138. löggjafarþing — 110. fundur
 21. apríl 2010.
félagsleg áhrif kreppunnar á börn og unglinga.
fsp. ÓN, 212. mál. — Þskj. 236.

[13:44]
Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar stöðu sem nú er uppi í efnahagslífinu langar mig til að fitja upp á mjög mikilvægu máli sem eru þau áhrif sem bágt efnahagsástand getur haft á börn og unglinga. Mikill fjöldi Íslendinga er atvinnulaus, 15 þús. manns, og á sumum heimilum eru báðir foreldrar án atvinnu. Þetta er auðvitað afskaplega alvarlegt ástand og um það erum við öll sammála.

Ég held að við þessar aðstæður sé mjög mikilvægt að gæta sérstaklega að börnum og unglingum og huga að því sem við getum gert til að fylgjast með þeim og hjálpa þeim.

Þess vegna spyr ég hvort hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hafi beitt sér fyrir því að fylgst sé með félagslegum áhrifum kreppunnar á börn og unglinga. Í þessu sambandi er ég sérstaklega að horfa til þess hvort hæstv. ráðherra sé í samstarfi eða í samtali við t.d. ráðuneyti menntamála og heilbrigðismála um þetta efni og jafnvel dómsmála- og mannréttindaráðuneytið. Þessi málaflokkur varðar mörg ráðuneyti.

Mig langar til að spyrja hvort einhver samhæfð áætlun eða samhæft samtal sé á milli þessara ráðuneyta og gagnvart Reykjavíkurborg eða sveitarfélögunum. Ég veit að í félags- og tryggingamálaráðuneytinu er svokölluð velferðarvakt til staðar. Það er fróðlegt að heyra hvernig það gengur allt saman fyrir sig.

Það sem skiptir mestu máli fyrir mig og það sem ég er kannski að leita eftir er þetta: Hafa menn séð einhver merki þess að þær efnahagsværingar sem hér hafa verið og þau áhrif sem þær hafa haft á heimili hafi haft áhrif á börn þannig að þeim líði verr í skólanum, félagsleg vandamál hafi aukist eða annað slíkt? Það er afskaplega mikilvægt fyrir okkur að vera mjög vel vakandi yfir þessu, vegna þess að ef þetta fer eitthvað úr böndunum þá er erfitt að eiga við það. Við þekkjum þetta frá nágrannalöndunum þar sem börn hafa farið mjög illa út úr efnahagsþrengingum.

Ef maður lítur til unglinganna þá er auðvitað áhyggjuefni ef þeir leiðast út á glapstigu. Brugg virðist vera að aukast, maður hefur líka áhyggjur af því. Spurning mín til hæstv. ráðherra og hugleiðingar eru fyrst og fremst af þeim toga. Er verið að fylgjast með þessu, eru menn farnir að sjá einhver merki og hvernig er best að grípa inn í?

Ég hef engin svör, ég er einungis að spyrjast fyrir um hvort hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra sé með hugann við þetta.



[13:47]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli og með þeim málefnalega hætti sem hún gerir. Þetta er mál sem við leggjum mikla áherslu á, þ.e. staða barna og ungmenna við þessar erfiðu aðstæður. Reynsla nágrannaríkja okkar segir að það sé mjög mikilvægt að gera það við efnahagslegar þrengingar eins og við göngum nú í gegnum. Við höfum falið velferðarvaktinni að horfa sérstaklega til velferðar barna, allt frá því að hún var sett á fót fyrir rúmu ári. Innan vaktarinnar starfar sérstakur barnahópur sem í eru m.a. sviðsstjóri fræðslumála hjá Reykjavíkurborg, fulltrúar frá Barnaheill, Unicef, Heimili og skóla, forstjóri Barnaverndarstofu og Umboðsmaður barna. Við höfum líka sett á fót vinnuhóp um ungmenni, ungt fólk 15–25 ára, með fulltrúum á vaktinni og fulltrúum frá Fjölsmiðjunni, Ungmennahreyfingu Rauða krossins og Sambandi framhaldsskólanema.

Fulltrúar allra ráðuneyta, sem hv. þingmaður spurði um, eiga aðild að velferðarvaktinni og koma þar að málum. Við héldum sérstakan þemafund um þetta mál í febrúar á vegum velferðarvaktarinnar með 16 aðilum sem allir sinna aðstæðum barna, hver með sínum hætti, og nægir að nefna að í þeim hópi voru landlæknir, yfirlæknir Barna- og unglingageðdeildar, forstjóri Barnaverndarstofu, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, nokkrir félagsmálastjórar og starfsmenn frá Vímulausri æsku, Sjónarhóli og Fjölskyldumiðstöðinni. Á þessum fundi komu nokkrar meginniðurstöður fram. Í fyrsta lagi að standa þurfi vaktina alls staðar í samfélaginu, staða barna sé almennt góð þrátt fyrir alvarlegt ástand, svo sem atvinnuleysi foreldra, og börnum hafi ekki fækkað sem fá skólamáltíðir heldur fjölgað. Bæði ráðuneytið og velferðarvaktin brýndu síðastliðið haust öll sveitarfélögin til þess að tryggja að öllum börnum stæði til boða matur í skólum. Svo virðist sem afleiðingar kreppunnar séu ekki komnar í ljós gagnvart börnum almennt séð, en það getur auðvitað breyst mjög hratt.

Það þarf að efla samvinnu. Það þarf að leggja meiri áherslu á að fólk vinni saman í velferðarþjónustunni, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, og að þriðji geirinn verði betur virkjaður. Álag hefur aukist á starfsfólk, m.a. vegna þess að ekki er ráðið í störf sem losna á þeim stofnunum sem sinna umönnun barna. Foreldrar leita meira til starfsmanna skóla og þar með hafa samskipti foreldra og skóla aukist sem er kostur, en það leiðir til meira álags á starfsfólk.

Starfsfólk í bæði skólum og velferðarþjónustu verður vart við aukinn kvíða, ekki síst á það við um fjölskyldur sem stóðu höllum fæti fyrir kreppu. Umsóknum um aðstoð vegna fjölskylduvanda, þar á meðal vegna barna, fjölgar hjá öllum stofnunum miðað við undanfarin ár. Það eru fleiri ný mál og málin þyngri. Við þessu er í sjálfu sér að búast þegar kreppir að í efnahagnum. Við erum sérstaklega að horfa til berskjaldaðra fjölskyldna, sem við skilgreinum svo, sem eru börn og fjölskyldur með lítið eða slæmt tengslanet. Þar eru áberandi einstakir hópar, eins og hópar barna innflytjenda og fátækra fjölskyldna. Við höfum helgað umtalsverða fjármuni í verkefni til að bjóða úrræði fyrir þennan hóp, m.a. í sjóði sem við höfum sett á fót vegna Evrópuárs í baráttu gegn fátækt og félagslegri einangrun.

Börn og ungmenni sem hvorki eru í skóla né vinnu eru sérstakt áhyggjuefni. Við höfum ráðist í tröllaukið átak svo að ekki sé meira sagt í að koma ungu atvinnulausu fólki til verka, það hefur tekist gríðarlega vel. Verkefnið Ungt fólk til athafna, sem félags- og tryggingamálaráðuneytið hleypti af stokkunum og fól Vinnumálastofnun að sinna í byrjun þessa árs, hefur náð þeim árangri að búið er að ná í allan þann hóp sem var aðgerðarlaus fyrr í haust og við erum búin að koma 2.700 ungmennum til verka, sem eru annaðhvort komin í varanleg úrræði eða eru á námskeiðum og verður síðan boðin varanleg úrræði í kjölfarið.

Við horfum líka sérstaklega á heimili þar sem báðir foreldrar eru atvinnulausir. Það eru 354 heimili þar sem báðir foreldrar voru atvinnulausir í febrúar síðastliðnum, með alls 467 börn. Við erum að vinna að sérstakri áætlun um það núna hvernig koma megi þessum fjölskyldum til aðstoðar í samvinnu við bæði Vinnumálastofnun og félagsþjónustu sveitarfélaganna. Ég hef ekki tíma til að fara frekar yfir þetta í þessu fyrsta svari, (Forseti hringir.) en eins og ég vonast til að hafa gert grein fyrir hér erum við að vinna á mörgum sviðum að úrlausn á þessum málum. Þetta verður viðvarandi verkefni okkar á næstu missirum.



[13:52]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa þörfu umræðu sem ég held að við þurfum að viðhafa hér í þingsal jafnvel oftar og meira. Mig langar til að taka örfá atriði eins og það t.d. að ég held að það sé afar mikilvægt að við séum mjög vakandi, og þeir aðilar sem við eigum á þessu sviði, fyrir og meðvituð um hvers kyns kvíðaraskanir sem má oft sjá á börnum. Ég held að það geti haft mikil áhrif á börn að alast upp, jafnvel til lengri tíma, með viðvarandi kvíða.

Mig langar líka til að benda á að það skiptir miklu máli að við fylgjumst mjög vel með aðkomu barna að tómstundastarfi, hvort það hefur minnkað, því að það er mjög auðvelt að mæla þær stærðir.

Það er ánægjulegt að sjá að foreldrar virðast almennt forgangsraða í þágu barna sinna þannig að kannski þurfum við fyrst og fremst að efla foreldrana til að sinna hlutverki sínu. Ég held að í þessum málaflokki sé afar mikilvægt að við séum vel vakandi og framkvæmum þegar við sjáum (Forseti hringir.) að eitthvað er farið að gerast.



[13:54]
Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra fyrir þessi svör. Ég deili þeirri skoðun með honum að við þurfum að fylgjast mjög vel með á þessu sviði. Það er gott að heyra að staðan sé enn almennt góð, en það er rétt, sem hæstv. ráðherra segir, að hlutirnir geta breyst afar hratt. Við skulum ekki gleyma því að íslensk heimili voru skuldugustu heimili í heimi áður en hrunið varð. Það þýðir að þau geta mörg hver verið í afar miklum vanda eins og við vitum og er það kannski stærsta verkefnið sem við okkur blasir og mesta efnahagsógnin.

Það var sláandi að sjá það í atvinnuleysistölum fyrir marsmánuð að 20% þeirra sem eru atvinnulausir voru á aldrinum 16–24 ára, eða um 3.400 manneskjur. Það er afskaplega há tala hjá þessum unga hópi. Ég held að við verðum að horfa sérstaklega til þessa hóps. Við þurfum afar mikið á honum að halda í framtíðinni, að hann komi ekki of laskaður út úr þeim atburðum sem hér hafa orðið.

Það var gott að heyra að verið væri að horfa sérstaklega til þeirra barna sem búa við atvinnuleysi beggja foreldra. Við vitum að langvarandi atvinnuleysi hefur áhrif á fjölskyldur. Þótt við getum verið ósammála um marga hluti á öðrum vígstöðvum hvet ég hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því í ríkisstjórninni að menn fari í það að efla atvinnulífið til að koma þessu fólki í vinnuna sem fyrst, þannig að við þurfum ekki að vera að leita að félagslegum úrræðum einvörðungu. Ég hvet hæstv. ráðherra eindregið í því efni.

Ég vil að lokum fá nánari upplýsingar hjá hæstv. ráðherra um þetta. Þar sem ég var að spyrjast fyrir um samstarf á milli ráðuneytanna var ég sérstaklega að vísa til menntamálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins hvað varðar börn og ungmenni og hvort áformað sé af hálfu ríkisstjórnarinnar að koma upp einhvers konar samtali eða aðgerðaáætlun, ég veit ekki hvað maður á að kalla það, milli þessara ráðuneyta í þessum mikilvæga málaflokki.



[13:56]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki tíma til þess í svari mínu að geta um þau góðu samstarfsverkefni sem við höfum verið að vinna með sveitarfélögunum sem hafa verið mjög mikilvæg og ég nefni sérstaklega Reykjavíkurborg sem við höfum verið í mjög nánu samstarfi við. Borgin stofnaði þegar í kjölfar hrunsins tvö teymi, annars vegar með börnum í borginni og hins vegar aðgerðateymi velferðarsviðs, bæði vakta stöðu barna og vinna að nýjum úrræðum. Við erum í mjög nánu samráði við borgina um þessi úrræði. Við höfum á vettvangi velferðarvaktarinnar mikið samráð við hin ráðuneytin um lausnir. Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður segir, að úrlausn skuldavanda skiptir miklu máli. Það skiptir miklu máli að við náum hratt viðsnúningi í því efni. Þess vegna komum við hér inn með frumvörp sem eiga að greiða fyrir mjög hraðri úrlausn skuldamála. Það er mjög mikilvægt að við náum góðum takti með bönkunum og eignarleigufyrirtækjum í því að létta ósjálfbærri skuldastöðu af fólki hratt — því fyrr getur fólk farið að horfast bjartsýnt í augu við framtíðina. Ekki stendur á okkur að skapa atvinnu í landinu, en það er nú þannig að þó kóngur vilji sigla er það byr sem ræður, og hann hefur ekki verið góður. Við höfum átt erfitt með að fá aðgang að lánsfé og að komast í samhengi við hið alþjóðlega fjármálaumhverfi af ástæðum sem eru okkur öllum kunnar.

Að síðustu nokkur orð um þetta merkilega átak, Ungt fólk til athafna. Það er með ólíkindum að sjá árangurinn af þessu átaki. Við erum búin að koma núna hátt í 100 ungmennum í iðnnám. Við höfum verið að þróa nýjar námsbrautir með skólum sem hafa verið mjög viljugir til að vinna með okkur, Menntaskólinn í Kópavogi, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti sérstaklega. Vorum að opna sérstakt nám í Grindavík í gær þar sem verið er að horfa til þess að kenna ungu fólki störf til sjós. Það er ótrúlegt að sjá hvað það er mikill sköpunarkraftur í (Forseti hringir.) skólakerfinu til að mæta þörfum þessa hóps og það er ánægjulegt að geta átt þátt í því að leysa þennan sköpunarkraft úr læðingi því að ástæða atvinnuleysis ungs fólks er (Forseti hringir.) líka sú að hingað til hefur skólakerfið ekki verið að mæta nógu fjölbreyttum þörfum. (Forseti hringir.) Ég held að þetta sé að kenna okkur að byggja á þessum árangri og vonandi tekst okkur að gera það áfram (Forseti hringir.) á næstu missirum.



[13:58]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti hvetur þingmenn til að virða tímamörk.