138. löggjafarþing — 132. fundur
 7. júní 2010.
tjón ferðaþjónustunnar vegna hrossapestar.

[11:04]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um hugsanlegar aðgerðir vegna langvinnrar hóstapestar í íslenska hrossastofninum sem leitt hefur til þess að Landsmóti hestamanna sem vera átti í Skagafirði í sumar hefur verið frestað. Ekki hefur verið hægt að þjálfa hross og sýna í vor með tilheyrandi viðurkenningum á margra ára ræktunar- og tamningastarfi. Það liggur því ljóst fyrir að tjónið fyrir hrossabændur er gífurlegt. Þá eru stéttir fólks sem vinna við tamningar, járningar, reiðkennslu og fleira orðnar fjölmennar og atvinnuöryggi þeirra í verulegu uppnámi vegna pestarinnar.

Landsmót hestamanna eru orðin afar metnaðarfullur atburður faglega og þjónustulega. Þau sækja um 15 þúsund manns, þar af er a.m.k. fjórðungur erlendir ferðamenn sem koma til landsins eingöngu til að njóta íslenska hestsins með því að fylgjast með honum í keppni. Þeir fara síðan gjarnan í ferðir á hestum um landið og enda svo ferðina ekki sjaldan á því að sækja hrossabændur heim til að kaupa sér gæðing eða ræktunargrip.

Í Skagafirði hefur verið undirbúið mótssvæði til að taka við þessum fjölda með tilheyrandi kostnaði og skagfirskir, húnvetnskir og eyfirskir ferðaþjónustuaðilar hafa lagt mikið í sölurnar til að undirbúa sem best komu íslenskra og erlendra hrossaunnenda. Ljóst er að tjón allra þessara aðila er verulegt og eðlilegt að stjórnvöld komi að þessum náttúruhamförum hestamennskunnar á Íslandi með einhverjum hætti. Mig langar því til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort slík aðstoð hafi verið rædd á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Það er ljóst að nokkur ráðuneyti koma að þessu málaflokki. Mennta- og menningarmálaráðuneytið fer með íþróttahlið hestamennskunnar, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið með ræktunarhliðina, iðnaðarráðuneytið með ferðaþjónustuliðinn, utanríkisráðuneytið tengist málinu auðvitað líka og fjármálaráðuneytið heldur svo um budduna.



[11:06]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta mál er ekki komið inn á mitt borð enn þá með beinum hætti en að sjálfsögðu fylgist ég eins og aðrir með því sem þarna er að gerast. Þetta var mikið áfall þegar ljóst varð að fresta yrði í ár Landsmóti hestamanna sem er stór atburður. Það veldur okkur að sjálfsögðu búsifjum. Það veldur mörgum tjóni sem lagt höfðu beint í kostnað og síðan heilmiklum óbeinum áhrifum sem auðvitað er erfitt að meta en snerta marga.

Segja má að það séu ýmsar búsifjarnar af þessu tagi sem á okkur lenda til viðbótar þeim erfiðleikum sem fyrir voru, svo sem eins og sýking í íslensku síldinni, eldgos og núna pest í hestum. Ekkert af þessu fáum við ráðið við og við verðum að takast á við það.

Ljóst er að málið varðar nokkur ráðuneyti. Það má segja að það sé sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, og ég veit til þess að það ráðuneyti mun skila greinargerð eða minnisblaði um þetta á næsta ríkisstjórnarfundi. Það er menntamálaráðuneytið sem fer með íþróttamál og iðnaðarráðuneytið fer með ferðamál. Tjónið sem um er að ræða má segja að sé annars vegar beint, þ.e. mótshaldarinn sjálfur og þeir sem beinlínis höfðu lagt í kostnað, sitja uppi með hann, og síðan er það umtalsvert óbeint tjón sem lendir á þeim sem notið hefðu góðs af mótshaldinu, ferðaþjónustuaðilar, flugfélög, þeir sem selja gistingu, veitingar, þjónustu o.s.frv. Ég vil ekki fara út í einhverjar yfirlýsingar um hvernig á þessu verður tekið. Það þarf að gera hér svipað og gert var í t.d. tilviki náttúruhamfaranna, að kortleggja málið og fá um það upplýsingar hvernig beint og óbeint tjón leggst á aðila. Að sjálfsögðu er rétt og skylt að funda með þeim og fara yfir það en það væri ábyrgðarlaust að gefa fyrir fram út einhver fyrirheit um að ríkið geti með beinum hætti komið að því að bæta þetta tjón, a.m.k. þá hluta þess sem er meira óbeint og erfitt er að áætla.



[11:08]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mig langar til að ítreka að það er ekki bara landsmótið sem málið snýst um, hér er að verða gífurlegt tjón fyrir hrossaræktendur og fyrir alla þá aðila sem hafa atvinnu af hestamennsku. Ég legg mikla áherslu á það og vona svo sannarlega að ríkisstjórnin skoði þetta mál, því að tjónið er umtalsvert fyrir stóra atvinnugrein sem skiptir okkur miklu máli og ekki síst hvað varðar ferðaþjónustu sem er okkur afar mikilvæg.



[11:09]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að öllum er ljóst að hér er um að ræða tilfinnanlegt tjón sem hleypur á verulegum fjárhæðum einfaldlega vegna þess að þetta er mjög stór atburður. Lagt er í heilmikinn kostnað til undirbúnings mótshaldinu og síðan er náttúrlega ekki sýnt hvernig mönnum gengur að selja í það gistirými sem hafði verið bókað og tekið frá fyrir mótshaldið og þar fram eftir götunum.

Hins vegar er það því miður þannig að fjölmargir aðilar hafa orðið fyrir tjóni af margvíslegu tagi sem er sýnilegt og sannanlegt en það er hægara um að tala en úr að ráða að bæta það með beinum hætti og hvernig ríkið dregur mörkin í þeim efnum þegar svona aðstæður koma upp er einnig mjög vandasamt. Þá þarf að horfa til jafnræðis gagnvart öðrum aðilum sem af ýmsum mismunandi ástæðum hafa orðið fyrir tjóni vegna atburða sem hér hafa orðið síðastliðin tvö ár o.s.frv. En það er rétt og skylt og sjálfsagt að fara yfir málið, ræða það við þá sem í hlut eiga og það mun ekki standa á okkur að gera það.