138. löggjafarþing — 116. fundur
 30. apríl 2010.
umræður utan dagskrár.

öryggismál sjómanna.

[12:40]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Nú fer fram áður boðuð utandagskrárumræða um öryggismál sjómanna. Málshefjandi er hv. þm. Ásbjörn Óttarsson. Dómsmálaráðherra Ragna Árnadóttir verður til andsvara. Umræðan fer fram skv. 2. mgr. 50. gr. þingskapa og stendur í hálfa klukkustund.



[12:40]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Í þessari utandagskrárumræðu ræðum við þá grafalvarlegu stöðu sem er í öryggismálum sjómanna. Ég vil í upphafi máls míns vitna hér í blaðaviðtal, með leyfi forseta, sem er tekið við Eirík Jónsson sem er skipstjóri á Sturlaugi H. Böðvarssyni AK.

Hefst nú tilvitnun:

„Stjórnvöld hafa brugðist. Eiríkur sagðist vilja koma á framfæri mikilli óánægju með hvernig búið væri að þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Hann telur að stjórnvöld hafi svikið sjómenn um loforð sem gefin voru á sínum tíma þegar varnarliðið fór, að þyrla skyldi ávallt vera til taks og sækja veika og slasaða sjómenn á hafi úti. „Þess er skemmst að minnast að á þessu skipi þurftum við að sigla í tíu klukkustundir til lands á móti veðri með mann sem var með hjartaverk. Hann fór í hjartaaðgerð þegar í land var komið. Við erum vægast sagt mjög óhressir með þessa þjónustu og ekki þarf að taka það fram að það hefði getað farið verr. Sennilega verður ekkert gert í þessu fyrr en einhver tapar lífinu.““

Mig langar líka að vitna hér í fréttaskýringu sem Helgi Bjarnason kom með í Morgunblaðinu í gær. Í henni kemur fram að sjómenn hafa af þessu miklar áhyggjur, það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær ótímabært dauðsfall beri að höndum vegna þessara aðstæðna.

Mig langar líka að rifja hér upp staðreyndir sem felast í því að á síðustu 15 árum hefur 332 sjómönnum verið bjargað af þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Það kom fram á fundi hv. samgöngunefndar með forsvarsmönnum Landhelgisgæslunnar að í 75% þessara tilfella hefðu þurft að vera tvær áhafnir til að hægt væri að bjarga þessum sjómönnum.

Í dag erum við með 1,3 áhöfn, þ.e. við erum með tvær áhafnir mannaðar hluta af árinu. Þessar tölur segja okkur að það hefði ekki verið hægt að bjarga 175 sjómönnum á þessu 15 ára tímabili eða 12 á ári. Ég vek sérstaklega athygli á því, virðulegi forseti, að inni í þessum tölum eru ekki þeir sjómenn sem varnarliðið á Keflavíkurflugvelli bjargaði þegar það var statt hér.

Virðulegi forseti. Það þarf í raun og veru ekki að hafa mörg orð um þetta, þetta er gjörsamlega óásættanleg staða og algjörlega ótrúlegt að hér þurfi að verða eitt banaslys til viðbótar til þess að fá þetta leiðrétt. Ég er þeirrar skoðunar að verði hér banaslys út af þessum málum eins og þeim er fyrir komið í dag muni stjórnvöld bregðast við. Það er algjörlega óásættanlegt að það muni ekki gerast fyrr.

Mig langar líka til að fara aðeins yfir það hér hvað við getum hugsanlega gert því að við verðum jú að horfa fram á veginn. Ég tel mjög mikilvægt, og það er nauðsynlegt, að endurskipuleggja öll öryggismál landsmanna alveg frá grunni í þeirri stöðu sem við erum í. Því langar mig að reifa hér örfáar hugmyndir og kannski að óska eftir viðbrögðum frá hæstv. dómsmálaráðherra við þeim.

Það er í fyrsta lagi hvort ekki væri skynsamlegt að færa skipastól Hafrannsóknastofnunar yfir til Landhelgisgæslunnar. Ég tel það. Í því felst ákveðin hagræðing og það er líka hægt að nýta skip eins og hafrannsóknaskipið Árna Friðriksson jafnhliða til öryggisgæslu og til hafrannsókna, það er ekkert sem mælir því mót. Það gæti sparað okkur peninga og styrkt Landhelgisgæsluna.

Það væri líka hugsanlegt að færa fiskveiðieftirlitið frá Fiskistofu til Landhelgisgæslunnar til þess að styrkja stoðir Gæslunnar og ná fram hagræðingu sem væri þá hægt að nota til þess að manna þessar þyrlusveitir.

Síðan langar mig líka að velta þeirri hugmynd upp í þessari umræðu hvort hugsanlegt sé að skoða það loftrýmiseftirlit sem við erum með í dag af hálfu bandalagsþjóðanna. Það fer fram með þeim hætti að hér koma þotur í nokkra mánuði á ári. Væri hugsanlegt að hætta því og fá í staðinn herskip hér inn í landhelgina sem væri búið þyrlum sem gætu fylgst með loftrýmiseftirlitinu um leið? Til viðbótar gæti það verið með björgunarhlutverk af því að það eru þyrlur um borð.

Þetta er það sem mig langar til að varpa fram í minni fyrstu ræðu í þessari umræðu þannig að við horfum líka til framtíðar.



[12:45]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál. Öryggi sjómanna og þáttur Landhelgisgæslunnar í því að tryggja það eru eitt af forgangsverkefnum í ráðuneytinu.

Í lögum um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 52/2006, er m.a. mælt fyrir um að hún sinni öryggisgæslu og björgun á hafi úti. Þannig hefur hún lögbundnu hlutverki að gegna og það er brýnt að henni verði gert kleift að sinna því. Þar koma fjárveitingar til skjalanna. Þær þurfa í fyrsta lagi að vera notaðar með eins hagkvæmum hætti og unnt er og þær þurfa líka að vera nægjanlegar til þess að stofnunin geti sinnt hlutverki sínu.

Það er nauðsynlegt að velta því fyrir sér hvernig unnt er að tryggja öryggi sjófarenda. Það byggist annars vegar á skilvirkri vöktun hafsvæðisins og hins vegar á tækjakosti og mannafla til þess að koma sjófarendum til bjargar. Áhersla hefur verið lögð á að tryggja svo sem kostur er vöktun og eftirlit á hafsvæðinu umhverfis Ísland en þetta verkefni er í höndum Vaktstöðvar siglinga. Landhelgisgæslan rekur nú stjórnstöð sína innan Vaktstöðvar siglinga. Vaktstöðin er samræmd samskiptamiðstöð fyrir sjófarendur og gegnir hún afar mikilvægu hlutverki í því að tryggja öryggi sjófarenda. Öll boðun til björgunaraðgerða á sjó kemur frá Vaktstöðinni. Það ber líka að hafa í huga víðtækt samstarf Landhelgisgæslunnar við erlenda samstarfsaðila og víkur þá sögunni að tækjakosti.

Tækjakosturinn er auðvitað mjög nauðsynlegur í þessu öllu saman en það er jafnframt mjög dýr rekstur. Landhelgisgæslan hefur yfir að ráða tveimur varðskipum, einni flugvél og þremur þyrlum. Ég ætla að vinda mér strax í þyrlumálin vegna þess að það er það sem umræðan snýst um þótt við getum væntanlega verið sammála um að við björgun koma til ýmsir þættir, það fer eftir aðstæðum hverju sinni hvernig við er brugðist. Allur tækjakostur Landhelgisgæslunnar skiptir máli í þessu sambandi, þyrlurnar, flugvélin og varðskipin.

Sjómenn hafa lagt mikla áherslu á að þyrlureksturinn sé í lagi. Ég skil það ósköp vel vegna þess að það er mikið sannleikskorn í því að segja að þyrlurnar séu sjúkrabílarnir úti á hafi.

Frá árinu 2007 hafa verið áætlanir um að lágmarksþyrlubjörgunarþjónusta hér við land miðist við fjórar þyrlur og sex og hálfa þyrluvakt. Ég bendi á að þessar fyrirætlanir hafa ekki gengið eftir frá miðju árinu 2007, ég bendi á þetta ártal sérstaklega. Þá fórst ein af fjórum þyrlum Landhelgisgæslunnar og síðan þá hafa verið þrjár þyrlur. Það eru einungis fimm þyrluáhafnir vegna fjárskorts og það er ástand sem leiðir til þess að það er engin þyrla tiltæk allt að tíu daga á ári og aðeins ein þyrla tiltæk í allt að einn mánuð á ári. Þetta er mjög viðkvæm staða, við verðum að gera allt til þess að reyna að finna lausn á þessari stöðu og það er það sem við erum að vinna að.

Ráðgjafarnefnd dómsmálaráðuneytisins hefur nýlega skilað skýrslu um stöðu þyrlumála og hún var kynnt fyrir samgöngunefnd. Niðurstaðan er sú að til þess að tryggja ásættanlegan björgunarviðbúnað þurfi að bæta við kostnaði sem nemur 425 millj. kr. á ári. Þetta eru auðvitað gífurlegir fjármunir og það blasir ekkert við hvaðan þeir eiga að koma þannig að við verðum að reyna að hugsa í lausnum.

Hv. þingmaður nefnir þarna nokkra þætti til sögunnar sem ég tel vel koma til greina að skoða. Til dæmis starfsemi ríkisins á hafinu, getum við gert betur þar? Getum við samræmt starfsemina og getum við hagrætt þar? Ég nefni líka til sögunnar möguleika eins og útboð á flugrekstri eða flutninga á rekstrinum eða hluta í ódýrari aðstöðu. Allt þetta erum við að skoða og við erum í þeirri stöðu að við vorum við það að missa þriðju þyrluna úr landi fyrir örfáum mánuðum en það tókst að koma í veg fyrir það, við höldum þyrlunni áfram. Verkefni Landhelgisgæslunnar fyrir Evrópusambandið hafa líka leitt til þess að það eru ljósir punktar í stöðunni en þar er þá bara verið að kaupa smátíma til þess að huga að því hvernig við getum haft þetta til frambúðar. Það er nauðsynlegt að huga að þessum málum til langs tíma.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að bíða eftir slysi til þess að gera eitthvað. Það finnst mér algjörlega óásættanleg nálgun (Forseti hringir.) og það eru ekki mín orð.



[12:50]
Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér fer fram en vil að sama skapi taka það fram að mér finnst mjög mikilvægt að hún fari fram á þeim nótum að menn séu ekki að spyrja þeirrar spurningar hvort einhver þurfi að deyja áður en gripið sé til einhverra ráðstafana í þessu máli vegna þess að auðvitað er það ekki svo. Það eru allir af vilja gerðir til þess að reyna að bæta úr þessari stöðu sem uppi er í þyrlumálum Landhelgisgæslunnar. Það er starfandi þverpólitískur hópur sem hefur það verkefni að horfa til starfsemi Landhelgisgæslunnar, Landhelgisgæsluáætlunar og annarrar stefnumótunar og gera tillögu um hvernig málum sé best háttað í nútíð og framtíð í ljósi óhjákvæmilegra aðhaldsaðgerða.

Ég vil segja á þeim stutta tíma sem ég hef hér að samkvæmt þeim gögnum og þeim tölum sem liggja fyrir þurfum við að hafa tvær þyrlur til reiðu til að geta sinnt 3/4 þeirra neyðartilvika sem koma upp á sjó. Til að hafa tvær þyrlur tilbúnar allan sólarhringinn allan ársins hring þarf fjórar þyrlur í rekstri og tvær vaktir. Þetta er því lágmarksviðbúnaður Íslendinga, fjórar þyrlur, og ég tel að allir eigi að geta fallist á það. Verkefni okkar er að tryggja fjármagn til að þannig megi hafa hlutina.

Ég vil líka segja, af því að við ræðum þetta undir yfirskriftinni „öryggismál sjómanna“, að ef þessar tölur eru skoðaðar var 75% þeirra sem bjargað var á árunum 1994–2008 með þyrlum bjargað á landi þannig að rekstur þessara þyrlna varðar ekki eingöngu sjómenn. Það skiptir máli fyrir Ísland sem ferðamannaland að við höfum þessa hluti í lagi. Verkefni okkar hér á þinginu og þess starfshóps sem dómsmálaráðherra hefur góðu heilli skipað er að finna leiðir til þess að ná þessu markmiði (Forseti hringir.) í þeirri þröngu stöðu sem við Íslendingar erum í núna.



[12:52]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Öryggismál sjómanna eru eilífðarmál og þau þurfa að vera stöðugt í skoðun. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Ásbirni Óttarssyni, fyrir þessa umræðu. Náttúruöflin hafa mikil áhrif á líf og störf sjómanna og ber okkur að bera fulla virðingu fyrir þeim eins og sjómönnum sjálfum.

Það er kveðið á um starf og hlutverk Landhelgisgæslunnar í lögum nr. 52/2006 en hennar lögbundna hlutverk er að sinna öryggisgæslu og björgun á hafi úti. Hún fer einnig með löggæslu á hafinu og gegnir öðrum verkefnum samkvæmt ákvæðum þessara laga. Starfssvæði Landhelgisgæslunnar er vítt, það er hafið umhverfis Ísland, innsævið, landhelgin, efnahagslögsagan og landgrunnið auk úthafsins, samkvæmt reglum þjóðarréttar.

Það hefur verið slegið á það, úr því að verið var að tala um hvað Landhelgisgæslan skiptir miklu máli við björgun sjómanna, að eitt mannslíf er metið á um 100 milljónir í töpuðum skatttekjum fyrir ríkið auk þess sem banaslys veldur andlegu áfalli fyrir aðstandendur. Málið er því brýnt og það er mjög mikilvægt að Landhelgisgæslan geti sinnt þessu hlutverki. Ég sit í þeim þverpólitíska hópi sem Róbert Marshall minntist á. Það er mjög góður starfsfriður í þeim hópi og erum við öll sammála um að hér þurfi að grípa í taumana vegna þess niðurskurðar sem ríkisstjórnin greip til og það er yfirvofandi niðurskurður hjá Landhelgisgæslunni á næstu árum.

Hér þarf að forgangsraða. Ég hef hvatt til þess að ríkisstjórnin forgangsraði málum á þann hátt að hér geti verið réttarríki í landinu, að við getum verið sem sjálfstæð þjóð og er Landhelgisgæslan einn mikilvægi þátturinn í því.

Frú forseti. Ég tel að það sé orðið tímabært að mynda hér samvinnustjórn um þessi mikilvægu verkefni sem liggja fyrir þjóðinni. (Forseti hringir.) Þá er ég að tala um Landhelgisgæsluna, dómstólana, lögregluna, (Forseti hringir.) sýslumennina, allt það sem við þurfum að gera til að (Forseti hringir.) hér sé hægt að reka ríki.



[12:55]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Í grein í Morgunblaðinu lýsir læknir þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar því ástandi sem varð að hans mati hjá Gæslunni vegna fjársveltis stofnunarinnar og leiddi m.a. til uppsagnar flugmanna. Læknirinn lýsir ástandinu sem neyðarástandi og segir að neyðarkall berist nú frá öllum starfsmönnum Gæslunnar þar sem fjársvelti sé orðið slíkt að sparnaðarloginn hafi læst sig í innviði og burðarstoðir stofnunarinnar.

Læknirinn spyr í greininni, með leyfi forseta:

„Eru það ráðamenn landsins, ríkisstjórn Íslands sem með minnkandi framlögum eru meðvitað að knýja Gæsluna á hnén?“

Hann lýkur grein sinni með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Það þarf að stórauka fjárframlög til Landhelgisgæslunnar svo hún fái sinnt því veigamikla hlutverki sem hún gegnir og megi sækja fram, vaxa og dafna sem sú stofnun sem getur tekið á mikilvægum verkefnum framtíðarinnar.“

Þessi grein er birt í Morgunblaðinu þann 17. desember árið 2002 og segir okkur ásamt fjölmörgum öðrum dæmum, sem ekki er tími til að rekja hér, að fjárhagsvandi Landhelgisgæslunnar á sér langa sögu. Við höfum ekki alltaf forgangsraðað í þágu Landhelgisgæslunnar í gegnum árin. Jafnvel þegar við þóttumst eiga nóg af peningum var Landhelgisgæslan svelt, eins og kemur fram í þessari grein og mörgum öðrum sem hægt er að vitna til.

Það breytir því hins vegar ekki að okkur ber skylda til að standa vörð um þá þjónustu sem við viljum helst að Gæslan sinni. Það þýðir að við verðum bæði að forgangsraða í starfsemi stofnunarinnar, hagræða í rekstri, skera niður, fresta framkvæmdum og leita allra leiða til að ná hagræði í rekstri. Við verðum líka að leita eftir samvinnu við aðrar þjóðir varðandi þyrlur, varðskip og önnur öryggistæki hér á þessu hafsvæði sem við, þyrlusveitin og skip á hafi úti, getum stuðst við.

Mikilvægast er að við sjáum til þess að þyrlusveitin sé vel studd og hún verði ævinlega tilbúin og reiðubúin til að sinna stærri verkefnum á hafi úti því að sjómenn eru öðrum landsmönnum fremur háðir þessari þyrlusveit.



[12:57]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem skiptir höfuðmáli fyrir Íslendinga: Að allir liðir gangi lipurt, því að þá gengur það sama yfir heimilin, og að öryggisþáttur landsmanna sé í góðu lagi, alveg sama hvort átt er við hversdagslífið, atvinnulífið eða heilbrigðisþjónustuna í heild. Þetta eru grundvallaratriði og í þessu dæmi hallar að mínu mati sérstaklega á einn þátt núna, það eru öryggismál sjómanna.

Um árabil hefur hallað á stöðu Landhelgisgæslunnar. Það er ekki við þá hæstv. ríkisstjórn sem nú situr að sakast frekar en fyrri ríkisstjórnir. Það hefur ekki verið gengið hreint til verka og í kjölfar þess að bandaríska varnarliðið hvarf af landi brott hefur ekki verið hnýtt upp með tryggum hætti og nú hallar á. Það gengur ekki því að það á auðvitað að meta líf sjómanna jafnmikils og annarra þjóðfélagsþegna. Ef vitnað er í orð Árna Bjarnasonar, formanns Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, segir hann að til þess að hægt sé að halda því fram með rökum að svo sé þurfi að vera lágmarksviðbúnaður hjá Landhelgisgæslunni.

Lágmarksviðbúnaður er lágmarksviðbúnaður og til þess að það gangi upp þarf að hafa tvær vaktir allan sólarhringinn allan ársins hring og það kallar á sex og hálfa áhöfn í rekstri. Þetta eru grundvallaratriði. Það þarf að leggja höfuðáherslu á það í stöðunni að tryggja þennan þátt.

Sjómenn skapa 60% af tekjum landsmanna. Sjómenn eru fjarri góðu gamni sem boðið er upp á hvunndags í landi. Þeir eru á hafinu og þeir afla þess sem er grunnurinn fyrir þjóðfélagið. Það á að sýna þeim þá virðingu að öryggi þeirra sé að fullu metið og tryggt, (Forseti hringir.) ekki síst með starfi Landhelgisgæslu Íslands.



[12:59]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er þarft mál og aðkallandi nú sem oft áður að ræða öryggismál sjómanna. En ég get ekki orða bundist yfir þeirri nálgun sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson lagði hér upp með í þessu. Ég verð að viðurkenna að mér hljóp kapp í kinn þegar þingmaðurinn spurði hvort það þurfi að verða banaslys áður en brugðist verði við stöðunni varðandi aðkomu Landhelgisgæslunnar að öryggi sjómanna. Þetta er ekki boðlegur málflutningur.

Eins og hæstv. dómsmálaráðherra sagði hér áðan er að sjálfsögðu ekki verið að bíða eftir banaslysi. Það kom ágætlega fram í hennar máli að þvert á móti er verið að vinna mjög markvisst að því að reyna að finna leið til lausnar á þessu máli. Það kom líka ágætlega fram hér í umræðunni að vandinn er ekki nýr. Þetta hefur verið viðkvæðið um langt árabil, að það mætti og þyrfti að treysta betur öryggi þeirra sem sækja störf sín og lífsviðurværi út á sjó.

Auðvitað get ég tekið undir það að Landhelgisgæslan hefur lögbundnu hlutverki að gegna, það lögbundna hlutverk verður auðvitað að tryggja stofnuninni. Það eru ákveðin mörk sem ekki er hægt að fara niður fyrir og við vitum að varðandi björgunarþáttinn er þyrluflotinn að sjálfsögðu það mikilvægasta og það sem þarf fyrst og fremst að standa vörð um. Ég treysti því að stjórnvöld og aðrir þeir sem með þetta mál fara geri það. Það kemur auðvitað vel til greina, finnst mér, í samhengi við samþættingu stofnana og samruna verkefna milli stofnana að þar eigi sér einhver tilfærsla stað milli t.d. Hafrannsóknastofnunar og Landhelgisgæslu, það er hið besta mál. En aðalatriðið er náttúrlega að það sé vilji og (Forseti hringir.) skilningur á mikilvægi þyrluflotans og sá skilningur held ég (Gripið fram í.) að sé fyrir hendi.



[13:02]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég er í sjálfu sér ekkert hissa á því að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson velti upp spurningunni: Eftir hverju er verið að bíða? Það er alveg ljóst að þennan vanda þarf að leysa. Hann leysist ekki heldur þó að menn horfi langt aftur í tímann og vitni í gamlar ríkisstjórnir og eitthvað slíkt. Vandinn er til staðar í dag og hann þarf að leysa og um það þurfum við að vera sammála.

Við mundum aldrei sætta okkur við það að því yrði synjað ef kallað yrði eftir sjúkrabíl í vesturbæinn eða að slökkviliðið færi bara í annað hvert útkall. Þess vegna verðum við að leysa þennan vanda. Sjómenn og aðrir þeir sem þurfa að búa við öryggi Landhelgisgæslunnar geta ekki búið við þetta ástand, það er einfaldlega þannig. Þó svo — og við megum þakka fyrir það — að ekki hafi komið upp alvarlegt slys sem megi rekja til skorts á fjármagni vitum við að það getur gerst, í dag, á morgun, á þessari stundu eða einhvern tímann á næstunni. Við því þarf að bregðast.

Gjarnan er spurt um kostnað og menn geta spurt: Er verið að verðleggja mannslíf? Að sjálfsögðu er enginn að verðleggja mannslíf en þegar slysið verður, þegar þyrlusveitin eða Landhelgisgæslan getur ekki brugðist við, geta menn sagt: Ja, þetta mannslíf kostaði þetta. Við viljum ekki lenda í þeirri stöðu.

Það er hárrétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, allur tækjakostur Landhelgisgæslunnar skiptir miklu máli, það er alveg ljóst. Við þurfum öflugt skip ef t.d. bátur festist uppi í landi, þarf að draga út og slíkt. Þess vegna verðum við að horfa á þetta heildstætt. En það er algjörlega óásættanlegt að við tökum sjúkrabílana frá þeim sem kannski þurfa mest á þeim að halda.

Samlíkingin sem ég var með uppi áðan, um það hvort við mundum hika við að senda sjúkrabíl í vesturbæinn eða eitthvað annað, á fyllilega við því að þetta eru sömu mikilvægu tækin fyrir þessa stétt.



[13:04]
Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu og þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir að taka hana hér upp. Það er auðvitað vilji allra hér að tryggja öryggi sjómanna eins og best gerist. Ég tek því undir með þeim þingmönnum sem hafa talað um að það sé ekki vilji nokkurs að banaslys þurfi að verða til að litið sé ofan í þessi mál. Við skulum reyna að nálgast umræðuna út frá lausnamiðuðum sjónarmiðum og forðast að falla í pólitískar skotgrafir því að það eru æðimörg mál sem vilji allra í þinginu er til að koma í sem bestan farveg. Það er hins vegar ekkert launungarmál að ástand ríkissjóðs er þannig núna að við þurfum að fara ofan í allan rekstur, hvort sem er hjá Landhelgisgæslunni eða öðrum.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi hér nokkur atriði, eins og til að mynda hvort hægt væri að samnýta flota Hafrós og Landhelgisgæslunnar, fá hingað herskip með þyrlum sem mér hugnast ekki. Ég bendi á þingsályktunartillögu sem Ólafur Þór Gunnarsson þingmaður og fleiri hafa lagt fram um að skoða hvort hægt sé að koma hér á fót björgunarskóla Sameinuðu þjóðanna. Það gæti hugsanlega verið einhvers konar stoð undir Landhelgisgæsluna og aðra skylda starfsemi. Svona mætti lengi telja.

Ég held að sú nefnd sem er að fara ofan í þessi mál og ég hef nýlega tekið sæti í verði að kafa ofan í þetta eftir bestu getu og horfa sem víðast á þetta. Þar hvet ég til að menn leitist við að vinna þetta í samstöðu. Þetta er verkefni okkar allra, okkar Íslendinga, þetta snýst ekki um hægri, þetta snýst ekki um vinstri — í svona málum erum við bara Íslendingar.



[13:06]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu hér. Mér finnst samt mjög sérkennilegt þegar hv. þingmenn koma hér upp og saka mig um að halda því fram að það þurfi að fórna mannslífi til þess að við tökum þetta til alvarlegrar athugunar. Ég vitnaði hér í, eins og ég sagði, viðtöl við sjómenn um það hvernig þeir upplifa ástandið. Það eru bara staðreyndir málsins. Ég er ekki að setja þetta mál í pólitískar skotgrafir, ég frábið mér allan þann málflutning. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að leysa úr þessu. Staðan er eigi að síður svona.

Það er líka hægt að rifja það hér upp að í áranna rás hefur einmitt þurft að fórna lífum áður en breytingar hafa orðið á þessum málum. Það eru staðreyndir málsins. Ég hef spurt hér áður: Hvað mun gerast ef þessi staða kemur upp? Það verða einhver viðbrögð. Það er ekki við hæstv. dómsmálaráðherra að sakast, það er við Alþingi Íslendinga að sakast. Það erum við sem tökum ákvarðanirnar.

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra þegar hún segir að auðvitað skipti tækjakostur Landhelgisgæslunnar öllu máli, en af því að við erum fyrst og fremst að ræða hér öryggismál sjómanna bendi ég á að þyrlurnar skipta öllu máli. Það er samdóma álit allra hagsmunasamtaka sjómanna að það sé númer eitt, tvö og þrjú. Kerfið er þannig í dag. Það þarf ekki að leita að skipum. Það eru allir komnir með STK-tæki og AIS-tæki þannig að Gæslan veit nákvæmlega hvar öll skip eru stödd. Þegar eitthvað kemur upp á, það þarf að bjarga þeim, þarf að vera hægt að gera það.

Ég ætla að segja að lokum, eins og ég hef sagt hér áður, að ég neita að trúa því að ég búi í því þjóðfélagi að menn byggi tónlistarhús fyrir tugi milljarða á sama tíma og ekki er hægt að bjarga lífi sjómanna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:08]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-):

Virðulegi forseti. Eins og ég gerði grein fyrir í fyrri ræðu minni, og dró ekki dul á það, er niðurstaða athugana sú að ásættanleg björgunargeta í þyrludeildinni miðist við fjórar þyrlur og sex og hálfa vakt. Ég greindi líka Alþingi frá því að vegna þess að fjárhag ríkisins er þannig háttað eru hér þrjár þyrlur í rekstri og fimm þyrluvaktir. Ég hef gert Alþingi grein fyrir því að það er ekki nægjanlegt. Við getum rætt um að hagræða. Við getum rætt um að samþætta stofnanir og nota peningana öðruvísi. Ég hef ekki skorast undan því og hef líka athugað hvort hægt sé að nota peningana öðruvísi í Landhelgisgæslunni en það ber allt að sama brunni, virðulegi forseti, það er ekki hægt að halda úti 100% björgunargetu á þyrlum nema aukið fjármagn komi til. Það er mjög einfalt mál.

Ég hef reynt að segja þetta á ýmsan hátt en við skulum horfast í augu við það að svona er þetta. Það getur vel verið að við getum einhvern veginn fengið það fjármagn til baka, með einhverjum öðruvísi rekstri hjá ríkinu. Við skulum hins vegar ekki tala um hlutina öðruvísi en þeir eru. Það sem við erum að reyna að gera og erum búin að gera í mjög langan tíma er að reyna að finna út úr því hvernig við getum haldið úti þyrlubjörgunarþjónustu sem er samkvæmt öllum skýrslum sú sem þarf að halda úti. Það er alveg hrikalegt að þurfa að halda úti þyrlubjörgunarþjónustu sem er minni en allar athuganir sýna að þurfi að vera. Það er ekki gott mál.