138. löggjafarþing — 110. fundur
 21. apríl 2010.
markmið með aflareglu.
fsp. EKG, 488. mál. — Þskj. 842.

[13:30]
Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef nokkrum sinnum í fyrirspurnum vikið að hinni svokölluðu aflareglu varðandi nýtingu á þorskstofninum. Eins og ég hef stundum vakið athygli á þá var ákveðið í ríkisstjórninni í maí í fyrra að fylgja næstu fimm árin 20% aflareglu í þorski. Þessi ákvörðun var síðan send Alþjóðahafrannsóknaráðinu í Kaupmannahöfn sem tók aflaregluna út og eins og fram kom í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn minni fyrr á þessu ári var niðurstaða ICES sú að þeir samþykktu aflaregluna og lögðu yfir hana blessun sína.

Mér finnst hæstv. ráðherra þurfa að gera okkur grein fyrir því hvert sé markmiðið með þeirri aflareglu sem er í gildi varðandi nýtingu á þorskstofninum. Við erum að tala um aflareglu sem gildir ekki bara á þessu fiskveiðiári heldur næstu fjögur fiskveiðiárin. Ég geri ráð fyrir því að markmiðið sé að byggja þorskstofninn upp með einhverjum tilteknum hætti.

Þess vegna hef ég spurt hvert markmiðið með aflareglunni er. Enn fremur vil ég leita eftir því við hæstv. ráðherra hvert matið sé á því hver þróunin verður, bæði á viðmiðunarstofni, þ.e. fjögurra ára fiski og eldri, og hrygningarstofni á komandi árum ef þessari aflareglu hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar verður fylgt á næstu fjórum árum til viðbótar við það ár sem nú er að líða.

Það er enn brýnna að spyrja um þetta núna vegna þess að nú liggja fyrir niðurstöður úr stofnmælingum botnfiska á Íslandsmiðum sem framkvæmdar voru í mars á þessu ári. Fram kemur í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunarinnar að bráðabirgðastofnmat á þorski sem er byggt á aldursgreindum vísitölum og aldursgreindum afla — það er mjög mikilvægt að undirstrika þetta, aldursgreindum vísitölum og aldursgreindum afla — bendi til þess að stofnstærð þorsksins í ársbyrjun 2010 sé nálægt fyrra mati, þ.e. að viðmiðunarstofninn sé nálægt 700 þús. tonnum. Margir höfðu gert ráð fyrir því að matið mundi benda til þess að stofninn væri stærri, hann væri að stækka eins og menn hafa heyrt á undanförnum vikum og mánuðum að sé mat sjómanna og útvegsmanna almennt.

Ef þetta verður niðurstaðan þá erum við væntanlega að tala um að verði þessari aflareglu fylgt muni aflaheimildir á næsta ári dragast saman og ekki verða 150 þús. tonn heldur kannski nær því að vera á milli 140 og 150 þús. tonn. Til viðbótar við þetta liggur fyrir þinginu frumvarp um svokallaðar strandveiðar sem mun gera ráð fyrir því að allt að 5 þús. tonn eða svo af þorski verði dregin frá aflakvótanum áður en honum verður úthlutað þannig að ef þetta er bráðabirgðaniðurstaðan og vísbending um það sem koma skal þá sýnist mér að verði aflareglunni fylgt á næsta ári sjáum við að (Forseti hringir.) aflaheimildir muni dragast nokkuð saman. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra þeirra spurninga sem ég hef þegar gert grein fyrir.



[13:34]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni fyrir spurningu um þau markmið sem liggja að baki þeirri aflareglu sem nú er í gildi varðandi nýtingu á þorskstofninum.

Markmiðið með núgildandi aflareglu er að hrygningarstofn á árinu 2015 verði með yfirgnæfandi líkum ekki minni en hann var árið 2009. Langtímamarkmiðið er að nýta þorskstofninn þannig að hann gefi af sér hámarksafrakstur til lengri tíma litið. Sem kunnugt er hafa árgangar eftir árið 2000 verið verulega undir langtímameðaltali eða um 115 milljónir þriggja ára nýliða en langtímameðaltalið er 180 milljónir nýliða. Árgangur 2008 er nú metinn meðalstór. Á sama tíma er hlutfall stórra hrygna í hrygningarstofni með því lægsta sem þekkst hefur á undanförnum áratug. Það er talið hafa áhrif á stærð árganga og miðar nýtingarstefna næstu ára að því að auka þetta hlutfall og þar með líkurnar á betri nýliðun. Samkvæmt mati Alþjóðahafrannsóknaráðsins er þessi nýtingarstefna í samræmi við alþjóðleg varúðarsjónarmið og skuldbindingar um nýtingu sem leiði til hámarksafraksturs þegar til lengri tíma er litið.

Þá er spurt: Hver er talin verða þróun viðmiðunarstofns og hrygningarstofns á komandi árum verði aflareglunni fylgt næstu fimm árin? Samkvæmt mati munu hrygningar- og viðmiðunarstofnar þorsks vaxa hægt og verða með yfirgnæfandi líkum stærri árið 2015 en þeir voru í ársbyrjun 2009. Vísbendingar eru um að árgangar 2008 og jafnvel 2009 nái meðalstærð. Gangi það eftir og að auki komi fleiri meðalsterkir eða sterkir árgangar í kjölfarið má reikna með að hrygningar- og viðmiðunarstofnar fari þá mjög ört vaxandi. Þetta eru þau markmið sem sett voru, frú forseti, þegar ákvörðunin var tekin. Við vitum að mjög harðar kröfur eru gagnvart markaðnum að farið sé mjög gætilega og varúðarsjónarmiðum fylgt í þessum efnum og þess vegna er þessi áætlun lögð fram.



[13:37]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef áður sagt það í þessum ræðustól að þetta bréf til Alþjóðahafrannsóknaráðsins um 20% aflareglu sé eitt af stærstu axarsköftum hæstv. ráðherra. Mjög nálægt kemur umsókn hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar um aðild að Evrópusambandinu.

Það sem liggur fyrir er að við núverandi skilyrði er þessi 20% aflaregla algjörlega út í bláinn. Það er verið að byggja þorskstofninn allt of hratt upp við þessar efnahagslegu aðstæður. Ég hef margsinnis bent á að það er hægt að auka verulega úthlutun í þorskkvóta án þess að ganga að stofninum. Nú liggur fyrir að menn eru að byggja þorskstofninn úr 702 þús. tonnum upp í 762 þús. tonn eftir þessu. Ég spyr bara: Er það réttlætanlegt á þessum tímum?

Í öðru lagi er ekkert hugsað um það sem er verið að gera á hinum endanum. Það er verið að veiða tugi þúsunda af gulldeplu og manni er sagt að þar sé mikið af seiðum og þar fram eftir götunum. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig ætlar hann að byggja upp þorskstofninn ef það á alltaf að veiða alla fæðuna frá honum?



[13:38]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þó svo að bréfið hafi verið vitlaust er Evrópusambandsumsóknin enn þá vitlausari.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hreint út, frú forseti: Ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að kvótinn, aflaheimildirnar verði auknar? Það hefur verið sýnt fram á það, eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson benti á áðan, að þó að við aukum þorskkvótann um 20 þús. tonn eða 30 þús. tonn, þá rúmast það innan þeirra viðmiðunarmarka sem Hafrannsóknastofnunin hefur gefið út varðandi veiðistofninn og hrygningarstofninn.

Ég ætla að biðja hæstv. ráðherra um að leiðrétta mig ef þetta er rangt hjá mér, því það er hægt og ég hefði talið að hæstv. ráðherra ætti í ljósi efnahagsástandsins og stöðu sjávarútvegsins að beita sér fyrir því að aflaheimildir verði auknar. Hann sendir einfaldlega út annað bréf og segir að þetta rúmist innan þeirra viðmiðana sem þessi ágæta stofnun, (Forseti hringir.) sem er að stjórna veiðum okkar, hefur gefið út.



[13:39]
Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir svörin og þá ágætu umræðu sem hefur sprottið í kjölfarið á þessari fyrirspurn.

Ef hæstv. ráðherra fylgir eftir aflareglunni sem ríkisstjórnin hefur samþykkt og hyggst taka frá 5 þús. tonn af kvótanum til að deila út til strandveiðiflotans, eru þá ekki líkur á því að úthlutað aflamark minnki frá þessu ári til næsta fiskveiðiárs?

150 þús. tonnin voru þannig til komin að þar var að hálfu leyti tekið tillit til aflaúthlutunar ársins á undan sem var 160 þús. tonn. Aflamarkið hefði verið 140 þús. tonn ef ekki hefði verið tekið tillit til úthlutunar ársins á undan. Nú er það 150 þús. tonn. Hér segir að bráðabirgðaniðurstaðan gefi til kynna að 20% af viðmiðunarstofninum séu 140 þús. tonn, sem þýðir að miðað við algjörlega óbreyttar forsendur gæti aflamarkið verið í kringum 145 þús. tonn. Þá þarf að draga frá strandveiðarnar og erum við þá ekki farin að tala um, hæstv. ráðherra, að aflamarkið á næsta ári verði í kringum 140 þús. tonn?

Mér finnst afar brýnt að ráðherrann svari þessu vegna þess að umræðurnar hafa snúist um það hvort möguleiki sé á að auka aflaheimildir. Ráðherrann hefur ríkisstjórnarsamþykkt fyrir því að fara þessa leið og hefur beðið um sérstakt álit til að undirbyggja ákvörðun ríkisstjórnarinnar og ég held að menn verði bara að tala hreint út í þessum efnum. Ef menn ætla að auka aflamarkið þá verður það ekki gert nema hverfa (Forseti hringir.) frá þessari 20% aflareglu ríkisstjórnarinnar.



[13:41]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Rannsóknir Hafrannsóknastofnunarinnar benda mjög til þess að hlutfall stærri fisks sé að hækka. Auk þess eiga eftir að koma inn frekari upplýsingar eins og úrvinnsla afladagbóka, netarall og síðan á eftir að skoða þetta mál í heild sinni. Ég hef því enn sterka og góða von um að aflamarkið geti verið hliðstætt og heildarveiðin á næsta ári svipuð og á þessu ári og sé ekki bein teikn þess að svo verði ekki. Hins vegar er ljóst að tilefni gefst ekki til stóraukningar á grundvelli þessa.

Við vitum að skiptar skoðanir eru á mati Hafrannsóknastofnunarinnar og Landssamband smábátaeigenda, Landssamband íslenskra útvegsmanna og Sjómannasambandið koma til ráðuneytisins með tillögur sínar og auk þess fáum við fréttir frá sjómönnum um mat þeirra á fiski í sjónum. Samt er ég þeirrar skoðunar að hagsmunir okkar felist í því að umgangast þessa auðlind af varúð og horfa til framtíðar. Ég tek alveg undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni um að við þurfum líka að taka tillit til átumagnsins í sjónum, gulldeplu, loðnu og annars sem fiskurinn étur. Síðan kemur makríllinn og hann kemur ekki í kurteisisheimsókn, hann étur gríðarlega mikið á Íslandsmiðum. (Forseti hringir.) En ég tel að rétt sé að fara að öllu með gát en að sjálfsögðu á að nýta þessa auðlind okkar á sjálfbæran hátt. (Forseti hringir.) Það er það allra mikilvægasta.