138. löggjafarþing — 110. fundur
 21. apríl 2010.
veiðar á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.
fsp. SF, 489. mál. — Þskj. 843.

[14:12]
Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Rjúpnaveiðar, gæsaveiðar og hreindýraveiðar hafa verið stundaðar á Íslandi um langt skeið. Sú er hér stendur kom sérstaklega að þessum málum á sínum tíma í sambandi við rjúpnaveiðarnar en þá lá stofninn mjög lágt. Ég vil rifja það upp að Sjálfstæðisflokkurinn kom í veg fyrir að við gætum sett á sölubann í fyrra skiptið, en sú er hér stendur tók þá ákvörðun að banna rjúpnaveiðar og það varð til þess að hægt var að endurreisa stofninn. Núna hafa veiðar verið stundaðar aftur og það er mjög mikilvægt að þær veiðar séu sjálfbærar. Ég styð eindregið rjúpnaveiðar þó að ég hafi bannað þær á sínum tíma en þær verða að vera sjálfbærar.

Nú er svo komið að í drögum að verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð kemur fram á bls. 122 að banna eigi þessar hefðbundnu og sjálfbæru veiðar. Þess vegna vil ég gjarnan spyrja hæstv. umhverfisráðherra: Er það rétt að til standi að banna hefðbundnar og sjálfbærar veiðar á rjúpum, gæsum og hreindýrum á svæðum á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem veiðar hafa hingað til verið leyfðar og ef svo er, hver eru rökin fyrir slíkri ákvörðun?

Reyndar kemur fram í drögunum að rökin séu þau að þetta skapi meira eftirliti fyrir landverði, þetta eru auðvitað fáránlega veik rök, og að þarna geti skapast hætta af akstri, á gróðurskemmdum vegna aksturs, það á þá væntanlega við alls staðar. Þetta eru heldur ekki rök sem halda og það er hægt að koma í veg fyrir það án þess að banna veiðar.

Í öðru lagi vil ég spyrja: Ef svo er, hefur verið haft samráð við hagsmunaaðila, svo sem Skotveiðifélag Íslands, Skotveiðifélag Austurlands, hreindýraráð, Félag leiðsögumanna með hreindýrum og ferðaþjónustuaðila á Austurlandi?

Mig grunar nefnilega að ekki hafi verið haft neitt samráð, reyndar hefur Skotveiðifélag Íslands sent frá sér sérstaka ályktun þar sem kemur fram að ekki hafi verið haft neitt samráð við þá.

Í þriðja lagi vil ég spyrja: Er það rétt að á fundum nefndar um stofnun þjóðgarðsins hafi margoft komið fram að veiðar skyldu ekki vera bannaðar eða takmarkaðar frá því sem nú gildir?

Hagsmunaaðilar fullyrða að svo hafi verið. Ég verð að segja, virðulegur forseti, að miðað við ályktun stjórnar Skotveiðifélags Íslands, held ég að svo geti jafnvel verið að menn hafi nánast verið plataðir. Ef það er rétt, og ég vona að hæstv. ráðherra geti varpað betur ljósi á það á eftir í svari sínu, finnst mér það svolítið alvarlegt. Nýverið var umræða um það að víkja eigi yfirstjórn þjóðgarðsins frá og færa valdið heim í hérað. Ef menn ganga fram af svona hörku, ef það er meiningin, (Forseti hringir.) minnkar öll samstaða um slíka verndun á Íslandi. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt og skora á ráðherrann að draga þessar hugmyndir til baka.



[14:15]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrirspurnina. Varðandi fyrstu spurninguna um hvort til standi að banna hefðbundnar og sjálfbærar veiðar á rjúpum o.s.frv. er það svo að við undirbúning á stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs var við það miðað að hefðbundin landnýting, svo sem beit og sjálfbærar veiðar, gæti haldið áfram innan þjóðgarðsins á vissum svæðum eins og verið hefur. Samkvæmt lögum um Vatnajökulsþjóðgarð skal stjórn þjóðgarðsins vinna tillögu að verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn til umhverfisráðherra og væntanlega liggur sú tillaga enn þá frammi í drögum sem þingmaðurinn er að vísa til. Stjórn þjóðgarðsins vinnur nú að verndaráætlun og því er ekki ljóst hvort áætlunin muni hafa einhver áhrif á hefðbundnar nytjar innan þjóðgarðsins.

Samkvæmt upplýsingum stjórnarinnar, sem aflað var vegna þessarar fyrirspurnar, hefur svæðisstofa Austursvæðis lagt til að veiðar verði takmarkaðar á mjög afmörkuðu svæði kringum Snæfell vegna þess m.a. að viðkvæmur gróður á svæðinu þolir litla umferð. Um er að ræða mjög viðkvæman mosagróður sem krefst jafnvel stýringar á umferð göngufólks. Þá er votlendið á Þórisey og nágrenni viðkvæmt fyrir umferð, auk þess sem þar er stór fellistaður og varplönd heiðagæsa. Svæðið er auk þess talið henta einkar vel til gönguferða og fræðslutengdrar ferðamennsku, rannsókna og náttúruskoðunar, m.a. skólahópa á haustin.

Það er skoðun svæðisstjórnar Austursvæðis að framangreind ferðamennska og veiðar samræmist illa og æskilegt sé að kynna svæðið sem friðland.

Þingmaðurinn spyr líka hvort haft hafi verið samráð við hagsmunaaðila. Ég hef leitað eftir því sérstaklega og mér er tjáð að svæðisráð Austursvæðisins hafi fundað með hagsmunaaðilum um málið, þar með talið fulltrúum úr stjórn Skotveiðifélags Austurlands og Félagi leiðsögumanna með hreindýraveiðum.

Þingmaðurinn spyr loks um hvort fram hafi komið að veiðar skyldu ekki vera bannaðar eða takmarkaðar frá því sem nú gildir. Eins og kom fram í máli mínu hér á undan var lögð áhersla á við undirbúning að stofnun þjóðgarðsins að hefðbundin landnýting gæti haldið áfram innan hans eins og verið hefur með sjálfbærum hætti. Þeirri stefnu hefur ekki verið breytt í grundvallaratriðum.

Í skýrslu nefndar um stofnun þjóðgarðs fyrir norðan Vatnajökul og í skýrslu ráðgjafarnefndar umhverfisráðuneytisins um Vatnajökulsþjóðgarð eru m.a. sýnd svæði þar sem þessar nefndir gerðu ráð fyrir að hefðbundin landnýting héldi áfram eftir stofnun þjóðgarðsins. Við það hefur verið miðað að þjóðgarðurinn í heild geti flokkast sem verndarsvæði 2 samkvæmt IUCN-skilgreiningu sem þýðir að innan við 25% af svæði þjóðgarðsins gæti verið í lægri verndarflokki en 2 og gæti því verið flokkað sem svæði með hefðbundinni landnýtingu. Nánari útfærsla á þessari skiptingu kemur fram í reglugerð og verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn þegar þar að kemur.



[14:18]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að viðurkenna að ég var ekki mikið nær eftir þetta svar og hefði fundist eðlilegt að ráðherra talaði skýrt um hverjar fyrirætlanir hennar eru hvað þetta mál varðar. Það er ljóst að ekki hefur verið haft samráð við þá aðila sem ætti að hafa samráð við, samanber ályktun sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir las hér upp áðan. Það er alveg ljóst að þau rök sem hér voru nefnd fyrir því að stöðva sjálfbærar veiðar eru mjög veik. Eins og t.d. að segja að þarna séu varplönd heiðagæsa. Það er enginn að tala um að fara að veiða á þeim tíma sem varp er. Ég held að ekki hafi hvarflað að nokkrum að gera slíkt. Við megum ekki fara þannig fram í máli sem góð sátt hefur verið um að koma í veg fyrir eitthvað sem hefur gengið prýðilega, eins og sjálfbærar veiðar á rjúpu og gæs.

Hvað varðar hreindýrin þá gilda þar (Forseti hringir.) aðrar reglur sem við getum rætt frekar. En ég hvet hæstv. ráðherra til að tala skýrt og hverfa frá þessu.



[14:20]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn og verð að viðurkenna að sú niðurstaða sem virðist koma fram í nefndaráætlun kemur mér mjög á óvart þar sem ég hef komið að undirbúningi þessa máls frá upphafi. Það var alltaf talað um eðlilega landnýtingu. Heimamenn hafa unnið mjög faglega að veiðimálum og hafa t.d. gert mjög góð og fagleg stígakort og leiðbeint mönnum inn á þau. Ég verð að viðurkenna að það veldur mér miklum vonbrigðum ef það er tilfellið með það eðlilega og góða samspil manns og lands við veiðar sem þarna hafa verið stundaðar. Ég held að það geri veg Vatnajökulsþjóðgarðs mun minni ef við náum ekki góðri sátt um þetta mál. Í ferðaþjónustu er farið að treysta mjög á veiðar þannig að ég vona að hér sé einungis um drög að ræða (Forseti hringir.) og ákveðnar breytingar verði gerðar.



[14:21]
Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég skora eindregið á hæstv. umhverfisráðherra að draga þetta til baka. Eru þetta fordómar sem eru hér á ferðinni gagnvart skotveiðinni, eða hvað er hér á ferðinni? Ég spyr: Er búið að plata skotveiðimenn? Voru þeir plataðir af því hér er talað um hefðbundnar nytjar? Það er engin breyting á stefnunni varðandi hefðbundnar nytjar, þær eiga bara að halda áfram, segir hæstv. ráðherra. Hvað eru þessar skotveiðar annað en hefðbundnar nytjar? Menn hafa staðið í þeirri trú að allir væru upplýstir um að þetta svæði hefur verið nýtt til veiða um langt skeið. Auðvitað er hefðbundið að stunda þarna veiðar á gæsum og rjúpum og hreindýrum. Þannig að óbreytt stefna varðandi hefðbundnar nytjar eru ekki önnur skilaboð til skotveiðimanna en að þeir geti verið rólegir, það eigi ekkert að breytast.

Svo kemur hérna í drögum að verndaráætlun að banna eigi veiðarnar. Rökin eru alveg ótrúlega veik eins og Skotveiðifélag Íslands bendir á. Með leyfi forseta:

„Umferð um svæðið að hausti getur valdið spjöllum á vegum og krefst aukins eftirlits og viðveru landvarða.“

Virðulegur forseti. Ég tel að stjórnvöld séu á miklum villigötum hér ef ætlunin er að fara fram af því sem ég vil kalla „óbilgirni“ í garð skotveiðimanna. Það eru ekki nógu sterk rök færð fram fyrir því að þurfa að banna veiðar á þessu svæði. Það krefst auðvitað aukins eftirlits væntanlega löggæsluaðila ef veiðar verða bannaðar þarna þannig að þetta sléttast út. Varðandi umferðina, það má taka á því með öðrum hætti.

Virðulegur forseti. Ég skora eindregið á hæstv. umhverfisráðherra að draga þetta til baka og skapa sátt um þjóðgarðinn fyrir bæði heimamenn (Forseti hringir.) og þá sem eru hér á höfuðborgarsvæðinu. Ekki hefur verið haft samráð við hagsmunaaðila, það kom greinilega fram í svari hæstv. umhverfisráðherra.



[14:23]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég bið nú hv. þingmenn að halda samhengi hlutanna til haga. Hér er verið að tala um, eins og kom fram í svari mínu, takmörkun á veiðum á mjög afmörkuðu svæði kringum Snæfell. Svæðisráð Austursvæðisins hefur lagt þetta til í drögum að verndaráætlun sem væntanlega verður lögð fyrir umhverfisráðherra í fyllingu tímans. Að tími sé kominn til þess að ég dragi eitthvað til baka samræmist ekki eðlilegu ferli þessa máls. Stjórn þjóðgarðsins er að störfum að því er varðar þessa tillögu og mun ljúka þeirri tillögugerð á grundvelli þeirra gagna sem fyrir liggja. Það er langeðlilegasta leiðin til að vinna þetta.

Hér er rætt eins og standi til að stöðva veiðar algjörlega á svæðinu. Ég vil halda því til haga að við erum að tala um mjög afmörkuð svæði þar sem mörkin eru þannig að austurmörkin fylgja austustu kvísl Jökulsár í Fljótsdal frá upptökum og norður að Eyjabakkavaði, þaðan er bein lína í vestur í Sótavistir og frá þeim yfir á toppinn á Sandfelli. Frá þeim toppi yfir á Nálshúshnjúka og síðan á toppinn á Tíutíu og línan fylgir svo Snæfellsslóð, hvar hún fer yfir Grjótlæki og að vaði yfir Langahnjúk, þar sem hún fer í topp til hans og þaðan í topp til Ketilhnjúks o.s.frv. Beint þaðan yfir í Litla-Snæfell og yfir í Eyjabakkajökul. Það skiptir máli að halda því til haga að það þjónar engum hagsmunum að afflytja það svo að hér séu einhverjar tillögur uppi um að banna veiðar á öllu svæðinu. Hér er verið að tala um mjög takmarkað svæði og verið er að gera það vegna mjög viðkvæms mosagróðurs á svæðinu. Mikilvægast af öllu við alla umsýslu í þjóðgörðum er að friður sé í sambúð manns og náttúru. Það er markmiðið.