138. löggjafarþing — 118. fundur
 6. maí 2010.
umferðarlög, 1. umræða.
stjfrv., 553. mál (heildarlög). — Þskj. 943.

[13:32]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra umferðarlaga. Frumvarpi þessu, ef að lögum verður, er ætlað að leysa af hólmi núgildandi umferðarlög, nr. 50/1987, sem löngu tímabært var orðið að endurskoða.

Sá sem hér stendur skipaði nefnd undir forsæti Róberts R. Spanós lagaprófessors þann 1. nóvember 2007 í þessu skyni og skilaði hún drögum að frumvarpinu 5. júní á síðasta ári. Þau voru kynnt á vef ráðuneytisins og fjöldi umsagna barst sem síðar voru metnar. Jafnframt voru ráðuneytum og stofnunum sem koma að umferðarmálum send drögin til umsagnar. Enn komu fjölmargar athugasemdir fram og var sérstaklega áberandi í þeim hversu mikil áhersla var lögð á mikilvægi þess að tekið væri tillit til umhverfissjónarmiða við ákvörðun um tilhögun umferðar hér á landi.

Í skipunarbréfi var nefndinni m.a. falið að lagfæra ákvæði gildandi laga sem þóttu óskýr, t.d. að stuðla að samræmingu umferðarlöggjafar við alþjóðlega samninga og skuldbindingar um umferðarmál, útfæra reglugerðarheimildir með skýrari hætti en verið hefur og leggja til efnisbreytingar á ákvæðum um viðurlög.

Við gerð frumvarpsins hefur verið tekið mið af niðurstöðum nefndarinnar, svo og þeim athugasemdum sem bárust ráðuneytinu og breytingar gerðar á upphaflegum frumvarpsdrögum til samræmis við fram komnar athugasemdir. Enn fremur hefur orða- og hugtakanotkun verið samræmd í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Ég geri nú nánari grein fyrir helstu nýmælum og breytingum sem felast í frumvarpinu.

Fyrst ber að nefna að sett er inn markmiðsgrein í frumvarpið en slíkt hefur ekki verið í umferðarlögum. Markmið frumvarpsins er háleitt, það að vernda líf og heilsu vegfarenda með auknu umferðaröryggi þar sem jafnræðis sé gætt milli vegfarenda óháð samgöngumáta og tillit tekið til umhverfissjónarmiða við skipulagningu umferðar. Fyrstu formlegu umferðarlögin voru sett fyrir 70 árum en á þeim rúmlega hundrað árum frá því að farið var að nota bifreiðar sem samgöngutæki hér á landi hefur fórnarkostnaðurinn í umferðinni verið allt of hár, ekki hefur svo ár liðið að fleiri eða færri hafi ekki farist og slasast í umferðarslysum. Marktækur árangur hefur þó náðst á undanförnum árum í fækkun umferðarslysa, en betur má ef duga skal. Það er mögulegt að ná sambærilegum árangri í fækkun banaslysa í umferð á landi eins og á sjó og í flugi þar sem banaslysum hefur svo til verið útrýmt. Með markvissara regluverki í umferðinni miðar þetta frumvarp að auknu umferðaröryggi og fækkun umferðarslysa.

Ein af mikilvægum breytingunum í frumvarpinu er að nýjar skilgreiningar eru settar fram og aðrar endurskoðaðar. Er hér tekið mið af þeirri þróun sem orðið hefur í umferðarmálum á undanförnum árum, m.a. í gerð umferðarmannvirkja. Of langt mál er að telja upp ný og breytt hugtök í frumvarpinu en endurskoðuð skilgreining á hugtakinu vegur er vafalaust ein róttækasta breytingin. Í núgildandi lögum telst götuslóði til vegar en í frumvarpinu er lagt til að akstur utan vega verði takmarkaður við merkta vegslóð sem þrengir óneitanlega skilgreiningu á því hvað teljist til vegar. Ekki verður lengur undan því komist að taka á því mikilvæga máli sem utanvegaakstur er, og er með þessari skilgreiningu stefnt að því að einungis megi aka hér á landi á fyrir fram merktum leiðum, hvort sem slíkar merkingar taka mið af GPS-staðsetningartækni eða umferðarmerkjum.

Í frumvarpinu eru gerðar talsverðar breytingar á almennum umferðarreglum í samræmi við þá þróun sem orðið hefur á þessu sviði á undanförnum árum og verða nokkrar taldar upp hér:

Í gildandi lögum segir að ef „ökutæki mætast þar sem vegur er svo mjór, að hvorugt kemst fram hjá hinu áhættulaust, skal sá ökumaður, sem betur fær því við komið, aka út af vegi eða aftur á bak“. Þessi efnisregla er of óáþreifanleg að efni til. Er því lagt til að tekin verði upp fortakslausari viðmiðun þannig að orðalaginu „sem betur fær því við komið“ verði breytt í að „sá ökumaður sem fyrstur kemur að [skuli] njóta forgangs, en sá sem síðar kemur að skal, ef kostur er, nema staðar, aka út af vegi eða aftur á bak“.

Til að allrar varúðar sé gætt þegar stöðva þarf eða leggja ökutæki á akbraut er í frumvarpinu lagt til annars vegar að lögfest verði skýr og fortakslaus regla um að stöðuljós og hættuljós skuli, ef nokkur kostur er, vera tendruð.

Í frumvarpinu er lagt er til að lögfest verði nýmæli um akstur á hringtorgum sem byggð eru á þeirri reynslu sem fengist hefur. Slík ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum. Reyndar er eina ákvæðið í gildandi lögum um hringtorg það að kveðið er á um bann við stöðvun og lagningu ökutækis í hringtorgi. Reglur um akstur í hringtorgum í frumvarpinu eru settar fram í samræmi við eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins, þ.e. að leitast við að laga gildandi reglur að þeim breytingum sem orðið hafa á umferðarmannvirkjum frá því að gildandi lög voru sett ásamt því að gera þessar reglur skýrari.

Þá er í frumvarpinu lögð áhersla er að umhverfissjónarmiða sé gætt við skipulagningu umferðar á landi, en eins og áður sagði lutu margar athugasemdir sem bárust vegna frumvarpsins að því að efla bæri umhverfisþátt frumvarpsins. Falla þessi sjónarmið reyndar vel að stefnuyfirlýsingu núverandi hæstv. ríkisstjórnar frá því í fyrra um mikilvægi aukinnar umhverfisvitundar í þjóðfélaginu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að við ákvörðun um skipulagningu sérreina og enn fremur við ákvörðun á hámarkshraða skuli meðal annarra atriða tekið tillit til umhverfissjónarmiða.

Lagt er til í 82. gr. að sveitarfélög geti ákveðið gjald vegna notkunar nagladekkja en þó eingöngu að höfðu samráði við Vegagerðina. Slíkt fyrirkomulag þekkist víða erlendis, m.a. í Noregi, og hefur gefist vel. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að til grundvallar þessu ákvæði liggi skýrsla starfshóps samgönguráðuneytis og umhverfisráðuneytis sem gefin var út í apríl 2007. Þar er m.a. fjallað um notkun negldra hjólbarða. Bent er á í skýrslunni að negldir hjólbarðar eigi stóran þátt í að hraða sliti á götum, sérstaklega malbiks. Ávinningur af því að draga úr notkun negldra hjólbarða felst m.a. í minna svifryki, minni kostnaði við hreinsun og minni eyðslu eldsneytis. Bent er á að á móti þessum ávinningi vegi hins vegar umferðaröryggissjónarmið í vissum tilfellum þar sem negldir hjólbarðar geti aukið öryggi við sérstakar aðstæður. Heildarniðurstaða starfshópsins var að gjald vegna notkunar nagladekkja mundi draga úr því að ökumenn notuðu nagladekk og að hugað yrði að gjaldtöku fyrir notkun negldra hjólbarða til framtíðar og það nánar útfært í frumvarpi þessu.

Í frumvarpinu er lagt til það mikilvæga nýmæli að lágmarksaldur til að öðlast ökuleyfi verði hækkaður úr 17 árum í 18. Í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir að aðlögunartími verði fjögur ár þannig að lágmarksaldur hækki um þrjá mánuði á hverju ári miðað við árið 2011 til ársins 2015, en þá verði lágmarksaldurinn kominn í 18 ár.

Hvers vegna að hækka bílprófsaldurinn, virðulegi forseti? Að mati rannsóknarnefndar umferðarslysa er talið unnt að áætla í ljósi fyrirliggjandi rannsókna að hlutfallsleg fækkun umferðarslysa meðal nýliða yrði 5–9% ef tillögur frumvarpsins verða að veruleika. Umferðarslys eru algengasta dánarorsök fólks á aldrinum 15–24 ára innan OECD-ríkja en rúmlega 35% þeirra sem láta lífið á þessu aldursbili farast í umferðarslysum.

Einnig er vert að benda á að einstaklingar öðlast lögræði við 18 ára aldur, þ.e. sjálfræði og fjárforræði. Núgildandi fyrirkomulag veldur því vandkvæðum að ýmsu leyti þegar ökumaður undir 18 ára aldri lendir í slysi sem veldur honum eða öðrum fjártjóni. Hann getur ekki borið fjárhagslega ábyrgð á ökutæki sínu án aðkomu forráðamanns.

Þá er lagt til í frumvarpinu að þungamiðja ökunáms flytjist til ökuskóla. Hér er um grundvallaratriði að ræða sem mun án efa verða lyftistöng í ökunámi og gera það markvissara. Einnig er lagt til að ökukennarar verði starfsmenn ökuskóla og kröfur um endurmenntun ökukennara eru auknar.

Ökuréttindaflokkar eru nú tilgreindir í heild sinni í frumvarpinu í stað þess að hafa upptalningu á reglugerðarheimildum vegna mismunandi ökuréttindaflokka eins og er í núgildandi lögum. Þegar litið er til þess að þessir flokkar eru alls 18 talsins og fyrir öll vélknúin ökutæki er ljóst að hugtakið aukin ökuréttindi á ekki lengur rétt á sér enda hefur það verið tekið út úr frumvarpinu. Ákvæðið um ökuréttindaflokka er byggt á tilskipun Evrópusambandsins um ökuskírteini og kemur það til framkvæmda 1. janúar 2013 í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu.

Í frumvarpinu er það mikilvæga nýmæli að 70 ára reglan varðandi gildistíma almenns ökuskírteinis er afnumin. Þetta er í samræmi við nýlega tilskipun Evrópusambandsins. Að vel athuguðu máli er lagt til að gildistími ökuskírteinis hér á landi verði 15 ár og á það við um öll almenn ökuskírteini sem gefin verða út eftir 1. janúar 2013, hvort sem um er að ræða ný eða endurútgefin ökuskírteini, t.d. ef ökuskírteini hefur glatast. Með þessu er stefnt að því að öll ökuskírteinalöggjöf á Evrópska efnahagssvæðinu verði samræmd og ökuskírteini útgefið í einu aðildarríki gildi ótakmarkað á öllu svæðinu.

Þá er það mikilvæga nýmæli í frumvarpinu að lagt er til að mælt verði fyrir um þá skyldu læknis að gera trúnaðarlækni Umferðarstofu viðvart án tafar ef hann telur vafa leika á að handhafi ökuréttinda fullnægi umræddum skilyrðum. Það fyrirkomulag sem tíðkast hefur að láta heimilislækna hafa síðasta orðið um það hvort ökumaður búi yfir nægilegri hæfni til að aka bifreið hefur ekki gefist nægilega vel. Því ætti það að vera til bóta að mat um hvort á skorti að ökumaður sé líkamlega og andlega hæfur til að stjórna ökutæki sé í höndum trúnaðarlæknis Umferðarstofu en ekki persónulegs læknis hlutaðeigandi. Trúnaðarlæknir getur ákveðið að handhafi ökuréttinda fari í verklegt ökupróf að lokinni læknisrannsókn. Með því að takmarka gildistíma ökuskírteinis við 15 ár og setja á stofn embætti trúnaðarlæknis Umferðarstofu verður auðveldara að fylgjast með heilsufari ökuskírteinishafa og endurnýja eingöngu réttindin ef viðkomandi telst hæfur til að gegna því ábyrgðarmikla hlutverki að aka bifreið.

Hæstv. forseti. Miklu skiptir að reglur um ökuhraða séu þannig úr garði gerðar að þær tryggi öryggi í umferðinni en jafnframt að ökumenn komist greiðlega milli staða. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að reglur um hámarkshraða utan þéttbýlis verði rýmkaðar þannig að ökuhraði á akbraut með bundnu slitlagi og fleiri en einni akrein verði samræmdur í 90 km/klst. Þetta felur í sér að hámarkshraði bifreiða sem eru meira en 3,5 tonn að leyfðri heildarþyngd (að undanskildum hópferðabifreiðum) og bifreiða með eftirvagn verði hækkaður úr 80 km/klst. í 90 km/klst. Hér takast á tvenns konar sjónarmið, annars vegar að takmarka eins og kostur er hraða stærri og þyngri bifreiða og bifreiða með eftirvagna vegna hættueiginleika þeirra, og hins vegar að leitast er við að samræma hraða bifreiða á þjóðvegum landsins, m.a. með það að markmiði að draga úr framúrakstri.

Þá er það nýmæli í lögunum að kveðið er upp úr um að þar sem ekki eru sérstakar leiðbeiningar og merkingar um annað megi ökuhraði í þéttbýli ekki vera meiri en 50 km/klst. Í gildandi lögum segir að ökuhraði í þéttbýli megi ekki vera meiri en 50 km/klst. Með tilliti til þess að algengt er að stofnbrautir liggi í gegnum þéttbýli þar sem réttlætanlegt getur verið að hámarkshraði sé yfir 50 km/klst. þykir rökréttara að mæla svo fyrir að hámarkshraði í þéttbýli sé 50 km/klst. nema annað sé gefið til kynna með umferðarmerkjum.

Lagt til að heimild verði í lögunum til að hækka hámarkshraða í 110 km/klst., en hámarkshraði er 100 km/klst. í gildandi lögum. Ljóst má vera að slíkur hraði verði eingöngu leyfður á svokölluðum 2+1 eða 2+2 vegi utan þéttbýlis þar sem eru tvær akbrautir í eina átt og ein akbraut í gagnstæða átt eða tvær akbrautir í gagnstæðar áttir með vegriði milli akstursleiða.

Í frumvarpi þessu hefur verið leitast við að gera valdmörk á milli stjórnvalda, einkum ráðherra, lögreglustjóra og sveitarstjórna, skýrari og einfaldari. Þetta felst m.a. í því að draga úr stjórnsýsluhlutverki lögreglunnar og færa verkefni sem lögregla hefur haft á hendi samkvæmt umferðarlögum í auknum mæli til Umferðarstofu, Vegagerðarinnar og sveitarstjórna, eftir því sem við á. Ljóst er að verkefni lögreglunnar eru ærin fyrir og því rökrétt að stofnunum sem sinna umferðarmálum séu falin verkefni á sínu sviði, jafnframt því sem sveitarstjórnum eru falin aukin hlutverk í útfærslu á ákvæðum frumvarpsins. Þykir eðlilegra að það sé á höndum þessara aðila að útfæra heimildir á grundvelli laganna, t.d. umsýslu vegna aksturskeppna, samanber VI. kafla um akstursíþróttir og aksturskeppni á vegum, ákvarðanir um hraðamörk á vegum og uppsetningu umferðarmerkja, svo eitthvað sé nefnt. Það er hins vegar hlutverk lögreglu eftir sem áður að grípa inn í ef ekki er farið að ákvæðum laganna.

Hjólreiðar hafa aukist til muna á undanförnum árum og reiðhjólið er notað í auknum mæli sem samgöngutæki. Lagt er til að efnisákvæði reglna nr. 631/1999, um skyldubundna notkun hlífðarhjálms við hjólreiðar barna yngri en 15 ára gamalla, verði lögfest í frumvarpinu í samræmi við eina af meginstefnumörkun frumvarpsins um að helstu hátternisreglur sem nú er aðeins að finna í stjórnvaldsfyrirmælum séu lögbundnar.

Mikil aukning hefur orðið á bifhjólaeign landsmanna undanfarin ár og ber frumvarpið það með sér í ítarlegri ákvæðum um öryggi í bifhjólaakstri en eru í gildandi lögum. Lagt er til að lögfest verði þau nýmæli að heimilt verði að aka bifhjóli samhliða öðru bifhjóli á sömu akrein í þéttbýli, enda sé hámarkshraði eigi meiri en 60 km/klst. Ekki er talin ástæða til að setja hömlur við því að slíkur akstur eigi sér stað þegar aðstæður með tilliti til umferðar leyfa.

Kveðið er á um að flytja megi farþega á léttu bifhjóli, enda sé ökumaðurinn 20 ára eða eldri og bifhjólið til þess gert. Þar með er vikið frá fyrri reglu sem bannaði alfarið flutning farþega á léttu bifhjóli. Sé bifhjól hins vegar gert til að flytja farþega er ástæðulaust að banna slíkt sé ökumaður orðinn fullra 20 ára.

Rétt þykir í frumvarpinu að gera greinarmun á fortakslausri skyldu til að nota hlífðarhjálm annars vegar og hins vegar æskilegri notkun á hlífðarfatnaði og búnaði við akstur bifhjóls. Með þessu er áréttað samkvæmt frumvarpinu að ökumaður og farþegi bifhjóls skuli klæðast þeim búnaði sem hæfir viðkomandi akstri og fellur slíkur fatnaður og búnaður þannig í flokk með öryggisbúnaði og verndarbúnaði. Rétt er að taka fram að bifhjólamenn hafa tekist mjög á um hvort fortakslaus lagaskylda eigi að liggja til grundvallar notkun á hlífðarfatnaði við akstur bifhjóls.

Þá er mikilvæg nýmæli að finna um skráningarskyldu ökutækja en samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að allar vinnuvélar í umferð, svo og allir eftirvagnar og kerrur, verði skráningarskyldar en í gildandi lögum eru kerrur undir 750 kg að þyngd undanskildar skráningu. Hefur lögreglan mjög hvatt til þess að allar kerrur verði skráningarskyldar en borið hefur á því að vanbúnar kerrur í umferð valdi slysum, m.a. með því að losna af festingum og fjúka til. Eftir sem áður þarf ekki að skrá eftirvagna sem alfarið eru notaðir utan umferðar. Enn fremur er gert ráð fyrir að beltabifhjól verði skráningarskyld en þau eru einkum notuð á snjó og hjarni.

Í IX. kafla frumvarpsins er fjallað um reglur um aksturs- og hvíldartíma ökumanna en þær byggjast annars vegar á sjónarmiðum sem varða umferðaröryggi og hins vegar vinnuverndarsjónarmiðum. Hefur sú leið verið farin í frumvarpinu að setja fram ítarlegri reglur en nú eru í gildandi lögum, en ekki þykja efni til að taka inn allar hátternisreglur sem er að finna í reglum um aksturs- og hvíldartíma atvinnubílstjóra sem voru fyrst innleiddar í íslenskan rétt í framhaldi af gildistöku EES-samningsins 1993. Nú liggur fyrir umsókn um vissar undanþágur frá þessum reglum hjá ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, og verða þær undanþágur sem fást hluti af löggjöfinni þegar ljóst verður um niðurstöðu málsins.

Mikilvæg nýmæli er að finna í frumvarpinu þess efnis að heimilt verði að láta eiganda eða umráðamann ökutækis sæta refsiábyrgð á hlutlægum grundvelli, þ.e. án þess að sýnt sé fram á sök hlutaðeigandi. Á það við þegar hraðakstursbrot er numið í löggæslumyndavél en hér er um svokallaða hlutlæga refsiábyrgð að ræða. Er þessi heimild háð því skilyrði að fyrir liggi að hraðakstursbrot sem myndað er í löggæslumyndavél varði ökumann ökutækisins ekki punktum í ökuferilsskrá. Ef svo er kemur hlutlæg ábyrgð eiganda eða umráðamanns ökutækis á þessum grundvelli ekki til greina. Segja má að refsiábyrgð í formi hlutlægrar refsiábyrgðar eiganda vélknúins ökutækis hafi kosti og líka galla. Kostir hennar eru einkum þeir að með henni verður eftirlit og úrlausn brota gegn ákvæðum um aksturshraða gert skilvirkara í framkvæmd. Til að staðreyna brot á hlutlægum grundvelli, að öðrum skilyrðum uppfylltum, þarf aðeins að ganga úr skugga um hver er skráður eigandi eða umráðamaður þess vélknúna ökutækis sem myndað hefur verið í löggæslumyndavél og sætir hann sektum óháð því hvort hann sjálfur eða annar maður hefur ekið í umrætt sinn. Það er skilyrði samkvæmt ákvæðinu að umrætt ökutæki sé ekki notað í heimildarleysi og þá í þeirri merkingu að ekki liggi fyrir að ökutækið hafi verið tekið ófrjálsri hendi eða að eigandi eða umráðamaður sviptur virkum eignarráðum þess með ólögmætum hætti. Hafi eigandi eða umráðamaður þannig lánað öðrum ökutækið til notkunar eru hlutlæg skilyrði ákvæðisins uppfyllt þótt lántaki fari út fyrir heimildir sínar við notkun þess. Með þessu fyrirkomulagi er eiganda eða umráðamanni ökutækis gert skylt að hafa virka umsjón og eftirlit með ökutæki sínu, t.d. gagnvart nánum aðstandendum, svo sem maka eða börnum, og gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru svo það sé ekki notað með þeim hætti sem fer í bága við ofangreindar reglur umferðarlaga. Sé litið til þess mikla forvarnagildis sem löggæslumyndavélar hafa og afskaplega góðrar reynslu margra Evrópulanda af notkun þeirra verður að álíta að kostir hlutlægrar ábyrgðar í því tilfelli að verið sé að nema brot á hámarkshraða í löggæslumyndavél vegi mun þyngra en fyrrgreindir gallar.

Í frumvarpinu eru þau nýmæli að efla á hlutverk Vegagerðarinnar í sérhæfðu eftirliti með akstri ökutækja sem eru meira en 3,5 tonn af leyfðri heildarþyngd og jafnframt að Vegagerðinni verði veitt heimild til að leggja á stjórnvaldssektir í þeim tilvikum sem ekki er farið að settum reglum, en að kæra megi niðurstöðu um stjórnvaldssekt til ráðuneytisins.

Með vísan til þeirrar reynslu sem fengist hefur af eftirlitshlutverki Vegagerðarinnar, svo og þeirrar stefnumörkunar frumvarpsins að draga úr sérhæfðu hlutverki lögreglu í eftirliti með umferð, er lagt til að gerð verði sú grundvallarbreyting frá gildandi lögum að brot á ákvæðum laganna um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, um stærð, heildarþyngd og ásþunga ökutækja, um búnað slíkra ökutækja og um hleðslu, frágang og merkingu farms, að undanskildum hættulegum farmi, samanber 78. gr., skuli almennt séð ekki sæta viðurlögum í formi refsinga, þ.e. fjársekta eða fangelsis, heldur varði slík brot stjórnvaldssektum sem ákveðnar verða af Vegagerðinni, eins og áður sagði.

Áhersla skal lögð á að ekki verði hróflað við því fyrirkomulagi samkvæmt gildandi lögum að almennt umferðareftirlit í þéttbýli og á þjóðvegum sé sem fyrr eitt af meginviðfangsefnum lögreglunnar í landinu.

Mikilvæg nýmæli frumvarpsins snúa að almennri refsireglu gildandi laga en lagt er til að hún verði afnumin og að þess í stað verði skýrt kveðið á um með sérstöku tilvísunarkerfi hvaða hátternisreglur frumvarpsins varði refsingu. Núverandi fyrirkomulag er í grundvallaratriðum byggt þannig upp að í 1. mgr. 100. gr. er að finna almenna refsireglu sem gerir ráð fyrir að hvers kyns brot á lögunum, eða reglum settum samkvæmt þeim, varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Það er einkenni slíkra almennra refsireglna að enginn greinarmunur er gerður í slíkum ákvæðum á milli einstakra hátternislýsinga heldur er þar að finna eyðutilvísun án nánari afmörkunar. Í 94. gr. frumvarpsins er lagt til að horfið verði frá slíkri framsetningu enda er hún bæði lagatæknilega óheppileg auk þess sem hún kann að valda vandkvæðum í framkvæmd út frá sjónarmiðum um skýrleika refsiheimilda. Í greininni eru talin upp þau ákvæði frumvarpsins sem valda sektum sé brotið gegn þeim. Á hinn bóginn er lagt til grundvallar að þær hátternisreglur laganna sem ekki eru þar upp taldar séu þess eðlis að ekki standi til þess rök að til refsiábyrgðar stofnist ef út af þeim er brugðið. Þar með má segja að ákvörðun um viðurlög við umferðarlagabrotum sé tekin úr höndum framkvæmdarvaldsins og færð í hendur löggjafarvaldsins.

Hæstv. forseti. Frumvarpið felur í sér að verulegar breytingar verða á framsetningu gildandi ákvæða um heimildir ráðherra til að útfæra nánar einstakar efnisreglur í umferðarlögum með setningu almennra stjórnvaldsfyrirmæla, einkum reglugerða. Er því leitast við að fækka reglugerðarheimildum og gera þær sem eftir standa fyllri og skýrari.

Ein helstu nýmæli frumvarpsins er að lagt er til að lækkuð verði mörk leyfilegs vínandamagns í blóði ökumanns úr 0,5‰ í 0,2‰ þannig að ökumaður verði ekki talinn geta stjórnað ökutækinu örugglega sé vínandamagnið í blóði 0,2‰ eða meira. Sé vínandamagn í blóði ökumanns 0,2–0,5‰ er þó ekki gert ráð fyrir að stjórnandi vélknúins ökutækis verði sviptur ökurétti við fyrsta brot. Með lækkun marka áfengismagns í blóði ökumanns eru send skýr skilaboð til ökumanna og þjóðfélagsins í heild um að akstur og áfengisdrykkja fari einfaldlega ekki saman. Þegar litið er til þess hversu algengt það er að áfengisneysla orsaki umferðarslys er brýnt að leita allra leiða til að draga úr ölvunarakstri og er þetta leið sem Svíar og Norðmenn hafa farið með góðum árangri.

Í samræmi við það meginmarkmið frumvarpsins að vernda líf og heilsu vegfarenda er lagt til að viðurlög verði hert til muna til að efla varnaðaráhrif refsinga vegna umferðarlagabrota.

Umferðarlöggjöf er í eðli sínu sérrefsilöggjöf þar sem leitast er við með boðum og bönnum að hafa áhrif á breytni vegfarenda í umferðinni, einkum þeirra sem aka vélknúnum ökutækjum, einnig eftir atvikum annarra, svo sem þeirra er fara um á reiðhjólum og gangandi vegfarenda. Í frumvarpinu er þannig lagt til að sviptingartími vegna alvarlegra eða stórfelldra brota gegn ölvunarakstursákvæðum umferðarlaga verði að jafnaði lengdur. Er með þeim breytingum vikið með skýrum og afdráttarlausum hætti frá þeim dómvenjum sem myndast hafa á undanförnum árum og áratugum við túlkun og framkvæmd á þessu sviði. Sérstaklega er tekið á ítrekuðum brotum gegn bannákvæðum um ölvunar- og vímuefnaakstur. Er þar lagt til að lágmarkssviptingartími vegna ítrekaðra ölvunar- og vímuefnaakstursbrota verði þrjú ár sem er aukning um eitt ár frá gildandi lögum. Við ítrekaðan ölvunarakstur þar sem áfengismagn í blóði er yfir 1,2‰ í síðara skiptið er gert ráð fyrir að ökuleyfissvipting verði fimm ár. Er það lenging um tvö ár frá gildandi lögum og svo róttæk breyting sem ég vil rökstyðja sérstaklega.

Í þeim tilvikum hefur stjórnandi vélknúins ökutækis áður sætt sektum og sviptingu ökuréttar vegna brota gegn bannákvæðum um ölvunarakstur og gerist á ný sekur um ölvunarakstur sem telst stórfelldur. Í samræmi við meginmarkmið frumvarpsins er gert ráð fyrir að hlutaðeigandi verði að sæta sviptingu ökuréttar í fimm ár. Verður að telja að þessi nýmæli muni auka verulega á varnaðaráhrif viðurlaga í þessum málaflokki og fela í sér skýr skilaboð löggjafans um að ítrekuð brot af þessu tagi séu með öllu óviðunandi. Það er enn fremur stefnumið frumvarpsins að í ríkari mæli verði gripið til fangelsisrefsingar vegna alvarlegra brota gegn ákvæðum frumvarpsins. Í samræmi við ofangreind stefnumið um að herða skuli refsingar fyrir alvarleg brot gegn ákvæðum umferðarlaga, einkum um ökuhraða og um ölvunar- og vímuefnaakstur, er lagt til í frumvarpinu að þegar stjórnandi vélknúins ökutækis hefur ítrekað brotið gegn ölvunarakstursákvæðum frumvarpsins og vínandamagn í blóði hans hefur í bæði skiptin verið 2‰ eða yfir skuli hann sæta fangelsi eigi skemur en 30 daga. Samkvæmt ríkjandi dómvenju er gert ráð fyrir því að ökumaður sem brotið hefur af sér í þriðja skipti gegn bannákvæðum gildandi laga um ölvunarakstur skuli sæta fangelsi í 30 daga. Er þá lagt til grundvallar að akstur vélknúins ökutækis undir slíkum kringumstæðum sé til þess fallinn að valda gífurlegri hættu, enda ökumaður með öllu ófær um að stjórna ökutæki. Er því með þessari tillögu leitast við að auka varnaðaráhrif fangelsisrefsinga við þessar aðstæður.

Á undanförnum árum hefur öðru hvoru skapast umræða hér á landi um hugsanlega tekjutengingu viðurlaga með beinum hætti vegna brota á umferðarlögum. Fordæmi er fyrir slíku fyrirkomulagi í nágrannaríkjum okkar, þ.e. Finnlandi, Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi, svo dæmi séu tekin. Helstu rökin fyrir tekjutengingu viðurlaga við umferðarlagabrotum er að núgildandi fyrirkomulag sektargreiðslna þjóni ekki tilgangi sínum gagnvart hátekjufólki og að til sé hópur fólks hér á landi sem virði ekki einstök ákvæði umferðarlaga þar sem greiðsla sektar vegna brota á þeim varðar viðkomandi ákaflega litlu fjárhagslega. Umferðarlaganefndin tók þetta atriði til sérstakrar umfjöllunar og varð niðurstaða nefndarinnar sú að leggja ekki til slíkt kerfi hér á landi. Í niðurstöðum nefndarinnar kemur fram að slík bein tekjutenging umferðarlagasekta hefði í för með sér umfangsmiklar breytingar á því fyrirkomulagi sem þekkist hér á landi og ýmsa ókosti. Þar ber helst að nefna að innheimta sektar í hverju tilviki tæki sem fyrr segir mið af tekjum þess brotlega og fæli í sér umfangsmeiri útreikninga en nú tíðkast. Verði greiðandi sektar fyrir atvinnumissi eða annars konar tekjuskerðingu gæti skattframtal liðins árs ekki endurspeglað raunverulega greiðslugetu hans.

Virðulegi forseti. Ég hef nú farið yfir helstu nýmæli sem felast í frumvarpinu og breytingum frá gildandi lögum þó að ekki hafi unnist tími til að greina frá öllum þeim breytingum og nýmælum sem er að finna í frumvarpinu. Engum vafa er undirorpið að mikilvægt er að vel takist til um breytingu á gildandi umferðarlögum, enda er hér um mikilvæga löggjöf að ræða sem á einn eða annan hátt snertir líf flestra landsmanna á hverjum degi. Ljóst er að skoðanir eru skiptar um ýmsa þætti umferðarlöggjafarinnar en ég tel engu að síður að með samþykkt þessa frumvarps muni Ísland standa jafnfætis eða jafnvel framar þeim þjóðum sem við berum okkur saman við hvað umferðaröryggi og heildstæða umferðarlöggjöf varðar.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar um leið og ég þakka öllum þeim sem hér hafa lagt hönd á plóg við að semja þetta frumvarp kærlega fyrir mikið og gott starf.



[14:02]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina, sem var ansi góð, en mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í 75. gr. frumvarpsins, sem fjallar um öryggis- og verndarbúnað á bifhjólum. Ég vil vitna í hana, með leyfi forseta: „Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um flokkun, gerð og notkun hlífðarfatnaðar og annars hlífðarbúnaðar ökumanns og farþega bifhjóls.“

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra beint því að sá hlífðarfatnaður sem er mest notaður í dag á bifhjólum eru þykkir leðurgallar, vatnsheldir og vindheldir — hver er skoðun hæstv. ráðherra á því? Telur hæstv. ráðherra þann búnað uppfylla öryggiskröfur um verndarbúnað á bifhjólum og hyggst hann viðurkenna þann búnað inn í reglugerðina sem ráðherra mun setja í framhaldi af þessum lögum?



[14:03]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um það atriði sem hv. þingmaður ræðir er þetta eitt af því sem skiptar skoðanir eru um, hvernig gert er. Ef ég man rétt var það í mars 2007 sem samþykkt var frumvarp og gert að lögum á Alþingi um hlífðarfatnað hjá bifhjólafólki. Það frumvarp var samþykkt af öllum þeim þingmönnum sem þá voru í þingsal. Aðeins einn greiddi ekki atkvæði og 7 þingmenn voru fjarverandi. Síðan hef ég fylgst með skrifum og öðru, sem orðið hafa um þetta mál, en aðalatriði er að ég held — og það komu fram í því bréfi sem kom til hv. samgöngunefndar 2007, frá einum af forsvarsmönnum Bifhjólasamtaka Íslands, ef ég man rétt, meðmæli með því að hlífðarfatnaður verði settur í lög og það var gert sem sagt og var samþykkt eins og ég gat um áðan. Síðan er það útfærsluatriði hvað telst lögbundinn búnaður, hvað telst fullkominn búnaður og hvað ekki. Það getum við endalaust rætt um en ég hygg að þetta verði dálítið til umræðu í nefndinni, í hv. samgöngunefnd, þegar frumvarpið verður tekið til skoðunar.



[14:04]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að fjallað verður um málið í hv. samgöngunefnd. En það er ráðherrann sem setur reglugerðina og útfærir reglur um það hvaða búnaður muni uppfylla þau skilyrði að vera kallaður hlífðarbúnaður. Þess vegna var ég að kalla eftir afstöðu hæstv. ráðherra því að það er í hans höndum að gera það, og vænti þess að hann muni þá taka tillit til þeirra starfa sem fara fram í nefndinni.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um annað, þ.e. að gert er ráð fyrir því að þar sem settir eru af stað svokallaðir ökuskólar þurfi að lágmarki að vera starfandi fimm kennarar. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því hver hans skoðun sé og hvaða áhrif hann telur þetta geta haft, t.d. úti á landsbyggðinni, þar sem kannski einn ökukennari starfar á mjög stóru svæði. Það kemur reyndar fram að menn geta þá farið sem verktakar inn í eitthvert fyrirtæki, hver er skoðun hæstv. ráðherra? Telur hann þetta vera til bóta eða hafa þetta bara óbreytt eins og það er og er þá einhver brotalöm á því?



[14:06]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo oft, bæði í sambandi við þetta frumvarp, umferðarlög og ýmislegt annað, þar sem takast á sjónarmið gagnvart margmenninu á höfuðborgarsvæðinu og svo aftur á landsbyggðinni þar sem miklu færri búa. Hvað varðar lágmarkið, sem hv. þingmaður nefndi, fimm ökukennarar, sé ég það fyrir mér að það gerist á þann hátt að aðilar geti stofnað saman ökuskóla ef þannig ber undir og náð þessum fjölda. En aðalatriðið verður þá það líka að ökuskólarnir verða meira að vinna á svipaðan hátt alls staðar og meira samræmt þannig að meiri og heildstæðari mynd komi á ökukennsluna. Ég held að þetta sé atriði sem verður auðvelt fyrir ökukennara á landsbyggðinni eins og hv. þingmaður þekkir vel og ég þekki vel til líka: Einn ökukennari starfandi á svæði — þeir finna sér farveg í þessu eins og ýmsu öðru og ég held að þetta verði ekki neitt vandamál.



[14:07]
Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir yfirferð sína um þennan mikla lagabálk. Við eigum eftir að ræða hann mjög mikið í þinginu og álitaefnin eru mörg. Það er hins vegar eitt mál sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra út í, og inna hann eftir afstöðu hans, og það er hver afstaða ráðherrans sé varðandi svokölluð leyfi við að menn taki hægri beygju á rauðu ljósi. Það var gert í Bandaríkjunum upp úr 1973, þegar olíukreppan mikla skall á þar, að menn heimiluðu þetta. Þetta hefur oft komið til tals á Íslandi og hefur verið sýnt fram á að fjármunir sparast við að leyfa þetta. Þetta þarf að gera með miklum fyrirvara, enda mundi það fela það í sér að það þyrfti að stöðva á rauðu ljósi og ef engin umferð er væri heimilt að taka hægri beygju. Mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra út í afstöðu hans til þessa tiltekna máls og síðan hvort þetta mál hafi eitthvað borið á góma í vinnu nefndarinnar.



[14:08]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, auðvitað var þetta rætt eins og allt annað. Það var mjög margt sem kom til álita og umræðu í nefndinni. Þetta rifjar upp nokkur frumvörp sem flutt hafa verið á undanförnum þingum og komust til samgöngunefndar, að leyfa hægri beygju á rauðu ljósi, en það ratar ekki hér inn.

Ég verð að segja eins og er að eins og hv. þingmaður sagði eru mörg álitaefni í frumvarpinu og ég tók fljótlega þá afstöðu að það sem kom frá hópnum, þessari nefnd, færi inn í frumvarpið til þings. Það geta verið nokkur atriði sem ég er ekki sammála, og það er allt í lagi, en mér fannst eðlilegt að þetta kæmi inn til hv. Alþingis og hv. nefndar að fara yfir. Ég þykist vita að það muni taka töluverðan tíma hjá samgöngunefnd, að menn ræði um þetta, og það verður gaman að fylgjast með því hvað gerist í meðförum nefndarinnar hvað þetta varðar.



[14:09]
Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Ég skil hæstv. ráðherra á þann veg að hann útiloki ekkert í þessum efnum. Ég á sæti í samgöngunefnd þar sem við munum væntanlega fara yfir þetta atriði sem og mörg önnur. Mér finnst hins vegar að menn eigi að fara mjög vandlega yfir þetta tiltekna atriði og leiða saman rökin með eða á móti. Þetta var gert í Bandaríkjunum, eins og ég sagði áðan, í kjölfar olíukreppunnar snemma á 8. áratugnum. Við sjáum á Íslandi núna síhækkandi bensínverð og ég fagna yfirlýsingu ráðherrans um að hann sé tilbúinn til að skoða þetta. Þetta fær þá efnislega meðferð í samgöngunefnd. En ég vil lýsa þeirri skoðun minni varðandi þetta atriði að ef ég fengi að ráða mundi ég leyfa þetta, hæstv. ráðherra.



[14:10]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan var þetta mikið rætt. Að mati nefndarinnar er þetta ekki inni og ekki sett inn. Mitt mat sem ráðherra, sem tek svo að mér þetta frumvarp frá nefndinni og flyt það til Alþingis, er það að ég set það ekki inn. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að álitaefnin eru mörg. Það var reyndar eitt atriði sem ég tók út úr frumvarpinu, og það var ákvæði um að unglingar yngri en 18 ára, eða hvort það var 20 ára, mættu ekki vera saman í bíl á ákveðnum tíma sólarhrings um helgar. Þá var þessi spurning sett fram í einhverju blaði: Hvað ef 18 ára par er að koma heim úr skírnarveislu eða giftingarveislu með barn í bílnum, á að banna þeim að keyra um? Mér fannst þetta of langt gengið og verð að viðurkenna að þetta er það eina í tillögu nefndarinnar sem ég bað um að tekið yrði út úr frumvarpinu áður en það kæmi til þings.



[14:11]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sérkennilegur húmor hjá hæstv. samgönguráðherra að hann skuli hlakka yfir því að samgöngunefnd muni þurfa mikinn og langan tíma til að fjalla um það frumvarp sem hér um ræðir. Það ætti náttúrlega að vera svo vel úr garði gert að ekki þyrfti mikinn tíma í það. En gott og vel.

Ég vil þó aðeins vekja athygli á ákveðnum atriðum. Hlífðarfatnaður fyrir bifhjólamenn er nokkuð sem verður að ákveða í samráði við bifhjólasamtökin. Bifhjólamenn vita manna best hvaðan á þá stendur veðrið, hvað er hyggilegast, skynsamlegast og hagkvæmast. Ráðherra vill ekki svara varðandi reglugerðina og vísar því í samgöngunefnd og við munum taka það fyrir þar. En það er grundvallaratriði að það sé gert í fullu samráði við það sem er raunhæft frá sjónarhorni bifhjólamanna. [Klappað á þingpöllum.]



[14:13]
Forseti (Þuríður Backman):

Forseti biður um hljóð á þingpöllum.



[14:13]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Engu er svo sem að bæta við það sem kom fram í fyrsta andsvari mínu við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson. Ég hef lesið og farið yfir og man það vel, vegna þess að ég sat í samgöngunefnd, þegar þetta var samþykkt inn í umferðarlög með öllum greiddum atkvæðum eins og þar var og sett í heimild til þáverandi ráðherra að útfæra það nánar í reglugerð og það stendur áfram. Ég hef líka lesið umsögn, sem kom inn frá aðila, sem þá taldist vera forsvarsmaður Bifhjólasamtaka lýðveldisins, um nauðsyn þess og ítreka það sem ég sagði áðan. Það var merkilegt að á þessum marsdögum 2007, rétt áður en þingmenn fóru heim til kosningaundirbúnings, var þetta samþykkt með öllum greiddum atkvæðum þeirra sem þar voru. Hvernig það er svo útfært skal ósagt látið og það hvort þessi nauðsynlegi hlífðarfatnaður á að vera skattlagður sem einhver hátískuvara er náttúrlega allt annað mál.



[14:14]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi fatnaður þarf að vera öruggur, hagkvæmur og á skynsamlegu verði og það er hægt að stjórna því í samráði við samtök bifhjólamanna. Nú eru kröfur um að meira að segja í baksætinu sé þessi hlífðarfatnaður eins og fyrir geimferðir til Mars eða eitthvað slíkt og það er fulllangt gengið.

Önnur atriði. Einkamerkin? Hækka þau í 50 þús. kr.? Það er bara valdbeiting. Það var 25 þús. kr. síðasta gjald. Þegar það var sett á var það lægra. Það gilti í 10 ár, nú gildir það í 8 ár. Ef gefa á fólki færi á að njóta þessa réttar er miklu skynsamlegra að hafa þetta ódýrara. Það ganga það fleiri inn á það og það skapar meiri tekjur úr því að ríkisvaldið vill hafa af því tekjur. En 50 þús. kr. er okur.

Ég vil líka vara við þessum sektum eða sviptingum vegna ölvunarakstursins. Aukin harka í þessu mun ekki leiða til góðs. Hún mun ekki leiða til árangurs og það verður að taka á því í þeim efnum. Svo er alveg klárt að hægri beygjan á að koma strax.



[14:15]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta með hægri beygjuna. Það er ýmislegt sem Íslendingum ber að varast frá hægri um þessar mundir og hefur verið svo undanfarin ár. Það versta við að leyfa hægri beygju á rauðu ljósi er að það minnir allískyggilega á ákveðna stjórnarstefnu (ÁJ: Það er óþarfaverkkvíðni.) sem fylgt hefur verið.

Virðulegi forseti. Við getum alltaf rætt hvort borga eigi 25.000 kr. eða 50.000 kr. fyrir einkamerkið, hvort sem það er „ÍSLAND“ eða „KLM“. Nú verð ég bara að játa að ég hef ekki framreiknað 25.000 kr. til verðgildis í dag. Ég man ekki hvort það eru tíu ár síðan þessi tillaga frá hv. þm. Árna Johnsen var samþykkt. Var hann ekki frumkvöðull að þessu máli? (Gripið fram í.) Og hvort það er 25.000 kr. eða 50.000 kr., þetta eru alltaf hlutir sem ber að skoða og allt í lagi með það, þarna er þetta sett svona fram. Varðandi sektir, ölvunarakstur og annað sem hv. þingmaður ræddi um, þá er ég ekki sammála honum í því. Þetta eru atriði sem vert er að hafa inni í lögunum. Vonandi kemur ekki til þess að það þurfi að nota þetta, vegna þess að menn mega einfaldlega ekki aka í svona ásigkomulagi.



[14:17]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þess að í 43. gr. er kveðið á um lágmarkshæð farþega á bifhjóli. Vísað er til laga um öryggispúða í bílum og þess háttar. Er þetta sambærilegt, hæstv. ráðherra?

Síðan langar mig að spyrja ráðherrann út í 92. gr. Er það virkilega svo, hæstv. ráðherra, að markmið frumvarpsins og markmið ráðherra og ríkisstjórnarinnar, sé að færa verkefni lögreglunnar til Vegagerðarinnar? Á að búa til sérstaka vegalögreglu eins og við þekktum í gamla daga, sem var reyndar hluti af hinni venjulegu lögreglu? Hver er hugsunin með því að færa vald lögreglunnar til Vegagerðarinnar, hæstv. ráðherra? Mér finnst nánast óskiljanlegt að málin séu flækt með þessum hætti.



[14:18]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að geyma mér að svara spurningunni um líkamshæðina þangað til í seinni ræðu minni. Varðandi það að færa hluta af eftirliti og sektum eins og talað er um í 92. gr. til Vegagerðarinnar, jú, þá er það að sjálfsögðu sett inn. Við teljum það vera tvímælalaust til bóta. Þá léttum við ákveðnum þáttum af lögreglunni. En eins og ég gat áðan í ræðu minni um þátt lögreglunnar, þá verður hann áfram mjög mikill. Vegagerðin hefur eftirlit með ýmsum þáttum eins og hleðslu, hvernig gengið er frá farmi og hvort olían er lituð eða ekki, o.s.frv. Við skulum hafa í huga að það hefur komið fram að mörg af þessum atriðum er skynsamlegt að hafa hjá þeim aðilum sem þetta gera, hvort sem menn kalla þá B-löggur eða eitthvað annað. Ég minnist þess að þetta var mikið rætt fyrir nokkrum árum síðan. Ég man ekki nákvæmlega í tengslum við hvaða frumvarp. Ég held að reynslan af þessu sýni að það sé allt í lagi að létta á lögreglunni hvað varðar þessi atriði.



[14:19]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hæstv. ríkisstjórn væri nær að styrkja lögregluna í verkefnum hennar og útvega henni nægt fé til að hún geti starfað með eðlilegum hætti, í stað þess að búa til nýja lögreglu sem á að hafa vald yfir ákveðnum tegundum af ökutækjum. Ef ég skil greinina rétt og frumvarpið er meira að segja verið að leggja til, hæstv. ráðherra, ekki aðeins að Vegagerðin ákæri, ef má orða það svo, heldur rannsaki líka og kveði upp úrskurð á einum og sama vettvanginum. Það getur varla verið það sem við óskum eftir í dag, að einhver stofnun hafi slíkt vald.

Síðan er spurning hvort sum brot eigi að láta til Vegagerðarinnar, og miða við einhverja ákveðna þyngd á ökutæki, og þeir aðilar skulu sæta stjórnvaldssektum en jafnvel ekki brot sömu ökumanna á sömu umferðarlögum.. Ég held að þetta þurfi verulegrar skoðunar við.



[14:20]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef minni mitt brestur ekki þá kom þetta fyrst inn og var mikið rætt í samgöngunefnd í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Gott ef þetta byrjaði ekki hjá þáverandi meiri hluta. Varðandi stjórnvaldssektir á tæki af þessari þyngd, þá eru þær vegna brota á reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, um búnað slíkra ökutækja, hleðslu ökutækja, flutning farms, öryggisráðstafanir um flutning á farþegum og akstur breiðra og þungra tækja og hárra ökutækja. Þetta skoðar Vegagerðin allt saman. Við getum sagt að þar séu sérfræðingar á ferð. Þetta er sett inn til að þeir geti lokið málinu í staðinn fyrir að stoppa og kalla svo á lögregluna. Það má segja, virðulegur forseti, að tími lögreglunnar og opinbert fé sé betur nýtt þegar hægt er að gera þetta af einum og sama aðilanum á staðnum, í staðinn fyrir að einn aðili komi, skoði og stoppi og geri athugasemdir, og verði svo að hringja í lögreglu til að framkvæma sektina. Ég held að þetta sé til mikillar hagræðingar, virðulegi forseti.



[14:22]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að blanda mér í umræðuna sem hæstv. ráðherra og hv. þingmaður enduðu hér áðan. Ég held að það sé mikilvægt að farið verði vel yfir ábendingarnar sem komu fram og menn skoði þetta. Ég tek hins vegar undir með hæstv. ráðherra að það er mjög mikilvægt að hafa þetta með skýrum hætti. Þá geta menn klárað málin í stað þess, eins og hæstv. ráðherra lýsti, að hringja í lögregluna til að klára mál sem liggur alveg fyrir. Við eigum að nota öll tækifæri til að einfalda hlutina sem mest.

Virðulegi forseti. Þetta er reyndar 1. umr. en mig langar í örstuttu máli að fara yfir einstaka málefni. Ég sé það fyrir mér og geri mér fulla grein fyrir því að frumvarp um umferðarlög á eftir að ræða mikið og lengi í hv. samgöngunefnd. Sennilega verður það ekki klárað fyrr en einhvern tíma í haust. Það á eftir að fara til umsagnar margra aðila og ég tel mjög gott að það skuli tekið á dagskrá núna og tími gefinn til að fara ofan í málin og ræða þau í staðinn fyrir að gera þetta með stuttum fyrirvara. Það er búið að upplýsa mig um það af formanni samgöngunefndar, hv. þm. Birni Val Gíslasyni, að menn munu gefa sér tíma til að fara mjög vandlega yfir þetta. Ég tel það mjög mikilvægt því ég reikna með að hv. samgöngunefnd fái mjög margar ábendingar vegna þessara laga.

Mig langar að halda áfram þar sem ég spurði hæstv. ráðherra um hlífðarfatnað. Ég benti á að í 75. gr. kemur fram að hæstv. ráðherra hefur heimild til að útfæra þetta, þ.e. hvaða fatnaður og klæðnaður á bifhjólum í raun og veru, er flokkaður sem verndarbúnaður. Ég tek undir orð hv. þm. Árna Johnsens um að menn verði að taka tillit til þeirra sem best þekkja þessi mál og hafa reynsluna af þeim, þ.e. bifhjólamanna. Það verður svo sannarlega fjallað um þetta í hv. samgöngunefnd en ég bendi hins vegar á, að gefnu tilefni, að ráðherra setur reglugerðina. Nefndin getur kannski komið með ábendingar en ráðherrann setur reglugerðina hvað þetta varðar. Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka fullt mark á ábendingum þeirra sem best þekkja til, manna sem nota bifhjól. Þetta verði gert þannig að menn þurfi ekki, eins og hv. þingmaður lýsti áðan, einhvers konar geimverubúning til að geta keyrt um á bifhjólum.

Það er margt í þessu frumvarpi. Eins og ég sagði áðan er lagt til að hámarkshraðinn verði hækkaður upp í allt að 110 km á klst. Ég tel það að mörgu leyti skynsamlegt því við vitum að hámarkshraðinn er ekki virtur á mjög mörgum stöðum þar sem góð skilyrði eru til aksturs. Miklu skynsamlegra er að bregðast við með því að hækka hann heldur en að menn séu kannski að horfa í gegnum fingur sér og segja: „Hámarkshraðinn er 90 km á klst. en það er kannski allt í lagi að keyra á 100 km á klst. og við tökum engan undir 100 eða 105,“ eða hvernig sem það er. Það er viðtekin venja eins og við þekkjum í gegnum tíðina. Ég tel skynsamlegt að skoða þetta mjög vel.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom í andsvar við hæstv. ráðherra áðan og spurði um 43. gr. Þar segir, með leyfi forseta: „Barn sem er 150 sm eða lægra að líkamshæð má ekki vera farþegi á bifhjóli.“ Ég velti fyrir mér hvort þetta gildi bara um hæðina sem slíka eða einnig um fullorðna, hvernig þetta eiginlega sé. Ef þetta er miðað við hæðina hlýtur hún að gilda jafnt um fullorðna sem börn nema ef fullorðnir eigi að gera sér grein fyrir því, vegna aldurs og þroska, að það sé ekki skynsamlegt yfir höfuð fyrir einstaklinga sem eru 150 sentimetrar að vera á mótorhjóli sem farþegi. Það hljóta að vera rökin fyrir því ef það er meiningin. En þetta verður að sjálfsögðu tekið til umfjöllunar í nefndinni og menn geta kallað eftir nánari útskýringum.

Ég hafði mjög stuttan tíma í andsvari um málið og vil beina einu til hæstv. ráðherra. Það er hækkun aldurs vegna ökuréttinda. Nú er lagt til að hækka aldur í 18 ára. Það á að gerast á fjögurra ára tímabili, eins og hæstv. ráðherra fór yfir í ræðu sinni áðan, þ.e. 3 mánuði á hverju ári og enda síðan í 18 ára aldri. Hæstv. ráðherra sagði áðan, ef ég hef tekið rétt eftir, að hann teldi að þetta gæti hugsanlega fækkað slysum um 5–9% og haft jákvæð áhrif í þá veru.

Mig langar að velta upp þessu atriði og mun að sjálfsögðu gera það í hv. samgöngunefnd, að þegar maður fær bílpróf 17–18 ára gamall, þá er maður náttúrlega að keyra í fyrsta skipti á ævinni. Það er kannski ekki samasemmerki milli þess hvort keyrt er í fyrsta skipti á ævinni 18–19 ára eða 17–18 ára. Ég skildi hæstv. ráðherra þannig að menn hefðu skoðað þetta. Ég kalla eftir því við hæstv. ráðherra, ef hann veitir andsvör á eftir, hvort þetta væri rétt skilið hjá mér. Mun það að færa aldurinn upp í 18 ár gera það að verkum, eða er útlit fyrir það, það er aldrei hægt að fullyrða um það, að þá yrði 5–9% fækkun á slysum? Það er almennt viðurkennt að flest slysin verða á fyrsta árinu sem menn keyra bíl. Það þarf kannski ekki að vera tiltekið við 17 ára aldur frekar en 18 ára aldur. Á fyrsta árinu eftir bílpróf er mesta hættan er á því að einstaklingar lendi í óhöppum. Öll þekkjum við hörmungarnar í kringum það.

Siðan langar mig að ræða styttingu á gildistíma ökuskírteina. Það kemur fram í 58. gr. að stytta á hann í hámark 15 ár. Skírteinin eru svo sem ekki gefin frekar en annað, allt kostar þetta sitt. Ekki þarf að hvetja hæstv. ríkisstjórn til að hækka álögur og gjöld. Ég staldra samt við að þessu sé breytt í 15 ár, þ.e. að ökuskírteini gildi að hámarki í 15 ár í senn. Ef maður fær ökuskírteini 18 ára getur maður aðeins fengið það til 15 ára. Síðan breytist það við 60 ára aldur, þá fæst það til 10 ára, og svo koll af kolli. Þegar einstaklingar eru orðnir 72 ára fá þeir það til tveggja ára í senn. Það verður farið yfir þetta að sjálfsögðu því þetta finnst manni vera hálfgerð lúmsk gjaldtaka. Það er skiljanlegt að á seinni hluta ævinnar eða þegar fólk er orðið fullorðið þá þarf kannski að hafa þetta styttra. En þegar fólk er mjög ungt finnst mér sérkennilegt að þessu sé breytt í einungis í 15 ár. Við þekkjum hvernig þetta var þegar menn voru að endurnýja skírteinin á nokkurra ára fresti. Þess vegna var sú breyting gerð að menn fengu skírteini til sjötugs, ef ég man rétt, eins og er í lögunum í dag.

Í andsvari við hæstv. ráðherra áðan kom ég inn á ökunám í ökuskólum. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að í ökuskólum þurfi að vera starfandi að lágmarki fimm ökukennarar, en til að fá ökuréttindi verður að fara í ökuskóla. Ég velti því alvarlega fyrir mér og ég er mjög hugsi yfir því, hvort úti á landsbyggðinni geta kennsla hugsanlega lagst af, þar sem eru einyrkjar eða einn er að kenna, oft jafnvel í hlutastarfi til að geta sinnt því. Þá þurfa þeir sem eru að taka bílpróf í fyrsta skipti hugsanlega að koma á Stór-Reykjavíkursvæðið eða þéttbýlissvæðin í hverjum landshluta, til að ná sér í bílpróf. Það gæti orðið töluverður kostnaður. Ég reyndar skil ekki af hverju þetta þarf að vera svona því ég lít svo á að ökukennslan sé ekkert verri úti á landsbyggðinni en í Reykjavík. Ég velti fyrir mér hver orsökin er. Ef menn ætla að samræma ökukennslu, sem er ágætismarkmið og göfugt og allt í lagi með það, þá skiptir litlu hvort fimm starfa saman eða einn, því menn kenna á mismunandi hátt. Það hlýtur að þurfa að gera frekari kröfur til ökukennaranna, að þeir fari á eitthvert endurmenntunarnámskeið með vissu millibili, til að tryggja að að menn kenni á sambærilegan hátt. Ég set því spurningarmerki við þetta atriði og hef af því dálitlar áhyggjur.

Síðan vil ég taka undir með hv. þm. Árna Johnsen um hækkunina á einkanúmeri úr 25.000 kr. í 50.000 kr. Mér finnst í raun og veru að það liggi algerlega kristaltært fyrir að þetta er orðin lúxusvara miðað við ástandið í þjóðfélaginu í dag. Ég held að enginn geti deilt um það, þótt menn komi hingað og segi að menn geti reiknað inn á þetta verðlagshækkanir og þar fram eftir götunum. Ég held að með þessu sé klárlega bara einhverjir útvaldir sem hafi efni á því að fá sér þessi númer. Þetta er ekki fyrir hinn venjulega borgara því ef menn þurfa að kaupa einkaleyfisnúmer upp á 50.000 kr. í dag þurfa menn að þéna 100.000 kr. Ég tek því undir með hv. þm. Árna Johnsen, mér finnst þetta ekki skynsamlegt. Ég er ekki sannfærður um að þetta muni skila meiri skatttekjum til ríkisins, ég hef miklar efasemdir um það.

Ég hleyp hér á hundavaði yfir frumvarpið, það á eftir að ræða það vel efnislega og senda það til hv. samgöngunefndar þar sem ég á sæti og þar verður farið yfir þetta. Ég vildi þó koma inn á þessi örfáu atriði. Ég er algerlega sammála því sem hæstv. ráðherra sagði áðan, þegar hann var að svara tveimur hv. þingmönnum um svokallaða hægri beygju á rauðu ljósi, að það á að leyfa. Við gerum þetta með ákveðnum hætti í dag, við setjum afreinar þar sem menn stýra þessu á ákveðinn hátt. Að mínu viti hefur það gengið vel og ég held að það mundi létta mjög á umferðinni að gera það þannig.

Síðan sagði hæstv. ráðherra að menn hefðu slæma reynslu af því að fara of mikið til hægri og fór í svona pólitíska fimleika. Ég verð þó að segja það, virðulegi forseti, að við þessi skilyrði núna með þessa kommúnistastjórn, með þessa rauðu stjórn, þá held ég að það væri mjög skynsamlegt að leyfa mönnum að fara aðeins til hægri þótt menn þurfi auðvitað að varast að fara of langt.



[14:33]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég gleymdi áðan að þakka hæstv. ráðherra fyrir umfjöllun hans um frumvarpið. Ég saknaði þess — og það kemur væntanlega skýring á því á eftir — að ráðherra fór ekki nánar út í athugasemd mína varðandi líkamshæð. Ég fæ þetta ekki til að ganga upp. Þegar við horfum á loftpúða, sem eru öryggisbúnaður í bifreiðum, er eðlilegt að menn þurfi að sitja nógu hátt og slíkt og vel getur verið að eðlileg skýring sé á því hvernig hægt sé að heimfæra þetta yfir á bifhjól. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra skýri það því það að gera þetta með þessum hætti lítur út fyrir að geta orðið — ég vil bara nota þessi orð, frú forseti — algert rugl. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður mælti þetta.

Í 62. gr. frumvarpsins er talað um starfsleyfi við ökuskóla. Ég verð að taka undir þær gagnrýnisraddir sem hafa komið fram, það verður að útskýra hver hugsunin í þessu er því að ég held að þetta geti haft áhrif víða um land. Einhverjir hafa vitanlega brugðist við breytingum á ökukennslu með því að stofna ökuskóla í samstarfi en ég leyfi mér að efast um að alls staðar séu fimm ökukennarar við þá skóla. Mér þætti líka ágætt ef hæstv. ráðherra gæti upplýst mig um af hverju talan er fimm. Af hverju er hún ekki tveir? Ég held að hægt sé að gera sömu kröfur til þeirra sem eru í hlutastarfi við ökukennslu eða í fullu starfi og starfa einir eins og til skóla sem inniheldur fimm manns. Þetta snýst um að gera gæðakröfur og að þeim sé fylgt.

Í 82. gr. er m.a. rætt um nagladekk, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórn er heimilt að ákveða gjald allt að 20.000 kr. vegna notkunar negldra hjólbarða á nánar tilteknum svæðum, fyrir ákveðið tímabil eða ákveðið skipti að höfðu samráði við Vegagerðina.“

Svo kemur að ráðherra geti sett reglugerð um nánari ákvæði, um úrræði, kringumstæður og annað slíkt.

Þetta finnst mér í raun alveg galið ákvæði nema kveðið sé á um það með einhverju móti að ekki sé hægt að taka þá fasta og sekta sem þurfa nauðsynlega vegna heimilisfesti, vinnu og annars að nota nagladekk lengur en mörgum finnst eðlilegt. Bíllinn minn er t.d. enn á nagladekkjum vegna þess að ég er að keyra heiðar í því kjördæmi sem ég er þingmaður fyrir, það fer kannski að vera í lagi að gera það á sumardekkjum en það hefur ekki verið fram að þessum tíma þannig að það verður að horfa á þetta.

Síðan vil ég enn og aftur, frú forseti, nefna 92. gr. varðandi stjórnvaldssektir Vegagerðarinnar á þá ökumenn sem aka ökutækjum sem eru meira en 3,5 tonn að leyfðri heildarþyngd o.s.frv. Það er verið að færa annarri stofnun en lögreglunni vald til að haga sér eins og lögregla við ákveðnar aðstæður. Hæstv. ráðherra sagði áðan að þetta gæti verið tímasparnaður eða eitthvað slíkt, en þá flettir maður aðeins til baka og skoðar 88. gr. Þar er talað um að þegar lögreglan stöðvar ökutæki sem er meira en 3,5 tonn þarf hún að jafnaði að kalla til eftirlitsmann Vegagerðarinnar, eins og kveðið er á um í 92. gr. Maður hlýtur að spyrja sig: Af hverju nær þá ekki það sama yfir lögregluna til að hún geti einfaldlega klárað málið? Af hverju þarf hún að kalla til eftirlitsmann Vegagerðarinnar? Ég fæ þetta ekki til að ganga upp og mér finnst óþarfi að búa til nýja löggu í landinu þegar kemur að þessum málum. Ég held að nær væri að styrkja lögregluna, ekki veitir af, ekki síst þegar við horfum á það að lögreglumenn eru með kjarasamninga sem hafa ekki verið kláraðir þannig að nauðsynlegt er að horfa á ýmislegt í þessu sambandi.

Hæstv. forseti. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að upplýsa okkur sem hann í rauninni gerði. Hann sá ástæðu til að taka eina grein út úr frumvarpinu, grein sem varðaði það hversu margir mættu aka í bíl til 18 ára aldurs við ákveðnar aðstæður. Við sem erum í þessum sal hljótum þá að líta svo á að allar aðrar greinar frumvarpsins séu settar fram og séu ráðherra þóknanlegar fyrst hann sá ekki ástæðu til að taka þær út þannig að mjög billegt er að segja að frumvarpið sé þannig að eðlilegt sé að samgöngunefnd breyti því eða eitthvað slíkt. Þingið hefur að sjálfsögðu heimild til þess en ljóst er að frumvarpið og þær greinar sem við sjáum þar er sett fram með fullum vilja ráðherrans. Því hljótum við að beina þeim spurningum sem við höfum fram að færa enn ákafar til hans.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Það er margt sem þarf að skoða í þessu frumvarpi en ég vildi sérstaklega vekja athygli á þessu aukna hlutverki Vegagerðarinnar í löggæslu, ósamræmi á milli 88. gr. og 92. gr., þ.e. eins og ég skil þær, nagladekkjunum, ökuskólanum og hæð farþega á bifhjólum.



[14:40]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er svo með þetta blessaða frumvarp sem hæstv. samgönguráðherra er að mæla fyrir að það varðar einhverja fjárans Evrópubíla. Margt í þessu er Evrópupilsagutl og það þarf að fara mjög grannt í saumana á því og skoða samsetninguna. Það hefur verið svolítil tilhneiging hjá ríkisstjórninni að vera á bak við tjöldin með alls konar tengingar við Evrópusambandið við lagasmíðar og það er sýnt að sumt af þessu er háð kerfi sem byggir númer eitt, tvö, þrjú, fjögur og fimm á dýru eftirlitskerfi, hæstv. ráðherra. (Gripið fram í.) Það er engin afsökun að þvo ekki skítinn ef hann er á borðinu [Hlátur í þingsal.] og það þarf að bregðast við því.

Við vikum áðan að hlífðarfatnaðinum. Það er mikið deilumál einmitt innan Evrópusambandsins að koma þar á göllum sem í fyrsta lagi eru bara tískufatnaður en svo dýrir að hægt væri að nota þá í geimferðir Bandaríkjamanna nánast hvert sem er. Það er margt í þessu dæmi sem er á þeim nótum, til að mynda það að reikna með því að bara hið svokallaða ríka fólk í landinu geti keypt sér einkanúmer. Sá er hér stendur átti frumkvæði að því að setja það kerfi á og þá var miðað við að fimm þúsund krónur væru greiddar, sem er einfaldlega númerakostnaðurinn og umskráningarkostnaðurinn eins og er með umskráningar á bílum með föstum númerum. Síðan fer ríkið að krækja í peninga og ekki batnaði það með núverandi hæstv. ríkisstjórn sem sér ekkert annað en hækka skatta og teygja sig ofan í vasa fólksins í landinu.

Það er nefnilega svo að einkanúmerakerfið á að vera fyrir almenning en ekki bara þá sem hafa meira umleikis, það á að vera fyrir almenning. Það var eftirminnilegt á sínum tíma þegar hæstv. ráðherra Alþýðuflokksins Jón Sigurðsson sagði: Við þurfum ekkert einkanúmerakerfi á Ísland. Við skulum bara hafa fastnúmerakerfið vegna þess að það er langbest fyrir hverfin í Evrópu. Hann var m.a. að fjalla um að þá voru númerin með A, R o.s.frv. Nei, það var best að Íslendingar hyrfu inn í Evrópu. Við erum ekkert á leiðinni inn í Evrópu, virðulegi forseti, og ef einhver heldur það í alvöru þá mun það ekki ganga eftir. Við höldum okkar striki, okkar sjálfstæði, metnaði og reisn. Okkur varðar ekkert um Evrópu nema það sem lýtur að því sem við höfum þegar gert og eru bráðnauðsynleg hvunndagsviðskipti. Ekki fyrirhyggja, forsjá eða stjórnun.

Ég vék aðeins í máli mínu áðan að sektum og sviptingum vegna ölvunaraksturs. Það er enginn að mæla því bót að menn séu drukknir undir stýri. Það er alveg klárt mál. En fimm ára svipting ökuleyfis er gríðarleg refsing, einhver mesta refsing sem til er á Íslandi og það þarf að hugsa það svolítið til enda. Hefur það skilað árangri að hafa refsitímann svo langan? Nei, það hefur ekki skilað árangri. Þá þarf að fara einhverja aðra leið sem virkar betur, virðulegi forseti, og eitthvað sem er ekki bara til að auka kerfið, kerfið og kerfið. Gott dæmi er til að mynda að Vegagerðin á að fara að skipta sér af öryggsimálum og umferðarmálum. Nánast undantekningarlaust vísar Vegagerðin málum til lögreglunnar. Þar er bara um tvíverknað að ræða Við þurfum engan tvíverknað, við þurfum að hafa þetta einfaldara, aðgengilegra og skilvirkara og eigum ekki að lúta alltaf í gras fyrir ágætum embættismönnum okkar í öllum þáttum þjóðfélagsins sem hugsa oft fyrst og fremst um það að auka vinnuna í kringum þann vettvang sem þeir vinna á. Það er ekki spurning um öryggisþáttinn, hagkvæmnina eða hag fólksins í landinu heldur spurning um það að auka atvinnu fyrir kerfisfólkið og þetta er í allt of ríkum mæli. Þetta hefur verið leynt og ljóst um langt árabil og kemur hægri eða vinstri ekkert við, þetta ágætisfólk sem oft eru ágætissérvitringar kemst upp með að koma sérviskunni inn í það sem á að gilda fyrir almennt fólk þannig að þetta eru hlutir sem þarf að hugsa um.

Svo er líka varðandi ölvunarakstur. Einn maður getur verið 24 klukkutíma að losna við áhrif alkóhóls úr líkamanum á meðan annar sem hefur neytt sama magns losnar við það á 10 klukkutímum þannig að menn sitja ekki við sama borð. Hver á að njóta vafans? Auðvitað þarf að skoða þessa hluti skynsamlega. Mér er t.d. sagt að Norðlendingar, ekki síst Siglfirðingar, séu mjög lengi að eyða alkóhóli úr líkamanum [Hlátur í þingsal.] þannig að það ætti að vera metnaður hæstv. samgönguráðherra… (Gripið fram í: En Vestmannaeyingar?) Þeir drekka ekki alkóhól. [Hlátur í þingsal.] Hér er bara gott dæmi. Þetta eru hlutir sem þarf að hugsa um. Maður setur ekki allt inn í excel, það gengur ekki. Lífið er ekki excel. Lífið er hjá venjulegu vinnandi fólki um land allt, ekki í excel-kerfi. Heitir það ekki excel? (Gripið fram í.) Excel, jú. (Gripið fram í: Evrópuexcel ...) Evrópuexcel, ég tala nú ekki um það. [Hlátur í þingsal.] Ég tala nú ekki um þegar við erum komin í Evrópuexcel.

Ein vitleysan í þessu dæmi er að hækka aldurinn til að fá ökupróf upp í 18 ár. Í hverju felst breytingin? Hún felst fyrst og fremst í árás á landsbyggðina, árás á ungt fólk sem býr úti á landi, í sveitum og dreifðum byggðum, býr heima hjá sér og sækir nám eða vinnu. Ungt fólk er hneppt í gíslingu í heilt ár. Þó að einhver aðlögun eigi að vera á fjórum til fimm árum eins og Evrópukerfið hefur boðið varðandi íslenska kvótann í hafinu þá er þetta eitthvað sem hentar okkur ekki. Þetta eru hlutir sem við þurfum að horfast í augu við.

Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að slys í umferðinni tengjast fyrsta árinu eftir að fólk fær ökupróf. Það kann vel að vera að það þurfi að þrengja eitthvað notkun eða eftirfylgni á fyrsta árinu eftir að fólk tekur ökupróf en það er út í hött að gera það á þennan hátt. Það er út í hött vegna þess að það er svipting á frelsi ungs fólks í landinu að þurfa að búa við þessa ánauð. Það er allt í lagi fyrir það unga fólk sem býr í 101 og fer aldrei út fyrir 101, sefur ekki einu sinni hjá fyrir austan Elliðaár. [Hlátur í þingsal.] Virðulegi forseti, þetta eru hlutir sem er ekki hægt að komast hjá því að horfa til. Þetta er árás á ungt fólk í landinu. Við eigum ekkert að ráðast á ungt fólk í landinu. Við eigum að semja við það, við eigum að vinna með því og leita eftir samstarfi um að takast á við þetta fyrsta árs vandamál þeirra sem hafa ökupróf. Ég er ekki einu sinni viss um að hærri sektir mundu leysa það. En sektir eru í mörgum þáttum þessa dæmis eins og hjá þeim sem eru sviptir ökuleyfi í fimm ár, það hlýtur að vera einhver sanngirni í því að bjóða háa sekt til að losna við eitt, tvö eða þrjú ár af sviptingu.

Það eru dæmi þess að einstaklingar sem gera út til að mynda vörubíla hafi gert þau mistök að drekka einum bjór of mikið á síðkvöldi þar sem fagnaður var og hafa tapað vinnunni og fyrirtækinu, öllu út af þessum eina bjór. Þeir hafa tapað lífsstarfi sínu, framtíð og öryggi og þeim á að refsa endalaust með því að fjölga árunum. Það eru bara þumbarar sem reka slíka pólitík. Þeir horfast ekki í augu við það að vandamál eru alltaf til staðar og til að leysa vandamál þarf að hlúa að lausn þeirra en ekki yfirkeyra allt og traðka niður í svaðið þá sem hafa gert slík mistök. Það er ekki verið að réttlæta neitt sem hefur gerst en hvaða munur ætli sé t.d. á því að svipta ökumann ökuréttindum í þrjú ár frekar en fimm ár? Ætli það skili eitthvað betri manni að svipta hann leyfinu í tvö ár til viðbótar þeim þremur sem hann sat uppi með? Auðvitað er það ekki þannig og tími er kominn til að okkar mörgu sérfræðingar fari nú að skoða hlutina út frá sjónarhóli venjulegs fólks. Það er ekki nóg hvort sem það er í öryggismálum, hagfræði, stjórnmálafræði eða öðru að hrósa sér af því einu að kunna að babla á bók. Máttur bókarinnar er mikill, en máttur reynslunnar, þekkingarinnar og venjulegs brjóstvits fólks í landinu er miklu verðmætari og miklu raunhæfari og t.d. þess vegna á ekki að standa í neinu stappi við bifhjólamenn til að stýra því hverju þeir klæðast. Þeir vita sjálfir hvað þeir þurfa til að öryggið sé í lagi, ekki einhverjir Evrópupilsagutlarar í ráðuneytunum.

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum á hægri beygjuna. Það er náttúrlega ótrúleg stífni í kerfinu og á ekki bara við um núverandi stjórnvöld, heldur líka fyrri stjórnvöld að klára ekki þetta mál með hægri beygjuna. Ég skora á hæstv. samgönguráðherra, sem er eins og margir Siglfirðingar vanur því að spúla dekkin, að koma þessu á koppinn.

Af því að ég er að stikla á nokkrum smærri atriðum sem skipta þó miklu máli fyrir fólk, þá er annað sem er kerfislægt og óþolandi. Hvað er það annað en dónaskapur að sýna fólki sem er orðið sjötugt þá lítilsvirðingu að taka af því bílprófið? Hvað er það annað en dónaskapur? Aldur hækkar, starfsaldur hækkar, heilsa batnar, nei, þá skal skerða réttindin, þrengja mönnum til að vera innan girðingar hjá sér, inni á blettinum og róla í trjánum og hætta sér ekki út í umferðina í Reykjavík sem er skelfileg vegna þess að þar hafa menn ekki staðið sig í stykkinu við að koma dreifingu og eðlilegri hreyfingu á. Nei, þegar fólk er orðið sjötugt, fólk sem er hálfgerðir táningar í dag, á það að halda sig heima við sem endar með því að það verður sett undir sæng. Þessa hluti verður að hugsa um. Það er ekki hægt að setja svona arfavitlaus lög.

Virðulegi forseti. Við skulum gæta þess og ég vona að við getum fylgt því eitthvað eftir í samgöngunefnd Alþingis að fækka þessum fjölmörgu agnúum sem eru á frumvarpinu. Þó að það sé vel meint er í mörgum tilvikum allt of langt gengið og miklu máli skiptir að vel, vel, vel sé að verki staðið.



[14:55]
Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði að benda hv. þm. Árna Johnsen á að það eru ekki endilega sjálfsögð mannréttindi fyrir fólk að keyra vélknúin ökutæki. Ég kom t.d. á hjóli hingað í vinnuna þótt ég sé með bílpróf, hjólaði úr öðru sveitarfélagi og rakst meira að segja á kanínu. Það var mjög gaman og ég mæli með þessum ferðamáta. (ÁJ: Gaman að rekast á kanínu?) Já, ekki bókstaflega, ég sá hana bara.

Mér líður mjög vel með það, eigandi tvo unglingspilta, að ætlunin sé að hækka bílprófsaldurinn. Ég á einn 17 ára og annan 13 ára og ég mundi vilja að þeir fengju ekki bílpróf fyrr en eftir mjög mörg ár. Mér hefði líka liðið betur ef aldraður nágranni minn, sem er reyndar fallinn frá, hefði verið sviptur ökuréttindum en hann lést í mjög hárri elli og keyrði fram á síðasta dag — ja, hann keyrði ekki á neinn en það lá við.



[14:56]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skiptir öllu máli þegar vélað er um lagasetningu, réttindi og skyldur að menn séu ekki bara með augað á eigin rassi. Það skiptir öllu máli að horfa yfir sviðið allt. Það hýtur að vera sjónarmið til að mynda foreldra sem búa í sveitum á Langanesi og vilja að börn þeirra geti starfað og sótt skóla eða vinnu en verið samt á heimilinu að meta þetta á annan hátt. Þau hljóta að meta það þannig að eins árs svipting á leyfi til að taka bílpróf sé skerðing og meira að segja skerðing á mjög viðkvæmum tíma þegar þetta unga fólk er að velja sér farveg og byggja upp ákveðna hluti þannig að þetta er ekki svona einfalt. Við getum ekki bara miðað við borgarsamfélagið sem er hringinn í kringum torgið, við verðum að hugsa um landsbyggðina alla og kannski enn þá frekar hana því að borgarsamfélagið hefur svo mörg forréttindi, betri aðgang að menningu, skólum, heilbrigðisstofnunum o.s.frv., miklu meiri aðgang en fólkið sem býr úti á landsbyggðinni. Af hverju ættum við að þrengja kosti þess fyrir einhverja sjálfskapaða eiginhagsmuni? Það gengur bara ekki. Þetta er bara hlutur sem verður að horfa á í heild fyrir landið allt og sérstaklega með tilliti til þeirra sem þetta mundi bitna verst á.

17 ára unglingur getur farið á bíó hérna þó að hann sé ekki á bíl. 17 ára unglingur á Langanesi (Forseti hringir.) fer ekki í bíó, (Forseti hringir.) það er einfaldlega ekkert bíó þar. En hann getur kannski þurft að gera eitthvað annað (Forseti hringir.) sem er skynsamlegt.



[14:59]
Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Við erum náttúrlega að tala um réttindi og mér finnst eðlilegt að bílprófsaldurinn fylgi lögræðisaldrinum. Í höndum ungra og óþroskaðra manneskna getur bifreið verið morðvopn og mér finnst ekki eðlilegt að ósjálfráða fólk geti fengið að keyra bíl með allri þeirri ábyrgð og þeim skyldum sem því fylgja.



[14:59]
Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hættulegt og óþarfi að tala um réttindi ökuprófs sem morðvopn. Það eru réttindi til þess að lifa lífinu, nýta þá tækni sem er til, nýta þær aðstæður sem til eru og það léttir róðurinn í mörgu að hafa þannig tækjabúnað. Nákvæmlega eins og nú þykir sjálfsagt að nota farsíma af því að það léttir róðurinn þó að það geti verið hættulegt fyrir einhverjar sellur í heilanum. En það hefur ekki verið sannað og þess vegna sleppum við enn þá þangað til Evrópubandalagið setur reglur um það.

Fyrir þessu verður að vera almennt, skynsamlegt sjónarmið út frá brjóstviti venjulegs fólks. Besta dæmið er þegar verið að setja ungu fólki sem býr afskekkt stólinn fyrir dyrnar. Það þarf bíl til þess að hafa tengingu við næsta þéttbýli. Það er bara frekja og yfirgangur ef þingmaður leyfir sér að segja að þetta fólk þurfi ekkert bíl. (Gripið fram í.) Hver á að velja lífi þess farveg nema það sjálft? (Gripið fram í.) Það getur þurft bíl og það á ekki að skerða þessi réttindi frekar en orðið er. Það þarf að gæta þess að það er ofstýring og forsjárhyggja af verstu gerð (Gripið fram í.) að segja einfaldlega: „Heyrðu, þú þarft þetta ekkert.“

Látum fólkið meta hlutina sjálft, komast að því. Það býr við ákveðnar skyldur og kröfur og það verður að mæta þeim en ekki (Forseti hringir.) ganga of langt.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til samgn.