138. löggjafarþing — 123. fundur
 14. maí 2010.
utanríkis- og alþjóðamál, frh. einnar umræðu.
skýrsla utanrrh., 611. mál. — Þskj. 1070.

[13:30]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og aðrir þakka ég hæstv. utanríkisráðherra ítarlega skýrslu og vil taka undir hrós til starfsmanna utanríkisþjónustunnar sem hafa starfað mjög vel á undanförnu erfiðu ári. Ég mun í máli mínu einungis koma inn á fáein atriði sem getið er í skýrslunni enda er hún ákaflega viðamikil.

Virðulegi forseti. Það er mér ekkert launungarmál að ég hef löngum verið þeirra skoðunar að hagsmunum Íslands sé best borgið í náinni samvinnu við Evrópuríkin og þess vegna tel ég að ákvörðun Alþingis þann 16. júlí í fyrra, um að leggja fram umsókn um aðild að Evrópusambandinu, sé með merkilegri skrefum sem stigin hafa verið í utanríkismálum á Íslandi. Það er ekki nýlunda að skoðanaágreiningur sé um stór skref sem stigin eru í utanríkismálum, svo háttaði um inngönguna í NATO árið 1949, um aðild okkar að EFTA árið 1970 og um EES-samninginn árið 1994.

Umsókn um aðild að Evrópusambandinu er einungis fyrsta skrefið á langri leið, nú tæpu ári eftir að umsókn var afhent hafa formlegar viðræður ekki hafist. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt til við ráðherraráð að gengið verði til samningaviðræðna en vegna ýmissa formsatriða hefur ráðherraráðið ekki afgreitt það en búast má við að það verði gert á næstunni. Þegar það hefur verið samþykkt hefjast samningaviðræðurnar sem gera má ráð fyrir að taki eitt eða tvö ár. Mikilvægt er að nota þann tíma vel til kynningar og upplýsingar.

Í umfjöllun utanríkismálanefndar um þingsályktunartillögu var lögð áhersla á að vanda alla málsmeðferð og umræðu. Meiri hluti nefndarinnar samþykkti eins og kunnugt er ítarlegt nefndarálit þar sem fjallað var um mikilvægustu hagsmuni okkar í samningaviðræðunum og bjó í raun til vegvísi umsóknarferlisins. Ánægjulegt er að hæstv. utanríkisráðherra ákvað strax í upphafi að nota nefndarálitið sem vegvísi og endurspeglast það í störfum samninganefndarinnar.

Formaður samninganefndarinnar kom á fund utanríkismálanefndar í síðustu viku og skýrði frá því að undirbúningsvinna við viðræðurnar hefði staðið yfir í allan vetur og gert væri ráð fyrir að allir hóparnir skiluðu skýrslum um þá kafla sem þeir bæru ábyrgð á í haust. Þetta kemur einnig fram í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra. Jafnframt greindi aðalsamningamaðurinn frá því að ekki hefði enn verið ákveðið í hvaða röð kaflarnir yrðu teknir fyrir í samningaviðræðunum.

Frá upphafi hefur verið ljóst að viðkvæmustu kaflar samningaviðræðnanna yrðu um sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál. Í áliti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins kemur fram að heildarskipulag og framkvæmd íslensku sjávarútvegsstefnunnar sé vel samrýmanleg reglum Evrópusambandsins. Ísland aðhyllist sjálfbæra þróun og fylgir varúðarreglunni við fiskveiðistjórnun. Í álitinu kemur einnig fram að framkvæmdastjórnin telji aðild Íslands að ESB geta haft veruleg áhrif á sjávarútvegsstefnuna.

Þá hefur sameiginlega EES-þingmannanefndin hvatt til þess að við endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar beri að reyna að færa hana nær þeirri íslensku, m.a. með því að leggja af ríkisstyrki og færa ákvörðunarvald að hluta frá Brussel til aðildarríkjanna. Í viðræðum sem ég hef átt við þingmenn á Evrópuþinginu og starfsmenn framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hefur komið fram að engar líkur séu taldar á að breyting verði á reglunni um hlutfallslegan stöðugleika við skipulag veiða. Enn fremur hefur komið fram að talið sé nauðsynlegt að gera ráðstafanir hið allra fyrsta til að draga úr eða banna brottkast og í þeirri andrá sagt að ekki sé tími til að bíða með slíkar ráðstafanir þangað til ný sjávarútvegsstefna verði samþykkt.

Í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar kemur fram að niðurstaða samningaviðræðnanna eigi að valda sem minnstri röskun á högum bænda og skapa íslenskum landbúnaði sem hagstæðust rekstrarskilyrði og tryggja búsetu í dreifbýli. Í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra kemur fram að sérfræðingar hafi verið kallaðir fyrir samningahópinn til að útskýra einstaka þætti ESB-löggjafarinnar til að auka þekkingu á viðfangsefninu, þ.e. á reglum um landbúnað. Einnig kemur fram að samráð hafi verið haft við einstök aðildarríki og framkvæmdastjórn ESB til að auka skilning á inntaki og framkvæmd sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar og jafnframt að fulltrúar úr samningahópnum hafi farið í kynnisferðir til Skotlands og Finnlands. Allt þetta er af hinu góða og sýnir vandaða vinnu við undirbúning málsins. Ljóst er að stuðningi okkar við íslenskan landbúnað er allt öðruvísi háttað en gerist í Evrópusambandinu en við eigum að vera óhrædd við að breyta um kerfi ef það tryggir markmiðið sem stefnt er að, nefnilega að tryggja búsetu í dreifbýli og skapa íslenskum landbúnaði sem hagstæðust rekstrarskilyrði.

Ég hef aðeins vikið að þessum tveim stóru málum en önnur skipta auðvitað einnig máli og má þar nefna myntsamstarfið en ljóst er að það væri mjög heppilegt fyrir efnahag okkar ef við gætum sem fyrst fengið stuðning við krónuna frá ESB og Seðlabanka Evrópu.

Mig langar aðeins að nefna nokkra aðra þætti sem koma fram í skýrslunni. Ég vil taka undir það sem kemur fram að nauðsyn sé á virkri hagsmunagæslu og staðfestu í alþjóðasamskiptum um málefni norðurslóða. Það þarf að leggja áherslu á það og hlýtur að vera eitt af forgangsverkefnum utanríkisþjónustunnar nú þegar áhugi á umhverfi og auðlindum á norðurslóðum hefur aukist.

Aðeins um mannréttindamál. Í skýrslunni er getið þeirrar skoðunar íslenskra stjórnvalda að umræða um ástand mannréttindamála í einstökum ríkjum og á tilteknum landsvæðum sé nauðsynleg til að veita ríkjum aðhald á þeim sviðum. Utanríkismálanefnd hefur verið gerð grein fyrir tvíhliða samskiptum Íslands við önnur ríki um mannréttindamál, svo sem það sem hefur áður verið nefnt hér um versnandi ástand í mannréttindamálum í Íran og um dóm yfir 16 ára stúlku í Bangladess. Einnig hefur afstöðu íslenskra stjórnvalda til hernámsins í Palestínu verið komið á framfæri við ísraelsk stjórnvöld og einnig hefur hér verið minnst á bréf sem hæstv. ráðherra sendi starfsbróður sínum í Litháen vegna stöðu samkynhneigðra þar í landi. Fulltrúar í utanríkismálanefnd hafa velt því fyrir sér hvort rétt væri að þingið hefði aðra aðkomu að mótmælum af þessu tagi. Það hefur ekki verið hefð fyrir því eða venja hingað til en væntanlega munum við ræða í nefndinni á næstu dögum um hvort það sé rétt.

Það er varla hægt að fjalla um skýrslu um utanríkismál án þess að minnast á varnar- og öryggismál. Miklar breytingar hafa orðið á undanförnum árum á alþjóðlegri nálgun í þessum málaflokki. Hefðbundnar skilgreiningar á öryggi og vörnum eiga ekki lengur við og víðtækari skilgreining á öryggis- og varnarhagsmunum Íslands er þess vegna nauðsynleg. Hæstv. ráðherra hefur sagt að hann ætli að hrinda úr vör stefnumótun um heildstæða stefnu í varnar- og öryggismálum og ber að fagna því.

Fyrir utanríkismálanefnd er til umfjöllunar tillaga um að breyta Varnarmálastofnun eða fella hana niður og færa verkefnin inn í borgaralega stofnun. Mér líst vel á það markmið en það þarf að vanda vel til verkefnisins og huga vel að öllum þáttum, en markmið tillögunnar styð ég eindregið.

Síðan nokkur orð um upplýsingastarf. Hér hefur komið fram að mikið hefur verið að gera í því hjá starfsmönnum utanríkisþjónustunnar. Minnst hefur verið á endurreisnina, Icesave og gos í Eyjafjallajökli. Mig langar að segja að það skipti máli hvernig staðið verður að allri upplýsingagjöf til landsmanna þegar samningaviðræðurnar fara í gang. Það skiptir miklu máli að upplýsingarnar verði sem mestar og bestar því að þekking vísar bábiljum best á bug og það má búast við að nóg verði af ranghugmyndum um eðli viðræðnanna og þess vegna er nauðsynlegt að halda vel utan um það.

Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir heldur utan um starfshóp utanríkismálanefndar sem ætlar að gera tillögur um (Forseti hringir.) hvernig að þessu verði staðið og von er á tillögunum frá hópnum á næstu dögum.



[13:40]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir ágæta yfirferð. Ég ber mikla virðingu fyrir skoðunum Valgerðar Bjarnadóttur þótt við séum algjörlega ósammála um Evrópumálin en hv. þingmaður hefur brennandi trú á að þetta sé rétta leiðin fyrir Ísland og það er eitthvað sem maður ber virðingu fyrir.

Nokkrar spurningar vöknuðu við ræðu hv. þingmanns og m.a. minntist þingmaðurinn á landbúnaðarkerfið okkar, sem er mjög ólíkt því sem Evrópusambandið hefur yfir að ráða, og hv. þingmaður lýsti þeirri skoðun sinni að skapa ætti íslenskum landbúnaði hagstæð rekstrarskilyrði. Miðað við að verið er að laga íslenska stofnanakerfið í landbúnaðinum að kerfi Evrópusambandsins hvernig sér þá hv. þingmaður íslenska landbúnaðarkerfið fyrir sér með þessum hagstæðu rekstrarskilyrðum innan Evrópusambandsins? Hvað er það sem er átt við með því og hvernig sér hv. þingmaður þetta fyrir sér? Þetta er fyrri spurningin.

Síðan er það sú síðari, hún varðar umræðuna um upplýsingagjöf til almennings þegar samningaviðræðurnar eru farnar af stað. Hefur hv. þingmaður einhverja skoðun á því hvernig sú upplýsingagjöf komi til með að fara fram og hvernig hún verður fjármögnuð? Verður farið yfir bæði já-hliðina og nei-hliðina á þessu máli öllu eða verður um að ræða kosningabaráttu fyrir því að selja væntanlegan samning á reikning Evrópusambandsins sem kemur til með að leggja gríðarlegt fé í markaðssetninguna á sjálfu sér þegar þar að kemur?



[13:42]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla mér ekki þá dul að geta þulið hér upp hvernig styrkjakerfið við landbúnað verður eftir inngöngu í Evrópusambandið heldur tel ég að það sé eitt af því sem þurfi að semja um og það hlýtur þá að koma í ljós. Ég hef ekki svarið við þeirri spurningu akkúrat núna.

Hv. þingmaður spyr einnig um upplýsingar í samningaferlinu. Eins og ég gat um í ræðu minni er starfshópur á vegum utanríkismálanefndar að vinna að tillögum um þessi efni og skilar þeim tillögum væntanlega á næstu dögum og þá koma þær fram og þá mun ég taka afstöðu til þeirra. Í stórum dráttum tel ég það eiga að vera þannig að hér verði væntanlega einhverjar hreyfingar sem eru kallaðar já- og nei-hreyfingar og eftir því sem ég best veit er hv. þingmaður öflugur liðsmaður í annarri hreyfingunni.

Ég hefði talið eðlilegt að fjármunir frá íslenska ríkinu gengju til beggja hreyfinga. Það er svo aftur annað mál, og kemur væntanlega fram í þessum tillögum sem ég hef nefnt, að verið sé að undirbúa hvernig verður greint frá samningaviðræðunum sjálfum og því sem fer fram á fundunum, hver samningsmarkmiðin séu og hvernig því starfi vindur fram. Ég geri ráð fyrir að það verði í höndum öflugra starfsmanna utanríkisþjónustunnar.



[13:44]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir svarið og vonast til þess að síðar í ferlinu komum við til með að eiga nánari umræður um landbúnaðarkaflann sem ég hef sérstakan áhuga á vegna hagsmuna þess málaflokks og eins neytenda.

Það er annað sem hefur talsvert verið í umræðunni og það er hvort við höfum verið að gera bjölluat í Brussel. Ég hef sagt áður opinberlega að væri ég aðildarsinni væri ég hundóánægð með þá meðferð sem málið hefur fengið. Það hlýtur að vera truflandi að vera úti í Brussel að tala við ráðamenn þar, vitandi að þetta er gert með hálfum hug. Eru þetta einhverjar hugrenningar sem hv. þingmaður kannast við og hefur þurft að íhuga innra með sér eða er þetta allt í lukkunnar velstandi og gengur (Forseti hringir.) eins vel og hv. þingmaður, sem er heitur Evrópusinni, vildi óska?



[13:45]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan eru tæpir tíu mánuðir frá því að umsóknin var lögð fram. Ég endurtek það sem ég sagði áðan, ég tel þetta með merkilegri skrefum sem stigin hafa verið í íslenskum utanríkismálum. Samningaviðræður hafa ekki hafist enn, fyrst og fremst vegna þess að svo flókin málsmeðferð hefur verið samþykkt í Þýskalandi að þingið þar þurfti að samþykkja áður en hægt var að leggja þetta fyrir ráðherraráðið. Það hefst væntanlega í næsta mánuði eða þarnæsta. Já, ég held að þetta sé bara í mjög góðu ferli eins og það er. Ég hef engar áhyggjur af þessu, ekki nokkrar.



[13:46]
Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og vil, líkt og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, hæla hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir ræðu hennar. Það var líka eftir því tekið í sumar, og ég hældi hv. þingmanni líka þá, fyrir það hversu málefnalega ræðu hún hefði haldið og hversu mikla trú hún hefði á því að hagsmunum Íslands væri betur borgið innan Evrópusambandsins, þó við séum ekki sammála um það. Ég hafði hugsað mér að spyrja hv. þingmann út í landbúnaðarmálin, en það var komið inn á það í fyrra andsvari. Mig langaði þess í stað að ræða aðeins um evruna.

Nú höfum við öll fylgst með því að evran hefur átt við gríðarleg vandamál að stríða og myntsamstarfið í heild sinni. Í Grikklandi fyrr í vikunni voru beinlínis slökkviliðsaðgerðir við það að reyna að bjarga evrunni. Margir sögðu sem svo að ef það hefði ekki tekist á þeim tímapunkti hefðum við líklega verið að sigla inn í aðra kreppu. Núna hafa margir af því áhyggjur að þetta hafi ekki verið nóg og við höfum einfaldlega sloppið fyrir horn. Angela Merkel fjallaði m.a. um þetta í fréttum í gær. Ég hef kynnt mér það sem fræðimenn hér og vestanhafs hafa sagt um þetta, sem er að einkum séu tvær leiðir til þess að bjarga myntsamstarfinu. Annars vegar að þau ríki sem séu illa stödd, en jafnvel betur stödd en við Íslendingar, kljúfi sig út úr myntsamstarfinu. Það væru þá einungis Þýskaland og ríkin þar í kring sem mundu halda evrunni. Hins vegar er það hin leiðin, sem Angela Merkel kom inn á í gær, að færa aukin völd til Evrópusambandsins og færa þá stjórn efnahagsmála, stjórn skattamála og fjárlagagerð til þess, auk þess sem hún fjallaði um sameinaðan her Evrópusambandsins. (Forseti hringir.)

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvor leiðin henni hugnast betur, til þess að bjarga evrunni? (Forseti hringir.)



[13:48]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Evran er gjaldmiðill og nú gengur það svo að gjaldmiðlar veikjast og styrkjast eftir því hvernig efnahagsástand er. Það hefur t.d. oft gerst að dollarinn er sterkur og veikur. Nú er evran veik, það er alveg rétt. Það er bágt efnahagsástand í Evrópu og í mörgum ríkjum Evrópusambandsins. Ég ber ekki þann ugg í brjósti að Evrópusambandslöndin klofni varðandi myntsamstarfið, og einhverjir haldi áfram með evru og aðrir ekki. Ég man t.d. eftir því þegar evran var tekin upp, að þá kom fram að í Belgíu, sem var með belgískan franka, var hagsveiflan innan tveggja héraða í Belgíu ólíkari en t.d. milli Þýskalands og Spánar. Þannig að það á alltaf við, þegar rætt er um Evrópusambandið, að sumum héruðum og löndum gengur verr en öðrum. Þá reynir náttúrlega á samtakamáttinn og að hjálpa þeim ríkjum sem eiga í erfiðleikum. Þannig spóla allir sig saman í gegnum erfiðleikana. Ég held að það verði það sem gerist í Evrópusambandinu.



[13:50]
Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég skildi það svo að hv. þingmaður væri ekki hrifin af því að ákveðin ríki mundu kljúfa sig út úr myntsamstarfinu. Ég fékk ekki nákvæmt svar við því hvort hún væri fylgjandi því að færa aukin völd til Evrópusambandsins og að efnahagsmál, skattamál, fjárlagagerð og hugsanlega eftirlit með fjárlagagerð og fjárlögum viðkomandi aðildarríkja yrði lagt undir Evrópusambandið. Er það eitthvað sem hv. þingmaður talar fyrir? Þetta er það sem ráðamenn hafa talað um. Þetta er það sem fræðimenn hafa talað um. Þetta tengist ekki hagsveiflunum innan Evrópusambandsins, heldur þeim tækjum sem notuð eru og að evrusvæðið sé allt eitt ríki. Menn tala um það núna að þetta verði að líkjast Bandaríkjunum meira og þetta verði Bandaríki Evrópu. Mig langaði að fá svar við því hvort hv. þingmaður væri hrifin af því að Ísland gengi inn í sambandið, ef þetta er það sem við horfum fram á?



[13:51]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði ekkert um það hvort ég væri hlynnt eða ekki hlynnt því að löndin sem eru í myntsamstarfinu færu í tvo hópa. Ég sagði að ég teldi það ólíklegt. Það kemur ekkert málinu við hvort ég er hlynnt því eða ekki. Ég tel það ólíklegt.

Þeir sem hafa fylgst lengi með Evrópuumræðu, eins og ég hef gert, vita að inn á milli kemur alltaf upp umræða um að styrkja verði miðjuna og hafa ein fjárlög. Þetta er eðlileg umræða í samvinnu af þessari gerð. Ég segi við hv. þingmann að ég held að ég verði nú orðin 150 ára áður en það gerist.



[13:52]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona svo sannarlega að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir verði allra kvenna elst, ég hlakka til að sjá það met 150 ár sett af henni, því ég verð vonandi við hliðina á henni.

Mig langar aðeins að færa athyglina frá Evrópusambandinu, þar sem ég er nokkuð viss með afstöðu hv. þingmanns þar. Mig langar að ræða um breytingu á varnarmálalögum. Hv. þingmaður lýsti sig samþykka markmiðunum sem breytingar á varnarmálalögum innihalda, þ.e. að leggja niður Varnarmálastofnun og færa verkefnin annað.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún sé samþykk þessu verklagi sem lagabreytingin inniheldur, þ.e. að leggja fyrst niður stofnunina, dreifa verkefnunum um allt og finna þeim svo stað í ráðuneyti sem á eftir að sameina og stofna, hvort sem það er nýstofnað eða fyrirhugað innanríkisráðuneyti. Telur hv. þingmaður þetta verklag til fyrirmyndar?

Ég vil spyrja hv. þingmann um afstöðu hans til orða hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um loftrýmisgæsluna og staðfests vilja sem hann lýsti um að hún væri óþörf og að það ætti að leggja hana niður. Sérstaklega í ljósi þess að hæstv. utanríkisráðherra, í umræðum um varnarmálalögin, lýsti því margoft yfir að verkefnum yrði ekki hætt, og að þetta hefði ekki áhrif á skuldbindingar okkar gagnvart Atlantshafsbandalaginu. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson lýsti annarri skoðun. Nú liggur fyrir að Þjóðverjar koma hingað í maí, raunar á sama tíma og stofnunin verður lögð niður, og Bandaríkjamenn í október. Norðmenn, Kanadamenn og Bandaríkjamenn hafa skuldbundið sig fyrir næsta ár. Er ekki ómögulegt (Forseti hringir.) að hafa verklagið þannig að ekki liggi fyrir (Forseti hringir.) hvernig þetta verður útfært?



[13:55]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í ræðu minni styð ég það eindregið að öryggis- og varnarmál verði færð til vegna eðlisbreytinga sem hafa orðið á þessum hugtökum, ekki bara hér á landi heldur um allan heim. Þau verði færð til borgaralegrar stofnunar. Auðvitað væri miklu betra og þægilegra ef það væri til innanríkisráðuneyti og hægt væri að segja: „Förum bara með þetta þangað“. Nú vill það til að svo er ekki og þá gerir maður það sem er næstbest, maður býr sig undir það að innanríkisráðuneyti verði til, útdeilir verkefnum vegna þess að annars er alltaf þessi sama bið. Bið þeirra sem ekki vilja breytingar. Það er alltaf sagt: „Bíðum með …“. Í vetur var sagt: „Bíðum með að taka fyrir persónukjörið“, „bíðum með að taka …“. Við áttum að bíða með aðildarumsóknina að Evrópusambandinu, nú eigum við að bíða með Varnarmálastofnun. Það er eðli íhaldsmanna að segja alltaf, „bíðum, bíðum, bíðum…“. Ég er ekki íhald. (REÁ: Hvað með loftrýmiseftirlitið?) Síðan var það loftrýmisgæslan. Já, ég er ekki sammála hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni um að hún sé algjörlega óþörf, það er ljóst. Ég hef engar áhyggjur af því að ekki verði séð til þess að það fari vel saman í júní og ágúst. Hvenær það er, hv. þingmaður, er ég ekki alveg með á hreinu.



[13:57]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er mjög stolt af því að vera íhaldsmaður. Þetta hefur ekkert með íhaldssemi að gera vegna þess að Varnarmálastofnun er ekki það sem kallað er gömul stofnun. Það er ekki eins og menn hafi verið að bíða og bíða eftir því að hennar dagar yrðu taldir, nema kannski í einum stjórnmálaflokki sem er samstarfsflokkur hv. þingmanns. En Varnarmálastofnun er ekki einu sinni tveggja ára. Það er ekki komin reynsla á Varnarmálastofnun. Hvað sem fólki finnst um þá stofnun, hægt er að hafa allar skoðanir á því, hlýt ég að trúa því að hv. þingmanni finnist þetta ekki verklag til fyrirmyndar.

Það er annar grundvallarmisskilningur í orðum hv. þingmanns þegar hún talar um að nauðsynlegt sé að flytja þessi verkefni yfir til borgaralegrar stofnunar. Varnarmálastofnun er borgaraleg stofnun. Þar eru engir hermenn að störfum. Þar eru íslenskir borgarar að störfum. Þó svo að verkefnin, sem hæstv. utanríkisráðherra hefur margítrekað að verði ekki lögð niður, verði færð (Forseti hringir.) eitthvert annað breytir það því ekki að Varnarmálastofnun er borgaraleg stofnun.



[13:58]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það skipti mjög miklu máli í lífinu öllu og öllum störfum, hvort sem þau eru í stjórnmálum eða annars staðar, að geta skipt um skoðun. Að geta t.d. komist að því að þó að Varnarmálastofnun hafi verið stofnuð fyrir tveim árum síðan sé hægt að koma málum einhvern veginn öðruvísi og betur fyrir og breyta þeim þá. Það á ekki að halda alltaf í það að segja, „það má ekki gera þetta af því við gerðum eitthvað fyrir tveim árum.“ Nú liggur fyrir tillaga um að breyta þessu og ég sé ekki að í því atriði skipti nokkru einasta máli að Varnarmálastofnun hafi verið sett á fót fyrir tveim árum. Þar fyrir utan má benda á það, ef það hefur farið fram hjá hv. þingmanni, að við erum í efnahagserfiðleikum. Það þarf að skera niður fjárlög og ýmislegt mælir (Forseti hringir.) með því að gera hlutina á ódýrari hátt en áður.



[13:59]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil nota tækifærið, fyrst ég komst strax aftur að, og halda áfram andsvörum við hv. þingmann. Ég fagna því að hún horfir á kostnaðinn og utanríkismál og legg til að við sameinumst um að fara yfir kostnaðaráætlunina varðandi ESB-málið. Það er næsta ómögulegt að fjalla um þá yfirgripsmiklu skýrslu sem hér liggur fyrir á tíu mínútum. Ég tek undir þakkir þingmanna til hæstv. utanríkisráðherra um skýrsluna, hún er til þess að gera ágætt plagg. Hún dregur athygli að fjölmörgum málum sem þyrfti miklu meiri tíma til að ræða, en svona er þetta nú, þetta eru reglurnar sem við höfum sett, þannig að það er líka hægt að kvarta yfir því.

Ég ætla að beina athygli minni að fáum málum og byrja á Evrópusambandinu. Það vekur óneitanlega athygli þegar maður les skýrsluna að það er eins og það sé ákveðinn dampur farinn úr málinu hjá hæstv. utanríkisráðherra. Það örlaði aðeins á sannfæringunni í ræðu hæstv. ráðherra, en hún var samt ekki hér. Kannski er það vegna þess að það eru embættismenn sem skrifa textann þó að sjálfsögðu beri ráðherra ábyrgð á honum. Meira að segja í innganginum hefði maður vænst þess að það yrði vikið frá embættismannatextanum. Þar er talað um að utanríkisráðherra muni einungis fara eftir fyrirmælum Alþingis og í fyllingu tímans leggja aðildarsamninginn undir þjóðina eins og hann talaði um. Reynt er að skapa ímynd af hæstv. utanríkisráðherra, sem ég er viss um að hann er ekki alveg sáttur við, að hann sé viljalaust verkfæri í þessu máli. Það er ekki að furða þó að fyrrverandi formaður og ráðherra Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, úr flokki hæstv. ráðherra, hafi kvartað yfir því að ekki væri verið að berjast fyrir umsókninni, enda lagði hún til í viðtalinu að hún yrði dregin til baka.

Ég er sammála því að það er ekkert hjarta í þessu, engin sannfæring. Ég verð fyrst ég er hérna í inngangskaflanum — með fullri virðingu fyrir því góða starfsfólki utanríkisþjónustunnar sem hefur unnið mjög gott starf í erfiðu árferði. Það er búið að mæða mikið á utanríkisþjónustunni en þessi setning kemur mér spánskt fyrir sjónir, með leyfi forseta:

„Utanríkisþjónustan hefur unnið dyggilega og af trúmennsku að því verkefni sem Alþingi fól henni við að undirbúa aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið.“

Ég spyr: Eru menn í vörn? Mér finnst að ekki þurfi að taka fram að þetta ágæta fólk vinni dyggilega og af trúmennsku að verkefnum sem þeim er falið að annast. Hver er staðan á aðildarumsókninni núna? Í skýrslunni er látið að því liggja að leiðtogaráðið taki þetta fyrir, taki ákvörðun innan tíðar eins og það er orðað, það er nú ólíkt fyrir yfirlýsingagleði. Ég man eftir „hraðferðum“ og alls konar yfirlýsingum frá hæstv. ráðherra. Í fyrrasumar lá Samfylkingunni óskaplega mikið á að fallast á umsóknina, bara vegna þess að hún mundi styrkja og bæta efnahagsástandið á Íslandi. Hæstv. ráðherra var dálítið í þeirri vegferð í dag þegar hann talaði um að þetta væri allt liður í efnahagsendurreisninni. Þar er ég honum alls kostar ósammála.

Önnur rök fyrir flýtinum voru þau að Svíar væru í formennsku og það þyrfti að drífa þetta í gegn meðan þeir væru þar, en það gekk nú ekki. Þá kom fram hjá fulltrúum ríkisstjórnarinnar að það mætti fá aðstoð Seðlabanka Evrópu vegna samstarfs í gjaldeyrismálum, það ætti að drífa þetta af, þá mundi opnast fyrir lán en það gerðist ekki. Í vetur kom í ljós að þýska þingið gat tekið allan þann tíma sem það vildi til að fara vel og ítarlega yfir málið, en þetta vekur spurningar um upplýsingagjöfina frá ráðuneyti hæstv. ráðherra. Er eitthvað að í upplýsingaöfluninni? Af hverju var látið að því liggja að þetta tæki örskotsstund, þegar lá fyrir að ferlið væri miklu lengra? Voru ráðherrar kannski að tala gegn betri vitund? Eða var þetta bara einhver óskhyggja af hálfu hæstv. ráðherra?

Núna hafa borist fréttir um það að aðildarumsóknin verði jafnvel ekki á dagskrá. Hæstv. ráðherra gæti kannski svarað því núna í júní. Í skýrslunni er ekki talað skýrar en það að þetta liggi vonandi fyrir innan tíðar.

Utanríkisráðherra Spánar sagði nýlega, Spánn er með formennskuna núna, að hann teldi að í prinsippinu væri málið ekki erfitt. Við verðum að bíða, sagði hann, og sjá hvernig við myndum samstöðu um að koma málinu á dagskrá leiðtogafundarins. Þá spyr ég ráðherra: Stendur eitthvað í vegi fyrir þeirri samstöðu og hvað veldur þessari óvissu? Hefur utanríkisþjónustan aflað sér upplýsinga sem skýra þessi ummæli spænska ráðherrans um að það verði að sjá hvernig mynda eigi samstöðu um þetta allt saman?

Í andsvari áðan fórum við aðeins yfir kostnaðinn. Það hefur verið rætt. Mér og fleiri þingmönnum er mjög umhugað um að vita hvað þetta aðildarumsóknarferli kostar. Ekki bara vegna þess að við alþingismenn og þjóðin eigum skýran rétt á að fá að vita hvað þetta kostar, líka vegna þess að mér finnst ekki bráðliggja á þessu máli á meðan við erum að vinna að efnahagslegri endurreisn. Ég sé ekki að það að fara í 7 milljarða króna útgjöld sem hæstv. ráðherra neitaði ekki hérna áðan — er það milljarðurinn sem hæstv. ráðherra er alltaf að vísa til í kostnaðaráætluninni, en 6 milljarðarnir sem nefndir voru. Það hlýtur að vera að hæstv. ráðherra hafi gleymt mótframlaginu sem vikið er að á bls. 37 í hans eigin skýrslu, að það hljóti að vera skilyrði fyrir því að Evrópusambandið komi með sitt. Á blaðsíðunni á undan er líka talað um að það eigi eftir að setja reglur og meta það hvort Ísland falli yfir höfuð innan þessara — þau falla ekki innan þessarar reglugerðar núna, það þurfi að setja nýjar reglur. Hvað höfum við fyrir okkur í því? Það er kannski næsta spurning. Hvað höfum við fyrir okkur í því að Ísland verði samþykkt inn í ferlið? Þessarar spurningar vil ég spyrja hæstv. ráðherra.

Mikill kostnaður á eftir að falla vegna breytinga á stjórnkerfinu. Við höfum rætt það aðeins hér. Mig langar að spyrja vegna orða sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á mbl.is í mars, þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Eigum við ekki fyrst að afgreiða það hvort aðild verði samþykkt áður en ráðist verður í gríðarlega mikinn stofnkostnað og breytingar?“ spyr Jón í viðtalinu og bætir við: „Þetta er kostnaðarsamt og tímafrekt og ef af verður verður lagt í grundvallarbreytingar áður en skýr þjóðarvilji í þessum efnum liggur fyrir.“

Ég spyr: Er það rétt hjá landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og ef svo er um hve háar fjárhæðir er að ræða fyrir ríkissjóð? Og nú vil ég bara fá samtölurnar sem ég óskaði eftir áðan. Eða telur kannski hæstv. ráðherra að kollegi hans í ríkisstjórn sé ekki að tala á grundvelli raka, eins og hann ýjaði að í ræðu sinni hér áðan?

Varðandi forgangsröðunina í viðræðunum. Bæði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og hæstv. fjármálaráðherra létu að því liggja í umræðum hér í fyrrasumar að þeir vildu að farið yrði strax í stóru málaflokkana. Fyrst skoðaðir kaflar um sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál og ef í ljós kæmi að það steytti á þeim gætum við hætt og gengið frá verkefninu. Við sjáum það strax að þetta eru ákvæði sem við erum ekki tilbúin að gefa eftir og gætu ekki orðið einhvers konar skotsilfur í samningaviðræðum. Er hæstv. utanríkisráðherra sammála þessu? Er þetta eitthvað sem hefur verið rætt innan ríkisstjórnarinnar?

Virðulegi forseti. Tíminn hleypur áfram. Hæstv. ráðherra ræddi um grundvallarþáttinn í endurreisninni. Ég er þessu algerlega ósammála, þó ég sé sammála hæstv. ráðherra í því að við eigum að leitast við að uppfylla Maastricht-skilyrðin og eigum að gera það með skynsamlegum hætti, vegna þess að þau eru skynsamleg. Ég tel enga ástæða til þess að gera það með umsókn inniliggjandi.

Ég vildi líka koma aðeins að Icesave-málinu. Ég ætlaði aðeins að fjalla um það, en tíminn leyfir það ekki. Mig langar þó að spyrja hæstv. utanríkisráðherra, ég minnist þess að hann var með yfirlýsingar um það að hann ætlaði að óska eftir fundi með Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um Icesave-málið og leita eftir aðstoð Bandaríkjamanna í þeim efnum; hvað líður þeirri fundarbeiðni?

Síðan varðandi NATO, það var annað efni sem ég komst ekki yfir, hæstv. ráðherra sagðist nýta svo vel þá fundi og undirbúa (Forseti hringir.) vel fundi sem hann ætti á þeim vettvangi. (Forseti hringir.) Ég vil lýsa vonbrigðum mínum með það að hæstv. ráðherra hefur ekki séð ástæðu til að sækja tvo síðustu ráðherrafundi (Forseti hringir.) Atlantshafsbandalagsins og spyr hverju það sætir?



[14:10]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að ég óskaði eftir fundi með Hillary Clinton til þess að ræða stuðning Bandaríkjanna við okkur innan AGS. Sá stuðningur fékkst. Af fundinum sem settur var upp með mér og Hillary Clinton í tengslum við utanríkisráðherrafund ráðherra NATO í Eistlandi varð ekki. Eins og hv. þingmaður hefur kannski tekið eftir hafa verið annmarkar á flugi til og frá landinu og sú ferð féll niður út af því.

Varðandi það sem hv. þingmaður segir hér að ég hafi talað um hraðferð, er það ekki svo, ég hef aldrei notað þetta orð, alltaf sagt að við færum í gegnum þetta á grundvelli eigin verðleika. Ég hef aldrei talað um hraðferð, það hafa aðrir gert, aðallega leiðarahöfundur Morgunblaðsins .

Það er rétt hjá hv. þingmanni að ég taldi mikilvægt að við hæfum ferlið á meðan Svíar væru í forustu, það skipti máli eins og kom í ljós. Við komumst í gegnum fyrsta nálaraugað undir þeirra forustu .

Hv. þingmaður spyr um upplýsingaöflun og -gjöf af hálfu ráðuneytisins og nefnir þá annmarka sem komu upp vegna þýska þingsins. Þegar ég átti, í byrjun desember held ég, fund í Brussel með aðstoðarutanríkisráðherra Þjóðverja voru þeir ekki einu sinni klárir á því hvernig þetta mál mundi æxlast. Þá var nýfallinn úrskurður stjórnlagadómstólsins í Karlsruhe og menn vissu ekki alveg með hvaða hætti ætti að hantera það.

Hv. þingmaður spyr síðan hvort eitthvað gæti komið í veg fyrir að Ísland yrði tekið á dagskrá núna í júní. Ef hv. þingmaður hefði fylgst með fréttum vissi hún að hollenska þingið kemur saman þremur dögum áður en sá fundur verður haldinn. Það liggja fyrir þrjár tillögur frá fulltrúum tveggja mismunandi flokka um að hafna því að Ísland verði tekið fyrir fyrr en búið (Forseti hringir.) verður að ganga frá Icesave. En þetta ættu ekki að vera fréttir fyrir þingmanninn, því þetta hefur verið í fjölmiðlum.



[14:12]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Nei, frú forseti, hæstv. ráðherra var ekki að segja mér miklar fréttir um þetta. Ég óskaði eftir því að hann færi yfir það hverjar hann teldi líkurnar á því að þetta næðist fram í júní og ef ekki hvaða tímamörk hæstv. ráðherra er að tala um núna. Ég rakti hér áðan í ræðu minni að það væri mjög lítið kjöt á beinunum og yfirlýsingagleði hæstv. ráðherra hefur snarminnkað á einu ári.

Það er góð og gild skýring á fjarveru hæstv. ráðherra á leiðtogafundi að hann hafi ekki komist vegna goss. Ég spyr, vegna þess að ekki gaus í desember, hvað olli því að hann sótti ekki ráðherrafundinn þá?

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort Evrópusambandsumsóknin er að hans áliti grundvallarþáttur í endurreisn Íslands. Í ræðunni talaði hann mikið um evruna og að hún leiki stórt hlutverk. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað heldur hann að það tæki okkur Íslendinga mörg ár að taka upp evru? Heldur hæstv. ráðherra að við getum orðið aðilar að evrunni innan fárra ára? Eins spyr ég að því hvort hann telji líklegt að við uppfylltum Maastricht-skilyrðin innan fárra ára, hvaða áætlanir hefur hann í þeim efnum? Líka hvort menn geri sér grein fyrir því hvort t.d. Alþýðusambandið hafi kynnt fórnirnar fyrir sínu launafólki, hvað þyrfti að gera til þess að við uppfylltum þessi skilyrði? Hefur ríkisstjórnin og félagar, eða (Forseti hringir.) öllu heldur hæstv. ráðherra og félagi hans í Alþýðusambandinu, rætt þetta út frá hagsmunum verkalýðsins?



[14:14]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er örugglega rétt hjá hv. þingmanni, ég var ekki að segja henni neinar fréttir. Ástæðan er sú að hún hefur spurt allra þessara spurninga áður og ég hef svarað þeim öllum áður. Þannig er það nú bara. Hv. þingmaður hefur gaman af að endurtaka sig og ég hef gaman af að hlusta á hana.

Það var líka eftirtektarvert að milli andsvara virtist hv. þingmaður skipta um skoðun á því hversu eftirsóknarverð Maastricht-skilyrðin væru. Í fyrra andsvari sagði hún að það væri mjög jákvætt að reyna að fylgja þeim eftir og ná aganum sem þeim fylgdi. Í seinna andsvarinu taldi hún að það væru öll tormerki á því og að það hlytust af því vondar afleiðingar. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Að því er varðar síðan spurningar hennar um síðari NATO-fundinn – eftir rosknu minni minnir mig að það hafi verið krítísk staða í Icesave-málunum sem olli því að ég hætti á síðustu stundu við að fara þangað.

Hv. þingmaður varpaði til mín nokkrum fyrirspurnum um kostnað. Þeim hefur öllum verið svarað til hv. þingmanns; munnlega og skriflega. Það er líka að finna hér. Miðað við þær forsendur sem fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins gaf sér, 18 mánaða samningaviðræður, sem ég hef reyndar sagt við hv. þingmann að sé vanáætlað, gengur áætlunin. Hún er á áætlun núna. Miðað við kostnaðinn sem kynni að hljótast af ýmiss konar uppstokkun í stofnanastrúktúrnum er eftirfarandi að segja:

Í dag vitum við ekki hvernig þær stofnanir verða. Ég tel nokkuð úr lagi að ætla að það verði settur upp sá strúktúr sem kemur t.d. fram í áliti framkvæmdastjórnarinnar. Ég tel að það verði ekki. Ég get sagt hv. þingmanni að ég mun leitast við að stofnanirnar verði sem fæstar, kannski ein, kannski innan stofnunar sem nú þegar er til. Ég hef ástæðu til að ætla að við því verði ekki daufheyrst. Það verður bara að koma í ljós. Einungis þegar fyrir liggur um hvað verður samið er hægt að gefa nákvæman kostnað. Ég hef hins vegar (Forseti hringir.) ekki dregið dul á það við hv. þingmann (Forseti hringir.) að ég tel að sá kostnaður verði umtalsverður. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Ja, það kemur líka fram hérna.



[14:17]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir skýrslu hæstv. utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, og tel að fleiri ráðherrar mættu efna til umræðu með þessum hætti hér í þinginu. Það hefur reyndar gerst en ekki oft. Með efni í höndunum vill umræðan verða efnismeiri og afmarkaðri sem oft er þörf á. Mig langar sérstaklega að ræða um málefni norðurslóða og undirbúning aðildarviðræðna við Evrópusambandið hvað varðar upplýsingamál og koma inn á nokkur önnur atriði í efni skýrslunnar og í stefnu stjórnvalda, þá sérstaklega hvað varðar skóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi sem eru nokkrir eins og menn vita.

Í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra er kynnt stefnumarkandi framtíðarsýn um málefni norðurslóða, sem er bæði fróðleg og athyglisverð. Ég er þeirrar skoðunar og hef verið lengi að í stefnu um norðurslóðir og um málefni norðurslóða tvinnist saman öll helstu viðfangsefni okkar á sviði utanríkismála, þ.e. öryggismál, umhverfismál, mannréttindamál og svo þær breytingar sem verða við hlýnun lofthjúps og loftslagsbreytingar sem þegar eru hafnar í lofthjúpi jarðar. Ég sit í þingmannanefnd Norðurskautsráðsins og hef átt þess kost að kynna mér þessi mál þar og vil fagna því að hér er talað skýrt um mikilvægi norðurslóða í utanríkisstefnu Íslands. Ég vil hvetja hv. þingmenn til að kynna sér þetta rækilega. Ég hygg að þar sé að mörgu leyti verið að marka merkileg spor til framtíðar, sem eiga vonandi eftir að nýtast okkur vel í samskiptum við grannþjóðir á þessum slóðum og í því að hafa áhrif á málefni norðurslóða í náinni framtíð.

Það vakna líka spurningar við þennan lestur og um leið og ég tek undir öll þau tíu atriði sem talin eru upp í skýrslunni á bls. 15–16 er það auðvitað þannig að sum þeirra eru ekki bara undir frumkvæði okkar komin, þ.e. að úr þeim verði, heldur líka að önnur samstarfsríki á þessum slóðum líti málið sömu augum. Við höfum fengið nokkra reynslu af því á undanförnum missirum að samstarfsríki okkar líti ekki aðstæður og málefni sömu augum og við. Því vil ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort og hvar standi að í samskiptum við þau ríki sem hafa gert sig mest gildandi á norðurslóðum og haldið þessa fimm landa fundi sem nefndir hafa verið sé litið á Ísland sem fullgilt strandríki á norðurslóðum eins og segir á bls. 15 í skýrslunni. Eitt er að vilja fá þann status sem við teljum okkur bera og ég er fyllilega sammála að við eigum að leita eftir en annað er hvernig það síðan gengur í norðurslóða- og norðurskautssamstarfinu því að eins og dæmin sanna hafa fimm af þeim átta ríkjum sem eru í Norðurskautsráðinu fundað sérstaklega, m.a. án okkar.

Þetta er grundvöllur þess að geta gert sig gildandi í slíku samstarfi. Það má auðvitað gera með ýmsum öðrum hætti. Hvað varðar að stuðla að alþjóðlegum samningum um viðbúnað vegna eftirlits, björgunar og mengunarvarna þá er það t.d. mjög mikilvægur málaflokkur þar sem reynir á samstarf á milli umhverfis- og utanríkisráðuneytis og fleiri stofnana. Þar höfum við svo sannarlega margt gott til málanna að leggja. Ég tel að við eigum að gera það.

Í síðasta atriðinu sem nefnt er hér í skýrslu ráðherra, að styðja réttindi frumbyggja á svæðinu, vil ég segja það eitt að þeir síðustu verða oft fyrstir. Við megum ekki gleyma því að mannréttindi frumbyggja á þessum slóðum hafa til skamms tíma verið kerfisbundið brotin af yfirvöldum margra ríkja. Það er mjög mikilvægur þáttur í samstarfi um norðurslóðir að frumbyggjar séu ekki einvörðungu með áheyrnaraðild eða einhvers staðar í hliðarherbergjum heldur virkir gerendur í þessu samstarfi. Við eigum að styðja þá og samtök þeirra og styrkja til slíkrar þátttöku, hvort sem það eru inúítar í Kanada eða Samar í Noregi, Svíþjóð eða Finnlandi.

Fyrir liggur, frú forseti, hvar umsóknarferli Íslands að Evrópusambandinu stendur. Öllum þingmönnum er kunnugt um það og næstu skref sem stíga þarf eru vel útskýrð í skýrslunni. Í hv. utanríkismálanefnd hafa ásamt mér starfað þrír aðrir hv. þingmenn í svokölluðum upplýsingahópi sem hefur velt fyrir sér hvernig best sé að stuðla að góðri og hlutlausri upplýsingagjöf um Evrópusambandið, um stefnu þess, málefni, aðildarríki og allt það er varðar Evrópusambandið, framkvæmdastjórnina, Evrópuþingið og þar fram eftir götunum. Þeirri vinnu er ekki lokið en í samræðum okkar og á fundum með fulltrúum annarra þjóða, t.d. fulltrúum Möltu og Svíþjóðar og fleiri þjóða, hafa myndast ákveðnar hugmyndir um að það gæti reynst okkur vel og gagnlegt að Alþingi Íslendinga setti á fót upplýsingaveitu fyrir almenning og legði sig þar fram um að veita góðar, hnitmiðaðar upplýsingar og stuðla að málefnalegri umfjöllun. Það er hugsað þannig að hvert einasta mannsbarn á Íslandi gæti tekið upp símann, sent tölvupóst, bréf eða haft samband með öðrum hætti og fengið svör við tilteknum spurningum frá slíkri upplýsingaveitu sem mundi vinna sér inn traust með verkum sínum eins og vanalegt er. Þannig yrði til — ég vil nú ekki kalla þetta stofnun — ákveðið apparat sem væri sjálfstætt í starfsemi sinni og starfaði eftir ákveðnum reglum og umgjörð sem því væru sett á Alþingi Íslendinga.

Við höfum líka velt fyrir okkur mikilvægi þess að grasrótin, félagasamtök hvers konar, skólar, símenntunarmiðstöðvar og annað slíkt, gæti sótt um styrki úr einhvers konar fræðslusjóði og komið þannig að umræðunni og opnað meðal fólks um allt land. Þetta er mjög lausleg reifun á þeim hugmyndum sem helst voru ræddar í hópnum. Ég tek skýrt fram að hópurinn hefur ekki komist að niðurstöðu en væntanlega tekst okkur það á næstu dögum eða vikum.

Ég vil verja síðustu mínútunni af ræðunni minni í að minna hv. þingmenn á mikilvægi starfsemi skóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi. Ómetanlegt starf hefur verið unnið á síðustu árum og áratugum og nú bætist vonandi fjórði skólinn í hópinn. Það er Jafnréttisskólinn við Háskóla Íslands sem fór af stað í fyrra og er tilraunaverkefni. Ef hægt er að tala um einhver flaggskip í alþjóðasamstarfi Íslendinga eru Sjávarútvegsskólinn, Jarðhitaskólinn og núna nýi Landgræðsluskólinn og vonandi Jafnréttisskólinn einmitt dæmi um slíka faglega og góða starfsemi sem fer kannski ekki hátt en skilar miklum árangri til langs tíma um allan heim. Þannig á góð utanríkisstefna og gott alþjóðlegt samstarf að vera. Því vil ég rétt í blálokin hvetja hæstv. utanríkisráðherra að gera það sem (Forseti hringir.) í hans valdi stendur til þess að styðja að Jafnréttisskólinn (Forseti hringir.) komist á fót hér á landi.



[14:27]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Varðandi hið síðasta sem hv. þingmaður nefndi þá hef ég einmitt verið virkur í því að reyna að koma til landsins tveimur námsmönnum af Gaza, sem áttu að koma í Jafnréttisskólann en komust ekki. Það hef ég gert með því að reyna að ná tengslum við Hamas-samtökin sem stöðvuðu það.

Ég vil líka segja hv. þingmanni að ég er alveg sammála henni um það sem hún segir um háskóladeildirnar sem starfa hér og tengjast Sameinuðu þjóðunum. Ég hef mjög nýlega gert reka að því að sameina þær að þeirra eigin ósk í eina deild innan Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Það er nokkuð sem þau hafa barist fyrir árum saman og ég hef beitt mér fyrir og lokið núna.

Að öðru leyti tek ég undir það sem hv. þingmaður sagði um mikilvægi norðurslóða. Hv. þingmaður beindi til mín spurningu og spurði hvernig gengi að berjast gegn þessari áráttu strandríkjanna fimm að halda sérstaka fundi. Það gengur þokkalega. Ég hef mótmælt því og rætt það við aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna og ég átti fyrr í dag fund hér í húsinu með utanríkisráðherra Kanada sem hér er staddur á leið sinni á milli heimsálfa. Við áttum 30 mínútna fund þar sem þetta var rætt í þaula. Ég er sömuleiðis á leið til fundar til Kanada í júní til þess að ræða þetta mál sérstaklega, þannig að við beitum okkur í þessu máli. Ég tel að þetta sé eitt af því sem skiptir mjög miklu máli til langs tíma. Ég held að við þurfum að leggja fram skýra stefnu og láta finna hvað okkur finnst, gera það alls staðar. Það hefur áhrif. Dropinn holar steininn og eitt af því sem sá kanadíski stjórnmálamaður sem ég talaði við áðan sagði var að það væri alveg ljóst að menn vildu byggja eins þétt undir Norðurskautsráðið og hægt er. Það er lykillinn að þessu.



[14:29]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég held að það sé lykilatriði að styrkja Norðurskautsráðið eins og hv. ráðherra komst að orði og gleður mig að heyra að hæstv. utanríkisráðherra Kanada skyldi sjá sér fært að koma við hér og ræða þessi málefni við okkur. Það verður að fylgja því mjög fast eftir að þessi fimm ríki myndi ekki sérstakan hóp um málefni norðurslóða. Ég held að það sé mjög mikilvægt að láta í sér heyra hvar og hvenær sem er, eins og ég veit og treysti að hæstv. ráðherra geri. Þessu tengjast margvíslegir hagsmunir Íslands, hvort sem það er í öryggis- eða umhverfismálum, siglingamálum, björgunarmálum og þar fram eftir götunum eins og hefur verið komið inn á. Þetta eru líka þannig hagsmunir að Ísland og íslensk stjórnvöld geta tekið sér stöðu í málefnum norðurslóða í samstarfi Norðurlandanna og líka í samstarfi við Evrópusambandið og í samræðum við Evrópusambandið á næstu vikum og mánuðum og missirum. Við göngum þess auðvitað ekki dulin að innan Evrópusambandsins hefur verið vaxandi áhugi á málefnum norðurslóða og menn hafa verið að horfa meira þangað. Það þýðir að stjórnvöld hér þurfa að setja tíma, krafta og mannskap í þessa hagsmunagæslu eins og aðra. Mikið er rætt um að mannskap vanti en ég hygg að virkilega þurfi að vera með menn á vaktinni alla daga ársins. Það tengist auðvitað líka viðræðum okkar við Evrópusambandið.



[14:31]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál. Ég fagna þessari umræðu. Það er gott að taka stöðu á utanríkismálunum á þessum tímapunkti. Þau málefni sem ég hef mestan áhuga á að ræða í skýrslunni eru málefni sem tengjast aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu og aðildarferlinu sem er í fullum gangi í íslensku samfélagi, mest á bak við tjöldin. Þess vegna er mjög gott að fá tækifæri til að fara yfir stöðuna.

Að mínu mati hefur verið gert bjölluat í Brussel. Ég hef áður sagt opinberlega að ég tel það stóralvarlegt að senda inn aðildarumsókn að Evrópusambandinu án þess að hugur fylgi máli af hálfu a.m.k. stórs hluta þeirra þingmanna sem greiddu atkvæði með þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar. Ég tel að það sé slæmt fyrir orðspor Íslendinga og Íslands á alþjóðavettvangi og verst af öllu tel ég það vera fyrir þá Íslendinga sem hafa einhverja sannfæringu um að við eigum heima í Evrópusambandinu. Ég tel að rétt væri og besti kosturinn í stöðunni að draga aðildarumsóknina til baka og hætta þessari vegferð sem kostar allt of mikla peninga, allt of mikla orku af utanríkisráðuneyti og öllum ráðuneytunum í rauninni. Þá hefði íslenska stjórnsýslan tíma til að sinna betur þeim verkefnum sem bráð þörf er á að sinna í kjölfar efnahagshrunsins.

Mig langar jafnframt að fjalla um þátt stjórnmálahreyfingarinnar Vinstri grænna í málinu. Sú hreyfing fór fram í kosningabaráttunni með þá yfirlýstu stefnu að berjast gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þess vegna skýtur það mjög skökku við, eins og ég hef áður sagt, að þetta sé flokkurinn sem ber ábyrgð á því að aðildarferlið sé í gangi hér á landi. Ég einfaldlega skil ekki hvernig þingmenn þess flokks, sem greiddu atkvæði með tillögunni, geta horfst í augu við kjósendur sína. En það er þeirra mál og þeirra ábyrgð.

Fullyrt hefur verið að það sé allt í lagi að senda inn aðildarumsókn til þess að kanna og skoða hvað sé í pakkanum. En þannig virka hlutirnir einfaldlega ekki. Þegar maður sækir um aðild að Evrópusambandinu er það vegna þess að mann langar að fara þar inn. Það er að minnsta kosti það sem hinir háu herrar úti í Brussel búast við af þeim sem senda inn aðildarumsókn. Venjulega er það svo í þeim löndum sem hafa óskað eftir aðild, að þegar það er tilkynnt af hálfu Evrópusambandsins að til standi að fara í viðræður, þá brjótast yfirleitt út fagnaðarlæti á götum. Það var nú ekki hér á Íslandi. Ég sé það kannski best á því, hversu ólík staða okkar er miðað við þau lönd sem hafa sótt um aðild að undanförnu.

Það hefur jafnframt verið fullyrt að kostnaðurinn við umsóknina sé 1 milljarður. Síðast í morgun tilkynnti hæstv. utanríkisráðherra að það væri nettóhagnaður af aðildarumsókninni. Nettóhagnaður, vegna þess að Evrópusambandið mundi leggja 6 milljarða í púkkið. Þá gleymist að telja til aðra 6 milljarða sem íslenska ríkinu er ætlað að leggja á móti. Jafnframt gleymist að telja þann kostnað sem til fellur vegna glataðra tækifæra sem aðildarumsóknin hefur í för með sér. Þingmennirnir sem samþykktu tillöguna bera ábyrgð á þessum glötuðu tækifærum. Þar á meðal þingmenn Vinstri grænna. Menn geta ekki annað en horfst í augu við þetta.

Í skýrslu ráðherrans, á bls. 84 og 85, er fjallað um viðskiptasamninga og fríverslunarsamninga. Á bls. 85 er fjallað um fríverslunarviðræður milli Íslands og Kína sem hófust árið 2007. Eins og við vitum er öflugt hagkerfi í Kína og þeir höfðu mikinn áhuga á því að koma á fríverslunarsamningi við Ísland. Ísland hefur enn þá sjálfstæði að því leyti að hafa heimild til þess að gera sjálft svona samninga. Það verður ekki svo um leið og við erum gengin inn í Evrópusambandið. Þá er það Evrópusambandsins að semja.

Samningaviðræður við Kínverjana hafa verið í frosti frá því í apríl 2008 og ekki hefur fengist samþykki frá Kína til að hefja næstu samningalotu. Það kemur fram í skýrslunni. Það er auðvitað sjálfgefið. Til hvers ættu þeir að eyða tíma sínum í að tala við ríkisstjórn og land sem ætlar sér að fara inn í Evrópusambandið? Það þyrfti að mínu viti að meta hvaða afleiðingar aðildarumsóknin hefur haft á möguleika íslensku þjóðarinnar til þess að gera samninga sem þessa og hve miklar gjaldeyristekjur hafa tapast af þeim sökum. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að leiða þetta fram í dagsljósið. Það er ekki rétt að aðildarumsókn okkar dragi ekki dilk á eftir sér að þessu leyti.

Það er annað mál sem mig langar að taka upp og hefur sjálfsagt verið rætt í dag, það er varðandi gjaldmiðilinn. Ég veit ekki hversu oft ég hef komið upp í ræðustól til þess að reyna að leiðrétta þann misskilning sem fór af stað í fyrrasumar, að þegar við mundum sækja um aðild að Evrópusambandinu og ganga þar inn stæði evran okkur til boða. Það er einfaldlega ekki svo. Við þurfum að uppfylla Maastricht-skilyrðin. Það er gott og gilt að uppfylla þau. Þau eru heilbrigðisvottorð fyrir hagkerfið og efnahagslegt umhverfi þjóðar sem uppfyllir þau. Við gerum það ekki í dag og væntanlega eru nokkur ár í að við gerum það.

Af þeirri ástæðu er þegar ljóst að við tökum ekki upp evruna á næstu missirum. Þess vegna hef ég margoft hvatt menn til þess að hætta að tala niður íslenska gjaldmiðilinn. Það er stóralvarlegur hlutur að gera það og hefur margoft gerst og sérstaklega í þessum stól og í umræðunni sem átti sér stað um Evrópusambandið í fyrrasumar. Ég vil að menn hugsi út í það að menn bera ábyrgð á því að hér komist á stöðugt efnahagslíf að nýju. Leiðin til þess er ekki að tala niður gjaldmiðilinn.

Þriðja atriðið sem mig langar rétt að tæpa á, á þeim stutta tíma sem ég hef, er hvað verður Evrópusambandið í framtíðinni. Hvert er það að stefna? Hvað ætla menn sér með það? Í Evrópu hefur mikil umræða farið af stað í kjölfar efnahagsvandræða Grikkja og í kjölfar efnahagspakkans og björgunaraðgerða sem sambandið hefur ráðist í, til þess að reyna að draga upp efnahagslífið hjá þeim. Meðal annars hefur Angela Merkel sagt opinberlega í fjölmiðlum að eina leiðin til þess að ná einhverjum tökum á þeim óþekku smáríkjum sem gera hlutina eitthvað öðruvísi en Þjóðverjar vilja sé að herða reglurnar og breyta sáttmálum Evrópusambandsins þannig að þeir sem öllu ráða þar fái sterkari ítök til þess að grípa inn í efnahagslíf einstakra aðildarríkja.

Ég tel að enn og aftur sé verið að koma því á framfæri að sjálfstæði þjóðanna innan Evrópusambandsins muni minnka á komandi árum. Það er stefnan. Það er markmiðið. Það er markmiðið hjá stóru þjóðunum sem ráða mestu í Evrópusambandinu og það er algjörlega óumflýjanlegt að þannig líti framtíðin út. Ég tel einfaldlega ekki að slík framtíðarsýn sé það sem íslensk þjóð þarf á að halda í dag.

Vissulega eru erfiðleikar hér heima. Við vitum það öll. En við eigum einfaldlega að takast á við það sjálf, átta okkur á því að það kemur enginn til með að bjarga okkur. Við verðum að bjarga okkur sjálf. Það er gott að eiga góða granna, gott að fá aðstoð. En ég tel ekki boðlegt að láta stjórnartaumana að miklu leyti í hendur á öðrum aðilum en íslenskum stjórnvöldum. Það tel ég ekki vera lausn. Ég tel að þá sé einfaldlega verið að gefast upp á verkefninu og ég er einfaldlega ekki þannig gerð að það sé fyrsti kostur. Hins vegar virðist aðild að Evrópusambandinu vera meginstefna Samfylkingarinnar og af einhverjum undarlegum hvötum hafa þingmenn Vinstri grænna margir hverjir látið glepjast af því að ná völdum hér á landi gegn því að selja hugsjón sína í þessu efni. Það er mjög miður. Ég hafði mikla trú á því að Vinstri grænir mundu standa fast í lappirnar í þessu máli. Ég hafði mikla trú á því að það yrði samhljómur á milli ákveðinna flokka á þinginu í málinu. Þar á ég við Sjálfstæðisflokkinn og Vinstri græna. Sú er ekki raunin, því miður. Ég hvet þingheim enn og aftur til þess að íhuga hvort ekki væri rétt að sammælast um að taka málið aftur inn í þingið og draga aðildarumsóknina til baka.



[14:41]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst sem hv. þingmaður fari hættulega nærri því að lítilsvirða þingið þegar hún talar um að samþykktir þingsins séu einskis virði og séu bara grín. Hv. þingmaður hefur margoft gert nokkurt mál úr því að ekki er búið að ljúka fríverslunarsamningi við Kína. Nú er það svo að mörg önnur ríki eiga í viðræðum við Kína um fríverslun. Til dæmis hefur Ástralía átt í viðræðum við Kína síðan árið 2005 og eftir 13 lotur stendur allt fast. Norðmenn hafa ekki verið alveg jafnlengi og við í viðræðum við þá, en þeim er ekki lokið. Um ástæðu þess að ekki hefur orðið af samningi, þá kann vel að vera að umsókn okkar um aðild að Evrópusambandinu spili þar inn í. Kínverjar hafa gefið mismunandi ástæður. Þeir hafa nefnt jarðskjálftana sem urðu hjá þeim árið 2008. Þeir hafa sjálfir talað um hrunið og kreppuna. En það er í þremur málum sem allt stendur fast. Það er í fyrsta lagi krafa okkar um fullt tollfrelsi á sjávarafurðir án aðlögunar. Þeir vilja ekki fallast á það. Í öðru lagi, sem skiptir nú töluverðu máli fyrir Ísland, ekki síst núna, er krafa þeirra um tímabundinn aðgang kínversks vinnuafls. Þetta eru hlutir sem íslenskir stjórnmálamenn taka ekki opnum örmum. Það ætti hv. þingmaður að skilja, sérstaklega við núverandi aðstæður.

Ég hef ekki á reiðum höndum hve mikil viðskipti eru milli Íslands og Kína, en þau eru náttúrlega margfalt minni en milli Íslands og Evrópusambandsins. Hins vegar er þessar upplýsingar að finna í skýrslunni sem ég lagði fyrir áðan.



[14:43]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er hæstv. utanríkisráðherra þekktur orðhákur en ég sætti mig ekki við að hann leggi mér orð í munn. Ég hef aldrei sagt að samþykktir Alþingis Íslendinga séu eitthvert grín. Það hef ég aldrei sagt. Það er hins vegar algerlega ljóst að hugur fylgir ekki máli með aðildarumsókninni . Hæstv. utanríkisráðherra veit það. Þingmenn í Evrópu hafa margir hverjir komist að raun um þetta, þegar þeir hitta íslenska þingmenn, að það er ekki mikill vilji eða sannfæring hjá íslenskum þingmönnum fyrir því að ganga inn í Evrópusambandið. Þeir háu herrar í Brussel, þeir ágætu menn, eru einfaldlega ekki vanir því að lögð sé inn aðildarumsókn án þess að fullur hugur fylgi máli. Það er það sem ég er að segja. Ég hef aldrei sagt að samþykktir Alþingis séu eitthvert grín. Ég kann ekki við að hæstv. utanríkisráðherra, sá mikli mektarmaður, standi í ræðustól og leggi mér slík orð í munn.

Viðskipti okkar við Kína eru að sjálfsögðu minni en við Evrópusambandið, enda er sagan þar ekki til staðar og fríverslunarsamningur liggur ekki fyrir. Hins vegar eru tækifærin þar gríðarleg, tækifæri sem við erum nú að glutra úr höndunum vegna stefnu stjórnvalda um að leggja inn aðildarumsókn að Evrópusambandinu og sýna þar með umheiminum að það sé vilji ríkisstjórnarinnar að ganga inn í Evrópusambandið, þótt viljinn sé ekki til staðar. Hann er vissulega til staðar hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar, en ég hef nú ekki séð hann hjá mörgum öðrum hv. þingmönnum, hvorki í þessari umræðu né heldur í fyrrasumar. Ég upplifi það hins vegar að sjá hæstv. forsætisráðherra draga hv. þingmenn Vinstri grænna fram á pall, til þess að reyna að þvinga þá til að skipta um skoðun rétt fyrir atkvæðagreiðslu. (Forseti hringir.) Það tel ég ekki vera til fyrirmyndar.



[14:45]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er svo heppin að hvorki hún, flokkur hennar, né utanríkisráðherra lifir eftir skoðanakönnunum, sem betur fer. Ef svo væri væri líf okkar töluvert erfitt á stundum og sérstaklega í flokki hv. þingmanns.

Fylgir hugur máli hjá þjóðum sem sækja um? Eiga menn að meta það út frá skoðanakönnunum? Árið 1970 voru 18% Breta fylgjandi aðild að Evrópusambandinu, 1972 voru þeir komnir inn. Í þann mund sem Svíar sóttu um aðild að Evrópusambandinu var fylgið minna en það mældist þegar lægst var á Íslandi í kjölfar Icesave-málsins, eða 28%. Hér á Íslandi hefur yfirleitt verið meirihlutafylgi við Evrópusambandið, ef menn eru að pæla í skoðanakönnunum, þar til kannski í síðustu könnunum — eftir að Icesave-lotan dundi yfir hefur það hrapað, það á sér skiljanlegar ástæður. Það er fráleitt að ætla að hlaupa eftir slíku og hætta við umsókn um aðild að Evrópusambandinu. (Forseti hringir.)

Af hverju fylgi ég aðild? Af því að ég tel að það sé best fyrir atvinnulíf, fjölskyldur og fyrirtæki.



[14:47]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Áðan var verið að gera mér upp skoðanir og nú er það smjörklípuaðferðin, að fara að tala um einhverjar skoðanakannanir hér í pontu. Ég hef ekki minnst einu orði á skoðanakannanir, hef ekki minnst einu orði á það hvernig fylgið hefur sveiflast upp og niður varðandi þessa aðildarumsókn. Ég er einfaldlega að tala um þingviljann, vilja þingmanna hér í Alþingi, hvernig þeir rökstuddu afstöðu sína í sumar með því, sumir hverjir, að tala gegn Evrópusambandsaðild í atkvæðaskýringu og lýsa því svo yfir að þeir styddu þessa umsókn, haldandi að þetta væru einhvers konar könnunarviðræður, gerandi sér ekki grein fyrir því að úti í Brussel eru menn einfaldlega ekki vanir slíkum hringlandahætti. Þar sækja þjóðir einfaldlega um ef þær vilja fara inn, ef þingvilji er fyrir því.

Við höfum sagt það, sjálfstæðismenn, að ef breið sátt væri um það eða breiður þingvilji fyrir því að sækja um aðild væri rétt að gera það. Sú er hins vegar ekki staðan og þess vegna erum við ekki að vinna af heilindum í þessu máli og þess vegna er þetta ekki íslensku þjóðinni til framdráttar (Forseti hringir.) á erlendum vettvangi.



[14:48]
Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Við deilum skoðunum í Evrópusambandsmálinu. Það væri munur ef allir þingmenn væru jafnskorinorðir og hv. þingmaður.

Hv. þingmaður kom inn á ábyrgð Vinstri grænna í þessari umsókn. (Gripið fram í.) Það var ekki með mínu atkvæði sem það var gert en vissulega greiddu þingmenn Vinstri grænna þessu atkvæði. Jafnframt kom hv. þingmaður inn á að þetta hefðu verið einhvers konar, eða svo mátti skilja, pólitísk hrossakaup. Þá langar mig aðeins að vitna til þess að í hennar flokki voru ritaðar greinar, m.a. af hv. þm. Bjarna Benediktssyni, sem bentu til þess að menn væru farnir að gæla við Evrópusambandsaðild. Jafnvel þingmaður eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson var farinn að gæla við þetta á sínum tíma.

Í morgun hélt Bjarni Benediktsson, hv. formaður Sjálfstæðisflokksins, ræðu hér sem fjallaði um þessi mál. Mér fannst hann ekki taka jafnsterkt til orða og hv. síðasti ræðumaður gerði. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hún telji rétt að draga umsóknina til baka og hvort hún telji að það mundi njóta stuðnings í flokki hennar.



[14:49]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Það er gott að eiga skoðanabræður í öðrum flokkum og ég tel að það sé til fyrirmyndar hvernig okkur, nýjum þingmönnum, hefur gengið að feta inn á sameiginlegar brautir í sumum málum.

Sumir flokkanna eru vissulega stórir og í þeim er fólk sem hefur ólíkar skoðanir, það þekkjum við öll sem hér störfum. Ég tel mikilvægast af öllu að flokkar hafi skýra stefnu og skýra sýn, sérstaklega í þessu stóra máli. Ég hef barist fyrir því innan míns flokks, og ég valdi mér það að starfa innan flokks að þeim hugðarefnum sem ég vil koma á framfæri, að línan sé algjörlega skýr í þessu máli. Ég hef gert það og ég kem til með að gera það áfram. Ég tel gríðarlega mikilvægt að við ræðum þessi mál reglulega á vettvangi allra flokka, líka á vettvangi Samfylkingarinnar, þar sem þó virðist vera algjör einstefna í málinu.

Ég kannast við flokk sem var í ríkisstjórnarsamstarfi við Samfylkinguna. Ég kannast við að Samfylkingin reyndi að leggja Sjálfstæðisflokknum línur um það að fara að skipta um skoðun í Evrópusambandsmálum. Sjálfstæðisflokkurinn fór aftur yfir Evrópusambandsmálin í janúarmánuði fyrir rúmu ári. Þar komumst við að þeirri niðurstöðu að hagsmunum Íslands væri best borgið fyrir utan Evrópusambandið. Það er sú stefna sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur. Það eru þau markmið sem ég er að vinna að, bæði utan og innan þings. Ég hef svo sannarlega sannfæringu fyrir því að ef lögð yrði fram þingsályktunartillaga um að draga Evrópusambandsumsóknina til baka mundu þingmenn Sjálfstæðisflokksins vinna á grundvelli stefnu Sjálfstæðisflokksins.



[14:52]
Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég vil þakka fyrir þetta. Ég kannast lítillega við það að reynt hafi verið, mjög fínlega þó, að hafa áhrif á skoðanir manna í ESB-málinu. (Gripið fram í.) Það var ekki reynt með mig nema kannski fyrstu tvo til þrjá dagana, eftir það hefur lítið verið reynt í þeim efnum.

Ég fagna því að hv. þingmaður mundi styðja slíka þingsályktunartillögu ef hún kæmi fram en mér leikur hugur á að vita hvort hv. þingmaður telji að þeir þingmenn sem voru komnir með þennan ESB-neista, í þessum hrossakaupamöguleikum, séu nú tilbúnir til að stöðva þessa umsókn, eða hvort þeir séu enn á sömu buxunum hvað þetta snertir.



[14:53]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt ég hefði svarað þessari spurningu hér áðan. Ég tel að þingmenn Sjálfstæðisflokksins komi til með að fara eftir landsfundarsamþykktum og þar með stefnu flokksins þegar slík tillaga verður lögð fram. Ég tel það. En um nánari úttekt á því hvað hver og einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins mundi gera varðandi einhverja slíka útfærslu verður hv. þingmaður einfaldlega að spyrja þá hina sömu að því.

Mig langar síðan, af því þingmaðurinn er ungur og hefur sýnt að hann er ákveðinn, (Utanrrh.: Og fallegur.) að segja honum — og fallegur að mati hæstv. utanríkisráðherra, hann hefur greinilega ágætan smekk fyrir karlmönnum — að það er líf eftir samstarf við Samfylkinguna. Við sjálfstæðismenn vitum það. Þetta er hægt en það er snöggtum skárra ef maður hefur staðið á sannfæringu sinni og unnið eftir gildum síns flokks. (Gripið fram í.) Ég tel að það sé gott fyrir hv. þingmenn Vinstri grænna að fá að heyra þessa reynslusögu frá aðila sem tengist flokki (Forseti hringir.) sem hefur verið í samstarfi við Samfylkinguna. Gangi ykkur vel. (Forseti hringir.)



[14:54]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spurði að því hvernig mönnum liði með það að hafa gengið á bak orða sinna gagnvart kjósendum og var þar að vísa til þeirra þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem greiddu atkvæði með umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Ég get ítrekað það sem ég hef sagt áður hér, ég hef aldrei haldið því fram neins staðar þar sem ég hef komið, hvorki í ræðu né riti, að ég mundi ekki styðja slíka tillögu. Ég hef aldrei sagt það. Ég hef hins vegar sagt að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan Evrópusambandsins en ég tel líka að þegar Alþingi hefur tekið þessa ákvörðun, að fara í þetta ferli, eigum við að ljúka því. Ég tel að það sé mikið lýðræðismál að þjóðin fái að kveða upp úr um það hvað hún vill gera í þessu. Ef menn kæmu hér t.d. með þingsályktunartillögu um að draga umsóknina til baka væri það, að mínu viti, bakslag fyrir lýðræðið í landinu. Þá væri verið að koma í veg fyrir að þjóðin fengi á upplýstum grunni að taka ákvörðun um framtíð sína, um örlög sín í þessu máli til langrar framtíðar. Ég mundi ekki styðja slíka tillögu, svo að það sé sagt hér, ég mundi ekki gera það, ég mundi ekki mæla með því að slík tillaga kæmi fram. Ég held líka að það mundi leiða til þess að menn færu að spyrja sig: Bíddu, hvað vill þetta Ísland eiginlega í utanríkis- og alþjóðamálum yfirleitt? Er ekkert mark á því takandi? Ég held því að menn verði að spyrja sig ýmissa grundvallarspurninga í þessu efni.

Af því þingmaðurinn ræddi svolítið um afstöðu síns flokks þá er það alveg ljóst að innan Sjálfstæðisflokksins, eins og í ýmsum öðrum flokkum, eru skiptar skoðanir um nálgunina í þessu máli og reyndar ekki bara um nálgunina heldur um grundvallaratriði. Hv. þingmaður veit að þannig er það líka í Sjálfstæðisflokknum og það vitum við. Við skulum því ræða þessa hluti eins og þeir eru. Það eru skiptar skoðanir í flestum stjórnmálaflokkum um þetta mál og skoðanir mega vera skiptar, hvort sem flokkar eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, það er ekkert óheilbrigt í því efni.



[14:56]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og ég ber virðingu fyrir skoðunum hans. Hann hefur margoft haldið því til haga hér í umræðunni að hann hafi í kosningabaráttu sinni, þar sem hann kom, getið þess að hann vildi hugsanlega fara aðra leið en flokkslína VG var, alla vega í kosningabaráttunni í Suðurkjördæmi. Hv. þingmaður býr ekki við þann munað að vera þingmaður Suðurkjördæmis eins og ég og fleiri góðir menn.

Hv. þingmaður minntist á það hér að ef við mundum draga umsóknina til baka færu menn að velta því fyrir sér hvert Ísland væri að stefna og hvað það vildi eiginlega. En það er einfaldlega það sem menn eru að velta fyrir sér. Þingmenn annarra þjóðþinga í Evrópu sem hafa hitt hv. þingmenn hér á landi og fundið þann anda sem fylgir aðildarumsókn og aðildarferli sem nú er hafið hér á Íslandi gagnvart Evrópusambandinu eru mjög hugsi yfir því hvað í ósköpunum við höfum verið að senda þetta bréf út til Evrópu þegar við höfum einfaldlega, að því er þeim finnst, afskaplega lítinn áhuga á því að fylgja þessu máli eftir. Það væru þá helst hv. þingmenn Samfylkingarinnar sem hafa einhverja sannfæringu í þessu máli. Þannig að það er einfaldlega staðan. Menn eru mjög hugsi úti í Evrópu. Ég hef ítrekað það enn og aftur að væri ég aðildarsinni, væri ég fylgjandi því að ganga inn í Evrópusambandið, væri ég alveg bálreið yfir þessu ferli og yfir því hvernig málum er háttað. Ég tel þetta ekki gott fyrir íslenska hagsmuni, hvort sem maður er á móti aðild eða með aðild. Þetta er einfaldlega — já, við höfum margoft sagt það — bjölluat og það er aldrei vinsælt að standa í slíku. Ég tel að hv. þingmaður ætti einfaldlega að koma í lið með mér og leggja fram þingsályktunartillögu með mér um að draga þetta til baka, það væri farsælast.

En að lokum ein spurning til hv. þingmanns: Vill hv. þingmaður að Ísland gangi í Evrópusambandið? (Forseti hringir.)



[14:58]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú er það ég sem er að veita andsvar við ræðu þingmannsins þannig að það er mitt að bera fram spurningar og setja fram sjónarmið við ræðu hv. þingmanns. Það sem ég vil segja við hv. þingmann er þetta:

Það er rétt hjá hv. þingmanni að við höfum átt marga fundi með fulltrúum annarra þjóðþinga, þingmönnum frá ýmsum aðildarríkjum Evrópusambandsins, frá Evrópuþinginu, og við höfum skýrt þá pólitísku stöðu sem hér er uppi. Hún er ekki óþekkt í ríkjum Evrópusambandsins. Hún var t.d. uppi í ýmsum Eystrasaltsríkjum áður en þau ákváðu að sækja um aðild og á öðrum Norðurlöndum sem sótt hafa um aðild o.s.frv. Þetta er þekkt. Ég hef átt fundi með fulltrúum annarra stjórnmálaflokka hér á þingi, m.a. fulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa t.d. verið hv. þm. Bjarni Benediktsson, stundum hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og stundum hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir og mér er ekki alveg ljóst hvort þau hafa verið að tala fyrir sömu stjórnmálastefnunni eða fyrir sama stjórnmálaflokkinn.



[14:59]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég biðst forláts á því að hafa dembt spurningu á hv. þingmann. Það er einfaldlega allt of freistandi þegar maður kemst í návígi við virðulega þingmenn eins og formann utanríkisnefndar að demba eins og einni grundvallarspurningu með í púkkið.

Vissulega eru skoðanir ólíkar í stórum flokkum, við þekkjum það bæði. En hins vegar verður fólk á endanum að tala skýrt og ég tel mig tala mjög skýrt í Evrópumálunum. Ég tel að við eigum að draga aðildarumsóknina til baka. Ég tel það ferli sem við erum komin í ekki hagstætt íslenskum hagsmunum. Ég tel einfaldlega að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess. Ég tel að varla sé hægt að orða þetta mikið skýrar. Ég vonast alla vega til að það hafi eftir þetta andsvar fullkomlega komist til skila.



[15:00]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir gagnmerka skýrslu og tæpa á nokkrum atriðum sem lúta að málum tengdum henni. Miðað við þróun heimsmála frá lokum kalda stríðsins er ljóst að tilgangur og tilvist NATO, þess merka bandalags, hefur breyst og er ef til vill orðin að engu miðað við upprunalegar hugmyndir. Ljóst er að NATO hefur hins vegar ekki tekið á þessari tilvistarspurningu af neinni alvöru, enda um ríka hagsmuni að ræða, hvort sem er til að geta viðhaldið ógn við önnur lönd vegna stærðarinnar og hernaðarmáttarins, eða vegna langvarandi samkrulls sem alla tíð hefur viðgengist milli hergagnaiðnaðarins og stjórnmála. Fyrrum forseti Bandaríkjanna, Dwight Eisenhower, varaði m.a. sterklega við þessu á sínum tíma, þegar Bandaríkin breyttust í viðvarandi herveldi með risaher eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar.

Því er brýnt að endurskoða aðkomu og jafnvel aðild Íslands að NATO, með tilliti til þess að NATO heyr nú stríð í Afganistan, sem er að mínu viti ekki mjög nálægt Atlantshafinu og ekki heldur Evrópu. Engar aðildarþjóðir NATO hafa orðið fyrir árás frá Afganistan. Því verðum við að velta upp spurningunni um hvert framhaldið eigi að vera. Hver á aðild Íslands að vera í NATO, ef einhver? Munu Íslendingar með aðild sinni að NATO taka þátt í styrjöldum hvar sem er og hvenær sem er? Með NATO-aðildinni felst óbeinn stuðningur við allar aðgerðir Atlantshafsbandalagsins, nema Íslendingar beiti þar því neitunarvaldi sem þeir hafa. Það höfum við aldrei gert.

Ég tel sjálfur að aðild Íslands að NATO hafi sennilega verið farsæl ákvörðun, þótt ákvörðunin um hana hafi verið keyrð í gegnum þingið með grímulausu ofbeldi, m.a. hér fyrir utan þinghúsið. En tímarnir breytast. Nú þarf að svara því, frú forseti, hversu langt eigi að teygja sig, nú þegar tilveruréttur NATO er í raun ekki lengur fyrir hendi með sama hætti og hann var. Menn virðast forðast þessa spurningu eins og heitan eldinn. Hæstv. ráðherra talaði um að fram undan væri endurskoðun á utanríkisstefnu Íslands og væri fróðlegt að vita hvað verður í henni um þetta?

Annað atriði sem ég vildi tæpa á er umsóknin um Evrópusambandið og afstaða Hreyfingarinnar í því máli. Það sem við höfum heyrt í dag er hin gamalkunna orðræða þar sem menn karpa, með eða á móti, án þess að vita nákvæmlega hver niðurstaðan verður. Tilgangurinn með aðildarumsókninni var einmitt sá að skera úr um það, og gera þjóðinni kleift að greiða um það atkvæði, hvað aðild að Evrópusambandinu raunverulega þýddi. Það er búið að karpa um það í 10–20 ár hvað það muni hugsanlega þýða, en menn hafa í rauninni ekki hugmynd um það.

Eins og mál réðust síðastliðið vor kom í ljós við umfjöllun í þinginu um Evrópusambandsaðildina að í leynimöppu fjármálaráðherra hjá nefndasviði voru skýr ákvæði um að aðild Íslands að Evrópusambandinu tengdist lausn Icesave-málsins. Þetta voru atriði sem ríkisstjórnin hafði ekki upplýst þingið um. Vegna þessa töldum við þrjú, þingmenn Hreyfingarinnar eða Borgarahreyfingarinnar sem þá hét, að þetta væri tækifæri sem þyrfti að nota til þess að vekja rækilega athygli þingheims og almennings á tengingunni, enda um mjög mikilvægt mál að ræða. Vegur Icesave-málsins hefur síðan verið slíkur að það er augljóst að þetta leynimakk ríkisstjórnarinnar hefur stórskaðað Icesave-málið og orðspor Íslands. Upprunalega vorum við fylgjandi því að aðildarumsóknin færi í gegn, en hún fór í gegn án þess að búið væri að upplýsa þingið eða almenning um alla þætti málsins, og það fannst okkur rangt.

ESB-ferlið, eins og það liggur fyrir núna, finnst mér ekki óskynsamlegt. Ég er sammála hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni um að menn eigi ekki að bindast alfarið á flokksjálka með skoðanir sínar og það sé einfaldlega heilbrigt lýðræði að innan flokka greini menn á um mikilvæg mál, og hvers kyns mál. Það þarf ekkert endilega að vera full samstaða í öllum stjórnmálaflokkum um aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Vegferð Evrópusambandsmálsins held ég að sé ekki slæm.

Hæstv. ráðherra minntist í ræðu sinni á glugga sem gæti verið að opnast í Icesave-málinu. Mikilvægi þess að Icesave-málið sé unnið í samvinnu allra flokka á þingi er gríðarlegt. Það má ekki hlaupa upp til handa og fóta út af einhverjum óljósum glugga sem kannski hefur opnast. Nú vil ég inna hæstv. ráðherra eftir því hver þessi gluggi er og af hverju hann hefur opnast og hversu lengi menn verða með opinn gluggann. Kannski fram á haust þegar kólnar eða vetrar? Við skulum nefnilega muna að ef það er eitthvað sem hefur valdið Íslandi tjóni í Icesave-málinu er það asinn á því þegar það hefur farið í gegnum þingið.

Meginvandinn við lausn Icesave-deilunnar á Íslandi hefur verið vanhæfni formanna Samfylkingar og Vinstri grænna til þess að vinna markvisst af heilindum með öllum flokkum á þingi í málinu. Ábyrgðin á því hvernig fór skrifast alfarið á hæstv. forsætis- og fjármálaráðherra. Það var ekki fyrr en það var unnið í samráði við alla flokka að upphæðin náðist niður, á tveimur dögum held ég, um 80 milljarða. Það er nú ansi gott tímakaup.

Ég vil því nota tækifærið og skora á hæstv. utanríkisráðherra að taka frumkvæðið í Icesave-málinu héðan í frá og leysa hæstv. forsætis- og fjármálaráðherra úr sjálfheldunni sem þau hafa komið sér í. Ég sé fyrir mér þverpólitískan hóp með hæstv. utanríkisráðherra, formönnum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, fulltrúa Hreyfingarinnar og svo t.d. hv. þm. Lilju Mósesdóttur, sem er hagfræðingur og hefur mjög mikla reynslu af alþjóðastarfi. Að starfinu mættu líka koma ráðuneytisstjórar og færustu sérfræðingar, svo sem Lee Buchheit og fleiri. Þannig væri hægt að ná samstöðu um Icesave-málið á faglegum forsendum, en ekki út frá þessu endalausa pólitíska hjólfarakjaftæði.

Virðulegur forseti. Ég er nýkominn frá Suður-Afríku þar sem ég sat ráðstefnu á vegum OECD um skuldastýringu ríkissjóða Afríkuríkja. Ef einhvers staðar er ævistarfi að sinna er það þar. Þar hitti ég m.a. fulltrúa frá systurflokki Hreyfingarinnar, sem eru mjög stór og öflug samtök í Suður-Afríku. Þar, eins og á öðrum ráðstefnum af líku tagi sem ég sæki stundum, er ég venjulega spurður að því hvaða breytingar sé búið að gera á stjórnkerfi og stjórnsýslu á Íslandi, og um lýðræðisumbætur síðan í hruninu. Því miður verður fátt um svör. Að einu og hálfu ári liðnu frá hruninu er enn fátt um svör. Ekki hefur verið komið fram með neinar gagngerar breytingar á stjórnsýslunni eða stjórnkerfinu eða neinar lýðræðisumbætur. Þau mál sem liggja í þinginu eða í nefndum þess eru meira og minna einhvers konar froða sem er fyrst og fremst sett fram til þess að hæstv. forsætisráðherra geti hakað við 100-mála listann sinn. Innihald þeirra mála er rýrt. Þessu þurfum við að breyta ef við ætlum einhvern tímann að ná aftur orðspori okkar á alþjóðavettvangi. Það er mjög mikilvægt að Ísland geti sagt jákvæða sögu á alþjóðavettvangi. Það er því miður ekki útlit fyrir að forusta ríkisstjórnarinnar geri sér grein fyrir hversu mikilvægt þetta er. Það er heldur ekkert sem bendir til þess að Alþingi, sem nú situr, geti sinnt þessu mikilvæga atriði.

Því vil ég að lokum hvetja hæstv. utanríkisráðherra til að beita sér frekar innan ríkisstjórnarflokkanna fyrir því að þessum mikilvægu málum verði betur sinnt. Gerðar verði gagngerar umbætur á stjórnkerfinu og stjórnsýslunni og lýðræðisumbætur sem skipta máli. Þá geta Íslendingar sem fara utan, hvort sem er á vegum þingsins eða annars, lýst því yfir á alþjóðavettvangi að verið sé að gera þær raunverulegu breytingar sem þarf til þess að koma í veg fyrir að hrunið sem varð hér fyrir hálfu öðru ári endurtaki sig ekki.



[15:09]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum skýrslu hæstv. utanríkisráðherra hæstv. um utanríkis- og alþjóðamál. Ég er mjög ánægður og þakklátur fyrir að hún hafi komið fram. Ég ætla að ræða aðallega þrjú atriði. Þar af hanga tvö saman: AGS, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, og Icesave, og svo aðildarumsóknin að Evrópusambandinu. Síðan ætla ég að koma inn á hefðbundin utanríkismál.

Mér finnst vanta sterkara orðalag í skýrslunni um að það að við skyldum neyðast til að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi verið misnotað til þess að kúga Íslendinga. Það hefur vantað að forráðamenn þjóðarinnar segi þjóð sinni: Við erum að vinna í nauð. Allt ferlið er nauðungarsamningur. Það finnst mér vanta illilega. Það kemur hvergi fram í skýrslunni.

Í skýrslunni er víða getið um Icesave og stendur hér á síðu 4, með leyfi frú forseta:

„Síðast en ekki síst hefur Icesave-málið reynst erfitt, sem og óheppilegar tilraunir til að tengja það við framkvæmd efnahagsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“

Þetta er afskaplega veikt. Eitthvað „óheppilegt“, já. Þetta er hreinlega kúgun og það á að standa þarna.

Hér stendur að hæstv. utanríkisráðherra hafi átt fundi með Dominique Strauss-Kahn, aðalframkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, til að ræða þessi mál og fara yfir framgang mála og fleira, og stöðuna í Icesave-málinu. Það kemur ekki fram að hann hafi lagt að framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hætti þessari kúgun sem íslensk þjóð er beitt. (Gripið fram í.)

Eftir að þjóðin, góðu heilli, og forsetinn, felldi lögin úr gildi átti hæstv. utanríkisráðherra fund með Bretum og Hollendingum í Haag 29. janúar. Hann gerði ýmislegt og ræddi við og átti 70 fundi með erlendum ráðherrum, sem er fínt. En það kemur ekki fram að hann hafi lagt að þeim og bent þeim á að Íslendingar eru kúgaðir til þess að semja og að þeir eigi ekki að borga þetta. Það held ég að sé niðurstaða flestra þeirra sem skoða málið í hörgul.

Svo segir í skýrslunni að utanríkisþjónustan hafi nýst til að skýra sjónarmið Íslands í Icesave-málinu. Ég vil nú segja, frú forseti, að ég er ekki sammála þessu. Maður horfði og hlustaði með forundran á yfirlýsingar erlendra fjölmiðla um að Íslendingar ætluðu sko ekki að borga neitt. Þetta væri þjóð sem nennti ekki að standa við skuldbindingar sínar. Í alþjóðapressunni var enginn upplýstur. Ef einhver gerði það, frú forseti, voru það erlendir einstaklingar, sem hreinlega blöskraði hversu mikið var gengið á rétt Íslendinga. Financial Times á heiður skilið fyrir það hvernig þeir tóku upp málstað Íslendinga. Utanríkisþjónustan var ekki á þeim buxunum að upplýsa fjölmiðla heims um málið. Hæstv. forsætisráðherra Íslands fer til Evrópu að tala við æðsta mann Evrópusambandsins, skildist mér, og neitar að tala við fjölmiðla. Alveg með ólíkindum.

Þótt ég sé ekki mjög hrifinn af forseta Íslands og hafi ekki verið í gegnum tíðina þá dáðist ég að því hvernig hann stóð vörð um hagsmuni Íslands og kynnti stöðu Íslands og hagsmuni gagnvart erlendum fjölmiðlum. Hann vann kraftaverk, frú forseti, ég fullyrði það. Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, vann kraftaverk í því að upplýsa erlenda fjölmiðla um stöðu Íslands og afstöðu, sem utanríkisþjónustan gerði ekki. Það er ekki orð í skýrslunni um hlutverk forsetans í því að upplýsa fjölmiðla heimsins. Hann stóð sig alveg frábærlega vel. Átti ég nú ekki von á því, frú forseti, að ég mundi standa í pontu Alþingis og mæra hæstvirtan forseta lýðveldisins.

Svo ætla ég að nefna Evrópusambandið. Auðvitað er þetta grínumsókn. Flestir sem styðja málið á Alþingi segja að sjálfsagt sé að kíkja í nammipokann og sjá hvað er í honum. En svo ætla þeir ekki að ganga inn, nei, nei. Ég hef ekki heyrt marga Vinstri græna lýsa því yfir að þeir ætli að ganga inn. Áðan fór hv. formaður utanríkismálanefndar lipurlega í kringum það. Það væri ekki verið að spyrja hann, hann ætti að spyrja. Því liggur ekki enn fyrir hvort hann vilji að Ísland sé aðili að Evrópusambandinu. Það væri ágætt að það kæmi fram hvort formaður hv. utanríkismálanefndar vilji að Ísland sé hluti af Evrópusambandinu, því þangað stefnum við. Eða er ekkert að marka þetta? Það er nefnilega málið.

Kattasmölunin á Alþingi — ríkisstjórnin — Jón Bjarnason, hann er á móti því að ganga í Evrópusambandið. Hæstv. ráðherra Svandís Svavarsdóttir er á móti því að ganga í Evrópusambandið. Hún lýsti því yfir í atkvæðisskýringu en sagði svo já. Hvurslags er þetta eiginlega? Álfheiður Ingadóttir, vill hún ganga í Evrópusambandið? Það væri nú gaman að fá það alveg á hreint. Nú, eða Katrín Jakobsdóttir, vill hún ganga í Evrópusambandið? Þetta liggur ekkert fyrir. Það liggur ekki einu sinni fyrir innan hæstv. ríkisstjórnar hvort fólk vill ganga í Evrópusambandið, hvað þá innan Alþingis. Svo er ekki minnst á að stjórnarskráin bannar þetta, að ganga í Evrópusambandið. Það er ekki minnst á þingsályktun Alþingis í umsókninni eða að Alþingi hafi samþykkt þetta mjög naumt.

Formaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, sagði í morgun í svari við andsvari að þjóðaratkvæðagreiðsla væri bindandi. Þekkir hv. þingmaður ekki stjórnarskrána? Það stendur í henni að hver einasti þingmaður eigi að fara að sannfæringu sinni. Og heldur hv. þingmaður (Gripið fram í.) að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason muni samþykkja aðild að Evrópusambandinu ef 51% þjóðarinnar samþykkir það? Heldur hv. þingmaður það? (Gripið fram í.) Heldur hv. þingmaður (Gripið fram í.) að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir (Gripið fram í.) greiði atkvæði gegn aðild ef þjóðin er búin að fella það með 51%? Þessi bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla er ekki bindandi. Að óbreyttri stjórnarskrá, sem við allir hv. þingmenn höfum svarið eið að, verður það Alþingi, sem þá hefur verið kosið, sem tekur um það ákvörðun. Það er þannig. Þar fer hver þingmaður eftir sannfæringu sinni. Ef hv. þm. Ásmundur Einar Daðason vill ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið segir hann nei, þótt þjóðin hafi með 51% meiri hluta sagt já.

Menn eru hreinlega að villa um fyrir Evrópusambandinu og kjósendum á Íslandi. Þessi atkvæðagreiðsla hefur ekkert að segja.

Ég ætla ekki að tala um landbúnaðinn, sjávarútveg og auðlindir eða þá mannauðinn sem mun leita til Brussel. Ég ætla ekki að tala um það, en það er líka mjög mikilvægt. Ég tel það vera mikilvægast, ekki vandamálið með landbúnað eða sjávarútveg.

Svo er það evran. Það stendur reyndar ekki í skýrslunni en ráðherrann féll í þá gildru enn einu sinni að tala um að vextir muni lækka, verðtryggingin muni falla burt, verðlag muni lækka og við tökum upp evru nánast — ja, einhvern tímann. Fyrst þurfum við nú að uppfylla Maastricht-skilyrðin. Og verðtryggingin, hún er ekki leyst. Maður sem á skuldabréf sem er verðtryggt til 40 ára og útgefið af íslenska ríkinu mun krefjast þess að fá verðtryggingu ofan á evru. Að sjálfsögðu, nema hvað, frú forseti? Eignarrétturinn er tryggður. Þetta er allt saman óleyst. Svo tala menn hér eins og verðtryggingin hverfi bara. Ég er alveg gáttaður á þessu.

Svo er það kostnaðurinn. Hv. þm. Jón Bjarnason sagði í Morgunblaðinu 9. apríl:

„Ég efast um að landsmenn hafi áttað sig á því að framkvæmdastjórn ESB gerir kröfu um grundvallarbreytingu á laga- og stofnanaumhverfi okkar til að greiða fyrir aðild áður en þjóðin hefur kveðið upp sinn dóm.“

Á þá bara að borga og breyta öllu kerfinu? Þetta sagði Jón Bjarnason, ég las orðrétt eftir honum.

Í skýrslunni er talað um samninga við Kína og menn eru alveg hissa á því að Kínverjar vilji ekki semja við okkur. Það er nefnilega þannig að Kínverjar átta sig á því að þeir sem ætla að ganga inn í Evrópusambandið semja ekki við aðrar þjóðir. Það er Evrópusambandið sem semur fyrir þá. Þetta vita Kínverjar, en hæstv. utanríkisráðherra virðist ekki vita það. Hann sækir óskilyrt um aðild að Evrópusambandinu og Kínverjar hafa lesið það. Þá vita þeir að það þýðir ekkert að tala við þann mann. „Hann ætlar að ganga í Evrópusambandið, þá semur hann ekki við okkur.“



[15:19]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var nú svolítið skemmtileg ræða hjá hv. þm. Pétri Blöndal. Hann var farinn að syngja hérna heyrðist mér, kominn í samkeppni við hv. þm. Árna Johnsen, sem söng hér á sínum tíma.

Ég vil gjarnan spyrja hv. þm. Pétur Blöndal, af því ég tel hann vera lýðræðissinna og stærðfræðing líka, hann hugsar oft í rökréttum ferlum, því ég á svo erfitt með að átta mig á röksemdafærslunni að vera andsnúinn því að þjóðin fái að kveða upp úr um hvað henni finnst. Nú er Alþingi búið að samþykkja aðildarviðræður og sækja um aðild. Þegar niðurstaðan kemur á þjóðin að kveða upp úr um hana. Hér eru taldir upp nokkrir þingmenn VG hvað þeir vilja hist og her. Er ekki aðalatriðið hvað þjóðin vill? Getur fólk ekki sagt (Forseti hringir.) að það vilji fara að þjóðarvilja?



[15:21]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér vannst ekki tími til að lesa eða finna í stjórnarskránni ákvæðið um að þingmenn skuli eingöngu fara að sannfæringu sinni. Alþingi er kosið eftir að þjóðin hefur greitt atkvæði og þá eiga þingmenn að taka ákvörðun, frú forseti, eftir sannfæringu sinni, alveg óháð því hvað kjósendur þeirra vilja. Ég er mjög hlynntur því að þjóðin greiði atkvæði, en það þarf að gilda það sem þjóðin tekur ákvörðun um. Þannig að ef hún tekur ákvörðun um eitt eða annað hafi það einhverjar afleiðingar. Það er ekkert sem tryggir það núna að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla hafi einhverjar afleiðingar vegna þess að hverjum einasta þingmanni sem kosinn er á þing, ber að fara að eigin sannfæringu. Ég var að reyna að koma því að.

Trúa menn því að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason muni greiða atkvæði með því að ganga í Evrópusambandið af því þjóðin var nýbúin að samþykkja það með einhverjum naumum meiri hluta? Trúa menn því virkilega? Halda menn að sannfæringin hans sé einskis virði? (Forseti hringir.)



[15:22]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég trúi því að hv. þm. Pétur Blöndal vilji að þjóðin greiði atkvæði og meini þar með að fara eigi að þjóðarvilja, þannig að meiri hluti þjóðarinnar eigi að ráða. Það hlýtur að vera grundvallaratriði að þingmenn í þessu máli vilji fara að þjóðarvilja, virði niðurstöðu þjóðarinnar. Ég átta mig illa á því hvert hv. þingmaður er að fara. Þingmenn munu auðvitað greiða atkvæði í þessu máli eins og aðrir og leggja þar með sitt lóð á vogarskálarnar, en síðan hljóta þingmenn og flokkar að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Er ekki mjög ólíklegt að þingmenn gangi í berhögg við þjóðarvilja? Mér finnst einhvern veginn liggja í augum uppi að alþingismenn virði niðurstöður í þjóðaratkvæðagreiðslu.



[15:23]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Til þess hefði þurft að breyta stjórnarskránni fyrst, sérstaklega 79. gr., um breytingu á stjórnarskránni. Til þess hefði þurft að taka burt ákvæðið í 48. gr. sem segir svo, með leyfi frú forseta, af því menn hafa greinilega ekki lesið það:

„Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“ — né flokkum, ég bætti því við, né úrslitum úr þjóðaratkvæðagreiðslu.



[15:24]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði í ræðu sinni að ég hefði sagt að þjóðaratkvæðagreiðslan væri bindandi þegar þar að kæmi. Ég sagði ekkert um það mál og ég skora á hv. þingmann að finna því stað þegar hann fær ræðu mína útprentaða, því ég sagði ekki neitt um það. Mér er alveg ljóst hvaða lögformlega stöðu þjóðaratkvæðagreiðsla hefur, m.a. í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar þar sem fjallað var ítarlega um þessa tillögu.

Varðandi sannfæringuna sem hv. þingmaður talar um, þá getur hún verið flókið fyrirbæri. Sannfæring manna getur verið í ýmsar áttir og stundum skarast hlutirnir. Ég hef þá sannfæringu og ég vil upplýsa hv. þingmann um það, að það sé mikilvægt og rétt að ljúka viðræðuferlinu sem nú er hafið og bera niðurstöðuna síðan undir dóm kjósenda. Það er líka sannfæring mín að þjóðin eigi að ráða niðurstöðunni í þessu máli. Það er mikilvægt fyrir mig sem þingmann að virða þann vilja sem út úr því (Forseti hringir.) kemur. Það er sannfæring mín að svoleiðis eigi að standa að málum.



[15:25]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í svari hv. þingmanns við andsvari Sivjar Friðleifsdóttur í morgun sagði hann að þjóðin ætti að fara í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég heyrði það þannig og ég ætla að prenta það út þegar það liggur fyrir og koma því til hv. þingmanns. Sannfæring er dálítið undarlegt fyrirbæri. Spurning mín til hv. þingmanns er sú: Er það sannfæring hans að það sé gott að íslenska þjóðin fari inn í Evrópusambandið og verði hluti af því, hreppur í þessu stóra sambandi, ef þjóðin ákveður það fyrir hann? Er hans sannfæring háð niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu? Breytist hún? Sveiflast hún á einum degi frá því að vilja ganga í Evrópusambandið í það að vilja ekki ganga í Evrópusambandið, eða öfugt, eftir því hver niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni er?

Frú forseti. Ég gef ekki — ja, ég segi ekki meira.



[15:26]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú er ég í andsvari við hv. þingmann og minni hann á ákvæði 56. gr. þingskaparlaga sem fjallar um andsvör.

Það sem ég ætla að segja enn og aftur um sannfæringu er það að ég hef þá sannfæringu, já, og ætla að ítreka það að mér finnst mikilvægt að ferlinu sem nú er hafið ljúki. Af hverju? Vegna þess að ég vil að þeir kostir sem þjóðin stendur frammi fyrir þegar þar að kemur séu skýrir. Að hvor niðurstaðan sem verður ofan á af hálfu þjóðarinnar verði góð í þágu íslenskra hagsmuna til framtíðar. Það er sannfæring mín að þjóðin eigi að ráða þessu máli til lykta. Það er t.d. í samræmi við þá stefnu sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur markað á landsfundi sínum, að þjóðin eigi að ráða þessu máli. Ég tel mig vinna í samræmi við hana og sannfæring mín er líka í þessa veru.



[15:27]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þá vitum við það. Það er ekki spurningin um það hvort sé gott fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið eða ekki, það er ekki spurningin um það hvort Íslandi vegni vel innan Evrópusambandsins eða betur utan þess, það eru úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem ráða sannfæringu, að mér skilst, heils flokks. (Gripið fram í.)

Sannfæringin breytist um leið og niðurstaðan liggur fyrir, búið að telja upp úr kjörkössunum, þá er sannfæringin þessi en ekki einhver önnur. Það getur vel verið að einhverjir þingmenn Vinstri grænna geri athugasemdir við svona sannfæringu.



[15:28]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétri H. Blöndal verður mjög tíðrætt um það hvernig hv. þingmenn VG gætu staðið að umsóknarferli og taldi upp nöfn einstakra þingmanna. Ég vil minna hv. þingmann og þingheim á að stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er óbreytt. Við teljum að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins. Aftur á móti eru skiptar skoðanir innan okkar hreyfingar eins og allra annarra um þetta stóra mál og einnig um leiðir til að nálgast þessa niðurstöðu. Það hefur orðið ofan á að leggja inn umsókn og að þjóðin muni svo með þjóðaratkvæðagreiðslu greiða atkvæði um aðild eða ekki. Sjálf er ég sannfærð um að við sem erum andstæðingar inngöngu í Evrópusambandið eigum ekki að óttast niðurstöðuna.



[15:29]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður segir, ef ég skil hann rétt og ég vona að ég hafi skilið hann rétt, að hann telji það vera sannfæringu sína að Ísland eigi ekki að vera aðili að Evrópusambandinu. Ég ætla að ég hafi skilið það rétt. Ef hv. þingmaður fer að 48. gr. stjórnarskrárinnar greiðir hann atkvæði í samræmi við sannfæringu sína. Segjum nú að þjóðin greiddi atkvæði með aðild og niðurstaðan í kosningunum yrði sú að það yrði samþykkt að ganga í Evrópusambandið, vegna þess að Evrópusambandið setur kannski 500 milljónir í áróður og annað slíkt eða 1.000 milljónir eða hvað það nú er og fær fólk til að kaupa það að það eigi að ganga í Evrópusambandið. Ætlar þá hv. þingmaður að standa upp á Alþingi og greiða atkvæði með aðild gegn sannfæringu sinni? Þarf ekki að taka 48. gr. út úr stjórnarskránni áður, breyta sem sagt stjórnarskránni fyrst?



[15:30]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum valið þá leið að leggja málið í dóm þjóðarinnar hvenær sem það verður, á hvaða stigi sem það verður. Ég tel aftur á móti farsælt fyrir okkur að skoða þá kafla sem eru okkur hvað erfiðastir, sem eru landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál. Að þeim umræðum loknum er rétt að meta hver staðan er og leggja í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er ekki skoðun allra. Við erum komin inn í þetta ferli. Ég tel að ferlið sé okkur erfitt á þessum tíma en úr því að við erum kominn inn í það tel ég að við eigum að halda áfram og úr því sem komið er verði málið alltaf að enda í þjóðaratkvæðagreiðslu, annaðhvort eftir þessa tvo erfiðustu kafla eða þegar ferlinu er alfarið lokið. Við getum ekki hætt (Forseti hringir.) í miðju kafi núna.



[15:31]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alveg fallist á þetta, að við höfum þjóðaratkvæðagreiðslu sem hafi áhrif, en til þess þurfum við að breyta stjórnarskránni. Við verðum að breyta stjórnarskránni fyrst vegna þess að annars verður kosið um málið hér á Alþingi þar sem menn verða að fara að sannfæringu sinni. Ég væri alveg til í að þjóðin tæki ein ákvörðun og Alþingi fjallaði ekkert meira um það. Sjálfstæðisflokkurinn lagði meira að segja til að það yrði gert þannig, það yrði kannað, þjóðin látin kjósa um hvort hún vildi yfirleitt ganga í Evrópusambandið. Síðan þegar búið væri að samþykkja það þá ætti að kjósa aftur, en það þarf þá að hafa stoð í stjórnarskránni. Það er geysimikil ákvörðun að ganga í Evrópusambandið. Það þarf fullveldisframsal o.s.frv. Það þarf að breyta stjórnarskránni. (Gripið fram í: Það verður gert.) Það verður gert eftir kosningar og í þeim kosningum verða kjörnir þingmenn sem fara að sannfæringu sinni því að stjórnarskráin verður þá enn í gildi. Ég sé enga lausn á þessu, frú forseti, nema breyta stjórnarskránni fyrst.



[15:33]
Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kom nú aðallega hingað upp af því að hv. þingmanni varð tíðrætt um sannfæringu þess sem hér stendur og fór inn á þjóðaratkvæðagreiðslur og annað sem því tengist. Ég hef áður sagt í þessum ræðustól að ég muni ekki greiða atkvæði með því að Ísland gangi í Evrópusambandið, hvort heldur þjóðin hafni því eður ei, því að samkvæmt stjórnarskránni ber hverjum og einum þingmanni að fylgja sannfæringu sinni í þessu máli. Það mun ég gera. Þess vegna studdi ég m.a. að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort þjóðin ætti að sækja um aðild eða ekki. Ég held að það hafi nú komið berlega í ljós, til að mynda í gögnum frá utanríkisráðuneytinu, að þessar aðildarviðræður fela í sér að við þurfum að ráðast í grundvallarbreytingar á okkar kerfi, lagakerfi og stofnanakerfi, áður en samningaköflum er lokið þannig að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla verður einnig marklaus af þeim sökum af því að það er ekki svo að við séum að fá samning á borðið og síðan verði kosið um hann.



[15:34]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að hv. þingmaður fyrirgefi mér það þó að ég hafi notað sannfæringu hans hérna aftur og aftur en ég tel að hún sé mjög föst og traust og hægt sé að stóla á hana, að hann muni ekki hvika frá þeirri sannfæringu jafnvel þó að þjóðin kjósi einhvern veginn öðruvísi, að hún breytist ekki við það að talið sé upp úr kjörkössum.

Mér finnst hv. þingmaður einmitt styðja að þjóðaratkvæðagreiðslan eins og hún er sett á svið núna er marklaus. Til þess þarf að breyta stjórnarskránni.



[15:35]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir góða yfirferð yfir stöðu í utanríkismálum okkar. Mig langar að gera hér að umtalsefni, og fagna því sem hann talaði um, að það þyrfti að vinna að nýrri öryggisstefnu fyrir Ísland. Ég held að það sé alveg hárrétt og ég er algjörlega sammála hæstv. ráðherra í því að tímabært sé að við förum yfir öryggismálin. Það hafa orðið hér gríðarmiklar breytingar frá því að varnarliðið fór af landinu og við njótum ekki nærveru þess lengur. Við gerðum varnarsamning við Bandaríkin en eftir það hafa orðið vatnaskil í þessum málum.

Fyrir ekki löngu var unnin áhættumatsskýrsla af faghópi fyrir utanríkisráðuneytið sem hefur verið birt og hún er í raun góður grundvöllur til þess að hefja slíka vinnu. Í henni kemur fram sú staðhæfing, sem ég held að sé alveg rétt, að engin hernaðarleg ógn í nútímanum eða nærtímanum steðji að okkur þó að það geti auðvitað breyst í áranna rás og það verði að vera grundvöllur þess hvernig við horfum til framtíðar. Það er mín skoðun að slík stefna í öryggismálum eigi að fara fram í samvinnu við vinaþjóðir okkar innan NATO. Ég tel enga ástæða til að endurskoða veru okkar í NATO eins og kom fram hjá hv. þm. Þór Saari áðan heldur eigi þetta að fara fram á þeim vettvangi.

Það er alveg ljóst að bandalagsþjóðir okkar hafa m.a. horft til þess að öryggishugtakið er miklu víðtækara en það var. Það fjallar um öryggismál í víðara samhengi og tekur ekki lengur eingöngu til hernaðarlegra ógna. Við eigum samleið á miklu breiðari vettvangi innan NATO eftir að farið er að horfa á málin frá þeim vinkli.

Áherslur innan NATO á borgaralegum verkefnum hafa aukist, sérstaklega í öryggismálum. Þess er skemmst að minnast að fyrir nokkrum árum komu hingað meira að segja hermenn úr fastaliði NATO til þess að þjálfa og læra grundvallaratriði í rústabjörgun hér á landi. Á þeim tíma sem Persaflóastríðið var í aðsigi stóð fyrir dyrum að einn af fastaflotum NATO kæmi hingað og flytti hermenn í land á ákveðnu tímabili til þess að hljóta ákveðna grunnþjálfun í rústabjörgun og björgun fólks við slíkar aðstæður. Við höfum mikið fram að færa eins og hæstv. ráðherra kom inn á í ræðu sinni og höfum sýnt það á alþjóðavettvangi að við eigum fullt erindi í slíka vinnu.

Ég held að þegar stefnan var mótuð með vinaþjóðum okkar eftir að varnarliðið fór, sem fólst í að taka yfir rekstur íslenska ratsjárkerfisins og stofnun Varnarmálastofnunar og loftrýmiseftirlitið, hafi í raun verið of skammur tími liðinn til þess að við gætum mótað okkur einhverja stefnu til framtíðar á þeim tíma. Ég hef talað gegn þessum áherslum eins og lagt var upp með. Loftrýmiseftirlitið kostar hundruð milljóna ef ekki milljarða. Hvort sem þeir peningar eru nú greiddir úr vasa okkar Íslendinga að hluta til eða ekki þá kostar þetta klárlega heilmikið fjármagn og mætti verja því fé miklu betur. Það þarf að fara að nýju yfir áhersluþættina með vinaþjóðum okkar. Við þurfum að meta hvort þeir geti komið til aðstoðar á þessu svæði í víðtækara öryggishlutverki en þetta loftrýmiseftirlit tekur til. Þá vitna ég til þess að það gæti komið sér betur fyrir öryggismál á svæðinu, bæði hernaðarleg og borgaraleg, að hér væru t.d. herskip á ákveðnum tímum eða varðskip á einhverjum hafsvæðum sem væru búin þyrlum og gætu þannig átt gott samspil við þyrlusveit okkar og Landhelgisgæslu okkar, alveg eins og Landhelgisgæslan á gott samstarf um slíkt við Dani.

Ég er einnig hlynntur því að starfsemi Varnarmálastofnunar verði endurskoðuð. Ég held að hægt sé að gera þetta með öðrum hætti. Það er ljóst að í þeim efnum er eftirlit og ákvarðanataka um allt viðbragð annars staðar en hér á landi. Greiningar á boðum sem koma fara fram hér en allar ákvarðanir eru teknar annars staðar. Skýrslur sem taka á þessu hafa verið lagðar fram og sýna að hægt sé að gera þetta með einfaldari og ódýrari hætti og sjálfsagt að skoða hvort þetta eigi ekki samleið með rekstri annarra stofnana okkar á þessu sviði eins og Landhelgisgæslu og jafnvel ríkislögreglustjóra.

Annað sem komið er inn á er það skipulag sem við höfum komið á í málum innan lands varðandi öryggismál og hefur Björgunarmiðstöðin í Skógarhlíð verið til mikillar gæfu í þeim málum. Hugmyndirnar sem koma fram í nýlegri skýrslu vinnuhóps um að leggja niður Varnarmálastofnun fela í sér ákveðna hættu á því að samstarfið sem þar er molni ef hugmyndirnar verða að veruleika. Til þessa þarf að horfa sérstaklega vegna þess að það má ekki verða. Björgunarmiðstöðin í Skógarhlíð hefur sannað gildi sitt og alveg sérstaklega á þeim erfiðu tímum sem verið hafa í vetur þar sem miklar náttúruhamfarir hafa dunið á okkur og fyrirkomulag í raun reynst ágætlega. Auðvitað erum við að vinna úr þeirri reynslu sem fæst og verður sú reynsla okkur mikilvæg í framtíðinni. Hún treystir enn þá skoðun að þetta eigi að vera með þessu fyrirkomulagi þar sem allir viðbragðsaðilar sameinast um eina stjórnstöð og eina samræmingarstöð með yfirsýn yfir alla hluti.

Mig langar aðeins í lokin að koma inn á atvinnumálin sem hæstv. ráðherra ræddi aðeins um í skýrslu sinni og tækifærin sem þar liggja. Undanfarið höfum við í hv. iðnaðarnefnd þingsins átt fundi með opinberum aðilum um hvaða tækifæri liggja á borðinu og það er ótrúlegur fjöldi fyrirtækja sem maður heyrir af í viðræðum við þessa aðila sem líta hingað varðandi atvinnuuppbyggingu. Höftin gagnvart því liggja fyrst og fremst á ríkisstjórnarborðinu. Það er auðvitað óþolandi hvernig staðið er að þessum málum í okkar samfélagi. Tækifærin eru fyrir framan okkur en við vinnum ekki úr þeim. Því verður að breyta. Ég notaði hér, virðulegi forseti, orðið „skemmdarverk“ í þessari viku í því sambandi og ég stend við að þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til eða aðgerðaleysinu sem ríkir sé ekki hægt að líkja við neitt annað.

Það sama er búið að gerast í sjávarútvegsmálunum þó að ég geri mér nú vonir um að það sé að leysast. Menn eru farnir að átta sig á því að þessi svokallaða fyrningarstefna sé leið sem gangi ekki upp. Ég held að þetta verði stóra málið sem muni ráða ferð þegar við tökum ákvörðun um hvort við göngum til aðildar við Evrópusambandið eða ekki. Það hefði verið gott að fá nánari skýringu frá Samfylkingunni á því hvaða markmið þeir mundu vilja setja í slíkum viðræðum gagnvart sjávarútvegsmálum, hvort t.d. við ættum að fara algjörlega að skilmálum alþjóðahafréttarsáttmálans sem væri út af fyrir sig ásættanlegt fyrir okkur ef við næðum slíkri niðurstöðu. En sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins eins og hún er nú er algjörlega óviðunandi og við munum aldrei geta gengið inn og gerst aðilar að Evrópusambandinu meðan sú stefna er þar við lýði. (Forseti hringir.)



[15:45]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þessa skýrslu um utanríkis- og alþjóðamál. Ég ætla að einbeita mér hér að einum fleti sem skýrslan tekur á, nefnilega myntbandalagi Evrópu og samhenginu við umsóknaraðildina sem samþykkt var með svipuhöggum og járnaglamri í herbúðum stjórnarsinna, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson benti svo hnyttilega á í fyrrasumar.

Í aðdraganda atkvæðagreiðslu um aðildarumsókn að ESB síðasta sumar sagði ég að eitthvað vantaði upp á rök fyrir umsókninni. Ég benti á að sumir þingmenn blekktu sjálfa sig til stuðnings ályktuninni með því að telja sér trú um að ESB mundi sópa undir teppi sitt þeim kostnaði sem leiddi af því að samþykkja ómögulega, risavaxna Icesave-skuldbindingu. Jafnframt benti ég á að það væri ranghugmynd að halda því fram að Íslandi væri betur borgið innan ESB við þær aðstæður sem sköpuðust um mitt ár 2007 á fjármálamörkuðum heimsins. Þá hafa margir talið sér trú um að myntsamstarfið mundi leiða til langþráðs stöðugleika í íslensku efnahagslífi og því ætti að ganga til aðildarviðræðna og í kjölfarið að samþykkja samninginn og fá aðild að myntsamstarfinu.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði í ræðu hér fyrr í dag að við inngöngu mundi vaxtakostnaður lækka sem næmi tugum milljarða á ári og nefndi einhverja útreikninga í því sambandi, verðtrygging yrði aflögð og erlendar fjárfestingar mundu aukast til muna, og horfði sérstaklega til Möltu í því sambandi. Allar þessar röksemdir standast því miður mjög illa skoðun. Förum nú yfir þessar röksemdafærslur lið fyrir lið og byrjum á því að ESB muni sjá um Icesave-skuldbindinguna. (Utanrrh.: Ég sagði það aldrei.)

Hæstv. utanríkisráðherra sagði það aldrei, það er gott að vita það enda gaf ég það engan veginn í skyn. Ég vil halda því fram að þetta sé villuljós. Það sést best á meðferð ESB á Grikkjum. Það er ljóst að Grikkir höguðu fjármálastjórninni hjá sér á þann hátt að þeir lentu í stórkostlegum vandræðum sem ekki sér fyrir endann á. Margir voru þeirrar skoðunar að Evrópusambandið mundi koma þeim til hjálpar nær fyrirvaralaust og skilyrðislaust en það var mikill misskilningur. Við höfum séð núna undanfarnar vikur og jafnvel mánuði þann farsa sem átt hefur sér stað innan Evrópusambandsins þar sem ríki ESB með Þýskaland í fararbroddi hafa neyðst inn í einhvers konar björgunaráætlun sem alls óvíst er að muni duga. Við höfum séð blóðsúthellingar, ég vil kalla það jafnvel aftökur, í Grikklandi út af þessu. Svo illa fellur almenningi í Grikklandi við þá afarkosti sem Grikkjum eru settir. Á þennan mælikvarða er Ísland margfalt betur sett með sína krónu en nokkurn tímann Grikkir með sína evru.

Þá hefur röksemdafærslan um að ESB sé gott skjól fyrir óvænta hnykki í fjármálakerfinu. Við höfum séð reynslu Grikkja eins og ég nefndi áðan. Við höfum séð reynslu Íra. Það sem er að gerast í Portúgal, það sem er að gerast á Spáni, Ítalíu og annars staðar bendir allt í þá átt að þetta sé ekki rétt. Það er ljóst að Þjóðverjar eru þeir sem bera mesta kostnaðinn af öllum ríkjum Evrópusambandsins á alls konar samræmdum björgunaraðgerðum og það er ljóst að almenningur í Þýskalandi er mjög mótfallinn því að bera þennan kostnað.

Við sáum núna úrslitin í kosningum í Nordrhein-Westfalen í Þýskalandi, hvernig þetta mál, þ.e. björgunaraðgerðirnar fyrir Grikki, hafði áhrif á innanríkismálin í Þýskalandi. Það eru hugaðir stjórnmálamenn sem standa fyrir slíkum björgunaraðgerðum í framtíðinni. Það er ljóst að Evrópusambandið hefur að nokkru leyti brugðist við þessu með því að stofna björgunarsjóð. Þessi björgunarsjóður er nákvæmlega sama marki brenndur og einskiptisaðgerðir eins og björgunaraðgerðin gagnvart Grikklandi, kjósendur munu ekki vera sáttir við þetta til lengdar.

Varðandi stöðugleika í kjölfar aðildar er það vissulega rétt að það fylgir stöðugleiki í kjölfar fastgengis en sá stöðugleiki getur orðið svo mikill að hann ríði ríkjum að fullu eins og við sjáum núna t.d. í Grikklandi. Það er mun sársaukaminni aðgerð að lækka gengi gjaldmiðla eins og íslensku krónunnar á sínum tíma en að fara út í innri gengisfellingar sem fela í sér niðurskurð, samdrátt í launum og annað slíkt sem þarf til þess að takast á við hnykki. Vissulega er stöðugleiki í gjaldmiðlinum en hann kemur fram sem óstöðugleiki annars staðar, t.d. á vinnumarkaði.

Þá er nefnt betra fjármálaumhverfi, að erlendar fjárfestingar muni aukast, eins og hæstv. utanríkisráðherra benti hér á áðan og tók Möltu sem dæmi. En eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir benti á var Malta utan Evrópska efnahagssvæðisins, utan fjórfrelsisins þegar hún gekk í ESB. Fyrirstaðan við erlendar fjárfestingar á Íslandi er ekki nein önnur en sú sem samstarfsflokkur Samfylkingarinnar í ríkisstjórn stendur fyrir, fyrirstaðan er innan stjórnmálanna hér.

Vextir lækka. Það er gaman að upplýsa um að orkufyrirtækin fengu lán sem eru með langt innan við 100 punkta álag. Til samanburðar fær Grikkland nú lán með 300–700 punkta álagi. Sú röksemdafærsla að vextir lækki stenst ekki. Vextir taka mið af þeirri áhættu sem er í einstökum ríkjum.

Varðandi það að verðtryggingin hverfi getur hún haldið hér áfram þrátt fyrir að við göngum í myntsamstarfið. Það er líka rétt að benda á að verðtrygging er ekki vandamál í sjálfu sér. Hækkun lána vegna verðtryggingar er afleiðing af hagstjórn þannig að það er einfaldur popúlismi að segja að verðtrygging verði afnumin.

En hver er hin raunverulega framtíð myntbandalagsins? Nú eru uppi háværar raddir um að til að halda lífinu í bandalaginu þurfi að samræma fjármálastjórnina innan Evrópusambandsins og um leið pólitíkina því að skattar og útgjöld eru jú ákvörðuð á vettvangi stjórnmálanna. Í gær benti Paul Volcker, fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna, á þetta og í fyrradag Mervyn King, seðlabankastjóri Breta. Er þetta vegferð sem við erum tilbúin til þess að leggja í? Eða er þetta draumurinn um samfylkingu sósíaldemókrata í sambandsríkinu Evrópu? Það minnir óneitanlega á „Öreigar allra landa sameinist , ekki satt, hæstv. utanríkisráðherra?



[15:54]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er nú helsti gallinn á Evrópusambandinu í mínum augum, að því er stýrt af hægri flokkum Evrópu.

Mér þótti ræða hv. þingmanns athyglisverð, ég hafði beðið eftir henni því að hér í dag hafa ýmsir talað af hálfu Sjálfstæðisflokksins sem hafa haft heldur léttvæg rök gegn Evrópusambandsaðild, svo sem varðandi kostnað upp á einn milljarð, stofnanastrúktúr og uppstokkun, það eru einu rökin sem hafa komið fram. Hér hafa fáir talað um sjávarútveg eða um fullveldi og enginn um evruna og gjaldmiðilinn fyrr en hv. þingmaður núna.

Ég er algerlega ósammála öllu því sem hv. þingmaður sagði. Ég er algjörlega ósammála honum t.d. um að það sé betra að hafa litla mynt, krónuna í okkar tilviki, sem stjórntæki og nota gengisfellingar til þess að ráða bug á efnahagsvanda. Við Íslendingar höfum séð hvað það hafði í för með sér: Tvöföldun skulda mjög stórs hluta þeirra sem hafa verið að kaupa sér fasteignir á síðustu árum. Þetta er málefnalegt hjá hv. þingmanni. Þetta er skoðun en ég er henni algjörlega ósammála.

Sömuleiðis tel ég að hv. þingmaður gangi út frá því að að aðild að myntbandalaginu leysi menn með einhverjum hætti undan því að sinna almennilegri hagstjórn. Það sem Grikkir og önnur Suður-Evrópuríki gerðu var að þau tengdu fram hjá, höfðu jafnvel rangt við, eins og fullyrt hefur verið af þýskum stjórnmálamönnum. Þeir hafa gengist við því að hluta til. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það hafi komið í ljós einmitt varðandi Grikkland hvað það skipti þá miklu máli að vera í myntbandalagi. Þeir höfðu bakhjarl. Þeir höfðu Evrópusambandið. Það kom þeim til bjargar. Það var enginn sem kom Íslendingum til bjargar af því við höfðum engan bakhjarl. Þetta er stóri munurinn.

Evran fríar engan ábyrgð, hv. þingmaður. Og ef hv. þingmaður hefði rétt fyrir sér væru væntanlega einhver evrulandanna að velta því fyrir sér núna að fara út úr evrusvæðinu. (Forseti hringir.) Ekkert þeirra er að gera það. Þvert á móti er eitt ríki að ganga í myntbandalagið í þessari viku, tvö bíða. Það er enginn að tala um að fara þaðan út.



[15:57]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það tekur mig sárt að hv. utanríkisráðherra skuli ekki vera sammála neinu sem ég segi. (Utanrrh.: Ja, nema þessu síðasta, það var rétt …) Hæstv. utanríkisráðherra sagði „ekki neinu“. Ég talaði hér um ágæta skýrslu og hann er ekki einu sinni sammála því vegna þess að hann sagðist vera ósammála öllu. (Utanrrh.: Þessu með evruna, þessu með evruna.)

Varðandi það að engin ríki séu að spá í að fara út úr sambandinu skulum við bara horfa til Írlands og allrar þeirrar umræðu sem var um að það hefðu verið mistök að taka upp evruna vegna þess að Írar hefðu ekki getað aðlagað sig því. Við skulum muna eftir því sem Pólverjar sögðu. Þeir sögðu: Það var okkar happ í þessari fjármálakreppu að vera utan evrunnar, við gátum aðlagað hagkerfið okkar eigin gjaldmiðli. Við skulum tala um það sem hefur verið að gerast í Suður-Evrópu, ekki bara í Grikklandi heldur í öðrum Suður-Evrópulöndum, þar er sagt að evran hafi reynst þeim dýrkeypt í þessari fjármálakreppu vegna þess að þau hafa ekki getað aðlagað sig.

Það er eitt sem hæstv. utanríkisráðherra verður að skilja — þið verðið að afsaka hagfræðina: Það verður alltaf að vera eitthvert eitt verð í hagkerfinu sem sveigist að aðstæðunum og aðlagar hagkerfið. Hér á Íslandi er það gjaldmiðillinn. Það eru mjög snöggar breytingar sem verða til aðlögunar í gegnum gjaldmiðil og sú aðlögun er mjög hröð. Það er okkar happ, þess vegna höfum við ekki farið verr út úr þessari fjármálakreppu.

Á Grikklandi er annað verð sem verður að huga að, það eru launin. Og vegna þess að laun eru tregbreytileg kemur það fram í atvinnuleysi.

Hæstv. utanríkisráðherra skal ekki gera lítið úr þeim vandamálum sem Grikkir standa frammi fyrir, vandamálum sem munu ríkja (Forseti hringir.) miklu lengur en þessi fjandans kreppa hér á Íslandi.



[15:59]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri alls ekki lítið úr þeim vandamálum sem Grikkir standa frammi fyrir. Ég veit að þeir þurfa blóð, svita og tár til þess að komast í gegnum þau. Það sama gildir um okkur. Við munum þurfa að leggja gríðarlega mikið á okkur til þess að komast í gegnum þá kreppu og þann skuldavanda sem við okkur glíma.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að ef Ísland hefði t.d. gengið í Evrópusambandið fyrir tíu árum og verið komið inn í myntbandalagið hefðum við í fyrsta lagi ekki lent í þessari gríðarlegu kreppu sem við lentum í. Fram á síðustu daga, og þá er ég að vísa til fregna um hvernig bankarnir hafa hagað sér, var ég þeirrar skoðunar og leyfi mér kannski enn að halda í þá skoðun að hefðum við verið í myntbandalaginu hefðum við haft bakhjarl sem hefði hjálpað okkur í þessum lausafjárkreppum sem riðu yfir okkur slag í slag.

Ég vek eftirtekt hv. þingmanns á því, af því að hann vísar til Íra, að írski forsætisráðherrann taldi að evran hefði verið stöðugleikaakkeri fyrir 2008 þegar fjármálaofviðrið geisaði og það hefði verið evrusamstarfið sem veitti ríkjum skjól þegar sú kreppa reið yfir. Maður getur velt því fyrir sér hvað hefði gerst með Grikki ef þeir hefðu ekki haft þetta.

Hv. þingmaður sagði, og veit þetta miklu betur en ég af því að hann er vel að sér í þessum fræðum, að Grikkir og reyndar allar Suður-Evrópuþjóðir hafi síðustu tíu ár verið að hækka hjá sér laun umfram framleiðsluaukningu, þau hafi verið að skuldsetja sig alveg gríðarlega. Kreppa þeirra er öðruvísi en okkar. Það er ríkisskuldakreppa hjá þeim. Ef þeir hefðu ekki haft þennan bakhjarl, ef þeir hefðu verið með gömlu drökmuna sína, hefðu þeir farið miklu verr út úr því. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þá hefðu þeir getað gripið til skammtímaaðgerða með gengisfellingum en að lokum hefði það orðið miklu verra fyrir grískan almenning en staðan er í dag og geri ég ekki þá lítið úr því sem ég veit að grískur almenningur þarf að láta yfir sig ganga á næstu árum.



[16:01]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt er hárrétt í máli hæstv. utanríkisráðherra og það er að ef við hefðum verið með evruna og lánasamsetninguna sem er innan lands hjá íslenskum heimilum og fyrirtækjum hefði þetta orðið léttara fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. En það er ekki vandamálið, vandamálið er það að íslenskum heimilum og fyrirtækjum, sem eru með tekjur í innlendri mynt, var hleypt inn í þessar lántökur. Seðlabankinn varaði við því. Hann varaði við því að hér væri að myndast stórkostlegt ójafnvægi sem gæti endað með skelfingu, sem reyndist rétt. Og það hefur ekkert með gjaldmiðilinn að gera heldur það að íslensk stjórnvöld sváfu á verðinum gagnvart þessu.

Það er líka hárrétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að vandamál Grikkja og Suður-Evrópuþjóðanna er af allt öðrum toga en vandamál okkar á Íslandi. Það er alveg hárrétt en ég held að það sé ekki rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra og ég er sannfærður um að það er ekki rétt hjá hæstv. ráðherra að kreppan á Íslandi sé verri eða sé eitthvað nálægt því að vera jafnalvarleg og t.d. á Grikklandi. Ég er ekki sammála því. Hver er ástæðan fyrir því? Ástæðan fyrir því er sú að íslenska ríkið skuldaði ekki neitt nettó við upphaf þessarar kreppu vegna þeirrar fjármálastefnu sem hafði verið rekin hér á landi í mörg ár þar á undan. Vandamálið með skuldirnar er ekki gjaldmiðillinn, vandamálið með skuldirnar er sú flónska okkar Íslendinga að hafa hvatt lántakendur til að taka lán í öðrum gjaldmiðli en tekjur þeirra voru í.



[16:04]Útbýting:

[16:04]
Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál sem er á margan hátt nokkuð ítarleg og því erfitt að stikla á öllu sem í henni er á einungis tíu mínútum. Mig langar í upphafi að fjalla aðeins um það sem sagt er um samstarf á norðurslóðum og ég tek undir margt af því sem kemur fram í skýrslunni um möguleika Íslands á því svæði og þá möguleika sem þar liggja til frambúðar. Einnig er komið inn á Stoltenberg-skýrsluna og marga jákvæða punkta sem þar eru um samstarf þjóða á norðurslóðum og fleira í þeim dúr. Ég vil hins vegar eyða mestum hluta ræðu minnar í Evrópusambandsumsóknina sem eðlilega er fjallað mikið um í skýrslunni.

Alþingi komst að þeirri niðurstöðu, með mjög naumum meiri hluta, fyrir rétt tæpu ári að sækja um aðild að Evrópusambandinu eftir að hafa fellt breytingartillögu sem fól það í sér að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort sótt yrði um aðild. Utanríkisráðherra fór yfir helstu rök sín áðan fyrir því að Íslendingar sæktu um aðild og nefndi hann m.a. atvinnuleysi, verðbólgu, aukna fjárfestingu, það væru svona helstu rökin fyrir því af hverju hann teldi að við ættum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. En við nánari skoðun væri auðvitað gott að fá frekari rökstuðning fyrir ýmsu af því sem þarna var sagt. Atvinnuleysi — að þetta væri fyrst og fremst gert til að byggja upp atvinnu á Íslandi? Hefur ekki reynslan einmitt verið sú að atvinnuleysi á Íslandi hefur alla jafna verið töluvert lægri en gerist og gengur í Evrópusambandinu? Hefur reynslan ekki líka verið sú eða sjáum við það ekki núna að atvinnuleysi er töluvert lægra en gert var ráð fyrir í öllum áætlunum, til að mynda Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og staðan ekki eins slæm og margir áttu von á?

Hvað varðar verðbólguna er það mjög fróðlegt sem kemur fram í nýrri skýrslu um verðbólgu sem m.a. var til umræðu á opnum fundi í viðskiptanefnd fyrr í þessari viku. Í þeirri skýrslu kemur fram að það sé ekki útséð með það að við inngönguna í Evrópusambandið séum við að kasta verðtryggingunni til hliðar, af því að það var eitt af því sem hæstv. utanríkisráðherra nefndi, því að til að mynda í Þýskalandi eru verðtryggð skuldabréf og annað. Ákvörðun um þetta liggur því alfarið hjá okkur og við þurfum að vinna í þeim málum sjálf heima fyrir.

Aukin fjárfesting — ég velti fyrir mér hvort hæstv. utanríkisráðherra er að velta fyrir sér sjávarútvegi þar. En eitt af því sem Evrópusambandið talar um að verði að opna á er erlend fjárfesting í sjávarútvegi á Íslandi og við vitum öll að sjávarútvegurinn gefur okkur 40% af útflutningstekjum þjóðarinnar í dag.

Þetta eru auðvitað rök sem hafa verið notuð en sterkustu rökin sem hafa verið notuð fyrir því að Ísland ætti að sækja um aðild að Evrópusambandinu hafa verið evran og umræðan hefur verið um evruna eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson kom inn á áðan og hæstv. utanríkisráðherra átti við hann orðastað um. Fyrir kosningar var sagt að við yrðum að sækja um aðild að Evrópusambandinu og fá flýtimeðferð til að geta tekið upp evruna en nú er evrusamstarfið í miklum vanda og menn eru þar í miklu slökkvistarfi og sér raunar ekki fyrir endann á því enn þá. Margir spá því að evran geti fallið töluvert meira, hún gæti jafnvel farið í það sama og dollari og verið einn á móti einum. (Gripið fram í: Hún var það.) Hún gæti farið í það aftur og þá sjáum við að evran getur fallið líka. Margir eru farnir að ræða um þetta og ekki einungis þeir sem eru mótfallnir ESB-aðild. Ég nefni til að mynda að fræðimenn bæði í Evrópu og eins vestan hafs hafa fjallað um þetta og sagt að eina leiðin til að bjarga evrunni sé annaðhvort sú að kasta ríkjum sem eru í vanda út úr evrusamstarfinu eða að færa aukið vald til Evrópusambandsins, bera fjárlög undir Evrópusambandið, skattstefnu, jafnvel sameiginlega hernaðarstefnu eins og Angela Merkel kom inn á núna í vikunni.

Maður veltir þess vegna fyrir sér hvort þetta sé það sem við viljum. Er þetta það sem við sækjumst eftir? Nei, ég held ekki. Auk þess sem margir Evrópusinnar, ESB-sinnar eins og Auðunn Arnórsson, sem hefur skrifað bók um aðildarviðræðuferlið, hefur sagt í viðtölum að við fáum jú engan afslátt af Maastricht-skilyrðunum eftir það sem á undan er gengið í Evrópu. Við munum ekki fá undanþágur frá þeim og samkvæmt skýrslum sem hafa komið út, m.a. hjá fjármálaráðuneytinu, eru áratugir þangað til við uppfyllum Maastricht-skilyrðin. Öll helstu og stærstu rökin fyrir aðild eru því þegar fallin, svo ekki sé vikið að stærstu málunum sem tengjast landbúnaði og sjávarútvegi.

Annað sem mig langar að ræða í þessu og ég hef aðeins komið inn á í dag varðar þá aðlögun sem er að hefjast á regluverki Íslands að Evrópusambandinu. Það hefur nefnilega komið fram í gögnum frá utanríkisráðuneytinu sjálfu og kemur fram í skýrslunni þó að orðalagið sé loðið — gögn sem utanríkisráðuneytið sjálft hefur lagt fram og ég hef m.a. fengið staðfestingu á þessu frá fleiri aðilum — að viðræðuferlinu við Evrópusambandið hefur verið breytt og Króatía og Tyrkland eru m.a. að ganga í gegnum annað ferli en var þegar ríkin sem gengu inn á undan þeim gengu í gegnum. Í þessu felst að aðildarríkin þurfa að hafa uppfyllt ákveðin skilyrði hvað snertir lagasetningu áður en kaflar eru opnaðir og einnig áður en þeim er lokað. Þá hlýtur maður að spyrja að því, þeir sem samþykktu að sækja um aðild að Evrópusambandinu á þeirri forsendu að þjóðin yrði sjálf að fá samning á borðið, hún yrði að kveða upp sinn dóm í þjóðaratkvæðagreiðslu og að því loknu færi af stað aðlögunarvinna á lagaumhverfi Íslands: Er svo mikið lýðræði fólgið í þessu? Þetta eru æ fleiri farnir að sjá og ég held að það sé m.a. þess vegna sem 60–70% þjóðarinnar, eins og kemur fram í skoðanakönnunum, eru nú mótfallin því að sækja um aðild og ganga í Evrópusambandið. Menn eru orðnir skeptískari á það ferli sem þarna er í gangi. Maður finnur það núna og hefur fundið það að sívaxandi andstaða er í samfélaginu við aðild að Evrópusambandinu. Ég held að skynsamlegast væri að spyrja þjóðina einfaldlega að því hvort við viljum halda þessu ferli áfram.

Mig langar aðeins að fara í það sem kemur fram í skýrslunni og lýtur að því ferli sem nú er í gangi. Í kafla 4.4 er sagt frá því að íslenskri greiningarvinnu eigi að vera lokið áður en greining með framkvæmdastjórninni hefst, þ.e. íslenska utanríkisþjónustan er nú að greina regluverkið og hún á að skila af sér á haustdögum, og í framhaldinu verði mótuð einhvers konar samningsmarkmið Íslands. Jafnframt er því haldið fram að hin sameiginlega umræða við framkvæmdastjórnina muni byrja í haust.

Maður hlýtur að velta fyrir sér hverjir muni koma að því að móta þessa samningsafstöðu Íslendinga og samningsskilyrði, hvort þetta verði ekki tekið til umræðu á þinginu þegar greiningarvinnunni er lokið, ekki einungis í utanríkismálanefnd heldur verði fjallað á þinginu um þau samningsskilyrði sem Ísland setur í veigamiklum þáttum eins og sjávarútvegi og landbúnaði, sett verði stíf samningsskilyrði um það til að mynda að ekki verði vikið frá því að í landbúnaðarmálum geti Ísland hagað stuðningskerfi eins og það vill, að ekki verði vikið frá því að Ísland geti varið íslenskan landbúnað, íslensk byggðarlög og landsbyggðina alla og matvælaöryggið með tollvernd, eins og við höfum gert, en þurfum ekki að fara inn í tollverndarkerfi Evrópusambandsins, að við þurfum ekki að fórna íslenskum búfjárstofnum, íslenska hestinum, íslensku sauðkindinni. Og hvað varðar sjávarútveginn þurfum við ekki að fórna deilistofnunum, sem gefa um 30–35% af tekjum Íslands í sjávarútvegi, og við þurfum ekki að fórna því að geta tryggt það að Íslendingar fari sjálfir með forræðið í sjávarútvegsmálunum og þurfum ekki að opna landið fyrir erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi.

Þetta hlýtur að vera eitthvað sem þingið þarf að taka ákvörðun um þegar greiningarvinnunni er lokið, því að þarna er klárlega mismunur á regluverki Íslands annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar. Það hlýtur að vera skýr krafa Alþingis að þetta verði tekið til umfjöllunar og sett verði skýr samningsskilyrði áður en aðildarviðræður hefjast, þ.e. línur sem ekki verður gengið yfir og ekki verður vikið frá.



[16:15]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í þessu ferli öllu er stuðst við mjög skilmerkilegan vegvísi sem Alþingi Íslendinga lagði sem grundvöll að samþykkt sinni á síðasta ári. Þar kemur skýrt fram hvernig sá meiri hluti sem stóð að þeirri samþykkt lagði fram grunn að samningsmarkmiðum. Ég ber hina stjórnskipulegu ábyrgð á því að koma þeim fram og það er ég sem ber ábyrgð á því að koma síðan heim með samning og leggja hann fyrir þjóðina. Þannig er það samkvæmt stjórnskipuninni. Ég hef hins vegar sagt að ég vilji vinna þetta í eins nánu samráði við Alþingi og ég get og ég hef farið algjörlega eftir bókstafnum sem birtist í meirihlutaálitinu, sem ég kalla stundum mína daglegu biblíu. Þingmenn hafa sinn rétt samkvæmt lögum og þeir geta hvenær sem er beðið um umræðu um hvað eina sem þeir vilja. Eins og hv. þingmaður veit hefur utanríkisráðherra ekkert á móti því að ræða við hann, hvorki einslega né hér yfir ræðupúltið, þannig að það er honum í sjálfsvald sett. Ég hef hins vegar sagt að ég vilji hafa eins mikið samráð og hægt er.

Ég er algjörlega ósammála því sem hv. þingmaður sagði um evruna. Reyndar verð ég að leiðrétta hv. þingmann því hann hefur aldrei heyrt það úr munni utanríkisráðherra að það væri þörf á hraðferð. Ég hef aldrei notað það orð og því síður talað um hraðferð til þess að ná þeim möguleika að geta tekið upp evruna. Ég hef þvert á móti sagt að það muni taka langan tíma að uppfylla þau skilyrði en líka að ég telji að við munum uppfylla þau skilyrði. Þar verður einkum eitt erfitt sem er skuldastaða ríkisins en ég hef fengið fyrir því staðfestingu og fordæmi að ef skuldaþróun er á réttri leið, þ.e. ef hún er sjálfbær og skuldirnar að ganga niður, dugi það þegar menn standa á þeim krossgötum.

Mér finnst með ólíkindum ef hv. þingmaður telur að það sé meiri óstöðugleiki í Evrópu en hér, af því að hann var að tala um verðbólgu. Verðbólgan í mars var 1,5% á Evrópusvæðinu en (Forseti hringir.) í sama mánuði var hún 8,5% hér. Ég get síðan sagt honum hvernig vextirnir voru í síðara andsvari mínu.



[16:17]
Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég biðst velvirðingar ef ég hef sagt að hæstv. utanríkisráðherra hafi talað um hraðferð vegna evrunnar. (Utanrrh.: Mogginn sagði það. ) Hins vegar liggur alveg ljóst fyrir að þingmenn Samfylkingarinnar sögðu það hvarvetna fyrir kosningar. Ég var auðvitað ekki á kosningafundi með hæstv. utanríkisráðherra því að hann er ekki í mínu kjördæmi og ég hef ekki fylgst með hans kosningabaráttu en alls staðar var því haldið fram að við yrðum að sækja um aðild að Evrópusambandinu til þess að fá evruna og það gæti tekið okkur í mesta lagi fjögur til fimm ár. Núna, eins og hæstv. utanríkisráðherra bendir réttilega á, er skuldastaða ríkissjóðs með þeim hætti að menn tala um að það geti liðið jafnvel 20–25 ár þar til við getum tekið upp evruna. Skýrsla frá fjármálaráðuneytinu sýnir það. Margir hafa haldið því fram núna, m.a. þeir sem hafa verið mjög fylgjandi því að ganga í Evrópusambandið og þessu ferli öllu, að við munum ekki fá neinar undanþágur hvað varðar gjaldmiðilssamstarf eftir það sem á undan er gengið í Grikklandi og það sem hugsanlega er að fara í gang á Spáni, í Portúgal, Bretlandi og víðar. Þetta held ég því að sé algjörlega úr lausu lofti gripið.

Hvað varðar samningsmarkmið og samningsskilyrði Íslands hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort Evrópusambandið stýri alfarið þeirri vegferð sem þarna er í gangi og hvort ekki sé hægt að taka upp þau atriði sem koma fram í nefndarálitinu, setja þau sem hrein og klár samningsskilyrði, að frá þeim verði ekki vikið nema að undangenginni umræðu hér á Alþingi og ferlið fari ekki lengra nema það sé komið hreint og klárt svar hvað það snertir.

Síðan sakna ég þess að fá ekki fram sýn ráðherra á það sem viðkemur aðlögun að ESB en ekki aðildarviðræðum.



[16:19]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður veit, af því að hann er búinn að sitja hér í töluvert langan tíma, að við erum stöðugt að laga okkur að ESB. Í hverjum einasta mánuði samþykkjum við reglur sem við setjum sem part af íslenskum lagabálkum vegna þess að það hefur komið ný tilskipun frá Evrópusambandinu. Staðan í dag er þannig að við höfum í reynd afskaplega lítil áhrif á þessa hluti. Ef við værum innan Evrópusambandsins gætum við hins vegar haft raunveruleg áhrif á þetta.

Ég held hins vegar, ef ég skil hv. þingmann rétt, að sú vegferð sem við erum á varðandi það sem hann kallar aðlögun að Evrópusambandinu byggi á því að við erum að rýna í rétt okkar og sjá hverju þarf að breyta. Í viðræðunum, þegar að þeim kemur, og líka í lok rýnivinnunnar munum við væntanlega þurfa að leggja fram áætlun, a.m.k. um það með hvaða hætti við hyggjumst breyta því ef við gerumst aðilar. Ef hv. þingmaður á við t.d. að við þurfum að vera búin að koma okkur upp einhverjum nýjum stofnanastrúktúr eða öðru slíku áður en við göngum í Evrópusambandið er ég honum ósammála. Ég tel alls ekki að það sé þörf á því og ég held að hv. þingmaður muni sjá það í fyllingu tímans.

Í ræðum sínum hefur hv. þingmaður dregið upp alls konar hluti sem hugsanlega gætu gerst; svona, ef, þannig. Það skiptir þó ekki máli vegna þess að núna erum við að komast á þann punkt að þessir hlutir munu einfaldlega liggja fyrir. Menn munu vita svart á hvítu hvað það er sem við þurfum að axla og sömuleiðis þau réttindi sem við ávinnum okkur með því að taka á okkur skuldbindingar. Það er síðan þjóðarinnar að meta hvort ávinningurinn er meiri en það sem neikvætt er, vegna þess að það er alltaf þannig að skammrifjunum — eins og bændasynir úr Dölunum vita — fylgja nokkrir bögglar.



[16:21]
Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Utanríkisráðherra hefði aðra sýn á þessi mál ef hann hefði verið í sveit í Dölunum. (Utanrrh.: Hann var á Mýrunum.) Það sem ég var að vitna til og hef vitnað til hér í dag er einfaldlega það sem hefur komið frá ráðuneyti hæstv. ráðherra. Mig langar að lesa upp, með leyfi frú forseta:

„Breyting hefur orðið frá fyrri stækkunarviðræðum ríkja sem nú eru komin inn í ESB til þeirra sem nú standa yfir — þ.e. Króatía og Tyrkland. Byggir hún á reynslu úr síðustu stækkunarviðræðum þannig að sérstök áhersla er nú lögð á að ríki hafi í raun uppfyllt tiltekin skilyrði varðandi hvern og einn kafla áður en þeir eru opnaðir og einnig áður en þeim er lokað. Í þessu felst að sem minnst er gefið af frestum til að uppfylla skilyrðin áður en köflunum er lokað. Heldur er þeim ekki lokað fyrr en ákveðnum markmiðum er í raun náð í framkvæmd og innleiðingu löggjafar í viðkomandi ríki.“

Þetta er einnig staðfest í þessari skýrslu utanríkisráðherra. Ég hef einnig látið skoða þetta hjá Evrópusambandinu þannig að það er ekki hægt að fara í kringum þetta eins og köttur í kringum heitan graut, líkt og hæstv. ráðherra hefur gert. Það er einfaldlega svo að Evrópusambandið hefur og mun setja einhver skilyrði fyrir því að opna samningakafla og það mun líka setja skilyrði fyrir því að loka þeim. Þá hlýtur maður að spyrja núna hvort eitthvað sé komið upp á borðið, hvort einhver skilyrði hafi verið nefnd fyrir því að opna samningakaflana. Það hlýtur líka að vera skýr krafa af hálfu Alþingis og þeirra sem tala fyrir því að þjóðin eigi að kjósa um þennan aðildarsamning, eins og hæstv. ráðherra hefur gert, að við séum ekki í neinni aðlögun að Evrópusambandinu eins og Evrópusambandið sjálft setur upp kerfið. Þetta kerfi er ekki sett upp fyrir þjóðir sem eru einfaldlega að skoða hvað er í boði. Þetta er sett upp miðað við að þjóðir vilji ganga í Evrópusambandið og þess vegna er þetta aðlögunarferli. Það er enginn að gera bjölluat í Brussel nema Íslendingar.



[16:23]
Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ástæðan fyrir því að ég hef verið talsmaður þess að við Íslendingar sækjum um aðild að Evrópusambandinu er sú að ég vil að við verðum þjóð á meðal þjóða. Ég vil ekki að við verðum einangruð þjóð á sama tíma og aðrar þjóðir heims skipa sér í sveitir með það að markmiði að tryggja sameiginlega hagsmuni og stuðla að hagsæld þegna sinna. Þessa afstöðu byggi ég m.a. á reynslu minni eftir að hafa unnið fyrir íslensk sveitarfélög í Brussel í nokkur ár. Á þeim tíma reyndi ég það á eigin skinni hversu miklu máli það skiptir fyrir okkur að sækja og miðla reynslu, í þessum tilfellum í hinum fjölbreyttu verkefnum sem sveitarfélögum eru falin með lögum og reglum. Á þessum tíma reyndi ég það líka oft og mörgum sinnum hvernig við, fulltrúar íslenskra og norskra sveitarfélaga, sátum hjá og gátum ekki beitt okkur til að hafa áhrif á framvindu mála nema því aðeins að hagsmunir okkar færu algjörlega saman við hagsmuni sveitarfélaga í einhverju af aðildarríkjum Evrópusambandsins. Með öðrum orðum, frú forseti, við fylgdumst vel með undirbúningi reglusetninga en gátum aðeins haft takmörkuð áhrif á framvindu mála. Þann tíma sem ég starfaði í Brussel sá ég líka fjöldamörg tækifæri fara fram hjá íslenskum sveitarfélögum þar sem þau höfðu ekki, og hafa ekki enn þá, aðgang að ýmiss konar sjóðum og tengslanetum sem sveitarfélög aðildarríkjanna hafa.

Frú forseti. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með og taka þátt í undirbúningi stjórnsýslunnar og hagsmunasamtaka vegna væntanlegra aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Samstarf þessara aðila hefur verið með miklum ágætum, held ég að ég megi fullyrða, og skilningur á íslensku samfélagi, uppbyggingu stjórnsýslu, stoðkerfa o.fl. hefur aukist mikið á þessu tímabili. Veikleikar okkar og styrkleikar í samanburði við aðildarríki Evrópusambandsins eru ljósari en áður, þökk sé spurningalistunum stóru sem við fengum frá Evrópusambandinu en ekki síður áliti framkvæmdastjórnar sambandsins.

Eins og fram kemur í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra hafa undanfarnir mánuðir verið nýttir til að undirbúa væntanlegar aðildarviðræður. Hinir fjölmörgu þátttakendur í viðræðuhópunum hafa fengið fræðslu um kosti og galla Evrópusambandsins og mér segir svo hugur að hugmyndir margra um sambandið hafi breyst, jafnvel Bændasamtakanna. Þar kem ég að því sem mér finnst mestu máli skipta í orðræðunni sem mun eiga sér stað hér á landi næstu missirin, nefnilega þeirri ábyrgð sem hvílir á þeim sem fá tækifæri til að taka þátt í væntanlegum aðildarviðræðum.

Forustumenn Bændasamtakanna reyna þessa dagana að sannfæra þjóðina um að innganga í Evrópusambandið verði banabiti íslenskra bænda. Vandinn er bara sá að menn á þeim bæ vita betur og því er málflutningurinn ekki sannfærandi. Forustan hefur verið dugleg við að setja sig inn í landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins enda sitja fulltrúar samtakanna í þremur af tíu samningahópum landsins og vita því vel að innganga í Evrópusambandið mundi styrkja bændur á fjölmörgum sviðum. Hið dæmigerða íslenska fjölskyldubú er fyrirmyndarbú að mati Evrópusambandsins en vissulega munu kjúklinga- og svínakjötsframleiðendur eiga undir högg að sækja.

Kjarni landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins er að halda jörðum í ábúð og tryggja matvælaöryggi íbúa aðildarríkjanna. Um helmingi allra fjárveitinga sambandsins er varið til landbúnaðarmála, svo mikilvægur telst sá málaflokkur. Þannig vill Evrópusambandið stuðla að aukinni samkeppnishæfni landbúnaðar, m.a. með nýliðun í bændastéttinni og ýmiss konar nýsköpun, vöruþróun og markaðssetningu. Einnig leggur Evrópusambandið áherslu á að halda landi í ræktun og endurheimtingu náttúrusvæða eins og vot- og skóglendis. Síðast en ekki síst er lögð áhersla á að auka lífsgæði í sveitum, t.d. með því að styðja við fjölbreytta atvinnusköpun, stofnun smáfyrirtækja, sí- og endurmenntun bænda og varðveislu menningararfs.

Á Íslandi eru tæplega 6.500 jarðir en ekki nema rétt rúmlega 3.000 býli, 3.100 kannski. Sum býli nýta reyndar fleiri en eina jörð en mörg hundruð jarðir eru vannýttar eða illa nýttar. Ástæður þess eru margar en án efa spilar þar inn í hátt verð á mjólkurkvóta og offjárfestingar, m.a. með myntkörfulánum, auk þess sem auðmenn hafa verið duglegir við jarðakaup undanfarin ár. Víst er að á auðum jörðum liggja fjölmörg vannýtt sóknarfæri og eflaust dreymir marga um að hefja búskap í dag sem eygja enga möguleika á að fjármagna jarðakaup eða jarðaleigu. Stöðugur gjaldmiðill, t.d. við innkaup á aðföngum eins og tækjum og áburði, aðgangur að lánsfé á viðráðanlegum kjörum og aðgangur að mörkuðum, þekkingu og tengslaneti hlýtur að skipta bændur verulegu máli líkt og aðrar atvinnugreinar í landinu. Upptaka evru er aðeins í boði fyrir aðildarríki Evrópusambandsins, það vita allir sem fylgst hafa með gangi mála. Að halda öðru fram, eins og formaður Bændasamtakanna gerir án þess að blikna, er lýðskrum. Það skyldi þó ekki vera að innganga í Evrópusambandið mundi hleypa nýju lífi í vannýttar jarðir á Íslandi?

Ljóst er að styrkjakerfi landbúnaðarins á Íslandi mun breytast hvort sem við göngum í Evrópusambandið eða ekki. Þróunin er á þann veg um allan heim að dregið er úr framleiðslustyrkjum. Málflutningur bænda miðast við óbreytt ástand um ókomna tíð. Það er ekki raunhæft og því er að mínu mati skynsamlegra að skoða á víðsýnan hátt hvaða tækifæri og möguleikar felast í breytingunum.

Ég hef fulla trú á því, frú forseti, að íslenskir bændur verði verðugir fulltrúar lands og þjóðar meðal kollega sinna á meginlandi Evrópu. Ég er líka sannfærð um að hér á landi verður blómlegur landbúnaður um ókomna framtíð og að Íslendingar haldi áfram að kaupa íslenskar landbúnaðarafurðir þótt við göngum í Evrópusambandið. Markaðsrannsóknir styðja þá skoðun. Ég hvet bændaforustuna til að vera ábyrga í störfum sínum og nýta tímann á meðan á aðildarviðræðum við Evrópusambandið stendur til að benda félagsmönnum sínum á sóknarfærin fremur en að telja úr þeim kjarkinn. Það liggja fjölmörg sóknarfæri hjá íslenskum bændum innan Evrópusambandsins.

Uppbyggingarsjóðir Evrópusambandsins munu hafa mjög jákvæð áhrif á uppbyggingu á Íslandi, bæði í þéttbýli og dreifbýli, ef til aðildar Íslands að Evrópusambandinu kemur. Ekki einungis munu fjármunir sjóðanna koma okkur að góðum notum heldur ekki síður hugmyndafræði þeirra og samstarfsverkefni. Einn af uppbyggingarsjóðum sambandsins er svokallaður samstöðusjóður, á ensku Solidarity Fund, sem líkja má við Bjargráðasjóð en honum er ætlað að styrkja aðildarríki sem verða fyrir óvæntum áföllum vegna náttúruhamfara. Mér verður ósjálfrátt hugsað til eldgossins í Eyjafjallajökli í þessu sambandi og þess hversu gott hefði verið að geta leitað til samstöðusjóðsins nú þegar kemur að því að aðstoða bændur við uppbyggingu og lagfæra infrastrúktúr sem verður fyrir skakkaföllum og við vitum ekkert hvaða stefnu mun taka eða hvernig málið mun enda. Þar finn ég til ábyrgðar sem þingmaður Suðurkjördæmis, sem ég er svo lánsöm að vera líkt og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir talaði um hér fyrr í dag.

Frú forseti. Aðild Íslands að Evrópusambandinu snýst nefnilega um að vera þjóð á meðal þjóða, að geta leitað í eiginlega og óeiginlega sjóði annarra þjóða. Það er kominn tími til að við viðurkennum smæð okkar og það að við verðum mun sterkari í öllu tilliti með því að vera formlegur hluti af sambandi Evrópuríkja en að standa ein við að leysa öll þau verkefni sem hvert samfélag þarf að takast á við.



[16:32]
Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að bjóða hv. þingmanni á fund út á land að ræða við bændur. (AMG: Ég fagna því.) Hv. þingmaður talar um að við verðum að vera þjóð á meðal þjóða og hún hafi fundið fyrir því þegar hún starfaði í Brussel að hún gat ekki beitt sér af því að hún hefði ekki haft aðild að Evrópusambandinu. En nú er hv. þingmaður svo heppin að sitja á Alþingi þar sem hún er ein 63 þingmanna. Hún vitnaði til breytinga sem gera þyrfti á landbúnaðarkerfinu án þess þó að fjalla um hvaða breytingar það væru. Auðvitað vitum við að landbúnaðurinn stendur frammi fyrir ákveðnum vandamálum en í grunninn hefur það kerfi sem byggt hefur verið upp þróast á löngum tíma og það er ekkert sem segir okkur að kerfið sem er í Evrópusambandinu henti okkur.

Af því að hv. þingmaður vitnaði til stuðningskerfisins í Evrópusambandinu, hversu jákvætt það væri, vil ég benda á að til að mynda CAP-stuðningskerfið í Evrópusambandinu hefur leitt til þess svo dæmi sé tekið af Ítalíu að 60–70% af þeim stuðningi sem rennur til Ítalíu fer til tveggja stórfyrirtækja, tveggja stórra samstæðna sem reka stórar býliskeðjur á Ítalíu og styðja með engum hætti við nýliðun og hið rómantíska fjölskyldubú. Auk þess sýna nýleg gögn sem ég hef undir höndum, ég er ekki með þau núna, að nýliðun í landbúnaði í Evrópusambandinu hefur verið að minnka og aldur bænda í Evrópusambandinu að hækka. Þetta hafa Samtök ungra bænda bent á.

Ef hv. þingmaður vill gera breytingar á landbúnaðarkerfinu þá er hún ein af 63 þingmönnum á Alþingi en á Evrópuþinginu eru 600. Vægi hennar á Alþingi er mun meira og því væri bara sjálfsagt að leggja fram breytingartillögur í þá veruna.



[16:34]
Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Ásmundi Daða Einarssyni að það að sitja á Alþingi Íslendinga veitir okkur tækifæri til að hafa áhrif á framvindu mála. Það var nákvæmlega þess vegna sem ég ákvað að fara í framboð í Suðurkjördæmi vegna þess að ég hef þá trú að það skipti okkur miklu máli að vera hluti af sambandi Evrópuþjóða og það skiptir okkur svo miklu máli að ég ákvað að leggja mitt af mörkum og leggja til reynslu mína og þekkingu á þessu sviði.

Það vill svo til, frú forseti, að þau þrjú ár sem hef starfað í Brussel fyrir íslensk sveitarfélög, hvar á landinu sem þau eru, nýtti ég tímann líka ágætlega til kynna mér landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins, dreifbýlisstefnuna, byggðastefnuna og annað því um líkt. Og þegar forusta Bændasamtakanna segist hafa verið að kynna sér landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins vil ég líka geta þess að ég þekki hana mjög vel af eigin reynslu og ekki síður það sem mér finnst skipta mjög miklu máli að innan Evrópusambandsins starfa menn saman, starfa málaflokkar saman að því að gæta sameiginlegra hagsmuna. Íslensk sveitarfélög munu starfa þar með öðrum sveitarfélögum, bændur á Íslandi munu starfa þar með bændum annars staðar í Evrópu. Það er það sem mér finnst skipta mjög miklu máli og mér finnst mikilvægt að bændaforustan bendi félagsmönnum sínum á það að þar með eru þeir komnir í ákveðið tengslanet sem skiptir máli.

Við skulum ekki heldur gleyma því, frú forseti, að þegar Bændasamtökin tala niður aðild að Evrópusambandinu eru þeir ekki að gæta hagsmuna allra sinna félagsmanna. Það vita allir sem það vilja vita að hagur bænda verður mjög mismunandi eftir því hvaða grein þeir stunda og við vitum það líka að sauðfjárbændur, sem eru jú stærsti hluti bænda á Íslandi, munu njóta ávinnings af því að vera meðal annarra bænda í Evrópu.



[16:37]
Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sá sem hér stendur þekkir ágætlega til sauðfjárræktar. Hv. þingmaður fór mikinn og talaði um að Bændasamtökin og bændur almennt væru að rakka niður Evrópusambandsumsóknina og fyndu henni allt til foráttu. Þetta er algjörlega rangt. Menn hafa verið að benda á þá þætti sem munu koma sér illa fyrir íslenskan landbúnað, munu koma sér illa fyrir hinar dreifðu byggðir landsins. Öll hagsmunasamtök í þessum atvinnugreinum hafa ályktað í þá veruna en Bændasamtökin eru þau samtök sem hafa lagst í það að skoða vandlega hvaða áhrif þetta muni hafa á íslenskan landbúnað.

Það er alveg klárt að tollverndin ein og sér mun koma mjög illa við mjólkurframleiðsluna. Íslenskir búfjárstofnar eru í hættu. Styrkjakerfið sem við höfum byggt upp er auðvitað þannig úr garði gert að því er hægt að breyta, það getum við gert á þinginu og hv. þingmaður getur lagt fram tillögur í þá veruna. En styrkjakerfið hefur verið að þróast í gegnum tíðina og í grófum dráttum er það í góðum farvegi. Þess vegna skil ég ekki af hverju hv. þingmaður heldur þessu fram og væri fróðlegt að fá að vita hvað það er nákvæmlega sem hv. þingmaður vill sjá breytast í landbúnaðarstefnunni. Hún getur þá lagt það fram á þinginu og látið Alþingi Íslendinga taka ákvörðun um það, því að það er jú Alþingi Íslendinga sem ætti að taka ákvarðanir um svona mál, hvernig svona þáttum er háttað.

Ég held að hv. þingmaður tali af mikilli vanþekkingu þegar hún talar um þessi landbúnaðarkerfi og ég hvet hv. þingmann til að kynna sér vel CAP-stuðningskerfið, hvaða afleiðingar það hefur haft í stuðningskerfunum í Suður-Evrópu og víðar og hvernig skiptingin á þessum fjármunum er, því að þar eru það ekki hin rómantísku fjölskyldubú sem hún er að reyna að draga upp sem njóta styrkjanna.



[16:39]
Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst mikilvægt að við setjum umræðu og hagsmuni bænda í víðara samhengi en oft er gert og mér hefur oft þótt einkenna málflutning bændaforustunnar. Ég vil undirstrika það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar að mér finnst mikilvægt að bændaforustan taki heils hugar þátt í aðildarviðræðunum, axli ábyrgð í því verkefni og miðli til bænda um kosti þess og galla fyrir þá að ganga inn í Evrópusambandið.

Eins og ég kom inn á áðan, frú forseti, vitum við að styrkjakerfi íslensks landbúnaðar mun ekki vara að eilífu. Um það getum við rætt síðar í þinginu, það er ekki á dagskrá núna. (Gripið fram í.) En styrkjakerfi Evrópusambandsins er hvað sem öðru líður uppbyggingarsjóðir Evrópusambandsins, og landbúnaðarsjóðurinn, félagsmálasjóðurinn, sjávarbyggðasjóðurinn, samstöðusjóðurinn og svo mætti lengi telja nálgast viðfangsefnið að halda byggð í landinu hvar sem er, hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli, nálgast það út frá heildstæðum hætti. Þar sé ég m.a. styrkleika bænda liggja. Við vitum að dreifbýlissjóðurinn leggur áherslu á að styrkja bændur til fjölbreyttrar atvinnustarfsemi. Við vitum líka að aðrir sjóðir líta til stærri eininga en bænda hvort sem þeir eru á stórum jörðum eða litlum jörðum.

Sveitarómantíkin sem þú talar um og íslenska fjölskyldubúið er sú eining sem þykir eftirsóknarverð og unnið er samkvæmt þeirri hugmyndafræði við að skoða og endurskoða landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins. Við munum njóta góðs af því þegar kemur að aðildarviðræðum. Við munum að sjálfsögðu standa vörð um íslenskan búfjárstofn, hross, sauðfé eða hvað annað, við munum að sjálfsögðu gera það því að við erum öll hjartanlega sammála um að við viljum halda okkar íslenska bústofni ómenguðum, ef svo má að orði komast.



[16:41]
Forseti (Siv Friðleifsdóttir):

Forseti minnir á að hv. þingmenn eiga að beina orðum sínum til forseta og ávarpa hv. þingmenn í 3. persónu.



[16:41]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka þeim þingmönnum sem hér hafa komið og tjáð sig. Þetta hefur verið fróðleg og skemmtileg og á köflum snörp umræða. Hún er búin að standa sleitulítið í nánast sex klukkustundir.

Það er einkum þrennt sem menn hafa haft hér undir í umræðunni. Í fyrsta lagi norðurslóðir, í öðru lagi öryggisstefnan, varnar- og öryggismál, og í þriðja lagi ESB. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að það eru auðvitað skiptar skoðanir í flestum þessara mála. Þó gladdi það mig að hlusta á hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur tala af mikilli þekkingu og næmni um norðurslóðir, eins og reyndar fleiri gerðu hér í dag. Hv. þingmaður á sæti í þingmannanefnd norðurskautsráðsins og þekkir þetta mjög vel, en ég er ánægður með það hvernig hún og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson tóku undir þetta mál og lögðu áherslu á að í þessum málaflokki verðum við að leyfa okkur að horfa til langs tíma. Það er alveg ljóst að á næstu áratugum munu norðurslóðirnar skipta mjög miklu máli, ekki bara vegna þess að þar eiga sér stað verulegar breytingar á umhverfi og náttúru og í kjölfarið fylgja breytingar á vistkerfi, heldur líka vegna þess að það er mjög líklegt að á þessum slóðum verði töluverð vinnsla olíu og gass á næstu áratugum. Það hefur í för með sér bæði ávinninga en líka hættur. Við þurfum í tengslum við það, tel ég, að lyfta mjög vel okkar tilvist sem handhafa svæðis þar sem hugsanlegt er að olíu og gas sé að finna, þ.e. á Drekasvæðinu, vegna þess að ég held að það gefi okkur aukinn þunga í þeirri kröfu sem ég setti fram hér í dag fyrir hönd Íslendinga, að við verðum aðilar að öllum ákvörðunum sem lúta að framtíð norðurslóða. Það er ekki sjálfgefið í dag eins og við vitum, við sjáum að fimmríkjasamstarfið svokallaða, sem hefur í reynd ýtt frá sér löndum eins og okkur og Svíþjóð og Finnlandi, er heldur hikandi við það að hleypa öðrum þarna að. Við Íslendingar eigum hins vegar að berjast mjög hart fyrir þessu og ég tel að með sama hætti og við höfum eytt miklu atgervi og miklum fjármunum í að búa til rök fyrir rétti okkar til ákveðinna landgrunnssvæða, Hatton Rockall-svæðinu, eigum við með sama hætti að verja fjármunum og mannafla til þess að þróa upp sams konar lagaleg rök fyrir aðkomu okkar og rétti okkar gagnvart þessu. Þetta skiptir máli til frambúðar.

Ég vil sömuleiðis þakka þeim þingmönnum sem töluðu og tjáðu sig um varnar- og öryggismálin. Sérstaklega gladdi það mig að hlusta á hv. þm. Jón Gunnarsson sem var sammála því sem ríkisstjórnin hefur verið að gera varðandi Varnarmálastofnun en sömuleiðis tók hann undir þá tillögu sem ég viðraði í morgun að þingið mundi sameinast um það að setja fram sameiginlega varnar- og öryggisstefnu til lengri framtíðar. Sú stefna byggist að sjálfsögðu á því sem er sérkenni okkar í samfélagi þjóðanna sem er herleysið. Hún verður líka að byggjast á borgaralegum gildum og borgaralegum stofnunum. Af því tilefni verð ég að undirstrika það að ríkisstjórnin hefur sagt mjög skýrt að hún hyggst stofna nýtt ráðuneyti úr dóms- og mannréttindaráðuneytinu annars vegar og samgöngu- og sveitarfélagsráðuneytinu hins vegar, þ.e. nýtt innanríkisráðuneyti. Ég tel að innan þessara tveggja ráðuneyta séu svo margar stofnanir sem slá og ganga í takt og jafnvel verksvið sem skarast að innan þessa nýja innanríkisráðuneytis á að vera hægt að búa til eins konar nýja öryggisstofnun sem ég vil, og tek fram af því að ég er þrátt fyrir allt svolítið íhaldssamur, að heiti bara Landhelgisgæslan en hún á að taka yfir þá borgaralegu varnartengdu starfsemi sem hver þjóð er í óðaönn að þróa til að verjast hættum og váboðum sem steðja að innra öryggi ríkisins.

Það verður að árétta það sem okkar helstu sérfræðingar hafa sagt að það er ekkert sem bendir til þess að hernaðarleg ógn muni steðja að Íslandi á næstu árum eða áratugum og við ríðum ekki einhesta í þessum straumi skoðana. Danir lögðu fram sína stefnu fyrir tíu árum, sem þá var til eins áratugar, og sögðu slíkt hið sama. Nú er þetta orðið að varanlegri stefnu þannig að við erum að feta þarna sömu slóð og aðrar þjóðir í nágrenni okkar.

Mér fannst það merkilegt og ég fagna því að það skuli hafa verið þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem með þessum hætti tók undir stefnu ríkisstjórnarinnar bæði varðandi breytingu á varnarmálalögunum og eins varðandi mótun nýrrar öryggis- og varnarstefnu. Ég er þeirrar skoðunar að fyrir litla þjóð skipti það gríðarmiklu máli að það sé eins mikill friður og sátt um öryggisstefnuna og kostur er. Reyndar hef ég lýst þeirri skoðun minni í umræðum að stefnan eigi helst að vera þannig að þess vegna utanríkisráðherra geti staðið upp úr ríkisstjórn í kjölfar lýðræðislegra kosninga og sest í stjórnarandstöðu án þess að viðhorf hans eða nýrrar ríkisstjórnar til varnar- og öryggisstefnunnar breytist. Ég tel að það sé svo mikilvægt að sem breiðastur stuðningur sé um hana.

Hér hafa menn í þessari umræðu rætt einstaka þætti öryggisstefnunnar eins og t.d. loftrýmisgæslu, bæði hv. formaður utanríkismálanefndar og hv. þm. Jón Gunnarsson veltu því upp hvort það væri raunverulega nokkur þörf á því, og eins og hv. þingmenn muna kemur það fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að þetta skuli endurskoðað. Ýmsir aðrir þættir hafa verið nefndir sem tengjast þessum málaflokki. Ég er þeirrar skoðunar að með því að flokkarnir setjist saman með þeim hætti sem við komum okkur saman um þegar haustar og hefjumst handa við nýja öryggis- og varnarmálastefnu þá eigi að taka þessa hluti undir og ræða þar. Sömuleiðis þær hugmyndir sem bæði er að finna í stefnuyfirlýsingunni og útfærslu á því sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson reifaði hér í dag og varðaði friðlýsingu fyrir kjarnorkutólum og -tækjum. Ég tel að sú nefnd eða sá hópur og sú vinna eigi að skera úr um það með hvaða hætti við viljum haga þessum hlutum í framtíðinni. Hins vegar blasir það alveg við að á alþjóðavettvangi er þróunin í þessum efnum mjög ör, hún stefnir alls staðar til kjarnaafvopnunar og hvarvetna þar sem við Íslendingar höfum setið á palli og talað fyrir hönd okkar þjóðar höfum við fylgt því svo það liggi alveg ljóst fyrir.

Það er eitt mál hér sem við höfum ekki mikið drepið á í dag en oft hefur verið rætt í þessum umræðum sem árlega fara fram um skýrslu utanríkisráðherra og það er deilan í Miðausturlöndum, deilan milli Ísraela og Palestínumanna. Ég tel mikilvægt að Alþingi Íslendinga skoði afstöðu sína á nýjan leik til þessara mála. Alþingi hefur sem betur fer mótað afstöðu til þess í gegnum árin. Ég tel að hugsanlega eigum við, utanríkisráðuneytið, að frumkvæði þess eða í samráði við utanríkismálanefnd Alþingis, að skoða það mál vel og rækilega. Að vísu hefur aðeins komið vonarbjarmi núna síðustu vikur varðandi viðræður um frið en það liggur alveg ljóst fyrir eins og staðan er núna að í Ísrael er ríkisstjórn sem hefur setið í töluverðan tíma sem de facto hafnar tveggja ríkja lausninni. Þar er að finna flokk, flokk utanríkisráðherrans, kollega míns, sem beinlínis var stofnaður og bauð fram á grundvelli þess að bjóða samfélagi þjóðanna byrginn sem krafðist þess að friðarferlið væri endurvakið. Við höfum séð það líka núna á síðustu mánuðum og missirum að það er í verulegum mæli verið að þrengja að Palestínumönnum. Við sjáum það t.d. í Austur-Jerúsalem þar sem Ísraelsmenn buðu varaforseta Bandaríkjanna velkominn með því að tilkynna þegar hann kom til Ísraels beinlínis til að reyna að endurvekja friðarferlið fyrir hönd Obama forseta, þá tóku þeir á móti honum með því að tilkynna um leyfi fyrir tökum á 1.600 íbúðum Palestínumanna í Austur-Jerúsalem. Sömuleiðis höfum við séð margvíslegar frekari þrengingar á rétti þeirra.

Við á Íslandi höfum alltaf verið málsvari lítilmagnans í alþjóðasamfélaginu og ég er þeirrar skoðunar að það skipti máli að rödd Íslands heyrist í þeim efnum. Ég hef sagt að ég telji að mér sem utanríkisráðherra beri með vissum hætti ákveðin skylda til þess að sýna þetta í verki og ég vil ítreka það hér sem ég hef sagt utan þings að ég hyggst fara til Gaza til að kynna mér stöðuna af eigin raun en líka til að sýna stuðning við málstað þeirra sem búa þarna í risastóru lokuðu eins konar víggirtu fangelsi á Gazasvæðinu. Ég tel að það sé hlutverk ríkisstjórnar eins og okkar og hlutverk þjóðar eins og Íslendinga.

Þá er komið að Evrópusambandinu og þá eru fjórar sekúndur eftir þannig að ég þakka fyrir mig.



Skýrslan gengur til utanrmn.