138. löggjafarþing — 121. fundur
 11. maí 2010.
störf þingsins.

[13:31]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú er ár liðið frá því að 27 nýir þingmenn tóku sæti á Alþingi Íslendinga. Krafan eftir hrun var endurnýjun og önnur vinnubrögð og við, nýju þingmennirnir, höfum lært á þingstörfin og þingsköpin og mörg hver samlagast ríkjandi umræðuhefð. Það er skiljanlegt og þekkt að stjórnmálamenn litist af þeirri stjórnmálamenningu sem þeir lifa og hrærast í og enn er það svo að bæði gagnrýni og varnir gegn gagnrýni eru í þessum sal oft og tíðum svo öfgafull að almenningur veit ekki hverju hann á að treysta. En það er einmitt skortur á trausti sem er mein í þessu samfélagi og skortur á trausti á stjórnmálamönnum er stór hluti af því meini.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að íslensk stjórnmál hafa að mörgu leyti ekki náð að þroskast í samræmi við hugsjón lýðræðisins. Um íslensk stjórnmál segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Þau hafa þvert á móti einkennst af kappræðum og átökum þar sem markmiðið er að sigra andstæðinginn og sannfæra áhorfendur, burt séð frá því hvort það þjóni best almannahagsmunum og sé í samræmi við bestu upplýsingar.“

Hæstv. forseti. Ég vildi vekja athygli á þessu og skora um leið á alla þingmenn að breyta umræðuhefðinni og láta hernaðarlist og valdaklæki víkja fyrir góðum málefnum og röksemdum sem eru byggðar á traustum upplýsingum.



[13:33]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi kveðja mér hljóðs, undir störfum þingsins, út af grein í Morgunblaðinu eftir Ragnar Önundarson, bankamann og viðskiptafræðing. Þar er hann að eggja okkur og hvetja þingmenn og stjórnvöld til að kanna hvort ekki væri rétt að sækja skaðabætur til erlendra banka út af framferði þeirra í tengslum við bankahrunið. Þar koma fram mjög áhugaverðar upplýsingar um að slíkt eigi sér fordæmi og upplýsir greinarhöfundur að Royal Bank of Scotland, Royal Bank of Canada, Canadian Imperial Bank of Commerce, The Toronto-Dominion Bank, JP Morgan Chase, Credit Suisse, Meryll Lynch, Fleet Bank, Barclays og Deutsche Bank hafi allir samþykkt að greiða skaðabætur vegna viðskipta sinna við Enron á sínum tíma. Þessar upplýsingar hafa ekki farið hátt og hann færir rök fyrir því, þessi ágæti maður, að hér sé um mjög sambærileg mál að ræða. Það er okkar hlutverk, þingmanna og stjórnvalda, að gæta hagsmuna okkar Íslendinga í hvívetna og ég held að þetta mál sé þess eðlis að það sé þess virði að fara yfir það.

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera spurning fyrir okkur hvar við eigum að gera það. Mér dettur fyrst í hug að hv. viðskiptanefnd ætti að setjast yfir málið. Ef einhverjar aðrar leiðir eru betri eða færari þá skulum við fara þær en aðalatriðið er að hér er um stórmál að ræða og það væri ábyrgðarhluti af okkur þingmönnum að skoða það ekki sérstaklega.



[13:36]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hvalveiðar hófust hér aftur eftir langt hlé árið 2003, vísindaveiðar og síðan fullar atvinnuveiðar sem segja má að hafi farið af stað af fullum krafti á síðasta ári.

Fyrir nokkrum dögum lagði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram nýtt frumvarp um hvalveiðar. Í ræðu minni um það frumvarp, þegar mælt var fyrir því, gerði ég ýmsar athugasemdir og taldi upp ýmsa annmarka á því.

Í fyrsta lagi, virðulegi forseti, þá var, eins og í svo mörgu öðru, ekkert samráð haft við hagsmunaaðila eða þá sem hafa stundað þessar veiðar í áratugi um gerð frumvarpsins heldur er það lagt fram í algerri óþökk og án þess undirbúnings sem þarf. Nefna má sérstaklega tvö atriði og það er t.d. tímabilið sem mönnum er ætlað að starfa eftir. Þarna á að fara að gefa út veiðileyfi til tveggja ára í senn en það sjá allir að fyrir þá sem standa í atvinnurekstri þar sem þeir hafa eingöngu sýn næstu tvö árin er ekki hægt að fjárfesta mikið en veiðar þessar eru dýrar og krefjast mikilla fjárfestinga bæði í landi og varðandi skip.

Það er sagt að frumvarpið taki gildi nú þegar þannig að þessi vertíð í sumar er í uppnámi ef frumvarpið fer í gegn á þessu þingi. Með frumvarpinu er greinilega verið að þóknast þeim fámenna hópi þingmanna og þeim fámenna hópi í samfélaginu sem er á móti hvalveiðum þrátt fyrir að engin rök þeirra hafi staðist í gegnum árin. Þær hafa ekki gengið eftir, allar þær bölsýnir sem hafa verið dregnar fram í dagsljósið.

Það hafa líka komið fram athugasemdir um lögmæti frumvarpsins og ég vil gjarnan vísa því til forseta að það verði kannað alveg sérstaklega hvort þingsköp hafi verið brotin með framlagningu þess.



[13:38]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Nú berast þær fréttir úr herbúðum ríkisstjórnarinnar að fyrir dyrum standi breytingar á skipulagi Stjórnarráðsins. Það á svo sem ekki að koma á óvart vegna þess að það var kynnt í stjórnarsáttmálanum. Samkvæmt fréttum er meiningin að leggja fram frumvarp og er ekki alveg einhugur um það innan ríkisstjórnarinnar hversu hratt þessar breytingar eiga að fara í gegn, og svo virðist sem líka sé meiningarmunur um það hvaða breytingar eigi að gera. Ég ætla ekki að gera það að umtalsefni en við höfum mikið rætt vinnubrögð í þessum sal. Hv. þm. Oddný Harðardóttir var rétt í þessu að kveðja sér hljóðs um umræðuhefðina og hvernig við eigum að ræða saman í þingsalnum. Rannsóknarskýrslan bendir okkur á að það er margt sem við mættum betur gera frekar en að viðhafa það verklag sem hér hefur verið hingað til. Mér finnst það því skjóta skökku við þegar við erum að ræða um stórmál eins og breytingar á Stjórnarráðinu eru — og þetta er grundvallarspurning í okkar stjórnskipan — að það sé ekki einnar messu virði að allir fulltrúar á þingi, allir þingflokkar, allir stjórnmálaflokkar, væru kallaðir að þessu borði og mótuð yrði heildstæð stefna um það hvernig við vildum sjá þetta, alla vega taka umræðuna um þetta. Það er greinilegt að ágreiningur er um þessi mál. Helst hefur verið nefnd til andstaða Vinstri grænna við atvinnuvegaráðuneytið og sameiningu ráðuneyta. Ég hef ekki heyrt í þessum fréttaflutningi rætt um annað stórmál, sem er stofnun innanríkisráðuneyti, sem er þó ein forsenda þess að verið er að leggja niður Varnarmálastofnun og við erum að ræða það í annarri nefnd þingsins.

Ég vil gefa ríkisstjórninni þetta ráð: Tölum saman um þetta. Vinnum þannig að hægt sé að gera þetta af yfirvegun. (Forseti hringir.) Ekki reka fleyg í gegnum þjóðina eina ferðina enn með handahófskenndum vinnubrögðum.



[13:41]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir innlegg hennar og fyrir að vekja máls á þeirri umfjöllun sem er í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um störf Alþingis. Mér finnst mikilvægt að við temjum okkur betri siði, ef svo má segja, bæði í þingsal og í þingstörfunum almennt. Ég hvet til þess að í forsætisnefnd verði vinna sett í gang við að endurskoða þingsköp sem ég veit reyndar að er í undirbúningi.

Ég vil líka, vegna orða hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, segja að mér finnst mjög eðlilegt að það álitamál sem hann vakti máls á verði tekið til umfjöllunar, m.a. á vettvangi viðskiptanefndar, og að sjálfsögðu er hægt að eiga orðastað um það líka við ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum, með skriflegum fyrirspurnum eða í utandagskrárumræðu ef þurfa þykir.

Hv. þm. Jón Gunnarsson vakti sérstaklega máls á hvalveiðunum. Um það vil ég einfaldlega segja að komið er fram frumvarp sem að sjálfsögðu mun fá eðlilega og þinglega meðferð í umræðu á vettvangi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Ég get líka upplýst að á fundi utanríkismálanefndar í fyrramálið verður fjallað um fundi í Alþjóðahvalveiðiráðinu. Fulltrúi Íslands þar mun koma fyrir nefndina til að upplýsa um stöðu mála þar. Mín skoðun er sú að það sé óþarfi fyrir okkur Íslendinga yfirleitt að vera að eyða púðri í að stunda hvalveiðar og að þar séu minni hagsmunir teknir fram yfir meiri. En ég veit að um þetta eru ólík sjónarmið í samfélaginu og það er eðlilegt að þau brjótist fram hér í þingsal eins og annars staðar.

Varðandi endurskoðun Stjórnarráðsins, sem hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir nefndi, þá er það mál í ágætum farvegi. Það mun verða miklu betur vandað til þeirra verka af hálfu núverandi ríkisstjórnar en gert var vorið 2007 þegar keyrðar voru í gegn með miklu hraði breytingar á stjórnarskránni undir forustu Sjálfstæðisflokksins án þess að það fengi mikla efnislega umfjöllun eða haft væri um það samráð við aðra stjórnmálaflokka eins og nú er kallað eftir af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins.



[13:43]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að vekja máls á því hvernig skipulagi þingsins er háttað, umræðum í þinginu. Ég tel að við eigum öll að líta í eigin barm í þeim efnum. Ef við horfum á þessa umræðu, og hvernig hún kemur okkur fyrir sjónir, þá á núna á þessum hálftíma að ræða um bætt vinnubrögð og öðruvísi vinnubrögð á Alþingi. Það er rætt um að sækja fjármuni til erlendra banka í kjölfar efnahagshrunsins, það er verið að ræða um hvalveiðar og það er verið að ræða um breytingar á ráðuneytum. Þetta á allt að gerast á 30 mínútum og þingmenn koma upp í handahófskenndri röð og þessi mál eru rædd í símskeytaformi út og suður. Þetta er eitthvað sem við hljótum að vera sammála um að þurfi að breyta. Við þurfum að koma betra skikki á þennan lið hér og ræða með markvissari hætti um einstök mál. Umræðan fer einfaldlega út og suður með því skipulagi sem við ræðum hér.

Ég held að við þurfum að styrkja þingið og það gerum við með því að skilja enn frekar á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Það verður að segjast eins og er að þrátt fyrir skýrslu rannsóknarnefndarinnar, og þann lærdóm sem við hefðum átt að draga af henni, þá búum við því miður enn við ráðherraræði á Alþingi Íslendinga. Þannig er það í dag og þannig hefur það verið, ekki síðustu árin heldur áratugina. Þetta er eitthvað sem við verðum að breyta. Ég bind miklar vonir við að þingmenn, líkt og hv. þm. Oddný Harðardóttir, fari að breyta þessum hugsunarhætti. Það eru ráðherrarnir sem eiga að sækja umboð sitt til þingmanna og við eigum, hvort sem við sitjum í stjórn eða stjórnarandstöðu, að standa fastar í lappirnar gagnvart framkvæmdarvaldinu. Alþingi Íslendinga á að veita framkvæmdarvaldinu miklu meira aðhald en við höfum gert. Það á við um stjórnarliða líkt og stjórnarandstæðinga. Tökum okkur tak, sama hvar í flokki við erum, lærum af reynslunni og hefjum Alþingi Íslendinga á ný til vegs og virðingar gagnvart framkvæmdarvaldinu.



[13:45]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það má með sanni segja að þessi liður í þingsköpunum sé orðinn að eins konar blandi í poka. Mig langar til að byrja á því að þakka flokkssystur minni, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, fyrir innlegg hennar hér í dag.

Til þess að umræðuhefð Alþingis breytist þarf hún að breytast í hjarta og huga hvers einasta hv. þingmanns sem hér situr. Það sama á við um skipulag á störfum þingsins. Skipulag á störfum þingsins er í okkar höndum, það að breyta þingsköpunum er í okkar höndum. Það eina sem við þurfum að gera, frú forseti, er að komast að samkomulagi um hvaða breytingar við viljum gera. Ég vil t.d. takmarka ræðutíma af því að það er eina leiðin til að hafa tímastjórnun á þessum vinnustað. Hingað til hefur ekki verið meiri hluti fyrir þeirri breytingu svo ég viti, (Gripið fram í.) kannski hefur það breyst. Þetta er allt í okkar höndum þannig að ef við komumst að niðurstöðu um það breytum við náttúrlega skipulagi, vinnubrögðum og umræðuhefð. Það er allt saman i höndum hv. þingmanna í þessum sal.

Hvað varðar annað skipulagsmál sem er skipulag Stjórnarráðsins þá hefur legið fyrir í heilt ár hvaða breytingar ríkisstjórnin hyggst gera. Þær hafa verið kynntar og hafa verið í undirbúningi í ráðuneytunum. Útfærsla þeirra eða hvenær nákvæmlega þeim verður ýtt úr vör eða komið í framkvæmd er óákveðið á þessari stundu en allt er það gert til að styrkja stjórnsýsluna hér á landi sem ég held að hljóti að vera höfuðverkefni í ljósi rannsóknarskýrslunnar góðu sem við fjöllum hér um með einum eða öðrum hætti á hverjum degi.

Allra síðast, vegna þess að hv. þm. Jón Gunnarsson nefndi hvalveiðar, bind ég miklar vonir við að á hvalveiðum verði tekið af yfirvegun (Forseti hringir.) og pólitískri festu og að við þurfum ekki að skjóta fleiri hvali hér á næstunni.



[13:48]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Jóni Gunnarssyni, það er alveg með ólíkindum að ríkisstjórninni skuli vera að takast að stefna hvalveiðum okkar í óvissu. Maður skilur það hins vegar þegar tveir hv. þingmenn úr stjórnarliðinu eru búnir að koma hér upp, fulltrúar þess agnarlitla minni hluta sem er á móti hvalveiðum, til þess að tala gegn hvalveiðum.

Hvalveiðarnar gengu mjög vel á síðasta ári. Um veiðarnar ríkti algjör friður og þannig fór á síðasta ári að tekjur af ferðamennskunni höfðu aldrei nokkurn tímann verið meiri þrátt fyrir hrakspár í aðra veru. Hvalveiðarnar sköpuðu gríðarlega mikil verðmæti, þær sköpuðu gjaldeyristekjur einmitt þegar við þurftum á þeim að halda. Það urðu til fjöldamörg störf í landi þar sem 17.000 manns ganga um atvinnulausir. Þess vegna þarf maður að láta segja sér þrisvar að það skuli virkilega vera ætlunin, eins og mér finnst hægt að lesa út úr ummælum þeirra hv. þingmanna sem hér hafa talað í þá veru, að reyna að bregða fæti fyrir þessar veiðar.

Það er ótrúlegt að hugsa til þess vegna þess að ég hélt satt að segja að fyrir væru nægjanleg vandamál við að glíma í þjóðfélaginu, við þyrftum ekki sérstaklega að hafa ríkisstjórn sem vinnur bókstaflega að því að búa til fleiri vandamál sem hún ræður síðan ekkert við að leysa úr. Þegar maður hugleiðir þetta hvarflar hugurinn að þeim hugmyndum sem núna eru uppi um breytingar á stjórnsýslunni okkar og Stjórnarráðinu sem eiga að leiða til þess að taka að mestu leyti sjávarútvegsmálin út úr sjávarútvegsráðuneytinu og færa þau eitthvað annað. Úr því að hægt er að klúðra málum eins og hvalveiðunum með þeim hætti sem verið er að gera við þessa stjórnsýslu líst mér ekki á framhaldið ef það verður niðurstaðan sem talað er um í ríkisstjórninni, að færa sjávarútveginn að mestu leyti út úr sjávarútvegsráðuneytinu.



[13:50]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Það var tímabært að hv. þm. Oddný Harðardóttir skyldi kveðja sér hljóðs og tala fyrir öðrum og bættum vinnubrögðum á Alþingi og breyttum umræðuhefðum frá því sem hér hafa skapast. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að hér þarf ýmislegt að breytast og hér hefur ýmislegt breyst frá síðustu kosningum. Ég hef rekið mig á það eftir að ég tók sæti aftur á þingi fyrir skömmu eftir að hafa setið frá 2003 til 2007. Sú umræðuhefð sem tekin hefur verið á þinginu er að mörgu leyti þinginu ekki til sóma og henni má breyta. Þær breytingar mega hins vegar ekki fela í sér að í þingsalnum megi ekki ræða um mál sem eru óþægileg fyrir hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórnarflokka. Þingmenn eiga ekki að þurfa að sæta því frá stjórnarþingmönnum að vera uppnefndir fyrir að spyrja spurninga sem eru hæstv. ráðherrum ekki þóknanlegar.

Ég hef líka tekið eftir öðru og hef áhyggjur af þeim störfum sem ég hef horft upp á í nefndum þingsins á síðustu vikum. Ég kannast ekki við það að á umliðnum árum hafi nefndarformenn afgreitt ókláruð mál út úr nefndum en það er að gerast núna. Og ég tek eftir því að stjórnarmeirihlutinn hefur ekkert samráð í stórmálum við stjórnarandstöðuna.

Ýmislegt hefur breyst. Ég held hins vegar að vinnubrögðin hér á þingi hafi frá síðustu kosningum breyst til hins verra frá því sem var á árum áður og ég tel að vilji (Forseti hringir.) hv. stjórnarþingmenn breyta vinnubrögðum ættu þeir að byrja á því að taka til heima hjá sér áður en þeir halda umvöndunarræður (Forseti hringir.) yfir okkur hinum.



[13:52]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að bæta aðeins við ræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, og hvetja þingmenn til að skoða fréttamyndband það sem er núna á netmiðlum frá Bretlandi þar sem rætt er við spunameistara Samfylkingarinnar í Bretlandi, þ.e. Verkamannaflokksins. Það er assgoti kunnugleg aðferðafræði sem þar er beitt. Hvet ég þingmenn og fleiri sem þetta heyra til að kynna sér það myndband og gá hvort þar sé eitthvað sem þeir kannast við frá hinum íslenska samfylkingarflokki.

Frú forseti. Mig langar aðeins að koma inn á skipulag Stjórnarráðsins og þær breytingar sem þar eru fyrirhugaðar. Hér er búið að ræða þetta töluvert í ræðustól síðustu daga en ekki hefur verið minnst á líklega meginástæðu þess að ráðist er í þessar breytingar. Það er sú aðlögun sem stjórnarflokkarnir og þessi ríkisstjórn eru núna í með íslenskt stjórnkerfi — að Evrópusambandinu. (ÞSveinb: Við erum ekki …) Það er ekkert öðruvísi. Það er að sjálfsögðu, hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, verið að laga íslenska stjórnsýslu, ráðuneytin og það sem við erum að starfa að á Alþingi, að Evrópusambandinu. Við erum ekkert í umsóknarferli, frú forseti, við erum að gera þetta land að viðhengi á þessu Evrópusambandsbatteríi sem allt er í kaldakoli akkúrat núna. (Gripið fram í.) Þetta er nákvæmlega það sem er í gangi.

Það er alveg ljóst, frú forseti, að það sem ég er að segja hér núna er dagsatt því að sannleikanum verður hver sárreiðastur. Nú sitja samfylkingarþingmennirnir órólegir í sætum sínum því að þeir sjá þetta vitanlega. Þeim hefur hingað til tekist að breiða yfir þetta en þetta er staðreyndin, frú forseti. Það er verið að búa til eitt Evrópu-atvinnumálaráðuneyti til þess að við getum marserað inn í þetta batterí þegar Samfylkingin er búin að ná sínu fram gagnvart Vinstri grænum sem láta allt undan þessum Evrópukrataflokki sem hér er á þingi. [Hlátur í þingsal.]



[13:54]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka fyrir þessa umræðu hér í dag og þá sérstaklega framlag hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur. Ég er ein af þessum nýju þingmönnum sem hef núna verið hér í heilt ár og ég bauð mig fram til þess að takast á við hin erfiðu verkefni sem við blöstu eftir bankahrunið. Ég verð að lýsa mig svolítið hissa á því, bæði miðað við umfjöllunina hjá hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur og eins það framlag sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kom með áðan, að það skuli vandað um við okkur hin, en hins vegar gætir sérstaks brodds í sömu orðum um að þetta hafi bara ekkert verið skárra 2007.

Er það þá rétt? Varð ekki hér heilt hrun? Er það ekki það sem við ætluðum að læra af, er það ekki innleggið? Það er holur rómur í málflutningi þessara hv. stjórnarþingmanna.

Hér hafa bankar nú verið einkavæddir að nýju. Hvaða flokkar gerðu það, voru það ekki núverandi stjórnarflokkar? Og hvernig vinnubrögð voru viðhöfð við þá framkvæmd? Er eitthvað nýtt í því eða var það kannski bara gert á svipaðan hátt og áður?

Varðandi lýðræðislegu vinnubrögðin vísa ég enn og aftur til þeirrar meðferðar sem náttúruverndaráætlunin fékk í þinginu í fyrrasumar. Ég vísa til þess að hér hefur verið boðað til fundar í félagsmálanefnd í dag með tölvupósti sem var sendur út seinni partinn í gær. Fundurinn á að standa frá klukkan fimm til a.m.k. klukkan tíu, sýnist mér, (Gripið fram í.) og ég get ekki séð að þetta sé mjög fjölskylduvænt fyrir fólk sem á lítil börn.

Ég verð einfaldlega að segja að hv. þingmenn stjórnarliðsins ættu bara að hætta að tala í þessum ræðustól um hvað við ættum að hætta að tala mikið, eins og hv. þingflokksformaður Samfylkingarinnar leggur helst til, og fara heldur að taka til, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson lagði til, og hætta bara að tala og fara að gera eitthvað af viti.



[13:56]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við skulum ekki láta það gerast hér að við förum að rífast vegna umræðunnar um það hvort við rífumst of oft. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.) Ég held að það sé sannarlega breið samstaða um það á þinginu að ýmislegt megi laga eins og t.d. varðandi þingsköpin. Þau hafa verið í þróun og hafa tekið breytingum á undanförnum árum og ég hygg að við séum flest sammála um að við getum gert breytingar sem gera þinginu kleift að veita framkvæmdarvaldinu ríkara aðhald. Sem betur fer flýgur hér sjaldan skóbúnaður eða húsbúnaður um salinn af reiði en við tökumst oft á og ég held að í seinni tíð höfum við fyrst og fremst tekist á vegna þess að hér hafa verið stór mál á dagskrá sem lítið samráð hefur verið haft við stjórnarandstöðuna um. Stundum er mönnum misboðið og þá hafa menn rétt á því að koma hingað upp þó að það hvessi aðeins í salnum.

Ég kvaddi mér reyndar ekki hljóðs til að taka þátt í þessari umræðu heldur til að vekja athygli á öðru vegna þess að hér hefur rannsóknarskýrslan verið til umræðu og viðbrögð þingsins undir þessum dagskrárlið. Ég vil þá leyfa mér að minna á skýrslu sem utanríkismálanefnd hefur lagt inn til forsætisnefndar um það hversu mikilvægt það er að þingið breyti vinnubrögðum sínum í Evrópusambandsmálunum, þ.e. þeim málum sem koma í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið frá sameiginlegu nefndinni. Í skýrslunni eru dregin fram dæmi þess að við innleiðum hér iðulega Evrópulöggjöf án þess að laga hana að íslenskum aðstæðum. Að mati skýrsluhöfunda er það ein af orsökum þess sem hér gerðist. Við höfum ekki lagað Evrópulöggjöfina að íslenskum aðstæðum en það er oft svigrúm til þess samkvæmt þeim reglum sem okkur ber að taka upp á grundvelli EES-samningsins.

Einmitt um þetta atriði er fjallað í skýrslu utanríkismálanefndar sem hefur núna legið allt of lengi hjá forsætisnefnd án þess að koma hingað inn í þingið í formi breyttra (Forseti hringir.) reglna um þetta efni.



[13:59]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það sannaðist í þessari umræðu að með þessu hvalafrumvarpi er verið að þóknast mjög fámennum hópi þingmanna. Það kom greinilega fram hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni og hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur. Þau sögðu að það væri einfaldlega óþarfi að stunda hvalveiðar og nú án þess að færa fyrir því nein rök. Öll þau rök sem hafa verið lögð á borðið af andstæðingum hvalveiða hér á undanförnum mörgum árum hafa hrunið. Hér átti allt að fara fjandans til í ferðaþjónustu, hér átti hvalaskoðun að leggjast af, en aldrei hefur orðið annar eins vöxtur í þeim greinum síðan við hófum hvalveiðar hérna 2003. Hann hefur verið stöðugur og góður. Þessu höfum við hvalveiðisinnar haldið fram, að þessar greinar gætu starfað vel saman, og þannig er það.

Það er ekki óþarfi að stunda hér hvalveiðar, hv. þingmenn, það er mjög nauðsynlegt til að gæta samræmis í lífríkinu þó að ekki sé annað. Við göngum heldur ekki á neina stofna umfram það sem vísindaleg ráðgjöf gefur tilefni til. Það er ekki bara ráðgjöf íslenskra vísindamanna, það er ráðgjöf erlendra vísindamanna. Stofnstærðir o.fl. sem er lagt þar til grundvallar er viðurkennt af alþjóðavísindamannasamfélaginu í þessum efnum, m.a. Alþjóðahvalveiðiráðinu.

Það er alveg magnað hvað þessari hæstv. ríkisstjórn ætlar að takast að leggja mikinn stein í götu atvinnulífs á Íslandi. Hér er enn eitt dæmið um það hvernig þessi ríkisstjórn starfar. Það er ekki nema von að hæstv. fjármálaráðherra dæsi í ræðustól þingsins og færi þingi og þjóð þau skilaboð að hann sé svo þreyttur af því að brekkurnar séu svo miklar. Það er erfitt að vinna skemmdarverk og standa í þeirri gagnrýni sem það hlýtur í samfélaginu alla daga. Ég er ekkert hissa á þreytu hæstv. fjármálaráðherra í þeim efnum þegar kemur að öllum þeim innanborðsátökum sem hann á í í ríkisstjórninni og á svo í við samfélagið um þessar ákvarðanir eða þær ekki-ákvarðanir sem eru teknar. Ég held að við ættum að taka norska þingið okkur til fyrirmyndar þar sem þverpólitísk samstaða hefur verið síðan 1992 (Forseti hringir.) um rétt þjóðarinnar til að nýta þessa stofna. (Forseti hringir.)

Svo ítreka ég beiðni mína til forseta þingsins um að lögmæti þessa frumvarps verði skoðað út frá þingskapalögum.



[14:01]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill hvetja hv. þingmann til að gæta orða sinna.



[14:01]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er eins og svo oft áður að þessi liður, Störf þingsins, fer út og suður og ég hvet hv. forsætisnefnd og hæstv. forseta til að gera nú alvöru úr því ásamt okkur þingflokksformönnum að reyna að koma örlítið betri skikk á hann vegna þess að hér hafa mörg mál verið rædd.

Mig langar til að koma hér í annað sinn vegna sama máls og ég vakti máls á áður og það eru fyrirhugaðar breytingar á Stjórnarráðinu. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur vegna orða hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að þrátt fyrir brýningu hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur datt viðkomandi þingmaður strax í þann pytt að segja: Þetta er nú miklu betra en þegar þið gerðuð þetta árið 2007.

Erum við ekki komin upp úr þessu? Er það ekki nákvæmlega þetta sem búið er að gagnrýna og við eigum öll að læra? Eigum við ekki að meðtaka það að staðreyndir málsins eru þessar: Breytingar á Stjórnarráði Íslands eru stórmál. Breytingar á Stjórnarráði Íslands eru hlutir sem við höfum og eigum öll að hafa skoðanir á. Ég hugsa að skoðanir okkar í stjórnarandstöðunni séu í þessu tilfelli alveg jafnréttháar skoðunum stjórnarflokkanna. Þegar við erum að fara í slíkar breytingar á að gera þær með heildarhagsmuni og heildarsýn að leiðarljósi en ekki út frá einhverjum ESB-forsendum, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson benti á hér áðan. Það lítur út fyrir að það sé verið að keyra þetta í gegn vegna þeirra, menn geta haft á því skoðun.

En vöndum okkur. Það er lærdómurinn sem við eigum að draga af rannsóknarskýrslunni. Vöndum vinnubrögðin, vinnum saman að stórum málum. Við sjáum að þetta er hægt. Við sjáum að undir forustu núverandi borgarstjóra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur er þetta gert á hverjum einasta degi í borgarstjórn Reykjavíkur. Það er farið í erfið mál (Forseti hringir.) eins og fjárhagsáætlun þannig að það er hlustað og það er unnið þverpólitískt. Tökum það okkur til fyrirmyndar.