138. löggjafarþing — 110. fundur
 21. apríl 2010.
heildarkostnaður ríkissjóðs af breytingum á heitum ráðuneyta.
fsp. GÞÞ, 551. mál. — Þskj. 941.

[13:59]
Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það skipti afskaplega miklu máli að við fylgjumst vel með framkvæmdarvaldinu og hvað meiri hlutinn er að gera hér á þingi. Ég verð að viðurkenna að ég er einn af þeim sem hef verið örlítið hugsi yfir því hve mikið er verið að hringla með nöfn á ráðuneytum á Íslandi. Fyrirspurn mín beinist einungis að agnarlitlum hluta af þessu, þ.e. hvað kostar að skipta um nafn á ráðuneyti. Ég þekki það aðeins, af því ég var í ráðuneyti sem skipti var um nafn á, það er kostnaður sem hægt er að nota í ýmislegt annað. Þó að það séu ekki stórar upphæðir í samhengi fjárlaganna eru þetta samt sem áður peningar. Það hefur sérstaklega vakið athygli mína hvað núverandi ríkisstjórn hefur verið dugleg við að breyta nöfnum á ráðuneytum og ætlar að vera duglegri við að gera það ef ég skil stjórnarsáttmálann rétt.

Ég er hér með spurningar sem hljóða svo, með leyfi virðulegs forseta:

Hver var heildarkostnaður ríkissjóðs af eftirtöldum breytingum á heitum ráðuneyta, samanber reglugerð nr. 101/2009 um breytingu á reglugerð nr. 177/2007 um Stjórnarráð Íslands og hvernig sundurliðast hann eftir ráðuneytum:

a. dómsmála- og mannréttindaráðuneyti í stað dóms- og kirkjumálaráðuneytis,

— Það er athyglisvert þetta með dóms- og mannréttindaráðuneyti, það held ég sé mjög séríslenskt. Ef eitthvað er að marka Google eru mannréttindaráðuneyti í það minnsta í einu öðru landi, þ.e. Lesótó, svo er erfiðara að átta sig á því hvort það er í Erítreu og Simbabve, en í það minnsta er til mannréttindaráðuneyti í Lesótó.

b. mennta- og menningarmálaráðuneyti í stað menntamálaráðuneytis,

c. samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti í stað samgönguráðuneytis,

d. efnahags- og viðskiptaráðuneyti í stað viðskiptaráðuneytis?

— Þetta er líka áhugavert vegna þess að síðan á eftir að breyta nöfnunum aftur.

Ég vek athygli á því að þetta er bara brot af kostnaðinum því að hér eiga að koma — ef ég skil rétt, virðulegur forseti, kannski er ég að gleyma einhverju — innanríkisráðuneyti og atvinnuvegaráðuneyti og síðan velferðarráðuneyti. Inni í innanríkisráðuneytinu eiga að vera einhver af þeim ráðuneytum sem voru að skipta um nöfn núna. Þannig á dómsmála- og mannréttindaráðuneyti í það minnsta að skipta um nafn og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti væntanlega líka, en kannski óvissara með mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Það væri ágætt að fá svör hæstv. ráðherra við þessum spurningum.



[14:02]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er ljúft og skylt að upplýsa hv. þingmann um þetta mál. Að vísu kom það við mig að heyra hvernig hann talaði um mannréttindaþátt nafngiftarinnar á dóms- og mannréttindamálaráðuneytinu. Ég er ákaflega ánægður með það að mannréttindum sé þannig gert sérstaklega hátt undir höfði með því að geta þeirra sérstaklega í heiti þess ráðuneytis á Íslandi sem fer með þau mál. Sama má segja um menningarþáttinn, að hann sé talinn upp með menntamálaráðuneytinu o.s.frv. Sveitarstjórnirnar hafa lengi lagt áherslu á að þess sæist stað með skýrum hætti í Stjórnarráðinu hvar þeirra málum væri skipað. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið var umtalsverð endurskipulagning á stjórnsýslunni, byggð á tillögum ráðgjafarnefndar og ráðgjafa sem var ráðinn sérstaklega í það mál og mælti m.a. með því, í ljósi þess hvernig til tókst í hagstjórn á Íslandi á undanförnum árum, að efnahagsmál væru sameinuð á hendi eins ráðuneytis betur en áður var gert.

Hv. þingmaður spyr um kostnað. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum tekið saman og aflað í samráði við framangreind ráðuneyti nam heildarkostnaður sem gjaldfærður er eða tengdur við þessar breytingar rúmlega 3 millj. kr. Hann sundurliðast þannig að á dóms- og mannréttindaráðuneytið voru þetta 863 þúsund, á mennta- og menningarmálaráðuneytið 704 þúsund, á samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið 339 þúsund og á efnahags- og viðskiptaráðuneytið 1.167 þúsund. Kostnaðurinn liggur að mestu í breytingum á merkingum og skiltum bæði innan húss og utan, í prentun á bréfsefni, nafnspjöldum og kveðjukortum, kaup á nýjum stimplum og þó ekki síst í vinnu við heimasíðu og málaskrá og skipurit og aðra slíka hluti. Vinnan var kostnaðarsömust hjá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og það skýrist að stórum hluta af því að þar var unnin ný heimasíða og nýtt skipurit. Lægstur var kostnaðurinn hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, þar var farið einfaldast í þessar breytingar og fyrst og fremst með prentun á nýjum nafnspjöldum og öðru slíku.

Rétt er að leggja áherslu á að þessi kostnaður er að sjálfsögðu fjárfesting í ýmsum verðmætum sem nýtast ráðuneytunum á komandi missirum og árum. Það eru t.d. að sjálfsögðu verðmæti fólgin í nýrri heimasíðu, í lager af nýju bréfsefni sem keypt er inn og dugar næstu missirin og þar fram eftir götunum. Það ber því á engan hátt að líta svo á að þetta sé útlagður kostnaður einn og sér án þess að einhver verðmæti hafi komið á móti. Það er ekki svo. Í flestum tilvikum skilar þetta um leið vörum í hendur viðkomandi ráðuneytis sem nýtast í starfsemi þess á komandi árum. Því má segja að beinn kostnaður sem ekki er fólginn í því að fá varning eða hluti sem gagnast síðan ráðuneytunum í starfsemi sinni sé aðeins lítill hluti af þeim heildarkostnaði sem ég nefndi. Hér er því um afar óveruleg fjárútlát að ræða ef þetta er haft í huga sem ég hef nefnt til skýringar á málinu.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti og efnahags- og viðskiptaráðuneyti, ekki eru fyrirhugaðar neinar breytingar á stöðu þeirra aðrar en þær sem þegar eru orðnar, þannig að þar er ekki að vænta frekari kostnaðar eða breytinga sem tengjast áframhaldandi endurskipulagningu Stjórnarráðsins, sem ég tel reyndar að sé mjög mikilsvert verkefni. Má af því m.a. draga marga lærdóma að lesa rannsóknarskýrsluna og sjá hversu víða þar er borið niður í því að Stjórnarráð okkar og stofnanir eru fámennar og veikburða og réðu illa við álag og verkefni sem þau fengu í hendur eða áttu að hafa með höndum á umliðnum missirum. Er þar að leita einnar af mörgum skýringum á því hvernig fór.

Það er því enginn vafi í mínum huga að bæði út frá almennum faglegum sjónarmiðum, hagræðingarsjónarmiðum, og til að styrkja og búa stjórnkerfi okkar betur undir viðamikil verkefni eða ófyrirséða hluti sem við kunnum að þurfa að takast á við á komandi árum, er þessi þáttur málsins mikilvægur. Ég tel að kostnaðurinn sem af þessu hlýst, borið saman við þann sparnað, hagræðingu og bættu þjónustu sem á móti geti komið, sé hverfandi.



[14:07]
Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mér finnst reyndar skrýtið hvernig hæstv. ráðherra leggur þetta út. Eins og við vitum báðir, ég og hæstv. ráðherra, er þetta fyrst og fremst symbólískt og bara brot af kostnaðinum þær 3 milljónir sem þarna eru nefndar. Það er vægast sagt sérkennilegt að heyra hjá hæstv. ráðherra að þetta sé fjárfesting sem nýtist á komandi árum ef hæstv. ráðherra ætlar að fara í að klára þau verk sem getið er um í stjórnarsáttmálanum. Það gengur bara ekki upp. Það liggur fyrir að samkvæmt stjórnarsáttmálanum eru áform um innanríkisráðuneyti og atvinnuvegaráðuneyti og þá er sá kostnaður sem hér er nefndur bara einskiptiskostnaður, það liggur alveg fyrir. Hæstv. ráðherra getur ekki talað gegn staðreyndum í því máli.

Ég vona að það sé ekki svo að aðeins sé lögð áhersla á mál hjá ríkisstjórninni ef þau eru inni í heitum ráðuneyta eins og mátti skilja á orðum hæstv. ráðherra. Ferðamál, íþróttamál eða önnur slík eru ekki í heiti neins ráðuneytis en ég vona að hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn taki þá málaflokka samt alvarlega þó að þau séu ekki komin inn í heiti ráðuneytis. Það liggur t.d. fyrir að ef hæstv. ráðherra er mjög umhugað um að hafa mannréttindi inni í heiti ráðuneytis verður a.m.k. að koma því einhvers staðar fyrir í ráðuneyti innanríkismála sem á að stofna samkvæmt stjórnarsáttmálanum og þar þarf að leggja út í kostnað. Þessi kostnaður, 3 milljónir í nafnbreytingar, er bara brot, agnarsmátt brot. Það er hins vegar symbólískt og segir nokkuð um það hvernig menn vilja vinna hlutina ef menn leggja mjög mikið út í kostnað eins og þann að skipta um nöfn á ráðuneytum.



[14:09]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við svar mitt að bæta. Ég svaraði því sem ég var spurður um varðandi kostnaðinn og gerði það, held ég, sæmilega skilmerkilega. Ég ætla ekki út í einhvern orðhengilshátt af því tagi sem hv. þingmaður var, að mér fannst, hér með um það að ef maður gleddist yfir því t.d. að mannréttindum væri gert hátt undir höfði með því að nefna þau í heiti ráðuneytis, væri maður þar með að gefa sér að öðrum þáttum sem ekki væru sérstaklega teknir fram í heitum ráðuneyta væri ekki sinnt. Það er auðvitað fjarri öllu lagi.

Eins og ég sagði áður er ekki gert ráð fyrir í stjórnarsáttmálanum eða þeim plönum sem nú er unnið eftir að neinar breytingar verði á heitum og meginskipulagi mennta- og menningarmálaráðuneytis og efnahags- og viðskiptaráðuneytis þar sem næstum tveir þriðju hlutar þessa kostnaðar liggja. Það er að sjálfsögðu fjárfesting og verðmæti fólgin í hlutum eins og nýrri og uppfærðri heimasíðu, í endurskipulagðri málaskrá í skipuriti sem er síðan þýtt og annað í þeim efnum.

Ég er talsmaður stjórnfestu í þessum efnum og tel að lögfesta eigi meginbreytingar í Stjórnarráðinu og skipan verka innan Stjórnarráðsins, það eigi ekki að hafa þetta eins og var hér á árum áður að þessum verkefnum var hent fram og til baka á grundvelli reglugerðarbreytinga um Stjórnarráðið. Menn voru afar frjálslegir að því á umliðnum áratugum og það réðist, að því er best verður séð þegar maður skoðar stjórnmálasöguna, af því hvað hentaði ráðherrum og flokkum í samningum sín á milli. Ég held að það að vinna skipulega að þessu með langtímamarkmið í huga og horfa á meginviðfangsefnin heildstætt, svo sem eins og velferðarmálin, atvinnumálin, þau mál sem flokkast undir eitthvað sem kalla má innanríkisráðuneyti, sé skynsamleg nálgun. Þar af leiðandi tel ég að (Forseti hringir.) ríkisstjórnin sé í þessum efnum eins og fleirum á hárréttri braut.