138. löggjafarþing — 116. fundur
 30. apríl 2010.
frumvarp um ein hjúskaparlög.

[12:17]
Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg):

Frú forseti. Í gær fór fram umræða á prestastefnu um lagafrumvarp hæstv. dóms- og mannréttindamálaráðherra um ein hjúskaparlög. Tillaga var lögð fram þar sem lýst var yfir stuðningi við frumvarpið en hún var ekki afgreidd. Á sama veg fór með tillögu Geirs Waage um að Alþingi létti umboði til vígslu í skilningi hjúskaparlaganna af prestum þjóðkirkjunnar.

Sú gríðarlega og brýna réttarbót sem frumvarp hæstv. ráðherra er að mínu mati, hefur því augljóslega vafist fyrir kirkjunnar mönnum á þessari prestastefnu. Því langar mig til að nýta tækifærið og spyrja hæstv. dóms- og mannréttindamálaráðherra hver framgangur frumvarpsins er og velta því upp hvort hæstv. ráðherra telji eðlilegt að vígslumönnum þjóðkirkjunnar sé heimilt að synja einstaklingum um hjónavígslu á grundvelli kynhneigðar.

Borgaralegur vígslumaður getur ekki skorast undan því að vígja fólk í hjúskap. Ég sé fyrir mér fyrirsögnina: „Fulltrúi sýslumanns neitar að gifta samkynhneigt par“, og sennilega málaferli í kjölfarið. Opinberum starfsmönnum er sem betur fer ekki í sjálfsvald sett hvort þeir inni af hendi þjónustu við þá sem til þeirra leita. Sumir munu eflaust telja mig teygja mig ansi langt í samanburðinum, að það sé vissulega eðlilegt að einstök trúfélög setji sér viðmiðanir og að stjórnvöld geti ekki þvingað trúfélög til að ganga gegn trúarsannfæringu sinni. Gott og vel. Það er þá verðugt umhugsunarefni hvort eðlilegt sé að starfsmenn þjóðkirkju, kirkju sem er sérlega studd og vernduð af íslenska ríkinu, geti mismunað íslenskum þegnum, meðlimum í þjóðkirkjunni, á grundvelli kynhneigðar. Viljum við að sú þjóðkirkja hafi vígsluheimild yfir höfuð?

Að endingu langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi velt því fyrir sér í ljósi fyrrgreindra ástæðna að heimild til að vígja fólk til hjúskapar verði eingöngu á hendi borgaralegra stofnana.



[12:19]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-):

Virðulegi forseti. Í umræðum um ein hjúskaparlög kom skýrt fram að í því frumvarpi er ekki gert ráð fyrir skyldu presta til að vígja hjónabönd ef það er vegna þess að þeir telja sig vegna trúarsannfæringar ekki geta gert það. Þess vegna er það látið í hendur trúfélaga hvernig þau standa að þessum málum. Ég gerði mér grein fyrir því þegar frumvarpið var lagt fram að það gætu orðið deilur um þetta. Ég hvatti til almennrar umræðu og stend við það en kjarni málsins er þessi: Ein hjúskaparlög fyrir alla, brýn réttarbót, jafnrétti og jafnræði. Hvernig þjóðkirkjan ætlar að standa að þessum málum verður hún að gera upp við sig. Ég vakti sérstaklega athygli á því í umræðunni á þinginu hvort Alþingi mundi inna þjóðkirkjuna eftir skoðunum sínum um þetta. En ég tel að viðbrögðin við þessu komi ekki algerlega á óvart þótt ég hefði óneitanlega kosið að þjóðkirkjan, sem hefur samfélagslegum skyldum að gegna, hefði tekið jákvæðar í málið.



[12:21]
Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dóms- og mannréttindamálaráðherra svarið. Þegar umræða um réttindi og skyldur þjóðkirkjunnar fer fram er fólk æðioft beðið um að fara varlega í sakirnar, forðast sleggjudóma og vera þolinmótt því að þjóðkirkjan þurfi tíma til að vinna í sínum málum, skoða trúarsetningar sínar, og að betra sé að breytingar sem þessar verði innan frá fyrir tilstuðlan presta og með þeirra stuðningi en ekki með þvingunum af hálfu löggjafarvaldsins.

Ég get vel skilið þessi sjónarmið hvað sumt varðar en ég get ekki skilið það og liðið að á sama tíma og þjóðkirkjan er studd og vernduð af íslenska ríkinu megi hún viðhafa mismunun gagnvart minnihlutahópum. Það misbýður réttlætiskennd minni.



[12:21]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-):

Virðulegi forseti. Frumvarpið er einmitt lagt fram í þessari mynd vegna þess að ég hef ekki trú á því að rétt sé að beita þvingunum í þessu máli. Ég tel einmitt að umræða og rökhyggja leiði til þess að það verði almennt þannig að samkynhneigð pör geti farið í þjóðkirkju eða aðrar kirkjur og fengið þar hjónavígslu. Ég vil líka árétta að ég tel ekki rétt að taka vígsluvaldið af trúfélögunum. Ég tel að þar sé of langt gengið og í rauninni það langt gengið að ekki sé tilefni til þess ef við horfum á það mál sem fyrir þinginu er vegna þess að það gerir einmitt ráð fyrir að þetta sé ekki skylda.