138. löggjafarþing — 130. fundur
 1. júní 2010.
skilmálabreytingar veðtryggðra lánssamninga og kaupleigusamninga einstaklinga vegna bifreiðakaupa, 1. umræða.
stjfrv., 646. mál (greiðsluaðlögun bílalána). — Þskj. 1176.

[21:00]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um skilmálabreytingar verðtryggðra lánasamninga og kaupleigusamninga einstaklinga vegna kaupa á bifreið til einkanota. Þetta frumvarp á rætur að rekja til ákvörðunar sem tekin var í mars síðastliðnum um að leita eftir samkomulagi við eignarleigufyrirtæki um umbreytingu bílalána í eðlilegra horf í ljósi þess hversu mjög gengistryggð bílalán höfðu hækkað umfram upphaflegar forsendur og umfram verðþróun bifreiða. Lagt var upp með samningaviðræður við eignarleigufyrirtækin. Við áttum í löngum viðræðum við þau en ekki var samstaða um að ljúka málinu með samkomulagi á þeim tíma. Hitt var hins vegar ljóst að fyrirtækin höfðu skilning á stöðunni en þau voru í misjafnri aðstöðu til að takast á við vandann. Það er auðvitað hlutverk löggjafans að skipa málum með almennri löggjöf ef sammæli geta ekki orðið með einföldum hætti um annað á markaði. Frumvarpið er lagt fram til að tryggja rétt skuldara gengistryggðra bílalána til að umbreyta lánunum í það horf sem þau væru í ef þau hefðu verið verðtryggð frá upphafi.

Það er mikilvægt að hafa það hugfast að hér er ekki verið að gefa neinum neitt. Hér er verið að gefa fólki, sem þurfti að þola mikla hækkun lána langt umfram verðþróun bílanna sem liggja að baki veðinu, færi á að snúa lánunum í annan vel þekktan farveg, sem er ferli verðtryggðra lána sem mikil reynsla er af.

Eftir hrunið í október 2008 breyttust efnahagslegar aðstæður verulega. Stórfelld aukning skulda samfara mikilli lækkun eignaverðs veldur því að engar líkur eru á að efnahagslegar forsendur séu fyrir því að allar kröfur á einstaklinga í landinu endurheimtist. Geta samfélagsins til verðmætasköpunar stendur með öðrum orðum ekki undir endurgreiðslu allrar skuldabyrði þjóðarbúsins.

Láns- og kaupleigusamningar sem gerðir eru við einstaklinga vegna kaupa á bifreið til einkanota fela í sér meiri áhættu en lán vegna fasteignakaupa. Þrátt fyrir þetta var það svo fyrir hrunið í október 2008 að samningar við einstaklinga um lán eða kaupleigu voru oft gerðir án þess að fram færi sérstakt mat á greiðslufærni viðkomandi. Samningarnir voru oft afgreiddir á tiltölulega skömmum tíma, jafnvel þótt um dýrar bifreiðar væri að ræða.

Á borði mínu er eitt hörmulegt mál af þessum toga, 18 ára piltur sem tók lán til að kaupa dýra BMW-bifreið með 100% láni frá eignarleigufyrirtæki. Drengurinn hafði aldrei tekjur til að standa undir afborgunum af láninu. Það má auðvitað spyrja sig: Hvað var hann að hugsa? Það má gera ríkar kröfur til hans eftir að hafa tekist á hendur slíkar óraunhæfar skuldbindingar. En það er fjarri mínum skilningi á réttlæti að sá sem veitti lánið beri enga ábyrgð í þessu máli. Og sá sem tók þá ákvörðun að lána 18 ára unglingi fyrir rándýrri bifreið án þess að kanna yfir höfuð hvort viðkomandi hefði vinnu hvað þá annað. Það er ekki í samræmi við minn réttlætisskilning að fyrirtæki sem þannig gengur fram geti átt siðferðilega eða lagalega kröfu á aflahæfi hins unga manns án nokkurra takmarkana. Það hlýtur að vera ábyrgð beggja, bæði þess sem tók lánið og þess sem veitti það.

Markmið frumvarpsins er ekki að létta raunverulegri áhættu af þeim sem tóku lán. Þeir sem tóku lánin verða aldrei betur settir en ef þeir hefðu tekið verðtryggð lán í upphafi. Við vitum öll að þar bjóðast engin stórkostleg kostakjör. Það eina sem við hemjum er hversu miklar væntingar viðsemjandinn getur gert sér. Í rauninni er ávinningur lánafyrirtækja eins og sérstakur happdrættisvinningur í kjölfar hins mikla gengishruns sem varð, langt umfram það sem nokkur efnisleg rök mæla fyrir.

Það er líka rétt að hafa í huga að fyrirtæki sem hafa lánað til íbúðarhúsnæðis sem á að standa í áratugi eða árhundruð hafa fallist á að hemja væntingar sínar um endurheimtur og umbreytt lán. Þau miða gjarnan við 80-110% af verðmæti eigna eftir greiðslugetu. Um er að ræða trygg veð sem eiga að standa næstu áratugina eða árhundruðin. Því eru engin rök fyrir því að lán sem veitt eru með veði í eins ótryggri eign og bílar eru, eigi að setja skör ofar.

Virðulegi forseti. Það er ljóst af úttekt Seðlabanka Íslands á skuldastöðu heimilanna að mjög stór hluti af heimilum sem teljast í vanda, eru með skuldir vegna bílakaupa. Greining Seðlabanka Íslands sýnir að engin ein aðgerð sem hægt er að grípa til fækki í hópnum sem ella þarf flókin og kostnaðarsöm úrræði til þess að leysa úr skuldavandanum eins og það að taka á óeðlilegri hækkun gengistryggðra bílalána.

Virðulegi forseti. Eins og ég rakti hér áðan er ekki verið að gefa neinum neitt. Mikilvægir almannahagsmunir krefjast þess. Það er jafnframt þjóðhagslega nauðsynlegt og skynsamlegt að grípa til aðgerða sem þessara. Það er rétt að hafa í huga að með þessari aðgerð er ekki gengið gegn eignarrétti kröfuhafa. Aðferðafræðin í frumvarpinu felur í sér að kröfuhafi fær endurgjald í samræmi við þau verðtryggðu lánskjör sem hann bauð skuldurum upphaflega á viðskiptalegum forsendum. Einungis er verið að takmarka óeðlilegan ávinning kröfuhafa af gríðarlegri hækkun gengistryggðra lána. Um leið færist hann nær endurgjaldinu sem er alþekkt á Íslandi og mikil reynsla er af. Fyrir kröfuhafa er þetta fullkomlega ásættanlegt og fullnægjandi endurgjald í samræmi við verðtryggðan reikning lánsins.

Það ber líka að hafa í huga þau mýmörgu fordæmi í íslenskri löggjöf um íhlutun löggjafarvalds og stjórnvalda í vaxta- og verðtryggingarskilmálum. Hámark hefur verið sett á vexti og ávöxtun verðtryggðra lána og verðtryggingarvísitölu hefur oft verið breytt.

Í greinargerð með frumvarpinu eru rakin ítarlega önnur dæmi sem styðja þá lagalegu röksemdafærslu að hér sé ekki á nokkurn hátt vegið gegn réttindum kröfuhafa. Það verður líka að hafa í huga að réttindi kröfuhafa eru ekki gefin stærð í efnahagsástandi sem þessu. Það hlýtur að hvíla sú skylda á hverjum kröfuhafa sem telur að sér vegið með þessum umbreytingum, að rökstyðja það að hann geti innheimt allan þann skuldastabba sem hann bókfærði sem eign. Ég held, virðulegi forseti, að það sé óvinnandi vegur fyrir nokkurt eignarleigufyrirtæki í dag, í ljósi stöðu lána og ástands í samfélaginu, að sýna fram á að lánin séu hverrar þeirrar krónu virði sem er færð í bókhald viðkomandi fyrirtækja.

Virðulegi forseti. Að síðustu er í frumvarpinu gert ráð fyrir ýmsum úrræðum til þess að styðja þá sem varlega fóru í skuldsetningu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hámark niðurfellingar verði 3.000.000 kr. sem nýtist best þeim sem fóru varlegast í skuldsetningu. Í frumvarpinu er líka að finna ákvæði sem ætlað er að styðja friðhelgi heimilis skuldara. Í frumvarpinu eru ákvæði sem tryggja rétt lántaka til að nota fullt söluverð bifreiðar til frádráttar frá eftirstæðri skuld og rétt skuldara til að ljúka greiðslu eftirstæðra skulda með greiðslu helmings eftirstöðva án vaxta eða verðbóta. Það verði með öðrum orðum hægt að greiða upp eftirstæðar kröfur, krónu á móti krónu. Auk þess að eftirstæðar kröfur taki ekki vexti eða verðtryggingu eftir að gengið hefur verið að bíl vegna vanskila skuldara.

Þetta fyrirkomulag á sér fyrirmynd í reglugerð sem ég hef nýlega sett og er um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu. Hún byggir á reglu frá 2003 um sama efni sem hefur gefist afskaplega vel.

Að síðustu er kveðið á í frumvarpinu um bann við að lánveitandi geti leitað fullnustu vegna eftirstöðva skuldbindinga vegna bílalána í íbúðarhúsnæði lántaka. Frumvarpinu og öllum reglunum er ætlað að verja húsnæðisöryggi fjölskyldna og skapa endurheimtumöguleikum kröfuhafa eðlilega umgjörð og ramma. Við viljum styðja og standa vörð um rétt kröfuhafa til sanngjarns endurgjalds. Hann er verndaður eins og aðrar eignir í 72. gr. stjórnarskrár. Við hliðina á þeirri grein er í 71. gr. stjórnarskrárinnar mælt fyrir um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Það er fullkomlega eðlilegt að verndarhagsmunirnir, sem þessar tvær greinar taka til, vegist á við aðstæður eins og þær sem við lifum nú. Þessu frumvarpi er ætlað að skera á þennan hnút og skapa eðlilegt jafnvægi í þessum erfiðu málum.

Að lokum legg ég til að málinu verði vísað til nefndar að lokinni þessari umræðu.

Ég hef heyrt af áhuga efnahags- og skattanefndar að fá málið til umfjöllunar. Það er í sjálfu sér úrlausnarefni á vettvangi þingsins hvernig málum er vísað til nefnda. Ég geri ekki athugasemdir ef það er vilji þingsins að málið fari til efnahags- og skattanefndar og verði afgreitt þar.



[21:13]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni merkt frumvarp. Það er ljóst að skuldavandi heimilanna er gríðarlegur. Frá því ég steig fæti inn í þessa stofnun í fyrsta skipti hef ég barist fyrir því að felldar verði niður einhverjar skuldir heimilanna til þess að gera þeim lífið léttara, hvort sem það eru húsnæðisskuldir eða aðrar skuldir í kjölfar þess forsendubrests sem varð hér haustið 2008. Ég ætla ekki að spyrja út í nauðsyn laganna sem hér eru lögð til, heldur annað.

Það er ljóst að einhvers staðar frá kemur fjármagnið vegna þess að eignarleigufyrirtækin voru flest öll fjármögnuð í erlendri mynt. Það var ekki eins og þau fjármögnuðu þetta með eigin fé þannig að gengisfallið varð ekki að hagnaði hjá þeim. Það er ljóst að þessi þrjú eða fjögur eignarleigufyrirtæki sem um ræðir þurfa að taka á sig skell sem nemur einhverjum milljörðum.

Þess vegna langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort það liggi fyrir mat á því hvað þessi skellur gæti orðið stór fyrir eignarleigufyrirtækin. Síðan verður mér óneitanlega hugsað til eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar, hvort það geti verið að brotið sé ákvæði á þessum eignarleigufyrirtækjum. Lítill fugl hvíslaði því að mér að ríkislögmaður hefði gefið álit á mögulegri skaðabótaskyldu vegna málsins og mig langar til að spyrja hvort hæstv. ráðherra gæti aðeins frætt okkur um það.



[21:15]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að svara þessum spurningum í stuttu andsvari þó að yfirgripsmiklar séu.

Fyrir það fyrsta er auðvitað ljóst að fyrirtækin eru misjafnlega í stakk búin til að bera þetta. Eitt fyrirtæki ber þetta að fullu og öllu leyti og hefur þegar ákveðið að gera svo, þ.e. SP-Fjármögnun. Íslandsbanki hefur lýst því yfir að sú stofnun sé tilbúin til að hrinda þessu í framkvæmd en vilji bíða eftir því að lögin fari í gegn. Sama viðhorf heyrir maður frá hinum fyrirtækjunum, þau vilja fá að sjá lögin fara í gegn áður en þau grípa til aðgerða gagnvart viðskiptavinum sínum. Sú staðreynd að sum fyrirtækjanna ráða við þetta veldur því að vangeta annarra er ekki félagslegt vandamál heldur úrlausnarefni kröfuhafanna sem eiga kröfur á hendur þeim fyrirtækjum. Þeir verða að leggja fyrirtækjunum til meira fé til að standa skil á umbreytingunni eða draga úr endurheimtuvæntingum sínum. Ég hef fulla trú á því að þeir geri það, enda er í öllum tilvikum um að ræða kröfuhafa sem þekkja afskaplega vel til aðstæðna í íslensku samfélagi og hafa verið að mæta skuldurum sem kröfuhafar í bankana og gera ráð fyrir umbreytingum skulda þar.

Varðandi álit ríkislögmanns frá því fyrir einu og hálfu ári síðan um almenna umbreytingu allra myntkörfulána, þá segir í því áliti að í slíkri breytingu mundu auðvitað felast hættur gagnvart stjórnarskránni en aðalatriðið væri að rökstyðja þyrfti slíkar umbreytingar vel. Það teljum við okkur hafa gert í þessu frumvarpi.



[21:17]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka greinargott svar og í mínum huga er það fullnægjandi. Það er alveg ljóst að sum eða öll þessi eignarleigufyrirtæki eru fjármögnuð af fjármálastofnunum sem fengu yfirfærslu á lánum úr gömlu bönkunum á mikilli niðurskrift, þannig að þarna eru innbyggðar einhvers konar afskriftir sem verið er að leiða út til þeirra sem tóku þessi ógæfulán, myntkörfulán.

Það gleður mig að hæstv. ráðherra skuli vísa þessu máli til efnahags- og skattanefndar vegna þess að ég á sæti þar og ég heiti því að ég mun vinna eins vel og ég get að því að málið komist fljótt og vel í gegn, en auðvitað með þeim fyrirvara að ég hef ekki kynnt mér algjörlega smáatriðin vegna þess að við vorum að fá þetta í hendurnar fyrir nokkrum klukkutímum.



[21:19]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni góð orð um frumvarpið og stuðning við það. Auðvitað er það nefndarinnar að reyna að finna á því kost og löst og kannski getum við gert eitthvað betur.

Vegna þess að ég náði ekki í fyrra andsvari að ljúka algerlega við það sem varðar hina stjórnskipulegu þætti málsins og álit ríkislögmanns frá því fyrir einu og hálfu ári síðan sem sent var þáverandi viðskiptaráðherra, vildi ég undirstrika að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram mjög ítarlegur lögfræðilegur rökstuðningur fyrir því af hverju þessi aðgerð stenst stjórnarskrána. Það byggir auðvitað á því í fyrsta lagi að fyrir því eru mýmörg dæmi í íslenskri réttarsögu að sett hafi verið hámörk á vexti, verðtryggingu eða endurgjald af kröfum. Það eru líka jafnvel dæmi um að Hæstiréttur hafi talið afturvirkar skattlagningar mögulegar, í stóreignaskattsmálunum á 6. áratugnum þar sem þær voru taldar óumflýjanlegar til að verja fjármálakerfi landsins. Í réttarsögu okkar eru mýmörg dæmi um að stjórnvöld grípi til aðgerða til að draga úr óeðlilegum ávinningi. Ekki þarf að nefna annað en það að við höfðum í löggjöf ríkisákvarðanir um hámarksvexti og bann við okurvöxtum áratugum saman. Það er því löngu athugasemdalaus venja og hefð fyrir því í íslenskum rétti að hægt sé að setja hámark á vexti og afgjald af peningum og þó að eignarrétturinn sé friðhelgur er annað verndarandlag við hliðina sem eru heimilin, friðhelgi og réttur heimila til einkalífs.



[21:21]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í umræðu um 7. málið á dagskránni hélt ég smá ræðustúf um hraðann, þar var málið þannig að ég hafði ekki náð því að lesa það og það má segja um þetta mál líka. Ég ætla því ekkert að endurtaka það heldur vísa bara í þá ræðu. Þetta er ekki nógu sniðugt, ég hefði gjarnan viljað ræða þetta mál af dálítið meira viti en ég geri hér. Mér sýnist þó að meginbreytingin felist í 2. gr., um skilamálabreytingu, þar sem tekin er staða lánsins núna. Ég veit ekki hvernig á að fara með vanskil og annað slíkt, það er ekki gert ráð fyrir því eða ekki talað um það, ég hef a.m.k. ekki séð það. Það getur vel verið að það sé einhvers staðar. Staðan er tekin núna og þær eftirstöðvar sem eftir eru eru reiknaðar niður til þess dags sem lánið var tekið og síðan er framreiknað aftur til baka með verðtryggingu og 15% álagi sem er svona skiptiálag. Þetta þýðir það að fólk er búið að borga í eitt, tvö, þrjú eða fjögur ár gengistryggða hlutann og þá umtalsvert mikið. Ég lagði til fyrir nokkru að farin yrði sú leið að allt lánið yrði reiknað til baka miðað við lántökudag og síðan yrði sett þetta skiptigjald sem ég var reyndar með bæði í krónutölu, kannski milljón krónur, og kannski einhverja prósentu og svo yrði það reiknað fram til dagsins í dag og áfram eins og verðtryggt lán og allar greiðslur inn á það sem hefðu verið greiddar yrðu teknar sem verðtryggt lán. Þetta kemur dálítið öðruvísi út og ég hugsa að hv. efnahags- og skattanefnd muni kanna þessar mismunandi leiðir.

Það er ljóst að fólk er búið að borga mjög mikið af þessum lánum og það sem er kannski verra og hefur lítið verið rætt í umræðunni er það að fyrirtækin sem veita þessi lán hafa með eða án heimildar hækkað vexti umtalsvert. Ég hef séð bílalán þar sem lánið var tekið á 4% vöxtum, ef ég man rétt, en var komið upp í 7–8% þegar verst lét ofan á jen og franka sem er náttúrulega óheyrilegt. En það hefur væntanlega verið gert með þeim rökum að viðkomandi fyrirtæki væri með slæmt lánshæfismat í útlöndum og fengi bara ekki lán og þyrfti því að sætta sig við mjög háa vexti. En ég vil benda á það að á innstæðureikningi í bönkunum eru 200 milljarðar í erlendri mynt sem bera nánast enga vexti. Ég held að það séu um 1–2% innlánsvextir á þeim reikningi. Þarna er því kominn óskaplega mikill vaxtamunur í sama landinu að innlánsvextir eru mjög lágir og útlánsvextir eru orðnir geysilega háir.

Þetta er svona meginmálið. En varðandi það hvort fyrirtækin sem eiga þessar kröfur tapi þá er ljóst, ef við lítum á skuldir á Íslandi með evruaugum eða einhverju slíku, að allar innstæður og annað slíkt hafa lækkað umtalsvert fyrir fjármagnseigendur sem höfðu sitt ekki á þurru — það er alltaf talað um að þeir hafi allt sitt á þurru — og töpuðu öllu sínu eins og hlutabréfaeigendur, stofnfjáreigendur og þeir sem áttu kröfur sem lækkuðu mikið í séreignarsjóðum og slíku. Skuldirnar hafa þá lækkað líka í erlendri mynt nema þær sem eru gengistryggðar, þær hafa haldið sínu. Og ef þeir aðilar sem áttu þessar kröfur eru erlendir og líta á þetta þeim augum hafa kröfurnar ekkert hækkað, en í augum Íslendinga með íslenskar krónur hafa þær náttúrlega hækkað stórlega og jafnvel tvöfaldast og það er sá vandi sem við glímum við. Þegar þessar kröfur voru færðar, alla vega hjá bönkunum, yfir til nýju bankanna voru þær fluttar með afskriftasjóði af því að menn reiknuðu með því að tapa töluverðum hluta af þessum kröfum og það er væntanlega sá afskriftasjóður sem menn ætla að nota í þessar afskriftir. Ég tel mjög brýnt að þessi vandi verði leystur þannig að ekki lendi allt of margir í vandræðum, því að það er engum hagur í því, hvorki lánveitendum né lántakendum, að menn lendi í uppboðum og öðru slíku sem er alltaf slæmt, það er alltaf langbest að menn geti borgað. Ég held þess vegna að þau úrræði sem menn hafa gripið til hingað til séu ágæt og þetta úrræði hér líka. Ég bendi á að menn eru búnir að borga bæði hækkandi vexti og af mjög hækkandi láni og það er ekki fyrr en nú sem skipt er yfir í verðtryggt sem sumum þykir slæmt líka. En ég benti á í ræðu rétt áðan, í síðasta máli, að verðtryggingin hefði kannski bjargað heimilunum frá stórum gjaldþrotum miðað við það ef ekki hefði verið verðtrygging og kröfurnar hefðu verið óverðtryggðar og sú krafa verið gerð að vextir yrðu aldrei lægri en verðbólgan, því að það getur varla verið meiningin að þeir sem fresta neyslu, gæta hagsýni og sparsemi og eiga innstæður eigi að fara að tapa, að það sé einhver regla. Þeir sem krefjast afnáms verðtryggingar verða að horfast í augu við það að vextir gætu þá orðið gífurlega háir eins og ég nefndi áðan, 20% í 18% verðbólgu, sem mundi þýða það að mjög margir hefðu misst heimili sín í verðbólguskotinu sem varð. Það má því segja að verðtryggingin hafi bjargað fjölda heimila frá þeim örlögum.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og skattn.