138. löggjafarþing — 112. fundur
 27. apríl 2010.
sveitarstjórnarlög, 2. umræða.
stjfrv., 452. mál (skil á fjármálaupplýsingum). — Þskj. 779, nál. 1006.

[14:49]
Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, fyrir hönd samgöngunefndar.

Samgöngunefnd hefur fjallað um þetta mál og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur og Hermann Sæmundsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og Karl Björnsson, Gunnlaug Júlíusson og Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. [Órói í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (SVÓ): Forseti biður um hljóð í salnum.)

Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Akureyrarbæ, Bláskógabyggð, Dalabyggð, Eyþingi, Fjallabyggð, Flóahreppi, Grindavíkurbæ, Grímsnes- og Grafningshreppi, Grundarfjarðarbæ, Hvalfjarðarsveit, Ísafjarðarbæ, Mosfellsbæ, Norðurþingi, Reykjanesbæ, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga Suðurnesja, Svalbarðsstrandarhreppi, Sveitarfélaginu Hornafirði, Sveitarfélaginu Skagafirði og Vesturbyggð.

Í þessu frumvarpi er kveðið á um ársfjórðungsleg skil sveitarfélaga á fjármálaupplýsingum til afnota fyrir opinbera aðila auk Sambands íslenskra sveitarfélaga. Jafnframt er lagt til að eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga fái við framkvæmd starfa sinna óhindraðan aðgang að gögnum sveitarfélaganna.

Á fundum nefndarinnar voru ákvæði frumvarpsins rædd með hliðsjón af hlutverki eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga og lagaáskilnaði um jafnvægi í rekstri þeirra. Nefndin ræddi einnig samstarf ríkis og sveitarfélaga á sviði hagstjórnar að teknu tilliti til efnahagsástandsins og lakrar fjárhagsstöðu einstakra sveitarfélaga. Á fundum nefndarinnar kom fram að frumvarpið hefði verið unnið í góðu samstarfi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga og að það standi í tengslum við heildarendurskoðun sveitarstjórnarlaga sem nú stendur yfir. Með frumvarpinu er leitast við að efla samtímaeftirlit með fjárhag sveitarfélaga og tryggja að söfnun upplýsinga sé með samræmdum hætti og þannig framsett að upplýsingarnar gefi sem gleggsta yfirsýn yfir fjármál hvers sveitarfélags. Athygli nefndarinnar er vakin á því að reglugerð ráðherrans sem vísað er til í frumvarpinu sé ásamt kostnaðarmati enn í vinnslu.

Með frumvarpi þessu er, eins og áður kom fram, kveðið á um ársfjórðungsleg skil sveitarfélaga á fjármálaupplýsingum. Í dag er sveitarfélögum einungis skylt að senda ráðuneyti sveitarstjórnarmála ársreikninga og þriggja ára áætlun og eru því gerðar auknar kröfur til sveitarfélaga hvað þetta varðar með því frumvarpi sem hér um ræðir. Afar mikilvægt er að fyrir liggi betri og nákvæmari upplýsingar um fjárhagsstöðu sveitarfélaga en verið hefur enda er góð upplýsingagjöf forsenda þess að hægt sé að efla eftirlit með fjármálum sveitarfélaganna.

Eins og fram kemur í skýringum með frumvarpinu hefur verið rætt um það í allnokkurn tíma að skerpa á upplýsingaskilum, m.a. með það að markmiði að geta brugðist fyrr við erfiðleikum í rekstri sveitarfélaga en ekki síður til að hafa betri yfirsýn yfir fjárhagsstöðu þeirra. Í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 kom berlega í ljós að ekki voru til nægilega samræmdar upplýsingar um fjárhagsstöðu sveitarfélaga, ekki síst vegna skorts á lagaákvæðum þar um. Þrátt fyrir það tóku Samband íslenskra sveitarfélaga og Hagstofan á þeim tíma höndum saman um öflun slíkra upplýsinga en það dugði hins vegar skammt þegar frá leið, aðallega sökum skorts á lagaákvæðum um skil á fjármálaupplýsingum sveitarfélaga að mati þeirra sem að því máli komu.

Samband íslenskra sveitarfélaga og samgönguráðuneytið telja afar brýnt að koma þessum málum í betra horf en verið hefur og er frumvarp það sem hér um ræðir lagt fram í þeim tilgangi. Nú stendur yfir endurskoðun á sveitarstjórnarlögum þar sem m.a. verður tekið á þeim þáttum sem þetta frumvarp fjallar um. Það er hins vegar samdóma álit Sambands íslenskra sveitarfélaga og samgönguráðuneytisins að ekki megi bíða lengur eftir lagasetningu vegna fjármálaupplýsinga sveitarfélaga og því er rétt að flýta því sem kostur er. Það er því full samstaða á milli ráðuneytisins annars vegar og Sambands íslenskra sveitarfélaga hins vegar um frumvarp þetta og einnig hafa þau sveitarfélög sem sent hafa samgöngunefnd umsagnir um málið tekið undir mikilvægi þess að afgreiða það með þeim hætti sem hér er kveðið á um.

Samgöngunefnd er einnig einróma í afstöðu til þessa frumvarps og mælir með því að það verði samþykkt eins og það liggur fyrir.



[14:54]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig að hv. þingmaður vill auka aga hjá sveitarfélögum og hafa allt uppi á borðum varðandi skuldbindingar þeirra en ég minnist þess að síðastliðið sumar vildi hv. þingmaður samþykkja Icesave blindandi án þess einu sinni að hafa séð það.

Ég spyr hv. þingmann: Hvernig fer þetta saman?



[14:54]
Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gleðst yfir því að hafa glatt hv. þingmann hér áðan, hins vegar segir hann sem oft áður ósatt um það að ég hafi lagt blessun mína yfir mál sem ég hafði hvorki kynnt mér né séð. Það er ósatt hjá honum og ég óska eftir því að hann leiðrétti það í það minnsta hvað það mál sem hann nefndi hér varðar. Ég hef ekki lagt í vana minn að styðja eða hafna málum sem ég þekki ekki, kannast ekki við eða hef ekki kynnt mér og geri ekki ráð fyrir að hv. þm. Pétur H. Blöndal geri það heldur, enda er hann ekki þekktur að því.



[14:55]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður lagði sem varaformaður fjárlaganefndar mörgum sinnum til að Icesave yrði samþykkt, á öllum stigum málsins, alveg þar til að sumarþingið breytti frumvarpinu. [Frammíköll úr sal.] Þegar þetta var samþykkt í viðkomandi (Gripið fram í.) þingflokkum höfðu menn ekki séð það. (Gripið fram í.) Það var mikill fjöldi (Forseti hringir.) gagna …

(Forseti (SVÓ): Forseti biður þingmenn um að leyfa þingmanninum að tala.)

… sem menn höfðu ekki séð en komu löngu seinna í ljós.



[14:56]
Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég eiginlega veit ekki hvernig ég á að svara hv. þm. Pétri Blöndal hvað þetta varðar. Ég er nokkuð allsgáður á þingflokksfundum Vinstri grænna og mér vitanlega hefur hann ekki setið þá fundi og ég veit ekki til þess að hann hafi þau gögn undir höndum sem þar hafa verið lögð fram, né að í hans eyru hafi hljómað þær raddir sem þar hafa talað varðandi það mál sem hann nefndi, Icesave-málið, sem hann hafði ekki pólitískan kjark til að afgreiða hér á þingi frekar en samflokksmenn hans sem komu þó þjóðinni í þann vanda sem Icesave-málið er. (Gripið fram í.) Það ættu fyrrverandi stjórnarþingmenn að taka til sín, sérstaklega úr Sjálfstæðisflokknum. Síðast í morgun kom hér hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins og talaði um þann vanda sem ríkisstjórnin hefði komið fólkinu í landinu í og hefði ekki burði til að leysa.

Virðulegi forseti. Þeir sem tala svona eru veruleikafirrtir og vita ekki í hvaða heimi þeir lifa, þeir gera sér ekki grein fyrir veruleikanum eins og hann blasir við þeim. Þeir lifa allt öðru lífi en aðrir í landinu. Það er ekki núverandi ríkisstjórn sem kom fólkinu í þann vanda sem það er í. Það var fyrst og fremst ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins. Þingmenn þess flokks standa í ræðupúlti og afsala sér allri ábyrgð af eigin gjörðum og þykjast að auki að vera þess umkomnir að geta túlkað það sem fer fram á þingflokksfundum annarra flokka.



[14:58]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar umræðu sem var hér áðan vil ég minna hv. þingmenn á að nú er samkomulag á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um Icesave-málið og við eigum að halda því þar. Ég verð að viðurkenna eftir að hafa hlustað á þessi orðaskipti að við tökum ekki mikið mark á því sem stendur í rannsóknarskýrslunni en þar segir að við ættum að færa umræðuna hér á Alþingi upp á eitthvert annað plan en oft áður. Ég held að við eigum öll að einblína á það og horfa til okkar sjálfra til að reyna að komast aðeins áfram í þeirri vinnu. Að lokum vil ég segja að Icesave-málið er í þeim farvegi að sátt er á milli stjórnar og stjórnarandstöðu og við skulum reyna að halda því þar.

Þá ætla ég að snúa mér að því máli sem er til umræðu, þ.e. frumvarpi til breytinga á sveitarstjórnarlögum, en tilgangur frumvarpsins er sá að styrkja eftirlitsnefnd sveitarfélaga. Um þetta mál ríkir mikil samstaða í samgöngunefnd. Ég stend að meirihlutaáliti samgöngunefndar, við sem vorum viðstödd þegar málið var tekið út stöndum öll heilshugar að því. Ég verð að segja af þessu tilefni að það var til mikillar fyrirmyndar hvernig hæstv. samgönguráðherra og samgönguráðuneytið unnu þetta mál í samvinnu við sveitarfélögin í landinu, því enginn ágreiningur er á milli sveitarfélaganna og ráðuneytisins um það hvernig standa skuli að því sem hér er gert. Það tel ég til fyrirmyndar og eftirbreytni fyrir önnur ráðuneyti í mörgum málum.

Í stuttu máli færir þetta frumvarp eftirlitsnefnd sveitarfélaganna betri upplýsingar um stöðu sveitarfélaganna í landinu. Hingað til hefur eftirlitsnefndin unnið með gamlar upplýsingar og þar af leiðandi oft og tíðum ekki haft tækifæri til þess að grípa inn í og reyna að leiðbeina sveitarfélögunum ef í óefni stefnir. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir ársfjórðungslegum skilum til eftirlitsnefndarinnar, sem gerir að sjálfsögðu starf nefndarinnar mikið markvissara og árangursríkara í framtíðinni.

Í sambandi við þetta vil ég nefna að það er líka mikilvægt að fara lengra og breyta samskiptum ríkis og sveitarfélaga og ég veit að sú vinna er í gangi, að réttir tekjustofnar fylgi verkefnum þegar þau eru flutt frá ríki til sveitarfélaga og að þær vinnureglur verði settar að þegar búið er að flytja verkefnin verði kostnaður við þau reiknaður til að fá niðurstöðu um hve mikið af tekjustofnum þurfa að fylgja þeim yfir. Ég tel, virðulegi forseti, að hræðslan við að þeir tekjustofnar sem þurfa að fylgja verkefnunum geri það ekki sé ein ástæða þess að sveitarfélög hafa ekki verið tilbúin til að taka við fleiri verkefnum frá ríkinu en raun ber vitni.

Ég vonast til þess að sú vinna sem fram undan er verði í samræmi við þá vinnu sem við erum hér með, að menn komist að samkomulagi.

Ég vil líka minna á það, virðulegi forseti, og er óþreytandi við það, að á síðasta ári eða á síðustu mánuðum hefur ríkið fært til sín 2,5 milljarða af tekjum sveitarfélaganna, annars vegar í formi tryggingagjalds og hins vegar í formi lagafrumvarps sem var flutt af hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra í haust. Því verður að breyta. Ég ætla að minna á það að skriflegt samkomulag er á milli stjórnvalda og sveitarfélaga um að reikna kostnað við þau lagafrumvörp sem eru lögð fram á Alþingi, til að menn geti gert sér grein fyrir því hvaða áhrif viðkomandi frumvörp hafa á tekjustofna ríkis og sveitarfélaga.

Það er mjög mikilvægt að því samkomulagi verði fylgt eftir. Ég hef spurt sjálfan mig að því hvort ekki verði nánast að setja þetta í lög, því þó að skrifað samkomulag sé á milli ríkis og sveitarfélaga þá er ekki farið eftir því.

Ég vil benda á það, virðulegi forseti, að í þessu frumvarpi er líka ætlast til þess að ríkið og eftirlitsnefndin nái utan um heildarskuldbindingar sveitarfélaganna, skuldbindandi samninga og annað sem sveitarfélögin hafa gert, þannig að við höfum réttu myndina af stöðu sveitarfélaganna. Það er mjög mikilvægt að það sé gert.

Þá verð ég að benda á það, virðulegi forseti, að á Alþingi Íslendinga er verið að setja lög sem skuldbinda ríkissjóð fram í tímann, hvort sem þau eru um tónlistarhús, hugsanlegar vegaframkvæmdir eða byggingu háskólasjúkrahúss, nýs Landspítala. Ríkisvaldið er í raun og veru að feta inn á þessa braut líka. Ég tel mjög mikilvægt að ríkið setji inn í fjárlög sín sama eftirlit og sömu skilyrði gagnvart sjálfu sér, til að ekki sé verið að setja einhverjar reglur um hvernig sveitarfélögin eigi að vinna en ríkið fari síðan sjálft í öfuga átt.

Að endingu, virðulegur forseti, þá fagna ég þessu frumvarpi og tel það til mikilla úrbóta og mun að sjálfsögðu samþykkja það hér á eftir.



[15:03]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég er sammála honum í því að það þurfi að taka á þessum duldu framkvæmdum sem menn eru að fara í, eins og menn ætla að fara í gegn með háskólasjúkrahúsið, eins og Harpa er byggð, Egilshöll líka og sundlaugin á Álftanesi. Ég spyr hv. þingmann hvort það hafi komið til tals í nefndinni að banna hreinlega sveitarfélögunum að stofna til skulda, bara algjörlega, og feta þá í kjölfar mjög margra heimila á landinu sem hafa lært af hruninu og eru byrjuð að spara fyrir útgjöldum. Það verði sem sagt framtíðarstefnan að menn eigi yfirleitt fyrir öllum útgjöldum sem þeir fara í, jafnt sveitarfélög, einstaklingar, heimili, fyrirtæki og ríkið.



[15:04]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það komst ekki til tals í nefndinni, svo ég svari hv. þm. Pétri Blöndal beint, að banna sveitarfélögunum að taka lán fyrir framkvæmdum. Ég er persónulega þeirrar skoðunar að ekki þurfi að gera það frekar en með ríkið, ef menn hafa það að markmiði að sjá til lands. Að gefnu tilefni nefni ég að það kom hins vegar til umræðu í nefndinni, var rætt lauslega og verður rætt líka áfram í áframhaldandi vinnu á milli sveitarfélaganna og ríkisvaldsins í framtíðinni, hvort menn þurfi að skoða að sveitarfélögin taki hugsanlega ekki erlend lán. Það tel ég mjög koma til greina. Sveitarfélögin eru með tekjur í íslenskri mynt, íslenskum krónum eins og við vitum, og það kemur mjög hart niður á þeim sveitarfélögum sem eru ekki með t.d. útflutningsgreinarnar mjög sterkar sem skiluðu þá meiri tekjum þegar krónan féll eins og við þekkjum núna. Því tel ég að menn þurfi að skoða það mjög vandlega.

Það er líka annað sem gerðist þar, og ég þekki það sjálfur sem sveitarstjórnarmaður, að mörg sveitarfélög tóku erlend lán á þeim tíma sem krónan var að styrkjast. Þá sýndu þau sveitarfélög mjög góða afkomu vegna þess að krónan hafði styrkst gagnvart erlendum gjaldmiðli sem þýddi að það var betri rekstrarafkoma hjá sveitarfélögunum. Það var mjög bagalegt að mínu viti fyrir þau sveitarfélög sem tóku ekki erlend lán. Í því sveitarfélagi sem ég sat í bæjarstjórn fyrir og var í forsvari fyrir tókum við engin erlend lán, enda var það sveitarfélag með engin erlend lán þegar hrunið varð. Við okkur var hins vegar sagt: Þið sýnið mjög slaka rekstrarafkomu, ef þið hefðuð tekið erlend lán væruð þið með miklu betri rekstrarafkomu en núna sést í bókum sveitarfélagsins.

Ég tel þetta nokkuð sem menn verða að ræða mun frekar og nánar í samgöngunefnd og að sjálfsögðu líka á sviði sveitarstjórnarmála.



[15:06]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar upplýsingar um starfið í nefndinni. En skuldir allra ríkja í heiminum eru að meðaltali 0 og skuldir allra einstaklinga í grófum dráttum eru líka að meðaltali 0, þ.e. þeir eiga jafnmikið og þeir skulda. Allt sem er lánað út hefur einhver annar sparað í einhverju formi. Ég sé ekki af hverju Íslendingar ættu alltaf að vera skuldamegin í lífinu. Af hverju fara þeir ekki í það eins og sumar aðrar þjóðir að eiga fyrir öllum skuldum? Ég vil að menn taki þá stefnu að eiga fyrir skuldum nema kannski íbúðarhúsnæði sínu, en að kaupa t.d. ekki bíl nema eiga fyrir honum, geti staðgreitt hann. Þannig hefur þetta víða verið. Öll okkar vandræði með gjaldmiðilinn og hvað sem er eru vegna þess að við erum svo skuldamegin í lífinu. Við erum ekki sjálfstæð.

Íslendingar ættu að taka þessa stefnu og hluti af því er að sveitarfélögin eigi fyrir þeim útgjöldum sem þau fara í, annars hafa þau bara ekki efni á því. Hins vegar mætti hugsanlega leyfa þeim að hækka útsvarið tímabundið ef þau ætla í stórar framkvæmdir, en þá vita menn af því og geta safnað sér fyrir leikskóla eða einhverjum framkvæmdum sem sveitarfélagið ætlar að fara í.

Ég held að Íslendingar þurfi að snúa við blaðinu. Í 50 eða 60 ár hafa Íslendingar verið skuldamegin í lífinu og borgað heljarinnar vexti til annarra þjóða sem hafa sparað og lánað okkur peninga. Við eigum að snúa við blaðinu og fara að eiga fyrir því sem við eyðum í.



[15:08]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir að brýna bæði mig og aðra til þess að sýna ráðdeild. Það er auðvitað rétt sem hv. þingmaður segir, það er mjög gott ef sveitarfélögin, einstaklingarnir eða fyrirtækin eiga fyrir öllu sem þarf að gera. Það er samt þannig, virðulegi forseti, að sveitarfélögin geta lent í því að þurfa að fara í framkvæmdir sem þau eiga kannski ekki fyrir þá stundina og ef menn sýna ráðdeild í því er það mjög gott. Það er mjög mikilvægt að það sé gert, enda er það frumvarp sem við erum að ræða núna einmitt þáttur í því að efla eftirlit með sveitarfélögunum og eins líka að menn sjái fram úr þeim skuldbindingum sem þeir fara út í. Við þekkjum hér vandamál eins sveitarfélags sem fór mjög óvarlega í sínum framkvæmdum sem leiddi til mikillar kjaraskerðingar við íbúana, útsvarshækkana samhliða því og annars sem fylgir þeim ákvörðunum.

Eigi að síður verðum við að fara af mikilli varfærni í þessa umræðu. Mörg sveitarfélög fara mjög varlega í fjárskuldbindingum sínum og áætlunum en samt getur komið til þess að menn verði að taka til þess lán. Þá verða menn líka að gera það með þeim hætti að þeir sjá fram á að þeir geti staðið við afborganir. Það hefur líka verið umræða um það í samgöngunefnd hvort það væri hugsanlegt að menn settu einhverjar skorður við því, eins og hv. þingmaður kom hér inn á. Menn gætu hækkað útsvarið í ákveðinn tíma ef mjög dýrar framkvæmdir stæðu fyrir dyrum. Þá mundi hugsanlega þurfa ákveðið vægi íbúanna til að samþykkja þær, þ.e. kannski væri ráð að hafa íbúakosningu um það, sem væri mjög dýrt, til að örfáir einstaklingar gætu ekki skuldbundið heilt sveitarfélag. Auðvitað þurfum við að taka þessa umræðu dýpra og meira og það verður gert í hv. samgöngunefnd.



[15:10]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil aðeins blanda mér í þessa umræðu um breytingu á sveitarstjórnarlögum sem ég held að sé ákaflega mikilvæg. Eftirlitshlutverk eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga hefur ekki verið nógu öflugt, nefndin hefur ekki haft þau tæki sem til hefur þurft til þess að geta raunverulega fylgst með og skoðað hvernig fjármál sveitarfélaganna standa. Ég sé hins vegar fyrir mér að þrátt fyrir þá lagabreytingu sem við erum að tala um hér muni ítarlegri leiðbeiningar þurfa að koma til á næstu mánuðum og missirum, kannski ekki endilega frá Alþingi heldur frá ráðuneyti sveitarstjórnarmála, um það nákvæmlega hvernig sveitarfélög megi skuldsetja sig, hvaða mörk eigi að vera til að mynda á því hversu langt þau megi ganga í skuldsetningu.

Eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson kom inn á er að sumu leyti kyndugt að fáeinir einstaklingar í tiltekinni sveitarstjórn geti tekið fjárhag eins sveitarfélags til margra ára í gíslingu með einhverjum tilteknum ákvörðunum sem íbúarnir hafa kannski aldrei fengið að kjósa um. Að þessu leyti til er mjög mikilvægt að hugleiða það hvort leyfa eigi sveitarfélögunum í meira mæli að hafa svigrúm í því hvernig þau taka gjöld og þá jafnvel að íbúarnir komi með beinum hætti að slíkum ákvörðunum.

Ég nefni þetta vegna þess að ég hafði á námsárum mínum tækifæri til þess að búa í sveitarfélagi þar sem þessi háttur er hafður á, þ.e. íbúarnir fengu að taka sjálfir um það ákvarðanir hvort þeir vildu t.d. hækka útsvar til tiltekinna framkvæmda um stundarsakir eða í lengri tíma. Til þess að koma með mótrökin líka bendi ég á að það er ekki alveg alltaf sjálfsagt að hækka útsvar í nokkur ár til að láta þá sem búa í sveitarfélaginu núna greiða fyrir mannvirkin sem eiga kannski að vera áratug eða marga áratugi fram í tímann.

Ég held að þetta frumvarp sé afar mikilvægt og fagna því eindregið, og fagna í rauninni að það skuli vera komið í gegn núna. En ég hlakka líka til þegar heildarendurskoðunin á sveitarstjórnarlögunum verður komin í gegn og vænti þess að þeir þættir sem ég hef nefnt hérna verði að einhverju leyti skýrðir enn frekar í þeirri vinnu.



[15:14]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Forseti. Við ræðum breytingu á sveitarstjórnarlögum sem varða fjármál sveitarfélaga og svokölluð ársfjórðungsuppgjör sveitarfélaga til þess að eftirlitsnefndin verði betur í stakk búin til að fylgjast með fjármálum sveitarfélaga. Ég sagði í fyrri ræðu minni við 1. umr. um þetta mál að stundum þætti mér löggjafinn sýna æðimikinn tvískinnung í lagasetningu. Hér er verið að setja lög til að kalla eftir upplýsingum og uppgjöri frá sveitarfélögum á meðan löggjafinn sjálfur á í mestum vandræðum innan fjárlaganefndar við að fá upplýsingar um það hvernig stofnanir ríkisins standa hverju sinni vítt og breitt um landið. Þetta er áþekkt og kynjakvóti í stjórnum einkafélaga úti í bæ meðan ríkisstjórnin getur ekki séð sóma sinn í að halda jafnréttislög við skipun stjórna í þau fyrirtæki sem hún hefur umráð yfir. Það ríkir pínulítill tvískinnungur í löggjafanum öðru hvoru. Það er hins vegar ljóst að eftirlit með fjármálum sveitarfélaga, eins og eftirlit með rekstri ríkisstofnana, er að sönnu nauðsynlegt.

Ég vil aðeins varpa því inn í umræðuna hvernig menn ætla að skoða þessi ársfjórðungsuppgjör. Ætla menn að horfa í ársfjórðungsuppgjöri eingöngu til þess hvað stendur í A-hluta, þar sem eru tekjur og gjöld, A-hluta sem er raunverulegur rekstur sveitarsjóðs, og hvort tekjur sveitarfélagsins standa undir þeim gjöldum sem sveitarfélögin standa frammi fyrir? Það er í raun og veru mælikvarði á rekstur sveitarfélaganna. Síðan erum við með B-hluta fyrirtæki. Svo erum við með eignarsjóð sem oft heldur utan um eignir sveitarfélagsins. Eignarsjóður er oftar en ekki sá sem tekur lán til nýbygginga og það kemur ekki niður á og sér ekki stað í A-hluta sveitarfélaganna. Hvernig ætla menn að bera saman þessi ársfjórðungsuppgjör til að geta skoðað hvort sveitarfélagið stendur verulega illa? Á líka að taka þau sveitarfélög sem eiga öflug B-hluta fyrirtæki sem geta greitt arð inn í A-hlutann þannig að það sjáist ekki í raun hvort tekjur standi undir gjöldum heldur kemur arður frá fyrirtækjum inn til að rétta af A-hlutann? Á að taka þetta með inn þegar verið er að skoða og leggja mat á stöðu sveitarfélaganna hverju sinni?

Allt er þetta þarft, og vissulega þarft að það sé virkt eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Það hefur sýnt sig að sums staðar hafa sveitarfélög farið fram úr sér. Sums staðar hafa þau einfaldlega ekki ráðið við þær fjárfestingar sem þau hafa farið í. Hvernig ætla menn í þeirri endurskoðun sem á sér stað í sveitarstjórnarlögum að meðhöndla t.d. þær fasteignir sveitarfélaganna sem eru ekki eign sveitarfélaganna heldur sem þau hafa selt frá sér og eru síðan leigjendur að, eins og t.d. skólabyggingum í sveitarfélögum, og við vitum að ekki er hægt að ganga að í raun? Hvernig ætla menn að meðhöndla slíka langtímaleigusamninga í árshlutauppgjöri til að meta stöðu sveitarfélagsins? Hvernig ætla menn að fara í allar þessar leikfimisreikniæfingar til að hægt sé í raun að bera sveitarfélögin saman til þess að eftirlitsnefndin hafi eitthvað til að skoða til að segja til um hvort vá sé fyrir dyrum eður ei?

Hafa menn íhugað þetta ferli allt saman? Eða eru menn að bregðast við með því að kalla eftir árshlutauppgjöri bara vegna nýkominna vanda einstakra sveitarfélaga? Þegar menn fara í breytingu á löggjöf verða þeir að svara því með hvaða hætti þeir ætla síðan að nýta sér þá breytingu sem verið er að fara í.

Ég vænti þess að allar þær spurningar sem ég hef varpað hér fram hafi með einhverjum hætti komið fram í nefndinni og menn hafi kallað til aðila sem hafa svarað einhvern veginn. Þegar menn fara af stað — og er það skýrara en nokkru sinni fyrr með útkomu þeirrar rannsóknarskýrslu sem við höfum nú undir höndum — og þar til stjórnvaldsákvörðun er tekin þurfa að liggja fyrir skýrir verkferlar svo það sé ljóst hvernig ferlið var hugsað og hvernig það eigi síðan að fara í framkvæmd. Flýtum okkur hægt og höfum þessa hluti á hreinu þegar við setjum lög sem við ætlum að sjálfsögðu öðrum að fara eftir. Höfum verklagsreglurnar skýrar.

Frú forseti. Þetta var innlegg frá gömlum sveitarstjórnarmanni vegna þess að sveitarfélögin eru kjölfesta samfélagsins. Án þeirra væri ekkert. Þetta er eins og að fjölskyldan er hornsteinninn eins og stundum er sagt en æðra stjórnstigið, löggjafarvaldið Alþingi, gleymir því stundum hversu mikilvægt sveitarstjórnarstigið er í landinu.



[15:20]
Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir innlegg hennar í þessa umræðu sem var þarft og ágætt þó að ég áttaði mig ekki á því í upphafi ræðu hennar í hvaða vandræðum fjárlaganefnd ætti með að afla upplýsinga sem hún óskaði eftir að fá. Hv. þingmaður útskýrir það kannski frekar á eftir. Ég kannast ekki við að fjárlaganefnd hafi átt í erfiðleikum með að fá upplýsingar sem hún biður um, hvorki varðandi fjárhagsstöðu sveitarfélaga, ríkisins né annars, en það kann þó að hafa farið fram hjá mér.

Markmiðið er auðvitað að ná yfirsýn yfir fjármál sveitarfélaga, A-hlutann, tekjur og gjöld, þ.e. rekstrarhlutann, eins og hv. þingmaður nefndi hér áðan, en ekki síður varðandi skuldastöðu sveitarfélaga, hvar sveitarfélögin hafa safnað skuldum, hverjar skuldirnar eru og að auki hverjir möguleikar sveitarfélaga eru til að standa undir þeim skuldbindingum.

Við stöndum frammi fyrir því og höfum rætt í samgöngunefnd þann hluta af skuldbindingum sveitarfélaga, þ.e. eignir sem sveitarfélögin þurfa að leigja til að geta rækt sitt lögbundna hlutverk rétt eins og skóla, leikskóla og önnur mannvirki sem sveitarfélög mörg hver hafa selt frá sér og þurfa síðan að leigja dýrum dómum og hafa þar af leiðandi mörg m.a. komist í þann vanda sem þau eru í núna.

Markmiðið er að ná heildarsýn yfir fjárhagsstöðu sveitarfélaga með eins víðtækum hætti og mögulegt er. Það er sameiginlegt markmið sveitarfélaganna og ráðuneytisins (Forseti hringir.) að það verði gert (Forseti hringir.) þannig að hægt sé að ná betri yfirsýn yfir stöðu þeirra almennt, sem ekki er hægt að gera í dag.



[15:23]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Val Gíslasyni andsvarið. Það sem ég átti við í upphafi var að fjárlaganefnd ber að hafa eftirlit með fjárlögum. Ríkisstofnanir fara árlega fram úr fjárlögum. Ef jafnvirkt eftirlit ætti að vera með stofnunum ríkisins af hálfu fjárlaganefndar ætti fjárlaganefnd að geta kallað eftir ársfjórðungsuppgjöri stofnana til þess að geta fylgt því eftir og skoðað hver staðan er á sama hátt og kallað er eftir árshlutauppgjöri sveitarfélaganna. Það er það sem ég átti við þegar ég talaði um tvískinnunginn. Mér finnst stundum eins og löggjafinn ætli öðrum annað en það sem hann kannski gerir sjálfur.

Ég þakka hv. þingmanni upplýsingarnar um hvernig nefndin og hæstv. sveitarstjórnarráðherra hyggst fara í þetta verkefni og vinna til þess að gæta fyrst og síðast hagsmuna sveitarfélaganna þannig að þeirra sé að sinna lögbundnum hlutverkum sínum og ana ekki út í óráðsíu að óathuguðu máli, ef svo mætti að orði kveða, þannig að sveitarfélögin í landinu standi sem best héðan í frá.



[15:24]
Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Fjárlaganefnd hefur til þess vald og getur kallað eftir upplýsingum hvenær sem hún vill til stofnana og ráðuneyta og óskað eftir að Ríkisendurskoðun leiti eftir upplýsingum, gefi álit á útgjalda- og rekstrarhliðum ráðuneyta og stofnana. Það hefur ekki verið gert nógu ítarlega á undanförnum árum og þurfum við að taka okkur á. Vandinn felst aðallega í að við höfum ekki nýtt okkur þau tæki og þann búnað sem við höfum, hvorki í fjárlaganefnd né annars staðar, til að afla slíkra upplýsinga og fylgja betur eftir því að fjárlögum sé t.d. fylgt. Í því ætlum við að bæta okkur og ég held að full samstaða sé um það hér á Alþingi og í fjárlaganefnd og í þeim nefndum sem hafa með þau mál að gera, bæði ríkis og sveitarfélaga.

Fram kom á fundum samgöngunefndar í umræðu um þetta mál að nánari útfærsla á því, þ.e. um hvaða upplýsingar verður beðið, á hvaða formi og hvernig með þær verður farið, muni fylgja í reglugerð með frumvarpinu þegar að því kemur. Samstaða er á milli sveitarfélaganna, Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðuneytisins um að haga málum með þeim hætti. Nokkuð góð samstaða ef ekki algjör er um hvernig sú vinna fer fram og aðeins um útfærsluatriði að ræða hvernig reglugerðin verður eftir því sem okkur skildist á þeim aðilum sem til okkar komu og ræddu þetta.

Vonandi verður frumvarpið að lögum eins og hér hefur verið lagt fram og mælt með þannig að hægt sé að fara að vinna eftir því sem allra fyrst og kalla eftir upplýsingum til að ná betur utan um skuldastöðu og fjármál sveitarfélaga.