138. löggjafarþing — 117. fundur
 30. apríl 2010.
erfðabreyttar lífverur, 1. umræða.
stjfrv., 516. mál (EES-reglur, upplýsingagjöf til almennings). — Þskj. 903.

[16:48]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um erfðabreyttar lífverur. Innan Evrópusambandsins var þann 12. mars 2001 samþykkt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/18/EB um sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/220/EBE. Markmið tilskipunarinnar er að samræma lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkjanna sem og að vernda heilsu manna og umhverfið við sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um erfðabreyttar lífverur er til innleiðingar á tilskipuninni í lög hér á landi. Tilskipunin varð hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið á árinu 2008 og því er orðið brýnt að innleiða hana í löggjöf hér á landi.

Tilskipun sú sem hér er fjallað um er endurskoðun á eldri tilskipun um sama efni. Nauðsynlegt var talið að skýra nánar gildissvið hinnar eldri tilskipunar og þær skilgreiningar sem þar er að finna. Litið var til þess að erfðabreyttar lífverur sem sleppt er út í umhverfið geta fjölgað sér í umhverfinu, borist yfir landamæri og afleiðingar þess orðið óbætanlegar. Talið var nauðsynlegt, til að vernda heilsu manna og dýra, að leggja tilhlýðilega áherslu á eftirlit með þeirri hættu sem fylgir sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið. Í því sambandi var talið nauðsynlegt að koma á sameiginlegri aðferðafræði við framkvæmd mats á umhverfisáhættu sem og sameiginlegum markmiðum varðandi vöktun erfðabreyttra lífvera eftir að þeim hefur verið sleppt eða þær settar á markað.

Tilskipunin kveður á um ítarlegri málsmeðferðarreglur en gert var í eldri tilskipun um sama efni. Tilskipunin kveður þannig skýrt á um hvaða gögnum og upplýsingum umsækjanda ber að skila þegar sótt er um leyfi, sem og um skyldur lögbærs stjórnvalds við afgreiðslu umsókna. Þannig er m.a. gert ráð fyrir að umsækjanda beri að framkvæma mat á umhverfisáhættu sleppingarinnar/markaðssetningarinnar og að Umhverfisstofnun beri að semja matsskýrslu þegar sótt er um leyfi til markaðssetningar. Þar er ekki síst mikilvægt að kveðið er á um aukinn rétt almennings til aðkomu að málum er varða erfðabreyttar lífverur. Í samræmi við það er í frumvarpi því sem hér er mælt fyrir lagt til að settur verði nýr kafli í lögin sem fjallar um upplýsingagjöf til almennings og rétt almennings til að gera athugasemdir vegna fram kominna umsókna um að setja erfðabreyttar lífverur eða vörur sem innihalda þær á markað. Enn fremur er Umhverfisstofnun veitt heimild til þess að leita samráðs við almenning og eftir því sem við á við tiltekna hópa um alla þætti fyrirhugaðrar sleppingar eða markaðssetningar erfðabreyttra lífvera, áður en endanleg ákvörðun um leyfisveitingu er tekin.

Tilskipunin tekur sérstakt mið af varúðarreglunni og kveður á um að taka beri tillit til hennar við framkvæmd. Varúðarreglan er meginregla í umhverfisrétti sem er m.a. að finna í Ríó-yfirlýsingunni. Hún felur í sér að skorti á vísindalegri fullvissu, þar sem hætta er á alvarlegu eða óbætanlegu tjóni, skuli því ekki beitt sem rökum til að fresta kostnaðarhagkvæmum aðgerðum sem koma í veg fyrir umhverfisspjöll. Þetta má líka orða þannig að þegar fyrir hendi er vísindaleg óvissa um afleiðingar framkvæmda fyrir umhverfið, skuli náttúran njóta vafans. Þannig skal, eins og nafn reglunnar ber með sér, fara fram af varúð gagnvart umhverfinu.

Virðulegur forseti. Ég hef rakið hér meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.



[16:51]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla í upphafi að játa að ég er ekki sérfræðingur í erfðabreyttum lífverum og vil þá kannski biðjast afsökunar á spurningu minni ef hún hljómar ekki mjög greindarleg.

Í fyrra ræddum við þetta sama mál, lög um erfðabreyttar lífverur. Hæstv. ráðherra sagði að brýnt væri að innleiða tilskipun Evrópusambandsins og þá er fyrsta spurningin: Höfum við ekki innleitt þetta áður? Hvaða lög hafa þá gilt hér?

Ég vil líka spyrja hvort við séum að ganga lengra en Evróputilskipunin eða hvort þetta frumvarp sé í samræmi við það sem þar er.

Ég vil síðan biðja hæstv. ráðherra að fara í þau atriði sem mesta umræðan og kannski ágreiningur varð um í fyrra frumvarpi, hvort tekið sé á þeim hér, hvort þau séu til umfjöllunar eða hvort hér sé verið að fjalla um önnur atriði.



[16:53]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Lögin sem gilda nú eru lög nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur, en hér er verið að tala um að innleiða Evróputilskipun þar sem við erum ekki að ganga lengra en gerist og gengur. Raunar er það sums staðar svo að Evrópulönd eru að stíga mjög róttæk skref í áttina að því að hafa heil svæði eða jafnvel lönd án erfðabreyttra lífvera. Þessi umræða er sem sé mjög heit og er viðamikil í Evrópu.

Við erum einfaldlega að tala um það að innleiða þessa tilskipun Evrópuþingsins og þetta er — og ég vona að ég skilji þingmanninn rétt — sama málið og við vorum að tala fyrir í fyrra. Þetta er nákvæmlega sama málið, það náði bara ekki að ganga fram á þinginu. Það fór í nefnd en náði ekki fullri afgreiðslu þannig að það fer þá væntanlega til úrvinnslu í nefndinni núna eins og það gerði síðast, og ég vænti þess að við náum því núna að gera það að lögum.



[16:54]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja frekar til að þetta sé alveg skýrt: Er þetta nákvæmlega sama málið, er það algjörlega óbreytt eða eru einhver atriði öðruvísi? Er það þá kannski þessi kafli um upplýsingar til almennings sem hefur bæst við eða var það í hinu frumvarpinu?

Ég vil hvetja til þess í meðförum nefndarinnar og við vinnslu málsins — hér varð mjög tilfinningarík umræða um þetta mál í fyrra — ég vil hvetja alla aðila, sem ég veit að verður gert í hv. umhverfisnefnd undir forustu formannsins, til að taka þetta mál frá öllum hliðum og leyfa öllum þeim sjónarmiðum sem uppi eru að koma fram í vinnu nefndarinnar.



[16:55]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara örstutt. Samkvæmt mínum upplýsingum hafa mjög óverulegar breytingar verið gerðar á frumvarpinu frá því að það var lagt fram og varða nánast eingöngu orðalag og uppsetningu en ekki efnisþætti frumvarpsins á nokkurn hátt. Ég deili þeirri skoðun með þingmanninum að að sjálfsögðu verði þetta vel unnið í nefndinni.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til umhvn.