138. löggjafarþing — 110. fundur
 21. apríl 2010.
skelrækt.
fsp. GBS, 406. mál. — Þskj. 722.

[12:58]
Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera hér og svara þessari fyrirspurn. Fyrirspurnin hljóðar svo:

Hefur ráðherra í hyggju að beita sér fyrir bættu starfsumhverfi skelræktar á Íslandi og ef svo er með hvaða hætti?

Skelrækt eða kræklingarækt, hvernig sem við orðum þetta, hefur verið áhugamál margra um langt skeið og atvinnugrein einnig. Nú er þetta vaxandi atvinnugrein. Það eru um það bil 20 aðilar, ef ég man rétt, sem hafa áhuga á því að efla þessa grein. Það hafa verið stofnuð samtök sem heita Skelrækt, ef ég man rétt, og hafa þessir aðilar mikinn áhuga á, og hafa bent á, að hér gæti verið um að ræða stóriðju fyrir Ísland.

Fyrir 25 árum fóru menn af stað á Prince Edward eyju í skelrækt og nú eru flutt 20.000 tonn af bláskel frá þeirri eyju ef ég er ekki að rugla því saman við eitthvað annað.

Virðulegi forseti. Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera til að bæta starfsumhverfið? Í fyrsta lagi held ég að það sé mjög mikilvægt að ákveðin lagaumgerð sé utan um skelræktina og hefur ráðherrann sett fram frumvarp varðandi það. Mig langar hins vegar líka að vita hvort ráðherra hyggst beita sér fyrir því að meiri fjármunir séu settir í þróun í skelræktinni til að styðja við þau fyrirtæki sem þar eru á ferð. Einnig er mjög mikilvægt að fá svör við því, og velta því upp, hvernig aðstaða þessara fyrirtækja er til að ná í fjármagn. Þar veit ég að ráðherra getur beitt sér verulega, t.d. varðandi þá sjóði sem ríkið hefur yfir að ráða eða þær stofnanir sem eru undir ríkinu.

Það er mjög mikilvægt að lífríkið sé í rauninni vaktað og ekki síst lirfurnar sem eru nýttar í þessu eða eru í rauninni undanfari skeljarinnar sem sest á spottana eða kaðlana eða hvað sem við nefnum það. Það þarf að vakta hvenær þær eru best til þess fallnar og því hefði ég talið að hæstv. ráðherra ætti að beita sér fyrir því að setja fjármuni í að vakta þennan hluta. Einnig þarf að skoða frumvarpið sem hæstv. ráðherra lagði fram því að í 8. gr. þess sýnist mér að gert sé ráð fyrir að þeir aðilar sem stunda skelrækt eða hafa ræktunarleyfi beri meiri kostnað, t.d. varðandi heilnæmiskönnun, en aðrir aðilar í sjávarútvegi. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé réttlátt. Það er mjög mikilvægt að greininni, þessari vaxandi grein, verði boðið gott starfsumhverfi.



[13:01]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir fyrirspurnina um skelrækt. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að þarna eigum við mikla möguleika. Við eigum þá möguleika að hér er hreinn sjór og mikið af náttúrulegum kræklingi. (PHB: Verður það ekki ríkisvætt líka?) Hver er ríkið? Ég held að hv. þm. Pétur H. Blöndal sé hluti af ríkinu.

Í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu er nú starfandi samráðshópur um kræklingarækt sem skipaður var af hv. þingmanni og þáverandi sjávarútvegsráðherra, Einari K. Guðfinnssyni 26. nóvember 2008. Samráðshópurinn var skipaður fulltrúum kræklingaræktenda og opinberra stofnana og var ætlað að gera tillögur um uppbyggingu kræklingaræktar. Þegar ég tók við starfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í maí á árinu 2009 var starfandi samráðshópur um kræklingarækt í ráðuneytinu. Engin heildarlög voru um kræklingarækt og taldi samráðshópurinn að mikilvægt væri að bæta lagaumhverfi og þar með starfsumhverfi greinarinnar. Óskaði ég þá eftir því að bætt yrði úr þessu og samið sérstakt lagafrumvarp um skeldýrarækt. Samráðshópurinn hefur skilað frumvarpi um skeldýrarækt sem lagt hefur verið fram á Alþingi og hv. þingmaður minntist á og verður vonandi mælt fyrir því á allra næstu dögum.

Markmiðið með setningu sérstakra laga um skeldýrarækt er að skapa skilyrði til uppbyggingar og ræktunar skeldýra og setja fram reglur um starfsemina og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu sem geti þá styrkst á grundvelli skeldýraeldis. Sem kunnugt er er skeldýrarækt ný atvinnugrein sem hefur átt misjöfnu gengi að fagna á þeim tíma sem hún hefur verið stunduð. Eigi að síður eru bundnar vonir við það að atvinnugrein þessi geti eflt atvinnulíf og byggð í landinu og þannig skilað þjóðarbúinu umtalsverðum tekjum svo sem raun hefur orðið á með mörgum öðrum þjóðum. Með gildistöku laganna er ætlunin að stuðla að möguleikum kræklingaræktar og setja jafnframt atvinnugreininni skýrar reglur og umgjörð.

Ég vil einnig geta þess að á vegum ráðuneytisins er hafin vinna við athugun á stöðu greinarinnar en margt bendir til þess að veiðar og framræktun á kræklingi geti orðið arðbær. Það er þó ljóst að gera má ráð fyrir að verulegt þróunarstarf þurfi að fara fram í greininni áður en hún geti talist sjálfbær. Tilraunir með kræklingarækt eru nú stundaðar víða um land, á Vestfjörðum og Norðurlandi og einnig eru tilraunir hafnar á Austfjörðum. Fyrirtækið Norðurskel í Hrísey hefur stundað tilraunir með kræklingarækt í nokkur ár og selur fyrirtækið vikulega ferskan krækling á Evrópumarkað. Norðurskel stundar einnig tilraunaveiðar á kræklingi, m.a. í Hvalfirði, og lofar sú starfsemi góðu.

Hitt er alveg hárrétt að þessi grein býr við, eins og ég hef gert grein fyrir, skort á fjármagni til þróunarstarfs til að komast í það ástand að geta orðið sjálfbær fjárhagslega. Þar hafa komið að aðilar eins og Byggðastofnun og fleiri með hlutdeild í þessum fyrirtækjum en það er alveg rétt að það þarf meira til á bak við þessa atvinnugrein bæði í rannsóknum og í þróun. Að því er sérstaklega unnið í ráðuneytinu að standa bak við þróunarstarfið.

Lagafrumvarpið, sem hv. þingmaður minntist á, um skeldýrarækt mun líka skapa þessari grein þá stöðu að hægt verði að koma að henni með mun skipulagðari hætti en áður hefur verið þegar komin verða heildarlög um þá atvinnugrein. Ég tek undir með hv. þingmanni að við getum borið miklar væntingar til greinarinnar en hún mun þurfa sinn tíma í þróunarstarfi.



[13:06]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þessi umræða er hafin hérna. Á sínum tíma setti ég á laggirnar starfshóp sem hæstv. ráðherra nefndi áðan til að fara yfir möguleika á kræklingarækt. Skiptar skoðanir höfðu verið uppi um það hvort kræklingarækt ætti yfir höfuð nokkra framtíð fyrir sér. Niðurstaða nefndarinnar, sem skipuð var bæði sérfræðingum og fólki úr atvinnugreininni, var ótvírætt sú að kræklingaræktin ætti framtíð fyrir sér. Hins vegar þyrfti að setja um hana almennan ramma og skapa eðlilegar reglur í kringum þetta.

Það var athyglisvert í niðurstöðu þessarar nefndar að hún gerði ekki kröfur um að ríkið kæmi mjög mikið inn í þetta. Ætlunin var sú að byggja þetta upp á forsendum greinarinnar og það er auðvitað það sem skiptir mjög miklu máli. Hins vegar var gert ráð fyrir að haldið yrði uppi vöktun á svæðum o.s.frv. og er mjög mikilvægt að því verði haldið áfram. Það er svo að einstaklingar hafa sett heilmikla peninga í þetta og þeir hafa lagt áhættufé inn í þennan atvinnurekstur en það sem hefur skort á er lánsfjármagn. Ég tel (Forseti hringir.) að Byggðastofnun eigi að koma að því að veita lánsfé inn í greinina því að aðrir eru ekki líklegir til þess. Ég hvet hæstv. ráðherra til að vekja (Forseti hringir.) athygli á því að Byggðastofnun hefur þarna hlutverki að gegna.



[13:07]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu og tek heils hugar undir að þetta er ný atvinnugrein sem maður bindur miklar vonir við. Það sem er þó mikilvægast í þessu er að menn styðji við atvinnugreinina, eins og hæstv. ráðherra kom inn á í máli sínu, og þá sérstaklega í þeirri þróunarvinnu sem er fram undan, bæði hvað varðar veiðarnar og ræktina og eins í sambandi við markaðsmálin.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að horfa þá líka til framtíðarskipunar, þannig að við förum ekki af stað eins og við höfum oft gert, hvort heldur það er í loðdýrarækt eða einhverju öðru, að við horfum til framtíðar og skipuleggjum þetta með þeim hætti að menn sjái fram yfir næstu eitt, tvö, þrjú árin. Og ég vil nota tækifærið til að hvetja hæstv. ráðherra til að gera það í nánu samstarfi og samvinnu við þá aðila sem eru að byggja þessa grein upp.



[13:08]
Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Í fyrsta lagi er mjög gott að frumvarpið skuli vera komið fram varðandi skelræktina. Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í 8. gr. frumvarpsins um heilnæmiskönnun, hvort það sé ekki eðlilegt að þessi grein, líkt og aðrar greinar í sjávarútvegi, því að ég vil meina að þetta sé hluti af sjávarútveginum, búi við sama umhverfi og aðrar. Hafrannsóknastofnun er að rannsaka það sem er í hafinu, þorskinn og allt slíkt, og menn borga gjald, útgerðarmenn og útgerðir, inn í það apparat, en hérna er gert ráð fyrir að leyfishafi láti framkvæma heilnæmiskönnun og beri kostnað af því. Mig langar að spyrja ráðherra hvort hann telji ekki eðlilegt að þessi grein verði meðhöndluð með sama hætti og aðrar.

Síðan er þetta með lirfuna, mér er kunnugt um að þeir sem standa í þessu eru að reyna að vakta þetta sjálfir með mikilli fyrirhöfn og miklum tilkostnaði hvenær lirfan er, ég orða það bara þannig, upp á sitt besta til að setja niður spottana, svo dæmi sé tekið. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að það komi fjármagn inn í stöðugildi og til verði stöðugildi sem hafi það verkefni að vakta einmitt þetta þannig að hægt sé að bregðast við á réttum tíma, læra, skrá og þróa þessa grein. Það skiptir mestu máli fyrir næstu ár.

Allt bendir til þess að þetta geti orðið mikill vaxtarbroddur í atvinnulífi, ekki síst á landsbyggðinni, og því tek ég undir það að stofnanir líkt og Byggðastofnun eða aðrir sjóðir ríkisins verði að horfa á þetta sérstaklega, af því að þarna er klárlega vaxtarbroddur.

Frú forseti. Þetta er varðandi 8. gr., heilnæmiskönnunina, og einnig varðandi vöktun á lífríkinu (Forseti hringir.) og svo þetta með lirfuna.



[13:10]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Eins og kom fram í athugasemd hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar er náttúrlega gert ráð fyrir að atvinnugrein sem þessi verði rekstrarlega sjálfbær en hins vegar er mikilvægt að standa á bak við hana með þróunar- og rannsóknarstarfi til að hún komist yfir þann þröskuld sem ég vona að hún sé að hluta til samt komin ef eðlilegt lánsfjármagn er til staðar.

Með lagafrumvarpi því sem lagt hefur verið fram og verður vonandi afgreitt sem fyrst á þinginu er einmitt verið að leggja til það framtíðarskipulag sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson gat um. Það er mikilvægur þáttur í þróun þessarar greinar frá upphafi að um hana sé skýr lagaumgjörð.

Um 8. gr. þessa frumvarps, sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson gerði að umtalsefni, segir í athugasemdum:

„Hér er kveðið á um að áður en ræktunarleyfi eru gefin út sé skylt að framkvæma heilnæmiskönnun á tilraunasvæði.“ — Nú vitum við að kræklingar eru einmitt oft notaðir sem mælikvarði fyrir t.d. ýmsa málma, þeir eru mjög næmir fyrir ýmsum málmum sem þarna geta verið. — „Kanna þarf hvort svæði hentar til skeldýraræktar […] Fram kemur að heilnæmiskönnun skuli skipulögð og framkvæmd af Matvælastofnun í samræmi við lög og stjórnvaldsreglur þar að lútandi. Þá er fjallað um að leyfishafi greiði kostnað við heilnæmiskönnunina en ráðherra er þó heimilt að ákveða að hann skuli greiddur úr ríkissjóði að hluta eða öllu leyti ef fjárheimildir fást til þess í fjárlögum.“ — Þarna er því sleginn varnagli í þá umræðu.

Ég tek undir orð hv. þingmanna að við bindum miklar vonir við skeldýraræktina (Forseti hringir.) og skeldýraeldið og ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir að hafa vakið umræðu hér um málið.