarka á eftirlitsumgjörðinni eins og er gert í siðferðishluta skýrslunnar. Það var gert. Jafnframt benti Seðlabankinn á sömu staðreynd en pólitísk tregða kom í veg fyrir að nokkuð væri gert.

Það er bagalegt að bankarnir hafi verið einkavæddir á ný án þess að nokkur tilraun hafi verið gerð til þess að bæta úr þáttum sem snúa að eftirlitsumgjörðinni og ég hef rakið hér. Við segjumst með hátíðarsvip ætla að læra en höfum þegar gert stór mistök. Við vitum ekki einu sinni hver á bankana. Mistök skýrsluhöfunda felast í að hafa ekki komið auga á þennan þátt málsins, að stofnanaumgjörðin hafi átt stóran hlut að máli í aðdraganda hrunsins.



[12:19]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tala í annað sinn um rannsóknarskýrslu Alþingis. Í fyrri ræðu minni fór ég yfir það hvað Alþingi og löggjafarvaldið er óvarið gagnvart utanaðkomandi áhrifum og ætla hér að fara yfir fleiri punkta varðandi þau málefni því að eins og flestir vita uxu bankarnir á grundvelli Evrópusambandsreglna.

Í 15. kafla skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur fram að nefndin hafi sérstaklega tekið til athugunar hvernig starfsheimildir lánastofnana varðandi sjö tiltekin atriði hefðu breyst í kjölfar aðildar Íslands að EES-samningnum. Ég minni enn á ný á að EES-samningurinn var löggiltur í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks því að löngun Samfylkingar og krata er mikil til að ganga í Evrópusambandið. Þar er upphafið að því hruni sem við stöndum frammi fyrir.

Í skýrslunni kemur fram að fyrsta breytingin hafi falist í auknum heimildum lánastofnana til að fjárfesta í ótengdum atvinnurekstri. Önnur heimildin fólst í auknum heimildum til lánafyrirgreiðslu til stjórnenda, þriðja heimildin í auknum heimildum til að fjárfesta í fasteignum, félögum og félögum um fasteignir, sú fjórða í auknum heimildum til að veita lán til kaupa á eigin hlutum, sú fimmta í minni kröfum um rekstrarfyrirkomulag verðbréfafyrirtækja, sú sjötta í auknum heimildum til að reka vátryggingafélög og sú sjöunda í auknum heimildum til að fara með eignarhlut í öðrum lánastofnunum.

Virðulegi forseti. Þarna liggur þetta fyrir í nokkrum línum hvað gerðist hér á landi, hvers vegna bankarnir féllu, hvers vegna þetta þjóðfélag fór á hausinn. Þarna er þetta í sjö liðum samkvæmt Evrópureglum sem voru lögleiddar blindandi í gegnum Alþingi. Þarna stendur þetta og þarna stendur þetta í skýrslunni, ég hvet fólk til að lesa 15. kafla. Taumlaus eftirgjöf á fjármálasviðinu, sem varð í framhaldi af því að EES-samningurinn var lögfestur hér á landi, var ástæða þess að íslenskir bankamenn nýttu upp í topp þau tækifæri sem lögin veittu. Það segir síðan í skýrslunni, með leyfi forseta, og nú bið ég þingmenn að hlusta vel:

„Í öllum þessum tilvikum voru reglurnar rýmkaðar og athafnaleysi lánastofnana aukið verulega. Lágmarkskröfur tilskipana Evrópusambandsins um starfsemi lánastofnana fjölluðu ekki beinlínis um þessar auknu starfsheimildir. Íslandi var því ekki skylt vegna EES-samningsins að auka starfsheimildir innlendra lánastofnana á þennan hátt heldur var af samkeppnisástæðum talið nauðsynlegt að löggjöfin yrði sambærileg um þessi atriði og í helstu nágrannalöndunum.“

Virðulegi forseti. Að mínu mati brást löggjafinn þarna algerlega því að Íslendingum var ekki skylt að ganga fram með þessum hætti. Löggjafinn gat dregið úr þessu og ákveðið að hafa þetta ekki eins opið og það var.

Alþingi Íslendinga samþykkti á þessum tíma lög samkvæmt þessum ýtrustu reglum. Ég velti því fyrir mér hvers vegna Alþingi sótti sér ekki ýtrustu ráðgjöf varðandi innleiðingu þessara tilskipana og þessara reglugerða sem Evrópusambandið fól okkur að innleiða. Ekki er búið að styrkja lagasvið Alþingis enn þá. Þetta gerist á árinu 1993 og ekkert hefur verið unnið að því að styrkja lagasetningarvaldið, það er hvorki búið að koma á lagaráði né lagaskrifstofu. Það starfar ekki prófessor í lögum við Alþingi. Þetta er svo bagalegt og þessu verðum við að breyta.

Löggjafinn er einn hluti þrígreiningar ríkisvaldsins og löggjafinn skal starfa óháð framkvæmdarvaldinu og dómstólunum. Við vitum að þetta stendur í stjórnarskránni en af hverju er því þá ekki framfylgt? Það er grafalvarlegt þegar löggjafinn lætur með þessu móti undan þrýstingi jafnvel utan úr samfélaginu. Talsmaður Viðskiptaráðs lét hafa það eftir sér á sínum tíma fyrir bankahrun að Alþingi hefði í 90% tilvika farið að tillögum ráðsins í lagasetningu. Þetta er eins og maður sé staddur í miðri martröð, virðulegi forseti. Það viðhorf að hægt sé að panta lagasetningu er stórhættulegt og ég hef kallað það kranalagasetningu. Ég hef því lagt fram frumvarp um lagaskrifstofu hér á þingi og vona ég að það fái framgöngu og verði fljótlega að lögum.

Mig langar að lokum að segja þetta: Rænir þú banka um hábjartan dag og hótar ofbeldi er þér stungið í gæsluvarðhald þar til dómur fellur. Tæmir þú banka innan frá og kemur heilli þjóð á hausinn er þér hampað og þú flytur lögheimilið til útlanda. Við getum haft áhrif á framtíðina. Stöndum saman að því að byggja mannvænlegt samfélag.



[12:24]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ræddi í gær nokkuð um notkun skýrslunnar. Við eigum að nota hana til að kæra lögbrot til dómstóla og það þarf að gerast hratt. Menn þurfa að fá réttláta málsmeðferð og mér finnst bera á því, bæði í þingsölum og líka á fréttamannafundum, að menn séu búnir að dæma og að þeir sem eru ásakaðir eða kærðir með þeim hætti fái ekki að verja sig eins og vera ber.

Síðan eru önnur mistök sem ekki byggja á lögbrotum. Þar finnst mér að menn eigi að geta varið sig. Ef þeir geta ekki varið sig með skynsamlegum rökum þurfa þeir að biðjast afsökunar á því sem þeir gerðu. Það voru fjöldamörg mistök gerð, fjöldamörg. Við þurfum svo að læra og laga allt umhverfi atvinnulífsins með þessa skýrslu að vopni, en hún er afskaplega verðmæt. Síðast en ekki síst þurfum við að gefa erlendum aðilum tækifæri til að læra af þessari skýrslu líka. Ég hygg að sá lærdómur sé þegar hafinn vegna þess að sú alda, sú dökka, dimma alda, sem brotnaði á Íslandi er undiralda sem gengur um allan heim. Þetta er ekki bara íslenskt vandamál. Síðast en ekki síst, herra forseti, þurfum við að nota skýrsluna til að læra og skapa nýja framtíðarsýn og ég kem inn á það á eftir.

Það sem vantar inn í skýrsluna, þegar við tölum um ábyrgð og siðferði — eins og ég gat um í gær gáfu matsfyrirtæki íslensku bönkunum einkunnina AAA rétt áður en þeir fóru á hausinn, um það bil 15 mánuðum áður en þeir fóru á hausinn. Þeir bera mikla ábyrgð. Það er ekki nefnt í skýrslunni því miður. Þeir voru heldur ekki nefndir, eins og ég nefndi í gær, kjánarnir sem lánuðu kjánunum 12 þúsund milljarða. Það er tvöfalt meira og rúmlega það en allar eignir á Íslandi eins og þær leggja sig, virkjanir, vegir, skólar, íbúðarhúsnæði o.s.frv., bílar og allt. Þetta er tvöfalt meira. Hvað var fólkið að hugsa sem lánaði alla þessa peninga? Hvar er ábyrgð þeirra? Síðan þurfum við að finna til ábyrgðar, það vantar ekki, það eru stjórnendur og stærstu hluthafar bankanna sem bera mikla ábyrgð og það er sagt í skýrslunni og það er fínt. Síðan er það löggjafinn, framkvæmdarvaldið og dómsvaldið.

Ég fjallaði um löggjafarvaldið í gær og sérstaklega ákveðna grein sem fór í gegn á Alþingi nánast eins og Alþingi væri meðvitundarlaust. Það var engin umræða um þá breytingu sem gerð var að kröfu EFTA og sennilega var það þess vegna sem engin umræða var um hana. Hún fólst í því að hlutafélag megi lána starfsmanni til kaupa á hlutabréfum og ekki bara lán til hans sjálfs heldur tengdum aðilum, þ.e. hann gat stofnað hlutafélag um kaupin þannig að hann gat bara grætt en ekki tapað nema sem nam hlutafénu sem er að lágmarki hálf milljón. Þetta er alveg stórhættulegt og ég nefndi þetta.

Það sem við þurfum að gera núna, og ég nefndi það í gær líka, snýr að hugtökunum haghafi og hluthafi. Þegar menn taka ákvörðun, hvort sem það er á Alþingi, í sveitarstjórnum, í hlutafélögum eða út um allt, eru þeir að hafa áhrif á fjölda aðila, einstaklinga og annarra, sem ekki koma að ákvörðuninni sem hluthafar heldur sem haghafar, „stakeholders“ á ensku. Þeir líða fyrir þessa ákvörðun eða hagnast á henni og við þurfum að gæta þeirra í öllum ákvörðunum, líka í stjórnum hlutafélaga.

En það sem ég vildi að við notuðum skýrsluna í — og ég ætla að ljúka með því — er að móta framtíðarsýn. Framtíðarsýn mín er sú að almenningur á Íslandi hætti að skulda nema í íbúðarhúsnæði. Hann kaupir bílinn með staðgreiðslu, hann kaupir utanlandsferðir með staðgreiðslu, hann kaupir símann með staðgreiðslu. Ég sé einnig fyrir mér að fyrirtæki verði rekin mikið meira með áhættufé en ekki lánsfé, það minnkar áhættuna. Ég sé líka fyrir mér að sveitarfélögum verði hreinlega bannað að mynda skuldir og að ríkissjóður sé rekinn með afgangi. Þá fer íslenska þjóðin úr því að vera endalaus skuldari, frá því að ég man eftir mér, í það að eiga innstæður í útlöndum. Það er nefnilega þannig að meðalskuldir allra þjóða í heiminum eru núll þannig að nokkurn veginn helmingur þjóða á innstæður erlendis og hinn helmingurinn skuldar og borgar endalaust vexti og tekur áhættu. Þeir sem skulda eru ekki sjálfstæðir, þeir sofa ekki rótt á nóttunni og þeim líður illa en eiga í staðinn flottan grænan jeppa.



[12:30]
Höskuldur Þórhallsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í dag gerðist sá einstaki atburður á Alþingi að hæstv. forseti gerði lítið úr annars ágætri ræðu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur. Það sem hv. þingmaður gerði var að gagnrýna störf Alþingis, gagnrýna innviði Alþingis og það hvernig málum er háttað. Mig langaði til að spyrja hæstv. forseta, vegna þess að ég hef hugsað mér að gera slíkt hið sama í minni ræðu og tel að við þurfum að gera bragarbót á starfsháttum hér: Verður mér gefin einkunn úr ræðustól? Verður mér gefin einkunn af forseta Alþingis? Það er ágætt að fá að vita slíkt fyrir fram. En ég tel brýnt, vegna þess að ég tel að þetta hafi verið ómaklegt og ósanngjarnt af forseta Alþingis, að þetta verði rætt í forsætisnefnd.



[12:31]
Forseti (Árni Þór Sigurðsson):

Forseti vill taka fram að veldur hver á heldur. Forseti hefur ekki séð eða heyrt ræðu þingmannsins enn þá, þannig að forseti á hverjum tíma, hver sem situr í forsetastól, verður að meta hvort hann telur að þingmenn fari út fyrir eðlileg mörk eða fari á svig við það sem geta talist viðurkvæmileg ummæli í þingsal og ræðustóli. Forseti bíður því spenntur eftir að heyra ræðu hv. þingmanns.



[12:31]
Höskuldur Þórhallsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði að innviðir Alþingis sem stofnunar væru fúnir og það væri með ólíkindum hve vantaði upp á faglega lagasetningu og að nefndasvið Alþingis skilaði ekki því starfi sem ætlast er til sem ráðgefandi aðili við lagasetningu. Þetta er mat hennar á störfum Alþingis. Ég hef hugsað mér að nota svipuð orð. Það er ágætt að fá að vita ef taka á upp nýja starfshætti úr forsetastóli að við þingmenn fáum að vitað hvað bíður okkar. Þess vegna ræði ég þetta. Morgunblaðið fer nefnilega ágætlega yfir þá orðræðu og vitnar í þau orð sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir á að hafa látið falla. Þeir geta ekki séð hvað það er í orðum hennar sem olli því að hæstv. forseti gerði athugasemdir við ummæli hennar. (Forseti hringir.) Ef eitthvað er til þess fallið að rýra traust almennings á Alþingi er það nákvæmlega svona hegðun (Forseti hringir.) og orð sem hæstv. forseti lét út úr sér.



[12:33]
Forseti (Árni Þór Sigurðsson):

Forseti vill taka fram að hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir lét þau orð falla, sem hún lét falla úr ræðustól, sem almennur þingmaður og ekki úr stóli forseta og ekki sem slíkur. Þar að auki mun sá forseti sem hér stýrir fundi núna ekki láta stjórnast af sjónarmiðum Morgunblaðsins ef kemur að því að taka afstöðu til þess hvort ummæli einstakra þingmanna séu viðurkvæmileg eða ekki.



[12:33]
Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég man ekki til þess að ég hafi notað orðin að innviðir Alþingis væru fúnir en ég hef … (Gripið fram í.) Nei, nei, ég hef ekki sagt það en ég hef sagt svipað. Ég sagði í gær og baðst afsökunar fyrir mína hönd sem einstaklingur, sem einn þingmaður — ég tala aldrei fyrir flokka, ég tala ekki fyrir aðra þingmenn — að ég hefði skrifað undir nefndarálit sem ég ræddi í ræðu minni rétt áðan, meðvitundarlaus, án umræðu, án þess að gera mér grein fyrir afleiðingunum, á því baðst ég afsökunar í gær. Fleiri mættu skoða það hvort við séum að gera þetta almennt. Ég veit ekki hvort menn kalla þetta að innviðir Alþingis séu fúnir, en ég mundi segja að þetta sé mjög alvarlegt og þetta á við flestöll mál sem snerta Evrópusambandið og samþykktir tilskipana þess. Við treystum því að vitringarnir miklu úti í Evrópu hafi rétt fyrir sér, við treystum því blint þrátt fyrir Icesave-mistökin og allt það.



[12:34]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar í fyrsta lagi að þakka fyrir þá skýrslu sem er hér til umræðu. Hún er afar vönduð, hún er ítarleg og í mínum huga er hún þeim til sóma sem hana rituðu, enda veit ég af fyrri kynnum mínum af hluta nefndarmanna að þar fara afburðamenn og þegar þeir segjast hafa unnið sleitulaust myrkranna á milli að gerð hennar trúi ég því og veit að það er rétt.

Ég er líka ánægður með að nú sé komin niðurstaða í fjölmörg þrætuefni okkar alþingismanna á undanförnum árum og í rauninni þarf ekki að ræða þau mál neitt sérstaklega frekar. Ég er líka ánægður með að nú sé komin skýr heildarmynd af öllu því sem orsakaði hrunið. Eftir að hafa fylgst með hruninu gegnum störf mín á Alþingi þóttist maður vita að margt af því sem í skýrslunni er væri orsakavaldurinn en ég segi fyrir mína parta að þá var oft erfitt að tengja hlutina saman. Nú sér maður alla þræði, nú sér maður mistökin, sofandaháttinn, sinnuleysið, getuleysið sem þingmenn, ráðherrar, stjórnsýslan, forstöðumenn stofnana, eftirlitsstofnanir, Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn sýndu af sér. Það er sorglegt að svona skyldi málum hafa verið háttað en það er staðreynd.

Við sem nú erum tekin við, við sem nú eigum sæti á Alþingi ætlum ekki bara að læra af mistökunum, við ætlum að breyta hlutunum og það er niðurstaðan að mínu mati úr þessari skýrslu. Það verður að breyta hlutunum, það verður að breyta verklagi á Alþingi, efla Alþingi, efla eftirlitshlutverk Alþingis og það verður að veita Alþingi og lýðræðislega kjörnum fulltrúum þessa lands það vægi sem þeir eiga að hafa í umræðunni. Alþingi hefur ákvarðanatökuvaldið, ekki framkvæmdarvaldið. Framkvæmdarvaldið er ekki kosið til þess að taka ákvarðanir fyrir landsmenn. Strax eftir hrun benti ég á að vald Alþingis væri af skornum skammti, það væri í rauninni svo takmarkað að það væri sáralítið sem alþingismenn gætu gert til að bregðast við og sporna við vandanum. Þá stigu á stokk tvær þingkonur úr röðum sjálfstæðismanna sem lýstu því yfir að þeim liði eins og þær væru afgreiðslukonur á kassa. Þær væru hér í rauninni bara til að stimpla ákvarðanir sem framkvæmdarvaldið tæki. Ég held að þar liggi rót vandans; ef tveir aðilar, tveir ríkisstjórnarflokkar stýra landinu hafa þeir allt of mikið vald í sínum höndum. Ég held að það sé stór hluti af þeim vanda sem við horfum upp á í dag.

Hefur eitthvað breyst? Hefur eitthvað breyst á Alþingi frá því að bankahrunið átti sér stað? Nei, því miður hefur sáralítið breyst að mínu mati. Ég hef stundum sagt að ég geti ekki ímyndað mér að það sé hægt, og hafi verið gert, að halda á sumum málum eins og gert hefur verið í tíð núverandi ríkisstjórnar. Halldór og Davíð, Ingibjörg og Geir, Jóhanna og Steingrímur. Við horfðum upp á það í haust að einn þingmaður sagði af sér ráðherraembætti vegna þess að hann taldi sig ekki geta þolað að það ætti að beygja hann til að sveigja frá skoðunum sínum. Stór hluti Vinstri grænna er ósáttur við þá meðferð sem hér hefur verið viðhaldið, sérstaklega varðandi Icesave. Þingmál koma seint inn á Alþingi, þau eru afgreidd með hraði og þingmenn bregðast við. Þingmenn verða reiðir, þeir verða óánægðir, þeir lýsa því yfir statt og stöðugt að þeir fái ekki tíma, þeir hafi ekki forsendur til að vega og meta risastór mál sem þeir eiga að taka ákvörðun um hvort verði að lögum eða ekki. Þarna komum við einmitt að rótum vandans, að hér ríkir flokksræði en ekki þingræði. Kannski var hluti vandans að áður fyrr voru einstakir þingmenn of huglausir til að segja: Nei, ég læt ekki sveigja mig til að fylgja flokkslínunni í þessu máli sem ég hef barist gegn og er á móti í eðli mínu. Ef þingræðið væri raunverulega virt stæðum við ekki frammi fyrir þessu Icesave-vandamáli. Mér er líka til efs að þá væri þjóðin búin að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég gat ekki betur heyrt á orðum þeirra þingmanna sem tóku þátt í þeirri umræðu en að þeir væru í eðli sínu á móti þeirri ákvörðun. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lýst því yfir margoft að hún sé á móti aðild að Evrópusambandinu. Engu að síður erum við að banka á dyrnar.

Kannski liggur vandinn hjá formönnum flokkanna, sumum hverjum, sem hafa barist fyrir því lengi vel að komast ríkisstjórn og hefur verið legið á hálsi fyrir að hafa mistekist trekk í trekk svo áratugum skiptir. Kannski gáfu menn eftir hugsjónir sínar til að ná völdum og til að halda í völdin. Hvernig getum við breytt þessu? Við getum breytt þessu með því að framkvæmdarvaldið, formenn stjórnmálaflokka, verði að gefa eftir hluta af valdinu og ef það gerist held ég að Alþingi muni njóta virðingar á ný.

Páll Skúlason, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, hefur haldið erindi um stjórnmál og hann bendir á að svo virðist sem Alþingi geti bara fjallað um eitt mál í einu, einnig að umræðan verði oft ósanngjörn og ómálefnaleg. Þá komum við að því að fjölmiðlar landsins eru líka hluti af vandamálinu, þeir eru að selja sína vöru sem eru blöðin og þær greinar sem þar birtast og því miður virðist sem frjálshyggjuhugsunin hafi gert það að verkum að það ómálefnalegasta komist til skila. Síðan eru litlar greinar þar sem dregið er dár að alþingismönnum og gert lítið úr þeim. Þetta hjálpar ekki umræðunni, þetta eykur ekki virðingu Alþingis, þvert á móti. Hér fara oft fram málefnalegar umræður um mikilvæg mál og maður sér þess hvergi stað í fjölmiðlum landsins jafnvel þó að um sé að ræða gríðarlega mikilvæg (Forseti hringir.) og góð mál.

Ég mun halda áfram að fjalla um skýrsluna í næstu ræðu minni. Tíminn er naumur, af of skornum (Forseti hringir.) skammti, og kannski er of stutt síðan skýrslan kom út en það er gott að geta talað aðeins út um þessi mál.



[12:45]
heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir þakkir þingmanna fyrir þessa skýrslu sem við erum að ræða þriðja daginn í röð. Ég vil þakka fyrir hversu ítarleg hún er, ég vil þakka fyrir hversu beinskeytt hún er og ég vil segja það að ég er mjög sátt við efnistökin. Ég er sátt við aðferðafræðina og ég er sátt við framsetninguna í skýrslunni og allt skiptir þetta miklu máli.

Sannarlega dregur þessi skýrsla upp hryllingsmynd af því ástandi sem hér varð til og leiddi til hruns bankanna og heils efnahagskerfis og afleiðingar þess brenna nú á heimilum í landinu, 10–12 þúsund manns atvinnulausir og skuldabyrði fólks með ung börn sú erfiðasta.

Menn hafa haft á orði að það sé ekki margt nýtt í skýrslunni, þeir hafi svo sem vitað þetta allt saman, en ég verð að segja að ég hef fylgst talsvert vel með á undanförnum missirum og það kemur mér margt á óvart í þessari skýrslu, ekki síst sá einbeitti brotavilji sem þar kemur fram, viðhorfið sem kemur fram í yfirheyrslum og yfirlýsingum hjá aðalleikendum á þessu sviði. Það ótrúlega flækjustig í viðskiptalífinu sem þarna er rakið kemur mér líka verulega á óvart og mér er til efs að þessir aðalleikendur sem þóttust „eiga“ þessa peninga hafi nokkru sinni vitað hvar þeir lágu á hverjum tíma, enda var þetta froða, við vitum það í dag. En svo komu auðvitað líka á óvart þessar gríðarlega miklu fjárhæðir í froðunni.

Skýrslan er mikill áfellisdómur yfir stjórnsýslunni. Hún er mikill áfellisdómur yfir ráðandi stjórnmálastefnu, stjórnmálaforingjum, stjórnmálaflokkum, ríkisstjórnum, Stjórnarráðinu, stjórnsýslunni í heild. Það mætti margt segja um ábyrgð embættismanna og ráðherraábyrgð og það er nauðsynlegt að fara í gagngera endurskoðun á öllu regluverki og lögum og venjum í þeim efnum, eins og hæstv. forsætisráðherra hefur þegar bent á að er komið í gang, endurskoðun á Stjórnarráðinu og í stjórnsýslunni.

Skýrslan vekur upp spurningar um ábyrgðarleysi fleiri en embættismanna og ráðherra. Hún vekur einnig upp spurningar um hver er ábyrgð manna sem taka sæti í opinberum nefndum eins og einkavæðingarnefnd. Hún vekur líka spurningu um það hver er skylda og ábyrgð þeirra sem taka sæti í stjórnum hlutafélaga. En hún vekur líka spurningar um ábyrgð fjölmiðla og ekki síst forseta Íslands. Ég verð að segja, herra forseti, að mér ofbuðu viðbrögð eins aðalleikara og klappstýru í útrásinni, sem er forseti Íslands, við skýrslunni í fjölmiðlum í gær og ég harma þau. Ég hefði haldið að búast mætti við öðrum viðbrögðum frá þeim bæ, ekki síst í ljósi þess sem forseti Íslands sagði í áramótaávarpi sínu 1. janúar 2008 þar sem mátti kenna nokkra iðrun yfir aðkomu hans og embættisins að útrásinni. Það er ljóst að það er á fleiri vígstöðvum en í stjórnmálaflokkum sem menn þykjast ekki bera ábyrgð og það er miður.

Meginviðfangsefni skýrslunnar eins og hér hefur komið fram, herra forseti, er að fara yfir orsakir og aðdraganda hrunsins og eðli máls samkvæmt fjallar skýrslan mest um þá atburði sem gerðust á árinu 2007 og fram til hrunsins 6. október 2008. Engu að síður hafði nefndin í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2008 heimild til þess að fara fram yfir hrun en í þeirri grein segir að nefndin geti, eftir því sem hún telur nauðsynlegt, látið rannsókn sína taka til atburða eftir gildistöku neyðarlaganna, nr. 125/2008, en þau tóku gildi 7. október 2008, og sneiðist nú um tíma minn, herra forseti.

Mig langaði til að ræða aðeins um peningamarkaðssjóðina og það er ekki í fyrsta sinn sem þá ber á góma í þinginu. Um þá er í löngu máli fjallað í þessari skýrslu. Á einum 110 síðum er fjallað um peningamarkaðssjóðina og aðra verðbréfasjóði sem voru í „eigu“, segi ég aftur, þessara manna. Sú sem hér stendur hefur lagt fram í tvígang fyrirspurnir á Alþingi til hæstv. þáverandi fjármálaráðherra og hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra um aðdraganda þess hvernig að útgreiðslu úr peningamarkaðssjóðunum var staðið og enn fremur um samsetningu sjóðanna og hvernig sú ákvörðun var tekin að greiða öllum jafnt úr þeim og enginn greinarmunur gerður á fagfjárfestum annars vegar og lífeyrissjóðum og öllum almenningi hins vegar. Því að mestur fjöldinn var almenningur sem átti inni í þessum sjóðum, átti tiltölulega lágar fjárhæðir en öll stjórnarandstaðan lagði inn beiðni um skýrslu 18. desember 2008, tveim, þrem mánuðum eftir hrunið. Þá óskuðum við m.a. eftir upplýsingum um það hvernig samsetning sjóðanna var, hversu margir áttu yfir milljarð í þessum sjóðum og fengu 80 og eitthvað prósent, eins og út úr sjóði Glitnis, sjóði 9. Hversu margir áttu yfir 10 milljarða? Hversu margir áttu yfir 50 milljarða? Við spurðum líka hversu margir og hverjir tóku út úr þessum sjóðum í aðdraganda hrunsins.

Nú er það svo að rannsóknarnefndin hefur vísað til hins sérstaka saksóknara og til Fjármálaeftirlitsins að rannsaka vel möguleg brot á bankaleynd, þ.e. upplýsingastreymi. Hverjir vissu hvernig sjóðirnir stóðu og bankarnir, og voru að taka út 70 milljarða á síðustu dögunum áður en sjóðunum var lokað 3. október? Hverjir vissu það? Þetta verður rannsakað að tilhlutan rannsóknarnefndarinnar. Enn fremur hvernig stjórnendur sjóðanna, eigendur bankanna og rekstrarfélögin stóðu undir ábyrgð sinni og hvort þar var um refsiverða háttsemi að ræða þegar þeir tóku ákvarðanir um aukna áhættu í sjóðunum, hvernig þeir blekktu menn til að leggja fé inn í sjóðina. Þetta kemur allt saman fram í skýrslunni á þessum 110 síðum. En það sem ekki kemur fram hér, herra forseti, og er tilefni þess að ég vildi vekja sérstaka athygli á þessu er að á 10 síðum, á bls. 229–239 í 14. kafla 4. bindis rannsóknarskýrslunnar, kemur fram ítarleg frásögn af því hvað gerðist þessa daga. Dagana eftir að fjármálaráðuneytið stöðvaði viðskipti í sjóðunum 3. október þangað til þeim var tilkynnt um að það skyldi slíta þeim þann 17. október og svo fram að því að það var greitt úr þeim í lok október og byrjun nóvember. Og þar eru ansi margir leikendur á sviði. Þar koma fram mörg nöfn, Björgvin G. Sigurðsson, Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður hans, Geir Hilmar Haarde, ráðgjafi hans Jón Steinsson, ráðuneytisstjóri hans Bolli Þór Bollason, Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Árni Mathiesen, og loks Tryggvi Þór Herbertsson og Illugi Gunnarsson.

Það er dapurlegt að Alþingi hefur ekki getað kallað fram upplýsingar um það fyrr hvað gerðist þessa daga þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir, skýrslubeiðnir, umræður í nefndum, og þetta er eitthvað sem við þingmenn verðum að bæta. Það er greinilegt að þær víðtæku heimildir sem rannsóknarnefndin hafði dugðu til að kalla þessar upplýsingar fram. Verkfærin sem þingmenn hafa hafa ekki dugað til þess. Ráðherrar og stofnanir brugðust og virtu Alþingi hvorki svars né virðingar, vísuðu í bankaleynd, sögðu nei, þessu verður ekki svarað, og því miður, herra forseti, skrökvuðu að þinginu. Það eru stór orð (Forseti hringir.) en ég get ekki annað en sagt þau. Þetta er sá lærdómur sem við þingmenn verðum að horfa til og bæta í okkar starfsháttum. Við verðum að fá betri (Forseti hringir.) heimildir til þess að krefja ráðherra svara.