138. löggjafarþing — 124. fundur
 17. maí 2010.
sala orku.

[15:18]
Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan að það væri stefna núverandi ríkisstjórnar að þjóðin nyti arðs af auðlindum sínum. Það finnst mér fyrir mína parta ekki nægileg hagsmunagæsla af hálfu ríkisstjórnarinnar fyrir hönd þjóðarinnar því að þjóðin á að eiga sínar eigin auðlindir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Ef auðlindir íslensku þjóðarinnar verða einkavæddar eða nýtingarréttur þeirra framseldur erlendum fyrirtækjum verða það hvorki meira né minna en stærstu mistök allrar Íslandssögunnar frá upphafi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Sú ríkisstjórn sem vanrækir að forða okkur frá stærstu og afdrifaríkustu mistökum Íslandssögunnar er í mínum huga vanhæf ríkisstjórn.

Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra og formann Vinstri grænna, Steingrím Sigfússon: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera núna strax til að tryggja almennt að auðlindir þjóðarinnar verði í eigu þjóðarinnar? Og sérstaklega: Hvað ætlar hún að gera varðandi umrædda sölu Geysis Green Energy á 52% hlut sínum í HS Orku til kanadíska fyrirtækisins Magma Energy eða skúffufyrirtækis sem það fyrirtæki á í Svíþjóð?



[15:20]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ríkisstjórnin mun fjalla um þetta á morgun eins og til stóð en ekki í því samhengi sem við hefðum óskað eftir, að sölunni hefði verið frestað þannig að færi hefði gefist á því að skoða málin í því ljósi. Ég held að öll ábyrg stjórnvöld hljóti að áskilja sér allan rétt við aðstæður af þessu tagi, hvernig sem því verður svo fyrir komið í löggjöf eða með öðrum hætti. Við höfum haft þá stefnu og erum með þá stefnu að það eigi að binda sameign á þjóðarauðlindum í stjórnarskrá. Aðrir í þessum sölum hafa komið í veg fyrir að það næði fram að ganga.

Í öðru lagi tek ég undir að það hefur dregist meira en góðu hófi gegnir að móta hér heildstæða og sterka löggjöf sem ver auðlindirnar sem tryggir að rentan gangi til þjóðarinnar óháð eignarhaldinu.

Í þriðja lagi á náttúrlega að standa vörð um það eignarhald ríkisins á þessum auðlindum sem er til staðar. Það var ekki í þessu tilviki og hefur ekki verið frá því að hinn takmarkaði hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja var seldur illu heilli. Síðan hefur þetta verið í eigu sveitarfélaga, sem hafa svo selt þetta frá sér, og einkaaðilans sem seldi í gærkvöldi. Frekari vinna og löggjöf er greinilega nauðsynleg í þessum efnum, (Gripið fram í: Stjórnarandstaðan …) þar á meðal að fara yfir lög um erlendar fjárfestingar og hvort við ætlum að hafa þá löggjöf eins og hún er nú, (Gripið fram í.) takmarkað hald í henni ef allir geta farið inn í gegnum Evrópska efnahagssvæðið með skúffufyrirtækjum og keypt það sem þeir vilja hér.

Að lokum skiptir máli, og ég fagna því að það sé samstaða um það í þessum sal, að sú einkavæðing orkufyrirtækja sem á döfinni var, þar með talið Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar, sé út af borðum og er þá nokkuð fengið ef það liggur fyrir. Það er ekki langt síðan að sú framtíð var ekki trygg að þær mikilvægu orkulindir sem ríkið góðu heilli á þó í gegnum eign sína á Landsvirkjun, Rarik og Orkubúi Vestfjarða (Forseti hringir.) væru a.m.k. í tryggum höndum. (Gripið fram í: Þú ert kominn í …)



[15:22]
Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegur forseti. Ég bendi hæstv. fjármálaráðherra á þá staðreynd að meiri hluti nefndar um erlenda fjárfestingu úrskurðaði nýlega um lögmæti þess að leyfa sænsku skúffufyrirtæki að fjárfesta í íslensku orkufyrirtæki. Meiri hluti nefndarinnar tók ekki mark á rökstuðningi eins helsta sérfræðings landsins í Evrópurétti, Elviru Méndez Pinedo, sem taldi að hafna mætti fjárfestingunni á grundvelli misnotkunar eða sniðgöngu laga. (EyH: Með því að breyta lögunum.)

Ég krefst þess að ríkisstjórnin, ef hún er ekki vanhæf, drífi í því að forða okkur frá þeirri ógæfu sem (Forseti hringir.) yfir okkur vofir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:23]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður rakti hér, nefnd um erlenda fjárfestingu komst að þessari niðurstöðu, þ.e. meiri hluti hennar taldi að ekki væri hægt að sanna að þarna væri um sniðgöngu að ræða eins og málsatvik lægju fyrir og m.a. líka vegna þess að það vantar viðmiðanir um það hvað skuli teljast sniðganga og hvað sé klár sniðganga. Minni hlutinn hafði aðra afstöðu, fulltrúi Vinstri grænna lagðist gegn þessu og taldi að þarna væri um að ræða ólögmæta fjárfestingu aðila utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Það er auðvitað ekki gott að við svo búið standi að um þetta sé ágreiningur og ég tek undir að málið þarf að skoða ofan í kjölinn. Að öðru leyti held ég að ekki sé mikill ágreiningur um að á viðsjárverðum tímum þegar ríkið á í miklum fjárhagserfiðleikum, og fjölmargir aðrir aðilar, skipti öllu máli að hlutir gangi ekki hér undan okkur þannig að til frambúðar verði auðlindirnar og verðmætin í innviðum samfélags okkar og mikilvæg þjóðarfyrirtæki (Forseti hringir.) ekki áfram í okkar höndum. En það er erfið varðstaða við þessar aðstæður eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmenn sjái og viðurkenni. (Gripið fram í: Þú ert ekki …) (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Eigum við þá að hækka skattana?)