138. löggjafarþing — 110. fundur
 21. apríl 2010.
uppbygging fiskeldis.
fsp. ÓN, 216. mál (heildarlög). — Þskj. 240.

[12:45]
Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra um uppbyggingu fiskeldis og ég held að það sé alveg upplagt fyrir hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, að snúa sér að einhverju öðru en því að brölta í kvótakerfinu með þeim afleiðingum að stefna undirstöðu atvinnugreinarinnar í fullkomna óvissu, samþykkja skötuselsfrumvarp sem kollvarpar öllum kvótasetningum í landinu og vilja síðan ekkert við það kannast að svo sé. Ég ætla að benda hæstv. ráðherra á önnur verkefni á sviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins sem væri alveg upplagt fyrir ráðherrann að fara að einbeita sér að og þar er ég að horfa á fiskeldi.

Fiskeldi hefur verið stundað á Íslandi um langa hríð en ég held að það sé ástæða til þess núna, við þær aðstæður sem hér eru, að leita að frekari tækifærum á þessu sviði, efla þá enn frekar undirstöðuna í sjávarútvegi. Mig langar til að spyrja hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hver skoðun hans sé á uppbyggingu fiskeldis og þá sér í lagi þorskeldis í landinu. Ég vil jafnframt spyrja ráðherrann að því hvort hann hyggist beita sér fyrir framgangi greinarinnar.

Við þekkjum það að veiðar hafa dregist verulega saman í Norður-Atlantshafi. Árið 1980 voru 2 millj. tonna veiddar, árið 2000 var talan komin niður í 1 millj. tonn, að ég hygg, og á árinu 2007 voru þetta um það bil 750.000 tonn. Við sjáum því að þorskveiðar hafa verið að dragast saman á þessu hafsvæði og er fullkomin ástæða til þess fyrir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að gera gangskör í því, eða ég vil a.m.k. kanna hug hans til þess, að efla möguleika á því að rækta þorsk.

Ég vil spyrja hann hvaða viðhorf hann hafi gagnvart svokölluðum áframeldiskvóta en hann er ein grunnforsenda þess að menn geti fjárfest á sviði fiskeldis. Það er nokkuð kostnaðarsamt að stunda fiskeldi og reynslan hefur kennt okkur að einungis öflugustu fyrirtækin hér í landi á sviði sjávarútvegs hafa tök á því. Það er afar vandasamt fyrir þau fyrirtæki þegar verið er að sækja mjög harkalega að þeim frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á sviði kvótans að ætla á sama tíma að setja mikla peninga í rannsóknir á sviði fiskeldis sem er grundvallaratriði þess að fiskeldi geti átt sér stað, þannig að samhengi hlutanna er svo gríðarlega mikilvægt hér. Um leið og verið er að tefla þessari mikilvægu atvinnugrein í tvísýnu — og ég ætla að taka það fram að ég er ekki með þessu að segja að ekki eigi að gera neinar breytingar á kvótakerfinu en það er afskaplega óskynsamlegt af hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem er mjög skynsamur maður, að ætla að gera það við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu. Ég vil því gjarnan fá viðhorf hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í þessu efni og hvaða skoðanir hann hafi á þessum mikilvæga málaflokki.



[12:48]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir spurninguna og áhugann á fiskeldi.

Um skoðun ráðherra á uppbyggingu fiskeldis og sér í lagi þorskeldis vil ég segja í upphafi að á árinu 2008 var útflutningsverðmæti fiskeldisafurða 3,3 milljarðar miðað við meðalgengi ársins 2008. Þar af var útflutningsverðmæti bleikju um 2 milljarðar kr. Gera má ráð fyrir svipaðri framleiðslu á árinu 2009. Mjög hefur dregið úr laxeldi á síðustu árum en framleiðsla eldislax var næstum 7.000 tonn á árinu 2006 en var aðeins tæp 300 tonn á árinu 2008. Á sama tíma hefur bleikjueldi vaxið og var um 3.000 tonn á síðasta ári. Ísland er leiðandi á heimsvísu í bleikjueldi og má fullyrða að öflugt bleikjukynbótastarf Hólaskóla á undanförnum árum hafi ráðið mestu um þróun bleikjueldis hér á landi.

Nýlega var gerður samningur um áframhaldandi bleikjukynbótastarf Hólaskóla og af því að hv. þingmaður vék að þessu máli þá átti sá sem hér stendur frumkvæði að því að koma á þessum skipulegu bleikjukynbótum og bleikjueldi í landinu sem hefur gengið einstaklega vel, ekki síst vegna þess hversu góður grunnur var að því lagður. Í þessu sambandi má enn fremur geta þess að í nýlegri skýrslu Landssambands fiskeldisstöðva, um stöðu fiskeldis á Íslandi, kemur glögglega fram mikilvægi bleikjukynbótanna. Þess má geta að á árinu 2008 lét ráðuneytið gera úttekt á bleikjukynbótastarfi Hólaskóla. Niðurstaða úttektarinnar var að mjög vel hefði tekist til með þetta verkefni og árangur af starfinu væri mjög mikilvægur fyrir framleiðendur bleikju í landinu öllu.

Stærstu framleiðendur bleikju eru Íslandsbleikja, Rifóss, Hólalax og bleikjueldið á Haukamýragili. Gera má ráð fyrir að framleiðsla á bleikju vaxi á næstu árum og geti orðið um 5.000 tonn eftir 2 til 3 ár. Því má gera ráð fyrir að bleikja verði áfram mikilvægasta eldistegund hér á landi.

Þorskeldi byggist hins vegar mest á veiðum á smáþorski sem síðan er alinn áfram í kvíum. Árlegur kvóti til veiða á smáþorski er nú 500 tonn og eru ekki áform um að auka hann. Framleiðsla eldisþorsks hefur verið um 1.500 tonn á síðustu árum. Ekki er gert ráð fyrir að þorskeldið aukist mikið á næstu árum þar sem þróunarstarf er stutt á veg komið. Fyrirtækið Icecod hefur á undanförnum árum stundað kynbætur á eldisþorski og fengið árlega um 25 millj. kr. styrk til verkefnisins. Helstu framleiðendur á eldisþorski eru Gunnvör í Hnífsdal, Þóroddur á Tálknafirði og Álfsfell á Ísafirði. Nefna má aðrar eldistegundir, svo sem lax, lúðu og sandhverfu, en vægi þeirra er tiltölulega lítið. Tilraunarækt með krækling fer nú fram víða og Norðursker í Hrísey og fleiri fyrirtæki hafa náð athyglisverðum árangri þar. Útflutningstekjur fiskeldisafurða eru nú, eins og ég sagði, um 3 milljarðar á ári en gera má ráð fyrir að útflutningstekjurnar muni tvöfaldast á næstu árum, einkum vegna aukinnar bleikjuframleiðslu.

Í nágrannalöndum okkar, t.d. í Noregi, hefur þorskeldið ekki gengið upp sem skyldi og hefur verið erfitt að ná þar viðunandi eldisferlum til að þorskeldi yrði arðbært. Það er greinilegt að það þarf að vinna meira grunnþróunarstarf til að svo geti verið. Í þeirri stöðu sem við nú erum í er ekki gert ráð fyrir því að við séum að leggja fleiri tonn af kvóta til þessara eldistilrauna en reynt verður að halda sjó, eins og við segjum, í rannsóknum og grunnrannsóknum á þessu sviði. Þar höfum við sjóði eins og AVS-sjóðinn sem lýtur stjórn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Hann hefur veitt fjármagn til ýmiss konar rannsókna- og þróunarstarfs í þessum efnum en það er alveg ljóst að nú þegar fer að sneyðast um fjármagn þurfum við að forgangsraða í þessum efnum. En ég vek sérstaklega athygli á þeim miklu möguleikum sem við eigum áfram í bleikjueldi. Við erum virkilega á undan öðrum í þeim efnum.



[12:53]
Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Frú forseti. Það skal engan undra að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé stoltur af bleikjueldinu og því starfi sem var í Hólaskóla og að það skyldi hafa verið nefnt að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra réði húsum þar fyrr á tíð. Ég held þess vegna að það sé upplagt fyrir hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra að horfa til fiskeldis í heild. Þó að ég ætli alls ekki að draga úr mikilvægi bleikjueldis þá var reyndar grundvöllur fyrirspurnar minnar þorskeldi og ég vil fá frekari upplýsingar um það hjá hæstv. ráðherra hvernig hann horfir til þorskeldis. Hann nefnir að það sé ákveðinn vandi þar á ferðinni. Ég hygg að menn séu sammála um að farið sé að þrengja að þorskeldi í landi en menn hafa töluverðan áhuga á þorskeldi í sjó. Mig langar þá til að spyrja hæstv. ráðherra að því hvaða skoðanir hann hafi í því efni.

Mig langar einnig að inna ráðherrann eftir því hvað líði starfi nefndar sem ég hygg að fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Einar K. Guðfinnsson, hafi sett á fót um grunn áframhaldandi þorskeldis þar sem átti að kanna hvaða möguleikar væru þar fyrir hendi. Það væri fróðlegt að vita hvort hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra viti eitthvað um þessa nefnd eða hvort hún hafi týnst einhvers staðar í þeim stjórnarskiptingum og hremmingum sem hér hafa verið.

Ég held, og ég ætla að ítreka það við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að þegar litið er til rannsókna á sviði fiskeldis þá sé það óumdeilt að það eru þau fyrirtæki sem stunda sjávarútveg sem skipta gríðarlega miklu máli. Það verður því að líta á þessa hluti í samhengi og þess vegna held ég að enn og aftur sé ástæða til að brýna hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að hætta að brölta þetta í kvótakerfinu og fara frekar að einbeita sér að því að tryggja afkomu sjávarútvegsfyrirtækjanna sem síðan þýðir áfram frekari nýsköpun og hagsæld fyrir Íslendinga.



[12:55]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Svo að ég víki áfram að þorskeldinu þá er það svo að það hefur gengið þokkalega með áframeldi á smáþorski sem hefur verið veiddur. Hversu mikil framtíð er í slíku þorskeldi skal aftur látið ósagt en engu að síður hafa menn náð þarna að fá, án þess að greiða sérstaklega fyrir, þessa 500 tonna heimild í kvóta. Það má velta því fyrir sér hvort eðlilegt hefði verið að það væri í staðinn fjárframlag því að þetta er í rauninni fjárstuðningur sem verið er að leggja til með þessum hætti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að útgerðarfyrirtækin hafa verið leiðandi í þessari vinnu og hafa þá líka fengið aðgang að þessum heimildum sem hafa haldist þarna áfram.

Ég tek undir að það er alveg sjálfsagt að halda áfram þróunarstarfi varðandi þorskeldið en við skulum samt ekki vera að fara fram úr okkur í þeim efnum. Við fylgjumst með þeim árangri sem aðrar þjóðir eru að ná og þeim vandamálum sem þær rekast á. Við erum í nánu samstarfi með Norðmönnum í þeirra þróunarstarfi og munum fylgjast með því.

Það er hárrétt. Það eru líka fleiri tegundir sem eru inni í myndinni: Lúðan, sandhverfan eru tegundir sem hafa verið og eru í eldi hér á landi og eru lúðuseiði flutt út. Við breytta gengisstöðu styrkist samkeppnisstaðan hér hvað það varðar að ala fleiri fisktegundir. Ég tek mjög vel brýningu hv. þingmanns og veit að við stöndum saman í fiskeldinu en kvótakerfið er allt annað mál (Forseti hringir.) og kemur þessu að öðru leyti ekkert við.