138. löggjafarþing — 107. fundur
 16. apríl 2010.
störf þingsins.

[12:05]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mig langar til að ræða við tvo hv. þingmenn, Ólínu Þorvarðardóttur, varaformann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, og Ögmund Jónasson.

Mig langar til að spyrja varaformann landbúnaðarnefndar hvort unnið sé að eða gerð hafi verið neyðaráætlun vegna öskufalls sem hugsanlega eyðileggur blómleg landbúnaðarhéruð þannig að búpeningur drepst, heyskapur bregst, skera þarf niður skepnur í stórum stíl eða flytja þær burt og flytja þarf mikið magn af heyi og fóðri milli héraða eða jafnvel erlendis frá með hugsanlega ófæra vegi og vélar sem ekki ganga í öskufalli. Ég tel brýnt að við sofum ekki á verðinum og þó að ég voni hið besta skulum við líka vera búin undir það versta eins og fornar sagnir kenna okkur.

Hv. þm. Ögmund Jónasson langar mig til að spyrja út í málefni LSR sem hann hefur stýrt í áratug og að auki talað oft um félagslegt jafnrétti. Hversu miklu tapaði LSR á hruninu og hvernig er stöðu hans háttað? Þarf að hækka iðgjald ríkisins til A-deildar og þá hvað mikið? Hve mikið hafa ríkið og opinberir aðilar greitt til B-deildar í gegnum tíðina og hvað er mikið ógreitt? Hvernig samræmist það félagslegu réttlæti að greiða í sumum tilfellum mjög háan óskertan lífeyri til fyrrum opinberra starfsmanna úr B-deild á meðan sjóðfélagar og lífeyrisþegar almennu lífeyrissjóðanna þurfa að horfa upp á umtalsverða skerðingu sinna réttinda og lífeyris og þurfa svo að borga með hækkuðum sköttum til hinna fyrrnefndu? Hver er ábyrgð stjórna lífeyrissjóðanna og ættum við ekki að fara að láta sjóðfélagana kjósa þá beint?



[12:07]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Stjórnarmenn í lífeyrissjóðunum eru kosnir lýðræðislegri kosningu, það eru verkalýðsfélögin og síðan atvinnurekendahliðin sem kýs þá til starfa. Varðandi þær spurningar sem beint er að mér hvað áhrærir LSR þá er ég ekki með þessar tölur á hraðbergi enda ekki öll kurl komin til grafar. Það er ekki vitað hvert áfall Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins er fremur en hjá öðrum lífeyrissjóðum þegar hrunið er annars vegar.

Um LSR er það að segja að kerfið er tvískipt. Annars vegar er það B-deild lífeyrissjóðsins sem var lokað 1. janúar árið 1997. B-deildin er í reynd blanda af lífeyrissjóði og gegnumstreymiskerfi sem var notað um áratugaskeið til þess að niðurgreiða almannatryggingar, auk þess sem ríkið tók vaxtalaus lán úr þeim sjóði. Hvað A-deildina áhrærir eru 80% sjóðfélaga í LSR í þeirri deild. Hún tekur breytingum, eða lífeyrisréttindin taka breytingum samkvæmt hækkun neysluvísitölu og á árabilinu 1997 til ársloka 2009 var engin umframaukning í réttindum. Ef við lítum hins vegar til Lífeyrissjóðs verslunarmanna þá voru réttindin aukin um 21,1% á þessu tímabili. Í gær var tilkynnt að lífeyrisgreiðslur yrðu skertar um 10%. Þá standa út af 9% sem lífeyrisþegar í Lífeyrissjóði verslunarmanna hafa fengið umfram þá sem eru í A-deild LSR. Þegar við tölum um réttlæti, jöfnuð og jafnræði þarf að sjálfsögðu að horfa (Forseti hringir.) á þessar staðreyndir líka.



[12:10]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal beindi fyrirspurn til mín sem varaformanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar um það hvort unnið væri að neyðaráætlun vegna öskufalls í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli. Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þingsins hefur ekki unnið slíka neyðaráætlun enda er það kannski ekki í hennar verkahring og hefði verið nær að beina þessari fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Ég hef aflað mér upplýsinga þaðan og það vill svo til að þar er fundur núna klukkan tvö í dag með þeim aðilum sem málið varðar. Ég hef fengið þær upplýsingar að ráðuneytið fylgist mjög grannt með framvindu mála á gosstöðvunum í samráði við m.a. Matvælastofnun, sveitarfélög á svæðinu og viðbragðsaðila, enda mun ráðuneytið vera hluti af almannavarnateymi vegna þessara atburða.

Hitt er annað mál að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, eins og umhverfisnefnd þingsins, þarf að fylgjast mjög vel með því sem nú er að gerast og ég held að það gæti verið góð hugmynd að þessar tvær nefndir hittust sameiginlega og færu yfir stöðuna. Það er líka staðreynd að allir helstu sérfræðingar landsins sem koma að þessu máli eru mjög uppteknir núna vegna viðbragðsáætlunar og almannavarna.



[12:11]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í þeirri ágætu skýrslu sem við erum flest að glugga í þessa dagana er töluvert rætt um tengsl fjármála við stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn og einnig fjölmiðla við stjórnmálamenn. Persónulega hef ég lýst því hér í ræðustól að mér fyndust fjölmiðlar sleppa heldur billega í þessari skýrslu en það kann að vera ástæða til að skoða það sérstaklega.

Það sem hefur gerst undanfarið er að hæstv. utanríkisráðherra hefur viðurkennt að það voru óheppilega mikil eða náin tengsl milli Samfylkingarinnar og Baugs þegar verið var að fjalla m.a. um fjölmiðlafrumvarpið. Þetta var svolítið merkileg yfirlýsing, ekki síst í ljósi þess að ef við fylgjumst með fjölmiðlaumræðunni í dag er eins og lítil breyting hafi orðið á, sérstaklega á ákveðnum miðlum. Vil ég í því sambandi benda á að enn fer Baugur með tögl og hagldir í 365 miðlum, ef ég veit rétt, og hefur þar af leiðandi væntanlega mikil áhrif á þá umfjöllun sem þar fer fram. Þá kem ég að því sem ég vildi ræða sérstaklega, frú forseti, og það er að mér virðist sem ákveðnir fjölmiðlar, tengdir einmitt þessu ágæta fyrirtæki, forðist mjög að fjalla um tengsl Samfylkingarinnar við fjármálaöfl í þessari skýrslu, t.d. þá styrki sem komu allt í einu upp á yfirborðið sem ekki virðist hafa verið gerð grein fyrir, og ýmislegt annað í þessari skýrslu.

Frú forseti. Ég tel að það þurfi að fara mjög vandlega ofan í það hvort þingið þurfi að beita sér hratt og örugglega fyrir því að tengsl stjórnmálaflokkanna við fjölmiðla verði tekin fyrir með ákveðnum hætti og skýrð og reynt að koma í veg fyrir þau. Að mínu mati er hrópandi í allri umræðu í dag að þessi tengsl Samfylkingarinnar og Baugsmiðlanna virðast ekki hafa verið rofin.



[12:13]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ríkisendurskoðun er sjálfstæð eftirlitsstofnun sem starfar á vegum Alþingis og Alþingi hefur ríka eftirlitsskyldu með þeim stofnunum sem undir það heyra. Eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom inn á hefur nú verið upplýst í skýrslu rannsóknarnefndar um óeðlilega styrki til Samfylkingarinnar sem ekki er að finna í reikningum flokksins. Þetta er mjög alvarlegt mál og segja má að upphæðirnar þarna á milli séu mjög háar. Raunverulega má segja að himinn og haf sé á milli þess sem Samfylkingin gefur upp og þess sem bankarnir hafa lagt af mörkum en um þetta má lesa í skýrslunni. Þess vegna langar til að spyrja forseta Alþingis: Hyggjast forseti Alþingis og forsætisnefnd vísa þessum málefnum Samfylkingarinnar til Ríkisendurskoðunar og gera að tillögu sinni að þessi mál verði rannsökuð?



[12:15]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst og fremst taka undir með þeim hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni og Vigdísi Hauksdóttur að í ljósi rannsóknarskýrslunnar er mikilvægt að við tökum þessa umræðu algerlega heildstætt og allt sé þá rætt og allt undir og ef þarna eru upplýsingar um eitthvað sem misræmi er í þá er um að gera að klára það.

Ég vil einnig taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal sem hvatti til þess að gerð yrði neyðaráætlun vegna afleiðinga gossins undir Eyjafjallajökli. Ég sé að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er mættur í salinn og ég treysti því að hann muni upplýsa um þá vinnu sem fer fram á vegum ríkisstjórnarinnar. Hugur okkar allra er að sjálfsögðu hjá íbúum þessa svæðis, hjá björgunarfólki, almannavarnafólki, lögreglu og öllum þeim fjölmörgu sem eru að vinna þrekvirki, t.d. starfsmönnum Suðurverks sem unnu þrekvirki við að rjúfa skarð í veginn, eins og okkur er öllum kunnugt um. Ég tel nauðsynlegt, eins og hefur verið nefnt af öðrum þingmönnum úr þessum ræðustól, að við tökum þetta mál á dagskrá þingsins strax og best væri að það væri gert í dag eða strax eftir helgi þegar þing kemur saman hvort sem umræðan verður utan dagskrár eða sett á dagskrá, t.d. í formi skýrslu frá annaðhvort hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra sem fer með almannavarnamál.

Ég held að nauðsynlegt sé að við förum vandlega yfir það hvað þarna er að gerast. Afleiðingar þessa goss eru hrikalegar nú þegar og við sjáum að við lifum ekki í einangrun hér á norðurhjara þegar kemur að þessu. Þetta hefur ekki bara áhrif á okkur heldur eru áhrifin eins og allir vita víðtæk úti um alla Evrópu þannig að ég hvet hæstv. forseta til að beita sér fyrir því að setja umræðu um eldgosið og afleiðingar þess á dagskrá þingsins (Forseti hringir.) á þriðjudaginn.



[12:17]
Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Mig langar til að ræða aðeins þann merkisatburð að hv. fyrrverandi þm. Björgvin G. Sigurðsson hefur sagt af sér þingmennsku. Það er vel skýrt í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hver aðkoma ráðherra eða afskiptaleysi þeirra var af hruninu, hvort sem var í aðdraganda þess eða eftirmála. Það er ljóst að þar bera allir ráðherrar ábyrgð þótt mismikil sé.

Það er líka ljóst að í tilviki Björgvins G. Sigurðssonar brást stjórnsýslan í að upplýsa hann og sumir samráðherrar hans í hans eigin flokki brugðust líka og hvorki upplýstu hann né aðstoðuðu á einni mestu ögurstund sem nokkur ráðherra hefur lent í. Sá gamalkunni frasi að menn hafi lent í hinu og þessu er í þessu tilviki að hluta til réttur og það ber að hafa í huga.

Það er augljóst af lestri skýrslunnar að tengsl margra annarra núverandi þingmanna og ráðherra við hrunið eru mikil og með þeim hætti að ámælisvert getur talist þótt lagaleg og formleg ábyrgð þeirra sé ef til vill ekki fyrir hendi nema í fáum tilvikum. Þessi tengsl sem og aðgerðaleysi allra ráðherra fyrri ríkisstjórnar á einni mestu ögurstund lýðveldisins gera það nauðsynlegt að þeir endurmeti einnig stöðu sína á Alþingi, ekki vegna lagalegrar eða formlegrar vanrækslu í starfi heldur vegna framtíðar Alþingis sjálfs og íslenskra stjórnmála sem trúverðugs vettvangs. Það er fyllilega réttmæt krafa að þeir sem á þingi sitja og tengjast hruninu axli ábyrgð með raunverulegum og sjáanlegum hætti en ekki með orðskrúði og froðu og víki til hliðar þótt ekki væri nema til næstu kosninga þar sem kjósendur geta nú lagt raunverulegt mat á störf þeirra.

Afsögn Björgvins G. Sigurðssonar er eftirbreytniverð. Hann er maður að meiri fyrir vikið og á hrós skilið frá almenningi og þakkir skildar frá þinginu því að það eru svona ákvarðanir sem munu gera meira en nokkuð annað til þess að efla traust þjóðarinnar á Alþingi og á stjórnmálum. Megi honum vegna vel í því sem hann tekur sér fyrir hendur hvort sem það verður endurkoma í stjórnmál eða annað.



[12:19]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir svar sitt. Ég er ekki sammála því að þetta sé ekki í verkahring Alþingis. Alþingi setur lagaramma og annað slíkt utan um slíkar aðgerðir og vel má vera að það þurfi að breyta töluvert mikið lögum til að mæta þeim ósköpum sem vonandi verða ekki en hugsanlega gætu orðið og fornar sögur segja frá, þannig að ég skora á hv. varaformann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að gera það sem í hennar verkahring er til að kynna sér málin.

Varðandi það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði þá þakka ég honum fyrir það en er ekki sammála honum um að stjórnir lífeyrissjóða séu lýðræðislega kjörnar. Það er ekki þannig. Þetta er mjög formfast og stjórnir lífeyrissjóða breytast helst aldrei og hafa ekki breyst nú eftir hrunið. Menn hafa ekki axlað ábyrgð á því. Þó að hv. þingmaður sem er í stjórn lífeyrissjóðsins viti það ekki þá get ég upplýst hann um það að ávöxtun sl. árs var 25,3% í mínus. Einn fjórði af eignunum hvarf í stað þess að sjóðurinn sýndi þá 3,5% ávöxtun sem þarf til að halda honum á floti. Þó að hv. þingmaður viti það ekki þá get ég upplýst hann um það að ógreiddar skuldbindingar vegna B-deildar eru 430 milljarðar, það er tvöfalt Icesave. Það er óbreytt og það er verið að borga þarna út mjög háan lífeyri sem ekki er skertur.

Varðandi það að Lífeyrissjóður verslunarmanna hafi bætt sín réttindi þá er það rétt en margir aðrir sjóðir hafa ekki bætt réttindi sín og þurfa samt að skerða þau eftir hrunið þannig að staðan er mjög slæm. Ég höfða til ábyrgðar þeirra sem sitja í stjórnum þessara sjóða og minni á það að hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur bæði verið varaformaður og formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna, ég veit ekki hve lengi.



[12:22]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal segist ekki vita hve lengi ég hafi verið formaður og varaformaður í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Ég hef aldrei verið þar í stjórn, (Gripið fram í.) ég hef hins vegar verið í stjórn LSR en er það ekki lengur, það var ranghermt hjá hv. þingmanni að ég sæti þar enn þá. Það er staðreynd.

Það er ekkert nýtt að hv. þm. Pétur H. Blöndal reyni að sá fræjum tortryggni í garð Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem er í senn lífeyrissjóður og gegnumstreymiskerfi sem lokað var 1. janúar árið 1997. Aðeins 20% þeirra sem eru í starfi hjá ríkinu eru núna í þeirri deild lífeyrissjóðsins, allar nýráðningar eru í A-deildinni sem er hönnuð þannig að hún sé sjálfbær. Það er hins vegar rétt að í þeirri deild eru réttindin föst en iðgjöldin breytileg.

Innan verkalýðshreyfingarinnar hafa verið mismunandi áherslur um hvað sé rétt að gera í þessum efnum. Ég hef persónulega verið því fylgjandi að stefna að kerfi þar sem lífeyrisréttindin eru föst en kaupmáttur launanna breytilegur. Um þetta eru skiptar skoðanir. Sumum finnst við setja of mikla fjármuni í lífeyrissjóði og í ljósi hrunsins er vissulega ástæða til að skoða á gagnrýninn hátt sjóðsmyndunina og hvort þetta sé heppilegasta formið sem fyrir finnst. Ég hefði talið að hv. þingmaður ætti að beina sjónum sínum að lífeyrissjóðunum, ekki með það í huga að skerða réttindin heldur skoða hvernig á því standi að þörf sé á því. (Gripið fram í.) Það þarf að sjálfsögðu að gera með hliðsjón af þeirri skýrslu sem núna hefur verið sett fram en fyrsta hugsunin sem vaknar hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal (Forseti hringir.) er í hina áttina, hvernig hægt sé að skerða réttindi lífeyrisþega. (Gripið fram í.)



[12:24]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Í tilefni af umræðu um áhrif eldgossins, sem nú stendur yfir og hv. þm. Pétur Blöndal opnaði, get ég upplýst að fulltrúar almannavarna mættu á ríkisstjórnarfund í morgun og gerðu grein fyrir hver staða málsins væri. Eins og við höfum fylgst með í fréttum er alveg greinilegt að mjög vel er haldið utan um þessi mál af hálfu almannavarna, slysavarna- og björgunarsveita, heimamanna, sveitarfélaga og annarra þeirra sem að þessu koma á svæðinu (Gripið fram í.) þannig að það er mjög traustvekjandi. Hins vegar er þarna um mjög alvarlegt mál að ræða og ég hef sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fylgst mjög náið með störfum og verkefnum Matvælastofnunar, yfirdýralæknis og annarra þeirra sem koma að því að fylgjast með búfé og högum þess. Eins og er hefur þar ekkert alvarlegt gerst en auðvitað er gríðarlegt tjón á þeim jörðum sem hafa orðið fyrir þessum flóðum.

Nú vitum við ekki hvert framhaldið verður eða hvort breyting verður á vindátt sem getur þá dreift öskunni til annarra átta. Sem ráðherra fylgist ég náið með þessu öllu saman og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið heldur fund nú kl. 14:00 með fólki frá Matvælastofnun, yfirdýralækni, Bændasamtökunum, sveitarfélögunum, Veðurstofunni og öðrum sem þessu tengjast til að fara yfir málið, hvernig við getum sem best tekið þátt í að koma nauðsynlegum upplýsingum á framfæri og gripið til aðgerða ef með þarf eða samhæft aðgerðir.

Ég vil (Forseti hringir.) segja að það verður að halda vel utan um þessi mál og ég mun sem ráðherra fylgja því eftir í (Forseti hringir.) framhaldi af þeim fundi sem ég verð á í dag með þeim aðilum sem þessu máli tengjast.



[12:26]
Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem upp í framhaldi af orðum hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um þá umræðu sem hefur skapast um tengsl viðskiptavelda í landinu og þá sérstaklega Baugs við stjórnmálaflokkana. Ég tek undir það að sú umræða sem var í þinginu í fyrradag vakti athygli mína og þau orð sem þar féllu um tengsl Baugs við minn flokk, Samfylkinguna. Þar var ýmislegt sem kom mér í opna skjöldu og ég tel að þessi ummæli gefi fullt tilefni til að fara mjög vandlega ofan í hver voru raunverulega tengsl viðskiptaveldanna í landinu við stjórnmálaflokkana í landinu, Samfylkinguna og alla hina flokkana, því að hvorki þingheimi né stjórnmálaflokkunum í landinu er bjóðandi upp á það að hér sé talað í einhverjum hálfkveðnum vísum og vangaveltum sem eru meira og minna órökstuddar. Auðvitað hef ég eins og aðrir tekið eftir því að úr þessum ranni, t.d. úr þeim fyrirtækjum sem tengdust Baugi, komu risastyrkir upp á allt að 30 millj. kr. til tiltekinna stjórnmálaflokka og vakti það mikið uppnám á sínum tíma.

Varðandi síðan það sem tengist styrkjum frá bönkunum til Samfylkingarinnar þá hefur það líka vakið athygli mína að ekki er samræmi í þeim tölum sem koma fram í rannsóknarskýrslunni annars vegar og hins vegar í þeim gögnum sem Samfylkingin sjálf skilaði inn til Ríkisendurskoðunar. Í þeim tölum sem eru sendar inn á árinu 2009 til Ríkisendurskoðunar kemur fram að Samfylkingin fékk styrki upp á 28,6 millj. en sú tala sem kemur fram samanlögð í skýrslunni er einungis upp á 26 millj. Þarna er misræmi upp á 2,6 millj. sem ég hef ekki fengið neinar viðhlítandi skýringar á af hverju rannsóknarnefndin hefur ekki upplýsingar um en það er eitt af því sem þarf að fara vel yfir í framhaldinu því að gagnsæi er krafa þjóðarinnar og okkar allra á þessum tíma. Við eigum að hafa alla þessa hluti uppi á borðinu og allt misræmi kallar á frekari (Forseti hringir.) rannsóknir og ítarlegri svör.



[12:29]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar til að þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir að koma hér upp og upplýsa okkur um þær aðgerðir sem ráðuneyti hans er að fara yfir vegna eldgossins sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir. Það sem er mikilvægasta verkefni stjórnvalda í dag varðandi það mál er að upplýsa almenning og íbúa og eins okkar ágætu nágranna sem verða fyrir töfum í flugi um það hver staðan er og hverjar horfurnar eru, eftir því sem menn best mega. Það er gríðarlega mikilvægt að bændur og aðrir, þá sérstaklega þeir sem þegar hafa orðið fyrir tjóni, finni að hugur okkar sem hér störfum er hjá þeim og hjá þeim íbúum sem þurfa að yfirgefa heimili sín og þeim sem þurfa nú að þola mikið öskufall. Það er gott að vita til þess að við eigum viðbragðskerfi sem heldur og sem virkar og það veitir manni fullvissu fyrir því að við höfum gert margt gott á undanförnum árum. Við erum þeim hæfileikum búin að geta þrátt fyrir allt staðið saman á tímum sem þessum. Við eigum gríðarlega sterka innviði og það hefur verið merkilegt að fylgjast með þeim fjölda sjálfboðaliða sem hafa unnið nótt sem dag á undanförnum vikum við að tryggja öryggi íbúa og ferðalanga á þessu svæði. Það segir okkur margt, það segir okkur að íslenska þjóðin kann að standa saman. Atvinnurekendur sem missa starfsfólk úr vinnu til að sinna þessum sjálfboðaliðastörfum hafa ekki gert mikið úr sínum hlut en mig langar að þakka þeim sérstaklega fyrir þeirra þátttöku í þessum viðbúnaði öllum saman sem og að sjálfsögðu því fólki sem stendur þarna vaktina, íbúum svæðisins sem hafa brugðist gríðarlega vel við fyrirmælum og tilmælum frá almannavörnum og ég vil hvetja okkur öll til að fylgjast vel með þessu máli og reyna að halda sem best utan um fólkið okkar.



[12:31]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Skúla Helgasyni um að gagnsæi er krafa fólksins. Það er líka krafa okkar sem hér erum. Því lít ég svo á að við tveir a.m.k. hljótum að vera sammála um að núna strax þurfi Alþingi og stjórnvöld að taka upp gagnsæ vinnubrögð. Mér dettur í hug yfirlýsingin sem skrifað var undir gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hún er trúnaðarmál, er sagt, og þingmenn ekki upplýstir um hana. Auðvitað hefði átt að kynna hana í utanríkismálanefnd, þar sem ríkir trúnaður, til þess að flokkarnir séu upplýstir sem og þingmenn.

Mig langar líka, virðulegur forseti, að koma einu á hreint. Hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi m.a. lýðræði í lífeyrissjóðum. Ef ég man rétt liggur hér frammi frumvarp sem ég held að Eygló Harðardóttir sé 1. flutningsmaður að og lýtur einmitt að því að auka lýðræði í lífeyrissjóðum.

Hv. þm. Þór Saari kom inn á eitt mál áðan og orðaði það þannig að í næstu kosningum mundu menn endurnýja umboð sitt. Ég velti fyrir mér hvort það þurfi ekki að huga að því að kjósa fyrr, ekki síst í ljósi þessarar skýrslu — hvort það þurfi ekki að skoða vandlega að boða til kosninga innan ekki mjög margra mánaða, hugsanlega innan árs eða eins og hálfs árs, til þess að stjórnmálamenn fái endurnýjað umboð. Þá geta kjósendur sagt hug sinn til stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka. Ég vil bara velta því upp hvort þessi skýrsla kalli hreinlega á þetta.



[12:33]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir að fá tækifæri til að gera smá athugasemd við orð hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar. Mér fannst hann vera að kvarta yfir því að utanríkismálanefnd hefði ekki verið gerð grein fyrir því erindi sem væntanlega verður tekið fyrir í dag hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það var gert í morgun. Enginn fulltrúi Framsóknarflokksins mætti á þann fund en sérstaklega var spurst fyrir um þetta. Það eru tilmæli frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að þetta sé ekki gefið út fyrr en fundur er afstaðinn og við verðum að hlíta því. Þetta var sem sagt gert í morgun og síðan verður þetta væntanlega opinbert eftir helgi.