138. löggjafarþing — 109. fundur
 20. apríl 2010.
réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, 1. umræða.
stjfrv., 556. mál (EES-reglur, aukin vernd launamanna). — Þskj. 946.

[17:39]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum. Þessum lögum var ætlað að innleiða tilskipun um samræmingu á lögum aðildarríkja EES um vernd launamanna við aðilaskipti. Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemd við 1. mgr. 3. gr. gildandi laga sem kveður á um yfirfærslu á réttindum og skyldum framseljanda samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi við aðilaskipti.

Frumvarpinu sem ég mæli hér fyrir er ætlað að mæta athugasemdum varðandi þetta ákvæði. Í ljósi túlkunar Hæstaréttar Íslands á einu ákvæði laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, þ.e. 1. mgr. 3. gr., í máli Blaðamannafélags Íslands gegn Frétt ehf., nr. 375/2004, hefur Eftirlitsstofnun EFTA gert athugasemd við þetta ákveðna ákvæði sem ætlað er að innleiða 3. gr. fyrrnefndrar tilskipunar. Málið varðar ágreining um greiðslu vangoldinna launa blaðamanns sem starfaði hjá Fréttablaðinu ehf. í kjölfar aðilaskipta á félaginu. Í dómi Hæstaréttar var fallist á að aðilaskipti hefðu farið fram á félaginu Fréttablaðinu ehf. í skilningi laganna um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, þegar félagið Frétt ehf. tók yfir rekstur Fréttablaðsins ehf. sumarið 2002. Hins vegar taldi dómstóllinn að umrætt ákvæði laganna ætti eingöngu við um réttarstöðu starfsmanna en ekki skuldir, launaskuldir, framseljanda. Því var talið að réttur blaðamannsins til ógreiddra launa sem komu til fyrir aðilaskiptin yrði ekki byggður á lögunum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Engu að síður hafi framsalshafa borið að virða ráðningarsamning blaðamannsins við framseljanda frá kaupsamningsdegi og þar til nýr ráðningarsamningur var gerður.

Eftirlitsstofnun EFTA telur þessa túlkun Hæstaréttar ekki vera í samræmi við dómafordæmi Evrópudómstólsins sem og EFTA-dómstólsins í málum er varða túlkun á 3. gr. tilskipunarinnar. Ráðuneytið er sama sinnis og telur fulla ástæðu til að breyta lögunum að þessu leyti.

Við innleiðingu tilskipunarinnar hér á landi með umræddum lögum var ekki gert ráð fyrir að framseljandi og framsalshafi bæru sameiginlega ábyrgð eins og tilskipunin gerir ráð fyrir að aðildarríkin geti ákveðið, heldur eingöngu að réttindi og skyldur á grundvelli ráðningarsamnings eða ráðningarsambands færðust yfir til framsalshafa.

Eftirlitsstofnunin bendir á að þrátt fyrir að orðalag ákvæðisins útiloki það ekki samkvæmt orðanna hljóðan að greiðsla vangreiddra launa falli undir ákvæðið verði að horfa til þeirrar túlkunar sem Hæstiréttur hefur viðhaft á ákvæðinu í dómum sínum. Í ljósi þess verði ekki talið að ákvæðið feli í sér með fullnægjandi hætti innleiðingu á efni 3. gr. tilskipunarinnar. Því er í frumvarpinu lögð til breyting á þessu ákvæði til samræmis við þann skilning sem við teljum réttari. Breytingin hefur það í för með sér að við aðilaskipti tekur framsalshafi yfir réttindi og skyldur framseljanda, þar með talið vanefndir á grundvelli ráðningarsamnings eða ráðningarsambands sem kom til fyrir aðilaskiptin, og tekur breytingin þannig af allan vafa hvað þetta varðar.

Jafnframt er lögð til breyting á öðru ákvæði umræddra laga, 1. mgr. 1. gr., en við þá breytingu sem gerð var á lögunum með lögum frá 2006, um breytingu á ýmsum lögum vegna samnings milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar, virðist sem fallið hafi brott seinni hluti þess ákvæðis. Í ljósi þess að með lögunum frá 2006 var ekki ætlunin að breyta gildissviði laganna sem hér um ræðir er lagt til að orðalagi ákvæðisins verði aftur breytt til fyrra horfs.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. félags- og tryggingamálanefndar.



[17:43]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í kjölfar skýrslunnar góðu, sem við höfum lesið og rætt um undanfarna daga, hafa menn rætt dálítið um hlutverk Alþingis. Hér kemur fram frumvarp sem segir að Alþingi hafi gert mistök við lagasetningu. Það er ekkert annað hægt að lesa út úr þessu. Hæstiréttur kemst að ákveðinni niðurstöðu á grundvelli laga frá Alþingi og síðan kemur í ljós að Eftirlitsstofnun EFTA fellir sig ekki við þennan dóm Hæstaréttar. Það kemur fram í greinargerð í þessu frumvarpi, í athugasemdum, að eitthvað hafi fallið niður eða að Alþingi hafi ekki verið nógu vakandi. Hvað skyldi hafa gerst, frú forseti? Hvar skyldi það frumvarp hafa verið samið? Var það samið á Alþingi? Ónei, fæst frumvörp sem Alþingi hefur samþykkt eru samin á Alþingi, en það ber samt sem áður ábyrgð á þeim. Það eru alveg sérstaklega frumvörp sem hafa innihaldið orðin EFTA, ESB eða eitthvað slíkt sem hafa farið meðvitundarlaust í gegn. Meðvitundarlaust. Ég nefndi fyrir nokkrum dögum og baðst afsökunar á því að hafa skrifað undir frumvarp 1997 sem fór gjörsamlega umræðulaust í gegn og varð til þess að samkvæmt íslenskum lögum er heimilt að lána starfsmönnum hlutafélags fyrir kaupum á viðkomandi hlutafélagi. Hvað hefur það haft í för með sér? Gífurlega mikla hringekju á peningum, frá hlutafélagi sem lán til starfsmannsins eða hlutafélags í hans eigu, sem var líka heimilað, og síðan frá starfsmanninum til hlutafélagsins í formi kaupa á hlutabréfum. Með þeim hætti jókst eigið fé viðkomandi hlutafélags sem nam kaupunum vegna þess að skuldabréfið var talið til eigna en hlutafé telst aldrei til skulda. Talið er að bankarnir hafi jafnvel getað fresta gjaldþroti sínu um einhverja mánuði með því að auka eigið fé með þessum hætti, sem Alþingi heimilaði hér á dögunum. Þetta á ekki bara við um bankana, þetta á við um öll hlutafélög, líka einkahlutafélög. Svo langt gekk þessi breyting og hún fór í gegn hér á Alþingi án nokkurrar umræðu,

Hér erum við að fjalla um nákvæmlega sama hlutinn, að eitthvað sem er gallað fer í gegn hér á Alþingi. Nú þarf Ísland og alveg sérstaklega dómsvaldið á Íslandi að sætta sig við þá niðurlægingu sem ég les hér, með leyfi frú forseta:

„Eftirlitsstofnun EFTA telur þessa túlkun Hæstaréttar ekki vera í samræmi við dómafordæmi Evrópudómstólsins sem og EFTA-dómstólsins í málum er varða túlkun á 3. gr. tilskipunarinnar.“

Sem sagt Hæstiréttur Íslands fær á baukinn frá Eftirlitsstofnun EFTA.

Mér finnst þetta vera alvarlegt, frú forseti. Mér finnst þetta mjög alvarlegt og hlutur Alþingis í þessu máli öllu er líka mjög alvarlegur, þannig að ég vil að Alþingi fari að taka sér tak í öllu því sem heitir EFTA- eða ESB-tilskipanir og vakni pínulítið.

Ég nefni t.d. innlánstryggingatilskipun Evrópusambandsins sem hér var tekin upp og hefur valdið því að við þurfum að borga eitthvert fyrirbæri sem heitir Icesave. Þar virðast hv. þingmenn alveg hafa verið jafnhugsunarlausir. Þannig að ég skora á hv. þingheim að vera meira vakandi yfir svona málum. Þótt þetta mál sé ekki stórt og menn kannski skauti létt yfir það, þá er það mjög alvarlegt mál í mínum huga.



[17:48]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að nefndin kanni þetta litla mál ágætlega. Hér er ekki um það að ræða Eftirlitsstofnun EFTA sé að tyfta Hæstarétt. Hér er einfaldlega um það að ræða að hugsunin að baki þessari tilskipun sem við innleiddum í íslenskan rétt vegna þess að hún átti að veita starfsfólki tiltekin réttindi, þ.e. að fólk átti að halda ráðningarsambandi sínu við aðilaskipti á fyrirtækjum, náðist ekki fram þannig að fólkið fær ekki réttinn sem það á að fá. Fyrir vikið þarf fólk þá að gera kröfu á hendur Ábyrgðasjóði launa eða með öðrum hætti að reyna að verja hagsmuni sína en það nýtur ekki þeirra réttinda sem markmiðið var að ná með tilskipuninni vegna þess að orðalag innleiðingarinnar er ekki nægilega skýrt og skapar því svigrúm fyrir þá túlkun sem Hæstiréttur hefur beitt. Markmið réttarbóta sem við innleiðum og leiða af Evrópurétti er almennt að veita fólki réttindi. Mér finnst einfaldlega eðlilegt að við leiðréttum lög þegar þau tryggja ekki fólki þann rétt sem tilskipanirnar eiga að veita fólki. Þannig eiga auðvitað ábyrg stjórnvöld að koma fram og menn taka þá mið af dómsniðurstöðum, því að það er auðvitað þannig að dómar Hæstaréttar breyta réttarástandi og það þarf þá að breyta því aftur í ljósi dómsniðurstöðu Hæstaréttar.

Eftirlitsstofnun EFTA leggur það mat á þessa niðurstöðu að hún sé ekki í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Þar er ég algjörlega sammála, það er ekki í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar að nýr eigandi geti tekið bara plúsana af því að taka yfir fyrirtæki en þurfi ekki að taka neinar af byrðunum. Hann verður auðvitað að virða vangoldnar launaskuldbindingar gagnvart starfsmönnum. Annað er bara ömurlegur pilsfaldakapítalismi af verstu sort og ég trúi því ekki að hv. þingmaður sé að verja slíkt.



[17:50]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ekki batnaði það. Ég las hér upp úr tilskipuninni og taldi að Eftirlitsstofnun EFTA væri að efast um túlkun Hæstaréttar, hún væri ekki í samræmi, og nú kemur hæstv. ráðherra og segir að Alþingi hafi samþykkt lög sem ekki voru í samræmi við tilskipunina, sem ég reyndar tók líka fram. Ég ætla ekki að ræða um þetta efnislega, því að ég get alveg verið sammála því að fólkið eigi þarna rétt en þetta snýst ekkert um það, þetta snýst um það hver ber ábyrgð á þessum galla. Hvar skyldi frumvarpið hafa verið samið? Auðvitað í ráðuneytinu. Er þá ekki hæstv. ráðherra að vísa ábyrgðinni yfir á sína undirmenn? Ber hann þá ekki ábyrgð á þessu eða forveri hans? (Gripið fram í.)

Ég ætla ekki að skorast undan þeirri ábyrgð að vera hluti af Alþingi og löggjafarvaldinu, þannig að ég verð væntanlega að taka á mig þessa ábyrgð líka. En ég legg nú til að Alþingi taki sjálft að sér samningu allra frumvarpa sem það á að samþykkja og sé ekki að taka við einhverjum frumvörpum úr ráðuneytum sem eru meingölluð að mati hæstv. ráðherra sjálfs.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til fél.- og trn.