138. löggjafarþing — 129. fundur
 1. júní 2010.
umræður utan dagskrár.

árás ísraelsks herskips á skipalest með hjálpargögn.

[14:04]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í gær efndi Félagið Ísland-Palestína til fjölmenns útifundar við utanríkisráðuneytið og krafðist þess að stjórnmálasambandi við Ísrael yrði slitið, sagði að mælirinn væri fullur. Ég er sammála talsmönnum á fundinum, mælirinn er fyrir löngu fullur. Hann var það fyrir rúmri hálfri öld. Síðasta atvikið átti sér stað þegar ráðist var á óvopnaða skipalest friðarsinna með vistir og hjálpargögn á leið til Gaza-svæðisins, sem kallað hefur verið stærstu fangabúðir heimsins. Þar býr ein og hálf milljón manna. Þetta er svæði sem ráðist var á í árslok 2008 og aftur í ársbyrjun 2009. Mörg hundruð óbreyttir borgarar, ófá börnin, féllu í valinn, sjúkrahús voru jöfnuð við jörðu, skólar líka og síðan hefur fólkinu verið haldið í herkví. Þegar alþjóðasamfélagið sameinast um að rjúfa þessa herkví og sendir skipalest með hjálpargögn ráðast hermenn frá Ísrael á skipin til að koma í veg fyrir að hjálpargögnin berist þurfandi fólki.

Alþingi brást þannig við að utanríkismálanefnd kom saman í gær að frumkvæði hv. þm. Birgittu Jónsdóttur til að ræða hvað við gætum lagt til málanna. Komið hafa fram tillögur innan þingsins um að við slitum stjórnmálasambandi við Ísrael. Aðrar áherslur hafa einnig verið uppi og í nefndinni leituðum við eftir samstöðu. Samstaðan er fyrir hendi vegna þess að allir fulltrúar í utanríkismálanefnd harma og fordæma þá atburði sem átt hafa sér stað. Við náðum hins vegar ekki samstöðu um orðalag í textanum en við sameinuðumst um yfirlýsingu, fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar, fulltrúar Framsóknarflokksins og fulltrúar Hreyfingarinnar. Ég leyfi mér að lesa hana upp, með leyfi forseta:

„Meiri hluti utanríkismálanefndar fordæmir harðlega árás ísraelska hersins á tyrknesk skip í skipalest á alþjóðlegri siglingaleið með hjálpargögn til Gaza-svæðisins. Árásin er brot á alþjóðalögum. Það stríðir gegn réttlætiskennd manna að hindra með ofbeldi að hjálpargögn berist fólki í neyð. Meiri hlutinn leggur áherslu á að mannréttindasáttmálar, samþykktir Sameinuðu þjóðanna og alþjóðalög verði virt í hvívetna í hertekinni Palestínu, á Gaza og Vesturbakkanum, að meðtalinni Austur-Jerúsalem.

Meiri hlutinn ályktar að fela utanríkisráðherra, í samráði við utanríkismálanefnd, að skipuleggja ferð til Gaza-svæðisins og að Ísland standi að því að senda hjálpargögn til að aðstoða heimamenn og sýna þannig andstöðu við herkvína sem Ísraelsmenn hafa sett á Gaza í trássi við alþjóðalög. Það er ólíðandi að í meira en hálfa öld hafi ályktanir Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi og sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar verið virtar að vettugi.

Slit á stjórnmálasambandi við Ísrael kemur alvarlega til álita og er utanríkisráðherra falið að meta, í samvinnu við aðrar þjóðir, hvaða úrræðum verði beitt sem talin eru áhrifaríkust til að knýja á um breytingar í samræmi við alþjóðalög, svo sem alþjóðlegri samstöðu um viðskiptaþvinganir eða slitum á stjórnmálasambandi við Ísrael, beri önnur úrræði ekki ávöxt.“

Þannig hljóðar ályktun meiri hluta utanríkismálanefndar Alþingis sem lauk fundi sínum í hádeginu. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) fyrir það hve afdráttarlaust hann hefur brugðist við þessari svívirðilegu árás á skipalestina á leið til Gaza-svæðisins, en ég leyfi mér að beina nú þeirri spurningu til hans með hvaða hætti (Forseti hringir.) hann hyggist taka á þeirri ályktun sem við beinum nú til hans. Ég tel að þessi ályktun (Forseti hringir.) skipti máli.



[14:10]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er ekki hægt að finna nógu sterk orð til að lýsa þeim hræðilega verknaði sem átti sér stað í fyrrinótt þegar ísraelskir hermenn réðust til atlögu við skipalestina sem lagði frá Kýpur til að reyna að aðstoða Palestínumenn á Gaza-svæðinu. Abbas Palestínuforseti kallaði þetta fjöldamorð, Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, kallaði þetta ríkishryðjuverk, íslenska ríkisstjórnin kallaði þetta svívirðilegan glæp.

Íslenska ríkisstjórnin var með þeim fyrstu til að fordæma með mjög harkalegu orðfæri þann verknað strax í gærmorgun. Íslenska ríkisstjórnin var reyndar hin fyrsta sem setti fram kröfu um tafarlausa rannsókn á þessum verknaði til að þeir sem sekir væru yrðu dregnir að lokum fyrir þann dóm sem bær er til að kveða upp úrskurð um verknað af þessu tagi. Sömuleiðis lagði íslenska ríkisstjórnin mikla áherslu á að þessi atburður yrði notaður til að efla alþjóðlega samstöðu um að aflétta herkvínni sem íbúar Gaza hafa verið í síðustu þrjú árin. Við þekkjum það öll, eins og hv. þm Ögmundur Jónasson sagði áðan, að þar er ein og hálf milljón íbúa á einu þéttbýlasta svæði jarðarinnar og þeir eru nánast sviptir öllum samgangi við umheiminn. Fyrir skömmu var í fyrsta skipti í þrjú ár leyft að flytja klæðnað inn á svæðið. Þarna var um að ræða alþjóðlega mannúðarhreyfingu, tyrkneska að upplagi, sem var að beita sér fyrir því að rjúfa hafnbannið sem þarna hefur verið í þrjú ár til að hjálpa Palestínumönnum. Ísraelsmenn sem voru 120 sjómílur frá landi gripu til þess ráðs að ráðast til uppgöngu í skipin og beita skotvopnum.

Sú stofnun á Íslandi sem nýtur hvað mest trausts samkvæmt nýlegum könnunum, íslenska Ríkisútvarpið, leitaði sér heimilda og kannaði fullyrðingar ísraelskra stjórnvalda, sem m.a. er hægt að lesa á heimasíðu ísraelska utanríkisráðuneytisins í dag, um að skipverjar hefðu verið vopnaðir. Hvað fundu þeir? Þeir fundu barefli og þeir fundu teygjubyssur. Segir það ekki allt sem segja þarf? Hríðskotabyssum er beitt gegn fólki sem ver sig með teygjubyssum. Nú loksins eftir langa þögn Ísraelsmanna er byrjað að sleppa þeim sem teknir voru um borð í þessum skipum og þeir eru farnir að segja frá því hvað gerðist. Þeir harðneita því að nokkur mótstaða hafi verið veitt fyrir utan það að menn tóku saman örmum og mynduðu mannlegan skjöld. Gegn þessum mannlega skildi notuðu Ísraelsmenn ekki bara táragas, plastkúlur og rafbyssur heldur hríðskotabyssur. Og þótt erfitt sé að fá nákvæmar upplýsingar blasir það samt sem áður við að samkvæmt alþjóðlegum fréttaveitum eru 9–19 manns látnir og hugsanlega fast að 60 slasaðir eftir þetta. Auðvitað hljótum við að fordæma þetta og auðvitað hljótum við að skoða allt það sem hægt er að gera til að fá Ísraelsmenn til að láta af harðýðgi sinni gagnvart Palestínumönnum. Og ég tel sjálfsagt að skoða bæði viðskiptaþvinganir og slit á stjórnmálasambandi.

Hv. þingmaður beinir til mín spurningum sem varða þá ályktun sem meiri hluti utanríkismálanefndar hefur samþykkt. Ég vil þá nota tækifærið og þakka honum og utanríkismálanefnd fyrir að hafa brugðist svo skjótt við. Ég tel að það sé sjálfsagt að utanríkisráðherra verði við því að meta í samvinnu við aðrar þjóðir hvaða úrræði virka best, e.t.v. slit á stjórnmálasambandi eða viðskiptaþvinganir.

Það eru tvær hliðar á öllum málum. Viðskiptaþvinganirnar dugðu vel gegn Suður-Afríku, þeim var ekki beitt fyrr en Suður-Afríkumenn sjálfir, þ.e. hin blakka þjóð, hinn svarti meiri hluti, báðu um það. Við þurfum líka að hlusta á það sem fólkið á svæðinu hefur að segja. Það er önnur hlið á viðskiptabanni, t.d. sú að í gegnum Ísrael eru nánast öll viðskipti og samskipti Palestínumanna bæði á herteknu svæðunum og á Gaza. Það gæti komið sér illa gagnvart íbúunum þar. Þess vegna tel ég að menn eigi ekki að rasa um ráð fram. Við eigum að meta þetta í samráði við heimamenn. Meðal annars þess vegna ætlaði ég, eins og ég greindi þinginu frá fyrr í vetur og var búinn að ákveða, að fara til Gaza til að skoða þessi mál. Ég tel líka sjálfsagt að skoða önnur úrræði sem gætu nýst vel, eins og t.d. alþjóðlegt fjárfestingarbann á Ísrael sem mundi hafa áhrif á Ísrael án þess að hafa áhrif á Palestínumenn. Ég segi hins vegar að nú er mál að linni og mér finnst sjálfsagt að íslenska þingið lýsi með einhverjum hætti yfir stuðningi, þótt ekki sé nema í þessum umræðum, við þá ályktun sem meiri hluti utanríkismálanefndar góðu heilli samþykkti á fundi sínum áðan vegna þess að mótmæli af þessu tagi, jafnvel hótun um slit á stjórnmálasambandi, skipta máli.



[14:15]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Þau voðaverk sem áttu sér stað á alþjóðlegu hafsvæði í gærmorgun eru staðfesting á því að allar þær fordæmingar sem alþjóðasamfélagið hefur látið frá sér fara um brot ísraelskra stjórnvalda á alþjóðalögum gagnvart palestínsku þjóðinni undanfarin 40 ár skila nákvæmlega engum árangri. Það er sem ísraelsk stjórnvöld gangi sífellt lengra í brotum sínum á alþjóðasáttmálum og lögum. Að ráðast í skjóli nætur á friðsamlega skipalest með hjálpargögn á leið til Gaza og drepa og særa fjölda manns um borð er táknmynd þess að tími sé kominn til að setja bönd á þessa stefnu óhefts ofbeldis. Skipin voru engin ógn, heldur innihéldu hjólastóla, lyf, matvæli og annað sem almenningur á Gaza í sárri neyð þarfnast til að geta dregið fram lífið. Skipin innihéldu jafnframt 700 manneskjur sem starfa í þágu friðar og mannúðar víðs vegar um heiminn. Sjö skip voru í för, friðarför. 700 manneskjur, þar á meðal nokkrir sem lifðu af helförina, þingmenn, handhafi friðarverðlauna Nóbels, fólk á öllum aldri, börn og gamalmenni — 700 manneskjur fengu að upplifa það stutta stund sem íbúar Gaza upplifa dag hvern, ísraelska herinn.

Ég fagna þeirri ályktun sem við unnum í utanríkismálanefnd. Hún felur í sér að við munum leitast við að ná alþjóðasamstöðu um alvöruaðgerðir gagnvart Ísraelum ef þeir halda áfram að brjóta alþjóðalög. Það er ákall frá Palestínu um alvöruaðgerð í anda þeirra aðgerða sem notaðar voru gagnvart Suður-Afríku á sínum tíma. Ég tek fram að ég veit allt um báðar hliðarnar en það er einfaldlega ekki hægt að kenna Hamas um árásina á friðarförina í gær. Hvar mun Ísraelsmenn bera niður næst ef þeir líta svo á að öryggi sínu sé ógnað af hjálpargögnum og friðarsinnum?

Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni og hæstv. utanríkisráðherra og öllum í utanríkismálanefnd (Forseti hringir.) fyrir mjög málefnalegar og góðar umræður þó að ég hefði vissulega viljað ganga lengra.



[14:17]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Árás ísraelskra hermanna á skipalestina í gærmorgun var forkastanleg. Með henni hafa ísraelsk stjórnvöld enn og aftur brugðist við aðstæðum með gjörsamlega óviðunandi hætti og í leiðinni skaðað eigin málstað. Með því að hertaka skipin á alþjóðlegu hafsvæði er líka ljóst að brotin varða við alþjóðalög. Ísraelar hafa að sjálfsögðu rétt til sjálfsvarnar eins og aðrir. Stjórnvöld í Ísrael höfðu alla möguleika á að skoða skipin þegar þau kæmu til hafnar. Ofsafengin viðbrögð þeirra sem leiddu til mannfalls hafa framkallað fordæmingu um heim allan, ekki síst hjá þeim okkar sem hafa verið og eru einlægir stuðningsmenn sjálfstæðs Ísraelsríkis og sem hafa fordæmt hryðjuverkastarfsemi svo sem frá Hamas-liðum gegn íbúum Ísraels.

Atburður sem þessi mun enn torvelda alla viðleitni til að skapa frið fyrir botni Miðjarðarhafs. Markmiðið með slíku friðarsamkomulagi hlýtur að vera hin svokallaða tveggja ríkja lausn, skilyrðislaus viðurkenning á Ísrael og stofnun sjálfstæðs Palestínuríkis. Gleymum því ekki að meðal Hamas-liða er stefnan sú að þurrka út Ísraelsríki.

Um leið og við fordæmum árás Ísraelsmanna hljótum við að krefjast þess að skipunum sem voru tekin herskildi verði sleppt, farþegum og áhöfn veitt frelsi líkt og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktaði um í nótt og að sá varningur sem átti að berast hinum hrjáðu íbúum Gaza verði þegar í stað fluttur á áfangastað. Ég tek undir með fulltrúa Evrópusambandsins sem krafðist þess í gær að opnað yrði tafarlaust fyrir flutning á hjálpargögnum og almennum vörum um Gaza-svæðið. Þetta er sú krafa sem ómar nú um heiminn en gengur þvert á ályktun meiri hluta utanríkismálanefndar sem var samþykkt í hádeginu. Með þeirri ályktun hefur meiri hlutinn í raun skuldbundið sig til að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael og setja á einhliða viðskiptaþvinganir ef ekki tekst að koma á friði. Það er veganestið sem hæstv. utanríkisráðherra hefur meðferðis þegar hann fer til fundar við starfsbræður sína á næstunni. Meiri hluti nefndarinnar kaus að taka ekki undir ályktun öryggisráðsins frá því í nótt sem m.a. fól í sér kröfu um tafarlausa alþjóðlega rannsókn á árásinni í gær.

Virðulegi forseti. Stærsta verkefnið verður sem fyrr að leita leiða (Forseti hringir.) til að leiða til lykta flókna og grafalvarlega deilu.



[14:20]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Framsóknarflokkurinn telur að í utanríkismálum eigi mannréttindi að vera leiðarljósið. Við erum mjög stolt af því að geta staðið með meiri hluta utanríkismálanefndar að þessari ályktun. Árið 1989 tókst að ná svona samstöðu, þá voru allir flokkar sammála um að senda frá sér mjög sterka yfirlýsingu. Núna gerum við það aftur en missum reyndar einn flokk fyrir borð, því miður.

Þótt Gaza sé langt í burtu eigum við að taka afstöðu. Við eigum að sýna vilja okkar og við eigum að sýna hann í verki með því að álykta. Meiri hluti utanríkismálanefndar sendi gríðarlega sterk skilaboð. Það kemur fram í ályktuninni að við ræddum t.d. um að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Það er svolítið mikið sagt að viðurkenna það í texta. Ríkisstjórnin ræddi líka um slit á stjórnmálasambandi á sínum fundi. Niðurstaðan varð ekki sú að slíta stjórnmálasambandi. Hins vegar er sagt að það komi til álita þannig að það er alrangt sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði áðan um að við værum skuldbundin til að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Það er ekki rétt. Allir sem lesa ályktunina sjá annað. (Gripið fram í.)

Ég tek undir orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar áðan. Þessi ályktun skiptir máli. Það skiptir máli þegar þjóðþing í lýðræðisríki sendir frá sér sterk skilaboð. Ég vil nefna í því sambandi að árið 1990 hitti þáverandi forsætisráðherra Steingrímur Hermannsson Yasser Arafat í Túnis, fyrstur vestrænna forsætisráðherra. Sendiherra Ísraels mótmælti því. Jón Baldvin Hannibalsson varði Steingrím Hermannsson með því að vísa — í hvað? Jú, í ályktun Alþingis frá 1989. Svona ályktanir skipta máli. Þetta er ákall frá Alþingi til Ísraels um að nú sé nóg komið. Nú þarf að fara að laga málin, (Forseti hringir.) taka til, ná samstöðu og hætta á þeirri vegferð sem menn hafa verið á hingað til.



[14:22]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum skelfilegan atburð, árásina á alþjóðlegu skipalestina undan ströndum Gaza. Hún hefur hreyft við mörgum því að þarna sést að enginn er óhultur á þessu svæði. Í raun er þetta einn skelfilegur liður í skelfilegri atburðarás sem hefur varað allt frá því að Gaza var sett í herkví árið 2007. Sú herkví hefur núna varað í þrjú ár með hræðilegum afleiðingum, árásum Ísraelshers á íbúa í kringum áramótin 2008/2009 þar sem ráðist var á skóla, sjúkrahús, lögreglustöðvar, allt gert til að brjóta niður innviði samfélagsins í Gaza. Á sama tíma hefur herkvíin líka haft þau áhrif að stoppaður hefur verið allur innflutningur á svæðið þannig að íbúar á þessu svæði hafa ekki fengið að njóta sjálfsagðra hluta á borð við ljósaperur, kerti, eldspýtur, bækur, hljóðfæri og vaxliti, en fatnaður kom inn á dögunum í gegnum alþjóðlegar stofnanir, dýnur, rúmfatnaður, teppi, pasta, te, kaffi. Allt er þetta á bannlistanum sem ætlað er að brjóta niður fólk á Gaza-svæðinu, ekki bara með beinum árásum heldur líka með algerum skorti sem gerir það að verkum að nú treysta 80% heimila í Gaza á mataraðstoð frá hjálparsamtökum. Atvinnuleysið er 40%. Þriðjungur barna undir fimm ára aldri þjáist af blóðskorti samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Þau hafa ekki aðgang að vatni eða rafmagni. Þessari skelfilegu atburðarás verður að linna og því fagna ég þeirri umræðu sem hér á sér stað og ég lýsi yfir stuðningi við þá ályktun sem liggur frammi því að það er mál okkar Íslendinga að bregðast við á alþjóðavettvangi og sýna að þetta er ekki líðandi en hefur í raun liðist allt of lengi.



[14:24]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er umhugsunarvert að Ísraelsríki sem stofnað var 1948 og á uppruna sinn í hrikalegum afleiðingum helfararinnar og nasismans skuli nú vera fánaberi aðskilnaðarstefnu og mannfyrirlitningar í samskiptum og kúgun á palestínsku þjóðinni. Þetta er ekkert annað en fasismi og fasismi skal það heita, aðskilnaðarstefna af verstu tegund.

Ríki heims tóku sig saman um að berjast gegn aðskilnaðarstefnu Suður-Afríkustjórnar og það tókst að buga stjórnina og knýja menn til friðarumleitana í því landi. Nú hefur verið reynt um missirabil að knýja nýja ríkisstjórn Ísraels til friðarumleitana við Palestínumenn með því eina skilyrði að Ísraelsstjórn hætti landtöku. Ísraelsstjórn getur ekki fallist á það einfalda skilyrði. Ég er þeirrar skoðunar og ég held að Ísraelsstjórn vilji ekki frið. Hún vill ekki frið við Palestínumenn, hún vill kannski ekki tveggja ríkja lausnina þegar allt kemur til alls. Þess vegna þarf þessi atburður sem við ræðum hér og höfum ályktað um í hv. utanríkismálanefnd, atburður sem er reyndar bara einn af mörgum í langri sögu hernáms og átaka í Miðausturlöndum, að verða til þess að við íslensk stjórnvöld og Íslendingar tökum saman höndum í samvinnu við önnur lýðræðisríki um að beita stjórnvöld í Ísrael aðgerðum sem skila árangri. Um það snýst ályktun utanríkismálanefndar og það er verkefni hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) og stjórnvalda hér á landi.



[14:26]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er mjög skiljanlegt að þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í þessari umræðu sé mikið niðri fyrir og þeir fordæmi þá atburði sem áttu sér stað í gær fyrir botni Miðjarðarhafs. Það hljótum við öll að gera. Við hörmum það öll að þessir atburðir hafi átt sér stað og fordæmum þá harðlega. Í því felst mjög ákveðin afstaða.

Ljóst er að alþjóðasamfélaginu er líka mikið niðri fyrir vegna þeirra. Það má sjá af ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og yfirlýsingum leiðtoga Evrópusambandsins og fjölmargra ríkja, svo sem Rússa, Spánverja, Grikkja og Dana. Frændur okkar Svíar eru eðlilega í sárum vegna málsins.

Þótt sá atburður sem við ræðum um sé hræðilegur er hann því miður ekkert einsdæmi í samskiptum Ísraela og Palestínumanna. Þar hafa mörg ódæðisverk verið framin og á þeim bera báðir deiluaðilar ábyrgð, Hamas-samtökin eins og stjórnvöld í Ísrael. Ég hef sjálfur verið á þessu svæði og upplifað með hvaða hætti þessi vargöld fer með fólkið sem þarna býr. Á þessu ástandi verður að verða breyting og hún verður einungis með því að stofnuð verði tvö sjálfstæð ríki Ísraels og Palestínu.

Fram hefur komið krafa á Íslandi um að Íslendingar slíti stjórnmálasambandi við Ísrael vegna þessara atburða. Ég sé ekki betur en að meiri hluti utanríkismálanefndar vilji ganga lengra í ályktunum sínum en öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gerði í nótt, ályktun sem Sjálfstæðisflokkurinn vildi gera að sinni. Ég tel að við verðum að fara mjög varlega í þeim efnum og er ég þó alls ekki að verja aðgerðir Ísraelsmanna. Í fyrsta lagi er mikið álitamál hvort slit stjórnmálasambands við Ísrael eða viðskiptaþvinganir mundu bæta stöðu þess fólks sem þar býr. Það gæti bitnað á þeim sem síst skyldi. Í annan stað þyrftu íslensk stjórnvöld í framhaldinu að íhuga stjórnmálasamband sitt við önnur ríki þar sem framin eru voðaverk og mannréttindabrot og í þriðja lagi er það svo að vilji íslensk stjórnvöld láta gott af sér leiða (Forseti hringir.) í friðarumleitunum og samskiptum Ísraela og Palestínumanna munu þau ekki ná neinum árangri með því að slíta samskiptum sínum við aðra þjóðina.

Virðulegi forseti. Við Íslendingar (Forseti hringir.) njótum af sögulegum ástæðum virðingar og velvilja í Ísrael. Þá stöðu eiga íslensk stjórnvöld að nýta til góðra verka og uppbyggingar.



[14:29]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í þingsályktun sem samþykkt var á þinginu 1988–1989 kemur fram, með leyfi forseta:

„Nauðsynlegt er að báðir aðilar sýni raunverulegan samkomulagsvilja og viðurkenni rétt hvor annars í samræmi við ályktun Sameinuðu þjóðanna …“

Og síðar:

„Alþingi leggur áherslu á að viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og tilverurétt Ísraelsríkis.“

Það er ansi langt síðan þessi ályktun var samþykkt af öllum flokkum og auðvitað dapurlegt að ekki skuli vera komið lengra í þessu eilífa stríði sem varað hefur í Mið-Austurlöndum eins lengi og við þekkjum öll vel.

Það er líka dapurlegt að við skulum ekki öll geta staðið saman og komið okkur upp úr þeim hjólförum sem þetta mál hefur því miður verið oft í á Íslandi, hjólförum hægri og vinstri, hjólförum þessum að við getum ekki staðið saman um að standa vörð um mannréttindi og að alþjóðalög séu virt. Nú þegar kommúnismi og frjálshyggja hafa bæði kvatt þennan heim ættum við að geta staðið saman að því að verja mannréttindi og fordæma mannréttindabrot og brot á alþjóðalögum eins og framin voru af Ísraelsher á Miðjarðarhafi í fyrradag.

Við framsóknarmenn höfum um langa tíð haft þá stefnu sem er stefna Íslands í öryggis- og varnarmálum og utanríkismálum. Hún hefur hvílt á tveimur meginstoðum, aðild að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfi við Bandaríkin og því að sameiginlegt gildismat ásamt hugsjónum lýðræðis og mannréttinda myndi hina þriðju stoð. Smáríki eins og Ísland eru mjög háð því og eiga allra ríkja helst hag sinn undir því að alþjóðalög séu virt og að þjóðir leysi deilumál sín friðsamlega. Eins eru það hagsmunir okkar, smáríkja, að stuðla að alþjóðlegri samvinnu til að mæta þeim ógnum sem virða hvorki landamæri né leikreglur alþjóðakerfisins.

Forustumenn Framsóknarflokksins hafa sýnt hugrekki á liðnum árum og áratugum í að heimsækja þetta svæði og leita lausna, tala við fólk, þá fyrstur manna Steingrímur Hermannsson. Við sýnum hugrekki hér í dag (Forseti hringir.) með því að samþykkja þessa tillögu og eigum að halda áfram á þeirri braut.



[14:31]
Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér ályktun utanríkismálanefndar í framhaldi af hroðalegri morðárás Ísraelsmanna á hjálparskip í fyrradag. Það er oft búið að ræða og fordæma ísraelsk stjórnvöld vegna framgöngu þeirra í málefnum Palestínu. Það er kominn tími til að stíga skrefinu lengra og grípa til róttækari aðgerða. Ísraelsríki er lýðræðisríki. Stjórnvöld í Ísrael eru kjörin af íbúum landsins. Það er kominn tími til að alþjóðasamfélagið láti íbúa Ísraelsríkis vita af því með afgerandi hætti að alþjóðasamfélagið líður ekki þessa framkomu lengur. Það er kominn tími til að barist verði fyrir alþjóðlegu viðskiptabanni á Ísraelsríki með sama hætti og gert var í Suður-Afríku. Það er kominn tími til að sett verði ferðabann á Ísraelsmenn. Það er kominn tími til að slitið verði á menningarsamskipti við Ísraelsríki á vettvangi íþrótta og á vettvangi t.d. Eurovision. Þannig og eingöngu þannig mun Ísraelsríki hugsanlega, þó ekki endilega, breyta stefnu sinni. Það mun ekki gera það með áframhaldandi fordæmingum og orðskrúði. Það hefur margsýnt sig og margoft verið reynt. Það er ekki hægt að halda áfram endalaust og rembast eins og rjúpan við staurinn og vonast eftir annarri niðurstöðu með sömu aðferðum. Því miður virðast málefnin fyrir botni Miðjarðarhafs vera óleysanleg. Þau er ekki hægt að leysa með gamalkunnum aðferðum. Það þarf að knýja á um breytt stjórnarfar og breytta háttsemi með öðrum hætti. Vonandi munum við í framhaldinu einnig sjá ísraelska stjórnmálamenn og ísraelska hershöfðingja dregna fyrir Alþjóðastríðsglæpadómstólinn í Haag og dæmda í ævilangt fangelsi.



[14:34]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Stundum er tilveran mótsagnakennd. Ráðist er á skipalest á leið með hjálpargögn til Gaza. Um borð eru 700 manns: Friðarsinnar, nóbelsverðlaunahafi, þingmenn, nokkrir eru drepnir, milli 10 og 20 manns. Einhverjir tugir slasast. Er verra að drepa nóbelsverðlaunahafa eða þingmann frá Evrópu en lítið barn í Gaza? Nei. Þar erum við komin að hinu mótsagnakennda í tilverunni.

Ég held að þessi svívirðilegi glæpur geti snúist upp í andhverfu sína og það er okkar hlutverk að snúa honum upp í andhverfu sína, í stórsókn fyrir mannréttindi á Vesturbakkanum, Gólanhæðunum og á Gaza-svæðinu.

Helmingi fleiri voru drepnir í upphafi síðasta árs í árásinni á Gaza en voru um borð í friðarskipunum. En þeir sem þar áttu hlut að máli og aðstandendur litlu barnanna eiga erfiðara um vik að koma sannleikanum á framfæri en fréttamennirnir og þingmennirnir sem voru um borð í skipinu. Þess vegna held ég að þrátt fyrir allt, þótt ég harmi dauðsföllin og slysfarirnar, að þessi atburður eigi eftir að verða til góðs vegna þess að nú verður ekki þagað lengur.

Ég vil færa hæstv. utanríkisráðherra þakkir fyrir viðbrögð hans við þeirri ályktun sem samþykkt var í utanríkismálanefnd Alþingis af hálfu meiri hlutans þar (Forseti hringir.) og ég vil fullvissa hv. þm. Einar K. Guðfinnsson um að það er styrkur fyrir ríkisstjórnina, það er styrkur (Forseti hringir.) fyrir utanríkisráðherrann að ganga til viðræðna við önnur ríki og aðrar þjóðir með þessa ályktun frá Alþingi Íslendinga.



[14:36]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er engin þjóð í öllum heiminum sem sætir jafnmikilli kúgun og Palestínumenn sæta í dag af hálfu Ísraela. Það er engin þjóð sem hefur sætt jafnlangvarandi kúgun, a.m.k. ekki síðustu 100 árin, og einmitt það ágæta fólk. Okkur ber skylda til þess að sýna því stuðning eins og við getum. Við höfum sjálf kvartað undan því á umliðnum missirum að við höfum fundið fyrir hrammi voldugra stjórþjóða.

Ég held að ályktun af þessu tagi skipti máli. Það skiptir máli þegar voldug þingnefnd í einu þinga lýðræðisríkjanna tekur til máls með þeim hætti sem meiri hluti utanríkismálanefndar gerði með ályktun sinni. Alveg eins og ég tek undir að það skipti máli þegar formaður Framsóknarflokksins á sínum tíma, Steingrímur Hermannsson, fór fyrstur vestrænna þjóðarleiðtoga eða forsætisráðherra til fundar við útlagastjórn PLO og hitt Arafat í Túnis fyrir réttum 20 árum. Það er vel við hæfi að á 20 ára afmæli þeirrar farar skuli utanríkisráðherra Íslands fara í föruneyti alþingismanna á Gaza, eins og ég hafði ákveðið a.m.k. fyrir mína parta.

Ég tel þess vegna að það skipti verulega miklu máli að við tökum með þessum hætti til orða. Hótun um stjórnmálaslit skiptir máli. Við þurfum hins vegar að skoða þetta mjög vel og af yfirveguðu máli og ekki láta tilfinningahita augnabliksins ráða niðurstöðu ákvarðana okkar. Við þurfum að gera það í samráði við aðrar þjóðir líka. Við þurfum, eins og áhersla er lögð á í ályktuninni, að meta í samvinnu við aðrar þjóðir hvaða úrræði eru best. Þess vegna hafna ég þeirri túlkun hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að í þessu felist fortakslaus skilyrðing um að stjórnmálasambandi verði slitið. Ég tel reyndar að önnur úrræði væru áhrifaríkari. Af því tvennu sem nefnt er í ályktuninni, viðskiptaþvinganir og slit stjórnmálasambands, tel ég að hið fyrra sé miklu áhrifaríkara, en við verðum líka að gera það með þeim hætti að það bitni ekki á þeim sem síst skyldi.

Svo vil ég að lokum þakka hv. þingmönnum fyrir málefnalega (Forseti hringir.) þátttöku í þessari umræðu. Mér þykir líka vænt um að Sjálfstæðisflokkurinn lýsti því fortakslaust yfir að hann styður frjálsa og fullvalda Palestínu. (Forseti hringir.)