138. löggjafarþing — 110. fundur
 21. apríl 2010.
störf þingsins.

[12:00]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil beina orðum mínum til hv. þm. Skúla Helgasonar, formanns iðnaðarnefndar. Nú er staðan þannig að ekki hefur verið fundað í iðnaðarnefnd frá því einhvern tímann fyrir páska (Gripið fram í: Enda ekkert að ræða.) og er það kannski ekki alveg í takt við þróun í atvinnumálum í landinu að við skulum ekkert hafa um að tala þar. Mig langar sérstaklega að ræða málefni gagnavers á Suðurnesjum, Verne Holdings. Það er verkefni sem beðið hefur verið eftir af mikilli óþreyju enda mun það stuðla að mikilli atvinnusköpun og fjárfestingu á svæðinu. Að þessu verkefni hefur komið eitt virtasta fjárfestingarfélag Bretlands sem mun þegar upp verður staðið að öllum líkindum verða þar meirihlutaeigandi og eru miklar væntingar um að það hafi mjög góð áhrif á markaðssetningu fyrirtækisins. Vinnan er í fullum gangi hjá þessum aðilum, undirbúningsaðilum, en það strandar á afgreiðslu Alþingis á þeim lögum sem þarf að setja um starfsemi þessa fyrirtækis.

Ég vil því spyrja hv. þingmann, formann iðnaðarnefndar, að því hvað dvelji og hvenær við megum vænta þess að málið fái afgreiðslu. Ég fullyrði að við í Sjálfstæðisflokknum viljum afgreiða þetta mál úr nefnd sem allra fyrst þannig að verkefnið megi fara í sem bestan farveg.

Fyrst ég er kominn hingað í ræðustól, virðulegi forseti, vil ég nota tækifærið og ræða við formann iðnaðarnefndar, sem ferðamál heyra undir, um ummæli forseta Íslands í erlendum fjölmiðlum í gær. Þau hafa vakið mikinn ugg í ferðaþjónustu og ljóst að menn telja þau afar óheppileg og hafa miklar áhyggjur af því að þau verði til þess að draga úr þeim ferðamannastraumi sem ætlað var að kæmi til landsins.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hann meti þessi ummæli og hvort til standi að funda í iðnaðarnefnd með fulltrúum ferðaþjónustunnar (Forseti hringir.) til að fara yfir þessi mál.



[12:02]
Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni þessa fyrirspurn. Hún lýtur að verkefni sem hefur verið í undirbúningi á vegum fyrirtækisins Verne Holdings ehf. um nokkurra ára skeið en það felur í sér að setja upp alþjóðlegt gagnaver á Suðurnesjum. Ég deili því viðhorfi sannarlega með fyrirspyrjanda að hér er verkefni sem felur í sér afar mikilsverða og kærkomna viðbót við atvinnustarfsemina á Suðurnesjum, en hvergi á landinu er hlutfall atvinnulausra hærra en einmitt þar, eða 15% samkvæmt nýjustu tölum Vinnumálastofnunar.

Viðfangsefni nefndarinnar er fjárfestingarsamningur milli stjórnvalda og Verne Holdings um þetta verkefni sem á að skapa því stöðugri grundvöll varðandi skattalega meðferð, opinber gjöld o.s.frv. Hann er talinn afar mikilvægur varðandi möguleika Vernes á því að tryggja samninga við erlenda viðskiptavini sem horfa mjög til þess að vænta megi stöðugleika í þeim ramma sem stjórnvöld skapa atvinnulífinu á komandi árum.

Ég hef óskað eftir því að iðnaðarnefnd komi saman á föstudaginn til þess að halda áfram meðferð þessa máls. Það var sjónarmið meiri hluta nefndarinnar að okkur bæri skylda til að bíða eftir niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og meta þá sérstaklega hver hlutur Björgólfs Thors Björgólfssonar yrði í henni áður en málið yrði tekið úr nefnd. Nú liggur skýrslan fyrir og ég hef óskað eftir því að nefndin komi saman á föstudag til að meta áhrif hennar á framvindu þessa máls.

Það viðhorf hefur komið fram, og ég tel eðlilegt að menn tali um það eins og það er, að í einhverjum skilningi sé óeðlilegt að stjórnvöld samþykki gjörning sem feli í sér sérstaka fjárhagslega fyrirgreiðslu við einn þeirra einstaklinga sem léku stórt hlutverk í aðdraganda bankahrunsins, og deila ábyrgð á þeim hamförum sem kallað hafa þungar búsifjar yfir þjóðina. Þetta er eitt af þeim viðhorfum sem nefndin þarf að taka til greina, jafnframt því að virða grunnreglur réttarríkisins um að hver maður (Forseti hringir.) sé talinn saklaus uns sekt er sönnuð.

Þetta eru þau sjónarmið sem við erum að meta í iðnaðarnefnd en ég ítreka að það er vilji minn að finna lausn sem tekur tillit (Forseti hringir.) til þessara siðferðislegu álitamála án þess að grafa undan verkefninu sem slíku.



[12:05]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil blanda mér í þessa umræðu og hvetja hv. iðnaðarnefnd til að ljúka þessu máli hið fyrsta. Í havaríinu fyrir jól var þetta mál á lista ríkisstjórnarinnar yfir þau mál sem klára ætti fyrir jól og nú er kominn 21. apríl. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur alltaf svarað því til að hlutur þessa ákveðna fjárfestis, sem formaður iðnaðarnefndar gerði hér að umtalsefni, væri algjörlega minni háttar og færi minnkandi. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann geti útskýrt hvað gæti falist í þeirri lausn sem hann boðaði, að taka yrði tillit til siðferðislegra sjónarmiða án þess að stöðva verkefnið. Staðan er sú núna að verkefnið er stopp með öllum þeim alvarlegu afleiðingum fyrir atvinnulíf á Suðurnesjum sem það hefur í för með sér. Ég hvet hv. iðnaðarnefnd til að afgreiða þetta mál farsællega, þetta er eitt af þeim málum sem getur skipt sköpum fyrir atvinnulíf, uppbyggingu og mannlífið á Suðurnesjum, sem mér er mjög umhugað um að komist upp úr þeim öldudal sem það er í.

Ég kem líka upp til að minna á að við í viðskiptanefnd Alþingis höfum verið að kalla eftir upplýsingum um eignarhald á bönkunum sem nú hefur verið komið í hendur kröfuhafa. Ég hef verið í samskiptum við samskiptastjóra skilanefndar Kaupþingsbanka. Mig langar að gera Alþingi grein fyrir því að ég óskaði eftir því við þennan ágæta samskiptastjóra að viðskiptanefnd yrði leyft að fá aðgang að lokuðu vefsvæði þar sem kröfuhafar eru listaðir, eða fá stærstu kröfurnar. Ég fékk það svar að þetta sé ekki löglegt, ekki samkvæmt (Forseti hringir.) lögum, og (Forseti hringir.) listinn er aðeins aðgengilegur á lokuðu vefsvæði fyrir kröfuhafa. Hins vegar er því bætt við að „fjölmargir hafi því aðgang (Forseti hringir.) að þessum upplýsingum, þar með talið ríkið sjálft“. Ég vil vekja athygli á því að viðskiptanefnd (Forseti hringir.) Alþingis er ekki heimilt að hafa upplýsingar sem einhverjum öðrum hjá ríkinu er heimilt að hafa. (Forseti hringir.) Ég tel það umhugsunaratriði.



[12:07]
Forseti (Þuríður Backman):

Ég bið hv. þingmenn um að virða ræðutímann, tvær mínútur.



[12:07]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni iðnaðarnefndar þau svör sem hann gaf hér. Ég fagna því að iðnaðarnefnd skuli vera boðuð til fundar á föstudag. Ég hefði reyndar kosið að það fundarboð hefði verið komið heldur fyrr þar sem ekki var gert ráð fyrir þessu í dagskrá þingsins og menn búnir að gera ráðstafanir til að fara út í kjördæmin. En ég mun reyna af fremsta megni að koma á þennan fund á föstudaginn.

Þetta verkefni Verne Holdings á Suðurnesjunum hefur verið stopp í iðnaðarnefnd af ákveðnum siðferðislegum ástæðum og það er út af fyrir sig eðlilegt að fólk vilji ræða þá hlið mála í því andrými sem er í samfélaginu í dag. Hitt er svo annað mál að að þessu fyrirtæki, eins og ég sagði áðan, eru komnir mjög öflugir aðilar, viðurkenndir á alþjóðavettvangi. Þeir munu eiga meiri hluta í því og það er okkar á Alþingi að greiða fyrir atvinnulífinu eins og við getum um þessar mundir og reyna að skapa öflugt og efnilegt atvinnulíf. Við megum þess vegna ekki láta það fólk sem var í tengslum við útrásina, og átti vissulega stóran þátt í hruni íslensks efnahagslífs, eyðileggja tækifæri þegar svo stór og efnileg fyrirtæki eru komin að og eru að ræða við ein stærstu fyrirtæki á alþjóðavettvangi sem nýta slíka þjónustu. Það yrði íslensku atvinnu- og efnahagslífi til mikils framdráttar ef þau fyrirtæki mundu velja Ísland sem vististað fyrir gögn sín í slíkri starfsemi.

Ég vil ítreka spurningu mína til hv. þm. Skúla Helgasonar varðandi ummæli forseta Íslands. Mjög harkaleg viðbrögð hafa komið frá ferðaþjónustunni varðandi ummæli hans um mögulegt eldgos hér í framtíðinni. Beðið hefur verið eftir eldgosum í tugi ára og lengi hafði verið beðið eftir jarðskjálftum, það er alveg út úr kortinu að vera með einhvern hræðsluáróður. Ég vil ítreka spurninguna um það hvort iðnaðarnefnd verði kölluð saman (Forseti hringir.) til að ræða við fulltrúa ferðaþjónustunnar um möguleg áhrif þessara ummæla og ég spyr hv. þingmann hvernig hann meti áhrifin af ummælum forseta Íslands.



[12:10]
Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að það er mikilvægt að fá niðurstöðu í þetta mál hið fyrsta en sú niðurstaða þarf að vera þannig að við getum verið stolt af henni og að tryggt sé að verkefnið nái fram að ganga án þess að við göngum fram af þjóð okkar í leiðinni. Ég hef fullan skilning á því viðhorfi að eigendur og stjórnendur bankanna standi í verulegri skuld við þjóð sína og eigi að standa reikningsskil gjörða sinna gagnvart henni. Við verðum hins vegar að virða grunnreglur réttarríkisins og við verðum líka að átta okkur á því að tilteknir aðilar sem tengjast þessu bankahruni eru í dag aðilar að atvinnulífi okkar. Þessi tiltekni fjárfestir, Björgólfur Thor, á hér fyrirtæki á ýmsum sviðum í símaþjónustu. Hann er einn af helstu hluthöfum í CCP tölvuleikjafyrirtækinu sem er talið eitt merkilegasta fyrirtæki í landinu og var að fá útflutningsverðlaun í gær, ef ég man rétt. Við þurfum að spyrja okkur að því hvort það geti verið hlutverk okkar hér í þinginu að ráðskast með það hverjir séu þóknanlegir sem þátttakendur í atvinnustarfsemi í landinu og hverjir ekki. Okkar lausn þarf að vera málefnaleg, hún þarf að vera sanngjörn og taka tillit til þeirra sjónarmiða sem uppi eru.

Varðandi ummæli forseta Íslands vil ég segja að ég tel að þau hafi verið mjög óheppileg. Ekki er tekið til greina að mikilvægt er að menn tali af stillingu um það ástand sem hér er. Vissulega eru það engar nýjar fréttir að Katla kann að gjósa í nánustu framtíð en það er mikilvægt að senda ekki þau skilaboð að hér sé eitthvert upplausnarástand. Stjórnvöld hafa góða stjórn á viðbúnaði vegna þessara hamfara og eins og við þekkjum erum við með sérfræðinga- og almannavarnarkerfi sem stenst fyllilega samjöfnuð við það sem við þekkjum (Forseti hringir.) best erlendis.



[12:12]
Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég hef líkt og aðrir verið að glugga í og lesa skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þessi bindi, og sú lesning er á margan hátt mjög fróðleg. Hún hefur valdið því að þrír þingmenn hafa farið í tímabundið leyfi og mig langar aðeins að ræða um málefni því tengd.

Í gegnum tíðina hafa allmargir alþingismenn fengið lausn frá þingmennsku áður en kjörtímabil hafa klárast. Ýmsar ástæður hafa legið að baki því að þingmenn hafa tekið þá ákvörðun að hverfa af þingi. Flestir hafa hætt af persónulegum ástæðum, t.d. vegna þess að þeir hafa snúið til annarra starfa, vegna veikinda eða annarra þátta. Ekki hefur verið algengt að alþingismenn og/eða ráðherrar hafi sagt af sér þingmennsku af öðrum ástæðum en að framan greinir. Í skýrslunni er hart deilt á Alþingi og vinnubrögðin hér, þá menningu sem hér hefur verið. Við höfum bæði skrifaðar og óskrifaðar reglur, og það er sú stjórnmálamenning sem hér ríkir.

Ég velti því fyrir mér hvar við viljum draga víglínur í þessum efnum. Mér varð hugsað til afsagnar þingmanns sem sagði af sér þingmennsku 2008. Það var þegar fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, Bjarni Harðarson, sagði af sér þingmennsku. Það var, eins og frægt er, vegna þess að hann hafði fyrir mistök sent bréf frá flokksmönnum með harðri gagnrýni á Valgerði Sverrisdóttur fyrir það hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna. Í tilkynningu sem hann sendi á fjölmiðla sagði hann að hann hefði af þeirri ástæðu ákveðið að segja af sér þingmennsku enda hafi það ævinlega verið sannfæring hans að menn eigi alltaf að axla ábyrgð á eigin gerðum. (Forseti hringir.) Ég vil ekki sitja hér í einhverju dómarasæti en mér finnst að við þurfum öll að horfa á það hvernig við viljum sjá þingið þróast.

Um þessa afsögn Bjarna Harðarsonar sagði Gunnar Helgi (Forseti hringir.) Kristinsson að eiginlega væru engin fordæmi fyrir því að þingmenn segðu af sér af einhverju slíku tilefni og (Forseti hringir.) reyndar væru ákaflega fá dæmi (Forseti hringir.) um það að hvort heldur sem er ráðherrar eða þingmenn segðu af sér á Íslandi. Ég held að við ættum aðeins að velta þessu fyrir okkur og líta í eigin (Forseti hringir.) barm.



[12:15]
Forseti (Þuríður Backman):

Enn og aftur vill forseti minna þingmenn á að virða tímamörk.



[12:15]
Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég hygg að sá lærdómur sem draga megi af rannsóknarskýrslunni, sem ég held að við séum mörg að lesa þessa dagana, sé sá helstur fyrir okkur alþingismenn að við ættum að líta á stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu og stöðu Alþingis gagnvart því umhverfi, lagaumhverfi, sem við erum að móta úti í þjóðfélaginu.

Ég sagði hér í ræðu um daginn vegna skýrslunnar að stundum hafi skort á að Alþingi taki það vald sem það hefur. Ég held að það sé nokkuð sem við þurfum að hugleiða. Mér finnst mjög mikilvægt, þegar við förum yfir niðurstöðu þessarar rannsóknarskýrslu, að við gaumgæfum stöðu Alþingis. Við skulum ekkert horfa fram hjá því að Alþingi hefur alls ekki haft nógu sterkt hlutverk gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég held við séum sammála um það flest hér. Ég held við þurfum ekkert endilega að vera að deila svo mikið um það. Ég held að það sé mjög mikilvægt, þegar við metum rannsóknarskýrsluna, að við náum því að horfa fram á veginn og reynum að læra af henni, en ekki endilega stöðugt vera að setjast í dómarasæti um einstaka þætti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við náum þeim árangri í þessari umræðu.

Ég kom þó fyrst og fremst hingað upp vegna þeirra orða sem féllu í lok ræðu hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur þegar hún lýsti samskiptum sínum við Kaupþing vegna eigenda þess fyrirtækis. Það er líka sá lærdómur sem við getum dregið af rannsóknarskýrslunni að enginn vissi í raun og veru hver átti nokkurn skapaðan hlut á Íslandi vegna þess flókna nets eignarhaldsfélaga og slíkra hluta sem hér höfðu skapast.

Ég get því miður ekki séð að nógu mikið hafi breyst í því efni og þar þurfum við líka að taka til hendinni. Við vitum ekkert hver á Íslandsbanka. Við vitum ekkert hver á Kaupþing-banka. Þetta er allt falið á bak við einhverja óljósa eigendur og Alþingi fær ekki upplýsingar um það hverjir þetta eru. Þetta er hluti af vandanum, Alþingi verður að fara að taka upp það vald sem það hefur, það á ekki að sætta sig við svör af þessu tagi.



[12:17]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vildi bara koma hingað upp til að taka undir með þeim þingmönnum sem undanfarna daga og vikur hafa rætt um stöðu Alþingis og þann lærdóm sem draga megi af rannsóknarskýrslunni. Við erum eflaust öll enn að lesa skýrsluna og verðum að því næstu daga og vikur því að þetta er jú mikill bálkur. En við verðum að draga af þessu skýran lærdóm. Það er starf þingmannanefndar um rannsóknarskýrsluna að hjálpa okkur til þess og setja það niður á blað og staðfesta en um það verður líka að vera þverpólitísk samstaða, það er meginmálið. Við þingmenn varðveitum og eflum sameiginlega sjálfstæði Alþingis með ráðum og dáð á allan hátt.

Eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu og með þeim lögum sem það vill setja er mikilvægur þáttur en líka stjórnmálamenning okkar, líka sá kúltúr sem hér viðgengst innan húss, hvernig við ræðum saman, hvernig við nálgumst hvert annað í vinnubrögðum, hvernig það er metið að t.d. stjórnarliðar spyrji sitt eigið framkvæmdarvald út úr hlutunum, hvernig bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar krefjast upplýsinga fyrir hönd þingsins og spyrja gagnrýnna og sjálfstæðra spurninga. Þetta er allt liður í betri stjórnmálamenningu innan þingsins. Þar held ég að við verðum öll að taka höndum saman.

Ég hlakka til að sjá hvað kemur út úr þessari sérstöku þingmannanefnd. Ég held við getum öll hjálpast að og lagt fram tillögur til hennar, bæði nýliðar sem hér hafa verið í stuttan tíma, eins og sú sem hér stendur, og þeir sem hafa verið hér í lengri tíma og hafa reynslu, þekkingu og innsýn en eru um leið kannski líka grónir inn í (Forseti hringir.) tiltekin vinnubrögð sem við viljum breyta.



[12:19]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil blanda mér í þessa umræðu um hlutverk Alþingis í stjórnskipuninni. Þannig er að velflest frumvörp, nánast öll, sem Alþingi samþykkir sem lög eru samin í ráðuneytum eða jafnvel í þeim stofnunum sem framkvæma lögin, sem er stórhættulegt. Ég hef margoft bent á þetta. Í gær ræddum við meira að segja frumvarp sem veila var í, galli, sem var aðlögun að EFTA-tilskipunum þar sem Hæstiréttur hafði komist að einni niðurstöðu og síðan komst ESA-dómstóllinn að annarri. Nú þurfum við að breyta lögum vegna galla í lagasetningunni upprunalega.

Nú er það spurningin: Ber ég sem þingmaður ábyrgð á þessum galla í frumvarpi sem var samið í ráðuneytinu og flutt af ráðherra eða ber ráðherra ábyrgð á því? Mér finnst ákaflega erfitt að bera ábyrgð á þessari lagasetningu en geri það samt eins og aðrir hv. þingmenn. Ég legg til að við skoðum þetta mjög náið og flytjum alla samningu lagafrumvarpa til Alþingis (Gripið fram í: Heyr, heyr.) þannig að við berum sjálf ábyrgð á því sem við gerum en ekki á því sem aðrir gera. Síðan getum við flutt verkefni sem við samþykkjum í fjárlagafrumvarpinu, þar sem Alþingi er að samþykkja alls konar framkvæmdir, þýða bók þarna, byggja torfkofa hinum megin, byggja brú eða eitthvað slíkt, yfir til framkvæmdarvaldsins þannig að aðskilnaður á milli ríkis og framkvæmdarvalds sé alveg kristaltær. Ég legg til að hv. þingmenn geri það þannig að nefndir þingsins fái erindi frá ráðuneytum eða samtökum úti í bæ eða einstaklingum um að breyta þurfi lögum um þetta og hitt, nefndin taki síðan ákvörðun um að flytja frumvarp eða ekki, semji frumvarpið með aðstoð nefndasviðs sem þarf að efla og styrkja og sendi það síðan til ráðuneytanna til umsagnar um það hvernig gangi að framkvæma þetta.



[12:22]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil fagna þeirri umræðu sem orðið hefur um hlutverk þingsins. Ég tek undir orð hv. þm. Ólafar Nordal um mikilvægi þess að við drögum lærdóm af rannsóknarskýrslunni, að við eflum þingið og tökum alvarlega þær ábendingar og niðurstöður sem þar eru settar fram. Ég er mjög hugsi yfir þessum vinnubrögðum. Við þekkjum það öll að við erum á kafi í vinnu í nefndum. Ég á sæti í viðskiptanefnd. Þar erum við með heildstæðar breytingar á stórum lagabálkum sem tengjast beint þeim hamförum sem hér hafa gengið yfir. Við erum að endurskoða lög um vátryggingar. Við erum að endurskoða lög um fjármálafyrirtæki. Þar er verið að setja stífari reglur, eðlilega, við ætlum öll að leggja okkur fram um að hlutirnir verði með betri hætti. En er það nákvæmlega það sem dugar til? Er það nákvæmlega það sem brást? Ég er ekki algjörlega sannfærð um það. Ég hef áður haft á því orð að ég held að það sé ekki orsök hrunsins hvort endurskoðendur skipti um fyrirtæki eftir fimm ár eða sjö ár enda voru þær reglur um tímasetningar ekki komnar fyrr en árið 2008, þannig að þarna skiptir þetta ekki heildstæðu máli. Ég tek þetta sem dæmi og hef gert það áður.

Ég held að við þurfum fyrst og fremst að gæta þess að við vinnum löggjöfina sem okkur er falin hér, að við gefum okkur meiri tíma, vöndum okkur betur og séum ekki alltaf að klára hlutina á einhverjum handahlaupum með allt of mikið í fanginu. Ég er ekki að kvarta yfir álagi, ég er að kvarta yfir því að ég fái ekki nógu mikinn tíma til að geta sinnt starfi mínu og mikilvægu hlutverki, sem ég tek mjög alvarlega, sem meðlimur á löggjafarsamkomunni. (Forseti hringir.) Þetta eigum við að skoða og þetta eigum við að tala um opinskátt og læra af því.



[12:24]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mér finnst tilefni til að ræða aðeins skoðanir hv. þm. Péturs Blöndals, sem hann hefur svo oft og svo ítrekað orðað hér, á því hvernig löggjöf ætti í mun meira mæli að verða til hér á Alþingi, í stað þess að við tökum endalaust við frá ráðuneytum. Ég er sammála því á ýmsan hátt að hér eigi að verða til meiri löggjöf, hér eigi að greiða mun meir fyrir t.d. þingmannamálum. En ég er hins vegar ekki sammála því að þetta verði allt að verða til hér innan þingsins. Það er til alls kyns sérhæfð þekking innan ráðuneytanna og þar eru ráðherrar með hugmyndir sínar og pólitíkina um hverju þurfi að breyta. Það er sjálfsagt að það komi hér inn. Lykilatriðið er þá að þingið hafi nægan tíma, nægan mannskap og nægilega gott verklag í raunverulegri menningu sinni til að taka hvert og eitt mál sem hér kemur fyrir mjög alvarlega og taka í það, eins og hér hefur komið fram, þann tíma sem þarf. Það skiptir líka máli að kúltúrinn sé slíkur að það sé sjálfsagt mál og æskilegt, í augum stjórnarliða og ríkjandi stjórnvalds hverju sinni, að þingið taki sér þessa stöðu, að það sé engin móðgun við einn né neinn, ekki verið að ráðast gegn ríkisstjórn með einum eða öðrum hætti, ef Alþingi tekur sér þessa stöðu, vegna þess að það sé sjálfsagt mál og þá verða bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar að taka saman höndum um það.

Hv. þm. Atli Gíslason og fleiri hafa bent á að til eru handbækur um hvernig fara eigi með mál en margar leiðbeiningar og reglur eru þar þverbrotnar og hafa verið í gegnum árin. Við ættum kannski að lesa þetta saman reglulega og sjá hvernig við getum breytt þessu. Ég held hins vegar að þetta taki tíma en (Forseti hringir.) grunnforsendan er náttúrlega viljinn til þess að breyta þessu. Ég held að hann hljóti að vera til staðar núna í kjölfar þessarar skýrslu ef hann var þá ekki til staðar fyrr.



[12:26]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu um að við þingmenn þurfum að endurheimta þau völd sem þinginu ber að hafa. Þetta heitir löggjafarvald en í raun og veru erum við kannski komin í það hlutverk að hrinda í framkvæmd eða tjasla upp á löggjöf frá framkvæmdarvaldinu sem á að framkvæma löggjöfina sem á að koma héðan. Þetta er allt ákaflega öfugsnúið. Þegar ég fór að vinna hér vissi ég t.d. að einn flokkur sem hafði verið í minni hluta í tíu ár hafði einungis fengið eitt frumvarp samþykkt, þingmannafrumvarp, á öllum þeim tíma. Það finnst mér ákaflega furðulegt og ég held að flestir viti ekki hvað þingið er veikt. Jafnvel þó að þú sért þingmaður í ríkisstjórn er mjög erfitt að fá þingmannafrumvörp í gegn.

Hér er talað um það að frumvörp endi í nefndum og fari í svefninn langa og svo eru þau endurupptekin kannski 13 sinnum og aftur kallað til fólk til þess að fjalla um málin o.s.frv. Ég komst að því þegar ég var að semja með hinum foringjunum um starfslok þingsins í kringum áramótin að ekkert þingmannafrumvarp fær afgreiðslu nema forsætisráðherra eða fjármálaráðherra veiti því brautargengi. Finnst ykkur þetta eðlilegt, kæru samþingmenn?

Nú er kominn tími til að við þingmenn stöndum saman og gerum eitthvað í þessu. Ég legg til að við myndum einhvers konar hóp þingmanna sem fer að vinna markvisst í þessu. Ég skora á þá sem hafa áhuga á því í alvörunni að við endurheimtum völd og virðingu þingsins að fara að gera eitthvað í því í verki.



[12:28]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því sem hér hefur komið fram að það næsta sem þarf að gera, í kjölfar þeirrar miklu greiningar á samfélaginu sem rannsóknarskýrslan er, er að leiða hugann að því hvernig við stígum næsta skref fram á við, að við sökkvum okkur ekki í hneykslun og andvörp yfir því sem átti sér stað heldur stígum skrefið fram á við. Við verðum öll að lifa við það, framkvæmdarvaldið, löggjafarvaldið, viðskiptalífið, að þetta er heldur ömurleg fortíð sem við eigum. Þá er það spurningin um það hvernig við getum stigið skref fram á við sem yrði okkur öllum til góðs. Ég satt besta að segja hef ekki svar við því en það er nú það sem ég velti mest fyrir mér.

Við hér í þinginu þurfum náttúrlega að gera það. Við þurfum líka að gæta okkar á því að halda ekki að við séum nafli alheimsins, að við getum leyst allt. Við getum leyst marga hluti en við getum ekki leyst allt.

Ég er sammála því að skilja þarf betur á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Við lögðum nokkur fram tillögu um daginn um það að ráðherrum yrði strax gert kleift, án stjórnarskrárbreytingar, að segja sig frá þingmennsku ef þeir svo kjósa. Vonandi getum við lagt áherslu á það að það fari hér í gegn og þá reynir á hvort menn meina það sem þeir segja og standa við það.

Ég er sammála því líka að frumkvæði þingmanna þarf að vera meira en ég vil hins vegar alls ekki segja að ég hafi þá reynslu að nefndir vinni illa. Þær nefndir sem ég tek þátt í vinna vel að þeim málum sem þær fá úr Stjórnarráðinu. Oft mega þau mál vera betur unnin þegar þau koma þaðan en það hlýtur að vera okkar að gera þau betri en þau eru þegar þau koma inn.