138. löggjafarþing — 111. fundur
 26. apríl 2010.
jafnvægi í ríkisfjármálum.

[15:05]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra í framhaldi af orðum sem hæstv. forsætisráðherra lét falla í síðustu viku eftir aðalfund Samtaka atvinnulífsins þar sem fjallað var um þörfina til að ná jafnvægi í ríkisfjármálum. Það hefur verið uppi ágreiningur milli ríkisstjórnarinnar og Samtaka atvinnulífsins sem leiddi til þess að Samtök atvinnulífsins stigu frá því sameiginlega verkefni sem þar er unnið að. Ágreiningurinn hefur m.a. snúist um með hvaða hætti fjárlagagatinu er lokað. Af hálfu Samtaka atvinnulífsins hefur því verið haldið fram að ríkisstjórnin hafi lagt meiri áherslu á skattahækkanir til að ná jöfnuði en aðhaldi í ríkisútgjöldum og um þetta virðist vera fullkominn ágreiningur milli ríkisstjórnarinnar og Samtaka atvinnulífsins, sem er afar óheppilegt. Af hálfu Samtaka atvinnulífsins er því haldið fram að nú megi ná jöfnuði með því að koma hagvextinum af stað og með því að skera niður um um það bil 50 milljarða, 50 milljarða samdráttur í ríkisútgjöldum og nýr hagvöxtur muni samanlagt loka fjárlagagatinu. Öll erum við sammála um að það verður að gerast sem allra fyrst.

Þá ber svo við að hæstv. forsætisráðherra stígur fram í lok síðustu viku og kynnir til sögunnar frekari skattahækkanir, sem er auðvitað útilokað að ná samstöðu um, vilji menn ná víðtæku samstarfi svipuðu því sem gilti á síðasta ári með stöðugleikasáttmálanum. Ég er því kominn hingað til að bera upp eftirfarandi spurningu við hæstv. fjármálaráðherra: Hvaða skattar eru það sem ríkisstjórnin horfir til að hækka? Hversu hátt hlutfall skattahækkana verður það á móti niðurskurði til að loka fjárlagagatinu eins og það er núna? Er það helmingurinn sem á að fara í skattahækkanir og helmingurinn í niðurskurð, eða er það eitthvert annað viðmið sem verið er að horfa til?



[15:07]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nú veit ég ekki nákvæmlega til hvaða ummæla hæstv. forsætisráðherra hv. þingmaður er að vísa og almennt er náttúrlega betra að forsætisráðherra svari fyrir það sem forsætisráðherra hefur sagt og fjármálaráðherra fyrir það sem fjármálaráðherra hefur sagt o.s.frv. En ég er ekki að skorast undan því að ræða um ríkisfjármál og verkefni sem þar eru fram undan.

Það er alveg rétt að við eigum talsvert eftir í þeim efnum að ná jöfnuði í afkomu ríkissjóðs eins og staðan er í dag, hallinn á þessu ári stefnir í að verða um 100 milljarðar kr. Það er alveg ljóst að það þarf heilmikið að gerast til að heildarjöfnuði verði náð á árinu 2013 eins og áætlunin gerir ráð fyrir. Ég held að deilur fyrir fram um hlutföll skatta og niðurskurðar þjóni ekki miklum tilgangi heldur verði það reyndin sem mestu máli skiptir. Þegar hún er skoðuð bendir flest til þess að stærri hluti aðlögunarinnar sé á útgjaldahlið en við höfum áður reiknað með. Niðurstöðutölur fyrstu mánaða þessa árs vísa eindregið í þá átt að tekist hafi að ná jafnvel frekari samdrætti í útgjöldum en áætlunin gerir ráð fyrir og öfugt, að tekjurnar gefi heldur minna. Reyndin kann því að verða sú að þessi hlutföll verði talsvert önnur en menn áður ætluðu, en eins og kunnugt er höfðu menn haft þá viðmiðun að þetta yrði nálægt jöfnu eða kannski 55 á móti 45. Útfærslan fyrir árin 2011, 2012 og 2013 er að sjálfsögðu ekki frá gengin og efnahagsáætlunin sjálf mun sæta endurskoðun núna á fyrri hluta þessa árs. Það er reiknað með því að fyrir mitt ár verði búið að fara yfir hana og í ljósi reynslunnar og hvar við erum stödd, að móta áherslur um framhaldið þannig að vonandi geta menn á þingi, áður en það lýkur störfum í júní, rætt þetta út frá betri upplýsingum (Forseti hringir.) sem horfa til framtíðar og taka mið af því hvar við verðum þá á vegi stödd í okkar áætlun.



[15:09]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það kemur ekki á óvart að tekjurnar sem menn höfðu reiknað sér skili sér ekki í ríkiskassann og þess vegna sé hærra hlutfall aðlögunarinnar að lenda útgjaldamegin. Það var auðvitað algerlega fyrir séð að hagkerfið þoldi ekki þá miklu skatta sem kynntir voru til sögunnar.

En það vekur athygli mína að ríkisstjórnin virðist vera að vinna að fjárlagagerð fyrir árið 2011 á þeirri forsendu að enn sé svigrúm til að boða nýja skatta. Þá vaknar auðvitað sú spurning: Er verið að horfa þar meira til heimilanna en atvinnulífsins og hvert er þetta svigrúm eiginlega? Reikna menn sér í alvörunni inn einhverjar nýjar tekjur á meðan heimilin eru í jafnvondri stöðu og t.d. skýrsla Seðlabankans birtir okkur og atvinnulífið er enn þá á hnjánum? Er þetta sama ríkisstjórnin sem hefur staðið í vegi fyrir nýjum verkefnum sem geta þó skilað ríkinu nýjum tekjum og komið atvinnulífinu í gang? (Forseti hringir.) Ég held að menn séu á algerlega rangri braut ef þeir telja við þær aðstæður sem eru uppi núna að við fjárlagagerð fyrir árið 2011 sé skynsamlegt að horfa til frekari skattahækkana?



[15:11]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nú kannast ég við gamla Sjálfstæðisflokkinn. Það er ekki búið að taka neinar ákvarðanir um álagningu skatta á árinu 2011 og ekki er gert ráð fyrir neinum breytingum innan þessa árs. Það skiptir að sjálfsögðu máli, eins og hv. þingmaður nefnir, hvernig tekjustofnarnir þróast. Þau eru svolítið misvísandi skilaboðin sem koma í þeim efnum. Beinu skattarnir hafa heldur gefið eftir á sama tíma og veltuskattar eru alveg samkvæmt áætlun, sem bendir til þess að umsvifin í hagkerfinu að því leyti hafa ekki skerst, auk þess sem í þessu eru auðvitað alltaf frávik milli mánaða. Það ber því að varast að taka of mikið mark á tölum einstaka mánaðar. Páskar eru stundum í mars og stundum í apríl og fleira í þeim dúr, það skiptir máli þegar þetta er skoðað.

Horfurnar eru að mörgu leyti ágætar og alls ekki lakari en þær voru, a.m.k. þangað til að heldur fór að dökkna yfir hjá ferðaþjónustunni. En umsvifin í hagkerfinu hafa fram að þessu verið ívið meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og allar vonir stóðu til að það gæti haldist áfram. Síðan verðum við að vona hið besta.