138. löggjafarþing — 110. fundur
 21. apríl 2010.
varnarlínur sauðfjárvarnarsvæða.
fsp. ÁsbÓ, 422. mál. — Þskj. 739.

[13:13]
Fyrirspyrjandi (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Virðulegi forseti. Á þessum dögum minna náttúruöflin á sig. Alvarlegt ástand hefur nú skapast í einu af landbúnaðarhéruðum landsins þar sem bændur þurfa hugsanlega að bregða búi og jafnvel skera niður fjárstofn. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að menn hafi ákveðin svæði í landinu, eins og hefur verið gegnum aldirnar, þar sem ekki er sýkt fé.

Virðulegi forseti. Ég vil fá að vitna í ályktun sem mér barst frá sauðfjárveikivarnanefnd Strandabyggðar og nágrennis sem hljóðar svo:

„Haustið 2009 kom upp lungnapest í sauðfé í miðvesturhólfi og hafa þegar drepist tíu kindur á einum bæ af völdum veikinnar. Lungnapest er áður óþekkt norðan Gilsfjarðarlínu og er því koma hennar á svæðið gífurlegt áfall fyrir sauðfjárrækt í landinu. Því gerir nefndin alvarlegar athugasemdir við fjárframlög til viðhalds og endurbyggingar Gilsfjarðarlínu og krefst þess að þegar í stað verði veitt nægt fjármagn til styrkingar hennar þannig að sauðfé hætti að rápa yfir línuna og sama gildir um Kollafjarðarlínu. Jafnframt krefst nefndin þess að ráðuneytið og/eða Matvælastofnun í samráði við sveitarstjórnirnar sýni sauðfjárbændum stuðning í verki og veiti fé til að útrýma þessari nýju pest á svæðinu.

Í Múlarétt í Kollafirði mun hafa komið ær úr Dalasýslu sem líklega hefur borið með sér lungnapest og einnig kemur fé að sunnan á hverju hausti fyrir á bæjum í Gilsfirði og Bitrufirði og jafnvel víðar norðan girðingar. Gilsfjarðarlína er mjög stutt varnarlína sem verja skal eitt af þeim svæðum sem lausast er við alvarlega smitsjúkdóma í sauðfé og er það því eitt af mikilvægustu svæðum landsins þegar kemur að því að sækja ósýktan fjárstofn vegna niðurskurðar eða kynbóta. Þannig getur orðið óbætanlegt tjón ef alvarlegir smitsjúkdómar komast inn á svæðið og ná þar fótfestu. Það er vitað að kindur fara yfir ristarhliðið við Kleifar í Gilsfirði þannig að skilyrðislaust verður að breikka ristina. Einnig fara kindur í allt of miklum mæli yfir girðinguna sjálfa sem hvort tveggja er algjörlega ótækt. Ef halda skal girðingunni gripheldri er ófært annað en að endurnýja ákveðna kafla á hverju ári og þannig endurnýist hún öll á fyrirframákveðnum árafjölda sem auðvelda mun viðhald. Að öðrum kosti drabbast girðingin öll niður og viðhald verður bæði dýrt og lélegt.“

Undir þessa ályktun skrifar Jón Stefánsson frá Broddanesi fyrir hönd sauðfjárveikivarnanefndar Strandabyggðar og nágrennis.

Virðulegi forseti. Ég vil segja það hér að lokum, áður en ég beini fyrirspurn til hæstv. ráðherra, að þetta er eitt af mikilvægustu svæðum landsins þegar kemur að því að sækja ósýktan fjárstofn vegna niðurskurðar. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra:

Hyggst ráðherra, og þá hvernig, bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem skapast hefur vegna slæms ástands Gilsfjarðar- og Kollafjarðarlínu?



[13:16]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson spyr:

„Hyggst ráðherra, og þá hvernig, bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem skapast hefur vegna slæms ástands Gilsfjarðar- og Kollafjarðarlínu, þeirrar sauðfjárvarnalínu sem þar liggur um?“

Almennt má segja að á undanförnum áratugum hafi ekki fengist nægilegt fjármagn til viðhalds á varnarlínum svo að þær teldust vera fullnægjandi. Því fjármagni sem fengist hefur á hverjum tíma hefur jafnan þurft að forgangsraða og miða þá við ástand hverrar girðingar fyrir sig og mikilvægi hennar. Liður í þessari forgangsröðun var endurskoðun á öllum varnarlínum sem hófst með vinnu stjórnskipaðrar nefndar árið 2005 og lauk með útgáfu auglýsingar nr. 793/2009 um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma. Með auglýsingunni voru lagðar niður nokkrar varnarlínur sem voru taldar orðnar óþarfar vegna sambærilegrar sjúkdómsstöðu beggja vegna. Með þessu er ætlað að nýta betur þá takmörkuðu fjármuni sem á hverju ári fást í þetta verkefni.

Á árinu 2008 óskaði Matvælastofnun vegna fjárlagagerðar 2009 sérstaklega eftir auknu fjármagni til viðhalds varnarlína. Óskað var eftir tímabundinni fjárheimild allt að 25 millj. kr. til sérstaks átaks til nýgirðinga á verst stöddu varnarlínunum en þetta fjármagn náðist ekki að fá fram á fjárlögum.

Varðandi Gilsfjarðarlínu liggur fyrir að hér er um eina af mikilvægustu varnarlínum landsins að ræða þar sem hún liggur úr Gilsfjarðarbotni um Snartartungu og í Bitrufjörð. Norðan hennar eru mjög mikilvæg líflambasvæði á Vestfjörðum, eins og hv. þingmaður kom inn á. Árið 2007 var varið alls 1.952.887 kr. í þessa girðingu og 2.973.000 árið 2008. Árið 2009 var varið alls 1.241.980 kr. í þessa girðingu og þar af var nýgirðing girt fyrir um 600.000 kr. Þessi girðing hefur því fengið á hverju ári ríflegan hluta af því heildarfjármagni sem til ráðstöfunar hefur verið á hverjum tíma til þessara sauðfjárveikivarnagirðinga enda er það í samræmi við mikilvægi girðingarinnar. Almennt er þessi girðing talin í góðu ástandi. Þó er vitað, eins og hv. þingmaður kom inn á, að 13 kindur fóru yfir hana árið 2009. Þeim var lógað og þær bættar eigendum sínum sem línubrjótar.

Talið er að talsvert álag sé á girðingunni af völdum fjár sem er sunnan við hana og það hafi komist í gegnum hana á ákveðnum stöðum. Á þessu ári verður kappkostað að gera þessa girðingu fjárhelda eins og kostur er miðað við það takmarkaða fjármagn sem til ráðstöfunar er, eins og þegar hefur verið vikið að, en fjármunir til viðhalds á varnarlínum hafa því miður verið skornir niður eins og aðrir fjárlagaliðir í þeim niðurskurði sem ríkissjóður og ríkisstofnanir standa nú frammi fyrir. Einnig er sett hagræðingar- og niðurskurðarkrafa á Matvælastofnun, sem hefur yfirumsjón með þessu, eins og á aðrar stofnanir.

Varðandi Kollafjarðarlínu er það að segja að mikilvægi hennar er ekki eins mikið og Gilsfjarðarlínu. Hún liggur úr Kollafirði á Barðaströnd og í Ísafjarðarbotn. Henni er haldið við af öryggisástæðum til að aðskilja hið mikilvæga líflambasölusvæði austan hennar frá svæðinu vestan við girðinguna þar sem riðuveiki var fyrir meira en 20 árum. Girðingunni hefur verið haldið vel við á undanförnum árum frá sjó báðum megin og upp á háfjallið, eða þar sem mest álag er talið vera á henni. Á sjálfu háfjallinu mun ástand hennar vera öllu lakara en mikill kostnaður mun vera fólginn í að standsetja girðinguna þar. Samkvæmt áhættumati Matvælastofnunar og þeirri forgangsröðun sem stofnunin verður að beita við viðhald girðinga almennt er ekki fyrirhugað að leggja nema svipaða fjármuni í þessa girðingu og verið hefur á undanförnum árum en á árinu 2007 voru lagðar 683.800 kr. til viðhalds Kollafjarðarlínu, 798.000 árið 2008 og árið 2009 voru það 580.000 kr.

Ég tek alveg undir með hv. þingmanni um hversu mikilvægt það er að halda þeim girðingum vel við sem gegna því hlutverki að vernda þessi mikilvægu líflambasölusvæði á Vestfjörðum. Þau hafa svo sannarlega komið öðrum landshlutum til góða þegar grípa hefur þurft til þess að skera niður fé og flytja síðan nýtt ósýkt fé aftur inn á svæðið. Mikilvægi þessa svæðis og þessara girðinga er því gríðarlegt einmitt hvað þetta varðar, eins og hv. þingmaður vék að.



[13:21]
Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg):

Frú forseti. Fyrirspurn hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar er góðra gjalda verð og ég fagna henni. Hún vekur hins vegar upp aðrar spurningar hvað varðar almenna stefnumörkun vegna sauðfjárveikivarna. Það er ljóst að enn er mikil þörf á virkum aðgerðum til að halda aftur af sauðfjársjúkdómum, ekki síst riðuveiki og garnaveiki og útbreiðslu þeirra. Líkt og kom fram hjá hæstv. ráðherra hefur fjármagn til viðhalds á varnarlínum engan veginn verið nægilegt og svo virðist sem nokkuð hafi skort á samráð við bændur og hagsmunasamtök þeirra hvað varðar breytingar á varnarlínum.

Árið 2006 skilaði starfshópur um endurskoðun á vörnum gegn búfjársjúkdómum afar vandaðri skýrslu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þar kom fram sú skoðun að fækka ætti varnarhögum í landinu. Eftir því var ekki farið og þetta breyttist verulega í meðförum Matvælastofnunar sem hefur með þessi mál að gera og gengið var mun lengra. Það er mín skoðun að hæstv. ráðherra ætti að íhuga að endurskoða þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í varðandi niðurlagningu og viðhald varnarlína. Nú er ekki tíminn til að (Forseti hringir.) slaka á í vörnum gegn búfjársjúkdómum, nóg er nú samt.



[13:23]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er hreyft við mjög mikilvægu máli. Kjarni málsins er þessi: Norðan við þessa línu er ósýktur fjárstofn sem hefur skipt mjög miklu máli, m.a. þegar verið er að selja líflömb til svæða sem hafa lent í sýkingu. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir okkur að við getum varið þetta svæði þannig að þarna verði áfram ósýktur fjárstofn.

Það er líka rétt sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan, að of litlu fjármagni hefur verið veitt til þessa verkefnis. Við þurfum að reyna að breyta því. Það þarf örugglega ekki mjög mikla fjármuni til viðbótar til þess að hægt sé að standa bærilega að því að halda við þessum sauðfjárveikilínum og við eigum að leggja metnað okkar í að það sé gert. Auðvitað þarf að forgangsraða í þessum efnum, því gerum við okkur grein fyrir. Sú forgangsröðun er hins vegar viðkvæm, það þekkjum við.

Skýrslan frá 2006 sem átti að vera fræðileg, og var auðvitað fræðileg og vönduð úttekt — um hana var enginn einhugur. Það er hins vegar mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að sumar línur eru mikilvægari en aðrar og þar verðum við sérstaklega að vanda okkur. Ég hvet til þess að (Forseti hringir.) við höldum áfram á þeirri braut að reyna að tryggja þessar sauðfjárveikilínur og ég þakka bæði málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir að hafa tekið þetta mál upp hér.



[13:24]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Eins og kom fram hjá síðustu ræðumönnum er þetta gríðarlega mikilvægt málefni. Ég er ekki viss um að allir hv. þingmenn geri sér grein fyrir því hversu mikilvægt það er en það er mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir auknum fjárheimildum til þess að halda við og endurbyggja þær varnarlínur sem þurfa virkilega á því að halda.

Þetta hólf sem þarna er um að ræða, með þessum líflömbum og með þessum ósýkta stofni, er gríðarlega mikilvægt. Ég sakna þess að við skulum ekki fá skýrari svör — það kemur kannski hjá hæstv. ráðherra nú á eftir — um hvort hann muni beita sér af hörku fyrir því að fá í þetta aukið fé. Við erum að eyða hundruðum milljóna í eitthvert Evrópusambandsklístur og brölt og reynt er að koma landinu inn í slík samtök. Við hljótum að geta séð eftir nokkrum milljónum í að vernda íslenskan landbúnað sem full þörf er á. Við getum ekki staðið og horft á, hæstv. ráðherra, fjármunina renna alla í þennan félagsskap sem þingmenn hér virðast vera einkanlega áhugasamir um, (Forseti hringir.) sérstaklega í Samfylkingunni. Við hljótum að þurfa að vernda íslenskan landbúnað umfram það.



[13:25]
Fyrirspyrjandi (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég sé að hæstv. ráðherra langar strax í púltið að ræða Evrópusambandið en það verður aðeins að bíða.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu sem hér er og svör hæstv. ráðherra þó að mér finnist þau ekki nógu afgerandi. Það sem hefur komið fram og við gerum okkur öll grein fyrir er að norðan þessarar línu er ómetanlegt svæði til þess að tryggja sauðfjárrækt í landinu. Þegar þurft hefur að skera niður fé í öðrum landshlutum hefur margsinnis verið leitað inn á þetta svæði og þess vegna er gríðarlega mikilvægt að við verjum það.

Hæstv. ráðherra sagði í svari sínu áðan að almennt væri girðingin í góðu lagi. Það eru ekki þær upplýsingar sem ég hef af þessu svæði enda hefur reynslan sýnt okkur að þarna fer fé á milli hólfa. Það er gríðarlega mikilvægt að menn bregðist við og geri það fljótt. Reyndar kemur fram í þessari ályktun sem ég las áðan að það er líka hugsanlega eitt ristarhlið sem er ekki í lagi. Þess vegna verða menn að fara ekki með þetta of mikið inn í kerfið og geta brugðist við með þeim hætti að laga þetta.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi Evrópusambandsumsóknina, sem ég sé eftir hverri krónu í eins og hv. þingmaður. Að lokum væri forvitnilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hefði ekki verið skynsamlegra að láta allt ráðuneytisfólkið sem er að garfa í að svara öllum þeim spurningum sem þar eru, hver grasspretta sé í 600 metra hæð í 10% halla og þar fram eftir götunum — það hefði kannski verið skynsamlegra að láta það fólk fara og labba með girðingunni og koma henni í lag til þess að tryggja fæðuöryggi okkar hér í framtíðinni. Ekki fáum við eitthvað ósýkt úr Evrópusambandinu, svo mikið er víst. Hæstv. ráðherra getur vonandi tekið undir það sjónarmið að þetta verði gert.

Að öllu gamni slepptu er þetta gríðarlega mikilvægt mál og ég treysti því að hæstv. ráðherra láti verkin tala í þessu máli. (Forseti hringir.)



[13:28]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Já, það er alveg hárrétt að ég er viss um að margt af fólkinu sem starfar í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu er bæði vant og vildi gjarnan frekar skrefa og fara með sauðfjárveikivarnalínum en að vinna að umsókn í Evrópusambandið. En það er nú svona, það verður stundum að gera fleira en gott þykir og það var ákveðið af meiri hluta Alþingis að þessi vinna færi fram. (Gripið fram í: Ríkisstjórninni.) Ég get þó alveg tekið undir að þeim fjármunum gæti að sjálfsögðu verið betur varið en þessi verk verður að vinna þangað til Alþingi hefur sagt annað í þeim efnum.

Varðandi sauðfjárveikivarnalínurnar er hárrétt að þetta er viðkvæmt mál og ég tek undir bæði áhyggjur og áherslur þingmanna hér í þeim efnum, að það þurfi að viðhalda þessum girðingum eins og nokkur kostur er þannig að hægt sé að standa vörð um heilbrigði sauðfjár í landinu og geta brugðist við þar sem kemur sýking og átt alveg sjúkdómsfrí hólf sem hægt er að sækja fé í.

Það er líka alveg hárrétt, og ég hef upplifað það í þessari umræðu, eins og hv. þm. Auður Lilja Erlingsdóttir kom hér inn á, að ýmsum finnst skorta á samráð við samtök sauðfjárbænda, við sauðfjárbændur víða um land, þegar unnið var að tillögum um hvaða girðingar skyldi leggja niður og takmarka viðhald á. Þess vegna hefur Landssamband sauðfjárbænda komið að máli við mig og óskað eftir því að aftur verði farið í gegnum þessi mál og þau skoðuð og þau rædd, hvort þarna hafi eitthvað brugðið út af með áherslur eða hvort það þarna megi taka inn aðrar áherslur (Forseti hringir.) en starfshópurinn kvað á um.

Ég legg áherslu á mikilvægi samstarfs við alla þá aðila sem hlut eiga að máli og (Forseti hringir.) tek undir það með þingmönnum hversu mikilvægt er að standa vörð um að verja þetta hólf á Vestfjörðum sem hér hefur verið til umræðu.