138. löggjafarþing — 118. fundur
 6. maí 2010.
barnaverndarlög, 1. umræða.
stjfrv., 557. mál (markvissara barnaverndarstarf). — Þskj. 947.

[12:15]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um breytingar á barnaverndarlögum nr. 80/2002, með síðari breytingum, sem lagt er fram á þingskjali 947.

Við endurskoðun laganna var lagt mat á hvernig lögin hefðu reynst og hvort þörf væri á breytingum. Farið er yfir reynsluna í yfirliti sem birt er sem fylgiskjal með frumvarpinu. Reynslan sýnir að lögin hafa dugað nokkuð vel en ávallt þarf að vera vel á verði til að ákvæði þessara mikilvægu laga séu eins skýr og kostur er og þar með réttarstaða barna og annarra aðila barnaverndarmála.

Þá sýnir reynslan einnig fram á nauðsyn á nýmælum í lögunum í samræmi við nýja þekkingu og breytta tíma.

Við undirbúning frumvarpsins var aflað fanga úr ýmsum áttum með umsóknum og ábendingum frá þeim sem vinna að þessum málum, ársskýrslum Barnaverndarstofu, úrskurðum kærunefndar barnaverndarmála, álitum umboðsmanns Alþingis og frá dómaframkvæmd. Jafnframt var höfð hliðsjón af þróun barnaverndarréttar á alþjóðavettvangi og þeim alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að, sérstaklega samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og litið til þingsályktunar Alþingis frá 16. mars 2009 um lögfestingu samningsins.

Niðurstaðan var í meginatriðum sú að skerpa þurfi á tilteknum efnisatriðum laganna svo þau verði skýrari og afdráttarlausari en að auki þurfi að bæta ákveðnum nýmælum inn í löggjöfina á sviði barnaverndar.

Umfangsmestu nýmæli frumvarpsins felast annars vegar í breyttu fyrirkomulagi á vistun barna utan heimilis og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga því tengdu og hins vegar nýjungum á mati á gæðum og eftirliti.

Áður en ég kem að þessum viðamestu breytingum frumvarpsins, mun ég gera nokkra grein fyrir öðrum tillögum í því.

Dæmi um atriði sem nauðsynlegt er að skýra og skerpa í frumvarpinu eða í lögunum eru kærunefnd barnaverndarmála, tilkynningarskylda almennings til barnaverndarnefnda og samstarf barnaverndarnefnda við aðra aðila sem vinna með börnum. Önnur ákvæði fela í sér skýrari ákvæði auk þess sem nýmæli fléttast þar inn í.

Hvað kærunefndina varðar hafa spurningar vaknað um hvaða ákvörðunum barnaverndarnefnda megi skjóta til hennar. Getur það bæði valdið töfum á úrskurði og því að réttur aðila til að fá mál sín endurskoðuð hjá kærunefndinni sé ekki nægilega vel tryggður. Í frumvarpinu er því kveðið skýrt á um hvaða ákvörðunum barnaverndarnefnda megi skjóta til kærunefndar barnaverndarmála auk þess sem lagðar eru til nokkrar breytingar á málsmeðferðinni.

Tilkynningarskylda til barnaverndarnefnda er einn af hornsteinum barnaverndarstarfs og þarf á stöðugu endurmati að halda svo hún komi að sem mestu gagni. Í þessu skyni er almennu tilkynningarskyldunni, þ.e. tilkynningarskyldu almennings, stillt upp með nýjum hætti og lagt til að tekið verði sérstaklega fram að tilkynningarskyldan taki til þess þegar talið er að barn verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Er sú breyting í samræmi við lög nr. 52/2009, en þar var sú mikilvæga breyting gerð á 1. gr. laganna að sérstaklega var tekið fram að óheimilt væri með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi.

Gott samstarf við aðila sem starfa með börnum er afar mikilvægt til að þjónustan nýtist börnum sem best. Samstarf verður að vera mjög virkt og upplýsingar þurfa að ganga greiðlega á milli aðila, allt með hagsmuni barna að leiðarljósi. Ákvæði laganna um málsmeðferð fyrir dómi voru endurskoðuð og lögð fram nokkur nýmæli, eins og skýr ákvæði um lögsögu og það mikilvæga nýmæli að málin skuli hljóta flýtimeðferð.

Einnig er kveðið með skýrum hætti á um sérfróða meðdómsmenn. Lagt er til að réttarstaða fósturforeldra verði gerð skýrari hvað varðar umgengni við barn í fóstri. Jafnframt er lagt til það nýmæli að fósturforeldrar barns í varanlegu fóstri verði aðilar að máli um umgengni og geti skotið máli til kærunefndar barnaverndarmála.

Gott dæmi um nýjung vegna breyttra tíma er það að börn sem dvelja hér á landi án þess að eiga hér lögheimili og börn sem koma til landsins án forsjáraðila sinna fá hér hæli eða dvalarleyfi. Nauðsynlegt er að skýrt liggi fyrir hvaða barnaverndarnefnd skuli fara með mál, umsjá eða forsjá barnsins og bera ábyrgð á kostnaði vegna ráðstöfunar þess í fóstur eða aðra vistun.

Í frumvarpinu er því kveðið sérstaklega á um þessi atriði og jafnframt lögð áhersla á samstarf milli aðila og samfellu í slíkum málum. Aldrei má sofna á verðinum heldur þarf stöðugt að fylgjast með og afla nýrrar þekkingar með það að markmiði að bæta réttarstöðu barna innan barnaverndarkerfisins. Víða í frumvarpinu eru því lagðar fram breytingar í þá veru og ég nefni fimm atriði sérstaklega.

Í fyrsta lagi er mjög mikilvægt að auka þátttöku barns í ákvörðunum sem varða það sjálft. Í frumvarpinu er lagt til að fellt verði niður 12 ára aldursmarkið sem er í núgildandi lögum þegar gefa á barni kost á að tjá sig um mál sín en þess í stað skuli miða við þroska barnsins óháð aldri. Er þetta í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og ákvæði sama efnis í barnalögum.

Í öðru lagi er lagt til að fjallað verði með skýrari hætti um réttindi barns við málsmeðferð fyrir dómi.

Í þriðja lagi er mikilvægt nýmæli sem ætlað er að tryggja betur réttindi barns í fóstri. Þar er m.a. lagt til að barnaverndarnefnd beri ávallt ábyrgð á því að taka ákvarðanir um umgengni við barn eftir að foreldri afsalar sér umsjá eða forsjá eða er svipt forsjá.

Í fjórða lagi er lagt til að tryggður sé enn betur en nú er réttur barna sem dvelja á stofnunum ríkisins til einkalífs, til að ráða persónulegum högum sínum og til að hafa samskipti við aðra að því marki sem það samræmist því markmiði sem nást á í vistuninni.

Í fimmta lagi hafa nýmæli laganna um mat og eftirlit með gæðum úrræða og vistun barna utan heimilis sannarlega það markmið að tryggja betur réttarstöðu barna.

Virðulegi forseti. Ein viðamesta breytingin sem lögð er til í frumvarpinu snýst um vistun barna utan heimilis. Eins og rakið er í athugasemdum með frumvarpinu skiptast vistanir barna utan heimilis nú í nokkra flokka. Ríkið ber ábyrgð á sérhæfðum úrræðum, þ.e. meðferðarheimilum og neyðarvistun. Sveitarfélög bera ábyrgð á öðrum úrræðum, sem eru sérstök heimili og stofnanir, þ.e. vistheimili barna, fjölskylduheimili og sambýli, vistforeldri á einkaheimili, svo og fósturheimili eða styrkt fóstur, en í því síðastnefnda tekur ríkið þátt í kostnaði.

Ýmsir ókostir eru við þessa verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Helstu ókostirnir eru þeir að óljós skil eru á milli sérhæfðrar meðferðar á vegum ríkisins og þess stuðnings sem barnaverndarnefndir veita börnum sem vistuð eru á heimilum eða stofnunum. Einnig hafa fæstar barnaverndarnefndir getað boðið upp á þau heimili og stofnanir sem lög kveða á um að Reykjavík undanskilinni. Þá er réttur barna til að njóta úrræða sveitarfélaga, eins og vistheimilis, fjölskylduheimilis eða sambýlis, mjög mismunandi eftir búsetu. Skipting kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga getur valdið togstreitu þegar velja á heppilegt úrræði og núverandi kerfi gerir ekki nægilega samræmdar kröfur til vistunar barna utan heimilis.

Í frumvarpinu er lagt til að auka ábyrgð ríkisins á uppbyggingu heimila og stofnana. Meginröksemdin fyrir þessu er að með því fáist samfellt yfirlit og yfirsýn yfir helstu úrræði sem í boði eru, sem þýðir um leið skipulagðari nýtingu á úrræðum og betri nýtingu á fjármunum ríkis og sveitarfélaga. Um leið aukast gæðin, meiri sveigjanleiki verður mögulegur sem og sérhæfing úrræða og frekari samræming auk þess sem verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verður skýrari. Verði þessi leið farin breytist um leið fyrirkomulag á greiðslu vegna ráðstöfunar barns utan heimilis. Um nokkrar leiðir er að velja til að ná þessu markmiði. Sú leið sem lögð er til í frumvarpinu felur í sér að ríkið taki yfir þá ábyrgð sem sveitarfélögin bera nú á því að koma upp stofnunum og sérstökum heimilum fyrir börn, þ.e. vistheimilum barna, fjölskylduheimilum og sambýlum.

Önnur vistúrræði verða áfram hjá barnaverndarnefndum, þ.e. vistanir á einkaheimilum og fósturheimilum. Eins og áður var vikið að hafa framangreind heimili og stofnanir í raun einungis verið rekin í Reykjavík en önnur sveitarfélög hafa þurft að leysa úr málum barna sem þurfa á slíkum vistunum að halda með öðrum hætti, svo sem með vistunum á einkaheimilum.

Það er augljóst réttlætismál að öll börn á landinu eigi aðgang að framangreindum heimilum og stofnunum án tillits til búsetu. Tillagan felur í sér að fjögur heimili sem nú eru rekin á vegum Reykjavíkurborgar færist til ríkisins og er árlegur rekstrarkostnaður þeirra áætlaður um 204 millj. kr. Nákvæmar tölur um kostnað annarra sveitarfélaga af þeirri tegund vistunar sem færist til ríkisins liggja ekki fyrir en áætlað er að kostnaður við slík úrræði sé á bilinu 50–100 millj. kr.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að sveitarfélög taki þátt í kostnaði við vistun barna utan heimilis. Greiðslur verði staðlaðar meira en nú er og sveitarfélögin greiði gjald vegna vistunar barns á heimili eða stofnun á ábyrgð ríkisins. Gjaldið verði útfært í reglugerð sem ráðuneytið setur og verður þar að sjálfsögðu höfð samvinna við Samband íslenskra sveitarfélaga. Stefnt er að því að þessi breyting hafi sem minnst áhrif á hlutdeild ríkis og sveitarfélaga í heildarkostnaði við vistun barna utan heimilis.

Loks er í frumvarpinu það mikilvæga nýmæli að auka gæði og eftirlit með úrræðum þar sem börn eru vistuð á ábyrgð barnaverndaryfirvalda. Ekki þarf að hafa mörg orð um nauðsyn þess að vanda hér til verka. Til þess eru dæmin sem við höfum af vistheimilum fyrri tíma allt of ljós og allt of fersk í minni eftir vandaða greiningu vistheimilanefndar á vanrækslusyndum fyrri tíma.

Í frumvarpinu er lagt til að lögfesta ákvæði sem skýra frekar verkaskiptingu þeirra aðila sem bera ábyrgð á að byggja upp og beita úrræðum samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga, m.a. til að tryggja að fyrirkomulag úrræða og markmið vistunar uppfylli ákvæði laga, reglugerða og staðla og í því skyni eru sérstök ákvæði um eftirlit af hálfu óháðra eftirlitsaðila. Þá er haft að markmiði að tryggja að ráðstöfun nái tilgangi sínum og að réttindi barna séu virt og að gæði úrræða séu aukin og stuðlað sé að umbótum á því sviði. Í athugasemdum frumvarpsins er fjallað ítarlega um þetta mikilvæga málefni.

Rétt er að upplýsa að í ráðuneytinu er í gangi vinna um undirbúning sjálfstæðrar eftirlitsstofnunar með kaupum ríkisins á velferðarþjónustu í samræmi við það fyrirheit sem ég gaf í haust þegar skýrsla vistheimilanefndar um Heyrnleysingjaskólann og önnur vistheimili var kynnt. Við stefnum að því að í haust verði lagt fram frumvarp um sjálfstæða eftirlitsstofnun með kaupum á velferðarþjónustu þar sem eftirlitið verði skilið að fullu og öllu frá ákvörðunum stofnana um kaup á þjónustu, þannig að það gerist aldrei aftur á Íslandi að sami aðilinn taki ákvörðun um tiltekna velferðarþjónustu, beri ábyrgð á henni og hafi líka eftirlit með framkvæmd hennar, gæðum og því hvort réttindi þeirra barna sem fá notið þjónustunnar séu virt.

Virðulegi forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til félags- og tryggingamálanefndar að lokinni þessari umræðu.



[12:27]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra Árna Páli Árnasyni fyrir ágæta ræðu. Hér er verið að ræða mjög viðkvæmt og mikið mál. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á í lok ræðu sinnar eru menn að reyna að læra af Breiðavíkurmálinu og ætla sér að setja upp eftirlitsstofnun sem á að fylgjast með aðgerðum sem þá ættu að vera komnar undir ríkið. Við það hef ég kannski mestar athugasemdir. Yfir barnaverndarmálum er nefnilega gífurlega mikið dulúð, frú forseti. Aðilar máls geta jafnvel ekki fengið upplýsingar um það, hvað þá utanaðkomandi, og aðilar máls geta ekki kært mál vegna þess að dulúðin er svo mikil.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hefur eitthvað breyst í þessari dulúð? Við höfðum hér fyrir hrun ágætiseftirlitsstofnun sem hét Fjármálaeftirlitið, sem átti að hafa eftirlit með einkafyrirtækjum og brást. Getur ekki verið að opinber stofnun sem á að hafa eftirlit með félögum sínum, opinberum starfsmönnum, bregðist á sama hátt? Er þetta ekki fullmikil trú á eftirlitsstofnanir?



[12:29]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í grundvallaratriðum hefur lítið breyst í aðferðafræði opinbers eftirlits með velferðarþjónustu frá því á tímum Breiðavíkurmálsins, sami maður ákvað að samið skyldi við heimilið í Breiðavík og bar ábyrgð á að senda börnin þangað. Hann átti líka að hafa eftirlit með framkvæmdinni og var þar af leiðandi fullkomlega vanhæfur til að fylgjast með framgangi mála. Þannig var ástandið. Við þurfum að skilja eftirlitið frá og búa því þannig umgjörð að það verði trúverðugt og geti starfað sjálfstætt. Ég held að í því samhengi verðum við líka að horfa til séreðlis barnaverndarmála og trúnaðar og leyndar sem óhjákvæmilega þarf að vera yfir þeim málum til að verja hag barnanna.

Þess vegna skiptir miklu máli að vanda til verka. Ég held að það komi vel til álita að eftirlitsstofnun með kaupum á velferðarþjónustu verði undir þingkjörinni stjórn þannig að hún sé ekki undir stjórn sama ráðherra og ber ábyrgð á úrræðunum. Það er auðvitað framkvæmdarvaldið og stofnanir sem undir ráðherrann heyra sem bera ábyrgð á ákvörðunum um við hverja er samið og hvernig er samið. En með sama hætti og fjárhagslegt eftirlit með fjárreiðum ríkisins er í höndum Ríkisendurskoðunar sem lýtur þingkjörinni stjórn, þá sé ég ekkert óeðlilegt við það að eftirlitsstofnun með gæðum á kaupum á velferðarþjónustu sé líka undir þingkjörinni stjórn og þar með aðskilin frá mögulegri hagsmunatogstreitu þar sem hún heyrir ekki undir sama framkvæmdarvald og tók ákvarðanir um við hverja yrði samið.



[12:31]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir þetta svar. Ég segi bara, nú erum við að tala saman, vegna þess að það þarf að aðgreina eftirlitsstofnunina frá framkvæmdarvaldinu. Ég hef lagt til að nefndir þingsins komi meira við sögu og jafnvel undir fullum trúnaði. Einni nefnd þingsins ber að halda trúnað samkvæmt lögum og það er hv. utanríkismálanefnd. Sagan kennir okkur það að það þarf að fara mjög varlega með þetta gífurlega vald, þessa dulúð sem er í barnaverndarmálum, og í rauninni hefur lítið sem ekkert breyst. Það er lítið sem ekkert sem kemur í veg fyrir þau ósköp sem gerðust í Breiðavík. Ég vil að menn í hv. nefnd skoði að þessi eftirlitsstofnun og það mundi jafnvel — þingið gæti að sjálfsögðu flutt um það frumvarp, að þessi eftirlitsstofnun yrði kjörin af félagsmálanefnd þingsins. Þangað kæmu mál og foreldrar, sem telja sig órétti beitta eða barnið sitt, gætu snúið sér til nefndarinnar undir fullum trúnaði og óskað eftir úrbótum á lögum eða reglum, án beinnar kæruheimildar, heldur til að vekja athygli á einhverjum vanda sem kæmi upp. Þetta vantaði þegar Breiðavíkurheimilið var starfrækt. Margir foreldrar vissu hvað gerðist þar en gátu ekki snúið sér neitt. Það væri ágætt út af þrískiptingu valdsins að það væri Alþingi eða nefndir þingsins sem tækju þetta mál og könnuðu hvort þyrfti að breyta lögum, reglum eða eftirliti með starfseminni.



[12:33]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að það var lítið tækifæri fyrir fólk, foreldra, sem upplifðu það að missa börnin sín til Breiðavíkur, að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Það er rétt að rifja það upp líka að margt var á almannavitorði. Það þótti allt í lagi að vegalaus börn sem áttu ekki sterka að og voru í flestum tilvikum á framfæri einstæðra mæðra eða annarra þeirra sem stóðu höllum fæti í samfélaginu, að virða mannréttindi þeirra að vettugi. Flest lá fyrir og það hefur margoft komið fram í opinberri umræðu á undanförnum áratugum ýmiss ávæningur af því hvað var að gerast í Breiðavík. Ég las ævisögu Sævars Ciesielskis sem kom út 1980, þar sem þessu var lýst en menn hlustuðu ekkert á fólk eins og hann. Það er auðvitað vanrækslusynd okkar að hlusta ekki. Það hefur blessunarlega margt lagast í barnaverndarmálum á þessum tíma. Auðvitað eru vinnubrögð barnaverndaryfirvalda allt önnur núna en þau voru þá. Eftir stendur að tiltrú skiptir miklu máli og hún skapast auðvitað með hlutlausu eftirliti – hún eykst við það og styrkist.

Það skiptir miklu máli að vanda vel til þessarar útfærslu. Ég hlakka til að hafa samráð og eiga samræður við félags- og tryggingamálanefnd þegar við verðum komin lengra með hönnun verkefnisins. Hugsun okkar með eftirlitsstofnun af þessum toga er ekki aðeins að hafa eftirlit með barnaverndarúrræðum, heldur kaupum á velferðarþjónustu. Vera í færum til þess að tryggja að allar ákvarðanir varðandi kaup á velferðarþjónustu séu teknar með faglegum hætti. Það er mikilvægt að koma því eftirliti á einn stað. Það eru fordæmi um þetta í nágrannalöndum okkar sem hafa tekist vel.



[12:35]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér ræðum við um frumvarp til laga um breytingar á barnaverndarlögum. Barnaverndarlög eru afskaplega mikilvæg mál og mér þykir miður hvað umræðan ætlar að vera lítil. Ég hef reynt að setja mig inn í frumvarpið, ég verð að viðurkenna að ég er ekki búinn að lesa það allt, en það er mjög margt áhugavert sem kemur þar fram. Menn reyna að bregðast við því sem gerðist í Breiðavík og annars staðar og það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra um sérstaka eftirlitsstofnun, ég vil að nefndin taki þetta upp sem ábendingu frá ráðherra og vinni sjálf að því að semja frumvarp að eftirlitsstofnun, að það komi einhver aðili að þessu sem ekki er tengdur öllu barnaverndarkerfinu. Þar er ákveðin dulúð og leynd sem kjörnir fulltrúar í hv. félagsmálanefnd gætu haft aðra skoðun á heldur en þeir sem starfa í sjálfu kerfinu.

Ég sé ekki neins staðar í frumvarpinu rætt um hina gífurlegu ógn, fíkniefni og fíkniefnaneyslu foreldranna, sem steðjar að börnum þessa lands. Það er þekkt að á Íslandi höfum við lengi haft neyslu, áfengisneyslu og fyllibyttur. Íslendingar hafa kannast við það í 100 ár og öll þau gífurlegu vandræði og fátækt sem af því leiðir, því þar er virkileg fátækt, jafnvel þó viðkomandi sé með miklar tekjur. Það er ekki hægt að kaupa mjólk af því brennivínið er svo dýrt, eins og einhver sagði.

Fíkniefnin bjóða upp á alveg nýtt og óþekkt vandamál. Það er spurningin sem barnaverndaryfirvöld og aðrir standa frammi fyrir. Hvenær er komið nóg? Hvenær er barnið búið að líða nógu mikið fyrir fíknina, ruglið, sinnuleysið og allt sem fylgir þessu, brotin og svikin loforð alla daga, tortryggni o.s.frv. og óttann við helgar og jól, frú forseti? Hvenær er komið nóg? Hvenær segir barnaverndarnefnd: „Það er betra fyrir barnið að vera tekið frá foreldrunum, heldur en að vera ekki tekið frá foreldrunum“? Þetta er alls ekki einfalt mál, barnið mundi yfirleitt alltaf velja að vera hjá foreldrum sínum þrátt fyrir allar hörmungarnar.

Þetta þarf að ræða, frú forseti. Við getum ekki sagt ja, það er engin neysla á Íslandi, því það er neysla á Íslandi. Við getum ekki sagt að þessi neysla snerti ekki börn, því hún snertir börn. Það er fjöldi barna í umsjá foreldra sem eru í neyslu. Foreldra sem eru sjúkir, viljalausir og stöðugt að svíkja barn sitt sem og aðra. Þetta er mjög alvarlegt mál og ég vil að nefndin fari alveg sérstaklega í gegnum vandamálin, sem eru stóraukin fíkniefnaneysla á heimilum landsins og allt sem að því hlýst. Ég geri mér alveg grein fyrir því að barnaverndarstarfsfólk er engan veginn í auðveldri stöðu að taka á svona málum.

Við þurfum einhvern veginn að brjóta þann huliðshjúp sem er yfir þessum málum. Brjótast út úr þessari slæmu stöðu svo að foreldrar og aðrir aðstandendur geti snúið sér eitthvert til að staða barnanna verði bætt, hvort sem það er gert með aðstoð við foreldra sem er gert mjög víða og þar er unnið mjög gott starf, ég ætla ekki gagnrýna það. Það þarf að vera meiri athygli á barnaverndarmálum og ég skora á hv. nefnd að ræða þetta mál í hörgul og mun meira því umræðan hérna á Alþingi gefur til kynna að áhugaleysi sé um barnaverndarmál.



[12:39]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal ræðir um frumvarp til laga um barnavernd og þá mikilvægu ábyrgð okkar að huga að vernd og líðan barna í íslensku samfélagi. Ég kem hér upp því þingmaðurinn, frú forseti, hefur lagt til að félags- og trygginganefnd breytist í einhvers konar úrskurðarnefnd barnaverndarmála. Ég vara við þessari hugmynd, því ég held að í barnaverndarmálum sé fólk með mikla sérþekkingu og reynslu af starfi með börnum sem búa við mismunandi aðstæður og hafa mátt þola mismunandi meðferð. Í mínum huga lyktar þetta af fyrirgreiðslupólitík sem ég veit að hv. þingmaður er ekki — það er ekki það sem hann er að hugsa um. Ég veit að hv. þingmanni gengur gott eitt til. Hann vill tryggja að ekki sé hægt að brjóta á réttindum fólks þegar börn eru t.d. tekin í vistun utan heimilis.

Ég spyr hv. þingmann hvernig hann sér hlutverk nefndarinnar fyrir sér og telur hann nefndina hafa þekkingu og reynslu til þess að meta hið rétta í málunum? Þetta eru mjög flókin mál. Þetta eru tilfinningaþrungin mál og varða kjarnann í lífi okkar sem manneskjur. Telur hann að við níu sem sitjum í nefndinni, öll ágætisfólk, séum til þess fallin að meta hvað sé rétt og hvað sé rangt í barnaverndarmálum?



[12:42]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur ekki hlustað nægilega vel á ræðu mína, eða ég hef ekki tjáð mig nægilega vel. Ég sagði að menn ættu að geta snúið sér til nefndarinnar og hún í kjölfarið hugsanlega breytt lögum ef ástæða er til, en ekki úrskurða eitt eða neitt. Það er ekki málið. Ef það hefði komið fram á sínum tíma, ef eitthvert af þeim foreldrum sem áttu börn á Breiðavík, eða börnin sjálf, hefðu getað komið til nefndarinnar og sagt: Svona er þetta á þessum stað, þá hefði nefndin í kjölfarið getað breytt lögunum, því við erum löggjafarsamkunda. Við setjum rammann utan um þjóðfélagið og við megum ekki, eins og ég hef margoft varað við, treysta of mikið á sérfræðingana. Það vill svo til að við þekkjum þessi mál sjálf. Við eigum sjálf börn og höfum kynnst alls konar félögum og öðrum sem eru í þessu. Það eru ekki aðeins sérfræðingar sem geta búið til lög, það er nefnilega mjög varasamt að sérfræðingar búi til lög. Ég tel miklu skynsamlegra að nefndin hafi frumkvæði að því sem þarf að breyta, t.d. eftirlitinu sem á að setja á laggirnar, og semji frumvörpin sjálf. Nefndin getur kallað til sérfræðinga og spurt þá og síðan lagt mat sitt á það hvort ráðleggingar þeirra eru réttar eða rangar. Það er nefnilega stórhættulegt þegar þjóðfélagið og sérstaklega löggjafinn fer að treysta um of á að sérfræðingar úti í bæ vinni að þessum málum og smíði jafnvel vopn í hendur sér eins og maður sér í skattalögunum.

Ég legg til að nefndin taki málið upp og fari í gegnum það hvernig þessi eftirlitsstofnun yrði hönnuð. Hún geti jafnvel breytt þingsköpum þannig að hv. félagsmálanefnd verði bundin trúnaði um þau mál og þær athugasemdir sem fólk kemur með. Nefndin eigi að breyta umgjörðinni um þjóðfélagið, en ekki dæma í einstökum málum.



[12:44]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að koma upp og endurtaka að ég er ósammála hv. þm. Pétri Blöndal. Varðandi það að fólk geti komið til nefndarmanna og óskað eftir lagabreytingum, þá er þetta sú regla sem viðhöfð er á Alþingi í dag. Við sitjum sem fulltrúar íslenska ríkisborgara hér á Alþingi og það eru allir í aðstöðu til að koma til okkar ábendingum. Hér spretta upp fjölmörg frumvörp og þingsályktunartillögur, einmitt vegna slíkra ábendinga. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður leggi til, frú forseti, að það verði sérstaklega kveðið á um þetta í lögum um barnavernd.

Ég vil líka mótmæla þessari umræðu um sérfræðinga. Ég held að sé mjög heppilegt að sérfræðingar útbúi lagafrumvörp, en það er að sjálfsögðu hlutverk okkar alþingismanna að leggja pólitískar línur sem eiga að vera til grundvallar í markmiðum og tilgangi slíkra frumvarpa. Ég segi það vera fyllilega eðlilegt að félags- og tryggingamálanefnd ræði um hvers konar eftirlitsstofnanir við viljum hafa hér í samfélaginu og síðan gætum við t.d. með þingsályktunartillögu kveðið á um hvaða atriði við vildum að kæmu fram í slíku frumvarpi. Við höfum ólíkar skoðanir á því hvernig Alþingi á að koma að lagasetningu þó ég vilji auka völd þingsins en við eigum að gera það með pólitískri stefnumótun en ekki endilega með því að skrifa frumvörpin. Ég held að það sé aukaatriði. Við skulum svo sannarlega leggja hinar pólitísku línur.



[12:46]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Enn misskilur hv. þingmaður mig. Ég legg t.d. til að fólk eins og Sævar Ciesielski sem hæstv. ráðherra nefndi hér áðan að hefði ekki verið hlustað á, gæti komið til nefndarinnar og kvartað. Það hlustar enginn á hann að sjálfsögðu, það trúir honum enginn, en nefndin hefði getað spurt aðilana sem um þetta sæju og þeir yrðu að veita upplýsingar. Það mega þeir ekki í dag. Þeir mega ekki í dag veita nefndum upplýsingar. Það er þetta sem ég er að segja, að nefndin sé bundin trúnaði, en hún fái líka allar upplýsingar eins og starfsmenn barnaverndarmála.

Ég er að tala um að starfsmenn barnaverndarmála séu leystir frá þagnarskyldu gagnvart nefndinni þannig að hún geti virkilega kannað hvort það sem viðkomandi segir eigi við rök að styðjast. Það er þetta sem ég á við.

Varðandi það að sérfræðingar smíði lög er það stórhættulegt vegna þess að sá sem semur frumvarpið upphaflega þarf ekki að rökstyðja neitt. Sá sem semur frumvörp í Samkeppnisstofnun um samkeppnislög þarf ekki að rökstyðja neitt. Allir aðrir, ráðherra, ráðuneyti, ríkisstjórn, þingflokkar, nefndir, þurfa að rökstyðja breytingar. Þeir þurfa að segja: Við þurfum að breyta þessu af því að … en ramminn, meginefnið, er höfundar. Það er svo mikilvægt að þingmenn semji frumvörp sjálfir þó að það sé erfitt og þó að það sé vinna, það er þó handbragð höfundarins á frumvarpinu. Við eigum að stórefla nefndasviðið. Við eigum að ráða þangað fólk úr ráðuneytunum sem vinnur við lagasetningu, vinnur við að semja lög. Við höfum fjárveitingavaldið. Við tökum þetta fólk inn til Alþingis, látum það semja frumvörp í nafni nefndanna, í nafni þingmanna sem hafa þá höfundarrétt á viðkomandi frumvarpi.



[12:48]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um breytingar á barnaverndarlögum en það er sá málaflokkur sem er hvað viðkvæmastur í okkar samfélagi en jafnframt gríðarlega mikilvægur. Það er ekki síst mikilvægt að reglur og öll umgjörð í kringum þennan málaflokk séu skýrar og að menn séu meðvitaðir um hver tilgangur þeirra er.

Ég vil byrja á því að fagna því að þetta frumvarp er komið fram og ég heiti því að umræðan og málsmeðferðin í félags- og tryggingamálanefnd mun verða ítarleg. Við munum beita okkur fyrir því öll sem þar erum að taka á þessu með ábyrgum hætti.

Það eru nokkur atriði sem ég vil nefna sérstaklega og sem ég tel mikilvægt að við fjöllum um. Það eru í fyrsta lagi auknar heimildir fyrir barnaverndarnefndir til þess að eiga samstarf við aðra aðila sem koma að því að annast barn. Það er fjallað um það í 11. og 13. gr. frumvarpsins. Ég tel að það sé mjög mikilvægt nýmæli að barnaverndarnefnd getur ákveðið með úrskurði að láta aðilum í té upplýsingar um líðan barns og meðferð máls ef það er talið nauðsynlegt vegna hagsmuna barnsins. Ég tel að sé gríðarlega mikilvægt ákvæði til þess einmitt að tryggja það að öll umgjörðin sé í lagi og allir þeir aðilar sem þarna koma við sögu átti sig á því hver staðan er og að menn vinni saman að sama markmiðinu, en ekki hver í sínu horni.

Það hefur auðvitað verið reynt að vinna þetta svona en það er að sjálfsögðu í sumum tilvikum erfitt þar sem strangar trúnaðarreglur gilda um ýmis atriði. Ég tel að þetta sé gríðarlega mikilvæg réttarbót og mikilvægt nýmæli.

Síðan er það tilkynningarskyldan sem jafnframt er fjallað um í 6.–8. gr. frumvarpsins. Þarna er í rauninni verið að styrkja ákvæðin, skýra hvað átt er við og hvað felst í tilkynningarskyldunni. Ég tel að þetta sé mikilvægt, við þurfum að fara vel yfir hvort þetta er fullnægjandi. Þarna er t.d. verið að styrkja ákvæði sem lúta að ófrískum konum en jafnframt er tekið að einhverju leyti á því sem kom í máli fram í máli hæstv. þm. Péturs Blöndals varðandi foreldra sem stunda ofneyslu áfengis eða fíkniefnaneyslu.

Það skiptir líka máli hvernig almenningur og við öll erum upplýst um innihald laganna. Ég vonast til þess að þegar þetta frumvarp verður afgreitt sem lög héðan frá Alþingi að farið verði í ágætiskynningu á því hvað felst í þessum ákvæðum frumvarpsins hvað varðar tilkynningarskyldu.

Frú forseti. Ég vil að lokum tala um það þegar mál flytjast á milli umdæma, þ.e. þegar barnaverndarnefnd hefur mál til meðferðar varðandi barn sem breytir lögheimili og málið flyst til annarrar barnaverndarnefndar. Þarna er hættan á því að mál falli svolítið á milli stafs og hurðar og að málin tefjist. Ef til vill er komið að ákvörðun í ákveðnu barnaverndarmáli þegar forsjáraðilinn ákveður að flytja á milli umdæma til þess að hugsanlega koma í veg fyrir að ákvörðun sé tekin.

Í núverandi kerfi er reynt að halda eins vel utan um þetta og hægt er, en við verðum að tryggja að lagagrundvöllurinn sé það skýr að hægt sé að halda áfram með mál nánast á fullum dampi þrátt fyrir að menn velji að flytja með barn milli umdæma. Þetta er atriði sem reynslan hefur sýnt að hefur stundum verið á gráu svæði og það hefur valdið ákveðnum erfiðleikum í starfi barnaverndarnefnda. En okkur í þinginu ber að tryggja að þetta ákvæði laganna sé nógu skýrt og það sé algjörlega ljóst að heimildir eru til staðar.

Frú forseti. Ég fagna því enn og aftur að þetta frumvarp er komið fram og hlakka til að takast á við það í nefndinni.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til fél.- og trn.