138. löggjafarþing — 116. fundur
 30. apríl 2010.
bifreiðalán í erlendri mynt.

[12:30]
Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hefur lýst því yfir nokkuð margoft á undanförnum vikum að von sé á tillögum af hálfu ráðuneytisins til að leysa úr því vandamáli sem skapast hefur vegna bílalána sem tekin hafa verið hér í stórum stíl. Fjölmargar íslenskar fjölskyldur hafa tekið bílalán í erlendri mynt og greiða nú af þeim gríðarlega háar afborganir.

Hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hefur lýst því yfir að hann hafi verið í samstarfi við fjármögnunarfyrirtækin en skili það samstarf ekki tilætluðum árangri sé von á lagasetningu af hálfu ráðherra til þess að hjálpa því fólki sem er að sligast undan þessum bílalánum.

Mig langar til að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, vegna þess að núna í gær eða fyrradag kom það fram í máli hans að von væri á tillögum af hans hálfu og þær yrðu jafnvel kynntar á vettvangi ríkisstjórnarinnar, gott ef það var ekki í morgun. Mig langar, vegna þess að þetta hvílir mjög þungt á mörgum heimilum, að spyrja hæstv. ráðherra að því hvað þessari vinnu líður, hvort von sé á einhverjum slíkum tillögum eða hvort ráðherrann hafi gefist upp eða ekki náð því samkomulagi sem hann taldi sig hafa náð gagnvart þessum fjármögnunarfyrirtækjum. Og jafnframt, hvernig hann ætlar sér að bregðast við gagnvart kröfuhöfum vegna þessara lána ef til lagasetningar kemur? Um leið og þörf er á að takast á við þennan vanda verður maður líka að gera sér grein fyrir því að það er ekki alveg augljóst hvernig leyst verður úr þessu máli þótt mér hafi þótt hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra oft tala ansi frjálslega um að þetta sé hægt að leysa með lagasetningu með einföldum hætti.

Það er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra lýsi því þá hér hvort von sé á slíkum aðgerðum og hvenær af þeim verður. Mig langar til þess að fá nokkuð skýrt svar við þessari fyrirspurn.



[12:32]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mér mikil ánægja að geta upplýst hv. þingmann og þingheim allan um að ég lagði fram frumvarp í ríkisstjórn í morgun um þetta mál og fékk það samþykkt þar til framlagningar í þingflokkunum. Við höfum, eins og hv. þingmaður rakti ágætlega, verið í samtölum við eignarleigufyrirtæki um eðlilega umbreytingu þessara lána og verið að reyna að höfða til fyrirtækjanna, að það sé þeirra hagur að reyna að koma þessum lánum í það horf að samhengi verði á milli skuldsetningarinnar sem fólk glímir við og þeirra eigna sem að baki liggja. Þar með yrði tjóninu af umbreytingu lánanna sem orðið hefur vegna gengisfallsins skipt milli fyrirtækjanna og skuldara með réttlátum hætti.

Það hefur verið nokkuð misjafn gangur á því hvernig viðtökur hafa verið hjá eignarleigufyrirtækjunum. Ég tek eftir því að í þessari viku hefur komið fram yfirlýsing frá stjórn Íslandsbanka þar sem hún lýsti sig reiðubúna til samninga við félagsmálaráðuneytið um útfærslur í þessu efni. Ég tek líka eftir því að Lýsing hefur verið að grennslast fyrir um svigrúm fyrirtækisins bæði hjá Fjármálaeftirliti og Seðlabanka til þess að taka þátt í aðgerðum af þessum toga. Það er auðvitað ekki einfalt að leysa þetta mál, eins og hv. þingmaður gerði ágæta grein fyrir og réttilega, vegna þess að við erum líka að takast á við þann vanda að fyrirtækin sem enn eru starfandi eru sum hver mjög veikburða. Þetta mál verður þess vegna ekki leyst nema með því að kröfuhafar í fyrirtækin geri eðlilegar væntingar um endurheimtur krafnanna því að við getum ekki endurreist efnahagslífið á þeim forsendum að við höldum starfsemi í fyrirtækjum sem ekki hafa burði til þess að mæta eðlilegum kröfum viðskiptavina sinna (Forseti hringir.) með tilliti til aðstæðna.



[12:34]
Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra fyrir svarið. Ég get ekki betur heyrt á máli hans en að lagafrumvarpinu gætu hugsanlega fylgt gjaldþrot ákveðinna fjármögnunarfyrirtækja.

Mig langar að spyrja hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra vegna frumvarpsins sem hér kemur væntanlega inn með afbrigðum í næstu viku eða einhvern tíma: Hefur hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra kannað sérstaklega hvort slíkt frumvarp geti bakað skaðabótaskyldu gagnvart íslenska ríkinu vegna þessa máls?

Enn fremur langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hægt sé með einhverju móti að meta markaðsvirði þeirra undirliggjandi eigna sem þarna eru á ferðinni. Það væri best ef hægt væri að ná niðurstöðu í þessu máli með einhvers konar samkomulagi frekar en að leggja til þvingaða lagasetningu. Um leið og ég vil taka það fram að það er brýnt að leysa úr þessum mikla vanda verðum við að gera okkur grein fyrir því að það geti falist í því veruleg hætta á háum skaðabótakröfum gegn íslenska ríkinu.



[12:35]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að lögfræðilega séð má líta svo á að það sé veruleg hætta á skaðabótakröfum ef ekki er tryggilega frá þessu máli gengið í upphafi. Ég held hins vegar að slíkar skaðabótakröfur hlytu alltaf að byggjast á einhverju mati á því að um tjón væri að ræða. Ég spyr mig að því hvernig fyrirtæki eigi að geta sannað tjón með allar eignir reiknaðar upp í topp og með enga áhættu reiknaða því samfara.

Afstaða okkar í þessu máli og grunnurinn að frumvarpinu felur í sér að í reynd hafi fyrirtækin ekki horfst í augu við óhjákvæmilega þörf fyrir umbreytingu þessara skulda. Við getum ekki byggt endurreisnina á fjármálafyrirtækjum, eignarleigufyrirtækjum sem eru með svo veikan eiginfjárgrunn að þau eigi ekki val á nokkurri annarri markaðshegðun en að mergsjúga viðskiptavini sína. Þau verða að geta tekið á sig eðlilegan kostnað af umbreytingum skulda. Þau verða að geta horfst í augu við aðstæður. (Forseti hringir.) Þau verða að geta mætt þörfum viðskiptavina sinna. (Forseti hringir.) Við teljum að það sé traustur lagalegur grundvöllur fyrir því að taka á þessu máli. (Forseti hringir.) Þótt eignarrétturinn sé helgur samkvæmt stjórnarskrá vitum við samt að skuldir samfélagsins (Forseti hringir.) hafa aukist miklu meira en verðmætasköpunargeta samfélagsins (Forseti hringir.) stendur undir. Þar af leiðandi liggur alveg ljóst fyrir (Forseti hringir.) að allur eignarréttur í landinu er í uppnámi (Forseti hringir.) vegna hrunsins og það eru margar skuldir sem aldrei (Forseti hringir.) munu fást greiddar.



[12:37]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill hvetja þingmenn til að virða tímamörk. (Félmrh.: Það var engin klukka …) Þingmönnum ber að ljúka máli sínu er forseti lætur bjölluna glymja.